Hæstiréttur íslands
Mál nr. 850/2017
Lykilorð
- Málskostnaðartrygging
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2017 og krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum stefnda. Þá krafðist hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krafðist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt var krafa um gjaldþrotaskipti á búi áfrýjanda tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 8. mars 2018. Af því tilefni krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu og áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir tryggingunni sem ákveðin var 600.000 krónur. Sú trygging hefur ekki verið sett, en bú áfrýjanda mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2018. Ber því samkvæmt 3. mgr. 133. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjandi, Karl Wernersson, greiði stefnda, þrotabúi Háttar ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2017.
Mál þetta, sem var dómtekið 15. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Háttar ehf., Hlíðasmára 6, Kópavogi, á hendur Karli Emil Wernerssyni, Engihlíð 9, Reykjavík, með stefnu birtri 28. mars 2017.
Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum af reikningum Háttar ehf., nr. 0301-26-7108 hjá Arion banka hf. og nr. 0515-14-400969 hjá Íslandsbanka hf., inn á reikninga stefnda á tímabilinu 19. júní 2009 til 27. mars 2012, samtals að fjárhæð 46.979.000 kr.:
|
Af reikningi nr. 0301-26-7108: |
|
||
|
Dags. |
Upphæð |
|
|
|
19. júní 2009 |
4.000.000 kr. |
|
|
|
24. mars 2010 |
500.000 kr. |
|
|
|
Af reikningi nr. 0515-14-400969 |
|
||
|
Dags. |
Upphæð |
|
|
|
14. október 2010 |
3.000.000 kr. |
|
|
|
26. maí 2011 |
10.600.000 kr. |
|
|
|
5. júlí 2011 |
180.000 kr. |
|
|
|
26. júlí 2011 |
400.000 kr. |
|
|
|
2. ágúst 2011 |
1.000.000 kr. |
|
|
|
16. ágúst 2011 |
2.500.000 kr. |
|
|
|
1. september 2011 |
5.900.000 kr. |
|
|
|
13. september 2011 |
2.000.000 kr. |
|
|
|
13. október 2011 |
3.200.000 kr. |
|
|
|
18. október 2011 |
6.200.000 kr. |
|
|
|
17. nóvember 2011 |
2.319.000 kr. |
|
|
|
29. desember 2011 |
400.000 kr. |
|
|
|
29. desember 2011 |
600.000 kr. |
|
|
|
29. desember 2011 |
1.900.000 kr. |
|
|
|
3. janúar 2012 |
600.000 kr. |
|
|
|
16. janúar 2012 |
600.000 kr. |
|
|
|
9. mars 2012 |
550.000 kr. |
|
|
|
27. mars 2012 |
530.000 kr. |
|
|
Þess er einnig krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 46.979.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2013 til greiðsludags.
Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Upphaflega gerði stefndi þá kröfu aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði dómsins 6. september sl. var þeirri kröfu hafnað.
I
Háttur ehf. var eignarhaldsfélag, stofnað árið 2005. Stefndi var eini hluthafi félagsins, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Tilgangur félagsins var kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti og skyldur rekstur.
Hinn 6. apríl 2011, krafðist Arion banki hf. þess að bú Háttar ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði dómsins 18. nóvember 2011 var fallist á þá kröfu. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands sem felldi hann úr gildi með dómi 19. desember 2011 í máli nr. 643/2011. Hinn 16. janúar 2012, fór Arion banki hf. fram á það á nýjan leik að bú Háttar ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði dómsins 12. júlí 2012 var fallist á þá kröfu. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Jóhann Baldursson hdl. var skipaður skiptastjóri þrotabúsins en Helgi Birgisson hrl. hefur tekið við því starfi. Innköllun til kröfuhafa var birt í Lögbirtingablaði 7. ágúst 2012. Í innkölluninni var frestdagur við skiptin tilgreindur 16. janúar 2012. Stefnandi kveður það vera misritun. Frestdagur sé 6. apríl 2011. Um þetta er ágreiningur í málinu.
