Hæstiréttur íslands

Mál nr. 322/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Uppgjör
  • Brostnar forsendur


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2001.

Nr. 322/2000.

Valdimar L. Guðmundsson

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Uppgjör. Brostnar forsendur.

V, sem orðið hafði fyrir bifreið 14. júlí 1995, krafðist endurskoðunar á bótauppgjöri sínu við tryggingafélagið T hf.  Af hálfu V var á því byggt að grundvallarforsenda fyrir uppgjörinu hefði brugðist með því að Hæstiréttur hefði, eftir að bætur til V voru gerðar upp, kveðið upp dóm þess efnis að greiðslur úr lífeyrissjóði tjónþola kæmu ekki til lækkunar bóta fyrir tímabundið atvinnutjón. Talið var að gegn eindregnum andmælum T hf. hefði V ekki tekist að sýna fram á að í raun hefði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón hans verið byggt á lengra tímabili tímabundinnar örorku en örorkunefnd mat og frá bótum þannig ákveðnum verið dregnar greiðslur frá lífeyrissjóðum til V meðan hann var óvinnufær. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu T hf. af kröfu V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. ágúst 2000. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.775.299 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. júní 1998 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi 14. júlí 1995 fyrir bifreið, er ábyrgðartryggð var hjá stefnda. Er ekki ágreiningur um bótaskyldu stefnda vegna slyssins. Með álitsgerð 19. apríl 1997 mat örorkunefnd varanlegan miska áfrýjanda vegna slyssins 10%, en varanlega örorku 25%. Þá taldi nefndin að áfrýjandi hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins eftir 1. ágúst 1996 eða tólf og hálfum mánuði eftir slysdag. Stefndi ritaði lögmanni áfrýjanda bréf 6. maí 1997. Lýsti stefndi sig þar reiðubúinn til uppgjörs á tjóni áfrýjanda í framhaldi af undangengnum viðræðum. Var í tilboði þessu byggt á niðurstöðum örorkunefndar. Til að bæta tímabundið atvinnutjón voru boðnar 3.537.711 krónur, en sú fjárhæð samsvarar samkvæmt gögnum málsins nokkurn veginn tekjum frá slysdegi til júlíloka 1996, sem fylgdu því skiprúmi, er áfrýjandi var í þegar slysið varð, að frádregnum greiðslum útgerðar til hans. Þá sagði í tilboðinu: „Félagið gerir fyrirvara um bótarétt tjónþola úr lífeyrissjóðum og ljóst er að tjónþola ber að sækja rétt sinn þangað að fullu og munu greiðslur þaðan koma til frádráttar tímabundinni örorku.“ Ekki kom til uppgjörs á grundvelli tilboðsins, þar sem áfrýjandi sætti sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar. Voru að beiðni hans dómkvaddir tveir menn í september 1997 til að meta tjón hans. Í matsgerð þeirra 26. október 1997 var varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins talinn 20%, en varanleg örorka 30%. Þá töldu matsmenn áfrýjanda óvinnufæran í 29 mánuði vegna slyssins.

