Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-26

Logis lögmenn ehf. (Höskuldur Þór Þórhallsson lögmaður)
gegn
Joseph Ligouri Cheek (Guðmundur H. Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótakrafa
  • Uppsögn
  • Málskostnaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 2. mars 2023 leita Logis lögmenn ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. febrúar 2023 í máli nr. 437/2021: Logis lögmenn ehf. gegn Joseph Ligouri Cheek. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta á rætur að rekja til þess að gagnaðili sagði upp starfi sínu hjá Norðurslóðagáttinni ehf. og lýtur ágreiningur aðila að skaðabótakröfu á hendur gagnaðila vegna uppsagnarinnar.

4. Gagnaðili höfðaði fyrst mál á hendur fyrrum vinnuveitanda sínum, Norðurslóðagáttinni ehf. og krafðist vangoldinna launa og launatengdra gjalda. Norðurslóðagáttin ehf. höfðaði í kjölfarið gagnsök á hendur honum og krafði hann um skaðabætur á þeim grundvelli að uppsögn hans hefði verið ólögmæt og hann ekki unnið út sex mánaða samningsbundinn uppsagnarfrest.

5. Bú Norðurslóðagáttarinnar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta undir rekstri málsins í héraði og samþykkti skiptastjóri búsins að leyfisbeiðanda væri heimilt að halda uppi hagsmunum þess í eigin nafni, á eigin kostnað og þrotabúinu til hagsbóta, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfu gagnaðila um vangoldin laun og launatengd gjöld var vísað frá héraðsdómi en málið rekið áfram um skaðabótakröfu Norðurslóðagáttarinnar ehf. á hendur gagnaðila. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda staðfest. Landsréttur vísaði til þess að gagnaðili hefði sagt upp starfi sínu með tölvupósti og um ástæðu uppsagnarinnar hefði hann einkum vísað til vanefnda félagsins á greiðslu launa. Í póstinum segði jafnframt að eftir að hafa ráðfært sig við lögmann sinn og verkalýðsfélag teldi gagnaðili sér ekki skylt að vinna út samningsbundinn uppsagnarfrest. Í dómi Landsréttar kemur fram að lögmaður leyfisbeiðanda hafi staðfest að óumdeilt væri að af hálfu Norðurslóðagáttarinnar ehf. hefði ekki verið brugðist við þessari afstöðu gagnaðila fyrr en undir rekstri dómsmálsins í héraði. Var leyfisbeiðandi látinn bera hallann af því að ekki hefði verið skorað á gagnaðila að vinna út uppsagnarfrestinn. Talið var að gagnaðila hefði verið rétt að líta svo á að samþykkt hefði verið að honum væri það ekki skylt.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum um meginreglur um réttindi og skyldur launþega og atvinnurekanda á vinnumarkaði og um gagnkvæmar skyldur í ráðningarsambandi. Jafnframt hafi niðurstaða um ákvörðun málskostnaðar verulegt almennt gildi en leyfisbeiðanda hafi aðeins verið dæmdur lítill hluti þess málskostnaðar sem krafist var í málinu þrátt fyrir að gagnaðili hafi stofnað til málarekstrarins en málinu verið vísað frá vegna formgalla sem hann hefði á einfaldan hátt getað bætt úr. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þá sé niðurstaða um málskostnað í andstöðu við 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Enn fremur hafi leyfisbeiðandi gert kröfu um að umboðsmenn gagnaðila yrðu dæmdir einir eða sameiginlega með honum til greiðslu málskostnaðar vegna aðalsakar í héraði á grundvelli 4. mgr. 131. gr. laga nr. 19/1991 en um þá kröfu hafi ekki verið fjallað í héraðsdómi og því bersýnilega rangt af Landsrétti að vísa málinu ekki heim í hérað af þeim sökum.

7. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.