Hæstiréttur íslands
Mál nr. 229/2005
Lykilorð
- Lögreglumaður
- Brot í opinberu starfi
- Umferðarlagabrot
|
|
Fimmtudaginn 10. nóvember 2005. |
|
Nr. 229/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Aðalbergi Sveinssyni (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Lögreglumenn. Brot í opinberu starfi. Umferðalagabrot.
Lögreglumanninum A voru gefin að sök brot í opinberu starfi og umferðarlagabrot með því að hafa ekki gætt lögmætra aðferða í aðgerð lögreglu til að stöðva ætlaðan hraðakstur ökumanns bifhjóls. Ekki var fallist á kröfu A um ómerkingu héraðsdóms á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður. A hafði viðurkennt að hafa ekið lögreglubifreiðinni inn á vegarhelming bifhjólsins í því skyni að þrengja akstursleið þess og fá ökumanninn til að nema staðar. Var framburður A lagður til grundvallar í málinu en hann fékk stoð í vætti lögreglumanns sem með honum var og gögnum málsins. Talið var að sú háttsemi A að aka lögreglubifreið inn á vegarhelming bifhjóls í því skyni að þrengja akstursleið þess hafi verið hættuleg og óforsvaranleg. Ekki hafi heldur verið til að dreifa neinum starfsreglum lögreglu sem hafi heimilað aðgerð af þessu tagi, en hún hafi ótvírætt falið í sér frávik frá almennum akstursreglum umferðarlaga. Var A sakfelldur fyrir brot gegn 132. gr. almennra hegningarlaga. Þá var fallist á með héraðsdómi að þar sem ekki hafi verið skilyrði til að víkja frá 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr. umferðarlaga hafi A einnig gerst brotlegur gegn þeim. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að A hafði ekki áður hlotið refsingu og að fyrir honum vakti að stöðva ætlaðan ofsaakstur ökumanns bifhjóls. Var ákvörðun refsingar hans frestað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. maí 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 352.509 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í ákæru.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og að málinu vísað heim í hérað, en til vara sýknu. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er aðallega reist á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Nauðsyn þessa úrræðis ræðst af aðstæðum hverju sinni. Eins og sönnunargögnum í málinu er háttað verður mati héraðsdóms á þessu ekki haggað. Mat á sönnunarfærslu á hendur ákærða sætir hins vegar endurskoðun fyrir Hæstarétti, eftir því sem efni máls gefur tilefni til, þar með talið hvort munnleg sönnunarfærsla, eins og héraðsdómari hefur metið hana, fái nægilega stoð í öðrum gögnum.
II.
Í málinu eru ákærða gefin að sök brot í opinberu starfi og umferðarlagabrot með því að hafa, þegar hann ók lögreglubifreið vestur Ægisíðu aðfaranótt 31. maí 2004, ekki gætt lögmætra aðferða í aðgerð lögreglu til að stöðva ætlaðan hraðakstur ökumanns bifhjóls, sem ekið var í gagnstæða átt með þeim afleiðingum að ökumaður bifhjólsins kastaðist af því og lenti á lögreglubifreiðinni, sem þá var að hluta til á röngum vegarhelmingi. Fram er komið að skömmu áður en slysið varð hafði lögregla í þrígang reynt að stöðva ofsaakstur bifhjólsins án árangurs. Ákærði og lögreglumanni sem með honum var í lögreglubifreiðinni hafði tvívegis borist tilkynning um hraðakstur hans auk þess sem þau höfðu sjálf með radar mælt hraða bifhjólsins á Norðurströnd á Seltjarnarnesi og reyndist hann þá að teknu tilliti til vikmarka hafa verið 129 km/klst. Í framhaldi þess leituðu þau ákærða í nágrenninu.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið lögreglubifreiðinni inn á vegarhelming bifhjólsins í því skyni að þrengja akstursleið þess og fá ökumanninn til að nema staðar. Kveðst ákærði hafa séð til ferðar bifhjólsins við gatnamót Kaplaskjólsvegar og Ægisíðu, en þá hafi lögreglubifreiðin verið stödd í aflíðandi beygju stutt frá þeim stað sem áreksturinn varð. Þegar hjólið hafi nálgast hafi hann fært bifreiðina örlítið meira inn á vegarhelming bifhjólsins þar sem sér hafi virst sem ökumaður þess hafi ætlað að fara öfugu megin fram hjá bifreiðinni. Nokkru fyrr hafi hann gefið ökumanninum stöðvunarmerki með því að tendra blá forgangsljós. Hann hafi síðan fært bifreiðina örlítið meira inn á réttan vegarhelming. Í sömu mund hafi ökumaður bifhjólsins misst stjórn á því og fallið í götuna, en hjólið lent á bifreiðinni. Framburði ákærða er nánar lýst í héraðsdómi og fær hann stoð í vætti lögreglumannsins sem með honum var og gögnum málsins. Verður hann því lagður til grundvallar í málinu.