Með símbréfi 10. nóvember 1997 gerði stefndi lögmanni áfrýjanda nýtt tilboð um uppgjör vegna slyssins. Hvað tímabundið atvinnutjón varðar var miðað við sömu fjárhæð og í fyrrnefnda tilboðinu eða 3.537.711 krónur, en boðnar voru bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna. Ekki var í tilboði þessu fyrirvari um frádrátt vegna bótaréttar stefnda úr lífeyrissjóðum andstætt því, sem var í fyrra tilboðinu 6. maí 1997. Samdægurs ritaði lögmaður áfrýjanda umbjóðanda sínum bréf, þar sem hann gerði grein fyrir tilboði stefnda. Til skýringar á tilboðsfjárhæðinni 3.537.711 krónum fyrir tímabundið atvinnutjón sagði í bréfinu: „Ef gengið verður að þessu er TM  tilbúið til að falla frá frádrætti vegna lífeyrissjóðsgreiðslna sem þú hefur fengið ásamt greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.“ Niðurlag bréfsins var svohljóðandi: „Með þessu tilboði er fallist á matsgerðina að öllu öðru leyti en hvað viðkemur tímabundna tjóninu. Hafa þeir þó hvikað nokkuð frá því sem áður var því þá vildu þeir draga frá greiðslur frá lífeyrissjóðum svo og greiðslur frá TR. Jafna má þeim greiðslum við bætur í ca. 6 mánuði þannig að verið er að tala um bætur í ca. 18 mánuði. Ég legg þetta annars í þínar hendur að ákveða framhaldið.“ Á þetta bréf ritaði áfrýjandi 11. nóvember 1997: „Ég samþykki ofangreinda tillögu með ofangreindum breytingum og fullum lögmannskostnaði og málskostnaði.“ Þær breytingar, sem vísað var til, voru 300.000 króna hækkun á bótum fyrir varanlega örorku og þar með heildargreiðslum. Næsta dag var lokið uppgjöri tjónsins í samræmi við tilboð stefnda að teknu tilliti til breytingartillagna áfrýjanda. Á uppgjörsblaði var tekið fram að um væri að ræða lokauppgjör og síðan sagði: „Jafnframt staðfesti ég hér með, að ofangreind fjárhæð sé lokagreiðsla vegna áðurnefnds tjóns.“ Ritaði lögmaður áfrýjanda undir uppgjörsblaðið sem móttakandi greiðslu.

Lögmaður áfrýjanda ritaði stefnda bréf 18. maí 1998 og óskaði eftir leiðréttingu á framangreindu uppgjöri. Hann ítrekaði þá ósk sína með bréfi 4. júní 1998, en stefndi hafnaði því með bréfi 15. júní 1998.

II.

Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á að fá bótauppgjör sitt við stefnda vegna fyrrnefnds umferðarslyss tekið til endurskoðunar, þar sem grundvallarforsenda fyrir uppgjörinu hafi brugðist. Hafi hann og lögmaður hans gengið út frá því við uppgjörið að réttur skilningur á þágildandi ákvæði 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri sá að við ákvörðun bóta vegna tímabundins atvinnutjóns bæri að taka tillit til greiðslna, sem tjónþoli fengi úr lífeyrissjóði meðan hann væri óvinnufær. Hafi þeir meðal annars stutt þá túlkun við dóm, er gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. apríl 1997, en stefndi hafi verið aðili að því máli og kynnt þeim dóminn. Eftir að bætur voru gerðar upp hafi hins vegar fallið dómur Hæstaréttar í sama máli, þar sem niðurstaðan varð sú að greiðslur úr lífeyrissjóði tjónþola kæmu ekki til lækkunar bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. dómasafn 1998 bls. 1762.

Stefndi heldur því hins vegar fram að í lokauppgjörinu hafi ekkert verið dregið frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum til áfrýjanda meðan hann var óvinnufær. Fyrir hafi legið tvö möt á tjóni hans, annars vegar mat örorkunefndar og hins vegar mat dómkvaddra manna. Í tilboði stefnda um uppgjör á bótum 10. nóvember 1997 hafi verið farið bil beggja og bætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku verið miðaðar við mat hinna dómkvöddu manna, en bætur fyrir tímabundið atvinnutjón miðast við mat örorkunefndar án frádráttar greiðslna, er áfrýjandi naut úr lífeyrissjóðum meðan hann var óvinnufær. Að þessu tilboði hafi áfrýjandi gengið og við það sé hann bundinn. Hafi skilningur áfrýjanda á efni lokauppgjörsins verið annar en orð þess báru með sér hafi það staðið honum næst að koma þeim skilningi sínum á framfæri til stefnda. Það hafi hann ekki gert.

III.