Stefndi kveður að lánsfjármögnun Háttar ehf. hafi einkum verið tvenns konar, annars vegar hafi stefndi lánað félaginu fé, hins vegar hafi félagið fengið fé að láni frá Kaupþingi banka hf., sem síðar voru færð yfir til Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Lánsfjármögnun bankans var að sögn stefnda annars vegar í formi lánssamnings, dags. 2. apríl 2007, þar sem fasteignir Háttar ehf. að Síðumúla 20 og 22 í Reykjavík voru settar að veði, og hins vegar í formi nokkurra skuldabréfa með veði í ýmsum eignum.
Með kaupsamningi 10. apríl 2007 keypti Háttur ehf. alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. á 525.000.000 kr. Samkvæmt samningnum átti að greiða 225.000.000 kr. við afhendingu hins selda en sex mánuðum síðar átti að greiða 300.000.000 kr. Ekki er um það deilt að stefndi lánaði Hætti ehf. samtals 395.000.000 kr. til að fjármagna þessi kaup, annars vegar með því að stefndi greiddi seljanda 225.000.000 kr., hins vegar með því að stefndi lagði 170.000.000 kr. inn á bankareikning félagsins 4. janúar 2008. Í tilefni þessara lánveitinga mun Háttur ehf. hafa gefið út tvö veðskuldabréf til stefnda, annars vegar 2. júní 2007 að fjárhæð 225.000.000 kr., hins vegar 2. janúar 2008 að fjárhæð 170.000.000 kr. Samkvæmt ljósritum af veðskuldabréfunum voru þau á gjalddaga 1. desember 2010 og voru stefnda settir að veði allir eignarhlutar í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Umrædd veðskuldabréf munu vera glötuð. Með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2014 voru umrædd veðskuldabréf ógilt að kröfu stefnda.
Hinn 16. júní 2010 höfðaði Arion banki hf. mál á hendur Hætti ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þess var krafist að félagið yrði dæmt til að greiða bankanum tilteknar fjárhæðir í svissneskum frönkum og japönskum jenum og var krafan byggð á umræddum lánssamningi frá 2. apríl 2007. Með úrskurði dómsins 13. desember 2011 var málinu vísað frá á þeirri forsendu að lántaka Háttar ehf. hefði í reynd verið í íslenskum krónum en höfuðstóll lánsins skyldi breytast miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Væri málið ekki reifað af hálfu bankans með tilliti til þessa og vegna þessa annmarka yrði að vísa málinu frá dómi. Með dómi Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 var úrskurðurinn felldur úr gildi, með vísan til þess að lánssamingurinn væri um lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum.
Háttur ehf. og stefndi gerðu með sér samkomulag um skuldauppgjör, dags. 15. september 2011. Í samkomulaginu er rakið að Háttur ehf. skuldi stefnda 610.353.990 kr. samkvæmt veðskuldabréfunum. Þar sem veðskuldin ásamt vöxtum hafi ekki verið greidd á gjalddaga hafi stefndi gjaldfellt skuldina og gengið að veðinu með vísan til tiltekins ákvæðis í veðskuldabréfunum. Það sé sameiginlegt mat Háttar ehf. og stefnda að rekstur og eignir Hrossaræktarbúsins Fets ehf. séu að virði 400.000.000 kr., að frádregnum skuldum. Aðilarnir hafi gert með sér samkomulag um að útistandandi skuld að fjárhæð 210.353.990 kr. verði greidd með einni greiðslu eigi síðar en 31. desember 2013, verði ekki um annað samið. Stefndi lýsti kröfu við skipti á þrotabúi Háttar ehf. á grundvelli m.a. þessara veðskuldabréfa og er í kröfulýsingunni vísað til fyrrnefnds samkomulags frá 15. september 2011.
