Hæstiréttur íslands
Mál nr. 364/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Dánarbú
- Erfðaskrá
- Tómlæti
|
|
Föstudaginn 7. júní 2013. |
|
Nr. 364/2013.
|
A (Eiríkur Elís Þorláksson hrl.) gegn B C D og (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) E (Hlynur Halldórsson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Dánarbú. Erfðaskrá. Tómlæti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum A eru lutu að því að ákvæði í erfðaskrá skyldu ekki lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi móður aðila. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði haft tilefni til að andmæla ákvæðum erfðaskrárinnar á tilteknum skiptafundi en andmæli hennar hefðu ekki komið fram fyrr en skiptin voru langt á veg komin eða rúmum þremur árum eftir umræddan fund. Með því tómlæti þótti A hafa fyrirgert rétti sínum til að vefengja erfðaskrána að því leyti. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2013 þar sem ákveðið var að fyrirmæli í erfðaskrá F frá 8. apríl 1998 skyldu lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar, þannig að verðmæti fasteignar að [...] kæmi til frádráttar arfi sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að verðmæti sem nemi fasteignarmati íbúðar að [...], með fastanúmerið [...], komi ekki til frádráttar á arfshlut sóknarhluta við opinber skipti dánarbúsins. Til vara er þess krafist að til frádráttar fasteignamati íbúðarinnar komi greiðsla sóknaraðila að fjárhæð 6.500.000 krónur framreiknað til verðlags frá greiðsludögum til þess tíma sem frádráttur á sér stað við skiptin. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerði F, móðir málsaðila, erfðaskrá 8. apríl 1998, en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, G, föður þeirra. Í erfðaskránni kom fram að sóknaraðili og einn af varnaraðilum hefðu fengið fjárhagslegan stuðning umfram systkini sín. Að því er varðar sóknaraðila hefði hún fengið íbúð að [...], en þágildandi fasteignamat hennar hefði numið 6.202.000 krónum. Í erfðaskránni lýsti arfláti yfir þeim vilja sínum, svo jöfnuður ríkti milli barna þeirra hjóna og með skírskotun til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að virða skyldi til frádráttar á arfi fyrrgreindra tveggja erfingja það sem þau hefðu fengið. Við þann frádrátt gagnvart sóknaraðila skyldi miða við fasteignamat íbúðarinnar þegar skiptin færu fram.
Hinn 24. desember 2008 andaðist móðir málsaðila og var bú hennar tekið til opinberra skipta 2. febrúar 2009. Með tölvubréfi 19. mars sama ár var lögmönnum aðila send fyrrgreind erfðaskrá og þess farið á leit að athugasemdum við hana yrði komið á framfæri hið fyrsta. Skiptafundur í dánarbúinu var haldinn 1. júlí 2009 og á þann fund mætti sóknaraðili ásamt lögmanni sínum. Í fundargerð frá þeim fundi sagði að skiptastjóri hefði borið undir þá sem mættir voru hvort ágreiningur væri um erfðaskrána og að hún yrði lögð til grundvallar við skipti búsins. Var tekið fram í fundargerðinni að engin andmæli hefðu verið höfð uppi af þessu tilefni. Með bréfi lögmanns sóknaraðila 12. júlí 2012 var því aftur á móti andmælt að sóknaraðili þyrfti að sæta þeim frádrætti sem gert væri ráð fyrir í erfðaskránni.
Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að hún hafi keypt íbúðina með kaupsamningi 27. desember 1996 og fengið fyrir henni afsal 20. janúar 1997. Umsamið kaupverð hafi verið 6.500.000 krónur og hafi það verið að fullu greitt á árinu 2000. Af þessum sökum verði ekki lögð til grundvallar fyrirmæli í erfðaskránni um frádrátt vegna eignar sem sóknaraðili hafi ekki fengið í arf heldur greitt fyrir að fullu. Málsástæðum sóknaraðila er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt 47. gr. erfðalaga skulu andmæli gegn gildi erfðaskrár höfð uppi jafnfljótt og tilefni verður til. Þegar fjallað var um erfðaskrána á skiptafundi í dánarbúinu 1. júlí 2009, þar sem sóknaraðili var mætt ásamt lögmanni sínum, sem nokkru áður hafði fengið erfðaskrána senda, var beint tilefni fyrir hana til að andmæla ákvæði erfðaskrár um arfsfrádrátt vegna eignar sem hún heldur fram að hún hafi keypt og greitt löngu áður en arfláti andaðist. Þau andmæli komu fyrst fram með bréfi lögmanns hennar 12. júlí 2012 eða rúmum þremur árum eftir fyrrgreindan skiptafund, en ómótmælt er að skiptin voru þá langt á veg komin. Með þessu tómlæti hefur sóknaraðili fyrirgert rétti sínum til að vefengja erfðaskrána að þessu leyti. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, B, C, D og E, hverjum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2013.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 13. mars sl.
Sóknaraðili er A, [...].
Varnaraðilar eru B, með lögheimili [...], C, með lögheimili 8...], D, [...], og E, með lögheimili í [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru þessar:
Aðallega að viðurkennt verði að verðmæti, sem nema fasteignamati íbúðar að [...], með fastanúmerið [...], komi ekki til frádráttar á arfshlut sóknaraðila við opinber skipti á dánarbúi F, kt. [...],
Til vara að komi verðmæti, sem nema fasteignamati íbúðar að [...], með fastanúmerið [...], til frádráttar á arfshlut sóknaraðila við opinber skipti á dánarbúi F, kt. [...], að draga eigi frá greiðslur sóknaraðila að fjárhæð 6.500.000 krónur, framreiknað til verðlags frá greiðsludögum til þess tíma sem frádráttur á sér stað við arfskiptin.
Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila sameiginlega.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fyrirmæli í erfðaskrá F frá 8. apríl 1998 verði lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar, þannig að verðmæti fasteignar að [...]sem sóknaraðili fékk frá arfleifanda komi til frádráttar arfi sóknaraðila.
Varnaraðilar krefjast málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Málsatvik
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009 var dánarbú F, sem lést 24. desember 2008, tekið til opinberra skipta. Var Stefán Geir Þórisson hrl. skipaður skiptastjóri en við skiptum tók síðar Ólafur Örn Svansson hrl.
Hinn 8. apríl 1998 gerði hin látna erfðaskrá, en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, G. Málsaðilar eru öll börn þeirra.
Í 2. gr. erfðaskrárinnar er m.a. kveðið á um það að dóttir hinnar látnu, A, hafi fengið fjárhagslegan stuðning umfram systkini sín með því að fá íbúð að [...]. Tilgreint fasteignamat íbúðarinnar er 6.202.000 kr. Kveður arfleifandi það vilja sinn, svo að jöfnuður megi ríkja milli barnanna og með skírskotun til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að virða skuli A til frádráttar arfi fjárhæð sem nemur fasteignamati íbúðarinnar á þeim tíma sem skipti fara fram.
Með tölvupósti, dags. 19. mars 2009, til erfingja var þess óskað að hugsanlegum athugasemdum við erfðaskrá hinnar látnu yrði komið á framfæri við skiptastjóra hið fyrsta en viðlagt póstinum fylgdi afrit af erfðaskránni. Engar athugasemdir bárust skiptastjóra af því tilefni.
Hinn 1. júlí 2009 var haldinn skiptafundur í dánarbúinu. Í fundargerðinni er eftirfarandi bókað um efni erfðaskrárinnar:
Skiptastjóri hefur sent erfingjum búsins afrit af erfðaskrá hinnar látnu, dags. 8. apríl 1998. Skiptastjóri bar undir mættu hvort ágreiningur sé um erfðaskrána og að hún verði lögð til grundvallar við skipti á eignum búsins. Engin andmæli komu fram að því gefnu að ekki komi í ljós yngri erfðaskrá.
Hinn 12. júlí 2012 barst skiptastjóra bréf frá Helga Jóhannessyni hrl. f.h. A, þar sem á því er byggt að horfa skuli framhjá því ákvæði erfðaskrárinnar, sem varðar umrædda fasteign, þar sem hún hafi þegar verið búin að greiða kaupverðið þegar erfðaskráin var rituð. Bréfi þessu var svarað af skiptastjóra hinn 9. ágúst 2012. Þar er vísað til þess að erfðaskráin hafi verið borin undir sóknaraðila og lögmann hennar á skiptafundi 1. júlí 2009 og engar athugasemdir gerðar við hana. Fram kom sú afstaða skiptastjóra að sóknaraðili væri bundin af þeirri yfirlýsingu. Með bréfi Helga Jóhannessonar hrl. til skiptastjóra, dags. 14. ágúst 2012, var þess óskað að ágreiningi um þetta atriði yrði vísað til héraðsdóms.
Vegna ágreinings þessa var boðað til skiptafundar í dánarbúinu sem haldinn var hinn 24. ágúst 2012. Fundurinn var haldinn í þeirri viðleitni að jafna uppkominn ágreining og/eða leita afstöðu annarra erfingja til kröfunnar. Á fundinum var framangreindri kröfu A haldið til streitu en kröfunni er hafnað af hálfu annarra erfingja búsins.
Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort, við skipti á dánarbúi F skuli virða A til frádráttar á arfi fjárhæð sem nemur fasteignamati íbúðar við [...] í samræmi við fyrirmæli erfðaskrárinnar frá 8. apríl 1998. Telur A ákvæði erfðaskrárinnar byggjast á misskilningi þar sem hún hafi þegar verið búin að greiða fyrir íbúðina. Erfingjarnir B, C, D og E telja að við skipti á búinu skuli virða A til frádráttar fjárhæð sem nemur fasteignamati íbúðarinnar við [...] þegar skiptin fara fram, til samræmis við 2. gr. erfðaskrárinnar, auk þess sem á því sé byggt af þeirra hálfu að rangt sé að greitt hafi verið fyrir íbúðina.
Framangreindu ágreiningsefni erfingja var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. samkvæmt kröfu skiptastjóra, sem móttekin var 27. ágúst 2012.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili tekur fram fram að ágreiningur málsaðila felist í því að varnaraðilar telji að í hlut dánarbús hinnar látnu eigi að koma andvirði fasteignar, sem sóknaraðili hafi einsýnt greitt fyrir samkvæmt kaupsamningi og afsali. Markmið með kröfugerð sóknaraðila sé að sú afstaða varnaraðila nái ekki fram að ganga og að andvirði fasteignarinnar sé haldið utan skiptanna, enda að fullu greitt fyrir hana.
Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn aðallega á því að samkvæmt reglum eigna- og kröfuréttarins fái það ekki staðist að verðmæti, sem þegar hafi verið greitt fyrir og afsalað, komi til skipta. Þá sé í öðru lagi byggt á meginreglum kröfuréttarins um ólögmæta auðgun. Að því frágengnu sé byggt á því að ógilda verði erfðaskrána, annað hvort í heild eða að hluta.
