Hæstiréttur íslands

Mál nr. 414/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Sératkvæði


                                                        

Miðvikudaginn 30. júní 2010.

Nr. 414/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Garðar K. Vilhjálmsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Þótti mega marka gæsluvarðhaldinu þann tíma sem ákæruvaldið krafðist.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. júní 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 16. júlí 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 28. júní 2010. Hann krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. júlí 2010 klukkan 16.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness 25. júní 2010 í fangelsi 11 mánuði vegna annarra brota en liggja til grundvallar kröfu um gæsluvarðhald. Varnaraðili var viðstaddur dómsuppsögu og tók sér lögboðinn áfrýjunarfrest. Fallist er á með sóknaraðila að sterkur grunur sé um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot sem varðað geti 10 ára fangelsi og telja verði gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þykir mega marka því þann tíma sem sóknaraðili krefst.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. júlí 2010 klukkan 16.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, þó að refsirammi brota sem nefnd eru í ákæru nái þeim mörkum. Þá fer því fjarri að sóknaraðili hafi í málinu leitt líkur að því að varðhald varnaraðila sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Af þessum ástæðum eru að mínum dómi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fyrir því að verða megi við kröfu sóknaraðila. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2010.

Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], [...], [...] verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 23. júlí 2010 kl. 16.00.

Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Krafa Ríkissaksóknara er á því reist að kærði sé undir rökstuddum grun um brot á 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum um ávana og fíkniefni nr. 65/1974. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð Ríkissaksóknara kemur m.a. fram að lögregla hafi þann 9. apríl sl. stöðvað bifreiðina [...] og í henni hafi verið þrír menn, kærði, Y og Z. Hafi þeir verið grunaðir um gripdeild með því að hafa tekið verkfæratöskur framan við leikskólann [...] í [...] stuttu áður. Á vettvangi hafi Z viðurkennt að hafa tekið verkfæratöskurnar ófrjálsri hendi og hafi hann verið handtekinn og færður á lögreglustöð til skýrslutöku þar sem hann lýsti því að hann hafi verið sviptur frelsi sínu aðfaranótt 9. apríl sl. á heimili unnustu sinnar og færður á brott af kærða og Y. Hafi Z lýst því að hann hafi verið beittur miklu ofbeldi og hótunum um ofbeldi af kærða og Y þessa nótt í því skyni að hann greiddi ætlaða peningaskuld. Hafi Z  m.a. sagt að hann hafi verið neyddur til að taka umræddar verkfæratöskur ófrjálsri hendi. Þá kemur fram að lögregla hafi við rannsókn málsins gert húsleit á dvalarstað kærða að [...] í [...] og lagt þar hald á ýmsa muni sem grunur leikur á að hafi verið notaðir til að veita Z  áverka.

Enn fremur að með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 24. júní 2010 sé kærða gefin að sök frelsissvipting, stórfelld líkamsárás, og rán með því að hafa frá því klukkan 02 til 15, ásamt Y svipt Z frelsi sínu, ítrekað veist að honum með ofbeldi, hótað honum áframhaldandi ofbeldi og frelsissviptingu yrði hann ekki við kröfum þeirra um peningagreiðslu vegna ætlaðrar skuldar hans og neytt hann til að leysa út lyf og til gripdeildar eins og nánar greini í ákærunni. Eru brot kærða talin varða við 2. mgr. 226. gr., 2. mgr. 218. gr., 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Kærði hafi neitað sök hjá lögreglu vegna þessara brota, en honum sé einnig gefið að sök umferðalagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 180 ng/ml) frá [...] um götur [...] þar til akstrinum lauk að [...] og hótun með því að hafa laugardaginn 10. apríl 2010, í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hringbraut 130, hótað Z  lífláti en hótanirnar hafi kærði viðhaft í viðurvist fjögurra lögreglumanna.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 10. apríl 2010 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og setið í gæslu á grundvelli þessa ákvæðis til 30. s.m. Hafi kærði frá þeim tíma setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, nú síðast á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-366/2010 sem hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 332/2010. Krefjist almannahagsmunir þess að kærði verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en honum séu gefin að sök mjög alvarleg brot sem varði allt að 16 ára fangelsi. Þá sé það mat ákæruvaldsins að brot kærða séu það alvarleg að það myndi valda hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings ef kærði gangi laus áður en dómur gengur í máli hans. Þá sé vakin athygli á sakavottorði kærða en hann hafi margsinnis verið dæmdur fyrir mjög alvarleg ofbeldisbrot.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til gagna málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með Ríkissaksóknara að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við, allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er fallist á að meint brot kærða séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Fyrir liggur að ákæra í málinu var gefin úr 24. júní sl. og verður krafa Ríkissaksóknara því tekin til greina og kærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 16. júlí 2010 kl. 16.00.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 16. júlí 2010, kl. 16.00.