Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2011
Lykilorð
- Verksamningur
- Uppsögn
- Efndabætur
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2011. |
|
Nr. 427/2011.
|
Birtingur útgáfufélag ehf. (Þórður Bogason hrl.) gegn Ástu Kristínu Bjartmars Santos (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Verksamningur. Uppsögn. Efndabætur.
Á höfðaði mál á hendur B ehf. og krafðist efndabóta vegna uppsagnar B ehf. á verksamningi um söfnun auglýsinga í tímarit sem B ehf. gaf út. Hélt Á því fram að B ehf. hefði ekki virt ákvæði samningsins um uppsagnarfrest. B ehf. byggði sýknukröfu sína á því að Á hefði unnið samkvæmt munnlegum verksamningi sem verið hefði án uppsagnarfrests og að honum hefði verið heimilt að segja samningnum upp vegna trúnaðarbrota Á. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að Á hefði tekið yfir réttindi og skyldur F ehf. gagnvart B ehf. samkvæmt skriflegum samningi með tilteknum breytingum hvað varðar lægri þóknun o.fl. Var héraðsdómur staðfestur um skyldu B ehf. til að greiða Á það tjón sem hún varð fyrir vegna vanefnda B ehf. um greiðslu verklauna í uppsagnarfresti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2011 og auk þess úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar sama ár, þar sem hrundið var kröfu áfrýjanda um að málinu yrði vísað frá dómi. Áfrýjandi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, til vara sýknu af kröfu stefndu en að því frágengnu að krafa stefndu verði lækkuð. Þá krefst félagið málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu krefst stefnda efndabóta vegna uppsagnar áfrýjanda á verksamningi þar sem áfrýjandi hafi ekki innt af hendi verklaun á umsömdum uppsagnarfresti þrátt fyrir áskorun stefndu þar um. Því hafi stefnda átt þann kost einan að miða fjárkröfu sína við þau verklaun sem hún hefði líklegast fengið á uppsagnarfresti.
Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms reisir áfrýjandi kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að stefna í héraði uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa stefndu sé bæði vanreifuð og mótsagnakennd. Stefnda vísi meðal annars til samnings sem ekki hafi verið í gildi milli aðila. Þá rökstyðji hún ekki grundvöll kröfunnar en forsenda bótaskyldu sé saknæmt og ólögmætt athæfi áfrýjanda. Auk þess reisi stefnda kröfu sína á einhliða útreikningum án nauðsynlegra gagna og taki meðal annars ekki tillit til þess að draga beri frá sölulaun vegna reikninga sem ekki hafi innheimst.
Málatilbúnaður stefndu er skýr að því leyti að hún kveður verksamning með ákveðnu efni hafa verið í gildi milli hennar og áfrýjanda. Lýsir stefnda því að áfrýjandi hafi ekki sinnt bréflegri áskorun um að ganga til uppgjörs samkvæmt ákvæði samningsins. Í stefnu í héraði er gerð grein fyrir hvernig fjárhæð kröfu stefndu er fundin, en krafan miðast eins og áður er rakið við verklaun sem stefnda kveðst hafa haft tiltekin tímabil áður en áfrýjandi sleit samningssambandi þeirra. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um höfnun á frávísunarkröfu áfrýjanda.
II
Áfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu annars vegar á því að stefnda hafi unnið samkvæmt munnlegum verksamningi sem verið hafi án uppsagnarfrests, en öðrum þræði telur hann sér hafa verið heimilt að segja samningnum upp vegna trúnaðarbrota stefndu við framkvæmd samningsins.
Áfrýjandi gerði skriflegan samning 30. janúar 2007 við Fótspor ehf., sem stefnda starfaði þá hjá, um að það félag tæki að sér sölu auglýsinga og innheimtu á seldum auglýsingum í tvö af tímaritum áfrýjanda, Séð og heyrt og Mannlíf og aukablöðum er fylgdu þeim. Hinn 29. september 2007 ritaði stefnda undir yfirlýsingu þar sem hún „tekur ... yfir samning sem í gildi hefur verið á milli Birtings og Fótspors ehf. um sölu á auglýsingum í tímarit Birtings.“ Með tölvubréfi Ásmundar Helgasonar, sölu- og markaðsstjóra áfrýjanda, 29. desember 2008 var sú breyting gerð á samningsskilmálum að kveðið var á um lægri þóknun til handa stefndu, aðra tilhögun við greiðslu á reikningum og við frádrátt vegna auglýsingatekna sem ekki innheimtust. Stefnda undi þessum einhliða breytingum áfrýjanda á samningsskilmálum. Eins og rakið er í héraðsdómi var í bréfi áfrýjanda til stefndu 31. mars 2010 „um uppsögn á verksamningi“ vísað til framangreindra samninga. Samkvæmt þessu og öðru því sem fram er komið í málinu tók stefnda yfir réttindi og skyldur Fótspors ehf. samkvæmt samningnum 30. janúar 2007.
