Hæstiréttur íslands
Mál nr. 451/2016
Lykilorð
- Brot gegn lyfjalögum
- Vopnalagabrot
- Upptaka
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð.
Fallist er á það mat héraðsdóms að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi átt töflur þær sem um ræðir í málinu í sölu- og dreifingarskyni. Varðar sú háttsemi hans við 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, sem ákærða verður gerð refsing fyrir samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laganna, sbr. dóma Hæstaréttar 27. september 2012 í máli nr. 122/2012 og 6. febrúar 2014 í máli nr. 457/2013. Þá verða lyf þau sem í ákæru greinir gerð upptæk samkvæmt 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jónas James Norris, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 511.251 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Sératkvæði
Ingveldar Einarsdóttur
Samkvæmt ákæru eru ákærða gefin að sök annars vegar brot gegn lyfjalögum nr. 93/1994 og hins vegar brot gegn vopnalögum nr. 16/1998. Brot ákærða gegn lyfjalögum er talið felast í því að hafa átt í sölu- og dreifingarskyni 85 stykki af Ritalin töflum og 15 stykki af Ritalin Uno töflum, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar og eru annars vegar heimfærð til 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga og hins vegar til 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 49. gr. þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lyfjalaga er markmið þeirra að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. eru Lyfjamálastjóri, Umhverfisstofnun, landlæknir, Lyfjastofnun, lyfjagreiðslunefnd og Matvælastofnun ráðherra til ráðuneytis við framkvæmd laganna. Hlutverk Lyfjastofnunar er skilgreint í 3. gr. laganna, en það er meðal annars að annast útgáfu, breytingu, niðurfellingu og afturköllun markaðsleyfa lyfja og leyfa til samhliða innflutnings lyfja, í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Í IV. kafla lyfjalaga er fjallað um markaðsleyfi og í þeim kafla er að finna 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga sem háttsemi ákærða er talin varða við. Þar segir að fullgerð lyf (lyf tilbúin eða sem næst tilbúin til notkunar) sé einungis heimilt að flytja til landsins, selja eða afhenda að fengnu markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings.
Eins og rakið hefur verið er háttsemi ákærða meðal annars talin varða við fyrrgreinda 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga. Ekki mun vera ágreiningur um að lyfjunum Ritalin og Ritalin Uno hafi verið veitt markaðsleyfi hér á landi samkvæmt IV. kafla laganna. Af því leiðir að lyfið hafi þá uppfyllt gildandi lög og reglur um lyf og kröfur Lyfjastofnunar til þess að hljóta markaðsleyfi. Samkvæmt þessu verður viðhlítandi refsiheimild fyrir þeirri háttsemi ákærða að hafa í sölu- og dreifingarskyni átt tilgreindar Ritalintöflur, án þess að hafa markaðsleyfi Lyfjastofnunar, ekki fundin stoð í 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga. Verður háttsemi hans því ekki heimfærð til þess lagaákvæðis.
Að öðru leyti er ég samþykk niðurstöðu meirihluta dómenda.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu/héraðssaksóknara, dagsettri 2. febrúar 2016, á hendur Jónasi James Norris, kt. [...], Hólabergi 72, Reykjavík, „fyrir eftirtalin lyfja- og vopnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 14. janúar 2016, á heimili sínu að Hólabergi 72 í Reykjavík:
1. Átt í sölu- og dreifingarskyni 85 stk. Ritalin töflur og 15 stk. Ritalin Uno töflur, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.
Telst þetta varða við 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994
2. Geymt mikið magn skotfæra í ólæstum hirslum í bílskúr, svefnherbergi og leikherbergi heimilisins.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á 85 stk. af Ritalin töflum og 15 stk. af Ritaline Uno töflum samkvæmt heimild í 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.“
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.
I.
