Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Þriðjudaginn 26. febrúar 2008.

Nr. 112/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt föstudagsins 7. mars 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðahaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Verður fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                     Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2008.

         Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars 2008 kl. 16:00.

Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður skemmri tími.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í kröfu lögreglustjórans kemur meðal annars fram að lögreglan á Suðurnesjum og ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á 4,6 kg af amfetamíni og 600 g af kókaíni. Þessi fíkniefni hafi fundist við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningsfyrirtækisins Z á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Áður hafi lögreglunni borist upplýsingar um að starfsmaður Z, kærði í máli þessu, hafi séð um að halda ákveðinni leið opinni fyrir innflutning fíkniefna. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að þessi innflutningsleið hafi verið notuð áður og jafnframt að fyrirhugað hafi verið að nota hana áfram.  Vegna rannsóknar málsins hafi lögreglan handtekið fjölda manns og fjórir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.  Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað alfarið að vera viðriðinn innflutning á fíkniefnum. Mikið misræmi sé hins vegar í framburði hinna handteknu en þó hafi tveir hinna handteknu skýrt frá sínu hlutverki og segja að kærði hafi átt stóran þátt í innflutningi fíkniefnanna. Lögreglan telji að rökstuddur grunur sé fyrir því að sömu verknaðaraðferðum hafi margsinnis verið beitt áður og þannig hafi töluvert magn fíkniefna verið flutt inn til landsins undanfarið. Í því skyni að rannsaka það séu lögreglumenn nú staddir erlendis til að afla gagna.

Rannsókn málsins miði áfram og hafi lögreglan unnið að því að skoða tölvubúnað sem haldlagður hafi verið í málinu með það að markmiði að finna samskipti milli hinna kærðu. Mikil vinna hafi verið lögð í úrvinnslu banka- og símagagna sem lögreglan hafi aflað og standi enn yfir rannsókn á þeim þætti málsins. Þá sé lögreglan að afla gagna erlendis eins og áður sagði og sé þeirri rannsókn ekki að fullu lokið. Það magn fíkniefna sem fundist hafi bendi til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Háttsemi ákærða kunni því að varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögreglan telur að nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi enda sé ljóst að hann geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Því þyki brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins.

Fyrr í dag var tekin dómskýrsla af kærða að beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum með vísan til b liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991. Í skýrslutökunni kom meðal annars fram að meintur samverkamaður kærða, A, hefur játað innflutning á fíkniefnum í samvinnu við kærða. Kærði neitaði hins vegar staðfastlega sakargiftum í skýrslu sinni hér fyrir dómi.

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil og meðal annars þurft að afla upplýsinga erlendis frá. Rannsókn stendur meðal annars yfir á tölvu- og bankagögnum. Miðað við umfang málsins verður talið að skilyrði a liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu fyrir hendi og verður kærða því gert að sæta áfarmhaldandi gæsluvarðhaldi. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er framsett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars 2008 kl. 16:00.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 7. mars 2008.