Samningur þessi var ótímabundinn, en í lokaákvæði hans sagði: „Báðir aðilar geta sagt samningnum upp með 3. mánaða fyrirvara og skal uppsögnin miðast við mánaðamót.“ Í gögnum málsins finnst ekki staður fyrir fullyrðingum áfrýjanda um vanefndir stefndu á samningnum. Áfrýjandi sagði samningnum á hinn bóginn upp og leysti stefndu undan verkskyldu á uppsagnarfresti. Hann neitar að greiða stefndu þau verklaun sem hún telur sig myndu hafa fengið á þeim tíma. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu áfrýjanda til að bæta stefndu það tjón sem hún varð fyrir vegna vanefnda áfrýjanda á greiðslu verklauna í uppsagnarfresti.
Rökstuðningur stefndu fyrir fjárkröfu sinni miðast við þau sölulaun, án virðisaukaskatts, sem hún fékk fyrir auglýsingar í vikublaðið Séð og heyrt mánuðina desember 2009 til og með mars 2010, annars vegar og fyrir fjórða og síðasta tölublað tímaritsins Mannlíf árið 2009 hins vegar. Áfrýjandi kveður útreikninga stefndu rétta, en gerir athugasemdir við forsendur þeirra á þeim grunni að stefnda hefði átt að miða kröfu sína við þau sölulaun er áfrýjandi greiddi vegna auglýsinga í vikublaðið Séð og heyrt á uppsagnarfresti, það er frá apríl til og með júní 2010 og vegna þess eina tölublaðs Mannlífs sem komið hafi út á fyrri helmingi ársins 2010. Andmælir áfrýjandi sérstaklega að stefnda skuli miða við auglýsingar í jólablaði Mannlífs en í því blaði hafi birst mun fleiri auglýsingar en í blöðum útgefnum á öðrum tímum árs. Samkvæmt þessu geti krafa stefndu aldrei numið hærri fjárhæð en 1.770.949 krónum verði áfrýjandi talinn bótaskyldur. Auk þess beri að draga 30% frá framangreindri fjárhæð vegna krafna á hendur auglýsendum sem ekki hafi verið innheimtanlegar eða hafi verið undir svokölluðu auglýsingaverðgólfi.
Aðrar málsástæður áfrýjanda til lækkunar á fjárkröfu stefndu svo sem um ætlaðan rekstrarkostnað stefndu, sem bornar eru fyrir Hæstarétt, komu ekki fram í greinargerð áfrýjanda í héraði þótt sama tilefni hafi verið til að byggja á þeim og nú við málskotið, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Af sömu ástæðu eru ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. laganna fyrir því að hafa þessar málsástæður uppi fyrir Hæstarétti. Koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins.
Gegn andmælum stefndu verður ekki byggt á einhliða upplýsingum áfrýjanda um að sölulaun stefndu hefðu orðið 1.770.949 krónur, eins og hann heldur fram. Þá er ekkert í gögnum málsins sem styður fullyrðingar áfrýjanda um óinnheimtanlegar kröfur og auglýsingar seldar undir svokölluðu auglýsingaverðgólfi. Á hinn bóginn verður að líta til þess að stefnda, sem ber sönnunarbyrði fyrir tjóni sínu, hefur ekki sýnt nægilega fram á hver fjárhæð tjóns hennar er. Af því sem fram er komið í málinu verður tjón hennar ekki einvörðungu miðað við þau tölublöð tímarita sem hún kýs að vísa til. Eftir atvikum máls eru á hinn bóginn skilyrði til að dæma stefndu bætur að álitum 2.000.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði, en við flutning málsins féll áfrýjandi frá andmælum við vaxtakröfu stefndu.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Birtingur útgáfufélag hf., greiði stefndu, Ástu Kristínu Bjartmars Santos, 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2010 til 9. október 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011.