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að hún hafi þegar greitt fyrir umrædda fasteign að [...]. Verði fallist á þau sjónarmið, sem varnaraðilar byggja afstöðu sína á, að ígildi fasteignamats eignarinnar fari undir skiptin á dánarbúi móður aðila málsins, þá fari það bersýnilega í andstöðu við meginreglur eigna- og kröfuréttarins. Sé engin sérstök þörf á að ógilda erfðaskrána svo komast megi að þeirri niðurstöðu. Eins og rakið verði sé byggt á því til vara að ógilda eigi erfðaskrána, í heild eða að hluta.
Sóknaraðili tekur fram að F og sóknaraðili hafi gert kaupsamning um fasteignina að [...] (fastanúmer [...]) sín á milli 20. desember 1996 þar sem F hafi selt sóknaraðila fasteignina. Kaupverð hafi verið 6.500.000 krónur sem skyldi greiðast þannig að 350.000 krónur væru greiddar við undirritun og eftirstöðvarnar 6.150.000 krónur „eftir nánara samkomulagi“.
Samkvæmt afsali, dags. 20. janúar 1997, hafi F afsalað til sóknaraðila tilgreindri íbúð að [...]. Komi fram að kaupverð eignarinnar væri að fullu greitt. Í því orðalagi að kaupverðið væri að fullu greitt hafi falist, eins og skattframtöl sóknaraðila og hinnar látnu beri með sér, að sóknaraðili hafi fengið lán fyrir íbúðinni frá seljandanum, móður sinni. Staðreyndin sé hins vegar sú að lánið hafi verið endurgreitt á árunum á eftir eins og rakið verði.
Samkvæmt framlögðum skattframtölum hinnar látnu árin 1996-2002 hafi sóknaraðili greitt eftirstöðvar kaupverðsins á árunum 1997-2000. Þannig komi fram í skattframtali vegna ársins 1996 að fasteignin hafi verið eign F en í skattframtali hennar 1997 vegna tekjuársins 1996, það ár sem kaupsamningur hafi verið gerður, komi fram undir liðnum „verðbréf, útistandandi kröfur, aðrar innstæður og bréf“ skuld sóknaraðila að fjárhæð 6.150.000 krónur, sem samrýmist eftirstöðvum kaupsamnings.
Í skattframtali 1998 vegna tekjuársins 1997 komi fram krafa á hendur sóknaraðila að fjárhæð 5.650.000 kr. Í skattframtali 1999 vegna tekjuársins 1998, það ár sem erfðaskráin, dags. 8. apríl 1998, var gerð komi fram krafa á sóknaraðila að fjárhæð 5.000.000 króna. Krafan hafi svo verið lækkuð í 3.000.000 króna í skattframtali 2000 vegna tekjuársins 1999 og í 100.000 kr. í framtalinu 2001. Kröfuna sé svo ekki að finna í skattframtali 2002.
Skattframtöl sóknaraðila 1997-2002, vegna tekjuáranna 1996-2000, samrýmast að öllu verulegu leyti því sem fram kom í framangreindum skattframtölum hinnar látnu.
Sóknaraðili byggir á því að með framlögðum skattframtölum sé sannað að greitt hafi verið fyrir íbúðina að öllu leyti. Verði skattframtöl hinnar látnu vart véfengd með neinum hætti og hvíli í öllu falli sönnunarbyrði á þeim, sem haldi því fram að upplýsingar í þeim séu rangar. Skattframtöl sóknaraðila séu í samræmi við það sem fram komi í framtölum F. Íbúðin að [...] hafi því verið réttmæt eign sóknaraðila og þannig vernduð af 72. gr. stjórnarskrárinnar, lögum nr. 33/1944.
Í þessu samhengi sé á það bent að það færi sýnilega í bága við vilja hinnar látnu, sem hafi komið skýrt fram í erfðaskránni frá 8. apríl 1998, að andvirði eignarinnar kæmi til skipta þó greitt hafi verið fyrir hana. Í erfðaskránni komi fram sá skýri vilji að erfingjar hinnar látnu, aðilar þessa máls, skyldu eiga jafnan rétt til arfs eftir foreldra sína. Vísast hér til 2. gr. erfðaskrárinnar þar sem viljinn að þessu leyti komi fram. Vilji arfleifanda hafi mikla þýðingu við ákvörðun um hvernig skipta eigi arfi eftir hann, sbr. meginreglur erfðaréttarins sem fram koma í erfðalögum nr. 8/1962 og leiða af óskráðum meginreglum réttarsviðsins.
Ef sú staða væri uppi að verðmæti fasteignarinnar að [...] kæmi til skipta við opinber skipti á dánarbúi F þá fælist í því að varnaraðilar auðguðust með ólögmætum hætti á kostnað sóknaraðila. Auðgun sé sönnuð með framlögðum skattframtölum, eins og fram sé komið. Auðgunin yrði á kostnað sóknaraðila og tengsl séu á milli auðgunarinnar og þeirrar skerðingar sem hún myndi leiða í garð sóknaraðila. Slík auðgun sé óheimil að lögum og verði því af þeirri ástæðu að fallast á aðalkröfu sóknaraðila.
Byggt sé á því að reglur um rangar og brostnar forsendur eigi að leiða til þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina, jafnvel þó ekki komi sérstaklega til ógildingar erfðaskrárinnar. Sé hér vísað til grunnraka 37. og 38. gr. erfðalaga og meginreglna samningaréttarins. Sé í þessu sambandi vísað til þess að líta eigi til arfleiðsluvilja og túlka erfðaskrá í samræmi við hann. Vilji hinnar látnu komi með skýrum hætti fram í erfðaskrá hennar frá 1998 og verði að túlka erfðaskrána þannig að vilji hennar nái fram að ganga. Sé hér á ný enn fremur vísað til meginreglna erfða- og kröfuréttarins sem að framan séu raktar.