Hinn 2. apríl 2013 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda til að fá rift ráðstöfun Háttar ehf. samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi um skuldauppgjör. Með dómi Hæstaréttar 24. nóvember 2016 í máli nr. 839/2015 var málinu vísað frá héraðsdómi. Hinn 5. apríl 2013 höfðaði stefnandi annað mál á hendur stefnda til riftunar á sömu ráðstöfunum og krafist er riftunar á í máli þessu. Með dómi Hæstaréttar 16. mars 2017 í máli nr. 430/2016 var málinu vísað frá héraðsdómi.
II
Stefnandi fullyrðir að frestdagur við skipti á þrotabúi Háttar ehf. sé 6. apríl 2011. Stefnandi telur að stefndi sé nákominn þrotamanni í skilningi 4. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Stefnandi byggir á því að þremur greiðslum sem inntar voru af hendi fyrir 6. apríl 2011, annars vegar af reikningi nr. 0301-26-7108, dags. 19. júní 2009 að fjárhæð 4.000.000 kr. og 24. mars 2010 að fjárhæð 500.000 kr. og hins vegar af reikningi nr. 0515-14-400969, dags. 14. október 2010 að fjárhæð 3.000.000 kr., beri að rifta á grundvelli 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslurnar hafi farið fram fyrir gjalddaga veðskuldabréfanna 1. desember 2010 og því fyrr en eðlilegt var og innan 24 mánaða fyrir frestdag. Því beri að rifta þeim. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að greiðslurnar hafi virst „venjulegar eftir atvikum“. Vegna þeirra tveggja greiðslna sem séu innan framlengds frest 2. mgr. 134. gr. sé á því byggt að Háttur ehf. hafi verið ógjaldfær þegar þær fóru fram, en sönnunarbyrðin um gjaldfærni hvíli á stefnda.
Þær 17 greiðslur sem farið hafi fram eftir 6. apríl 2011 hafi verið stefnda til hagsbóta og því séu uppfyllt skilyrði riftunar samkvæmt 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi hafi eingöngu haldið því fram að fyrsta undantekning ákvæðisins eigi við, þ.e. að krafa hans hefði greiðst við gjaldþrotaskiptin vegna rétthæðar hennar sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. sömu laga. Það sé alrangt. Þegar stefndi hafi leyst til sín veðið hafi heildarkrafan samkvæmt útreikningi hans numið 610.353.990 kr. og hafi hann reiknað kröfurnar miðað við að ekkert hefði verið greitt upp í þær. Eftir hafi þá staðið ógreiddar 210.353.990 kr., sem hefðu verið almenn krafa í þrotabúið. Ljóst sé að umræddar greiðslur hafi gengið til lækkunar á þeim hluta kröfunnar sem ekki fékkst greiddur af veðinu. Greiðslurnar hafi valdið stefnanda tjóni, enda hafi fyrir vikið verið minna til skiptanna með kröfuhöfum.
Endurgreiðslukrafa stefnanda vegna riftunar á grundvelli 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé byggð á 1. mgr. 142. gr. laganna. Endurgreiðslukrafa vegna riftunar á grundvelli 139. og 141. gr. laganna fari samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laganna.
III
Stefndi byggir á því í fyrsta lagi að lögbundinn frestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. til að höfða mál þetta sé liðinn. Málið sé höfðað rúmum fjórum árum eftir að fresturinn rann út. Stefnandi geti ekki í kjölfar frávísunar fyrra máls höfðað nýtt mál á öðrum lagagrundvelli, þótt það taki til sömu atvika. Yrði fallist á það væri hinn lögbundni sex mánaða frestur í raun þýðingarlaus, enda gæti skiptastjóri þá höfðað riftunarmál án sérstakrar afmörkunar málatilbúnaðar til þess eins að lengja þann frest sem hann hefði til að knýja fram riftun. Beita megi ákvæði 22. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, eins og það hafi verið túlkað af dómstólum með lögjöfnun um ákvæði 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., enda öll skilyrði lögjöfnunar uppfyllt.