Þann 14. janúar 2015 framkvæmdi lögreglan húsleit á grundvelli dómsúrskurðar á lögheimili ákærða að Hólabergi 72. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærða hafi verið kynnt að hann væri grunaður um sölu og dreifingu á læknalyfjum og brotum á lyfjalögum. Aðdragandi leitarinnar voru ítrekaðar tilkynningar í fíkniefnasíma lögreglu um að ákærði seldi lyfseðilskyldu lyfin Ritalin og Ritalin Uno en mikil eftirspurn væri eftir þeim hjá ákveðnum hópi fólks.
Við leit fundust 85 Ritalin töflur í eldhússkap, sem skipt hafði verið í níu smelluláspoka. Voru tíu töflur í hverjum poka en fimm í einum. Auk þessa framvísaði ákærði 15 Ritalin Uno töflum sem hann bar á sér í smelluláspoka. Í eldhússkápnum var einnig að finna tölvuvert magn af ónotuðum smelluláspokum. Í herbergi, svokölluðu „hobbyherbergi“ eða leikherbergi í húsinu var einnig að finna fjöldann allan af slíkum pokum. Voru töflurnar haldlagðar af lögreglu.
Í húsinu fundust skotfæri á víð og dreif á ýmsum stöðum, m.a. í bílskúr, svefnherbergi og leikherbergi, einnig bæði haglaskot og riffilskot af ýmsum gerðum. Þá var að finna mikið magn af byssupúðri í áðurnefndu leikherbergi en það var geymt í stórum dunkum.
Tekin var vettvangsskýrsla af ákærða og kvað hann umræddar töflur vera Ritalin. Hann kvaðst ekki kaupa lyfin heldur fá þau á annan hátt. Kvað hann töflurnar vera til eigin nota. Þá kvað hann trassaskap að hafa ekki skotfærin í læstum hirslum.
Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglu reyndust hinar haldlögðu töflur vera „læknalyf“.
Í greinargerð ákærða sem lögð var fram í þinghaldi 29. febrúar sl. er því mótmælt að verknaðarlýsing ákæru sé rétt hvað ákærulið 1 varði og að ekki sé fyrir hendi lagastoð til að gera honum refsingu. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga sé aðeins lagt bann við sölu, innflutningi og afhendingu lyfja en ekki vörslum eða eignarhaldi á lyfjum. Sú háttsemi sem lýst sé refsiverð í ákæru sé ekki refsinæm samkvæmt þeim refsiákvæðum sem ákært sé fyrir. Ákærði hafi ekki verið staðinn að því að flytja til landsins, selja eða afhenda Ritalin töflurnar. Þá leggi 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga ekki bann við þeirri háttsemi að hafa Ritalin töflur undir höndum, hvort sem sé í sölu- og dreifingarskyni eða ekki. Jafnframt telur ákærði að ekki hafi verið um að ræða fullframið brot á fyrrgreindum ákvæðum lyfjalaga.
Hvernig sem litið verði á refsiheimild lyfjalaga vegna meints eignarhalds á lyfjum í sölu- og dreifingarskyni sé því mótmælt að verknaðarlýsingin sé sönnuð, þ.e. að ákærði hafi ætlað að selja lyfin.
Hvað varðar ákærulið 2 byggir ákærði á sömu málsástæðum og í ákærulið 1. Hafi hann geymt skotfærin í læstum hirslum í skilningi 2. mgr. 23. gr. laga nr. 16/1998.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvað hann hinar haldlögðu töflur hafa verið til eigin nota. Um væri að ræða Ritalin og Ritalin Uno. Hann hefði lengi þurft á þeim að halda og hefði í fyrstu fengið þær hjá lækni en lögreglan hefði komið í veg fyrir að svo yrði áfram. Hann aflaði taflnanna því á annan hátt. Fengi hann þær alltaf afhentar í smelluláspokum. Kvaðst hann þurfa á töflunum að halda vegna einbeitingarskorts og tæki hann báðar tegundir eftir þörfum. Kvaðst hann vita að virkni taflnanna væri ólík. Spurður um smelluláspoka sem fundust á heimili hans kvað hann þá hafa verið fyrir skotfæri eingöngu. Hann kvaðst ekki selja töflur og hefði ekki gert. Honum hefði verið hótað af lögreglu áður og skýri það fyrri sakfellingardóma.