Verði ekki fallist á framangreint sé byggt á því að ógilda eigi erfðaskrána frá 8. apríl 1998 að því leyti sem hún fjalli um ráðstöfun vegna [...]. Verði fallist á það leiði af því að verðmæti íbúðarinnar að [...] eigi ekki að virða til frádráttar frá arfshluta sóknaraðila. Sé því óþarft að gera sérstaka ógildingarkröfu en sjónarmið hér að lútandi séu höfð uppi sem málsástæður.
Byggt sé á því að rangar forsendur hafi legið að baki erfðaskránni, brostnar forsendur eigi að leiða til sömu niðurstöðu og eftir atvikum eigi að beita ákvæðum 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, annað hvort með lögjöfnun eða með vísan til undirstöðuraka ákvæðanna.
Rétt sé að taka fram að sóknaraðili telur að ef líta á til skattframtala hinnar látnu sem sönnun um greiðslur frá sóknaraðila til hennar þá feli það í sér að aðeins þurfi að ógilda erfðaskrána að því leyti að taka eigi tillit til greiðslna sem fram fóru áður en erfðaskráin var gerð 1998. Eins og skattframtal 1999 beri með sér hafi hin látna talið sig eiga kröfu að fjárhæð 5.000.000 króna á hendur sóknaraðila á því tímamarki sem skattframtalið var gert.
Hvað varðar rangar forsendur þá byggir sóknaraðili á 2. mgr. 37. gr. erfðalaga nr. 8/1962 en þar komi fram að sé leitt í ljós að erfðaskrárákvæði sé annars efnis en til hafi verið ætlast og stafi það af misritun eða öðrum mistökum þá skuli framkvæma ákvæðið í samræmi við það, sem raunverulegu vakti fyrir arfleifanda, ef auðið er að staðreyna arfleiðsluviljann. Ákvæði þetta eigi við þar sem þau mistök hafi átt sér stað að gengið hafi verið út frá því við gerð erfðaskrárinnar að ekki hafi verið búið að greiða fyrir íbúðina að [...]. Ljóst sé að auðvelt sé að staðreyna arfleiðsluvilja F, enda komi skýrt fram í erfðaskrá hennar að erfingjar eigi að njóta jafnra skipta.
Verði ekki fallist á að beita eigi 37. gr. erfðalaga sé byggt á því að beita eigi 38. gr. laganna.
Verði ekki fallist á framangreint sé byggt á reglum um brostnar forsendur. Augljós forsenda hinnar látnu hafi verið að erfingjar yrðu jafnir við skipti á búi hennar og mátti aðilum vera það ljóst. Leiði þetta til þeirrar niðurstöðu að erfðaskráin sé að þessu leyti ógild.
Fallist dómurinn ekki á framangreint sé byggt á því að beita eigi 33. gr. og/eða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 annað hvort með lögjöfnun eða samkvæmt undirstöðurökum ákvaðanna. Sé byggt á því að varnaraðilar geti ekki borið fyrir sig erfðaskrá móður þeirra hvað varðar [...] og að andvirði fasteignarinnar eigi að koma til skipta, enda sé það óheiðarlegt vegna þeirrar vitneskju þeirra að búið var að greiða fyrir fasteignina. Þá sé að sama skapi byggt á þeim undirstöðurökum 36. gr. að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig erfðaskrána þar eð greitt hafi verið fyrir eignina.
Hvað varði þá afstöðu skiptastjóra að ekki hafi komið fram mótmæli á skiptafundi 1. júlí 2009 við að erfðaskráin frá 8. apríl 1998 yrði lögð til grundvallar skiptum þá verði að hafa eftirfarandi í huga:
Þessi afstaða eigi einungis við um það þegar um sé að ræða ógildingu erfðaskrárinnar.
Afstaða sóknaraðila hafi verið sú að af hefðbundinni túlkun á erfðaskránni leiði að verðmæti fasteignarinnar að [...] kæmu ekki til skipta þó tekið væri þannig til orða í henni að líta yrði til þess. Ekki væri þörf á að ógilda erfðaskrána sem slíka. Sé þetta í samræmi við sjónarmið sóknaraðila í þessu máli, þ.e. að ógildingu sé aðeins teflt til vara að gefnu tilefni vegna þess ágreinings sem varnaraðilar hafi stofnað til að þessu leyti. Í tilgreindum orðum erfðaskrárinnar, að líta eigi við dánarbússkipti á þá fjármuni sem sóknaraðili fékk, felist ekki annað en sá skýri vilji hinnar látnu að erfingjar hennar ættu að standa jafnir. Hafi verið greitt fyrir fasteignina fari því fjarri að sá vilji nái fram að ganga við skiptin. Líta verði á kröfur annarra erfingja en sóknaraðila í því ljósi að varnaraðilar hafi kosið að gera ágreining um alla hluti við skiptin, þó það breyti e.t.v. engu um efnislegan ágreining þessa máls.
Í 47. gr. erfðalaga komi fram að andmæli gegn gildi erfðaskrár skuli bera fram við sýslumann, skiptastjóra eða erfingja, sem skipta einkaskiptum, jafnfljótt og tilefni verði til. Andmæli, sem komi fram eftir skiptalok, skuli ekki tekin til greina, nema það sannist, að erfingi hafi ekki haft tök á að bera þau upp við skiptin eða refsiverðu misferli sé til að dreifa við gerð erfðaskrár eða við skipti erfingja.