Í tilboði stefnda 10. nóvember 1997 um uppgjör á bótum vegna tjóns áfrýjanda var ekki tekið fram á hvaða forsendum fjárhæðir einstakra liða væru byggðar. Fjárhæð bóta vegna tímabundins atvinnutjóns áfrýjanda var augljóslega sótt í fyrra tilboð stefnda 6. maí 1997. Sú fjárhæð var reist á útreikningi á atvinnutjóni áfrýjanda á því tímabili, sem örorkunefnd miðaði við í mati sínu, það er frá slysdegi til júlíloka 1996. Í öðrum liðum tilboðsins, sem vörðuðu bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku, var hins vegar miðað við mat hinna dómkvöddu manna. Hvorki tilboð þetta né samningur aðila um uppgjör 12. nóvember 1997 bera með sér á hvaða grundvelli þessi munur var gerður á viðmiðun varðandi bætur fyrir tímabundið atvinnutjón annars vegar og aðra þætti tjóns áfrýjanda hins vegar. Gegn eindregnum andmælum stefnda hefur áfrýjanda ekki tekist að sýna fram á að í raun hafi við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón hans verið byggt á lengra tímabili tímabundinnar örorku en örorkunefnd mat og að frá bótum þannig ákveðnum dregnar greiðslur frá lífeyrissjóðum til áfrýjanda meðan hann var óvinnufær. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda.

Rétt er að hvor aðili beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Valdimar L. Guðmundssyni, kt. 160358-2629, Njörvasundi 8, Reykjavík, með stefnu birtri 8. júní 1999 á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 2.775.299, ­ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 17. júní 1998, til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og tildæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins.

II.

Málavextir:

Þann 14. júlí 1995 varð stefnandi fyrir bifreiðinni JA-492 á gatnamótum Grensásvegar og Fellsmúla í Reykjavík.  Var bifreiðinni ekið norður Grensásveg á vinstri akrein með fyrirhugaða akstursstefnu áfram Grensásveg, en stefnandi gekk vestur yfir götuna á leið yfir að Fellsmúla.  Var bifreiðinni ekið yfir gatnamótin á grænu umferðarljósi, en stefnandi gekk hins vegar gegnt rauðu ljósi.  Stefnandi vildi ekki þiggja aðstoð lögreglu eða fara á slysadeild eftir óhappið, en leitaði þangað síðar sama dag.  Kvartaði hann þá um höfuðverk, verk í hálsi og vinstri öxl, en hann mun hafa kastazt upp á vélarhlíf bifreiðarinnar við áreksturinn og lent með vinstri öxl á hliðarstólpa framrúðu og kastazt síðan í götuna.  Bifreiðin var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda, sem viðurkenndi bótaskyldu og greiddi stefnanda staðgengilslaun háseta, en hann var háseti á m/b Guðbjörgu frá Ísafirði á þessum tíma.

Þann 19. apríl 1997 mat örorkunefnd varanlegan miska stefnanda 10% og varanlega örorku 25%.  Tímabundið tjón taldist vera til 1. ágúst 1996. 

Stefnandi vildi ekki una mati örorkunefndar og voru að hans frumkvæði dómkvaddir tveir matsmenn, Ríkharður Sigfússon læknir og Þorgeir Örlygsson prófessor, til þess að meta afleiðingar slyssins.  Lá matsgerð þeirra fyrir þann 26. október 1997 og var niðurstaða þeirra eftirfarandi:

 

1.Að tímabært væri að meta stefnanda til örorku.

2.Að stefnandi teldist í skilningi 2. gr. laga nr. 50/1993 hafa verið óvinnufær í 29. mánuði af völdum slyssins.

3.Að frá og með spengingaraðgerðinni, sem var framkvæmd á stefnanda 2. júlí 1997, hafi ekki verið að vænta frekari bata af völdum umferðarslyssins 14. júlí 1995.

4.Varanlegur miski stefnanda af völdum umferðarslyssins 14. júlí 1995 teldist hæfilega metinn 20%.