Sú háttsemi ákærða að aka lögreglubifreið inn á vegarhelming bifhjóls í því skyni að þrengja akstursleið þess var hættuleg og óforsvaranleg, enda hafði hann vitneskju um aksturslag ökumannsins þessa nótt og gat ekki treyst á að ökumaðurinn, sem hann taldi að æki á miklum hraða eftir Ægisíðu, myndi með svo skömmum fyrirvara hafa ráðrúm til að stöðva bifhjólið eða komast klakklaust framhjá bifreiðinni. Ekki var heldur til að dreifa neinum starfsreglum lögreglu sem heimiluðu aðgerð af þessu tagi, en hún fól ótvírætt í sér frávik frá almennum akstursreglum umferðarlaga nr. 50/1987. Verður ákærði samkvæmt framansögðu sakfelldur fyrir brot gegn 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 54/2003. Er fallist á með héraðsdómi að þar sem ekki hafi verið skilyrði til að víkja frá 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr. umferðarlaga hafi ákærði einnig gerst brotlegur gegn þeim.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur ekki áður hlotið refsingu og að fyrir honum vakti að stöðva akstur ökumanns bifhjóls, sem var grunaður um ofsaakstur eftir götum borgarinnar, en ekki hafði tekist að stöðva aksturinn. Vísast um þetta til 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Verður frestað ákvörðun refsingar hans og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.
Skaðabótakrafa P er vanreifuð og verður henni því vísað frá héraðsdómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvörðun um refsingu ákærða, Aðalbergs Sveinssonar, er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Skaðabótakröfu P er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 544.054 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Gylfa Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2005.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 26. janúar sl. á hendur ákærða, Aðalbergi Sveinssyni, Ársölum 5, Kópavogi, kt. 120473-3369, „fyrir brot í opinberu starfi og umferðarlagabrot með því að hafa, þegar hann ók lögreglubifreiðinni MN-074 vestur Ægisíðu, ekki gætt lögmætra aðferða í lögregluaðgerð sem beindist gegn of hröðum akstri P.... er hann stýrði bifreiðinni inn á miðju akbrautarinnar til þess að reyna að stöðva eða hindra akstur bifhjólsins MJ-[...], sem P ók í austur á móti lögreglubifreiðinni, með þeim afleiðingum að bifhjólið hafnaði framan á bifreiðinni, sem þá var að hluta til á röngum vegarhelmingi, og P kastaðist af því. P nokkur meiðsl við áreksturinn en bæði ökutækin skemmdust mikið.
Telst þetta varða við 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
Þess er krafist að ákærð[i] verði dæmd[u]r til refsingar ...
P krefst bóta úr hendi ákærða Aðalbergs Sveinssonar að fjárhæð kr. 352.509 auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38,2001 frá 31. maí 2004 til greiðsludags.“
Mál þetta var upphaflega höfðað í einu lagi gegn ákærða og ökumanni bifhjólsins, P, en var skilið í sundur við þingfestingu þess 10. febrúar sl.
Málavextir
Fyrir liggur að aðfaranótt mánudagsins 31. maí sl. ók ákærði lögreglubílnum MN-074 vestur Ægisíðu hér í borg, en lögreglan var þá að leita manna á bifhjólum sem ekið höfðu um borgina á miklum hraða, en ekki hafði tekist að stöðva. Hafði leikurinn borist vestur um borgina og út á Seltjarnarnes. Þegar ákærði ók vegarkaflann á Ægisíðu fyrir austan Kaplaskjólsveg sá hann hvar bifhjóli var ekið úr gagnstæðri átt. Beygði hann þá til vinstri inn á hina akreinina, rétt austan við hraðahindrun sem er á götunni. Varð árekstur með ökutækjunum þannig að þau skemmdust nokkuð og bifhjólamaðurinn féll og meiddist. Þá fékk lögreglumaður í framsæti lögreglubílsins einnig lítils háttar áverka.
Meðal gagna í málinu eru ljósmyndir af slysavettvangi sem bornar hafa verið undir ákærða og P, svo og óstaðfestur uppdráttur. Sjá má af þessum gögnum að lögreglubíllinn er hálfur inni á gagnstæðri akrein, þannig að miðlína vegarins er nokkurn veginn horna á milli undir honum og framendi bílsins inni á réttum vegarhelmingi, miðað við akstursstefnu. Þá bendir staða framhjólanna á lögreglubílnum til þess að hann hafi verið á leið aftur til hægri inn á rétta akrein þegar áreksturinn varð. Í málinu hefur verið lögð fram stækkuð ljósmynd sem sýnir glerbrot og brak aftan við vinstra framhjól lögreglubílsins sem bendir til þess að hann hafi runnið nokkuð áfram eftir áreksturinn. Til hins sama bendir afstaða bílsins og skemmda á honum til hemlafaranna eftir bifhjólið, eins og greinilega má sjá á ljósmyndunum. Hemlaför þessi eru slitrótt af ljósmyndunum að sjá en ekki kemur fram í málinu hvort lengd þeirra var mæld. Á ljósmyndunum má sjá skemmdir og rispur framan á lögreglubílnum frá vinstra horni og aðeins inn fyrir miðjan bílinn. Vélhjólið er nokkuð skemmt að sjá, einkum fremri aurhlíf, ökuljós og hlífar við stýrið. Ekki verður annað ráðið af ljósmyndunum og vettvangsuppdrættinum en að áreksturinn hafi orðið á akrein bifhjólsins.
Þá er meðal gagna í málinu útprentun fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra úr því sem nefnt er “tetrakerfi” lögreglunnar. Skjal þetta er óstaðfest en af því og óstaðfestri greinargerð í málinu má ráða að kveikt hafi verið forgangsljós á lögreglubílnum kl. 03:22:34 og að lögreglubíllinn hafi þá verið á 4 km hraða á Ægisíðu. Þá er óstaðfest tölvuskeyti frá ríkislögreglustjóraembættinu um það að tilkynning hafi borist frá lögreglubílnum kl. 03:23:07 að búið væri að stöðva bifhjólið. Samkvæmt útprentun úr “tetrakerfinu” er bíllinn orðinn kyrrstæður kl. 03:23:33 og með forgangsljósin logandi.
Fyrir liggur að ökumaður bifhjólsins tognaði um hægri úlnlið og marðist á hægri sköflungi, þannig að blæddi undir beinhimnu. Þá hefur hann eftir slysið verið með verki í hægri handlegg með dofa fram í fingur, verk í öxlum og baki og undir hægra herðablaði og loks hefur verk lagt upp í háls og höfuð. Hefur hann þurft að taka bólgueyðandi lyf við þessum meiðslum og gangast undir sjúkraþjálfun.
Loks er þess að geta að dómari og sakflytjendur hafa skoðað vettvang.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði segist hafa séð til bifhjólsins koma úr gagnstæðri átt þegar lögreglubíllinn var kominn rétt vestur fyrir Esso-bensínstöðina. Áleit hann sama hjól vera þar á ferð sem hann hafði staðið að of hröðum akstri skömmu áður og merkti þetta af hjólinu, galla og hjálmi knapans. Bifhjólið var nálægt gatnamótunum við Kaplaskjólsveg þegar ákærði sá til ferða þess. Ekki geti hann gert sér nákvæma grein fyrir hraða bifhjólsins en eftir honum var haft í frumskýrslu að hjólinu hefði verið ekið mjög hratt. Hann kveðst telja að það sé rétt lýsing á ökuhraðanum. Segist ákærði hafa gripið til þess ráðs, til þess að láta ökumann hjólsins stöðva það, að kveikja forgangsljósin og færa bílinn yfir að miðju vegar. Ekki man hann hvort hann gerði á undan hinu. Hann segist hafa gætt þess vel þegar hann færði bílinn að bifhjólamaðurinn gæti komist fram hjá. Fannst ákærða fyrst að maðurinn gerði sig líklegan til þess að komast fram hjá með því að fara öfugu megin við lögreglubílinn og því hafi hann fært lögreglubílinn örlítið meira en hann ætlaði sér í upphafi. Þegar bifhjólið átti skammt eftir að bílnum hafi það farið að riða og greinilegt verið að ökumaður þess hafði misst stjórn á því og kveðst ákærði þá hafa reynt að færa bílinn aftur yfir á sína akrein og framendinn verið kominn yfir á réttan vegarhelming þegar slysið varð og áreksturinn orðið á akrein ákærða. Sjáist þetta á ljósmyndunum í málinu. Hafi bifhjólamaðurinn fallið í götuna og hjólið runnið framan á lögreglubílinn og maðurinn velst aftur með bílnum vinstra megin en svo staðið á fætur. Ekki hafi verið nein önnur umferð um Ægisíðu þegar þessi atburður varð. Ákærði segist ekki hafa haft neinar verklagsreglur að styðjast við um hvernig stöðva eigi akstur bifhjóls. Slíkar reglur séu ekki til en hann hafi stuðst við áralanga almenna venju lögreglunnar, um það hvernig skuli þrengt að akstri ökutækja. Hann kveðst hafa litið svo á að mikil hætta væri af akstri bifhjólsins á götum borgarinnar sem yrði að afstýra, enda hafi maðurinn stefnt aftur inn í borgina á hjólinu. Hann leggur áherslu á að ráðstöfun hans hafi verið væg því hjólinu hefði með góðu móti mátt aka fram hjá bílnum ef ökumaður þess hefði kosið að gera það í stað þess að virða stöðvunarmerki lögreglunnar.