Sóknaraðili telur í fyrsta lagi að túlka eigi ákvæðið þannig að ekki sé of seint að hafa uppi kröfu um ógildingu erfðaskrár fyrr en í fyrsta lagi eftir að skiptum líkur, sbr. orðalagið „[andmæli], sem koma fram eftir skiptalok, skulu ekki tekin til greina“. Orðalagið geti ekki verið skilið öðruvísi, jafnvel þó tekið sé fram að mótmæli eigi að koma fram jafnskjótt og tilefni gafst til. Í öllu falli eigi að gagnálykta frá ákvæðinu að andmæli við gildi erfðaskrár fyrir skiptalok skuli tekin til greina, að öðrum skilyrðum fullnægðum.
Í annan stað verði að líta til þess að engin ástæða hafi verið til að koma fram með sjónarmið um ógildingu erfðaskránnar fyrr en sú afstaða var höfð uppi, þvert á skýr gögn málsins, að ekki hefði verið greitt fyrir íbúðina. Sú afstaða hafi ekki verið höfð uppi fyrr en löngu eftir skiptafundinn 1. júlí 2009. Sé í þessu sambandi bent á að skiptum í dánarbúi F sé hvergi nærri lokið.
Að öllu framangreindu virtu verði að fallast á þá aðalkröfu sóknaraðila að viðurkennt verði að verðmæti, sem nema fasteignamati íbúðar að [...], með fastanúmerið [...], komi ekki til frádráttar á arfshlut sóknaraðila við opinber skipti á dánarbúi F.
Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila þá sé byggt á því, hvað sem öllu öðru líði, að draga eigi frá það sem hún hafi þegar greitt fyrir íbúðina að [...]. Þá sé þess krafist að innborganir séu framreiknaðar til verðlags á þeim tíma sem úthlutun úr búi F fari fram, sbr. 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Um kröfur vegna verðlags sé vísað til 31. gr. erfðalaga en orðalag kröfugerðar eigi sér stoð í ákvæðinu.
Hvað varakröfuna varðar sé vísað til allra framangreindra sjónarmiða sóknaraðila.
Varðandi lagarök sé byggt á almennum reglum fjármunaréttar, þ.m.t. vernd eignarréttarins og reglna kröfuréttarins um greiðslu krafna. Vísað sé til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Vísað sé til annarra sjónarmiða kröfuréttarins, þ.á m. um ólögmæta auðgun. Vísað sé til meginreglna erfðaréttarins um vilja arfleifanda. Þá sé vísað til ógildingarreglna 37. og 38. gr. erfðalaga, sem reglna um brostnar forsendur og 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Um málskostnað sé vísað til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr., sbr. 129. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðilar krefjast þess að hafnað verði aðalkröfu sóknaraðila um að verðmæti fasteignarinnar að [...], komi ekki til frádráttar arfshlut sóknaraðila við skipti á dánarbúi F og varakröfum um draga eigi frá 6.500.000 kr. frá fjárhæð þeirri sem draga eigi frá arfshluta sóknaraðila. Krefjast varnaraðilar þess að fyrirmæli í erfðaskrá F frá 8. apríl 1996 verði lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar, þannig að verðmæti fasteignar að [...]sem sóknaraðili fékk frá arfleifanda komi til frádráttar arfi sóknaraðila. Byggir krafa varnaraðila á því að sóknaraðili hafi á árinu 1996 þegið fyrir fram greiddan arf úr dánarbúi F og það sé bæði rétt og í samræmi við skýran vilja arfleifanda að fjárhæð sem samsvarar fasteignamati umræddrar fasteignar verði dregin frá arfi sóknaraðila við skiptin.
Kröfur varnaraðila eru í fyrsta lagi reistar á því að mótmæli sóknaraðila við gildi erfðaskrár hinnar látnu séu of seint fram komin, sbr. 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í öðru lagi reisa varnaraðilar kröfur sínar á meginreglum erfðaréttar og samningaréttar um að erfðaskrár og örlætisgerninga skuli túlka í samræmi við vilja arfleifanda. Í þriðja lagi telja varnaraðilar ljóst að um fyrir fram greiddan arf til sóknaraðila hafi verið að ræða en ekki lán, svo sem sóknaraðili heldur fram, enda sé með öllu ósannað að greiðsla hafi verið innt af hendi fyrir fasteignina að [...]. Loks hafna varnaraðilar því að reglur um rangar eða brostnar forsendur eigi að leiða til þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina eða að ógilda eigi erfðaskrána á grundvelli 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936.
1. Andmæli við gildi erfðaskrár séu of seint fram komin, sbr. 47. gr. erfðalaga, nr. 8/1962
Kröfur sóknaraðila byggja á því að ekki eigi að fara eftir skýrum fyrirmælum í erfðaskrá F við skipti á búi hennar. Segir í greinargerð sóknaraðila að ekki sé nauðsynlegt að ógilda erfðaskrána til að hægt sé að sniðganga ákvæði hennar, en ef ekki verður á það fallist sé þess krafist til vara að erfðaskráin verði ógilt í heild eða að hluta.
Ljóst sé að lögerfðir og bréferfðir séu jafngildar. Því verði fyrirmælum gildrar erfðaskrár ekki vikið til hliðar nema hún sé rengjanleg á grundvelli 45. gr. erfðalaga eða hún verði ógilt, sbr. 34.-44. gr. erfðalaga.