5.        Varanleg örorka stefnanda af völdum umferðaslyssins 14. júlí 1995 teldist hæfilega metin 30%.

 

Þegar álitsgerð örorkunefndar lá fyrir, hófust viðræður milli lögmanns stefnanda og stefnda um bætur til handa stefnanda á grundvelli matsgerðarinnar.  Liggja fyrir drög að uppgjöri frá stefnda á dskj. nr. 7.  Ekki varð þó af samkomulagi á þessu stigi, enda var stefnandi ósáttur við niðurstöðu örorkunefndar, svo sem fram er komið.  Þegar niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna lá fyrri, samþykkti stefndi að ganga til uppgjörs á grundvelli þess mats í stað mats örorkunefndar.  Liggur fyrir tillaga að uppgjöri á dskj. nr. 16, dags. 10. nóvember 1997.  Lokauppgjör fór síðan fram þann 12. nóvember s.á., sbr. dskj. nr. 18.  Af hálfu stefnanda var gefin út fullnaðarkvittun fyrir greiðslum stefnda, án fyrirvara eða athugasemda. 

Aðila greinir á um, hvort greiðslur, sem stefnandi átti von á að fá úr lífeyrissjóðum, samtals kr. 2.775.299, hefðu verið frá bótagreiðslum.  Heldur stefnandi því fram, að svo hafi verið, og hafi hann samþykkt þann frádrátt með hliðsjón af niðurstöðu í héraðsdómsmálinu nr. E-3837/1996:  Birnir Bergsson gegn Tryggingamiðstöðinni hf., en þar komst héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að draga bæri greiðslur lífeyrissjóða frá tímabundnu tjóni.  Gerir hann nú kröfu um endur­greiðslu á grundvelli dóms Hæstaréttar í sama máli, þar sem dómurinn kemst að gagnstæðri niðurstöðu.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að í máli þessu hafi þær forsendur, sem lágu til grundvallar uppgjöri hans við stefnda, verið rangar, og hann eigi rétt á að fá uppgjörinu breytt á þann hátt, að hann fái fullar bætur vegna slyssins.  Kveðst stefnandi hafa talið, að hann væri að semja um fullar bætur sér til handa, þegar hann gekk til uppgjörs við stefnda hinn 12. nóvember 1997.  Hann hafi staðið í þeirri trú, að tryggingarfélaginu væri rétt að draga frá bótum til hans þær greiðslur, sem hann hafði þá þegar fengið frá lífeyrissjóði sínum, og þær bætur, sem hann hafi átt von á að fá á næstu mánuðum.  Þessa trú sína hafi hann byggt á dómi í samskonar máli, sem hafi legið fyrir við uppgjörið.  Hann hafi hins vegar ekki vitað, að því máli hefði verið áfrýjað og von væri á Hæstaréttardómi skömmu eftir uppgjörið, og að sá dómur gæti breytt þessari túlkun á lögunum.

Telji stefnandi þau rök stefnda fáranleg, þegar hann haldi því fram, að ekkert hafi verið tekið tillit til þessa dóms við uppgjörið.  Stefndi hafi verið, og sé enn, þeirrar skoðunar, þrátt fyrir hæstaréttardóminn, að draga eigi þessar bætur úr lífeyrissjóðunum frá bótum vegna tímabundinnar örorku.  Vísist í þessu efni m.a. til fjölmenns fundar á vegum Lögmannafélags Íslands á Grand Hóteli, þar sem Guðmundur Sigurðsson, lögfræðingur stefnda, hafi gagnrýnt Hæstarétt Íslands harðlega vegna þessarar niðurstöðu og talið hana ótæka með öllu.  Þá telji stefnandi það ekki fá samhljóm hjá stefnda að vera að reka mál fyrir dómstólum og halda því þar fram að draga eigi þessar bætur frá við heildaruppgjör og semja síðan við annan aðila, í þessu tilviki stefnanda, og halda því fram í því máli, að ekki eigi að taka tillit til þessara sömu greiðslna.

