Hæstiréttur íslands
Mál nr. 293/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
- Rannsókn
- Málshraði
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2012. |
|
Nr. 293/2012. |
Sérstakur saksóknari (Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari) gegn X ehf. (Jón Þór Ólason hdl.) |
Kærumál. Haldlagning. Rannsókn. Málshraði.
Kærður var úrskurður þar sem fallist var á kröfu X ehf. um að fellt yrði úr gildi hald á inneign á tilteknum bankareikningi. Hæstiréttur felldi hinn kærða úrskurð úr gildi, með vísan til þess að rannsókn málsins væri lokið, ágreiningslaust væri að bankainnstæðan væri til komin vegna þeirra atvika sem til rannsóknar voru og að ákæra hefði verið gefin út í málinu þar sem gerð væri krafa um upptöku hinna haldlögðu fjármuna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2012, þar sem felld var úr gildi ákvörðun ríkislögreglustjóra 15. janúar 2010 um að leggja hald á inneign varnaraðila á tilteknum bankareikningi, upphaflega að fjárhæð 92.150.336 krónur. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Atvikum máls er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hófst rannsókn máls þessa hjá ríkislögreglustjóra 15. janúar 2010. Sama dag ákvað ríkislögreglustjóri að leggja hald á inneign varnaraðila að fjárhæð 92.150.336 krónur í MP banka hf. til tryggingar upptöku ávinnings í sakamáli á hendur fyrirsvarsmönnum varnaraðila og varnaraðila sjálfum, ef til sakamáls kæmi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010 og dómi Hæstaréttar 21. sama mánaðar í máli nr. 301/2010 var ákvörðun ríkislögreglustjóra staðfest. Varnaraðili beindi þeirri kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 28. mars 2012 að framangreind ákvörðun ríkislögreglustjóra um haldlagningu yrði felld úr gildi en nú á öðrum grunni.
Samkvæmt gögnum málsins er lögreglurannsókn lokið og var ákæra gefin út 16. apríl 2012 á hendur Y fyrirsvarsmanni X ehf. fyrir brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Þá beinist ákæra einnig að varnaraðila og er í henni gerð krafa um að honum verði gert að sæta upptöku hinna haldlögðu fjármuna. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hafa alllöng hlé orðið á rannsókn málsins og er fallist á með héraðsdómi að ekki hafi komið fram af hálfu sóknaraðila haldbærar skýringar á þeim hléum. Til þess er á hinn bóginn að líta sem rakið er í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 301/2010 að ágreiningslaust er að bankainnstæðan sem málið varðar er til komin vegna þeirra atvika sem til rannsóknar voru. Ákæra í málinu hefur samkvæmt framansögðu þegar verið gefin út og er í ákæruskjali gerð krafa um upptöku hinna haldlögðu fjármuna. Að þessu virtu er fallist á með ákæruvaldinu að ekki séu efni til að fella haldlagningu þá er um ræðir í málinu úr gildi.
Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2012.
I.
Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 28. mars sl., krafðist sóknaraðili, X ehf., [...] í [...], þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að úr gildi skuli falla ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra frá 15. janúar 2010 um að leggja hald á inneign sóknaraðila á bankareikningi [...] að fjárhæð 92.150.336 krónur hjá MP banka hf. Að auki krefst sóknaraðili þess að ríkissjóður greiði allan málskostnað af máli þessu að mati dómsins.
Varnaraðili, embætti sérstaks saksóknara, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sá málskostnaður sem kann að verða úrskurðaður verði felldur á sóknaraðila.
Í samræmi við 2. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 var krafan þingfest 2. apríl 2012. Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi 16. apríl 2012.
II.
Hinn 14. janúar 2010 barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra beiðni frá Brynjari Níelssyni hrl., fyrir hönd A hf., B hf. og C hf. um lögreglurannsókn á ætluðum brotum eigenda og/eða forsvarsmanna D ehf. vegna gruns um stórfelld fjársvik. Í beiðninni kom fram að grunurinn lyti að því að umræddir bankar hefðu verið blekktir til að aflétta veðkröfum á fasteigninni [...] í [...] á grundvelli málamyndakaupsamnings þar sem kaupverð hafi verið umtalsvert lægra en kveðið hafi verið á um í raunverulegum kaupsamningi um eignina.
Gögn málsins bera með sér að rannsókn málsins hafi þá þegar hafist. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2010 var fallist á kröfu ríkislögreglustjóra um að tilteknar fjármálastofnanir létu í té upplýsingar um hvort nánar tilgreindir einstaklingar og félög, þar á meðal sóknaraðili, ættu hjá þeim bankahólf og bankareikninga, og ef svo væri, að upplýsingar um þessar eignir yrðu veittar ríkislögreglustjóra. Sama dag ákvað ríkislögreglustjóri að leggja hald á inneign sóknaraðila að fjárhæð 92.150.336 krónur á bankareikningi í MP banka hf. til tryggingar upptöku ávinnings í mögulegu sakamáli á hendur fyrirsvarsmönnum sóknaraðila og sóknaraðila sjálfum. Í bréfi ríkislögreglustjóra til bankans, dags. sama dag, kemur fram að rökstuddur grunur léki á því að þessara fjármuna hefði verið aflað með refsiverðri háttsemi umræddra aðila. Um lagagrundvöll ákvörðunarinnar var vísað til 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Húsleit fór fram á þremur stöðum 19. janúar 2010 í þágu rannsóknar málsins og var hald lagt á rafræn og skjalleg gögn. Þá voru fjórir sakborningar í málinu yfirheyrðir sama dag, þar á meðal fyrirsvarsmenn sóknaraðila, Y og E.