Í 47. gr. erfðalaga sé fjallað um andmæli gegn gildi erfðaskrár. Þar segir að slík andmæli skuli bera fram við sýslumann, skiptastjóra eða erfingja, sem skipta einkaskiptum, jafnfljótt og tilefni verði til. Ljóst sé að sóknaraðila hafi verið kunnugt um tilvist og efni erfðaskrárinnar í síðasta lagi þann 19. mars 2009 þegar skiptastjóri sendi lögmanni sóknaraðila afrit hennar með tölvupósti. Í tölvupósti þessum komi fram að skiptastjóri gangi út frá því að erfðaskráin verði lögð til grundvallar við skipti á búinu að öllu óbreyttu. Skiptastjóri hafi jafnframt óskað eftir því að ef athugasemdir væru við það skuli koma þeim til skiptastjóra hið fyrsta. Ekki hafi borist neinar athugasemdir frá erfingjum í kjölfar tölvupóstsins. Á skiptafundi þann 1. júlí 2009, þar sem bæði sóknaraðili og lögmaður hennar voru viðstödd, hafi skiptastjóri borið undir erfingja hvort ágreiningur væri um erfðaskrána og að hún yrði lögð til grundvallar við skipti á eignum búsins. Komi skýrt fram í fundargerðinni að engin andmæli hafi komið fram að því gefnu að ekki komi í ljós yngri erfðaskrá. Athugasemdir sóknaraðila við erfðaskrána hafi ekki komið fram fyrr en rúmum þremur árum síðar, eða með bréfi lögmanns sóknaraðila til skiptastjóra, dags. 12. júlí 2012.
Telja verði að andmæli sóknaraðila gegn gildi erfðaskrárinnar séu of seint fram komin, sbr. 47. gr. erfðalaga. Ljóst sé að með ákvæðinu séu sett tímamörk um það hvenær hægt sé að koma fram með andmæli við gildi erfðaskráa. Þá sé ljóst að tilgangur ákvæðisins sé að tryggja að það liggi fyrir sem allra fyrst á hverju skiptin byggjast og treysta þannig skiptagrundvöll. Telja varnaraðilar að sóknaraðili hafi sýnt af sér tómlæti og með því fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi andmæli gegn gildi erfðaskrárinnar, enda liggi ekki fyrir að neinar nýjar upplýsingar hafi komið fram sem breytt hafi afstöðu sóknaraðila.
Á grundvelli þess sem að framan greinir telja varnaraðilar að sóknaraðili hafi fyrirgert rétti sínum til þess að hafa uppi andmæli gegn gildi erfðaskrár F. Vísar varnaraðili í þessu samhengi til þeirra sjónarmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2007.
2. Vilji arfleifanda um að verðmæti fasteignarinnar komi til frádráttar sé skýr
Erfðaskrá sú sem deilt sé um í málinu sé skýr og ótvíræð. Þar komi fram með skýrum hætti í 2. gr. að: „Tvö barnanna, þau B og A hafa fengið fjárhagslegan stuðning, umfram systkini sín ... og A íbúð að [...]... Það er vilji minn, svo að jöfnuður megi ríkja milli barnanna og með skírskotun til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að framangreind verðmæti, sem þau B og A hafa þannig fengið, skuli virða þeim til frádráttar á þeim arfi sem þau koma til með að hljóta við skipti á búi okkar hjóna ... Það var alltaf ætlunin að þessi stuðningur okkar við B og Ai yrði gerður upp við arfskiptin eftir okkur. “
Því sé skýrt af erfðaskránni að sóknaraðili hafi fengið fjárhagslegan stuðning umfram systkini sín þegar hún fékk afhenta íbúðina að [...]. Þá sé ljóst að vilji arfleifanda hafi staðið til þess að gætt yrði jafnræðis með börnum hennar við skiptingu arfs eftir hana. Arfleifandi lifði í rúm 10 ár eftir að erfðaskráin var gerð í apríl 1998 og hafi ekki séð ástæðu til að gera breytingar á erfðaskránni.
Það sé meginregla í erfðarétti að erfðaskrár beri fyrst og fremst að túlka í samræmi við vilja arfleifanda. Þá sé það meginregla í samningarétti um túlkun samninga, svokölluð minimumreglan, að túlka beri erfðaskrár og aðra örlætisgerninga til samræmis við vilja arfleifanda.
Í ljósi framangreindra meginreglna og þess að vilji arfleifanda komi með skýrum hætti fram í erfðaskrá hennar verði að telja einsýnt að fara eigi eftir skýrum ákvæðum erfðaskrár F. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar í máli nr. 468/2010 auk Hrd. 1986:1626 og Hrd. 1998:1134.
3. Um sé að ræða fyrir fram greiddan arf
Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að sóknaraðili hafi á sínum tíma í raun fengið lán fyrir fasteigninni að [...] frá arfleifanda. Heldur sóknaraðili því fram að hún hafi síðan endurgreitt lánið á árunum 1997-2000 og vísar því til stuðnings í afrit af skattframtölum arfleifanda
Varnaraðilar hafna alfarið röksemdum sóknaraðila um að arfleifandi hafi veitt henni lán vegna kaupa íbúðarinnar að [...]. Byggja varnaraðilar afstöðu sína á því að í erfðaskrá arfleifanda komi skýrt fram að sóknaraðili hafi fengið fjárhagslegan stuðning frá arfleifanda sem eigi að koma til frádráttar frá þeim arfi sem hún eigi að fá við skipti á búi arfleifanda og maka hennar. Í því sambandi sé rétt að benda á að umrædd erfðaskrá hafi verið gerð þann 8. apríl 1998, nær einu og hálfu ári eftir að eignarhald á íbúðinni að [...] var fært yfir til sóknaraðila. Þá sé erfðaskráin einnig gerð eftir að meintar „afborganir“ sóknaraðila hófust, en sóknaraðili haldi því fram að hún hafi þegar á árinu 1997 byrjað að greiða niður meint lán arfleifanda til hennar. Ef í raun hefði verið um að ræða lán, sem sóknaraðili hefði þegar verið farin að greiða af, sé ljóst að arfleifandi hefði ekki kveðið á um það í erfðaskrá sinni að um væri að ræða fjárhagslegan stuðning sem koma ætti til frádráttar arfi.