Stefnandi telji afsakanlegt af sinni hálfu að hafa ekki gert fyrirvara við uppgjörið, þar sem fyrir hafi legið dómur um túlkun á skaðabótalögum og afdráttarlaust tekið fram að draga eigi þessar greiðslur frá uppgjöri.  Hafi stefnandi gengið út frá því sem staðreynd að draga ætti frá bótum til hans ofangreindar fjárhæðir, auk greiðslna frá sjúkrasjóði stéttarfélags hans og greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.  Þegar hann samþykkti að ganga til uppgjörs, hafi hann metið tilboð stefnda sem ígildi fullra bóta, eins og matsmenn hafi metið tjón hans.  Hafi hann lagt dæmið fyrir sig með eftirfarandi hætti:

 

Tekjutap, þegar tekið hafi verið tillit til

greiðslu frá stefnda, og dregnir hafi verið

frá áætlaðir skattar af bótafjárhæð kr.  3.787.622

Á móti komi:

Greitt af Sjómannafélagi Ísafjarðarkr.     277.763

Greitt af Tryggingastofnun ríkisinskr.     337.027

Greitt af lífeyrissjóðumkr.  2.175.299

Endurgreiðsla frá skattinumkr.     450.000

Viðbótargreiðsla frá lífeyrissjóðumkr.     600.000

Eftirgjöf    kr.       52.567

 

Hafi stefndi því talið sig vera að fá fullar bætur.

Stefnandi hafi verið þess fullviss, þegar hann gekk til samninga við stefnda um uppgjör, að dómur sá, sem stefndi vitnaði til, væri rétt lagatúlkun og uppgjörið eðlilegt.  Hann hafi ekki ætlað, eða séð ástæðu til, að semja um lægri bætur en hann hafi átt rétt á, samkvæmt mati hinn dómkvöddu matsmanna.  Þá hafi hann ekki heldur vitað, að dómi þeim, sem stefndi hafi vitnað til, hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Af þeim sökum öllum hafi hann kvittað undir til lögmanns síns að ganga til uppgjörs við stefnda á grundvelli tilboðsins.

Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar er varði heimild aðila til breytinga á samningi, ef forsendur samningsins séu annað hvort rangar eða villandi.  Vísist í því efni m.a. til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. l. nr. 14/1995 og 1 nr. 11/1986.  Stefnandi vísar jafnframt til 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Um dráttarvexti vísast til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Krafan um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefnda:

Af hálfu stefnanda sé því haldið fram, að óuppgert sé tjón, vegna þeirra meiðsla, er hann hlaut í umferðarslysi því, er mál þetta snýst um, að fjárhæð kr. 2.775.249.  Hann haldi því fram, að hið stefnda tryggingafélag hafi dregið það frá endanlegum bótum til hans vegna greiðslna, sem hann fékk, eða átti rétt á, frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins.

Í stefnunni komi fram, að stefnandi hafi þegar fengið greitt, eða fengið vilyrði fyrir, kr. 2.175.299 og líkur á, að hann fengi kr. 6-700.000 til viðbótar.  Stefnandi leggi síðan saman fjárhæðirnar og fái þannig út stefnufjárhæðina, kr. 2.775.299.

Ekki hafi stefnandi lagt fram nein gögn í máli þessu til skýringar þessum tölum.

Af hálfu stefnda sé þessu hins vegar alfarið mótmælt og á það lögð áherzla, að við endanlegt uppgjör, 12. nóvember 1997, hafi enginn slíkur frádráttur átt sér stað.

Í málinu hafi legið fyrir tvær matsgerðir, annars vegar álitsgerð örorkunefndar, og hins vegar mat dómkvaddra matsmanna.  Sú síðarnefnda hafi verið hagstæðari stefnanda, og þegar gengið var til uppgjörs í málinu, hafi sú síðarnefnda fyrst og fremst verið lögð til grundvallar, bæði að því er varði varanlegan miska og varanlega fjárhagslega örorku.  Hins vegar hafi, við mat tímabundinnar örorku, verið miðað við 1. ágúst 1996, sem hafi verið niðurstaða örorkunefndar.

