Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 6. maí 2010.

Nr. 31/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

saksóknari)

gegn

Vilhjálmi Kristni Skaftasyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot á heimili sínu með því að hafa með ofbeldi veist að A í geymslu íbúðarinnar, káfað á brjóstum hennar innanklæða, sleikt brjóst hennar og skömmu síðar dregið hana inn í gestaherbergi og haft við hana samræði. Talið var að leggja yrði staðfasta og trúverðuga frásögn A til grundvallar í málinu og að fram væri komin lögfull sönnun fyrir því að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi. Var brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennara hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að brot hans var alvarlegt, en það beindist að kynfrelsi A. Þá misnotaði hann sér traust sem hún bar til hans. Þá var einnig litið til þess að hann hefði ekki áður sætt refsingu. Þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Að því er varðaði kröfu um bætur til A úr hendi X varð að gæta að því að ekki lágu fyrir nein gögn um afleiðingar brotsins gagnvart henni þó ljóst væri að það hefði haft áhrif á andlega heilsu hennar. Að þessu virtu og atvikum málsins að öðru leyti voru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.

A krefst þess að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um bætur og vexti af þeim.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar.

Með ákæru 22. apríl 2009 er ákærða gefið að sök kynferðisbrot 12. ágúst 2008 með því að hafa á heimili sínu að [...] með ofbeldi veist að A í geymslu íbúðarinnar, káfað á brjóstum hennar innanklæða, sleikt brjóst hennar og skömmu síðar dregið hana inn í gestaherbergi og haft við hana samræði. Ákærði hefur við rannsókn málsins og fyrir dómi neitað sakargiftum og borið fyrir sig nær algjöru minnisleysi vegna bjórdrykkju. Í skýrslu hans fyrir dómi kom meðal annars fram að hann myndi ekki hvenær hann hóf drykkju þennan dag, en sagðist ráma í að A hafi komið heim til sín og þau ætlað að fara saman að vinna við að beita línu um klukkan átta þetta kvöld. Taldi hann sig hafa drukkið um þrjá bjóra, en svo myndi hann ekki meir. Hann fullyrti hins vegar að þær sakir sem á hann væru bornar fengju ekki staðist vegna þess að þegar hann væri drukkinn „mundi ég aldrei gagnast kvenmanni að neinu leyti“. Í skýrslu hjá lögreglu 13. ágúst 2008 er eftir honum haft að A hafi ætlað að bíða heima hjá honum þangað til þau færu að vinna, en þar sem hann hafi gefið henni bjór að drekka hafi hann sagt við hana að hún færi ekkert á bílnum og sýnt henni hvar hún ætti að sofa þar sem þau hjónin væru með aukaherbergi. Eftir það hafi hann ekkert munað.

Af gögnum málsins má ráða að brotaþoli hafi komið á heimili ákærða milli klukkan sjö og átta þetta kvöld og farið þaðan fyrir níu. Hefur hún borið að þá hafi hún ekið niður á bryggju á [...] og þaðan til [...], en staldrað við á leiðinni og hringt í vin sinn F klukkan níu. Fram er komið að ákærði hringdi þrívegis í bróðurdóttur sína þetta kvöld, klukkan 18.01, 21.00 og 21.37 og hefur hún borið fyrir dómi að í fyrsta sinn þegar hann hringdi hafi verið „allt í lagi sko, hann var bara búinn að fá sér bjór og var bara voða kátur“, en í næsta símtali hafi hann verið orðinn „aðeins eitthvað kenndur“ og talað um að „þessi stelpa“ hafi verið „blindfull og kolrugluð“. Í síðasta samtalinu hafi hins vegar komið fram að ákærði hafi verið orðinn „vel drukkinn“. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi útilokar blóðsýni sem tekið var úr brotaþola að hún hafi verið drukkin umrætt sinn og fær þessi fullyrðing ákærða því ekki staðist. Bróðir ákærða kvaðst fyrir dómi hafa komið á heimili hans um klukkan 18.00 um kvöldið og þá ekki merkt áfengisáhrif á honum. Ákærði var handtekinn klukkan 22.07 sama kvöld, rúmlega klukkustund eftir að brotaþoli fór frá heimili hans. Hann hafði því nægt ráðrúm til að drekka meira áfengi á þessum tíma. Í frumskýrslu lögreglu er því lýst að þegar ákærði kom á lögreglustöðina á [...] hafi hann verið óstöðugur, málfar hans óskýrt og framburður ruglingslegur. Kristján Þorbjörnsson yfirlögregluþjónn, sem hafði afskipti af ákærða í framhaldi af handtöku hans, bar fyrir dómi að ákærði hafi þá verið undir áhrifum, en langt frá því að vera ölvaður. Samkvæmt framansögðu eru litlar líkur á því að ákærði hafi verið það ölvaður þegar brotaþoli var á heimili hans að hann muni ekki um samskipti þeirra. Framburði brotaþola er lýst í héraðsdómi og var hann þar metinn trúverðugur. Gögn um símtöl úr síma ákærða sýna að hann hringdi 17 sinnum í síma brotaþola á tímabilinu frá klukkan 21.04 til 22.00 þetta kvöld, en hún svaraði ekki. Þá kemur fram í endurriti úr talhólfi síma hennar að ákærði sendi henni sex skilaboð á tímabilinu frá klukkan 21.06 til 21.46 um kvöldið. Í síðasta skilaboðinu sagði hann meðal annars „fyrirgefðu ástin mín.“ Ákærði hefur enga skýringu gefið á þessum símhringingum og skilaboðum.

