Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-65

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 19. apríl 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars 2024 í máli nr. 205/2023: Ákæruvaldið gegn X. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 25. mars 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir blygðunarsemisbrot með því að hafa aflað og dreift til tveggja nafngreindra kvenna nektarmynd af þáverandi eiginmanni sínum, A, sem sýndi getnaðarlim hans, ásamt tveimur nektarmyndum af B, sem sýndu brjóst hennar, án samþykkis þeirra. Í ákæru voru brotin talin varða við 199. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 209. gr. sömu laga. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda og taldi ekki sannað að háttsemin hefði verið af kynferðislegum toga og lostug í skilningi 209. gr. laganna. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelld en hinn áfrýjaði dómur ómerktur að því er varðar einkaréttarkröfur A og B og þeim hluta málsins vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

4. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Því verði hvergi fundinn staður í henni að hvatir að baki verknaði skipti engu máli, sbr. meðal annars það sem fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 312/2015. Leyfisbeiðandi telur að Landsréttur hafi ranglega skýrt hugtakið lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga með tilliti til hvata að baki verknaði. Leyfisbeiðandi telur að lagabreytingu hafi þurft til og bendir á að það hafi einnig verið mat Alþingis sem setti lög nr. 8/2021 gagngert í því skyni að fella niður skilyrði um lostugt athæfi en atvik þessa máls hafi átt sér stað fyrir gildistöku þeirra. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar fara í bága við 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segi að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð á þeim tíma þegar hún átti sér stað.

5. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk leyfisbeiðanda, sem sýknaður er af ákæru í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu verður beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt.