Hæstiréttur íslands

Mál nr. 496/2004


Lykilorð

  • Samningur
  • Fjarskipti


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. maí 2005.

Nr. 496/2004.

Landeigendur Reykjahlíðar ehf.        

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Fjarska ehf.

(Steinar Þór Guðgeirsson hrl.)

                                                             

Samningur. Fjarskipti.

F átti og rak fjarskiptaskúr á Kröflufjalli, sem er í landi jarðarinnar R. Leiddi F rétt sinn af samningi frá árinu 1971, sem íslenska ríkið gerði við eigendur R um nýtingu jarðhita í landi jarðarinnar og byggingu nauðsynlegra mannvirkja sem því tengdust. Óumdeilt var í málinu að umræddur fjarskiptaskúr var nauðsynlegur vegna þeirrar nýtingar en LR, eigandi jarðarinnar, krafðist í málinu sérstakrar leigugreiðslu vegna þess að F hefði leigt út fjarskiptarásir í skúrnum til aðila, sem ekki tengdust nýtingu jarðhitans. Var talið að þar sem óumdeilt væri að F hefði skýlausan rétt til að eiga og reka umræddan fjarskiptaskúr á grundvelli fyrrnefnds samnings án sérstakrar aukagreiðslu hefði LR ekki fært fram haldbær rök fyrir því að honum bæri aukagreiðsla vegna þess að F leyfði öðrum afnot af skúrnum gegn endurgjaldi. Var og talið að LR hefði ekki hnekkt þeirri fullyrðingu F að fjarskiptaþjónusta, sem hann veitti í umræddum skúr væri nær eingöngu við L, vegna nýtingar jarðhita á svæðinu, þótt íbúar og ferðalangar á svæðinu gætu einnig notið hennar. Var kröfu LR því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. desember 2004. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 934.464 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 759.252 krónum frá 19. apríl 2003 til 3. október sama ár og af 934.464 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í 1. gr. samnings 18. mars 1971 milli eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi og íslenska ríkisins er kveðið á um það, að jarðhitaréttindi á afmörkuðu svæði jarðarinnar og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhitans séu ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar. Óumdeilt er, að samkvæmt þessum samningi njóti stefndi réttar til að halda uppi nauðsynlegri þjónustu fyrir Landsvirkjun, sem er eigandi Kröfluvirkjunar. Stefndi heldur því fram, að fjarskiptaþjónusta sú, sem hann veitir með aðstöðu í skúr á Kröflufjalli, sé nær eingöngu við Landsvirkjun, þótt íbúar og ferðalangar á svæðinu geti einnig notið hennar. Hefur áfrýjandi ekki hnekkt því. Samkvæmt þessu, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., greiði stefnda, Fjarska ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2004.

I

Mál þetta var höfðað 25. október 2003 og dómtekið 29. september 2004.

Stefnandi er Landeigendur Reykjahlíðar ehf., [kt.], Reykjahlíð, Mývatni, en stefndi er Fjarski ehf., [kt.], Bústaðavegi 7, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 934.464 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 759.252 krónum frá 19. apríl 2003 til 3. október 2003 en af 934.464 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og til vara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og vaxtakrafa felld niður eða lækkuð.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.

Aðalkrafa stefnda var að máli þessu yrði vísað frá dómi og fór fram munnlegur málflutningur um þá kröfu 23. febrúar 2004.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2004 var málinu vísað frá dómi.  Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem með dómi, uppkveðnum 30. apríl 2004, felldi hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

II

Málavextir eru þeir að með samningi 18. mars 1971 sömdu eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, við íslenska ríkið um frjáls umráð og ráðstöfun íslenska ríkisins á jarðhitaréttindum í landi Reykjahlíðar gegn því að eigendurnir fengju ákveðið magn af heitu vatni þeim að kostnaðarlausu.  Í kjölfar samningsins var hafist handa við byggingu Kröfluvirkjunar á umræddri jörð.Þann 26. júlí 1985 var undirritaður samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um kaup þess síðarnefnda á Kröfluvirkjun ásamt tilheyrandi gufuöflunarvirkjum og orkuveitum og tók Landsvirkjun við Kröfluvirkjun 1. janúar 1986.Stefndi er einkahlutafélag sem stofnað var á árinu 2000 og er alfarið í eigu Landsvirkjunar og er tilgangur félagsins að reka og leigja aðgang að flutningskerfi til fjarskipta sem tekur til landsins alls. Á árunum 1976-1977 var settur skúr á Kröflufjall með fjarskiptabúnaði.  Á árinu 1990 var skúrinn orðinn illa farinn og var hann endurnýjaður.  Með leyfi frá byggingarnefnd Skútustaðahrepps 1. nóvember 2000 byggði svo Landsvirkjun þann fjarskiptaskúr sem um er fjallað í þessu máli og við hann stendur fjarskiptamastur.  Þann 12. desember 2000 kærði Sigfús Illugason, fyrir hönd eigenda og ábúenda, fyrrgreinda ákvörðun byggingarnefndar Skútustaðahrepps, að veita leyfi til byggingar skúrsins, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en sú kæra hefur ekki fengið meðferð úrskurðarnefndarinnar.  Stefnandi kveður ástæðu þess vera þá að hann hafi beitt sér fyrir því að framangreindri kæru væri frestað til að reyna sættir með aðilum en stefndi kveður stefnanda hafa dregið kæruna til baka.Samkvæmt samningi stefnda og Landsvirkjunar yfirtók stefndi fjarskiptakerfi Landsvirkjunar, þar með talið umdeildan fjarskiptaskúr, og rekur stefndi fjarskiptaþjónustu fyrir Landsvirkjun samkvæmt samningi þeirra á milli.  Frá upphafi heimilaði Landsvirkjun Landsíma Íslands hf. að setja upp tæki í fjarskiptahúsinu ásamt loftneti vegna NMT farsímakerfis og síðan GSM farsímakerfis.  Kemur fram hjá stefnda að Landsvirkjun hafi verið nauðsynlegt að hafa símasamband á svæðinu auk þess sem íbúar og ferðalangar á svæðinu hafi notið góðs af.  Þá heimilaði Landsvirkjun uppsetningu loftnets fyrir Tetra-kerfi auk þess sem björgunarsveit á svæðinu fékk að setja loftnet endurgjaldslaust í mastrið sem þarna stendur.Í gögnum málsins kemur fram að haustið 2002 hafi undirstöður fjarskiptamastursins, sem stendur við fjarskiptaskúrinn, gefið sig.  Kemur fram hjá stefnda að slíkt mastur sé forsenda þess að rekstraröryggi framleiðslu- og dreifikerfis Landsvirkjunar sé nægilega tryggt.  Kveðst stefndi hafa ætlað að reisa nýtt mastur á öðrum stað og hafi hann fengið til þess leyfi skipulagsyfirvalda með fyrirvara um samþykki landeigenda.  Það leyfi hafi ekki fengist og því hafi hann fallið frá frekari áformum um að reisa stærra mastur og ákveðið þess í stað að endurreisa það gamla.

Stefndi kveðst hafa verið tilbúinn að semja um leigugreiðslur vegna nýs masturs sem hann hafi hins vegar ekki getað byggt vegna þess að ekki hafi náðst samkomulag við stefnanda.  Stefndi neitar alfarið þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ljáð máls á því að greiða leigu fyrir þá aðstöðu sem hann hafi á Kröflufjalli, en sú aðstaða sé sú sama og Landsvirkjun hafi áður haft.

Í máli þessu er stefnandi að krefja stefnda um greiðslu fyrir afnot af landi sem ekki falli undir þær heimildir sem landeigendur hafi afsalað sér með samningnum við íslenska ríkið 18. mars 1971.

Fyrir dómi gáfu skýrslu Ólafur Jónsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, og vitnið Magnús Hauksson.

III

Stefnandi byggir mál sitt á því að umbjóðendur hans séu þinglýstir eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Suður-Þingeyjarsýslu.  Sem eigendur jarðarinnar hafi þeir einkaforræði á því sem byggt sé á landi þeirra og vilji aðrir nýta sér það verði slíkt að gerast með þeirra samþykki.Kveður stefnandi að Landsvirkjun, eigandi stefnda, hafi einungis aðstöðurétt að landi stefnanda til þess að nýta þar jarðvarma.  Í samningi milli eigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 1971 hafi ekki verið samið um rétt Landsvirkjunar eða dótturfélaga þess til að nýta landið undir fjarskiptaþjónustu.  Stefnandi telur hins vegar að Landsvirkjun hafi skýlausan rétt til að reka fjarskiptaskúr undir eigin þjónustu ef það sé nauðsynlegt til nýtingar jarðhita Reykjahlíðar.  Er það áréttað í bréfi stefnanda til lögmanns síns 8. maí 2004 að stefndi veiti Landsvirkjun fjarskiptaþjónustu um fjarskiptabúnað félagsins á landi stefnanda til nýtingar jarðhita á Kröflusvæðinu í dag.  Kemur fram í bréfinu að einnig sé ljóst að stefndi sé að selja þjónustu og aðstöðu um og í fjarskiptaskúr sinn til aðila sem hafi ekkert með nýtingu jarðhita Landsvirkjunar að gera.  Sé krafa stefnanda í þessu máli eingöngu um greiðslu fyrir þau afnot lands landeigenda sem stefndi nýti í dag og falli ekki undir afnotaheimild Landsvirkjunar samkvæmt fyrrgreindum samningi frá 18. mars 1971.Stefnandi kveðst ekki ætla að krefjast þess að umræddur fjarskiptaskúr verði fjarlægður með beinni aðfarargerð heldur geri hann kröfu um eðlilega þóknun fyrir afnot af landi umbjóðenda sinna.  Miðist stefnufjárhæðin við það gjald sem stefndi taki af viðskiptavinum sínum vegna þeirrar aðstöðu sem hann leigi út til þeirra viðskiptavina.  Í fjarskiptaskúr stefnda sé aðstaða fyrir allt að 6 fjarskiptastöðvar.  Stefndi hafi því mánaðartekjur vegna leigu á aðstöðu auk þess sem stefndi leigi út bandbreiddir um fjarskiptanet sitt.  Gera megi ráð fyrir að stefndi hafi verulegar aukatekjur af þeirri starfsemi til viðbótar aðstöðugjaldi.Með vísan til verðskrár stefnda fái hann greiddar 9.734 krónur á mánuði fyrir sambærilega aðstöðu og hann veiti í skúrnum á Kröflufjalli.  Sé því sanngjarnt og eðlilegt að stefndi greiði sem samsvari leigu fyrir aðstöðu á þrem fjarskiptastöðvum eða 29.202 krónur á mánuði sbr. 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.  Leigutímabil sé frá janúar 2001 til ágúst 2003 eða 32 mánuðir og nemi krafan því 934.464 krónum.Stefnandi kveður að í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup komi fram sú meginregla að ef kaup séu gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skuli kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem sé á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður við samningsgerðina enda sé verðið ekki ósanngjarnt.  Ef ekki sé um neitt slíkt gangverð að ræða skuli kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt sé miðað við eðli hlutar, gæði og atvik að öðru leyti og sé umstefnd fjárhæð óumdeilanlega sanngjörn greiðsla.  Sé fjarskiptaskúrinn á landfræðilega mikilvægum stað fyrir fjarskiptanet stefnda og tekjur hans af honum miklar.  Hafi stefndi ekki mótmælt fjárhæð reikninga stefnanda eftir að honum hafi verið sent innheimtubréf.  Hefði hann talið kröfu stefnanda ósanngjarna hafi honum borið að upplýsa stefnanda um það án tafar og leggja fram gögn því til sönnunar og þar sem hann hafi ekki gert það verði hann að bera hallann af tómlæti sínu sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1994.Um lagarök að öðru leyti en rakið hefur verið vísar stefnandi til meginreglu eignaréttar um einkaforræði þinglýsts eiganda á landi sínu.  Varðandi vaxtakröfu sína vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.  Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing vísar hann til 33. gr. þeirra laga.

IV

Stefndi kveður að Landsvirkjun, sem eiganda Kröfluvirkjunar og handhafa nýtingarleyfis á jarðhita á Kröflusvæðinu, sé nauðsynlegt að tryggja fjarskiptasamband til þess að unnt sé að reka orkuverið og veitukerfi hennar.  Þá sé Landsvirkjun þörf á fjarskiptaþjónustu vegna starfseminnar, ekki síst vegna öryggissjónarmiða.  Með kaupum á Kröfluvirkjun hafi Landsvirkjun jafnframt keypt fjarskiptahús á Kröflufjalli sem fyrirtækið hafi rekið og viðurkennt sé af stefnanda að slíkt sé heimilt að því marki sem nauðsynlegt sé vegna þarfa orkunýtingarinnar.Landsvirkjun hafi verið í fullum rétti er fyrirtækið hafi framselt, við stofnun stefnda, þau réttindi sem fylgdi fjarskiptahúsinu á Kröflufjalli, en þau séu óbreytt.  Stefndi falli undir lög um fjarskipti nr. 81/2003 og með vísan til 25. gr. þeirra laga beri stefnda eftir fremsta megni að samnýta byggingar og möstur.  Til þess þurfi ekki heimild landeigenda og ekki séu heldur ákvæði um þátttöku hans í kostnaði við rekstur slíkra stöðva.Sé ljóst að með samningi landeigenda og íslenska ríkisins frá 18. mars 1971 hafi stefnandi leyft þá aðstöðu sem hér sé um fjallað og hann geti ekki nú krafið um gjald fyrir landsafnot vegna fjarskipta sérstaklega enda verði þau ekki skilin frá mannvirkjagerð til nýtingar jarðhitaréttinda.  Hefði í upphafi verið um slíkt að ræða væri slík krafa löngu niður fallin sökum fyrningar sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 eða sökum tómlætis stefnanda.  Þá sé einnig ljóst að skilyrðum hefðarhalds sé fullnægt sbr. 2. gr. og 7. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.Þar sem stefnandi geti hvorki byggt kröfu sína á lögum né samningum við stefnda eða öðrum samningum sem stefndi leiði rétt sinn af beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.Verði ekki fallist á sýknu á framangreindum forsendum krefst stefndi þess að hann verði sýknaður að svo stöddu sbr. meginreglu 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.  Með setningu laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998, hafi orðið þáttaskil í íslenskum eignarrétti.   Fjarskiptaskúr sá sem um sé deilt í þessu máli standi á Kröflufjalli sem rísi í 827 metra hæð yfir sjávarmáli.  Kröflusvæðið sé dæmigert afréttarland sbr. skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58/1998.  Óbyggðanefnd skuli samkvæmt 7. gr. laganna kanna hvaða landsvæði teljist til þjóðlendu og úrskurða um hver séu mörk þjóðlendu og eignarlanda.  Nefndin hafi ekki enn tekið til úrskurðar mörk þjóðlendna og eignarlanda á Kröflusvæðinu og ekki hafi, svo kunnugt sé verið borin fram beiðni á grundvelli 9. gr. laganna af hálfu stefnanda um að svo verði gert.Jörðin Reykjahlíð í Mývatnssveit sé talin ein stærsta jörð landsins og sé ekki vafi á því að óbyggðanefnd verði lögum samkvæmt að taka til umfjöllunar stóran hluta þess svæðis sem talið sé til jarðarinnar í dag, þar með talið Kröflusvæðið.  Fram til þess tíma að úrskurður óbyggðanefndar falli geti landeigendur í Reykjahlíð ekki gert fyrirvaralausar kröfur um eignarréttindi á afréttum. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda að svo stöddu.Varakröfu sína um lækkun styður stefndi við sömu rök og framangreindar sýknukröfur.  Stefndi kveður stefnanda ekki eiga kröfu á leiguafnotum af landinu heldur eigi eingöngu við sjónarmið um eignarnám, ef fjarskiptastarfsemi stefnda brjóti í bága við réttindi stefnanda sem landeiganda.  Samkvæmt 70. gr. laga nr. 81/2003 sé samgönguráðherra heimilt að mæla með eignarnámi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum ef samningar takist ekki um kaup á landi.  Það sé sú meginregla sem stefnandi verði að byggja á verði fallist á rök hans.  Endurgjald fyrir eignina skuli meta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.Þegar haft sé mið af úrlausnum dómstóla og matsnefndar eignarnámsbóta sem og viðmiðunum Vegagerðarinnar sbr. orðsendingu nr. 8/2003 frá september 2003 sé ljóst að hér sé ekki um verðmikið land að ræða.  Því væri hugsanlegt að miða við 2.000 krónur á hvern hektara lands.  Sé miðað við 400 fermetra væri um að ræða 0,04 hektara en nær sé að miða við mun minna flatarmál því umdeilt fjarskiptahús sé 12 fermetrar að stærð.  Þannig væri ríflegt að miða lóð undir hús og mastur við 100 fermetra eða 0,01 hektara.  Í fyrra tilvikinu væri rétt að greiða 80 krónur fyrir landsréttindi en í hinu síðara 20 krónur sem heildargreiðslu til stefnanda.  Telur stefndi að tjón stefnanda sé nær því að vera ekkert, verði kröfur hans taldar styðjast við rök.  Hér megi einnig hafa hliðsjón af fasteignamati jarðarinnar.  Samanlagt fasteignamat jarðanna Reykjahlíð 1-4 sé 1.544.000 krónur, sé eingöngu miðað við jarðarmat.  Ekki sé hins vegar að finna upplýsingar um landstærðina.Þá kveður stefndi stefnanda ekki hafa lagt í neinn kostnað við að koma upp þeirri aðstöðu sem hann nú krefjist hlutdeildar í af leigutekjum.  Hlaupi sá kostnaður á milljónum króna.  Ekki liggi vegur að fjarskiptahúsinu sem auki á kostnað við nýtingu hússins.  Stefnandi taki í kröfum sínum ekkert tillit til hver kostnaður stefnda við öflun leigutekna sé.   Byggi stefnandi ekki á hlutlausu mati heldur sé hér um að ræða sjálftöku og myndi stefnandi auðgast með ólögmætum hætti ef fallist yrði á kröfur hans.  Verði stefnandi að sanna það fjártjón sem hann telji sig hafa orðið fyrir vegna meintrar heimildarlausrar starfsemi stefnda en það hafi hann ekki gert.  Því geti dómstóll ekki tekið kröfur hans til greina.  Sé viðurkennd meginregla við ákvörðun eignarnámsbóta að bætur miðist við tjón eignarnámsþola en ekki þá auðgun sem eignarnemi kunni að öðlast við eignarnámið eða þörf eignarnema fyrir eignina.  Eigi þau sjónarmið sérstaklega við hér.Verði fallist á sjónarmið stefnanda sé þess krafist að miðað verði við það að stefnanda verði greiddar fullar bætur fyrir land á grundvelli sjónarmiða um eignarnám sem er að mati stefnda óverulegt eða á bilinu 20.000 til 80.000 krónur.Þá mótmælir stefndi einhliða og ólögmætum reikningum stefnanda og innheimtubréfi.  Styðjist dráttarvaxtakrafa stefnanda ekki við lög og sé henni hafnað.  Að mati stefnda geti upphafsdagur dráttarvaxta í fyrsta lagi talist frá höfðun dómsmáls sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 eða þann 30. október 2003.  Sé þess því krafist að reikningum og kröfum stefnanda um dráttarvexti verði hafnað.Að öðru leyti en rakið hefur verið að framan um lagarök stefnda vísar stefndi til meginreglna eignaréttar og kröfuréttar, þar með talið samningaréttar.  Hvað snertir kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V