Mál þetta höfðaði Ásta Kristín Bjartmars Santos, kt. 260783-5809, Fljótaseli 3, Reykjavík, með stefnu birtri 7. september 2010, á hendur Birtingi útgáfufélagi ehf., kt. 620867-0129, Lynghálsi 5, Reykjavík. Málið var dómtekið 30. mars sl.
Stefnandi krefst greiðslu á 2.306.082 krónum ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2010 til 9. október 2010 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara að kröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Frávísunarkröfu stefnda var hafnað með úrskurði 14. janúar 2011.
Stefnandi hefur málavaxtalýsingu sína í stefnu á samningi sem stefndi gerði þann 30. janúar 2007 við Fótspor ehf. Fótspor tók þar að sér sem verktaki að selja auglýsingar í tvö tímarit sem stefnandi gefur út, Séð og heyrt og Mannlíf. Stefnandi kveðst hafa gengið inn í samninginn sem verktaki hjá stefnda 29. september 2007. Afrit yfirlýsingar um þetta liggur frammi, sem Ásmundur Helgason ritar undir f.h. stefnda. Bættist þá við sala auglýsinga í tímaritið Bleikt og blátt.
Með yfirlýsingu sem Ásmundur Helgason sendi stefnanda með tölvupósti 29. desember 2008, var samningsákvæðum aðila breytt. Sölulaun skyldu verða 14%, reikningar skyldu greiðast 1-3 vikum eftir að þeir bærust og þjónustulaun vegna bakfærðra reikninga skyldu dregin frá sölulaunum jafnóðum. Í stefnu kemur fram að stefnandi mótmælti ekki þessari breytingu á starfsskilmálum.
Með bréfi til stefnanda, dags. 31. mars 2010, tilkynnti lögmaður stefnda henni uppsögn verktakasamningsins. Bréfið hljóðar svo: „Vísað er til verktakasamnings, dags. 29. september 2007, milli þín og Birtings útgáfufélags ehf., sbr. samning dags. 20. janúar 2007, um sölu auglýsinga í verktöku ... Birtingur útgáfufélag ehf. tilkynnir hér með að samningi þessum er sagt upp af hálfu félagsins frá og með neðangreindu tímamarki. Ekki er óskað eftir frekara vinnuframlagi ...“
Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf 6. apríl 2010 og krafði hann um uppgjör. Í bréfinu er vísað til uppsagnarfrests í samningi og jafnframt sagt að stefndi standi í skuld við stefnanda fyrir vinnu samkvæmt samningnum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi segir að aðilar hefi gert með sér bindandi samning sem beri að efna. Stefnandi hafi efnt samninginn og ekki gefið stefnda tilefni til að virða ekki uppsagnarfrest samkvæmt samningnum. Samkvæmt samningnum sé uppsagnarfrestur hans þrír mánuðir. Telur stefnandi sig því hafa átt rétt til að vinna samkvæmt samningnum mánuðina apríl, maí og júní 2010. Stefndi hafi gert henni það ómögulegt. Þannig hafi hún misst af tekjum sem hún hefði ella aflað sér.
Stefnandi telur sig eiga rétt á efndabótum, að verða eins sett og ef samningurinn hefði verð efndur eftir efni sínu. Hún segir að hún hefði getað selt auglýsingar fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og hún seldi á tímabilinu áður en henni var sagt upp.
Stefnandi reiknar kröfu sína í tvennu lagi. Annars vegar krefst hún bóta vegna tímaritsins Séð og heyrt sem hún reiknar miðað við sex mánaða tímabil. Kveðst hún gera þetta til þess að árstíðabundnar sveiflur hafi ekki teljandi áhrif á útreikninga. Bætur vegna tímaritsins Mannlífs miðar hún hins vegar við síðasta blað áður en uppsögnin kom til, þ.e. 4. tbl. 2009, sem kom út 18. nóvember 2009. Segir hún að Mannlíf komi aðeins út ársfjórðungslega.