Í tillögu félagsins frá 10. nóvember 1997 sé enginn frádráttur vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum eða Tryggingastofnun ríkisins nefndur, en í svari lögmanns stefnanda, dagsett sama dag, komi fram, að Tryggingamiðstöðin hf. hafi fallið frá hugmyndum um frádrátt vegna lífeyrissjóðsgreiðslnanna sem og greiðslnanna frá Tryggingastofnun ríkisins.  Þetta sé ítrekað í niðurlagi bréfsins, þar sem fram komi, að félagið hafi hvikað frá upphaflegum hugmyndum, sem byggðust á því að draga ætti þessar greiðslur frá.  Tveimur dögum síðar, eða þann 12. nóvember 1997, kvitti svo lögmaður stefnanda undir lokauppgjör, án nokkurs fyrirvara, og enginn frádráttur vegna hinna umdeildu greiðslna sé þar sjáanlegur.

Eins og gögn málsins beri með sér, hafi aðilar þess verið í sambandi um lausn þess um margra mánaða skeið, þegar endanleg niðurstaða náðist.  Í þeim þreifingum, sem þar eigi sér stað, skiptist menn á hugmyndum og tillögum til lausnar, og reyni vitanlega hvor um sig að gæta hagsmuna sinna, eins og best verði á kosið.  Í máli þessu sé vissulega rétt, að í upphaflegri tillögu stefndu hafi verið gerður fyrirvari um greiðslur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins, enda hafi það verið í samræmi við nýuppkveðinn héraðsdóm í máli, sem félagið var aðili að.  Þegar til endanlegs uppgjörs kom, hafði félagið hins vegar fallið frá þeim hugmyndum sínum, enda þeirra í engu getið í þeim gögnum, er fyrir liggi í tengslum við lokauppgjörið.

Önnur gögn málsins beri með sér, svo ekki verður um villzt, að þannig hafi þetta verið og nægi að benda á, að í fyrstu uppgjörstillögu stefnda, sem sé að finna í bréfi, dags. 06.05.1997, dskj. nr. 7, er tímabundið tjón talið vera kr. 3.537.711, en jafnframt sé gerður fyrirvari um greiðslur, sem stefnandi kynni að fá úr lífeyrissjóðum. Á þessum tímapunkti hafi sem sagt ekkert verið dregið frá vegna þessa.  Í loka­upp­gjörinu frá 12.11.1997, dskj. nr. 18, sé tímabundið tjón talið nema þessari sömu upphæð, sem staðfesti svo ekki verður um villzt, að kröfugerð stefnanda í máli þessu sé á misskilningi byggð.

Lögmanni stefnanda hafi auðvitað verið þetta fyllilega ljóst, og þurfi ekki frekari vitna við en bréfið á dskj. nr. 17, þar sem þessa sé beinlínis getið.  Það sé því deginum ljósara, að uppgjörið, sem fram fór 12. nóvember 1997, hafi verið fyllilega eðlilegt og í samræmi við þær vinnureglur og venjur, sem tíðkist á þessum vettvangi.

Menn reyni einfaldlega eftir beztu getu að nálgast ásættanlega niðurstöðu og þurfi þá stundum að fara bil beggja, svo takist að ljúka málinu.

Í máli því, er hér sé til umfjöllunar, sé fallizt á ítrustu kröfur stefnanda, að því er varði varanlegan miska og varanlega örorku.  Það hafi þó alls ekki verið sjálfgefið og þess auðvitað mörg dæmi, að á það væri látið reyna, hvort niðurstaða örorkunefndar eða dómkvaddra matsmanna væri sú eina rétta, eða hvort einhver millivegur væri þar inni í myndinni.

Varðandi tímabundna tjónið hafi hins vegar, eins og áður segi, verið miðað við þá niðurstöðu örorkunefndar, að tímabundnu tjóni væri lokið 1. ágúst 1996.  Hinir dómkvöddu matsmenn telji hins vegar, að tímabundna tjónið sé mun lengra, eða í 29 mánuði.  Samkomulag það, sem gert var 12. nóvember 1997, hafi því snúizt um þann þátt, en greiðslur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins hafi ekkert haft með það að gera.