Í dagbók lögreglunnar á [...] varðandi mál þetta er skráð að áðurnefndur B hafi hringt í lögreglu um klukkan kl. 21.45 þetta kvöld og tilkynnt að brotaþoli hefði orðið fyrir áreiti á [...]. Einnig segir í upplýsingaskýrslu frá sama kvöldi að nokkru áður hafi F hringt og tilkynnt að brotaþoli hefði haft samband við sig. Hafi henni liðið mjög illa og verið grátandi. Ljóst er af framburði F, sambúðarmanns brotaþola og lögreglumanna er hittu hana í kjölfar atburðarins að hún skýrði þeim frá því að ákærði hafi brotið gegn henni kynferðislega og hún hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Samkvæmt upplýsingaskýrslu yfirlögregluþjóns á [...] kom hún á lögreglustöðina þetta kvöld. Í skýrslunni er útdráttur af frásögn hennar sem kemur í öllum meginatriðum heim og saman við framburð hennar við rannsókn málsins og fyrir dómi. Hún var færð á neyðarmóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem hún lýsti því að ákærði hafi nauðgað sér. Frásögn hennar þar var einnig í samræmi við síðari framburð hennar.

Að öllu framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, refsingu hans og sakarkostnað. Að því er varðar kröfu um bætur til brotaþola úr hendi ákærða verður að gæta að því að ekki liggja fyrir nein gögn um afleiðingar brotsins gagnvart henni þó ljóst sé að það hafi haft áhrif á andlega heilsu hennar. Að þessu virtu og atvikum máls að öðru leyti eru bætur til hennar ákveðnar 1.000.000 krónur og skulu þær bera vexti á þann hátt sem ákveðið var í héraði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en höfuðstól bóta úr hendi ákærða, Vilhjálms Kristins Skaftasonar, til A, sem skal nema 1.000.000 krónum.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 635.999 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. desember 2009.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. október sl., er höfðað af ríkissaksóknara 22. apríl 2009 á hendur Vilhjálmi Kristni Skaftasyni, fæddum 9. apríl 1942, til heimilis að [...], „fyrir kynferðisbrot, þriðjudaginn 12. ágúst 2008, á heimili ákærða að [...], með því að hafa með ofbeldi veist að A í geymslu íbúðarinnar, káfað á brjóstum hennar innanklæða, sleikt brjóst hennar, og skömmu síðar, dregið hana inn í gestaherbergi og haft við hana samræði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Bótakrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2008 þar til mánuður er liðinn frá því að ákærða er birt bótakrafan en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, að kröfu um greiðslu miskabóta verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Verði ekki fallist á þessar kröfur krefst ákærði vægustu refsingar sem lög frekast heimila og sýknu af greiðslu miskabóta en til vara að miskabætur og sakarkostnaður verði lækkaður verulega.

II

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hringdi F á lögreglustöðina á [...] kl. 21:20 miðvikudaginn 13. ágúst 2008 og lét vita af því að A hefði hringt til hans og að von væri á henni á lögreglustöðina. Í skýrslunni er haft eftir F að A hafi verið grátandi og greinilega liðið illa. A kom stuttu síðar í miklu uppnámi á lögreglustöðina. Í skýrslu lögreglu er greint frá því að illa hafi gengið að fá hana til að tjá sig en þó ljóst að eitthvað hefði gerst heima hjá ákærða. Vilhjálmur Stefánsson lögreglumaður, sem tók á móti A hafði strax samband við Kristján Þorbjörnsson yfirlögregluþjón sem kom og ræddi við A. Í framhaldi af þessu var farið með A á Heilbrigðisstofnunina á [...] og þangað mun móðir C, unnusta A, einnig hafa komið og síðar C einnig. Síðan var farið með A á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og var C með í þeirri för. Á sjúkrahúsinu voru tekin sýni af A til réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar og þá skráði læknir sem annaðist sýnatökuna lýsingu A á atburðum. Lögregluskýrsla var tekin af A daginn eftir atvikið. Ákærði var handtekinn þetta kvöld kl. 22:07 og vistaður í fangaklefa. Síðdegis hinn 13. ágúst 2008 var þess krafist að ákærði sætti gæsluvarðhaldi og kl. 15:15 daginn eftir var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til kl. 18:00 16. ágúst en hann var látinn laus þann dag kl. 14:38. Meðan ákærði var í vörslum lögreglu voru teknar af honum framburðarskýrslur. 

Áður en atvik máls þessa áttu sér stað starfaði A í fullu starfi við beitningu hjá fyrirtækinu Y sf. á [...] en hún hafði nýlega ráðið sig í aðra vinnu en óskað eftir því að fá að beita í aukavinnu þegar mannskap vantaði. Ákærði var á þessum tíma landformaður sem kallað er og var það í hans verkahring að sjá til þess að línur væru beittar tímanlega þannig að þær væru tilbúnar þegar skipið kæmi í land.

Hinn 12. ágúst 2008 hafði ákærði samband við A í þeim tilgangi að bjóða henni vinnu við beitningu í fyrsta sinn eftir að hún hætti hjá fyrirtækinu. A fór síðar um daginn til vinnu á [...] og kom við á heimili ákærða. Ganga má út frá því að þá hafi klukkan verið orðin rúmlega 18:00 því bróðir ákærða hafði komið til hans um það leyti en þá var ákærði einn heima. Á þessum tíma var skipið ekki komið í land, en samkvæmt upplýsingum frá vaktstöð siglinga kom það í land kl. 20:07 þetta kvöld, og því nokkur bið á að vinna gæti hafist. Á meðal gagna málsins eru upplýsingar um notkun á farsíma ákærða og A. Af þeim upplýsingum má ráða að A var farin af heimili ákærða rétt um kl. 21:00.

III

Framburður fyrir dómi

Ákærði kvaðst ekkert hafa að segja um þá atvikalýsingu sem fram kemur í ákærunni annað en það að hún sé vitleysa. Hann hafi hvorki veist að A í geymslunni, káfað þar á brjóstum hennar innan klæða og sleikt þau né hafi hann dregið hana inn í gestaherbergi og haft þar við hana samræði. Ákærði kvaðst geta fullyrt að hann hafi ekki nauðgað kæranda en neitun á sakargiftum byggi hann á því að þegar hann sé drukkinn geti hann ekki sinnt kvenmanni hvað þá nauðgað og þetta viti hann fyrir víst.