Hvað varðar skotfærin kannaðist hann við að þau hefðu verið víðar en í leikherberginu. Honum hefði verið kennt á námskeiði að geyma skotfæri ekki í læstum skápum en alla jafna væri herbergið læst og í því væri líka þjófakerfi.
A rannsóknarlögreglumaður gaf símskýrslu en hann ritaði frumskýrslu. Kvaðst hann sjá smelluláspoka eins og þá sem fundust hjá ákærða í málum sem tengdust vörslum lyfja og fíkniefna. Afar mikið magn ónotaðra poka hefði fundist á heimili ákærða.
Hvað varðar skotfærin kvaðst vitnið hafa tekið fram hvar þau fundust en þau hefðu m.a. verið tekin úr skáp og ljósmynduð. Kvað vitnið skotfærin hafa verið á fleiri en einum stað í húsinu, í ólæstum hirslum og í bílskúrnum líka og geymsla þeirra væri kæruleysisleg.
II.
Niðurstaða
Ákæruliður 1.
Ákærði neitar sök. Hann mótmælir því að verknaðarlýsing sé rétt og í samræmi við þau lagaákvæði sem hann er talinn brjóta gegn með háttsemi sinni. Skorti viðhlítandi lagastoð til að gera honum refsingu. Þá sé fyrirætlun um að selja lyfin ósönnuð.
Ákærða er gefið að sök að hafa átt í sölu- og dreifingarskyni samtals 100 töflur af gerðinni Ritalin og Ritalin Uno, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar. Ágreiningslaust er að um hafi ofangreindar tegundir hafi verið að ræða. Þá er ágreiningslaust að ákærði hafi hvorki markaðsleyfi til að flytja inn, selja eða afhenda umrædd lyf né lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.
Þau ákvæði lyfjalaga sem verknaðurinn er talinn varða við eru annars vegar 1. mgr. 7. gr. og hins vegar 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Fyrra ákvæðið er að finna í IV. kafla laganna er fjallar samkvæmt fyrirsögn sinni um markaðsleyfi lyfja, mat á lyfjum og klínískar lyfjaprófanir. Í því segir að fullgerð lyf (lyf, tilbúin eða sem næst tilbúin til notkunar) sé einungis heimilt að flytja til landsins, selja eða afhenda að fengnu markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings. Hið seinna, sem er að finna í VII. kafla laganna um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi, kveður á um að leyfi til lyfjasölu hafi þeir aðilar einir sem til þess hafi hlotið leyfi Lyfjastofnunar með nánar tilgreindum undantekningum.
Ákærði var nú síðast með dómi Hæstaréttar frá 16. október 2014 í máli nr. 193/2014 dæmdur til refsingar fyrir brot gegn ofangreindum ákvæðum lyfjalaga. Var háttsemi ákærða, sem fólst í því selja 10 stykki af Ritalin töflum og eiga 109 stykki í sölu- og dreifingarskyni án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi, heimfærð undir 1. mgr. 20. gr., sbr. 49. gr. lyfjalaga. Meirihluti Hæstaréttar taldi þannig ofangreint ákvæði eitt og sér viðhlítandi lagastoð fyrir því að gera ákærða refsingu fyrir háttsemina en gerði ekki athugasemdir við heimfærslu til lagaákvæða í ákæru. Í því máli háttaði svo til að ákærði var handtekinn við slíkar aðstæður að ekki þótti leika vafi á að hann ætlaði töflurnar til sölu. Í málinu voru aðstæður þær að húsleit var gerð á heimili ákærða og fundust töflurnar þar auk þess sem hann framvísaði hluta þeirra. Lýtur sönnun þannig að því hvort það hafi verið ásetningur ákærða að selja og dreifa töflunum sem voru í vörslu hans. Verður fyrirætlun hans í þessum efnum þannig að birtast í einhverjum athöfnum hans eða atvik að vera með þeim hætti að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði haft haft ofangreint í hyggju.