Því sé þess vegna mótmælt, að forsendur samkomulagsins frá 12. nóvember 1997 hafi að einhverju leyti brugðizt.  Engu slíku hafi verið til að dreifa, og gengið hafi verið til uppgjörsins að frumkvæði stefnanda og að höfðu samráði við lögmann hans.  Leiki enginn vafi á því, að það hafi verið stefnanda að hafa fyrirvara á uppgjörinu, hafi að einhverju leyti verið óljóst, hvernig það var hugsað.

Kunnara sé en frá þurfi að segja, að mikill hluti bótamála vegna líkamstjóna sé gerður upp með samkomulagi utan réttar, milli lögmanns slasaða og tryggingafélags.  Eðli máls samkvæmt sé nauðsynlegt að ljúka málinu þannig, að bundinn sé endi á þrætur vegna þess í eitt skipti fyrir öll.  Þetta séu þær reglur, sem gildi í málum sem þessum, og báðir aðilar verði að sætta sig við.

Það sé a.m.k. ljóst, að til þess að frá þeirri meginreglu verði vikið, að menn séu almennt skuldbundnir af samningum eða samkomulagi, sem þeir séu aðilar að, þurfi að vera mjög ríkar ástæður og því sé haldið fram, að engu slíku sé til að dreifa í þessu máli.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og auk hans vitnin, Guðmundur Ágústsson hdl. og Hjálmar Sigurþórsson, deildarstjóri tjónadeildar Tryggingamið­stöðvarinnar hf.

Málatilbúnaður stefnanda er ekki skýr að því leyti, að ekki er ljóst, hvort hann byggir á því, að samið hafi verið um uppgjör fyrir tímabundið tjón á grundvelli mats örorkunefndar, en síðan hefðu verið dregnar frá því bætur úr lífeyrissjóðum, þvert á gert samkomulag, eða hvort samið hafi verið um bætur í 18 mánuði, að teknu tilliti til frádráttar vegna lífeyrisgreiðslna, sem aðilar hafi ranglega staðið í trú um, að væri byggður á lagaheimild, þar til dómi héraðsdóms í málinu nr. E-3837/1996 var snúið við í Hæstarétti.  Verður því fjallað um kröfur stefnanda með bæði þessi sjónarmið í huga.

Lögmaður stefnanda undirritaði greiðsluuppgjör stefnda án fyrirvara þann 12.11.1997, þar sem hann lýsti því jafnframt yfir, að um væri að ræða lokagreiðslu vegna tjónsins.  Byggir krafa stefnanda nú á brostnum forsendum fyrir uppgjörinu.

Tilboð stefnda um uppgjör, byggt á mati örorkunefndar, er dags. 6. maí 1997 og liggur fyrir í málinu á dskj. nr. 7.  Í samræmi við matið reiknast tímabundið tjón stefnanda fyrir tímabilið 14. júlí til 1. ágúst kr. 3.537.711.  Enn fremur er í tilboðinu gerður fyrirvari vegna bótaréttar tjónþola úr lífeyrissjóðum og segir svo m.a.:  “... og ljóst er að tjónþola ber að sækja rétt sinn þangað að fullu og munu greiðslur þaðan koma til frádráttar tímabundinni örorku.”   Af orðalagi bréfsins liggur ljóst fyrir, að alls var óvíst um lífeyrisgreiðslur til handa stefnanda á þessum tímapunkti, og hafði ekki verið tekið tillit til þeirra í tilboðsfjárhæð stefnda. 

Á dskj. nr. 27, sem stefnandi staðfesti fyrir dómi, að hefði að geyma réttar upplýsingar, reiknast töpuð laun stefnanda fyrir ofangreint tímabil samtals kr. 5.029.667.  Þar af hafði útgerðin greitt stefnanda kr. 1.553.692 og stefndi greitt honum kr. 3.537.975.  Samkvæmt því hafði stefndi ofgreitt stefnanda kr. 61.736.  Hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að tímabundið tjón hans fyrir tímabilið 14. júlí til 1. ágúst 1995 nemi hærri fjárhæð.  Í þessum útreikningum er ekki tekið tillit til hugsanlegra greiðslna til stefnanda úr lífeyrissjóðum.