Ákærði kvað samskipti sín við A þennan dag hafa verið með þeim hætti að hann hafi haft símasamband við hana til að láta hana vita hvenær báturinn kæmi í land en sig minni að báturinn hafi átt að koma í land kl. 21:00 og þá hafi staðið til að beita bjóðin sem voru um borð í bátnum. A hafi strax samþykkt að koma þetta kvöld en sig minni að hún hafi átt í vandræðum með að koma sér til [...]. Hann mundi ekki hvort hann ræddi oftar en einu sinni við hana þennan dag og raunar kvaðst hann muna lítið eftir þessum degi. Hann muni þó að hún kom heim til hans en þau hafi ætlað að fara saman á vinnustaðinn. Að sögn ákærða mundi hann heftir að hafa rétt A bjór, sem hún þáði, og annað muni hann ekki af heimsókn hennar þennan dag en sjálfur hafi hann drukkið marga bjóra þennan dag og ekki snætt kvöldmat. Aðspurður um lýsingu í lögregluskýrslu þess efnis að hann hafi ekið eiginkonu sinni til vinnu um kl. 16:00 kvað hann það rétt eftir sér haft og hann hafi að því loknu farið beint heim og fljótlega byrjað að drekka bjór en hann hafi ekki ætlað að drekka mikið, enda mæti hann ekki ölvaður til vinnu. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hversu mikið hann drakk en telur að hann hafi sofnað fljótlega, annað geti varla verið þar sem hann muni ekki neitt eftir þessum degi. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því hvað gerðist meðan A var heima hjá honum, hann hafi einfaldlega ekki hugsað um þetta mál en hann hafi talið þetta eitthvert rugl allt saman. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann hafi verið í gestaherberginu þegar A fór af heimili hans kvaðst hann ekki muna eftir því en það gæti vel verið rétt. Hann myndi heldur ekki eftir að þau hafi verið saman í geymslu í íbúðinni en það sé ekki óeðlilegt að A hafi farið þangað til að reykja þar sem ekki megi reykja á öðrum stöðum í húsinu. Hann kvað A áður hafa komið á heimili hans og þá farið inn í geymsluna, ásamt eiginkonu hans, til að reykja og því viti hún vel hvernig aðstæður eru þar. Ákærði kannaðist við myndir sem teknar voru í geymslunni og segir aðstæður sem þar megi sjá óbreyttar. Hann mundi ekki hvort hann hellti niður bjór á gólfið í geymslunni þetta kvöld en taldi að svo gæti verið. Hann kannaðist við myndir sem teknar voru í gestaherbergi en kvaðst ekki geta sagt til um ástæðu þess að bjórdós var þar á gólfinu. Taldi hann að verið gæti að hann hefði lagt hana þarna áður en hann sofnaði um kvöldið en hann væri viss um að hann hefði ekki sofnað í sínu rúmi. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna bjórdós var uppi á ísskáp í geymslunni en hann kvaðst forðast að fara þangað inn. Hann mundi ekki aðspurður eftir að börn hafi komið á heimili hans þetta kvöld að safna dóti á tombólu. Hann mundi heldur ekki eftir að hafa reynt að hringja í A eftir að hún fór frá honum um kvöldið og þá ekki eftir að C hafi komið til hans en honum hafi verið sagt frá því. Ákærði taldi rétt eftir sér haft hjá lögreglu að hann hefði boðið A gistingu eftir að hún hafði þegið hjá honum bjór.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa skilið eftir skilaboð í talhólfi síma A þetta kvöld en þegar upptaka af þeim var spiluð fyrir hann í réttinum kannaðist hann við rödd sína. Ákærði sagðist muna til þess að D, bróðir hans, hafi komið með lykla til sín þetta kvöld en á þeim tíma hafi hann verið orðinn mjög drukkinn og þá rámaði hann í að D hefði hringt til sín þennan dag en kvaðst ekki geta munað það.

Ákærði bar að hann myndi eftir því að hafa einu sinni áður misst minnið vegna neyslu áfengis og lýsti hann því tilviki eftir frásögn þeirra sem með honum voru í það skipti. Hann kvaðst enn ekki muna hvað gerðist í það sinn. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvað valdi því að hann muni ekki eftir því sem gerðist þann dag sem mál þetta snýst um. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa verið með A úti á svölum heima hjá sér að drekka bjór en vera kunni að honum hafi verið sagt að svo hafi verið. Ákærði skýrði símtöl við kæranda þannig að hann hafi hringt í hana varðandi vinnuna. Ákærði kveðst ekki geta skýrt framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann muni eftir stúlku í ljósri blússu sitja ofan á sér. Honum finnist þetta enn í dag en segist ekki geta sagt til um hvort þetta var A eða einhver önnur. Honum hafi þó fundist sem A hafi ekki verið klædd eins og hún væri að fara að beita. Ákærði kvaðst á þessum tíma ekki hafa neytt mikils áfengis og það geri hann heldur ekki nú. Ákærði mundi ekki eftir að hafa hringt í E þennan dag. Ákærði bar að ekki ætti að vera hægt að skrifa bjóð á starfsmenn án þess að þeir hafi beitt þau en F hafi verið rekinn fyrir að skrifa fleiri bjóð en hann beitti. Ákærði kvaðst halda að ekki væri hægt að læsa geymslunni en útidyrnar væru með venjulegri þriggja punkta læsingu sem auðvelt væri að opna innan frá.