Stefnandi kveðst ekki hafa aðrar upplýsingar til að styðjast við. Hún segir að stefndi hafi ekki sýnt sér sem samningsaðila trúnað og tillitssemi. Uppsögnin hafi ekki átt sér neinn aðdraganda og hafi ekki verið skýrð. Sér hafi ekki verið gefinn kostur á að bregðast við uppsögninni og hafi ekki haft nein tök á að takmarka tjón sitt með því að útvega önnur verkefni. Hún hafi ekki getað takmarkað tjón sitt og beri enga sök á uppsögninni.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína nákvæmlega í stefnu, en ekki er ástæða til að taka allar þær tölur upp í dóminn. Hún reiknar með að sala sín á auglýsingum í Séð og heyrt hafi numið að meðaltali 4.389.185 krónum á mánuði síðustu sex mánuðina fyrir uppsögnina. Sést á töflu hennar að salan er mest í desember, 6.536.202 krónur, en minnst í febrúar, 3.404.437 krónur. Miðað við meðaltalstöluna næmi sala á þriggja mánaða tímabili 13.167.555 krónum. Næmu 14% sölulaun því 1.843.457 krónum. Hún telur sig hafa selt auglýsingar fyrir 3.304.462 krónur í 4. tbl. tímaritsins Mannlíf 2009. Sölulaun vegna þess nemi 462.625 krónum. Heildarkrafa stefnanda nemur því 2.306.082 krónum.
Stefnandi krefst vaxta af allri fjárhæðinni frá 1. apríl 2010, en þann dag hafi hið bótaskylda atvik átt sér stað í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Hún krefst dráttarvaxta frá 9. október 2010, er mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins. Þá hafi krafan verið formlega sett fram á hendur stefnda, sbr. 9. gr. sömu laga.
Stefnandi vísar til samnings aðila og reglna um skuldbindingargildi samninga. Þá vísar hún til reglna um efndabætur, almennra reglna verktakaréttar og kröfuréttar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst hafa marga verktaka á sínum snærum við sölu auglýsinga. Endurgjald þeirra fari eingöngu eftir frammistöðu þeirra við sölu auglýsinga og að teknu tilliti til þess hvaða auglýsingar eru birtar og hvernig gangi að fá greitt fyrir þær. Verktökum þessum beri að hlíta ákveðnum reglum við söluna, m.a. um lágmarksverð, og þá beri þeim að gera skriflega samninga um auglýsingar. Fótspor ehf. hafi verið einn þessara verktaka. Stefnandi tengist því ekki að öðru leyti en því að hún muni einhvern tímann hafa starfað fyrir félagið.
Stefndi segir að stefnanda hafi borið að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum sínum um sölu auglýsinga. Helstu fyrirmælin hafi verið um lágmarksverð. Þá hafi stefndi áskilið sér rétt til að ákveða hvort tiltekin auglýsing yrði birt. Stefndi segir að hann hafi því getað komist hjá því að kaupa nokkrar auglýsingar af stefnanda. Hann hafi ekki verið skuldbundinn til viðskipta við stefnanda.
Stefndi fullyrðir í greinargerð sinni að stefnandi hafi orðið uppvís að því að selja auglýsingar á lægra verði en stefndi setti upp sem lágmark. Þannig hafi meðalverð á auglýsingum í ritum stefnda lækkað. Aðrir verktakar sem hann skipti við hafi kvartað yfir því að viðskiptavinir teldu auglýsingaverðið í tímaritum stefnda hafa lækkað. Þá hafi verið erfitt að innheimta gjald fyrir auglýsingar sem stefnandi hafði selt. Oft hafi ekki verið gerður samningur um birtingu þannig að innheimta reyndist ómöguleg. Þá hafi stefnandi fengið greitt fyrir tilhæfulausa reikninga vegna auglýsinga sem ekki höfðu verið keyptar.
Stefndi kveðst hafa áminnt stefnanda fyrir að brjóta gegn reglum félagsins. Kveðst hann síðan hafa komist að því að stefnandi hefði sjálf hafið útgáfustarfsemi og auglýsingasölu, hefði m.a. haft í hyggju að gefa út tímarit í beinni samkeppni við stefnda. Þá hafi verið ákveðið að segja upp samningi við stefnanda og henni verið sent uppsagnarbréf.
Stefndi mótmælir því að samningur hans við Fótspor ehf. hafi gilt milli sín og stefnanda. Sá samningur hafi ekki verið gerður við stefnanda. Þá hafi yfirlýsing um framsal réttinda og skyldna Fótspors til stefnanda ekkert gildi. Augljóst sé að stefndi hafi ekki getað framselt þessi réttindi og skyldur. Þetta séu drög að samningi sem ekki hafi verið unnið eftir.
Stefndi segir að það sem aðilar hafi raunverulega samið um hafi aldrei verið fært í letur, en að unnið hafi verið eftir þeim samningi sem komst á milli aðila. Sá samningur sem stefnandi byggi á hafi aldrei orðið meira en drög, hann hafi ekki verið samþykktur af félaginu. Ásmundur Helgason hafi ekki haft heimild til að semja með þessum hætti og samningurinn við Fótspor hafi því ekki gilt milli aðila þessa máls.
