Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 11. mars 2013. |
|
Nr. 150/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn Y (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Y var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. mars 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur 12 ára fangelsi. Er því fullnægt skilyrði 3. málsliðar 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi lengur en fjórar vikur. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a. liðar 1. mgr. 95 gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að Y, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. mars 2013 kl. 16. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfu verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að einangrun verði aflétt.
Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn lögum nr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfelldan innflutning fíkniefna frá Kaupmannahöfn. Um sé að ræða tæp 20 kíló af amfetamíni og tæpa 2 lítra af amfetamínvökva, sem flutt hafi verið hingað til lands með pósti, en lögregla hafi lagt hald á sendingarnar 21. og 24. janúar sl.
Í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla handtekið og yfirheyrt átta sakborninga, þ.m.t. kærða Y, og sæti nú alls sex einstaklingar gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins.
Lögregla hafi undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá megi meðkærðu, Z, Þ og Ö, póstleggja þann 18. janúar sl. þær sendingar er innihéldu umrædd 20 kíló af amfetamíni. Lögregla bíði hins vegar enn myndbandsupptaka úr pósthúsi þar sem amfetamínvökvinn var póstlagður.
Mánudaginn 28. janúar sl. hafi meðkærði, Ý, sótt eina sendingu í póstafgreiðslu við [...]í Reykjavík. Hafi lögregla fylgst með því hvar hann afhendi sendinguna ofangreindum Ö, við [...] við [...]. Hafi lögregla fylgst með hvar Ö gekk með póstsendinguna áleiðis að [...], þar sem hann hafi losaði sig við hana og hafi hann verið handtekinn strax í kjölfarið. Þá hafi lögregla einnig fylgst með því hvar meðkærði X hafi haldið sig í námunda við pósthúsið og virst fylgjast með afhendingu pakkans.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi meðkærði Z greint frá því að hann hafi verið fenginn af kærða Y til að fara til Kaupmannahafnar og koma umræddum sendingum í póst. Hann kvaðst hafa átt að fá átta hundruð þúsund krónur fyrir verkið. Hann kvaðst ekki hafa komið að pökkun efnanna í kassana. Hann hafi hins vegar verslað potta og vínhaldara, sem efnin voru sett í, ásamt kærða Y.
Lögregla hafi undir höndum upplýsingar um að Z og kærði Y hafi ferðast saman til Kaupmannahafnar þann 14. janúar og dvalið þar saman á hóteli. Þá hafi lögregla undir höndum ljósmynd úr öryggismyndavélkerfi verslunar þar sem ofangreindir pottar voru keyptir, þar sem sjá megi kærða Y og Z saman.
Hafi kærði Y verið handtekinn 11. febrúar sl. grunaður um aðild að málinu og hann úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 21. febrúar sl. á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands nr. 101/2013. Hafi gæsluvarðhaldinu verið framlengt til dagsins í dag með dómi Hæstaréttar nr. 122/2013.
Í yfirheyrslum hjá lögreglu hafi kærði Y viðurkennt að hafa farið út til Kaupmannahafnar í umrætt sinn. Hann kvaðst hafa gert það að beiðni meðkærða Z. Hans hlutverk hafi einungis verið að aðstoða Z. Hann kvað Z hafa sagt sér að þetta ætti að vera tvö til þrjú kíló af amfetamíni og að Z væri með skothelda leið í gegnum tollinn.
Sé þessi framburður kærða Y í algjöri mótsögn við framburð meðkærða Z. Þá liggi og fyrir í málinu framburður bróður kærða, þ.e. meðkærða Þ, um að kærði Y sé aðalmaður og eigandi efnanna.
Mál þetta sé stórt í sniðum og allumfangsmikið. Það er því afar brýnt að lögregla fái frekara svigrúm til að ná utan um rannsókn málsins. Enn gætir mikils ósamræmis í framburði kærða og annarra sakborninga og liggi því næst fyrir lögreglu að taka frekari skýrslur af málsaðilum, jafnframt sem afla þurfi frekari gagna frá Danmörku. Þá vinni lögregla nú að því að kortleggja síma kærða Y og annarra sakborninga.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu, enda sé kærði Y nú undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldum innflutningi fíkniefna hingað til lands þannig að varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé rannsókn málsins hvergi nærri lokið hvað varði þátt kærða og því afar brýnt að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði var handtekinn 11. febrúar sl. og úrskurðaður í gæsluvarðhald 12. febrúar sl. Rökstuddur grunur er kominn fram um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Ljóst þykir að lögregla þarf frekara svigrúm til þess að ná utanum rannsóknina og tryggja rannsóknarhagsmuni málsins. Verður því talið brýnt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. Með vísan til a. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Einangrun kærða hefur þann 12. mars nk. staðið í fjórar vikur. Með vísan til 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga verður fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun til 14. mars 2013.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, Y, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. mars 2013 kl. 16:00.
Kærða er gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.