P, ökumaður vélhjólsins, hefur skýrt frá því að hann hafi komið akandi fyrir horn eða beygju við bensínstöðina á Ægisíðu og séð hvar lögreglubílnum hafði verið ekið alfarið yfir á öfugan vegarhelming. Hafi hann verið rétt hjá hraðahindruninni þegar hann sá lögreglubílinn. Hann hafi reynt að hemla en það ekki dugað til því lögreglubíllinn hafi ekið framan á bifhjólið og haldið áfram eftir það eins og sjá megi af ljósmyndum. Sjáist far á miðjum stuðara lögreglubílsins eftir annað dekkið á bifhjólinu. Kveðst hann hafa kastast af hjólinu og á ská yfir framanverðan lögreglubílinn og fallið í götuna hinum megin við hann. Kveðst hann halda að hann hafi rekist utan í þakljósin á bílnum þegar hann flaug af hjólinu. Kveðst hann halda að hann hafi ekið með um 50 km hraða í þetta sinn, þegar hann byrjaði að hemla. Hefði hann áreiðanlega hlotið meiri meiðsli ef hann hefði ekið hraðar. Hann kveðst ekki geta gert sér grein fyrir hraða lögreglubílsins en hann hafi verið á hreyfingu. Hann kveðst aldrei hafa misst stjórn á ökutækinu en séð fram á að árekstur yrði, því lögreglubíllinn hafi verið kominn alveg út í götubrún á hans akrein. Ekki hafi komið til greina að beygja á hjólinu um leið og hann hemlaði, enda hefði það auðvitað orðið til þess að hann félli í götuna. Ekki muni hann eftir annarri umferð þarna í þetta sinn.
Sigrún Kristín Jónasdóttir lögreglumaður sem var með ákærða í bílnum hefur skýrt frá því að hún hafi séð vélhjólið á móts við Kaplaskjólsveg þegar því var ekið á móti lögreglubílnum. Hafi hjólið verið á töluverðum hraða en ekki geti hún sagt hversu miklum. Hún kveðst ekki muna hvort önnur umferð hafi verið þarna um götuna. Hafi ákærði numið staðar og sett ljósin á þegar hann sá til ferða hjólsins, að hún álítur. Í lögregluskýrslu er haft eftir henni að hún gæti ekki sagt hvenær þetta gerðist en ljósin hefðu verið á þegar hún steig út úr bílnum. Vitnið segir að vélhjólinu hafi verið hemlað og þá byrjað að titra, maðurinn hafi fallið af því og hjólið lent á lögreglubílnum, sem hafi þá verið “meira til vinstri” en verið “á réttum vegarhelmingi líka”. Ekki kveðst hún muna hvort ákærði færði lögreglubílinn eftir að hann var kominn yfir á öfugan vegarhelming. Vitnið segir að lögreglubílnum hafi ekki verið ekið mikið inn á öfugan vegarhelming og hefði mátt aka hjólinu fram hjá bílnum báðum megin. Þá segir hún það ekki rétt að ákærði hafi ekið alveg að götubrúninni hinum megin en síðan beygt frá henni aftur. Vitnið kveður bifhjólamanninn ekki hafa flogið yfir bílinn, enda hefði hún séð það. Hann hljóti því að hafa velst aftur með bílnum.