Stefndi byggir á því að samningur aðila hafi verið verktakasamningur, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgi. Þó hafi ekki verið samið um sérstakt verk og heldur ekki fasta þóknun. Þá njóti verktaki ekki launa í uppsagnarfresti, eigi ekki rétt á uppsagnarfresti. Semja þurfi um slíka greiðslu eigi stefnandi að eiga rétt til hennar. Samningi aðila hafi ekki verið sagt upp með ólögmætum hætti.
Stefnandi segir að gagnkvæmur skilningur sé á því að enginn formlegur uppsagnarfrestur gildi í samningi aðila. Tekjur stefnanda hafi farið eftir því hvað hún aflaði af auglýsingum og hvað stefndi samþykkti að birta. Stefndi hafi áskilið sér rétt til að hafna öllum auglýsingum. Það hafi hann og gert. Því segir stefndi að stefnandi geti ekki byggt kröfu sína á því að stefnda hafi borið af kaupa af henni auglýsingar. Í uppsögninni hafi falist tilkynning um að stefndi myndi ekki kaupa neinar auglýsingar í gegnum stefnanda. Stefnandi hafi ekki átt rétt eða heimtingu á því að stefndi keypti af henni auglýsingar eða greiddi tiltekna þóknun. Því eigi hún enga kröfu á stefnda.
Stefndi segir að samningi aðila hafi mátt segja upp hvenær sem var og á hvaða forsendu sem var, án þess að til eftirmála kæmi. Stefnandi geti ekki átt rétt til efndabóta, stefndi hafi tilkynnt henni að hann myndi ekki eiga frekari viðskipti við hana. Honum hafi ekki borið skylda til þess samkvæmt samningnum. Skilyrði til efndabótagreiðslu séu ekki til staðar. Stefndi hafi ekki brotið gegn samningnum eða framið saknæma eða ólögmæta athöfn gegn stefnanda.
Enn segir stefndi í greinargerð sinni: „Stefndi vísar til þess að stefndi gat ákveðið sjálfur t.d. hvaða þóknun skyldi gilda milli aðila og gat breytt henni án fyrirvara fyrir stefnanda og án þess að nokkrar bætur kæmu til stefnanda úr hendi stefnda. Dæmi um þetta er tilkynning stefnda til stefnanda um að sölulaun lækki og verði framvegis 14% ... Stefnandi átti engan bótarétt vegna þessa, ekki frekar en vegna uppsagnar á samningnum, enda hefði stefndi getað ákveðið þóknunina sem 0% án þess að til kæmi bótaskylda, enda var ekkert kveðið á um annað í samningnum en að þetta væri heimilt.“
Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi rofið trúnað við sig. Hún hafi ekki mátt vinna sambærileg verkefni fyrir aðra á meðan hún starfaði fyrir stefnda. Stefndi kveðst telja að þegar stefnanda var sagt upp hafi hún þegar verið að afhenda óviðkomandi aðilum trúnaðarupplýsingar. Við þetta hafi ekki mátt una og hafi það heimilað fyrirvaralausa uppsögn. Þá hafi trúnaðarbrot stefnanda einnig falist í margítrekuðum brotum gegn viðmiðum um lágmarksverð auglýsinga.
Varakrafa um lækkun er byggð á því að krafa stefnanda sé of há. Krafa vegna Mannlífs sé miðuð við 4. tölublað, sem sé desemberblað. Sölutekjur í því tölublaði séu alla jafna mun hærri en í öðrum tölublöðum. Yfirleitt um 50% hærri. Telur stefndi réttara að miða við meðaltal tveggja tölublaða sem komi út á fyrri helmingi ársins. Segir hann að miðað við þessi tölublöð séu sölutekjurnar 1.574.317 krónur og ætti því 14% söluþóknun að nema 220.404 krónum.
Þá sé ótækt að bera auglýsingasölu í október, nóvember og desember saman við söluna á fyrri hluta árs. Þetta megi sjá á þeim upplýsingum sem stefnandi byggi á sjálf. Færri auglýsingar seljist fyrri hluta ársins. Stefndi segir eðlilegast að miða við fyrri hluta ársins, en stefnandi krefjist greiðslu fyrir mánuðina apríl, maí og júní. Vill stefndi því miða við meðaltal fyrir mánuðina janúar, febrúar og mars, eftir þeim fjárhæðum sem greini í stefnu. Sölulaun hefðu þá numið 1.550.545 krónum.