Við sönnunarmat ber að líta til þess að umræddum lyfjum er ekki ávísað á ákærða af lækni en þau eru lyfseðilskyld. Um talsvert magn er að ræða sem ákærði hefur ekki gefið skýringar á. Þrátt fyrir að staðfest sé í sálfræðilegri athugun frá 2008 að niðurstöður prófa bendi eindregið til þess að ADHD-einkenni ákærða séu yfir greiningarmörkum sannar það ekki að töflurnar sem fundust hjá honum nú hafi verið til eigin nota. Þá hefur hann ekki upplýst um hvaðan töflurnar eru fengnar. Skýringar ákærða nú um að töflurnar hafi verið til eigin nota eru að mati dómsins ótrúverðugar. Liggur ekkert fyrir um þarfir ákærða í þessum efnum.
Við húsleit hjá ákærða fannst mikið magn af smellupokum en ákærði framvísaði 15 töflum til lögreglu í smelluláspoka. Töflum sem fundust í eldhússkáp var einnig skipt niður í smelluláspoka eins og áður er lýst. Staðfesti A að mikið magn þeirra hefði fundist á heimili ákærða. Þegar ofangreint fyrirkomulag á umbúnaði taflnanna er virt og ótrúverðugar skýringar ákærða á vörslum þeirra þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi átt töflurnar í sölu- og dreifingarskyni en til þess skorti hann leyfi. Braut hann þannig gegn þeim ákvæðum lyfjalaga sem greinir í ákæru.
Ákæruliður 2.
Ákærði neitar sök. Telur hann verknaðarlýsingu í ákæru ranga og lagastoð skorta fyrir því að gera honum refsingu.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998 skal eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að þegar skotvopn og skotfæri séu ekki í notkun skuli skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum. Um refsingu er vísað til 36. gr. laganna.
Ágreiningslaust er að mikið magn skotfæra fannst á heimili ákærða sem ekki voru í læstum hirslum eða rými. Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir af skotfærum og byssupúðri á heimili ákærða, þá er tiltekið í skýrslunni hvar skotfærin fundust. Fyrir dóminum lýsti A lögreglumaður aðkomu á heimili ákærða og staðfesti frumskýrslu málsins. Með því að geyma skotfærin á þennan hátt á þeim stöðum er greinir í ákæru, braut ákærði gegn fyrrgreindum lagaákvæðum. Stoðar ákærða ekki að bera fyrir sig að hann hafi fengið upplýsingar á námskeiðum um að slík varsla væri fullnægjandi. Engin staðfesting liggur fyrir um það í gögnum málsins. Eru brot hans réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1980. Hann hefur hlotið samtals 22 refsidóma, í flestum tilfellum fyrir auðgunarbrot eða tilraun til auðgunarbrota. Með dómi Hæstaréttar nr. 457/2013 frá 6. febrúar 2014 var ákærði sakfelldur fyrir sambærileg brot á lyfjalögum, vopnalögum og peningaþvætti. Var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar var frestað í fimm ár héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði rauf skilorð dómsins og var sá dómur tekinn upp eftir ákvæðum 60. gr. laganna með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar nr. 193/2014 og hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi.
Ákærði hefur með brotum sínum nú ítrekað brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum lyfjalaga og er til þess litið við ákvörðun refsingar sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga. Þá er litið til einbeitts ásetnings ákærða en hann hefur ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir sakfellingu í sambærilegum málum. Er í þessu sambandi vísað til 2. ml. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga.
Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfileg þriggja mánaða fangelsi.
Með vísan til ákvæða í ákæru skulu gerð upptæk til ríkissjóðs 15 stykki af Ritalin Uno og 85 stykki af Ritalin, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns eins og í dómsorði greinir.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Jónas James Norris, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði sæti upptöku á 15 stykkjum af Ritalin Uno og 85 stykkjum af Ritalin, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar, hæstaréttarlögmanns 160.000 krónur.