Krafa um riftun á þremur greiðslum sem inntar voru af hendi fyrir ætlaðan frestdag sé einungis byggð á því að þær hafi farið fram fyrr en eðilegt hafi verið samkvæmt 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig byggi stefnandi á því að rifta beri tveimur af þessum þremur greiðslum, annars vegar greiðslu að fjárhæð 4.000.000 kr. þann 19. júní 2009 og hins vegar greiðslu að fjárhæð 500.000 kr. þann 24. mars 2010, með vísan til 2. mgr. 134. gr. laganna, þar sem stefndi og Háttur ehf. teljist hafa verið nákomnir í skilningi greinarinnar. Ekki hafi verið byggt á þessum málsástæðum í fyrra máli stefnanda og sé þeim mótmælt sem of seint fram komnum.
Stefndi hafnar því einnig að fyrrnefndar greiðslur teljist hafa verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var. Háttur ehf. hafi skuldað stefnda háar fjárhæðir á þessum tíma í formi viðskiptaskulda sem hafi verið gjaldfallnar að stærstum hluta. Greiðsla skuldara til aðila sem hafi haldið á háum gjaldföllnum fjárkröfum á hendur skuldaranum á sama tíma, geti ekki talist vera innt af hendi fyrr en eðlilegt sé.
Stefnandi byggi á því að frestdagur við gjaldþrotaskiptin sé 6. apríl 2011. Eins og mál þetta sé vaxið verði þeim degi ekki beitt gagnvart stefnda, heldur 16. janúar 2012. Ákvæði 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. byggi á þeirri forsendu að eftir að fram komi beiðnir um heimild til greiðslustöðvunar, leitun nauðasamninga, eða krafa um gjaldþrotaskipti, megi öllum vera ljóst í hvað stefni. Lög um gjaldþrotaskipti o.fl. byggi á þeirri grundvallarreglu að eftir frestdag eigi skuldarinn að halda að sér höndum og nær ekkert aðhafast. Meginreglan byggi á því að almennt líði mjög skammur tími frá því slík krafa komi fram þar til bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta. Í þessu máli hafi yfir 15 mánuðir liðið frá þeim frestdegi sem byggt sé á í stefnu, þar til bú Háttar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Við slíkar aðstæður sé ótækt að miða frestdag við það tímamark. Ógerningur sé að reka félag í fullum rekstri í yfir ár eftir reglum 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Skiptastjóri stefnanda hafi byggt á því í innköllun, sem birt hafi verið tvívegis í Lögbirtingablaðinu, að frestdagur væri 16. janúar 2012. Skiptastjóri hafi fullt forræði á búinu og geti skuldbundið það með yfirlýsingum sínum. Í innköllun hafi falist yfirlýsing skiptastjóra um frestdag sem sé skuldbindandi fyrir stefnanda, a.m.k. gagnvart kröfuhöfum, þar á meðal stefnda. Hafi sú yfirlýsing aldrei verið leiðrétt. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfu um riftun þeirra 15 greiðslna sem áttu sér stað fyrir 16. janúar 2012.
Stefndi hafnar því jafnframt að skilyrði 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt. Stefndi hafi átt gjaldfallnar veðkröfur á hendur Hætti ehf. á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi. Einu gildi þótt stefndi hafi ekki tekið tillit til þeirra við uppreikning kröfu sinnar þann 15. september 2011. Líta verði svo á að greiðslur frá skuldara til kröfuhafa sem eigi gjaldfallnar kröfur, teljist greiðsla upp í þær kröfur, þar til hið gagnstæða sannist. Stefnandi hafi engin rök fært fyrir öðru en að um greiðslur upp í þær kröfur hafi verið að ræða. Þar sem greiðslurnar hafi verið inntar af hendi upp í veðkröfur eigi undantekningarregla 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við og greiðslurnar séu því ekki riftanlegar.