Vitnið A bar að ákærði hafi hringt í hana og tjáð henni að báturinn væri á sjó og kæmi í land þá um kvöldið. Ákærði hafi sagt henni að hún gæti komið heim til hans og beðið þar þangað til báturinn kæmi í land. Vitnið mundi ekki hvað klukkan var þegar hún kom heim til ákærða en taldi að hún hafi verið fimm eða sex en vel gæti munað klukkustund til eða frá hvað þessa tímasetningu varðaði. Þegar hún kom til ákærða hafi hann komið til dyra með bjór í hendi en henni hafi ekki virst hann vera drukkinn. Ákærði hafi boðið henni inn og þau í fyrstu setið úti á sólpallinum og spjallað en síðar hafi þau fært sig inn í stofu. Í spjalli þeirra hafi m.a. komið fram að hún þyrfti af fjárhagslegum ástæðum að vinna við beitninguna. Ákærði hafi nefnt við hana að hún þyrfti ekki að vinna þetta kvöld. Hún hafi þá verið búin að bíða hjá honum nokkurn tíma en ákærði hafi, þegar þau voru úti á svölum, hringt í bátinn og eftir það sagt að hann kæmi fljótlega í land. Hún hafi sagt ákærða að hún hefði ekki efni á að sleppa vinnu en hún gæti ekki beitt á daginn þar sem hún væri í annarri vinnu. Ákærði hafi þá talað um að hann gæti reddað því og hún skilið hann þannig að hann ætlaði að skrifa á hana línur án þess að hún beitti þær en þetta hafi hann ekki sagt berum orðum. Hún lýsti því að á venjulegum vinnudegi hafi ákærði verið mjög almennilegur við hana og oft klappað henni á öxlina, sem henni hafi ekki þótt óþægilegt, hann hafi verið vinalegur gamall maður. Vitnið kvaðst áður hafa komið á heimili ákærða og þá hafi hún setið með ákærða og konu hans í eldhúsinu. Hún mundi ekki hvort ákærði sýndi henni íbúðina þá en hún taldi svo ekki vera en sagðist ekki hafa áður komið inn í geymsluna. Vitnið kannaðist við framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að ákærði hefði strokið á henni hendurnar og beðið hana um að setja geisladisk í spilara en þá hafi hún ekki skynjað háttsemi ákærða sem kynferðislega.

Vitnið greindi frá því að ákærði hefði boðið henni bjór sem hún hafi afþakkað í fyrstu en síðan hafi hún þegið einn bjór. Ákærði hafi gengið með henni um húsið og sýnt henni myndir á veggjum. Síðan hafi ákærði farið að tala um að hún væri að gera vitleysu með því að vera í sambandi við C en hún ætti betra skilið. Vitnið kvaðst ítrekað hafa sagt að hún ætlaði að fara en ákærði hafi þá sagt að báturinn kæmi ekki alveg strax í land og hann hafi ekki viljað leyfa henni fara og tekið í höndina á henni. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hversu mikið ákærði drakk á þeim tíma sem hún var hjá honum en hann hafi a.m.k. drukkið einn bjór og viljað að hún drykki með honum. Hún hafi tekið við annarri bjórdós sem ákærði færði henni en ekki drukkið úr henni. Kvaðst hún ekki muna hvar hún lét dósina frá sér. Þegar þetta gerðist hafi verið liðin klukkustund eða svo frá því að hún kom til ákærða og hann hafi verið orðinn hálfreiður en hún kvaðst ekki hafa þekkt þessa hlið á honum. Hún kvaðst hafa orðið hrædd inni hjá ákærða og hún viti ekki af hverju hún fór ekki en hún hafi aldrei haft þá tilfinningu gagnvart ákærða að eitthvað þessu líkt gæti gerst.

Vitnið lýsti atviki í geymslu þannig að ákærði hafi þá verið búinn að fara með hana um alla íbúð og sýna henni myndir og fleira. Ákærði hafi viljað sýna henni geymsluna og þar hafi hann sest niður og sagt henni að setjast líka og það hafi hún gert. Þegar þau sátu þarna inni hafi henni fyrst farið að líða illa vegna þess að ákærði hafi verið að snerta hana en það hafi hún ekki viljað. Ákærði hafi strokið á henni handleggina og í framhaldi af því káfað á brjóstum hennar innan klæða og líka sleikt á henni brjóstin. Inni í geymslunni hafi ákærði ekki beitt hana ofbeldi eða þvingunum en þau hafi ekki talað neitt saman eftir að hann hóf að áreita hana en hún hafi sagt honum að hætta og ýtt honum frá sér. Hún hafi staðið á fætur og það hafi ákærði líka gert og staðið fyrir dyrunum og ekki ætlað að hleypa henni fram. Vitnið kvaðst ekki hafa átt greiða leið út úr geymslunni vegna þess að ákærði stóð í vegi fyrir henni. Hún kvaðst hafa komist út með því að toga í hurðina og komist framhjá ákærða en á þessum tíma hafi ákærði verið tiltölulega rólegur. Ákærði hafi síðan komið fram á eftir henni. Hún hafi ætlað að fara af heimili ákærða en þá hafi ákærði komið og togað í höndina á henni og farið með hana inn í gestaherbergið. Vitnið mundi eftir því að meðan þau voru inni í geymslunni hafi þau bæði verið með stórar gylltar bjórdósir en það hafi hellst niður úr dósinni sem ákærði var með en hún mundi ekki hvernig það kom til. Þá mundi hún heldur ekki hvað varð um dósirnar sem þau voru með.