Eftir að örorkumat hinna dómkvöddu matsmanna lá fyrir, gerði stefndi stefnanda nýtt tilboð, sem dagsett er 10. nóvember 1997, sem byggir á síðara matinu, að öðru leyti en því er varðar lengd hins tímabundna tjóns, en þar er byggt á mati örorkunefndar eins og fyrr, og er fjárhæðin sú sama og í fyrra tilboðinu, hvað það varðar.  Á tilboðið er síðan handritað:  “Ath. gleymdist - greiðslur frá T.R: og lífeyrissj. koma ekki til frádráttar eins og á að gera.”  Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnanda á dskj. nr. 17 er tilboðið tekið upp og gerð tillaga um hækkun á liðnum “varanleg örorka”.  Þá segir svo í bréfinu um liðinn “tímabundið tjón”:  “Ef gengið verður að þessu er TM tilbúið til að falla frá frádrætti vegna lífeyrissjóðsgreiðslum (sic) sem þú hefur fengið ásamt greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. .... Með þessu tilboði er fallist á matsgerðina að öllu öðru leyti en hvað viðkemur tímabundna tjóninu.  Hafa þeir þó kvikað (sic) nokkuð frá því sem áður var því þá vildu þeir draga frá greiðslur frá lífeyrissjóðum svo og greiðslur frá TR.  Jafna má þeim greiðslum við bætur í ca. 6 mánuði þannig að verið er að tala um bætur í ca. 18 mánuði.”  Undir þetta bréf ritar stefnandi svohljóðandi samþykki sitt:  “Ég samþykki ofangreinda tillögu með ofangreindum breitingum (sic) og fullum lögmanskostnaði (sic) og matskosnaði (sic).”

Af framangreindu er ljóst, að lögmaður stefnda mátti vita, að lífeyrisgreiðslur höfðu ekki verið dregnar frá tímabundna tjóninu í þessu tilboði stefnanda.  Hann skýrði svo frá fyrir dómi, að bæði hann og stefndi hefðu þó talið rétt að lögum að draga greiðslurnar frá, með hliðsjón af dómi héraðsdóms í málinu nr. E-3837/1996.  Það, að fella niður frádráttinn, jafngilti því, að mati lögmannsins, að því er lesið verður úr framangreindri athugasemd hans, að stefnandi fengi viðbótargreiðslur í u.þ.b. 6 mánuði, þar sem tekið hefði verið tillit til lífeyrisgreiðslna.  Virðist stefnandi þannig byggja kröfu sína á því, að í raun hafi falizt í tilboði stefnda loforð um greiðslu fyrir tímabundið tjón í allt að 18 mánuði.

Stefnandi hefur ekki haldið því fram, eða gert tilraun til að sýna fram á eða gera sennilegt, að stefndi hafi vitað, eða mátt vita, um þennan skilning stefnanda og lögmanns hans á tilboði stefnda, og verður hvergi lesið úr gögnum, sem fóru á milli málsaðila, að forsenda stefnanda fyrir samkomulagi væri greiðsla í u.þ.b. 18 mánuði, eða að slík greiðsla væri í boði af hálfu stefnda.  Þá styðja útreikningar á dskj. nr. 27 þá niðurstöðu, að tímabundna tjónið hafi ávallt verið miðað við liðlega 12½ mánuð, með því að upplýsinga er eingöngu aflað um tekjutjón stefnanda fyrir tímabilið 14. júlí 1995 til 1. ágúst 1996. 

Í bréfi stefnanda til lögmanns hans á dskj. nr. 48, heldur stefnandi því fram, að þær forsendur, sem hann lagði til grundvallar við uppgjör vegna tímabundinnar örorku, hafi verið alls 29 mánuðir, sbr. niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna.  Í málatilbúnaði stefnanda og gögnum málsins, er ekkert sem styður þessa fullyrðingu, eða gerir hana trúverðuga, sbr. það sem fyrr er rakið.

Að öllu framansögðu virtu ber að hafna kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 250.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Valdimars Guðmundssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda kr. 250.000 í málskostnað.