Stefndi mótmælir endurgreiðslukröfu stefnanda. Sú krafa sé sjálfstæð krafa og sé fyrnd, hvort sem hún verði talin falla undir 3. eða 9. gr. laga nr. 150/2007. Þó að fyrning hafi verið rofin með fyrri málsókn haldi það ekki gagnvart málsókn þessari þar sem hún byggi á öðrum lagagrundvelli, sbr. 22. gr. laganna.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Ekki fái staðist að reikna dráttarvexti frá fyrri málshöfðun, enda hafi sú krafa sem þar var gerð verið með öllu vanreifuð, auk þess sem endurgreiðslukrafa þess máls hafi verið mun hærri en riftunarkrafan. Ætlaður réttur stefnanda sé svo á reiki að engin efni séu til að reikna dráttarvexti frá því fyrir dómsuppsögu, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, eða í fyrsta lagi frá höfðun þessa máls, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., skal höfða dómsmál til riftunar áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna, en fresturinn byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Stefnandi hafði áður höfðað mál á hendur stefnda 5. apríl 2013 þar sem krafist var riftunar á þeim peningagreiðslum sem mál þetta tekur til, og að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð með nánar tilteknum dráttarvöxtum. Ekki er ágreiningur um að það mál var höfðað innan þessa frests. Með dómi Hæstaréttar Íslands 16. mars sl. í máli nr. 430/2016 var því máli vísað frá héraðsdómi.
Í 1. mgr. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki sérstaklega mælt fyrir um frest til að höfða riftunarmál öðru sinni ef upphaflegu máli, sem höfðað er í tæka tíð, hefur verið vísað frá dómi eða það verið fellt niður. Í dómi Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 257/2003 var því slegið föstu að við frávísun eða niðurfellingu máls, sem þrotabú hefur höfðað til riftunar á ráðstöfun þrotamanns, hefjist aftur sex mánaða frestur handa því til að höfða nýtt mál í sama skyni. Þetta mál er höfðað til að knýja fram riftun á peningagreiðslum sem einnig var gerð krafa um riftun á í hinu fyrra máli. Er þetta mál því höfðað í sama skyni og fyrra málið. Getur ekki skipti máli þótt í þessu máli sé byggt á öðrum málsástæðum en í fyrra málinu. Þetta mál var höfðað 28. mars sl., innan sex mánaða frá frávísun fyrra málsins. Er þetta mál því höfðað innan hins lögbundna málshöfðunarfrests.
Aðila málsins greinir á um hvaða dagur sé frestdagur við skipti á þrotabúi Háttar ehf. Stefnandi byggir á því að það sé 6. apríl 2011, er krafa Arion banka hf. um töku bús Háttar ehf. til gjaldþrotaskipta barst dóminum. Stefndi telur hins vegar að frestdagur sé 16. janúar 2012, en sú dagsetning var tilgreind í innköllun sem birt var í Lögbirtingablaði. Í 1. mgr. 85. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er mælt fyrir um að skiptastjóri skuli án tafar eftir skipun sína gefa út og fá birta innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna þar sem m.a. skal koma fram hver frestdagur sé við gjaldþrotaskiptin. Skal innköllun birt tvívegis í Lögbirtingablaði. Í ákvæðinu er ekki tekin bein afstaða til þess ef frestdagur er ekki réttilega tilgreindur í innköllun.
Ákvæði um frestdag koma fram í 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. telst frestdagur sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir lögunum. Komi fleiri en einn þessara daga til álita teljist sá fyrsti þeirra frestdagur, sbr. þó ákvæði 2. til 4. mgr. Í 4. mgr. 2. gr. segir að sá dagur sem héraðsdómara berist krafa um gjaldþrotaskipti teljist frestdagur, þótt krafan sé afturkölluð eða henni hafnað, ef honum berst ný krafa um gjaldþrotaskipti, eða beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings innan mánaðar frá því það gerðist.
