Hæstiréttur íslands

Mál nr. 794/2013


Lykilorð

  • Líkamsárás


                                     

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014.

Nr. 794/2013.

 

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

Líkamsárás.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að fyrrverandi unnustu sinni, sest klofvega yfir hana og slegið og sparkað í andlit hennar og líkama með þeim afleiðingum að hún hlaut mar, yfirborðsáverka og eymsli á höfði, andliti, hálsi og handlegg. Við mat á refsingu X var litið til þess að hann hafði meðal annars tvívegis áður hlotið dóma fyrir líkamsárás, sbr. ítrekunarákvæði 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Þá hefði X rofið skilyrði 160 daga reynslulausnar vegna fyrri dóms fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Var X því gert að sæta fangelsi í 9 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Fallist er á það með héraðsdómi að við þær aðstæður sem um ræðir í málinu hafi framburður brotaþola í skýrslu hennar hjá lögreglu óvírætt sönnunargildi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 31. janúar 2013 í máli nr. 363/2012.

Sakarferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að þess var ekki getið að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2009 var ákærði dæmdur til fangelsisvistar meðal annars fyrir líkamsárás gegn brotaþola, sem varðaði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu en að öðru leyti með með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 272.577 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var, 16. október sl. er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru dagsettri 23. apríl 2013, á X, kt. […], óstaðsettum í hús, fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 6. september 2012, ráðist með ofbeldi á fyrrverandi unnustu sína, A, á heimili hennar að […] í […], ráðist á hana þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi sínu og slegið hana í andlitið, þar sem hún lá á gólfi svefnherbergisins sest klofvega yfir hana, slegið hana í höfuð, andlit og hendur og slegið höfði hennar í gólfið, síðan í stofu íbúðarinnar sparkað í líkama hennar, allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar, yfirborðsáverka og eymsl víðsvegar á höfði og andliti, áverka á vinstra eyra, eymsl á hálsi, mar á brjóstkassa og vinstri síðu, mar á hægri upphandlegg og mar, bólgur og tognun á vinstri hendi.

Er talið að brot þetta varði við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er krafist sýknu og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá morgni fimmtudagsins 6. september 2012 kl. 04.55 var lögregla send á þeim tíma að […], kjallaraíbúð vegna tilkynningar um að maður væri að ráðast á konu inni í íbúðinni. Er lögreglan kom á staðinn hittu þeir fyrir A, brotaþola í máli þessu, og B sem báðar voru í uppnámi. Brotaþoli gerði lögreglu grein fyrir því að fyrrum sambýlismaður hennar, X, ákærði í máli þessu, hefði lamið hana. Í frumskýrslu kemur fram að sjá hafi mátt áverka í andliti brotaþola, handabaki og í vinstra eyra hennar verið minniháttar blæðing. Hafi skyrtan hennar verið rifin að aftan eftir átökin og bólga verið á vinstra handabaki. Var lögreglu tjáð að ákærði hefði farið úr íbúðinni rétt áður en lögreglan hafi komið á vettvang. Fram kemur að hans hafi verið leitað í hverfinu en án árangurs. Hafi lögreglan ekið brotaþola upp á slysadeild þar sem hún hafi farið í læknisskoðun. Hafi B fylgt brotaþola á slysadeildina.

Samkvæmt læknisvottorði C sérfræðings á Landspítala háskólasjúkrahúsi frá 20. nóvember 2012 kom brotaþoli á slysa- og bráðadeild vegna áverkana sem hún hlaut 6. september 2012. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi verið með kúlu og þreifieymsli á hægra gagnauga, þreifieymsli yfir beinhlutum hægra megin á höfði og kúlu með litlum húðblæðingum og miklum eymslum hægra megin á hnakka. Brotaþoli hafi einnig verið með bjúgur undir hægra auga og talsverð þreifieymsli yfir beinaumgjörð neðan til og til hliðar við beinaumgjörð auga. Þá kemur fram að hún hafi verið með þreifieymsli vinstra megin í andliti yfir kjálkaliðsvæði og að hana verki þar við að opna munn. Blóð hafi verið í vinstra eyra og fleiður á ytra eyra. Mar yfir mastoid beini vinstra megin og bak við eyrað ásamt mari og litlum húðblæðingum á utanverðu ytra eyra vinstra megin. Jafnfram hafi hún haft þreifieymsli vinstra megin á hálsi og um 10 cm ílangan marblett á vinstri síðu og marblett á hægri upphandlegg. Á vinstri hendi hafi hún haft mar, bjúgur og bláma yfir miðhandarbeini og sárt hafi verið að beygja í þeim fingri um lið. Brotaþoli mætti á lögreglustöð 1. október 2012 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás.