Krafa stefnanda gæti því að mati stefnda ekki numið hærri fjárhæð en 1.770.949 krónum. Þá beri að daga frá a.m.k. 30% vegna krafna sem ekki innheimtist, séu metnar óinnheimtanlegar af stefnda eða séu undir „auglýsingaverðgólfi“. Stefndi telur að frádráttur þessi nemi 531.283 krónum. Að þessu athuguðu geti krafa stefnanda ekki numið hærri fjárhæð en 1.239.666 krónum fyrir Séð og heyrt og 154.283 krónum fyrir Mannlíf.
Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar og til vinnuréttar.
Niðurstaða
Stefndi lagði fram ítarlega greinargerð í málinu sem gerð er stuttlega grein fyrir hér að framan í greinargerð um málsástæður hans og lagarök. Þar er að finna margar fullyrðingar og staðhæfingar um málsatvik. Hann lagði hins vegar ekki fram nein önnur skjöl og leiddi ekki vitni. Þá gáfu forsvarsmenn hans ekki skýrslu fyrir dóminum. Því hefur hann ekki gert minnstu tilraun til að sanna nokkra af staðhæfingum sínum um málsatvik. Sönnun í málinu byggist því eingöngu á þeim gögnum sem stefnandi lagði fram þegar við þingfestingu málsins.
Stefnandi vann við auglýsingaöflun fyrir stefnda. Aðilar eru sammála um að stefnandi hafi verið verktaki og að verklaun hennar hafi undir lokin verið þau sem greinir í tölvupósti stefnda frá 29. desember 2008.
Um skilmála samnings eru aðilar ósammála. Stefnandi telur að samningur Fótspors ehf. hafi verið framseldur til sín. Þessu mótmælir stefndi. Stefndi virðist byggja á því að munnlegur samningur hafi verið í gildi milli aðila, en reynir ekki að gera frekari grein fyrir honum, t.d. með því að segja hver hafi ráðið stefnanda til starfa og leiða þann aðila sem vitni fyrir dóminn.
Stefnandi hefur lagt fram ljósrit af samningi er Fótspor og stefndi gerðu með sér 30. janúar 2007 og ljósrit af yfirlýsingu um framsal samningsins til stefnanda, sem undirrituð var af Ásmund Helgasyni. Stefndi mótmælir því að slíkt framsal geti verið gilt og að Ásmundur hafi haft heimild til þess að semja við stefnanda. Þá geti slíkt framsal ekki átt sér stað án þess að Fótspor ehf. samþykki.
Fótspor er ekki aðili að þessu máli og ekki er krafist greiðslu sem framseld hefur verið frá því félagi. Þessi aðferð við samningagerð er óvenjuleg, en gagnvart þeim kröfum sem hér eru hafðar uppi felur framsalið í reynd ekki í sér annað en verksamning milli aðila þessa máls, sem er samhljóða samningi Fótspors. Stefndi hefur ekki skýrt stöðu Ásmundar Helgasonar hjá sér eða hvaða heimildir hann hafi haft. Það athugast að Ásmundur þessi tilkynnti stefnanda breytta samningsskilmála þann 29. desember 2008. Verður að líta svo á að stefndi hafi ekki sannað fullyrðingu sína um að Ásmundur hafi ekki haft umboð til að semja við stefnanda. Þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu að þriggja mánaða uppsagnarfrestur hafi verið í gildi um samning stefnanda. Er einnig ósönnuð sú fullyrðing stefnda að á því væri „gagnkvæmur skilningur að enginn formlegur uppsagnarfrestur [gilti] í samningi aðila.“
Stefndi fullyrðir að stefnandi hafi brotið gegn reglum, rofið trúnað og afhent trúnaðarupplýsingar, selt auglýsingar á of lágu verði og hafið samkeppni við sig. Engin gögn liggja fyrir um þessi atriði. Í uppsagnarbréfi eru ekki tilgreindar ástæður uppsagnar eða riftunar. Þá hefur stefndi ekki lagt fram afrit bréfs eða tilkynningar til stefnanda þar sem hún er áminnt fyrir að brjóta gegn reglum félagsins. Eru þessar fullyrðingar ósannaðar gegn mótmælum stefnanda í munnlegum málflutningi. Var fyrirvaralaus riftun samningsins því ekki heimil af hálfu stefnda.
