Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2003
Lykilorð
- Lögbann
|
|
Fimmtudaginn 9. október 2003. |
|
Nr. 118/2003. |
Skógræktarfélag Rangæinga(Ólafur Haraldsson hrl.) gegn Veiðifélagi Eystri-Rangár (Skúli Pálsson hrl.) |
Lögbanni hafnað.
Samkvæmt arðskrá fyrir Eystri-Rangá áttu K og fimm aðrar jarðir sameiginlega tiltekinn hluta arðs vegna veiðihlunninda í ánni. Deilur höfðu staðið um innbyrðis skiptingu arðsins. Á aðalfundi V var ákveðið að úthluta öllum arðinum til fyrrgreindra fimm jarða og jafnframt skuldbundu eigendur jarðanna sig til að greiða hlut K, ef síðar kæmi í ljós að hún ætti rétt til hluta greiðslunnar. S, eigandi K, fékk lagt lögbann við útborgun arðsins. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið að þar sem arðskrá tiltæki ekki innbyrðis skiptingu milli jarðanna sex, stæðu ákvæði laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970 því ekki í vegi að V úthlutaði arðinum með þeim hætti sem það gerði, enda hefðu þeir sem greiðslurnar fengju heitið endurgreiðslu. Talið var að réttarreglur um skaðabætur vernduðu hagsmuni S nægjanlega og því þóttu ekki skilyrði til lögbannsins og var kröfum S hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2003 og krefst þess að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli lagði 22. nóvember 2002 við því að stefndi ráðstafaði arði til eigenda jarðanna Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markarskarðs í samræmi við samþykkt aðalfundar stefnda 17. nóvember sama ár. Ennfremur, að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að ráðstafa arði til eigenda nefndra jarða í samræmi við samþykktina. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Skógræktarfélag Rangæinga, greiði stefnda, Veiðifélagi Eystri-Rangár, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. mars 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 18. febrúar sl. er höfðað 3. desember 2002.
Stefnandi er Skógræktarfélag Rangæinga, Dalsbaka 6, Hvolsvelli.
Stefndi er Veiðifélag Eystri-Rangár, Dalsbakka 6, Hvolsvelli.
Stefnandi krefst þess að staðfest verði lögbann Sýslumannsins á Hvolsvelli 22. nóvember 2002 við því að stefndi ráðstafi arði til eigenda jarðanna Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs, í samræmi við samþykkt aðalfundar stefnda 17. nóvember 2002.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda sé óheimilt að ráðstafa arði til eigenda jarðanna Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs, allt í samræmi við samþykkt aðalfundar 17. nóvember 2002.
Stefnandi krefst og málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málsatvik.
Stefnandi er eigandi jarðarinnar Kotvallar í Rangárvallasýslu, en Kotvöllur hefur verið í Veiðifélagi Rangæinga frá stofnun þess árið 1960. Innan vébanda Veiðifélags Rangæinga starfa fimm félög og er stefndi eitt þessara félaga. Samkvæmt arðskrá fyrir Eystri-Rangá, sem samþykkt var af Landbúnaðarráðuneytinu 26. apríl 1999 ber Vallartorfu (jarðirnar Bakkavöllur, Markaskarð, Vallarhjáleiga, Völlur I og Völlur II) sem og jörðinni Kotvelli 1414 einingar. Vegna ágreinings um það með hvaða hætti skuli skipta arði innbyrðis milli jarðanna hefur stefndi ekki greitt út arð til jarðanna heldur lagt arðgreiðslur inn á sérstakan reikning í sínum vörslum og á sínu nafni og á arðurinn að koma til greiðslu þegar niðurstaða er komin í ágreining aðila. Aðalfundur stefnda samþykkti svofellda tillögu 17. nóvember 2002: ,,Aðalfundur beinir því til stjórnar Veiðifélags Eystri-Rangár að arður jarðanna Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs vegna veiðihlunninda verði tafarlaust greiddur. Rísi dómsmál vegna kröfu Kotvallar um veiðirétt og svo ólíklega vildi til að Kotvelli yrði dæmdur veiðiréttur í Eystri-Rangá, heita landeigendur í Vallartorfu og skuldbinda sig til að endurgreiða þann hlut sem Kotvelli yrði hugsanlega dæmdur”.
Stefnandi fékk lagt lögbann 22. nóvember 2002 við því að stefndi ráðstafaði arði í samræmi við ofangreinda samþykkt aðalfundar og er mál þetta höfðað til staðfestingar á þeirri lögbannsgerð.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveður að í ofangreindri tillögu aðalfundar stefnda felist að arði Kotvallar yrði skipt milli þeirra jarða sem getið sé í tillögunni. Niðurstaðan yrði því sú að enginn arður kæmi í hlut Kotvallar, þrátt fyrir að jarðarinnar sé getið í arðskrá. Heildarfjárhæð arðsins sé um sjö milljónir króna.
Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði komi fram að arðskrá sem sett skuli á fundi sem boðað skuli til með sama hætti og stofnfundar, skuli vera grundvöllur úthlutunar arðs af veiði til félagsmanna. Í 9. gr. samþykkta Veiðifélags Rangæinga og 8. gr. samþykkta Veiðifélags Eystri-Rangár segi jafnframt að arði af veiði skuli skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Með því að greiða út arðinn með þeim hætti að undanskilja Kotvöll, þrátt fyrir að jarðarinnar sé getið í arðskrá, sé brotið gegn ofangreindum ákvæðum lax- og silungsveiðilaga og samþykkta stefnda. Með því væri gróflega brotið gegn hagsmunum stefnanda og sé slíkt að auki refsivert samkvæmt i- og j-lið 1. mgr. 104. gr. lax- og silungsveiðilaga.
Verði arðurinn greiddur með þeim hætti sem tillagan kveði á um yrði fullnusta þess arðs sem Kotvellir eigi rétt til, mun örðugri. Stefnandi telji því ljóst að greiðsla arðsins samkvæmt samþykkt aðalfundar brjóti gegn lögvörðum rétti hans og að hætta sé á að réttindi hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 séu þannig uppfyllt. Þá telji stefnandi útilokað að hann geti tryggt hagsmuni sína með öðrum hætti og þannig standi ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 ekki í vegi fyrir því að kröfur hans nái fram að ganga.
Stefnandi vísar til laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, einkum 50. gr. laganna og kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu sína um staðfestingu kyrrsetningargerðar styður stefnandi við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveður að ekki verði séð að sýslumaður hafi gætt nægjanlega að 9. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 27. gr. sömu laga. Hann hafi ekki leiðbeint ólöglærðum talsmanni gerðarþola um hvernig hann gæti brugðist við gerðinni, m.a. hafi hann ekki vakið athygli talsmannsins á því að hann gæti leyst sig undan gerðinni með tryggingu, sbr. 28. gr. laganna.
Þá sé ljóst að telja verði reglur skaðabótaréttar tryggja nægjanlega hagsmuni gerðarbeiðanda. Því hefði ekki átt að leggja á lögbann, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Það sem áður greinir um leiðbeiningaskyldu sýslumanns eigi ekki síst við um þetta atriði. Leiðbeina hefði átt talsmanni gerðarþola um að hann gæti sett fram kröfu um að leysa sig undan lögbanni með því að setja tryggingu.
Ljóst sé að lögbannsgerðin gangi allt of langt, þar sem hagsmunir stefnanda séu ekki nema brot af þeirri fjárhæð sem bundin sé með lögbannsgerðinni, en hún nemi nú nálægt 10 milljónum króna. Eins og fram komi í arðskrá fyrir hið stefnda félag komi 1414 einingar óskipt í hlut Vallartorfu annars vegar og Kotvallar hins vegar. Ekki sé eining um hvernig eigi að skipta fjárhæðinni milli þessara aðila. Það sé ljóst eftir meginreglum um sameign, að sé ekki getið um skiptingu skuli skipt jafnt milli aðila og megi ætla að rétt væri að skipta þessari fjárhæð í 6 hluta þar sem jarðirnar sem arðinn eigi að fá séu 6 talsins. Það sé með öllu ljóst að stefnandi geti aldrei átt tilkall til meira en helmings, sé litið svo á að Vallartorfa sé annar aðilinn og Kotvöllur hinn aðilinn og jafnvel ekki til meira en 1/6 hlutar og gangi því lögbannið allt of langt. Beri því að miða staðfestingu gerðarinnar við í mesta lagi helming fjárhæðarinnar, ef ekki verði sýknað af kröfu stefnanda.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði er arðskrá grundvöllur úthlutunar arðs af veiði til félagsmanna. Samkvæmt arðskrá fyrir Eystri- Rangá eiga Vallartorfa, þ.e. jarðirnar Bakkavöllur, Markaskarð, Vallarhjáleiga, Völlur I, Völlur II sem og Kotvöllur saman 1414 einingar, en af arðskrá verður ekki ráðið hvernig innbyrðis skipting arðsins skuli vera milli jarðanna. Samkvæmt 9. gr. samþykkta fyrir Veiðifélag Rangæinga og 8. gr. samþykkta fyrir veiðifélag Eystri-Rangár skal skipta arði af sameiginlegri veiði niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Í málinu er fram komið að stefndi hyggst skipta arði vegna veiðihlunninda milli jarðanna Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs, en undanskilja Kotvöll, í samræmi við samþykkt á aðalfundi. Þar sem innbyrðis hlutföll arðs milli Vallartorfu og Kotvallar liggja ekki ljós fyrir verður ekki talið að að ákvæði lax- og silungsveiðilaga eða samþykktir stefnda standi því í vegi að stefndi ráðstafi arði í samræmi við ofangreinda samþykkt á aðalfundi, enda hafa landeigendur að Vallartorfu ábyrgst endurgreiðslu hugsanlegs hluta Kotvallar gagnvart stefnda.
Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Komi til þess að ágreiningur um hugsanlegar arðgreiðslur til jarðarinnar Kotvalla verði til lykta leiddur og jörðinni ákvarðaður arður, er ljóst að réttarreglur um skaðabætur tryggja hagsmuni stefnanda nægilega. Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að að skilyrði lögbanns hafi verið fyrir hendi og kröfum stefnanda því hafnað.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Kröfum stefnanda er hafnað.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.