                Ákærði hefur greint svo frá að umrætt sinn hafi hann hitt brotaþola niður í miðbæ Reykjavíkur. Bæði hafi þau verið undir áhrifum áfengis. Brotaþoli hafi verið með sjálfsvígshugsanir. Ákærði hafi farið heim með brotaþola að […]. Þar hafi á þeim tíma verið B, en brotaþoli og B hafi verið í neyslu saman. Þær hafi báðar sprautað sig með Rítalíni. Inni í svefnherbergi íbúðarinnar hafi brotaþoli verið í slæmu ástandi og ákærði óttast velferð hennar vegna endurtekinna sjálfsvígshugsana. Þau hafi vegna þessa rifist. Hafi hann af þeim ástæðum og til að ná til hennar löðrungað brotaþola með flötum lófa. Ekki hafi hún fengið neina áverka við það. Hann hafi ekki slegið hana hnefahögg, svo sem honum væri gefið að sök. Hafi ekki um líkamsárás verið að ræða af hálfu ákærða. Ákærði kvaðst oft áður hafa komið að brotaþola í viðlíka ástandi. Brotaþoli hafi ekki verið ábyrg gjörða sinna er hún hafi verið með þessar hugsanir. B hafi ekkert af þessu séð þar sem B hafi ekki verið inni í herbergi íbúðarinnar. B hafi staðið við útidyr íbúðarinnar og ekki getað séð inn í herbergið. Ákærði hafi farið á brott. Hafi hann gengið um í talsverðan tíma en því næst farið heim til D. Á leið inn til D hafi ákærði verið mjög reiður vegna málsins og slegið með hnefa í vegg. Við það hafi hann fengið rispur á hægri hendi. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa sent brotaþola sms skeyti. Brotaþoli og ákærði hafi skipst á viðlíka skeytum, en brotaþoli hafi sent slæm skeyti til ákærða. Ákærði kvaðst á sínum tíma hafa búið með brotaþola í um 5 ár. Hafi þau hætt sambúð 2009. Þau hafi hins vegar hist oft eftir það.  

                Brotaþoli féll frá eftir að hún lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Gaf hún skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 3. október 2012. Greindi hún frá því að hún og ákærði hafi verið í sambandi frá árinu 2006. Þau hafi öðru hvoru hætt saman en jafnan tekið saman aftur. Sambandi þeirra hafi endanlega lokið í lok árs 2011. Ákærði hafi neytt fíkniefna í miklum mæli og fljótlega byrjað að beita brotaþola ofbeldi. Hafi hann oft lagt á hana hendur og lögregla oft verið kölluð til. Eftir sambandsslitin í lok árs 2011 hafi ákærði ofsótt brotaþola með símhringingum dag og nótt. Yfirleitt hafi hún ekki svarað símhringingum, en stundum gert það til að ræða við ákærða. Brotaþoli hefði á leigu íbúð í kjallara við […] í […]. Um viku fyrir árásardaginn hafi brotaþoli verið farin að sofa. Hjá henni hafi þá verið B vinkona hennar. Ákærði hafi bankað á dyr íbúðarinnar og verið undir áhrifum vímuefna. Hafi hann viljað komast inn. Hafi brotaþoli ekki þorað öðru en að hleypa honum inn til að ekki yrði of mikill hávaði. Hafi brotaþoli ætlað að fara að sofa, en ákærði farið á eftir henni og viljað fá tölvu brotaþola. Hafi brotaþoli synjað ákærða um það. Hafi ákærði þá tuskað brotaþola til, án þess að atlagan hafi orðið alvarleg það sinnið. Hafi hann í kjölfarið brotist inn í tölvu B. Hafi hann skemmt harðan disk í tölvunni. Einnig hafi hann tekið síma B. Við svo búið hafi hann farið úr íbúðinni. Fimmtudaginn 6. september 2012 hafi ákærði hringt í síma brotaþola en hún ekki svarað. Í framhaldi hafi hann hringt í síma B og B svarað. Hafi hann boðist til að greiða fyrir viðgerðarkostnað af tölvunni. Hafi þau tvö mælt sér mót á Monte Carlo. Hafi brotaþoli farið þangað ásamt vini sínum til að hitta B. Ákærði hafi komið og fengið mikið reiðikast. Brotaþoli og B hafi farið að […]. Hafi þær farið að sofa sitt í hvoru herbergi. Ákærði hafi bankað skömmu síðar. Hafi brotaþoli hleypt honum inn. Hafi brotaþoli ekki viljað ræða við ákærða og farið inn í svefnherbergi. Hafi ákærði komið á eftir henni og ráðist á hana í rúminu. Hafi hann slegið hana í andlit og hún lent á gólfinu. Þá hafi hann sest klofvega yfir hana þar sem hún hafi hniprað sig saman á gólfinu. Hafi ákærði lamið hana margsinnis með hnefa og höggin komið í höfuð brotaþola. Þá hafi hann lamið höfði hennar í gólfið. Er brotaþoli hafi notað hendur til að verja andlit sitt hafi ákærði lamið í hendur brotaþola. Hafi brotaþoli kallað til B að hringja í Neyðarlínuna. Myndi brotaþoli illa það sem gerst hafi í framhaldi en ákærði sennilega dregið brotaþola fram í stofu og haldið áfram að sparka í brotaþola þar. Er B hafi komið út úr herbergi sínu hafi ákærði hrint henni. Hafi hann forðað sér áður en lögregla kom á staðinn. Lögregla hafi farið með brotaþola á Neyðarmóttöku. Hafi hún hlotið talsverða áverka af atlögunni. Hafi brotaþoli verið hrædd um líf sitt umrætt sinn. Umrætt kvöld hafi brotaþoli sennilega verið búin að drekka tvo bjóra. Brotaþoli mætti á ný á lögreglustöð 22. október 2012. Við það tilefni sýndi brotaþoli lögreglu fjölmörg sms símaskilaboð er hún hafði fengið frá ákærða. Voru nokkur þeirra líflátshótanir.