Í samræmi við almennar reglur á stefnandi rétt á efndabótum vegna óheimillar uppsagnar samningsins. Bótaskyldan er byggð á því að stefnda hafi verið óheimilt að segja samningnum upp fyrirvaralaust. Efndabætur eiga þá að gera stefnanda eins setta og ef hún hefði unnið uppsagnarfrestinn.
Stefndi telur sér ekki skylt að greiða stefnanda efndabætur þar sem hann hefði getað neitað að birta auglýsingar sem hún seldi. Það stoðar ekki að bera þetta fyrir sig. Stefnanda hafa væntanlega verið settar ákveðnar skorður um verð auglýsinga og hvers konar auglýsingar yrðu birtar. Þannig segir í verktakasamningnum: „Verktaki skal fara eftir stefnu og fyrirmælum auglýsingastjóra Birtíngs, samþykktum verksala og lögum.“ Hefði hún selt á réttu verði auglýsingar, sem ekki brutu gegn reglum stefnda, hefði hún alla jafna átt rétt á þóknun vegna þeirra, þó svo að stefndi vildi ekki birta þær. Hafi verktaki unnið verk með eðlilegum hætti á hann rétt til verklauna. Eigi önnur regla að gilda þarf að semja svo. Með því að gera verktakasamning við stefnanda skuldbatt stefndi sig til viðskipta við hana í samræmi við þá skilmála sem settir voru. Þá er ekki unnt að fallast á það með stefnda að hann hafi getað breytt þóknunarprósentu stefnanda einhliða. Vissulega er svo að sjá að stefnandi hafi samþykkt einhliða tilkynningu um breytt kjör, en með því hefur hún ekki samþykkt allar síðari breytingar sem stefndi kynni að vilja koma á. Þá er útilokað að miða við að stefnda hafi verið heimilt að ákveða að stefnandi ynni endurgjaldslaust.
Krafa stefnanda er miðuð við auglýsingasölu í tvö tímarit. Varðandi tímaritið Mannlíf miðar hún við auglýsingasölu í desemberhefti blaðsins sem hafi numið 3.304.462 krónum. Hún hafi orðið af 462.625 króna sölulaunum. Þessu mótmælir stefndi, segir að auglýsingar í desemberhefti séu fleiri en í öðrum heftum og telur að réttara væri að miða við að þóknunin ætti að nema 1.574.317 krónum. Kveðst hann þá miða við tvö tölublöð er komi út á fyrri helmingi ársins. Um þessar tölur sem stefndi byggir gildir það sama og um aðrar staðhæfingar hans, hann reynir ekki að leiða sönnur að þeim. Hann hefur þar með ekki sannað að viðmiðun stefnanda sé óeðlileg og verða bætur ákveðnar eins og stefnandi krefst vegna þessa hluta.
Stefndi hreyfir sömu mótbárum við kröfu vegna tímaritsins Séð og heyrt. Hann leggur heldur ekki hér fram nein sönnunargögn. Verður því að byggja á þeim tölum sem stefnandi miðar kröfu sína við, en því ekki haldið fram að þær séu rangar.
Stefndi hefur ekki leitt líkur að því að stefnandi hafi átt kost á því að takmarka tjón sitt með einhverjum hætti. Loks er ósannað að 30% auglýsingareikninga glatist þar sem þeir séu metnir „óinnheimtanlegir“ eða séu undir „auglýsingaverðgólfi“. Kemur því ekki til lækkunar kröfunnar vegna þessa.
Skaðabótakrafa stefnanda verður því dæmd eins og hún er sett fram. Vaxtakröfu er ekki mótmælt. Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 2.306.082 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2010 til 9. október 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Enn fremur verður hann dæmdur til að greiða 800.000 krónur í málskostnað. Er þá litið til þess að málið var flutt sérstaklega um frávísunarkröfu stefnda, sem var hafnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði stefnanda, Ástu Kristínu Bjartmars Santos, 2.306.082 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2010 til 9. október 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011.
Mál þetta höfðaði Ásta Kristín Bjartmars Santos, kt. 260783-5809, Fljótaseli 3, Reykjavík, með stefnu birtri 7. september 2010 á hendur Birtingi útgáfufélagi ehf., kt. 620869-0129, Lynghálsi 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst greiðslu á 2.306.082 krónum auk vaxta og dráttarvaxta og málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega frávísunar, og var málið tekið til úrskurðar um þá kröfu 5. janúar sl. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað.