Vitnið bar að eftir að hún var komin út úr geymslunni hafi hún ætlað að fara af heimili ákærða en hann hafi dregið hana, með því að halda fast í hönd hennar, inn í gestaherbergið og hún hafi án árangurs reynt að toga á móti. Inni í gestaherberginu hafi ákærði ýtt henni á ofan rúm sem þar var og hún hafi lent á bakinu. Vitnið mundi ekki hvort ákærði sagði eitthvað við hana þegar þetta gerðist en hún hafi margsagt honum að hætta þessu. Í framhaldi af þessu hafi ákærði rifið í joggingbuxurnar sem hún var í. Hún hafi reynt að halda þeim uppi með því að taka í strenginn en það hafi ekki tekist. Ákærða hafi tekist að toga buxurnar af henni og hann hafi líka togað nærbuxur hennar niður. Eftir það hafi ákærði lagst ofan á hana í rúminu og þá hafi hún frosið. Ákærði hafi þá verið kominn úr fötunum og hann hafi haft við hana samfarir. Vitnið vissi ekki hversu lengi samfarirnar stóðu en þótti sem þær hafi staðið í langan tíma. Vitnið kvaðst ekki vita hvort ákærði fékk sáðlát en þessu hafi lokið þegar börn komu að glugganum á herberginu en þá hafi komið hik á ákærða og hann stoppað og þá hafi hún spyrnt honum af sér. Hún hafi síðan staðið á fætur og farið í fötin sín en ákærði hafi setið á rúminu á meðan. Hann hafi rifið aftur í höndina á henni og reynt að setja hana í klofið á sér og sagt að hann ætlaði að fá hana til sín aftur. Þegar hún fór frá ákærða hafi hann enn verið inni í herberginu. Vitnið gat ekki sagt til um ölvunarástand ákærða á þessum tíma en hann hafi þó verið meira drukkinn en þegar hún kom til hans. Vitnið kvaðst muna eftir að dyrabjöllunni var hringt meðan hún var hjá ákærða og að þar hafi verið börn á ferð að safna dóti á tombólu en hvenær það gerðist mundi hún ekki.

Eftir að hún fór frá ákærða hafi hún einhverra hluta vegna fyrst ekið niður á bryggju, séð að báturinn var kominn og byrjað var að landa úr honum. Eftir það hafi hún ekið heim á leið. Á leiðinni hafi hún brotnað niður og þegar hún var komin yfir brúna yfir [...] hafi hún stoppað í útskoti sem þar er. Hún hafi grátið lengi og svo hringt í F, samstarfsmann sinn. Hún hafi í samtalinu sagt F að ákærði hafi káfað á henni án þess að segja nánar hvað gerðist. Vitnið mundi ekki til þess að hafa sagt við F að ákærði hafi viljað fá kynlífsþjónustu hjá henni gegn því að skrifa hjá henni beitta bala. Þá kvaðst hún ekki hafa nefnt nauðgun við hann. Eftir að C hringdi í hana hafi hún örugglega reynt að hringja aftur í hann, enda hafi hann orðið mjög reiður og hún haft áhyggjur af því hverju hann tæki uppá. Vitnið kvað ákærða hafa hringt í sig mörgum sinnum eftir að hún fór frá honum en hún hafi ekki svarað.

Vitnið bar að sér hafi liðið hræðilega frá því að atburður þessi átti sér stað. Hún mæti illa til vinnu vegna þess að suma daga geti hún einfaldlega ekki farið á fætur. Þetta hafi mikil áhrif á samband hennar og sambýlismanns hennar og það sé ekki eins og það var áður. Hún sé svo gott sem hætt að fara út á meðal fólks og geti ekki verið ein. Hún segist hafa farið í nokkur viðtöl hjá geðlækni og segist finna að hún þurfi frekari hjálp. Hún fái ennþá martraðir á nóttunni en hún hafi ekki sofið vel síðan þetta gerðist. Fyrir þennan atburð hafi henni líkað vel við ákærða en hún hafi þekkt hann í hálft ár eða svo.

Vitnið F bar að hann hafi unnið mikið með A áður en þetta mál kom upp. Hann kvað A hafa hringt í sig um miðnætti þetta kvöld, þá hafi hún verið við brúna yfir [...] en hann hafi verið sofnaður. Þegar vitninu var bent á að gögn málsins sýndu að A hafi hringt í hann rétt rúmlega níu þetta kvöld kvað hann það vel geta staðist og þá geti líka vel verið að hann hafi hringt í hana. A hafi sagt honum að ákærði hefði beðið hana um að koma til sín og sækja lykla að vinnuskúrnum en þegar hún kom heim til hans hafi hann ráðist á hana og nauðgað henni. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa spurt hana nánar út í það sem gerðist. Þegar símtalið átti sér stað hafi A verið hágrátandi og í mjög miklu uppnámi. Henni hafi gengið illa að segja honum frá en þau hafi talað saman í langan tíma, 30 til 60 mínútur. Vitnið hélt að hún hefði hringt seint í hann en hann hafi verið farinn að sofa. Vitnið kvaðst hafa sagt A að hringja í C og þá kvaðst hann hafa heimtað að hún kærði atvikið til lögreglu en því hafi hún alfarið neitað í fyrstu. Vitnið kvaðst einnig hafa haft samband við lögreglu.

Vitnið bar að A hafi sagt honum að ákærði hefði nauðgað sér þótt hann myndi ekki nákvæmlega hvernig hún orðaði lýsingu sína. Hann kvaðst þekkja ákærða vel og hann hafi strax trúað frásögn A. Vitnið bar að hann hafi unnið við beitningu í u.þ.b. ár þegar atvik þetta átti sér stað en honum hafi skömmu áður verið sagt upp. Ástæðu uppsagnarinnar kvað hann hafa verið þá að hann hafi skammað ákærða fyrir dónaskap og ákærði hafi komið því til leiðar að honum var sagt upp. Vitnið bar að honum hafi verið farið að leiðast ýmislegt í sambandi við vinnuna, svo sem dónaskapur ákærða í garð kvenna á vinnustaðnum, en honum og ákærða hafi komið ágætlega saman. Vitnið bar að hann hafi heyrt hjá A í nokkur skipti að ákærði hafi reynt að múta henni með því að skrifa hjá henni vinnu sem hún innti ekki af hendi.