B kvaðst umrætt sinn hafa búið heima hjá brotaþola að […], en brotaþola hafi hún kynnst í meðferð í mars 2012. Um hafi verið að ræða erfitt tímabil í lífi B. Hafi hún verið á götunni í ágúst 2012 er brotaþoli hafi hringt og boðið B að vera hjá sér á meðan hún biði eftir að komast í meðferð. Aðfaranótt fimmtudagsins 6. september 2012 hafi hún og brotaþoli verið í gleðskap. Þær hafi komið heim að […] um nóttina og ákærði verið með í för. Hafi B verið undir áhrifum áfengis, auk þess sem hún hafi tekið inn Rítalín. Atvik þess nótt myndi hún engu að síður. Eftir að í […] kom hafi ákærði og brotaþoli verið inni í svefnherbergi. Þá hafi greinilegir pústrar farið af stað, en B hafi heyrt barsmíðar yfir í sitt herbergi. Brotaþoli hafi kallað á hjálp og B orðið hrædd og hringt í Neyðarlínuna. Í kjölfarið hafi hún farið fram og séð þar sem ákærði hafi verið að berja brotaþola. Hafi B farið að útidyrahurð og opnað hana og sagt við ákærða að lögreglan væri á leiðinni. Ákærði hafi setið ofan á brotaþola og lamið hana og höggin komið í höfuð og líkama. Um leið hafi hann haldið í hár brotaþola. Hann hafi hætt og sagt að B yrði næst. Ákærði hafi heyrt bifreið koma að húsinu og hlaupið út. Eftir að lögregla kom á staðinn hafi verið farið með brotaþola á slysadeild. B kvaðst ekki muna eftir að ákærði hafi sparkað í líkama brotaþola þessa nótt. Hafi B séð áverka á andliti brotaþola eftir atlögu ákærða.   

E hjúkrunarfræðingur gerði grein fyrir því að brotaþola hafi verið vísað til hennar eftir komu á slysadeild aðfaranótt fimmtudagsins 6. september 2012. Hafi hún símleiðis haft samband við brotaþola 7. september 2012. Í kjölfarið hafi hún átt þrjú símtöl við brotaþola, auk þess sem þær hafi sent hvorri annarri tölvupóst í eitt sinn. Í þeim tilvikum er fólki væri vísað í meðferð sem þessa væri venja að hefja ekki eiginlega meðferð fyrr en viðkomandi væri verkjalaus. Þá væri jafnan byrjað á símtölum þar til þeir sem væru í meðferð væru reiðubúnir í eiginleg viðtöl. Ekki hafi verið komið að því í tilviki brotaþola. Brotaþoli hafi í símtölum skýrt frá árásinni 6. september 2012. Hafi brotaþoli greint frá ótta og vanlíðan í kjölfar atburðarins. Hafi hún að sögn endurupplifað ofbeldið og forðast að fara út fyrir hússins dyr. Hún hafi verið hrædd við árásarmanninn.

C læknir staðfesti læknisvottorð vegna brotaþola vegna áverka frá 6. september 2012 og gerði nánari grein fyrir því.

Jóhann Birkir Guðmundsson lögreglumaður greindi frá útkalli lögreglu að […]umrætt sinn. Hafi brotaþoli verið illa útlítandi. Ákærði hafi verið farinn af vettvangi. Farið hafi verið með brotaþola á slysadeild. Áverkar hafi verið á brotaþola og þeir skráðir í frumskýrslu lögreglu. Brotaþoli hafi verið í töluvert miklu uppnámi.