Þáverandi lögmaður sóknaraðila gerði þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. mars 2010 að haldlagning innstæðunnar yrði felld úr gildi. Með úrskurði dómsins 10. maí sama ár var ákvörðun um haldlagninguna staðfest. Með dómi Hæstaréttar Íslands 21. maí 2010 í málinu nr. 301/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 fyrir haldlagningu á munum sem ætla má að hafi verið aflað á refsiverðan hátt væri fullnægt í málinu. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Í greinargerð varnaraðila er lýst bókunum í málaskrá lögreglu (LÖKE) um gang rannsóknarinnar. Af þeim bókunum megi ráða að rannsókn á gagnageymslum (þ.e. rafrænum gagnageymslum sem aflað var við húsleit) hafi lokið hjá tölvudeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 10. júlí 2010. Þar kemur einnig fram að rannsakandinn, sem hafi farið með málið, hafi skilað því af sér 10. ágúst 2010. Hafi málinu verið úthlutað til nýrra rannsakenda 2. nóvember sama ár. Síðast sé bókað í málaskrána að 21. maí 2011 hafi rannsakandi skilað málinu af sér til ákærumeðferðar.
Með lögum nr. 82/2011, sem öðluðust gildi 1. september 2011, var efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra lögð niður og starfsemi hennar færð til embættis sérstaks saksóknara. Við þá breytingu færðist meðferð málsins til embættis sérstaks saksóknara. Í greinargerð varnaraðila kemur fram að með bréfi, dags. 12. september 2011, hafi málinu verið úthlutað til saksóknara til ákvörðunar um saksókn. Niðurstaða saksóknara hafi legið fyrir 11. nóvember 2011. Hún varð sú að þörf væri á frekari rannsóknaraðgerðum áður en málið teldist tækt til ákvörðunar um saksókn. Þá hafi saksóknari gert athugasemd við sakargreiningu í málinu. Í kjölfarið hafi málið verið tekið til frekari rannsóknar á grundvelli 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Staðhæft er að við þá rannsókn hafi verið leitað að nýju í rafrænum gögnum sem og fyrirliggjandi skjallegum gögnum. Auk þess hafi verið aflað nýrra gagna, skjalaskrá verið endurunnin og sakargreining endurskoðuð. Þegar greinargerðin var rituð hafi lokaskýrslutökur staðið yfir. Hefðu síðustu vitni verið boðuð til skýrslutöku föstudaginn 13. apríl 2012. Að þeim loknum myndi málið flytjast fullrannsakað á ákærustig og var í greinargerðinni talið að þess væri að vænta að ákvörðun um saksókn gæti legið mjög fljótlega fyrir.
Í þinghaldi, þar sem munnlegur málflutningur um kröfu sóknaraðila fór fram 16. apríl sl., lagði varnaraðili fram ákæru, dags. 16. apríl 2012, á hendur Y og sóknaraðila, X ehf. Er málið höfðað gegn ákærða Y „fyrir fjársvik en til vara fyrir skilasvik með því að hafa sem stjórnarmaður D ehf. blekkt A hf., B hf. og C hf., veðhafa fasteignar félagsins að [...] í [...], til að fallast með sameiginlegum, skriflegum yfirlýsingum, dagsettum 16. og 21. desember 2009, á að létta af fasteigninni áhvílandi veðum bankanna á fyrsta veðrétti gegn greiðslu samtals 575.000.000 króna upp í fjárkröfur bankanna á hendur D ehf.“. Í ákærunni kemur fram að fjögur tryggingarbréf hafi hvílt á fyrsta veðrétti fasteignarinnar að höfuðstólsfjárhæð samtals 984 milljónir króna. Hafi blekkingar ákærða falist í því að vekja og hagnýta sér rangar hugmyndir starfsmanna bankanna annars vegar um verðmæti fasteignarinnar að [...] og hins vegar um eignarhald hennar.
Í ákærunni segir nánar tiltekið að þegar bankarnir hafi gefið yfirlýsingu sína 16. desember 2009 hafi ákærði haldið að starfsmönnum bankanna kauptilboði í fasteignina að fjárhæð 575.000.000 króna frá nafngreindu, erlendu félagi, fyrir hönd félagsins F ehf., dags. 14. desember 2009, sem ákærði hafði samþykkt með undirritun fyrir hönd ónafngreinds seljanda. Er ákærði sakaður um að hafa leynt því að hann hafi þá þegar verið búinn að afsala fasteigninni fyrir hönd D ehf. til félagsins F ehf. sem var tilboðsgjafi samkvæmt áðurnefndu tilboði. Hafi afsalið verið afhent til þinglýsingar samdægurs en þinglýst 14. desember 2009. Er því haldið fram í ákærunni að tilboð þetta hafi af þessum sökum verið markleysa og að ákærða hlotið að vera það ljóst. Þá hafi afsal fasteignarinnar til F ehf. farið gegn þinglýstri kvöð A hf. þar sem D ehf. skuldbundu sig til að selja hvorki né veðsetja fasteignina nema því aðeins að fyrir lægi skriflegt leyfi bankans.
Í ákærunni er því einnig haldið fram að í aðdraganda yfirlýsingar bankanna 16. desember 2009 hafi ákærði leynt starfsmenn bankanna því að honum hafi verið kunnugt, í síðasta lagi frá byrjun desember 2008, að G á [...] vildi kaupa fasteignina að [...] og að ráðgert söluverð fasteignarinnar væri 7.000.000 Bandaríkjadala, sem hafi jafngilt 854.940.000 krónum á skráðu sölugengi Seðlabanka Íslands 1. desember 2009.
Því er einnig haldið fram í ákæru að sama dag og bankarnir hafi gefið yfirlýsingu sína, 16. desember 2009, hafi ákærði eignast ásamt föður sínum félagið F ehf., þinglýstan eiganda fasteignarinnar samkvæmt afsalinu 11. desember 2009. Hafi bönkunum eftir sem áður verið ókunnugt um eignarhald F ehf. á fasteigninni. Næsta dag, 17. desember 2009 hafi ákærði loks selt og afsalað fasteigninni fyrir hönd F ehf. til G á [...] fyrir 7.000.000 Bandaríkjadala, sem hafi jafngilt 878.639.503 krónum.
Í ákærunni er því síðan haldið fram að ákærði hafi beitt sér fyrir því að fá starfsmenn bankanna til að gefa að nýju sameiginlega yfirlýsingu um afléttingu veða af eigninni, dags. 21. desember 2009, sem hafi verið samhljóða hinni fyrri nema að við bættist ákvæði um dráttarvexti. Hafi ákærði fengið umrædda yfirlýsingu útgefna aftur með vísan til hins marklausa tilboðs frá 14. desember 2009, eins og segir í ákærunni, og án þess að bankarnir væru þá upplýstir um framangreind viðskipti.
Í ákærunni er því haldið fram að 28. desember 2009 hafi 114.723.500 krónur af söluandvirði fasteignarinnar runnið inn á bankareikning í eigu F ehf. Hafi fjárhæðin verið ávinningur af broti ákærða og jafnframt að lágmarki það tjón sem bankarnir hafi beðið af brotinu, en af söluandvirðinu hafi sama dag runnið til þeirra samtals 577.300.000 krónur upp í framangreindar fjárkröfur þeirra á hendur D ehf. Tryggingabréfum bankanna hafi verið aflýst af fasteigninni 30. desember 2009 og 5. janúar 2010. Eftirstöðvar fjárkrafna bankanna á hendur D ehf. hafi staðið óverðtryggðar eftir og séu ógreiddar.
Með framangreindri háttsemi er ákærði talinn hafa gerst sekur um fjársvik með því að hafa haft af umræddum bönkum að lágmarki 114.723.500 krónur af verðmæti fasteignarinnar að [...] samkvæmt söluandvirði kaupsamnings um hana frá 17. desember 2009. Til vara er talið að ákærði hafi gerst sekur um skilasvik með því að hafa afsalað fyrir hönd D ehf. til F ehf. fasteigninni að [...], án samþykkis A hf., þrátt fyrir kvöð um að óheimilt væri að selja eða veðsetja fasteignina, nema því aðeins að fyrir lægi skriflegt samþykki bankans, með þeim hætti að ekki samrýmdist réttindum bankans, en eignin hafi verið veðsett honum til tryggingar skuldbindingum félagsins. Er háttsemin talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 250. gr. sömu laga. Er þess krafist í ákæru að ákærði Y verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Samkvæmt ákæru er málið höfðað á hendur sóknaraðila, sem áður hét F ehf., til þess að sæta upptöku ávinnings af broti ákærða Y samkvæmt ákærunni. Kemur þar fram að nafni sóknaraðila hafi verið breytt 16. desember 2009. Með vísan til 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er þess krafist í ákærunni að félaginu verði gert að sæta upptöku á 96.931.458 krónum sem hafi verið haldlagðar og geymdar á bankareikningi hjá MP banka hf. nr. [...] en sú fjárhæð sé ávöxtuð staða 30. desember 2011 á fjárhæðinni 92.150.336 krónum sem ríkislögreglustjóri haldlagði af bankareikningi sóknaraðila nr. [...] hjá MP banka hf. 15. janúar 2010. Í ákæru kemur fram að upptökukrafan taki einnig til áfallinna og áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 30. desember 2011 til upptökudags.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að haldlagning á fjármunum hans samkvæmt 68. gr., sbr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þvingunaraðgerð í þágu meðferðar máls. Sé krafa sóknaraðila sett fram á grundvelli 3. mgr. 69. gr. sömu laga, sbr. enn fremur 2. mgr. 102. gr. laganna. Í fyrrgreinda ákvæðinu sé kveðið á um að eigandi eða vörsluhafi munar sem lagt sé hald á geti borið ágreiningsefnið undir dómara ef hann vilji ekki hlíta ákvörðun um haldlagningu. Í síðarnefnda ákvæðinu komi fram að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda.
Sóknaraðili reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að óhæfilegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins og meðferð þess eftir að hald var lagt á fjármuni hans. Telur hann að þegar svo afdrifaríku þvingunarúrræði sé beitt, sem haldlagning sé í eðli sínu, beri rannsakendum að hraða rannsókn sakamála, til að takmarka eins og unnt sé þá alvarlegu réttarskerðingu sem felist í þessu úrræði. Hafi allt lausafé sóknaraðila verið haldlagt, sem hafi haft þær afleiðingar að starfsemi sóknaraðila liggi í raun niðri og geri félaginu verulega erfitt fyrir að mæta lögboðnum útgjöldum. Um lagarök fyrir framangreindri ályktun vísar sóknaraðili til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vísar sóknaraðili enn fremur til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 2. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi rannsókn málsins gengið gegn reglum ríkissaksóknara RS: 5/2009 um hámarkstíma meðferðar efnahagsbrota hjá lögreglu og ákærendum, en þar komi m.a. fram að í þeim tilvikum, sem rannsókn máls dragist, skuli þess gætt að unnið sé stöðugt að málinu. Af hálfu sóknaraðila sé því harðlega mótmælt að hann hafi þurft að sæta því að rannsókn málsins tæki svo langan tíma sem raunin sé. Í hinum tilvitnuðu lagareglum felist að sakborningi sé tryggður réttur til málsmeðferðar án óhæfilegs dráttar á öllum stigum málsins. Þá sé sérstök þörf á því að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sætir þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarka frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum, sbr. m.a. framangreinda tilvísun í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Dráttur sá sem hafi orðið á meðferð málsins teljist vera alvarlegt brot á meginreglum réttarfars um eðlilegan málshraða og fari í bága við fyrrnefnd ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Sóknaraðili tekur fram að þó að ekki sé kveðið á um það í 72. gr. laga nr. 88/2008 að dráttur á rannsókn máls sé meðal þess sem geti leitt til þess að aflétta beri haldlagningu leiði af ofangreindum ákvæðum stjórnarskrár og laga um að hraða beri málsmeðferð að haldlagningarþoli geti átt réttmæta kröfu til þess að aflétt sé þeim hömlum sem haldlagning leggur á stjórnarskrárvarinn rétt hans til að njóta forræðis yfir eigum sínum ef rannsókn dregst úr hófi.
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að þau sjónarmið sem hér hafi verið rakin hafi verið staðfest í fjórum nýlegum dómum Hæstaréttar Íslands sem hafi verið kveðnir upp 25. janúar 2012 í málunum nr. 682/2011, 683/2011, 684/2011 og 685/2011. Þar hafi ákvörðun sýslumanns og endurupptaka þeirrar ákvörðunar um kyrrsetningu verið felldar úr gildi á grundvelli þess að ákæruvaldið hefði ekki gert það líklegt að ekki hefði mátt ljúka úrvinnslu gagna við rannsókn umræddra sakamála á mun skemmri tíma en ákæruvaldið hefði haft til þess, en þá hafi verið liðin tvö ár og rúmir tveir mánuðir frá því að málið hafði verið kært til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Var vísað til þess að rannsókn málsins hefði verið andstæð ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu sem og ákvæða sakamálalaga er kveða á um hraða málsmeðferð. Engin efnisleg rök séu til að gera hér greinarmun á haldlagningu og kyrrsetningu, enda í báðum tilvikum um að ræða mjög sambærilegar og íþyngjandi þvingunarráðstafanir, er báðar gangi út á að takmarka stjórnarskrárvarinn rétt manna og lögaðila til að njóta forræðis yfir eignum sínum.
Sóknaraðili telur að sömu sjónarmið séu uppi í þessu máli og í fyrrgreindum hæstaréttarmálum, enda séu nú liðin tvö ár og rúmir tveir mánuðir frá því kært var til lögreglu. Hafi skýrslur verið teknar af fjórum af fimm sakborningum við rannsókn málsins 19. janúar 2010. Fram kemur í kröfu sóknaraðila að þessir aðilar hafi ekki verið kallaðir aftur til skýrslutöku. Skýrsla af fimmta sakborningnum hafi verið tekin 12. apríl 2010 og hafi sú skýrsla verið sú eina sem hann hafi gefið hjá lögreglu. Sóknaraðili heldur því fram að eingöngu fjögur vitni hafi gefið formlega skýrslu í málinu. Þær skýrslur hafi verið gefnar 1., 10. og 14. mars 2010 og 22. febrúar 2011. Hafi því einvörðungu einn aðili gefið skýrslu í máli þessu eftir 14. maí 2010, en það var í byrjun árs 2011. Enginn hafi verið kvaddur í skýrslutöku í þágu rannsóknar málsins í rúma 13 mánuði. Með hliðsjón af ofangreindu telur sóknaraðili að mál þetta sé ekki svo umfangsmikið að það réttlæti þann seinagang sem hafi orðið á því. Þá virðist liggja fyrir að nær engin önnur sönnunargögn hafi bæst við rannsóknargögn málsins frá því í janúar 2010. Í málinu liggi þó fyrir skýrsla um rannsókn afritaðra gagna á geisladiskum, en sú skýrsla er rúmlega eins árs gömul eða frá 11. apríl 2011. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi verið á þá leið að engin gögn hafi fundist er nýst gætu við rannsókn málsins. Umrædd rannsóknarskýrsla og ein vitnaskýrsla virðast því vera einu gögnin sem hafi bæst við rannsóknina á árinu 2011. Með hliðsjón af framangreindu verði að telja að lögreglunni hafi verið í lófa lagið að ljúka rannsókn málsins á mun skemmri tíma en raun beri vitni. Því beri að fella hina umdeildu ákvörðun um haldlagningu úr gildi.
Krafa sóknaraðila er einnig reist á því að við rannsókn málsins hafi málsatvik verið upplýst á þann hátt að ekki sé lengur til staðar rökstuddur grunur um að framið hafi verið fjársvikabrot við umrædd viðskipti. Því beri með vísan til 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála að afhenda hina haldlögðu fjármuni aftur. Enn fremur hafi umrædd rannsókn byggst á mistúlkun á fjársvikaákvæði 248. gr. almennra hegningarlaga. Að mati sóknaraðila hafi rannsóknin í upphafi beinst að því að gera eðlileg viðskipti tortryggileg og yfirfæra þau á refsinæma háttsemi.