Vitnið C, sambýlismaður A, kvaðst hafa verið staddur á [...] þegar hann heyrði fyrst af málinu. Hann hafi séð A aka hjá en hún hafi hringt í sig og spurt hvar hann væri. Hann kvaðst strax hafa heyrt að hún var í annarlegu ástandi og grátandi. Hún hafi ekki viljað segja honum hvað hefði gerst en sagt að ákærði hefði káfað á sér en nánar hafi hún ekki viljað lýsa atvikum. Nánar aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort hann hringdi í hana eða hún í hann. Vitnið bar að hann hafi reiðst og fljótlega að loknu símtalinu, sem stóð í fáeinar mínútur, farið á bifhjóli sínu, heim til ákærða. Þar hafi ákærði komið til dyra berfættur og ber að ofan og í annarlegu ástandi og greinilega töluvert drukkinn. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hvað hann hafi verið að gera, án þess að ásaka hann um neitt en ákærði hafi svarað þannig: „Þú klínir ekkert svona upp mig.“ Vitnið sagði að faðir sinn hefði hringt á þessum tíma og beðið sig um að fara burtu og það hafi hann gert eftir að hann og ákærði höfðu skipst á einhverjum fúkyrðum. Hann hafi hitt lögreglumenn á [...] sem hafi sagt honum að fara á [...] og það hafi hann gert en á þeim tíma hafi A verið komin á lögreglustöðina á [...]. Hann hafi hringt í lögregluna á [...] og verið sagt að A og móðir hans væru á sjúkrahúsinu og þangað hafi hann farið og hitt A sem hafi verið í miklu uppnámi. Í framhaldi af því hafi hann og A farið með lögreglunni til Akureyrar. Á leiðinni til Akureyrar hafi hann spurt A hversu alvarlegt þetta væri og hún hafi sagt að sér hefði verið nauðgað en fátt annað hafi komið fram hjá henni á leiðinni. Þegar þau voru komin til Akureyrar hafi verið farið með þau á neyðarmóttöku þar sem A hafi gengist undir skoðun, sem hann var ekki viðstaddur. Hann hafi heldur ekki verið viðstaddur þegar læknir skráði niður frásögn A.

Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvað hann og A ræddu í símtölum, sem samkvæmt gögnum málsins áttu sér stað kl. 16:06 og 18:45 þennan dag. Vitninu voru sýndar ljósmyndir af fatnaði sem A var í þennan dag og bar vitnið að þetta væru vinnuföt hennar. Vitnið hafnaði því alfarið að A vildi með kærunni klekkja á ákærða, enda hefði hún ekki nokkra ástæðu til þess og raunar hafi ákærði verið mjög almennilegur við hana fram að þessu og hún litið á hann eins og afa sinn. Vitnið bar að eftir á að hyggja þætti honum sem ákærði hafi skipulagt þetta allt saman.

Vitnið kvaðst hafa orðið vart við miklar breytingar í skapferli A eftir þetta og hún sé nú viðkvæmari og grátgjarnari en áður.

Vitnið Kristján Þorbjörnsson yfirlögregluþjónn kvaðst hafa komið á lögreglustöðina á [...] skömmu eftir að A kom þangað umrætt kvöld. Þegar hann kom á lögreglustöðina hafi A setið grátandi inni í herbergi og greinilega verið mjög miður sín og brugðið. Hann og Vilhjálmur Karl lögreglumaður hafi reynt að ræða almennt við hana um hvað hefði gerst en þeir hafi ekki spurt náið út í atburðinn heldur reynt að kynna henni feril máls eins og þessa og hvaða aðstoð hún gæti fengið. A hafi lítið sagt um atburðinn og ekki lýst honum en hún hafi sagt að hún hefði verið misnotuð kynferðislega í íbúð ákærða. Vitnið bar að hann og Vilhjálmur hafi ekki beðið A um að lýsa smáatriðum, enda hafi þeir ekki talið það í sínum verkahring þar sem brot af þessum toga beri að rannsaka af rannsóknarlögreglunni á Akureyri. Að sögn vitnisins var ekki vafi í hans huga að A var að greina frá því að henni hefði verið misboðið, nauðgað á einhvern hátt. Vitnið sagðist ekki muna hvort A notaði orðið nauðgun í lýsingu sinni en hún hafi sagt að hún hafi ekki átt von á þessu frá ákærða og notaði í því sambandi orðin „gamli góði Villi.“ Vitnið kvaðst ekki hafa komið að handtöku ákærða en þeir hafi hist á lögreglustöðinni. Vitnið bar að honum hafi þótt sem ákærði væri undir áhrifum áfengis án þess þó að hann bæri þess greinileg merki, t.d. hafi ekki verið hægt að merkja það á göngulagi hans. Að mati vitnisins var ákærði langt frá því að vera ölvaður en hann hafi kannski verið eitthvað undir áhrifum áfengis. Þá bar vitnið að hans mat væri að ákærði hafi alls ekki verið svo ölvaður að hann ætti ekki að muna eftir atvikum.

Vitnið Vilhjálmur Karl Stefánsson lögreglumaður bar að F hafi hringt á lögreglustöðina þetta kvöld og fljótlega eftir það hafi A komið þangað. Hún hafi verið í miklu ójafnvægi, grátið og hann hafi ekki fengið neitt samhengi í það sem hún sagði. Hann hafi gert yfirlögregluþjóni viðvart þar sem hann taldi að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Fljótlega hafi hann síðan farið með stúlkuna og tengdamóður hennar á sjúkrahúsið. Eftir það hafi hann ekið stúlkunni og unnusta hennar til móts við lögregluna á Akureyri sem hafi tekið við þeim í Skagafirði. Vitnið mundi ekki hvernig það kom til að tengdamóðir stúlkunnar kom á lögreglustöðina en hann taldi sennilegt að hann hafi hringt í hana. Vitnið kvaðst hafa kannað hvort börn hafi þennan dag verið að safna dóti á tombólu og sagðist hann hafa gert upplýsingaskýrslu um það en þá skýrslu hafi hann leiðrétt varðandi tímasetningar.