Niðurstaða
Ákærði kveðst hafa upphaflega ekið lengra inn á vegarhelming bifhjólsins, en hafa náð að sveigja þaðan nokkuð til hægri áður en áreksturinn varð. Getur þetta samrýmst því sem sést á ljósmyndunum í málinu, að framhjól bílsins eru í krappri beygju. Á hinn bóginn verður það ráðið með fullri vissu af hemlaförunum eftir bifhjólið að áreksturinn varð inni á vegarhelmingi þess og þar sem bifhjólið kom framan á bílinn hlýtur framendi hans að hafa verið þar þegar áreksturinn varð. Ljóst er því að lögreglubíllinn hefur færst til hægri eftir áreksturinn. Ákærði kveðst hafa kveikt bláu forgangsljósin, annað hvort áður en að hann sveigði fyrir vélhjólið eða á eftir. Framburður Sigrúnar Kristínar Jónasdóttur um þetta atriði tekur ekki af skarið en það gerir vitnið P, því hann kveður ljósin ekki hafa verið kveikt þegar áreksturinn varð. Útprentunin úr tetrakerfinu gefur aftur á móti til kynna að bíllinn hafi verið á hreyfingu þegar kveikt var á ljósunum. Til þess að ekki sé á ákærða hallað, sbr. 1. mgr. 45. gr. oml., verður hér miðað við að hann hafi kveikt ljósin ekki síðar en hann sveigði bílnum fyrir hjólið.
Samkvæmt 8. gr. umferðarlaga setur dómsmálaráðherra reglur um neyðarakstur og getur með þeim undanþegið slíkan akstur frá ákvæðum umferðarlaga. Um neyðarakstur gilda reglur nr. 101,1988 og samkvæmt 1., 3., 5. og 6. gr. þeirra má, við verkefni lögreglu, víkja m.a. frá umferðarreglum fyrir ökumenn í VI. kafla umferðarlaga, enda séu þá að jafnaði notuð blá blikkandi ljós, sérstakrar varúðar sé gætt og jafnframt sé aðgát höfð og öðrum vegfarendum sýnd tillitssemi. Ákærði ók í veg fyrir bifhjólið í því skyni að stöðva akstur þess og álítur dómurinn að þetta hafi hann gert í slíkri skyndingu að ökumaður bifhjólsins hafi ekki haft ráðrúm til þess að afstýra slysinu. Verður að telja að með því hafi ákærði stefnt honum í augljósa og verulega hættu. Verður ekki séð að við þessar aðstæður hafi ákærði mátt víkja frá almennum umferðarreglum og grípa til svo hættulegrar ráðstöfunar, sem var í andstöðu við sérstaka og almenna varúðarskyldu 1. mgr. og 4. mgr. 6. gr. reglna um neyðarakstur. Ákærði gætti þannig, af stórfelldu gáleysi, ekki réttra reglna í aðgerðum sínum og telst hafa brotið gegn 132. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem ekki voru skilyrði til þess fyrir hann að víkja frá þeim umferðarreglum sem við áttu telst hann einnig hafa brotið gegn 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur í sekt og komi fangelsi í 32 daga, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Af hálfu P er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 352.509 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 31. maí 2004. Krafist er miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, “fyrir mjög alvarlega atlögu á líf og heilsu” P, sem varðað geti ákærða “refsiábyrgð samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga”. Þá hefur verið krafist lögmannsþóknunar, 52.509 króna. Brot ákærða gegn 132. gr. almennra hegningarlaga telst vera ólögmæt meingerð gegn persónu P og ber að dæma ákærða til þess að greiða honum 150.000 krónur í miskabætur fyrir þá meingerð. Þá ber samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, að dæma ákærða til þess að greiða P 45.000 krónur í bætur fyrir kostnað af því að halda fram kröfunni. Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða vexti af bótafjárhæðinni samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2004 til 10. febrúar 2005, en þaðan í frá með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Gylfa Thorlacius hrl., 150.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Aðalbergur Sveinsson, greiði 200.000 krónur í sekt og komi fangelsi í 32 daga, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði greiði P 195.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2004 til 10. febrúar 2005, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Gylfa Thorlacius hrl., 150.000 krónur.
Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum verjanda dómfellda og sækjandanum.