Í kröfugerð sóknaraðila eru í meginatriðum færð eftirfarandi rök fyrir framangreindu. Frá upphafi hafi verið ljóst að stofna þyrfti sérstakt félag hér á landi í tengslum við viðskiptin við H, en erlent félag geti að lögum ekki yfirtekið áhvílandi virðisaukaskattskvöð eins og kaupandi fasteignarinnar ætlaði að gera samkvæmt kauptilboðinu 14. desember 2009. Þá hafi krafa um rannsókn málsins byggst á því að hið samþykkta kauptilboð hafi verið málamyndagerningur. Telur sóknaraðili að fyrirliggjandi gögn sýni að það sé rangt. Þvert á móti hafi hinn erlendi tilboðsgjafi haft raunverulegan áhuga á að kaupa fasteignina. Þá vísar sóknaraðili til þess að í hinu samþykkta tilboði hafi verið ákvæði sem veitti tilboðshafa heimild til að afturkalla samþykki sitt. Það hafi verið gert þegar samningur við G hafi verið í höfn. Telur sóknaraðili að umrætt samningsákvæði sýni að ekki hafi verið beitt blekkingu, en bankarnir hafi fengið hið samþykkta tilboð til yfirferðar. Bankarnir, og þá einkum A hf., hafi hins vegar metið það svo að ásættanlegt væri að fá 575 milljónir króna til að aflétta umræddum veðböndum. Þeim hefði verið í lófa lagið að tryggja sér hærri greiðslu með einfaldri yfirlýsingu ef hærra tilboð í fasteignina myndi berast. Þá hafnar sóknaraðili því að fyrir 17. desember 2009 hafi samningur verið kominn á milli G og D ehf. Skrifað hafi verið undir þann kaupsamning 17. desember og dómsmálaráðuneytið hafi ekki samþykkt hann fyrr en 22. desember 2009.
2. Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hafnar því að rannsókn lögreglu hafi legið að mestu niðri frá vormánuðum 2010. Almennt verði að hafa í huga að rannsókn málsins sé bæði flókin og tímafrek. Hún varði fjölda einstaklinga og lögaðila og verulega fjárhagslega hagsmuni þar sem m.a. fasteignasala, lögmenn, fjármálafyrirtæki, erlend ríki og ríkisborgarar og ráðuneyti komi við sögu.
Að því er varði rannsókn ríkislögreglustjóra er af hálfu varnaraðila bent á að í júlí 2010 hafi fyrst lokið rannsókn tölvudeildar lögreglu á rafrænum gagnageymslum í málinu. Málinu hafi verið úthlutað nýjum rannsakendum 2. nóvember 2010. Af vinnuskjölum megi ráða að þeir hafi tekið til við að kanna nánar ýmsa hliðaranga málsins sem rannsókn hafði á fyrri stigum leitt í ljós. Þeir hafi m.a. unnið að því að upplýsa ástæður fjármagnshreyfinga og greiðslna milli aðila, sakborninga og annarra, sem hafi átt sér stað í söluferli fasteignarinnar að [...] til G seinnipart desember 2009. Hafi síðari rannsókn embættis sérstaks saksóknara miðað að því að upplýsa þær enn frekar. Þá sé ljóst að 22. febrúar 2011 hafi rannsakendur yfirheyrt eitt vitni vegna málsins. Þá liggja einnig fyrir í málinu greinargerð rannsakenda, tímalínur og önnur stoðgögn fyrir ákærendur sem ljóst sé að hafi verið unnin á þessum tíma áður en rannsakendurnir töldu rannsókn málsins lokið og skiluðu því af sér á ákærustig þann 21. maí 2011. Þá hafi verið liðnir um 17 mánuðir frá því kæra barst ríkislögreglustjóra vegna málsins.
Eins og rakið sé í kafla II hafi málið komist á forræði varnaraðila 1. september 2011 og verið úthlutað til saksóknara ellefu dögum síðar. Það hafi verið niðurstaða hans í byrjun nóvember 2011 að málið þyrfti frekari rannsóknar við. Af hálfu varnaraðila er lögð áhersla á þýðingu þeirrar ákvörðunar fyrir allt mat á málshraða í málinu. Fyrir ákvörðun ákæranda um frekari rannsóknaraðgerðir sé skýr og ótvíræð heimild í 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verði að skýra hana með hliðsjón af grunnreglu sakamálaréttarfars um að leiða skuli hið sanna í ljós, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. Það sé því hluti af eðlilegri og lögákveðinni meðferð sakamála að komið geti til frekari rannsóknar þeirra, telji ákærandi þess þörf. Við slíkar aðstæður sé óhjákvæmilegt að heildarrannsóknartími verði nokkuð lengri en ella. Grunnregla sakamálaréttarfars um að leiða skuli hið sanna í ljós sé að öðrum ólöstuðum ein hin mikilvægasta sem lögreglu og ákæruvaldi beri að fylgja við framkvæmd starfa sinna. Í ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 felist að sú grunnregla sé sett skör ofar en hugsanlegur dráttur á málsmeðferð, innan eðlilegra marka, sem ávallt hljóti að leiða af ákvörðun ákæranda um frekari rannsóknaraðgerðir. Sá viðbótartími í rannsókn málsins sem liðið hefur eftir þessa ákvörðun er að mati varnaraðila vel innan eðlilegra marka.
Af hálfu varnaraðila er talið að frekari rannsókn hans hafi sýnt fram á réttmæti umræddrar ákvörðunar saksóknara. Full þörf hafi verið á frekari rannsókn málsins. Hafi málið verið rannsakað af hálfu varnaraðila með hliðsjón af öðru sakarefni, skilasvikum, samhliða upphaflegu sakarefni, fjársvikum. Líkt og lýst hafi verið hafi sú rannsókn verið umfangsmikil og þegar greinargerðin hafi verið rituð hafi hún verið á lokastigi.