Vitnið Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður kvaðst hafa tekið við A og unnusta hennar af lögreglunni á [...]. Á leiðinni hafi hann ekki talað mikið við A en hún hafi grátið mikið og greinilega verið í miklu uppnámi en unnusti hennar hafi reynt að hugga hana.

Vitnið Anna Mýrdal Helgadóttir kvensjúkdómalæknir bar að A hafi komið til skoðunar umrædda nótt. Vitnið sagði að A hafi verið spennt og grátandi og átt erfitt með að tjá sig. Í fyrstu hafi A reynst erfitt að skýra frá en smátt og smátt hafi hún sagt sögu sína sem hún hafi skráð í skýrslu sína. Vitnið bar að nokkurn tíma hafi tekið að fá A til að segja frá en hún hafi sagt að hún hafi frosið og að henni hafi verið nauðgað, aftur á móti hafi hún ekki vitað hvort ákærða varð sáðlát. Vitnið staðfesti að engir áverkar hafi verið á A þegar hún kom til þeirra en hún hafi að eigin sögn verið í sömu fötum og hún var í þegar atvikið átti sér stað. Vitnið greindi frá því að hún hafi ekki séð sæðisfrumur þegar sýni var skoðað í smásjá en rauð blóðkorn gætu hafa truflað skoðunina. Vitnið kvaðst ekki geta staðfest að A hefði nýlega haft samfarir. Vitnið bar að sökum þess að A var í lok tíðahrings hefði blóðsmit átt að vera á getnaðarlim ákærða strax að loknum samförum.

Vitnið Ingibjörg Gyða Júlíusdóttir hjúkrunarfræðingur bar að A hafi verið í miklu tilfinningalegu uppnámi og grátandi þegar hún kom á neyðarmóttöku FSA. Í fyrstu hafi hún setið í hnipri, skolfið og átt erfitt með að segja frá. Smám saman hafi hún róast og sagt sögu sína. Vitnið bar að henni hafi þótt frásögn A trúverðug.

Vitnið G bróðurdóttir ákærða, kvað ákærða hafa hringt til sín þennan dag um kl. 18 og aftur kl. 21 og loks um kl. 22. Vitnið kvað ástand ákærða hafa verið í góðu lagi í fyrsta símtalinu en hann hafi þá verið búinn að fá sér bjór og verið kátur. Á þeim tíma hafi hann verið einn en kona hans hafi verið nýfarin til vinnu. Í miðsímtalinu hafi ákærði verið orðinn aðeins kenndur og hann hafi talað um að stelpa, sem vitnið man ekki hvað heitir, hafi verið hjá sér. Ákærði hafi sagt að stelpan hafi verið blindfull og kolvitlaus. Vitnið kvað ákærða hafa þrábeðið sig um að koma í heimsókn, sem ekki var óvenjulegt, en hún hafi neitað því. Vitnið kvað ákærða hafa sagt að stelpan hafi ætlað að fara að beita en ekkert hafi orðið af því og þá hafi ákærði líka ætlað sér að fara til vinnu. Í síðasta símtalinu hafi ákærði verið orðinn drukkinn og lítið sagt en hún hafi tjáð honum að hún ætlaði ekki að koma í heimsókn til hans.

Vitnið D bróðir ákærða, kvaðst hafa hitt ákærða þennan dag en um kl. 18:00 hafi hann komið á heimili ákærða til að skila honum bifreið sem ákærði hafði lánað honum fyrr um daginn. Vitnið kvaðst ekki hafa merkt áfengisáhrif á ákærða, sem hafi á þessum tíma þá setið úti á svölum, en ákærði hafi hafnað matarboði vegna þess að hann hafi ætlað til vinnu. Vitnið kvaðst þá hafa kvatt ákærða og farið. Síðar um kvöldið, eftir að ákærði var kominn á lögreglustöðina, hafi hann óskað eftir að fá að hitta ákærða en verið tjáð að hann væri svo ölvaður að hann væri ekki viðræðuhæfur. Vitnið kvaðst síðar hafa spurt aðra íbúa í húsinu hvort þeir hefðu heyrt einhver læti þetta kvöld en því hafi verið svarað neitandi. Vitnið kvaðst hafa heyrt að C hafi setið í bíl ofarlega í kaupstaðnum þetta kvöld að bíða eftir einhverju. Vitnið kannaðist við að systir þeirra hafi rætt við ákærða í síma um kl. 21:00 þetta kvöld en hvað þeim fór á milli viti hann ekki. Þó hafi komið fram að sennilega hafi ákærði verið undir áhrifum áfengis þegar símtalið átti sér stað.

Vitnið H skipstjóri [...], kvað ákærða hafa hringt til sín út á sjó, um kvöldmatarleytið, þennan dag en erindið hafi verið að fá upplýsingar um hvenær skipið yrði komið í land. Hann hafi svarað því að þeir væru á landleið en hann mundi ekki hvaða tímasetningu hann gaf ákærða. Vitnið bar að honum hafi heyrst ákærði vera undir áhrifum áfengis. Vitnið mundi eftir að hafa hitt C um kl. 23 þetta kvöld og rætt við hann fyrir utan heimili ákærða. C hafi verið æstur og talað illa um ákærða án þess þó að segja frá einhverju atviki en hann var nokkuð viss um að C hefði þá verið búinn að ræða við ákærða.