Í stefnu er því lýst að Fótspor ehf. hafi með verksamningi 30. janúar 2007 tekið að sér sölu auglýsinga í tvö tímarit stefnda. Samningurinn hafi verið ótímabundinn, en með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Stefnandi kveðst hafa samið við stefnda um yfirtöku samningsins 29. september 2007, þannig að hún yrði verktaki í stað Fótspora ehf. Breytingar hafi ekki verið gerðar á skilmálum að öðru leyti, en þó hafi einu tímariti til viðbótar verið bætt við verkefnalistann. Stefnandi nefnir að tiltekinn starfsmaður stefnda hafi 29. desember 2008 sent henni ákvöð um nýja samningsskilmála, sem hún hafi ekki gert athugasemd við.
Stefnanda var tilkynnt um uppsögn samnings aðila með bréfi 31. mars 2010. Var ekki óskað eftir frekara vinnuframlagi.
Málsástæður stefnda fyrir frávísunarkröfu
Stefndi segir að stefnandi byggi fjárkröfu sína á einhliða útreikningi á sölu auglýsinga á tilteknu tímabili. Kveðst stefndi mótmæla þessum útreikningum. Engin gögn fylgi. Þá mótmælir stefndi því að samningur sinn við Fótspor hafi gilt í skiptum sínum við stefnanda, eins og hún virðist byggja á. Kveðst stefndi ekki hafa getað framselt réttindi Fótspora ehf. til stefnanda. Stefndi segir að óvottað framsalsskjal sé ekki næg sönnun. Blað þetta sé undirritað af starfsmanni sem ekki hafi haft til þess heimild. Þá hafi ekki verið farið eftir þessum samningi. Þar sem stefnandi byggi kröfur á samningi sem ekki hafi gilt milli aðila, sé málið vanreifað og málatilbúnaður óljós og villandi.
Þá segir stefndi að ekki sé rökstutt hvers vegna stefnandi eigi rétt á efndabótum. Ekki hafi verið kveðið á um fastar greiðslur og ekki hafi átt að koma til greiðslna á svokölluðum uppsagnarfresti.
Þá sé ekki tekið tillit til frádráttar í kröfugerð stefnanda, en venja hafi verið í skiptum aðila að draga frá sölulaun vegna reikninga sem ekki höfðu innheimst. Því sé krafan ekki rétt úr garði gerð og ekki í samræmi við þann samning sem stefnandi byggi á.
Stefndi vísar til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglunnar um skýran og afdráttarlausan málatilbúnað.
Stefnandi mótmælir því að gallar séu á málatilbúnaði sínum. Skýrt sé nákvæmlega í stefnu að byggt sé á samningi sem hafi verið framseldur til stefnanda. Þá sé byggt skýrlega á því að stefnanda hafi verið gert ókleift að vinna í umsömdum uppsagnarfresti. Þá sé nægilegt að leggja fram yfirlit um sölulaun á fyrri tíma, ekki sé nauðsynlegt að leggja fram frumrit allra reikninga. Sé þetta alsiða. Vilji stefndi sjá einhverja reikninga geti hann skorað á sig að leggja þá fram.
Niðurstaða
Stefnandi krefst efndabóta, fjárhæðar er svari til þeirra sölulauna sem hún telur að hún hefði unnið fyrir næstu þrjá mánuði frá því að stefndi sagði samningi aðila upp. Er þetta alveg augljóst af lestri stefnunnar. Þá er augljóst að byggt er á því að samið hafi verið um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Stefnandi vísar til reynslu af fyrri tímabilum til að grundvalla fjárhæð kröfu sinnar.
Röksemdir stefnda fyrir frávísunarkröfu lúta í raun allar að efni málsins. Krafan og grundvöllur hennar er skýrt reifuð í stefnu og fram lögðum gögnum. Upplýsingar um ógreidda reikninga fyrir auglýsingar ættu að finnast í bókhaldi stefnda, sem stefnandi hefur sennilega ekki aðgang að. Stendur upp á stefnda að gera grein fyrir þeim atriðum sem geta orðið til þess að lækka kröfu stefnanda.
Verður samkvæmt framansögðu að hafna frávísunarkröfu stefnda. Um málskostnað verður fjallað við endanlega afgreiðslu málsins.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Frávísunarkröfu stefnda er hafnað.