Varnaraðili telur að hafa verði í huga að haldlagning sé þvingunarráðstöfun sem að öðru jöfnu gangi skemmst í skerðingarátt. Það helgist af því að haldlagning feli í sér skerðingu á eignar- og ráðstöfunarrétti yfir munum, sem teljist ekki jafnmikilvægir verndarhagsmunir og persónufrelsi, líkamshelgi og friðhelgi einkalífs. Þá hljóti einnig að koma til skoðunar hvort rannsókn hafi dregist svo úr hömlu að því atriði verði léð meira vægi en þeim refsivörslusjónarmiðum sem haldlagningu er ætlað að tryggja, sbr. ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Rík refsivörslusjónarmið hafi verið og séu enn fyrir því að viðhalda haldlagningu á fjármunum sóknaraðila. Eigi það sérstaklega við nú við lok rannsóknar málsins. Þá mæli meginregla 72. gr. laga nr. 88/2008 fyrir um að haldi skuli aflétta þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli sé endanlega lokið. Hvorugu þessara skilyrða sé fullnægt. Í raun sé þetta aðalatriði í málinu og megi heimfæra annað í greinargerðinni hér undir. Full þörf sé á að viðhalda haldlagningu vegna refsivörslusjónarmiða auk þess sem rannsókn málsins sé á lokastigi. Við þetta bætir varnaraðili að í íslenskri réttarframkvæmd hafi tímalengd rannsóknar jafnan verið atriði sem tekið hafi verð tillit til við ákvörðun refsingar og dráttur á rannsókn, sem telst óhæfilegur, verið talinn ákærða til málsbóta. Sé rannsókn hætt eða fallið frá saksókn eigi sakborningur hins vegar kost á því að höfða bótamál gegn ríkissjóði vegna atriða í rannsókn lögreglu sem hafi valdið honum tjóni eða óhagræði. Jafnvel þó að rannsókn hafi þannig dregist óeðlilega sé það eitt ekki réttmæt ástæða til að fella úr gildi þvingunarráðstöfun gagnvart sóknaraðila.
Varnaraðili telur að enda þótt haldlagning sé í eðli sínu íþyngjandi þvingunarráðstöfun gagnvart sóknaraðila verði að telja slíka ráðstöfun gagnvart lögpersónu mun síður íþyngjandi en haldlagning sem beinist að einstaklingi. Í tilviki einstaklinga beinist haldlagning jafnan beint að persónulegum fjármunum þeirra, jafnvel þeim einu sem þeir eigi til ráðstöfunar. Sóknaraðili sé ekki einstaklingur heldur einkahlutafélag með takmarkaðri ábyrgð. Ekkert liggi fyrir um að haldlagðir fjármunir séu einu tiltæku fjármunir sóknaraðila og dregur varnaraðili í efa að svo sé. Eigendur sóknaraðila eigi fleiri félög í virkum rekstri, hafi töluverð umsvif í viðskiptum utan starfsemi sóknaraðila og sæti engum þvingunarráðstöfunum persónulega. Verði að hafa þetta í huga þegar metið er hvort rannsókn málsins teljist hafa dregist óhæfilega gagnvart sóknaraðila, sem varnaraðili hafnar, og hvort fella eigi haldlagninguna niður á þeim forsendum.
Af hálfu varnaraðila er talið að dómar Hæstaréttar í málum nr. 682, 683, 684 og 685/2011 verði alls ekki túlkaðir svo, eins og sóknaraðili virðist gera, að þar hafi því verið slegið föstu að ef sakamálarannsókn dragist umfram tiltekin tímamörk varði það eitt og sér, nánast sjálfkrafa, ógildi kyrrsetningar eða halds sem sakborningar sæti. Telur hann að mat á þessu sé tilviksbundið og velti á atvikum í hverju máli. Að þessu gættu tekur varnaraðili fram að atvik í þessum hæstaréttarmálum greini sig frá því máli sem hér um ræði í a.m.k. tveimur mikilvægum atriðum. Í fyrsta lagi hafi þar verið um einstaklinga að ræða en í þessu máli lögpersónu. Í öðru lagi hafi rannsókn í þeim málum sem Hæstiréttur fjallaði um ekki verið lokið en ákærandi síðan tekið ákvörðun um frekari rannsóknaraðgerðir á grundvelli 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, eins og í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Þá bendir varnaraðili á að ætluð brot í því máli sem hér um ræði verði að telja alvarlegri í eðli sínu en ætluð brot í framangreindum málum, þ.e. annars vegar ætluð fjársvik eða skilasvik, en hins vegar ætluð brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Fyrrnefndu hegningarlagabrotin varði allt að sex ára fangelsi en brot gegn gjaldeyrislöggjöfinni varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Enn fremur hafi rannsókn í þeim málum sem fjallað var um í framangreindum hæstaréttardómum verið mun skemmra á veg komin en rannsókn í þessu máli.
Í tilefni af vísun sóknaraðila til fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 5/2009 tekur varnaraðili fram að fyrirmæli þeirra um rannsóknartíma efnahagsbrota séu ekki fortakslaus. Þannig sé réttlætanlegt að víkja frá tímamörkunum ef mál telst mjög umfangsmikið. Það eigi við um þetta mál eins og ráða megi af málsatvikum og dómskjölum. Þá hafi rannsóknartíminn ekki farið verulega fram yfir þessi mörk eða einungis tæpa þrjá mánuði. Enn fremur eigi þessi fyrirmæli illa við um þau sértilvik þegar rannsókn hefur verið lokið en ákærandi hefur síðan mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir. Í því sambandi vitnar varnaraðili til orða í fyrirmælunum um að rannsókn máls verði aldrei hætt til þess eins að ljúka því innan frests ef þörf er á áframhaldandi rannsókn til að mál upplýsist.
Varnaraðili bendir einnig á að í fyrirmælunum komi fram að efnahagsbrot séu iðulega umfangsmikil og flókin og að almennt sé viðurkennt að þau geti tekið mun lengri tíma en önnur mál. Einnig komi þar fram að markmið ákæruvalds sé að tryggja málsmeðferð þar sem saman fari gæði og eðlilegur hraði við rekstur máls. Með því sé verið að sinna þeirri meginskyldu laga og kröfu samfélagsins að afbrotamenn verði beittir lögmæltum viðurlögum. Þá megi stuttur meðferðartími mála aldrei vera á kostnað gæða og réttaröryggis.