Þá benda varnaraðilar á eftirfarandi orðalag í minnisbók hinnar látnu: „Ég er búin að arfleiða Aformlega að [...]“. Að mati varnaraðila megi vart draga annan skilning af umræddu orðalagi en þann að um fyrirframgreiddan arf hafi verið að ræða, en ekki lán til sóknaraðila.
Varnaraðilar telja að skattframtöl hinnar látnu geti ekki talist fullnægjandi sönnun þess að greiðslur hafi í reynd farið fram á milli aðila. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein önnur gögn sem sýni fram á að greiðslur hafi farið á milli sóknaraðila og arfleifanda, en einfalt væri að sýna fram á slíkt t.d. með yfirliti banka yfir greiðslur sóknaraðila til arfleifanda. Verði því ekki séð að sóknaraðila hafi tekist að sanna það að hún hafi greitt fyrir fasteignina að [...].
Því telja varnaraðilar að bæði gögn og atvik málsins sýni að umrædd fasteign hafi í reynd verið fyrirframgreiddur arfur til sóknaraðila sem bæði rétt sé og eðlilegt að haldið verði utan skipta á dánarbúinu í samræmi við viðeigandi ákvæði erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 2. mgr. 29. gr. erfðalaga, sbr. 31. gr. sömu laga. Með vísan til framangreinds sé fullyrðingum sóknaraðila um meinta ólögmæta auðgun varnaraðila ef farið verður að fyrirmælum erfðaskrárinnar, einnig alfarið hafnað.
4. Forsendur erfðaskrárinnar standist og ekki ber að ógilda hana
Í greinargerð sinni haldi sóknaraðili því fram að reglur um rangar og brostnar forsendur eigi að leiða til þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina og sé vísað til 37. og 38. gr. erfðalaga því til stuðnings. Varnaraðilar mótmæla því að erfðaskráin hafi verið byggð á röngum forsendum. Þá hafi heldur ekki verið sýnt fram á að forsendur hafi brostið eftir gerð hennar.
Í 1. mgr. 37. gr. erfðalaga sé kveðið á um að erfðaákvörðun sé ógild hafi arfleifandi verið beittur nauðung, svikum eða misneytingu til þess að gera hana. Nokkuð ljóst sé að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt í þessu máli. Í 2. mgr. segir að ef leitt er í ljós að erfðaskrárákvæði sé annars efnis en til var ætlast og það stafi af misritun eða öðrum mistökum skuli framkvæma ákvæðið í samræmi við það sem raunverulega vakti fyrir arfleifanda, ef auðið er að staðreyna arfleiðsluviljann. Varnaraðilar telja að þetta ákvæði eigi alls ekki við í þessu máli, þar sem ljóst sé að ekki hafi verið um neina misritun eða nein mistök að ræða við gerð erfðaskrárinnar. Í því sambandi sé rétt að ítreka að kaupsamningur um fasteignina að [...] hafi verið gerður næstum einu og hálfu ári áður en erfðaskráin var gerð og meintar „afborganir“ eigi að hafa hafist á árinu 1997 og því hafi allar staðreyndir málsins legið fyrir við gerð erfðaskrárinnar.
Varnaraðilar telja heldur ekki að ákvæði 38. gr. erfðalaga eigi við um erfðaskrá þá sem deilt sé um í málinu, en þar sé kveðið á um það að erfðaskrárákvæði sem stafar af misskilningi hjá arfleifanda, án þess að ákvæði 37. gr. eigi við, sé ógilt, ef telja má að röng hugmynd arfleifanda hafi ráðið úrslitum um efni ákvæðisins. Eins og fyrr sé rakið telja varnaraðilar að ekki hafi verið sýnt fram á að ákvæði 2. gr. erfðaskrár F byggist á misskilningi eða ranghugmyndum hjá arfleifanda, enda hafi ekki verið sýnt fram á að greiðslur frá sóknaraðila hafi komið fyrir fasteignina að [...].
Varnaraðilar mótmæla einnig kröfum sóknaraðila um að ógilda eigi erfðaskrána á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Byggjast mótmælin á því að með engu móti verði séð að það geti talist óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar erfðaskráin kom til vitundar varnaraðila, og ætla megi að þeir hafi haft vitneskju um, að bera erfðaskrána fyrir sig, sbr. 33. gr. samningalaga. Þá verði heldur ekki séð að unnt sé að ógilda erfðaskrána með vísan til 36. gr. sömu laga, en með vísan til þess sem að framan greinir verði ekki séð að það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera erfðaskrána fyrir sig, enda komi vilji arfleifanda þar skýrlega fram og ekki hafi verið sýnt fram á að forsendur hafi breyst eftir gerð erfðaskrárinnar.
