Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/2012


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Dómsuppkvaðning
  • Málflutningur
  • Gagnaöflun
  • Ómerking héraðsdóms


                                     

Fimmtudaginn 7. júní 2012.

Nr. 241/2012:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

(Einar Gautur Steingrímsson  hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Dómsuppkvaðning. Málflutningur. Gagnaöflun. Ómerking héraðsdóms.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni A. Þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp voru liðnar meira en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið. Í dómi Hæstaréttar kom fram að verjanda X hefði þá ekki gefist nægilegt ráðrúm til að undirbúa sig undir endurflutning málsins samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Auk þess hefði gagn sem verjandinn hafði óskað eftir að leggja fram í sama þinghaldi gefið tilefni til að kalla A fyrir dóm til frekari skýrslugjafar og eftir atvikum gefa sakflytjendum kost á að afla matsgerðar um þroska og heilbrigðisástand hennar. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný en að því frágengnu að refsing verði milduð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2011 til 27. janúar 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara 5. janúar 2012 og þingfest í héraði 17. sama mánaðar. Aðalmeðferð fór fram 22. febrúar 2012 og var málið dómtekið sama dag. Dómsformaður tilkynnti verjanda ákærða með tölvubréfi síðdegis 27. mars 2012 að dómur yrði kveðinn upp í málinu daginn eftir kl. 15.30. Verjandinn svaraði bréfinu með tölvubréfi fyrir hádegi 28. mars og mótmælti því að dómur yrði kveðinn upp þann dag og vísaði til símtals við þann fyrrnefnda daginn áður. Krafðist hann þess að málið yrði munnlega flutt á ný með vísan til 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en kvaðst ekki „reiðubúinn til þess að gera það í dag enda þarf ég lengri undirbúning til þess. Ég er með ný gögn sem ég mun leggja fram við næstu fyrirtöku málsins ... Ég get hins vegar mætt í dag til framlagningar þessara sönnunargagna.“ Skömmu eftir hádegi sama dag barst verjandanum þetta svar frá dómsformanninum: „Við sjáumst þá í dag“. Í endurriti af þinghaldi sem fram fór í málinu síðdegis þennan dag kom fram að dómurinn hafi hafnað framlagningu tiltekins gagns sem verjandinn hugðist fá lagt fram. Krafðist dómurinn þess jafnframt að málið yrði þegar í stað flutt að nýju. Verjandinn andmælti því þar sem hann taldi sig þurfa meiri tíma til að undirbúa málflutninginn. Að svo búnu fór fram munnleg sókn og vörn að nýju, málið var dómtekið og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp. Voru þá liðnar meira en fjórar vikur frá dómtöku málsins 22. febrúar og bar því að flytja það á ný, sbr. 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008, eins og gert var. Af því sem rakið hefur verið er á hinn bóginn ljóst að verjandanum var ekki gefið nægilegt ráðrúm til að undirbúa sig undir endurflutning málsins svo að gagni gæti komið eins og til er ætlast.

Auk þess, sem að framan greinir, er til þess að líta að sönnunargagnið, sem verjandi óskaði eftir að leggja fram í þinghaldinu 28. mars 2012, var mynddiskur með upptöku af því að brotaþoli lýsti yfir að ákærði hafi ekki framið þann verknað, sem hún bar á hann í skýrslu sem hún gaf fyrir dómi í Barnahúsi 30. nóvember 2011, en upptaka þessi virðist hafa verið gerð að kvöldi 27. mars 2012. Að þessu fram komnu var tilefni til að brotaþoli yrði kvödd fyrir dóm til frekari skýrslugjafar og dómurinn gæfi sakflytjendum eftir atvikum kost á að afla matsgerðar dómkvadds manns um þroska og heilbrigðisástand brotaþolans áður en dómur yrði felldur á málið.

Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíði þess að efnisdómur gangi á ný en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

          Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur og réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 100.400 krónur.