Þessi ákvæði 1. og 4. mgr. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eru skýr og gefa ekki tilefni til annarrar túlkunar en eftir orðanna hljóðan. Frestdagur ræðst samkvæmt þessum ákvæðum alfarið af því hvenær beiðni eða krafa berst héraðsdómara og er það ekki á forræði dómara eða skiptastjóra að ákveða frestdag, sbr. dóm Hæstaréttar 28. ágúst sl. í máli nr. 437/2017. Engin heimild er til staðar í þessum ákvæðum til þess að víkja frá afmörkun þeirra á frestdegi vegna þess tíma sem líður frá því beiðni eða krafa berst héraðsdómara og þar til hún er tekin til greina með úrskurði héraðsdómara eða dómi Hæstaréttar. Röng tilgreining frestdags í innköllun skiptastjóra getur ekki vikið til hliðar hinum rétta frestdegi, jafnvel þótt skiptastjóri hafi ekki birt leiðréttingu í Lögbirtingablaði, svo sem honum hefði verið rétt. Upphafleg krafa um töku bús Háttar ehf. til gjaldþrotaskipta barst dóminum 6. apríl 2011. Þeirri kröfu var hafnað með dómi Hæstaréttar 19. desember 2011 í máli nr. 643/2011. Með bréfi, sem barst dóminum 16. janúar 2012, fór Arion banki hf. fram á það á nýjan leik að bú Háttar ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var sú krafa tekin til greina með úrskurði dómsins. Krafa bankans barst þannig innan mánaðar frá því fyrri kröfu hans var hafnað og af 4. mgr. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. leiðir því að frestdagur telst vera 6. apríl 2011.
Þær málsástæður stefnanda sem stefndi telur að séu of seint fram komnar eru settar fram í stefnu málsins. Eru þær því ekki of seint fram komnar, enda hefur frávísun máls hvorki þau réttaráhrif að ekki megi höfða að nýju mál um sömu kröfur, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, né eru skorður lagðar við því að í slíku máli séu hafðar uppi nýjar málsástæður.
Stefnandi byggir á því að rifta beri þremur greiðslum, sem inntar voru af hendi 19. júní 2009, 24. mars 2010 og 14. október 2010, samtals að fjárhæð 7.500.000 kr., með vísan til 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslan 14. október 2010 fór fram innan sex mánaða fyrir frestdag. Sú greiðsla var innborgun inn á skuld samkvæmt tveimur veðskuldabréfum, sem áður er lýst, og var innt af hendi fyrir gjalddaga bréfanna 1. desember 2010. Fór þessi greiðsla því fram fyrr en eðlilegt var. Greiðslan gat ekki talist venjuleg eftir atvikum þótt stefndi hafi átt aðrar gjaldfallnar kröfur á hendur Hætti ehf., enda var greiðslan ekki innborgun inn á þær kröfur. Verður krafa um riftun þessarar greiðslu því tekin til greina.
Óumdeilt er að stefndi var nákominn stefnanda samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslurnar 19. júní 2009 og 24. mars 2010 fóru fram innan 24 mánaða fyrir frestdag. Með sömu rökum og um greiðsluna 14. október 2010 er fallist á að þessar greiðslur hafi farið fram fyrr en eðlilegt var og að þær hafi ekki talist venjulegar eftir atvikum. Stefndi hefur ekki sannað að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna, en fyrir því ber hann sönnunarbyrði. Verður krafa um riftun þessara greiðslna því tekin til greina.