Kröfu sína um málskostnað byggja varnaraðilar á 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum ákvæði 130. gr., sbr. 129. gr. laganna. Einnig sé gerð krafa um greiðslu virðisaukaskatts, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988, þar sem varnaraðilar séu ekki virðisaukaskattsskyldir og því nauðsynlegt að tekið verði tillit til greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
Niðurstaða
Í erfðaskrá F, sem dagsett er 8. apríl 1998, segir m.a. í 2. gr. að dóttir arfleifanda, A, hafi fengið fjárhagslegan stuðning umfram systkini sín með því að hafa fengið íbúð að [...]. Þá er kveðið á um það í erfðaskránni að það sé vilji arfleifanda, svo að jöfnuður megi ríkja milli barnanna og með skírskotun til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að virða skuli A til frádráttar arfi fjárhæð sem nemur fasteignamati íbúðarinnar á þeim tíma sem skipti fara fram. Tekið er fram að það hafi alltaf verið ætlunin að þessi stuðningur yrði gerður upp við arfsskiptin, en Guðlaug sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, G, sem lést 19. desember 1993. Ekki er uppi ágreiningur um arfleiðsluhæfi eða arfleiðsluheimild arfleifanda í máli þessu.
Á skiptafundi í dánarbúinu, sem haldinn var 1. júlí 2009, bar skiptastjóri undir erfingja búsins hvort ágreiningur væri um erfðaskrána, en engin andmæli komu þá fram. Sóknaraðili, A, var á fundinum ásamt lögmanni sínum. Andmæli af hálfu sóknaraðila gegn því að byggt yrði á fyrrgreindu ákvæði erfðaskrárinnar bárust skiptastjóra með bréfi, dags. 12. júlí 2012.
Kröfur varnaraðila eru í fyrsta lagi reistar á því að mótmæli sóknaraðila við gildi erfðaskrár hinnar látnu séu of seint fram komin, sbr. 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Á það verður ekki fallist. Þar sem skiptum í búinu er ekki lokið verður ekki talið að sóknaraðili hafi fyrirgert rétti sínum til þess að hafa uppi andmæli gegn gildi erfðaskrárinnar.
Sóknaraðili byggir aðallega á því að hún hafi þegar greitt fyrir umrædda íbúð að [...], og sé réttmætur eigandi hennar samkvæmt kaupsamningi, dags. 20. desember 1996, og afsali, dags. 20. janúar 1997. Með framlögðum skattframtölum sóknaraðila og arfleifanda sé sýnt fram á að greitt hafi verið fyrir íbúðina að öllu leyti.
Erfðaskrá F frá 8. apríl 1998 var gerð eftir að sóknaraðili hafði eignast íbúðina samkvæmt fyrrgreindum löggerningum. Kemur þó skýrt fram í erfðaskránni að um fjárhagslegan stuðning hafi verið að ræða og að verðmæti íbúðarinnar samkvæmt fasteignamati skuli koma til frádráttar þeim arfi sem sóknaraðili komi til með að hljóta við skipti búsins. Er skýrlega tekið fram að þetta sé vilji arfleifanda, „svo að jöfnuður megi ríkja milli barnanna og með skírskotun til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962“.
Í kaupsamningi um eignina, dags. 20. desember 1996, kemur fram að kaupverð sé 6.500.000 krónur, við undirskrift séu greiddar 350.000 krónur, en 6.150.000 krónur eftir nánara samkomulagi án þess að gjalddagar séu tilgreindir. Byggir sóknaraðili á því að kaupverðið, lánið, hafi verið endurgreitt á árunum 1997 til 2000, eins og framlögð skattframtöl beri með sér. Í afsali frá 20. janúar 1997 kemur hins vegar fram að kaupverð eignarinnar sé að fullu greitt.
Ekki verður talið að skattframtöl arfleifanda og sóknaraðila, eins og þau eru úr garði gerð, séu fullnægjandi sönnun þess, andstætt skýrum ákvæðum erfðaskrárinnar, að sóknaraðili hafi greitt kaupverð íbúðarinnar að fullu. Þá hefur sóknaraðili skýrt frá því fyrir dómi að hún hafi ekki undir höndum gögn sem sýna fram á að hún hafi innt af hendi greiðslur vegna kaupverðs eignarinnar, sem runnið hafi til búsins. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að hún hafi þegar greitt andvirði íbúðarinnar að [...], Reykjavík. Af því leiðir einnig að hafna verður málsástæðu sóknaraðila um meinta ólögmæta auðgun varnaraðila ef fallist yrði á kröfur þeirra.
Sóknaraðili byggir á því að reglur um rangar og brostnar forsendur eigi að leiða til þess að krafa hennar verði tekin til greina og er í því efni vísað til ákvæða 37. og 38. gr. erfðalaga um ógildi erfðaskráa og meginreglna samningaréttarins. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að erfðaskrárákvæði það sem hér um ræðir sé annars efnis en til var ætlast vegna mistaka eða misskilnings hjá arfleifanda, enda hafði ráðstöfun íbúðarinnar til sóknaraðila átt sér stað áður en erfðaskráin var gerð og ekki sýnt fram á að greiðslur hafi komið fyrir hana. Sóknaraðili getur því ekki stutt kröfur sínar við ógildingarákvæði erfðalaga. Að sama skapi verður heldur ekki á því byggt að grundvöllur sé til þess að ógilda erfðaskrána á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Tilvísun erfðaskrárinnar til 31. gr. erfðalaga bendir til að um fyrir fram greiddan arf hafi verið að ræða, sem virða skuli til frádráttar við arfskipti. Verður því ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila í málinu.
Framangreind niðurstaða leiðir og til þess að ekki verður fallist á varakröfu sóknaraðila í málinu.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á dómkröfur varnaraðila í málinu, eins og í úrskurðarorði greinir, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 við uppkvaðningu úrskurðarins.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila, A, er hafnað. Fyrirmæli í erfðaskrá F frá 8. apríl 1998 skulu lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar, þannig að verðmæti fasteignar að [...] sem sóknaraðili fékk frá arfleifanda koma til frádráttar arfi sóknaraðila.
Málskostnaður fellur niður.