Í 1. gr. samnings frá 18. mars 1971 milli eigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins segir, að jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar, á nánar tilteknu jarðhitasvæði, ásamt jarðhita þeim sem þar sé að finna og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, séu héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.  Eins og rakið hefur verið afsalaði íslenska ríkið Landsvirkjun síðan Kröfluvirkjun með samningi 26. júlí 1985 þar með talið þau mannvirki sem gerð höfðu verið á landinu við Kröflu.  Fjarskiptahús hafði verið reist á Kröflufjalli á árunum 1976 og 1977 og endurnýjaði Landsvirkjun það hús á árinu 1990.  Síðar var þetta fjarskiptahús tekið burtu og það hús sem í máli þessu er fjallað um, reist í staðinn.  Stefndi, sem er dótturfélag Landsvirkjunar, fékk síðan umráð hússins með samningi við Landsvirkjun í byrjun árs 2001.

Stefnandi viðurkennir að Landsvirkjun hafi skýlausan rétt til að reka fjarskiptaskúr undir eigin þjónustu ef það er nauðsynlegt til nýtingar jarðhita Reykjahlíðar. Af gögnum málsins er ljóst að Landsvirkjun, sem eiganda Kröfluvirkjunar og handhafa nýtingarleyfis á jarðhita á Kröflusvæðinu, er nauðsynlegt að tryggja fjarskiptasamband til að unnt sé að reka orkuverið og veitukerfi hennar auk þess sem þörf er á fjarskiptaþjónustu vegna starfseminnar á grundvelli öryggissjónarmiða.  Stefndi hefur yfirtekið fjarskiptahluta starfsemi Landsvirkjunar og leiðir rétt sinn af þeim rétti sem Landsvirkjun átti að þessu leyti á grundvelli fyrrgreindra samninga varðandi Kröfluvirkjun.

Málatilbúnaður stefnanda er misvísandi í stefnu að því leyti að stefnandi viðurkennir rétt Landsvirkjunar til að reka fjarskiptaskúrinn en heldur því jafnframt fram að umræddur fjarskiptaskúr hafi verið reistur án heimildar stefnanda og sé ekki nýttur í þágu jarðhitavinnslu.  Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli þessu, þar sem frávísunarkrafa stefnda var til umfjöllunar, áréttaði stefnandi rétt stefnda til að veita Landsvirkjun fjarskiptaþjónustu um fjarskiptiskúr félagsins á landi stefnanda til nýtingar jarðhita á Kröflusvæðinu.  Ennfremur áréttaði hann að stefndi selji þjónustu og aðstöðu um og í fjarskiptaskúr félagsins á landi stefnanda til aðila sem hafi ekkert með nýtingu jarðhitans að gera og sé krafa hans í þessu máli eingöngu um greiðslu fyrir þau afnot stefnda á landi stefnanda sem stefndi nýti í dag og falli ekki undir afnotaheimild Landsvirkjunar samkvæmt samningnum frá 18. mars 1971.

Ágreiningur aðila lýtur því að því hvort stefndi eigi að greiða stefnanda þóknun vegna þess að hann leigi öðrum aðstöðu í umdeildum fjarskiptaskúr sem stendur á landi stefnanda.

Upphafleg krafa stefnanda byggði á reikningum, öðrum útgefnum 28. febrúar 2003 að fjárhæð 1.716.000 krónur og hinum útgefnum 3. september 2003 að fjárhæð 396.000.  Kemur fram í reikningum þessum að um sé að ræða landleigu á Kröflu, Mývatnssveit, annars vegar frá 1. janúar 2001 til 28. febrúar 2003 en hins vegar frá 1. mars 2003 til 30. ágúst 2003.   Í reikningum þessum gerði stefnandi ráð fyrir að leiga á mánuði væri 66.000 krónur en við meðferð málsins lækkaði stefnandi kröfur sínar á þeim grundvelli að miðað við gjaldskrá stefnanda ætti hann að greiða stefnanda sem samsvari 29.202 krónum á mánuði.

Stefndi á og rekur umdeilt fjarskiptahús og ber sem eigandi hússins allan kostnað af rekstri þess og hirðir jafnframt allar tekjur af því.  Hann hefur leigt öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðstöðu í húsinu og vísar í því sambandi til 25. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti, sbr. sambærilegt ákvæði í 51. gr. eldri laga um fjarskipti nr. 107/1999, þar sem kemur fram að póst- og fjarskiptastofnun geti skyldað fjarskiptafyrirtæki til að semja um samhýsingu eða annars konar nýtingu í byggingum og möstrum við nánar tilgreindar aðstæður. 

Með vísan til þess að ekki er deilt um að stefndi hafi skýlausan rétt til að hafa og reka umrætt fjarskiptahús á landi stefnanda, án endurgjalds, á grundvelli samningsins frá 18. mars 1971, verður ekki séð með hvaða rökum stefnandi getur krafið stefnda um greiðslu leigugjalds fyrir afnot af landi undir húsið á þeim forsendum að hann leyfi öðrum afnot af húsinu og hafi þannig leigutekjur af þessari eign sinni.  Hefur stefnandi því ekki lagt fram viðhlítandi rök fyrir kröfum sínum og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum hans í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Þórður Bogason hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Fjarski ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Landeigenda Reykjahlíðar ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.