Stefnandi byggir á því að rifta beri 17 greiðslum sem inntar voru af hendi eftir 6. apríl 2011, með vísan til 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessar greiðslur fóru fram eftir frestdag. Greiðslurnar voru innborganir inn á skuld samkvæmt tveimur veðskuldabréfum, sem áður er lýst. Þegar stefndi gerði samkomulag við Hátt ehf. um skuldauppgjör 15. september 2011, sem áður er lýst, var krafa stefnda að fjárhæð 610.353.990 kr., en veðið sem stefndi leysti til sín var metið á 400.000.000 kr. Eftir stóðu þá 210.353.990 kr. Líta verður svo á að umræddar 17 greiðslur hafi verið inntar af hendi sem innborganir á þessar eftirstöðvar. Eftirstöðvarnar teldust vera almenn krafa í búið samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Er það í samræmi við kröfulýsingu stefnda, en þar var lýst almennri kröfu í þrotabú Háttar ehf. vegna þessara eftirstöðva. Stefndi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnanda að þessi skuld hefði ekki greiðst við gjaldþrotaskiptin. Verður krafa stefnanda um riftun þessara greiðslna því tekin til greina.
Verður þá fjallað um fjárkröfu stefnanda. Í 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er sett fram sú regla að fari riftun fram með stoð m.a. í 134. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins, nema honum hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar en þá skal hann greiða þrotabúinu tjónsbætur. Þá er tekið fram í 3. mgr. sömu greinar að fari riftun fram samkvæmt m.a. 139. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum. Ekki er tölulegur ágreiningur um fjárkröfu stefnanda, en stefndi byggir einungis á því að krafan sé fyrnd. Krafa stefnanda fyrnist á fjórum árum, sbr. 3. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Ekki er um það deilt að fyrning kröfunnar hafi verið rofin með fyrri málsókn stefnanda. Eins og áður er lýst var fyrra máli stefnanda vísað frá dómi 16. mars sl. Óháð því hvort fyrningarfrestur hafi þá verið liðinn var stefnanda heimilt eftir ákvæði 1. mgr. 22. gr. sömu laga að höfða nýtt mál innan sex mánaða. Í ákvæðinu eru engar skorður við því reistar að í nýju máli séu settar fram málsástæður sem ekki var hreyft í fyrra máli. Var fyrning því rofin með þessari málsókn. Verður fjárkrafa stefnanda því tekin til greina.
Í fyrra máli stefnanda var krafist riftunar á þeim greiðslum sem mál þetta er höfðað til riftunar á. Verður dráttarvaxtakrafa stefnanda því tekin til greina.
Með vísan til þess sem að framan greinir er fallist á dómkröfu stefnanda eins og hún er sett fram. Í samræmi við 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Rift er eftirtöldum peningagreiðslum Háttar ehf. til stefnda, Karls Emils Wernerssonar sem fram fóru:
19. júní 2009 að fjárhæð 4.000.000 kr.,
24. mars 2010 að fjárhæð 500.000 kr.,
14. október 2010 að fjárhæð 3.000.000 kr.,
26. maí 2011 að fjárhæð 10.600.000 kr.,
5. júlí 2011 að fjárhæð 180.000 kr.,
26. júlí 2011 að fjárhæð 400.000 kr.,
2. ágúst 2011 að fjárhæð 1.000.000 kr.,
16. ágúst 2011 að fjárhæð 2.500.000 kr.,
1. september 2011 að fjárhæð 5.900.000 kr.,
13. september 2011 að fjárhæð 2.000.000 kr.,
13. október 2011 að fjárhæð 3.200.000 kr.,
18. október 2011 að fjárhæð 6.200.000 kr.,
17. nóvember 2011 að fjárhæð 2.319.000 kr.,
29. desember 2011 að fjárhæð 400.000 kr.,
29. desember 2011 að fjárhæð 600.000 kr.,
29. desember 2011 að fjárhæð 1.900.000 kr.,
3. janúar 2012 að fjárhæð 600.000 kr.,
16. janúar 2012 að fjárhæð 600.000 kr.,
9. mars 2012 að fjárhæð 550.000 kr.,
27. mars 2012 að fjárhæð 530.000 kr.
Stefndi greiði stefnanda 46.979.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2013 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 kr. í málskostnað.