Tekið er fram af hálfu varnaraðila að matskennt sé hvaða skilning leggja beri í orðalagið „unnið stöðugt að máli“. Hvað sem öðru líði sé ófært við túlkun þessara fyrirmæla að slíta þau úr samhengi við eðlilegar og réttmætar væntingar til starfa lögreglu og ákærenda sem jafnan sinni mörgum málum í einu og, á sviði efnahagsbrota, iðulega þungum í rannsókn. Það hafi alveg sérstaklega átt við undanfarin misseri.
Varnaraðili áréttar að ríkar refsivörsluástæður hafi verið og séu fyrir því að viðhalda haldlagningu í málinu, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Telur hann verulega hættu á að fjármunirnir verði ekki tiltækir þegar á það kann að reyna ef haldlagningu verði aflétt. Í því sambandi er á það bent að á þremur vikum eftir að fjármunirnir urðu sóknaraðila tiltækir hafi fjárhæðin rýrnað um tæpar 22,6 milljónir króna uns hald var lagt á fjármunina.
Varnaraðili telur hins vegar að málsástæður sóknaraðila um tilefni rannsóknar og haldlagningar varði ekki það atriði heldur feli í raun í sér efnislegan málflutning um sakarefni lögreglurannsóknarinnar, þ.e. í meginatriðum hvort sakborningar hafi framið þau ætluðu brot sem þeim hafa verið gefin að sök og lögfræðileg atriði í því sambandi. Krafa sóknaraðila sé sett fram á grundvelli 3. mgr. 69. gr. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Telur varnaraðili að málsástæður af þeim toga sem hér um ræði falli utan þess sem að lögum verði teflt fram til stuðnings kröfu á grundvelli framangreindra lagaákvæða og leitað efnisúrlausnar um í máli sem rekið er þannig. Málið sé lagt fyrir dóm með skírskotun til XV. kafla laga nr. 88/2008. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laganna megi leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda sem og ágreining um réttindi sakbornings, verjanda hans eða lögmanns, sem og brotaþola, réttargæslumanns hans eða lögmanns. Í greininni séu ekki tilgreind fleiri tilvik eða efnisatriði, sérstök eða almenns eðlis, sem borin verði undir héraðsdóm á grundvelli hennar. Þá vísar varnaraðili til ummæla í athugasemdum við XV. kafla laganna í frumvarpi því er varð að lögunum. Verði að líta svo á að löggjafinn hafi með umræddu ákvæði markað sérstakan og skýran ramma fyrir þau ágreiningsefni sem borin verði undir dóm á þessum grundvelli. Þá sé meðferð mála samkvæmt 102. gr. laganna mjög frábrugðin almennri meðferð sakamála fyrir dómi, m.a. um umfang gagnaframlagningar, sönnunarfærslu og málflutning. Varnaraðili telur af þessum ástæðum að líta eigi fram hjá málsástæðum sóknaraðila hvað þetta varðar.
Við munnlegan málflutning vék varnaraðili að því hvort ekki væri efni til að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi í ljósi þess að rannsókn málsins væri lokið og búið að gefa út ákæru í því. Málið væri nú á forræði þess dómara sem hefði það til efnismeðferðar. Af hálfu sóknaraðila sé málið rekið á grundvelli reglna XV. kafla laga nr. 88/2008 sem rannsóknarmál, en ekki sé lengur unnt að byggja meðferð þess á þeim kafla eftir að ákæra hefur verið gefin út. Orkar það sérstaklega tvímælis þegar hinir haldlögðu fjármunir eru andlag uppítökukröfu í sakamálinu.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er hliðstætt ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sú skylda á þeim sem rannsaka sakamál að hraða meðferð þess eftir því sem kostur er. Sakborningi er því tryggður réttur til þess að málsmeðferðin á öllum stigum málsins sé án óhæfilegs dráttar. Felur þetta meðal annars í sér að ekki má langur tími líða þar sem ekki er unnið á markvissan hátt að því að ljúka málinu. Er þetta sérstaklega mikilvægt í málum þar sem sakborningar eða aðrir sæta þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi ráðstöfunum sem geta meðal annars takmarkað forræði þeirra yfir eignum sínum. Í því sambandi ber að leggja áherslu á að þeir sem annast rannsókn sakamála verða að gæta þess að mönnum sé ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt sé eftir því sem á stendur, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Nýtur starfsemi lögpersónu ekki síður verndar framangreindra reglna, enda tengist hún fjárhagslegum hagsmunum eigenda, starfsmanna og ef til vill fleiri einstaklinga.