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 6. september 2012 ráðist með ofbeldi á brotaþola á heimili hennar að […] í […] þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi sínu og slegið hana í andlitið þar sem hún lá á gólfi svefnherbergisins, sest klofvega yfir hana, slegið hana í höfuð, andlit og hendur og slegið höfði hennar í gólfið, síðan í stofu sparkað í líkama hennar. Við þessa atlögu hafi brotaþoli hlotið mar, yfirborðsáverka og eymsl víðsvegar á höfði og andliti, áverka á vinstra eyra, eymsl á hálsi, mar á brjóstkassa og vinstri síðu, mar á hægri upphandlegg og mar, bólgur og tognun á vinstri hendi. Er háttsemin talin varða við 217. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök. Kveðst hann einungis hafa löðrungað brotaþola þessa nótt með flötum lófa. Hafi hún ekki hlotið áverka af.

Svo sem áður er rakið féll brotaþoli frá eftir að hún gaf skýrslur sínar hjá lögreglu vegna málsins. Við þær aðstæður lítur dómurinn svo á að við mat á sönnun sé heimilt að byggja á skýrslugjöf brotaþola hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Skýrsla brotaþola hjá lögreglu var nákvæm um þau atvik málsins sem ákæra lýtur að. Greindi hún frá því hvernig ákærði hafi ráðist að henni í rúminu og slegið hana. Hafi hún fallið fram úr rúminu þar sem ákærði hafi sest klofvega yfir hana. Þar hafi hann slegið hana hnefahögg í andlit, líkama og hendur er hún hafi borið þær fyrir höfuðið. Eins hafi hann slegið höfði hennar við gólf. Hana minnti að ákærði hafi sparkað í líkama hennar í stofu. Brotaþoli var flutt á slysadeild í beinu framhaldi af því að lögregla kom á vettvang. Þar greindist hún með áverka sem getur í ákæru. Samræmast þessir áverkar frásögn brotaþola af atvikum. Að því leyti er sérstök ástæða til að nefna að brotaþoli var með mar á hnakka sem samræmist því að ákærði hafi barið höfði hennar í gólfið, svo sem hún hefur staðhæft. Atburðarásin er einnig studd vætti B sem hefur lýst því hvernig hún hafi heyrt er ákærði hafi veist að brotaþola í næsta herbergi. Hafi brotaþoli hrópað á hjálp og beðið B að hringja í Neyðarlínuna. Af upptöku af hringingu í Neyðarlínuna umrætt sinn sem, grein er gerð fyrir í rannsóknargögnum málsins heyrist kvenmaður hrópa ,,ái“ . Rennir allt þetta stoðum undir framburð brotaþola í málinu. Framburður ákærða er hins vegar ekki trúverðugur þegar hann lýsir því að hann hafi einungis löðrungað brotaþola með flötum lófa. Fær það á engan hátt samrýmst þeim áverkum sem brotaþoli bar eftir atlögu ákærða þessa nótt, en framburðir liggja fyrir í málinu um að brotaþoli hafi ekki verið með áverka áður en ákærði kom í íbúðina. Þegar til þessara atriða er litið telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veist að brotaþola með þeim hætti er í ákæru greinir og með þeim afleiðingum sem þar er rakið. Miðað við mar á síðu brotaþola verður  miðað við að ákærði hafi sparkað í brotaþola. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.afiH

                Ákærði er fæddur í febrúar 1968 og á að baki langan brotaferil. Fimm sinnum hefur ákærði gengist undir sáttir fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni og einu sinni hefur ákærða með viðurlagaákvörðun verið gert að greiða sekt vegna umferðarlagabrots. Ákærði hefur fjórtán sinnum verið dæmdur fyrir brot er varða refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum s.s fyrir skjalafals, húsbrot, þjófnað, fjársvik og peningafals auk þess að hafa brotið margítrekað gegn umferðarlögum og oftsinnis verið sviptur ökurétti ævilangt. Ástæða þykir til að geta þess að ákærði var með dómi Hæstaréttar 21. október 2004 dæmdur í 11 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2010 dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Ákærða var veitt reynslulausn 28. desember 2011 í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 160 dögum. Hefur hann rofið skilyrði reynslulausnarinnar, sem nú verðu tekin upp og dæmd með. Atlaga ákærða að brotaþola umrætt sinn var harkaleg. Á hann sér engar málsbætur. Með hliðsjón af þessu, sbr. 218. gr. b. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Með hliðsjón af háttseminni og sakaferli ákærða verður refsingin ekki bundin skilorði.  

                Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnar­laun skipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði.              

Ákærði greiði 351.800 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,  Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns,  251.000 krónur.