Eins og fram hefur komið hófst rannsókn þess máls, sem hér er til umfjöllunar, hjá ríkislögreglustjóra 15. janúar 2010. Ákæra var gefin út í því 16. apríl sl. eða tveimur árum og þremur mánuðum síðar. Skýrslur voru teknar af þremur sakborningum þegar við upphaf rannsóknar eða 19. janúar 2010. Einn aðili, sem hafði réttarstöðu sakbornings við rannsóknina, gaf skýrslu 12. apríl 2010. Frá 1. mars til 14. maí 2010 gáfu fjögur vitni einnig skýrslu. Ljóst er af framlagðri aðalskjalaskrá að athugun tölvugagna, sem haldlögð höfðu verið við húsleit 19. janúar 2010, lauk 10. júlí 2010. Ýmis skjöl liggja enn fremur fyrir í málinu sem stafa frá kærendum, sakborningum, innanríkis- og utanríkisráðuneytum sem og fjármálastofnunum. Af því sem fyrir liggur í málinu verður ekki annað ráðið en að þeirra hafi að mestu leyti verið aflað á fyrstu mánuðum rannsóknarinnar. Virðist því sem lítið hafi verið unnið að rannsókn málsins frá miðjum júlí 2010 þangað til skýrsla er tekin af einu vitni 22. febrúar 2011 eða í rúma sjö mánuði. Starfsmaður sem vann að rannsókninni hjá ríkislögreglustjóra skilaði málinu síðan til ákærumeðferðar hjá saksóknara 21. maí 2011 eða þremur mánuðum eftir að skýrslan var tekin af vitninu. Ekkert virðist hafa verið unnið við eiginlega meðferð málsins fyrr en saksóknari hjá varnaraðila komst að þeirri niðurstöðu 11. nóvember 2011 að þörf væri á frekari rannsóknaraðgerðum. Hafði málið þá verið til athugunar með tilliti til þess hvort höfða skyldi mál gegn sakborningum í tæpa sex mánuði, í þrjá mánuði og tíu daga hjá ríkislögreglustjóra og í tvo mánuði og ellefu daga hjá varnaraðila. Af greinargerð varnaraðila verður ráðið að í upphafi hafi þær rannsóknaraðgerðir sem gripið var til af hans hálfu falist í því að fara að nýju yfir fyrirliggjandi gögn. Þar er þó staðhæft að aflað hafi verið nýrra gagna, en ekki vísað til þess hvaða gögn það eru í fyrirliggjandi aðalskjalaskrá sem hann aflaði, en skjalaskráin var afhent lögmanni sóknaraðila 9. mars 2012. Hins vegar liggur fyrir að teknar hafa verið skýrslur af sakborningum og vitnum frá 10. til 13. apríl 2012. Viðbótarrannsókn varnaraðila tók því rúma fimm mánuði.
Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki fram hjá því litið að alllöng hlé hafa orðið bæði á rannsókn málsins og eftir að saksóknari hafði tekið við því. Ekki hafa komið fram haldbærar skýringar á þeim töfum af hálfu varnaraðila, en ekki er unnt að fallast á að verkaskipting starfsmanna réttlæti drátt á rannsókn og meðferð sakamáls eða þegar forræði þess færist milli starfsmanna og embætta.
Í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 682/2012, 683/2012, 684/2012 og 685/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að dráttur á tiltekinni rannsókn ætlaðra brota á lögum um gjaldeyrisviðskipti hefði verið með þeim hætti að málsmeðferðin hefði farið í bága við fyrrgreindar reglur laga og stjórnarskrár um málshraða og meðalhóf við rannsókn sakamála. Þótti embætti sérstaks saksóknara ekki hafa gert það líklegt að ekki hefði verið unnt að ljúka úrvinnslu gagna í málinu á mun skemmri tíma en embættið hafði haft til þess. Af þessum sökum var kyrrsetning á eigum sakborninga í málinu felld úr gildi. Voru þá liðin tvö ár og rúmir tveir mánuðir frá því Fjármálaeftirlitið kærði málið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.
Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið um meðferð þess máls, sem hér er til úrlausnar, verður að slá því föstu að unnt hefði verið að ljúka rannsókn þess og taka afstöðu til málshöfðunar mun fyrr en raun ber vitni. Er þá jafnframt horft til þess að um tiltölulega afmarkað sakarefni er að ræða. Rannsókn og meðferð málsins fram að útgáfu ákæru fór því gegn fyrirmælum laga og stjórnarskrár sem eiga að tryggja rétt sakbornings og annarra sem hagsmuni hafa af úrlausn sakamálsins til þess að málinu sé lokið innan hæfilegs tíma. Verður að líta svo á að fram að útgáfu ákæru hafi því sem næst sömu aðstæður verið uppi og í þeim málum sem Hæstiréttur Íslands fjallaði um í fyrrgreindum dómum. Sá munur er þó á málunum að í fyrirliggjandi máli er ljóst að rannsóknin var á lokastigi þegar krafa sóknaraðila barst héraðsdómi og að ákæra hefur nú verið gefin út í málinu auk þess sem lögpersóna á í hlut en ekki einstaklingar. Þegar litið er til forsendna fyrrgreindra hæstaréttardóma virðist einungis hafa verið litið til þess hvort rannsóknin hafi dregist úr hófi fram til þess að krafan kom til úrlausnar réttarins. Ekki er þar vísað til þess hvers vænta mætti um afdrif rannsóknarinnar. Því verður að ætla að það atriði eigi ekki að hafa sérstaka þýðingu þegar afstaða er tekin til kröfu sóknaraðila. Krafa hans fyrir dómi er reist á 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 og kom hún til kasta dómsins áður en ákæra var gefin út í málinu. Ber að ljúka umfjöllun um kröfuna á þeim lagagrundvelli. Eins og framan greinir njóta lögpersónur einnig verndar reglna stjórnarskrár og laga sem fjalla um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og hraða málsmeðferð. Því verður ekki séð að hafna beri þýðingu framangreindra hæstaréttardóma í málinu þar sem lögpersóna eigi hér í hlut en ekki einstaklingur. Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn að í ljósi fyrrgreindra fordæma Hæstaréttar beri að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu.
Varnaraðila verður í ljósi framangreindrar niðurstöðu gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Felld er úr gildi ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra frá 15. janúar 2010 um að leggja hald á inneign sóknaraðila, X ehf., á bankareikningi [...] hjá MP banka hf., upphaflega að fjárhæð 92.150.336 krónur.
Varnaraðili, embætti sérstaks saksóknara, greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.