Vitnið Kári Erlingsson lögreglumaður kom á vettvang ásamt Jónasi Halldóri Sigurðssyni lögreglumanni seint að kvöldi þess dags sem atburðurinn átti sér stað. Þeir hafi fengið óljósar lýsingar á því sem gerst hafi, að öðru leyti en því að um kynferðismál væri að ræða og að eitthvað hefði gerst í geymslunni á heimili ákærða. Vitnið staðfesti að nýlegur bjórblettur hafi verið á gólfinu í geymslunni. Brotaþoli hafi við skýrslugjöf hjá lögreglu lýst því að ákærði hefði einnig brotið gegn henni í gestaherbergi og þá hafi lögreglumenn frá [...] verið fengnir til að fara á vettvang til frekari rannsóknar. Vitnið mundi eftir bjórdós á ísskáp í geymslunni og bar að hún hafi verið full en mundi ekki hvort hún var opin eða lokuð. Vitnið kvaðst daginn eftir atvikið hafa skoðað síma A og séð að þar var nokkuð að ósvöruðum símtölum. Hann hafi hringt í símann 1411 til að nálgast upplýsingar úr talhólfi símans og skilaboðin sem þar voru hafi verið hljóðrituð. Vitnið bar að læknir hafi komið á lögreglustöðina á Akureyri og framkvæmt réttarfræðilega skoðun á ákærða og þá m.a. tekið úr honum blóðsýni. Hins vegar hafi verið tekið þvagsýni hjá ákærða nóttina áður til að framkvæma fíkniefnapróf. Það sýni hafi verið geymt í kæli og síðan látið fylgja með til rannsóknarstofu.

Vitnið Jónas Halldór Sigurðsson lögreglumaður kvaðst hafa farið á vettvang ásamt vitninu Kára. Vitnið bar að í samtölum A og Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns hafi komið fram að kynferðisbrot hafi átt sér stað í geymslunni á heimili ákærða og því hafi rannsókn þeirra sérstaklega beinst að geymslunni. Eftir að þeir tóku skýrslu af A hafi þeir séð að hún lýsti aðstæðum í geymslunni mjög vel. Vitnið kvað bjórblett hafa verið á gólfinu og óopnuð bjórdós ofan á ísskáp. Síðar, eftir skýrslutöku af A, hafi komið í ljós að brotavettvangur var víðar í húsinu en í geymslunni og þá hafi lögreglumenn á [...] verið fengnir til að skoða herbergið. Síðar hafi hann farið á vettvang og ljósmyndað alla íbúðina. Vitnið staðfesti að þvagsýni hafi verið tekið af ákærða nóttina eftir atburðinn.

Vitnið Björgvin Sigurðsson sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, bar að niðurstaða rannsókna á hárum sem bárust frá neyðarmóttöku hafi verið sú að styttra hárið væri að útliti samskonar og samanburðarhár sem tekin voru af ákærða. Hann geti því ekki útilokað að það sé komið frá ákærða en meira geti hann ekki fullyrt. Þá bar vitnið að í sýni sem aflað var við rannsóknina hafi fundist sæði sem ekki kom frá ákærða. Að sögn vitnisins hafa rannsóknir sýnt að sáðfrumur geti lifað í leghálsi í allt að þrjá sólarhringa en hann geti ekki fullyrt neitt umfram það. Vitnið kvaðst, að teknu tilliti til gagna málsins, ekki geta með vissu tengt ákærða við málið. Vitnið staðfesti skýrslur sem það vann við rannsókn málsins og bar að öflun og geymsla sýna hafi verið með eðlilegum hætti.

Vitnið Jakob Líndal Kristinsson, dósent á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, bar að niðurstaða matsgerðar sem hann vann hefði lítið breyst þótt fyrir hefði legið að þvagsýni var tekið fyrr en ætlað var. Meðalstyrkur áfengis í þvagi þegar það var að myndast hafi verið 1,98‰ og því sé öruggt að einhvern tíma hafi styrkurinn verið meiri en 2‰ en ekki sé mögulegt að segja til um hver styrkur áfengis var mestur. Að sögn vitnisins er mjög erfitt að segja til um hversu ölvaður einstaklingur er sem mælist með þennan styrk. Þeir sem séu óvanir að neyta áfengis geti nánast sofnað ölvunarsvefni við þetta magn. Þá bar vitnið að óminni af völdum áfengis sé vel þekkt en ekki sé unnt að nefna neina tölu varðandi áfengismagn sem valdi slíku. Ef menn muna ekki eftir sér vegna drykkju áfengis sé öruggt að þeir sem umgangast þá taki eftir ölvunarástandi. Vitnið bar að þar sem ekkert alkóhól hafi mælst í blóði brotaþola sé ekki unnt að segja neitt til um áfengisneyslu hennar hins vegar geti vel verið að hún hafi drukkið einn bjór nokkru áður en sýnið var tekið.

IV

Niðurstaða

Ákæruvaldið reisir kröfur sínar á framburði brotaþola, A, sem hafi verið einkar trúverðugur. Ákæruvaldið telur framburð A hafa verið mjög stöðugan en hún hafi fyrst sagt hluta sögu sinnar hjá lögreglunni á [...] strax eftir atburðinn. Síðar um nóttina hafi hún lýst atburðum á neyðarmóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og daginn eftir hjá lögreglunni á Akureyri. Loks hafi hún borið vitni fyrir dóminum. Ákæruvaldið styður kröfur sínar einnig við framburð annarra vitna og bendir á að vitni sem töluðu við A strax eftir atvikið hafi öll borið að hún hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Af hálfu ákæruvalds er einnig vísað til gagna málsins og talið að þau styðji framburð A, svo sem að lýsing hennar á aðstæðum á heimili ákærða sé í samræmi við ljósmyndir sem teknar voru þar. Ákæruvaldið telur að lítt verði byggt á framburði ákærða en hann hafi verið á þá lund að hann muni ekki eftir atvikum sökum ölvunar. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi hann haldið því fram að atvikið hafi verið sett á svið en fyrir dómi hafi hann ekki haldið því fram. Fyrir dómi hafi hann í raun ekki borið um annað en að hann muni eftir að A hafi komið til hans en annað ekki.

Af hálfu ákærða er því haldið fram að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að leggja fyrir dóminn gögn sem leitt geti til sakfellingar. Hér standi í raun orð gegn orði bæði varðandi það sem á að hafa gerst í geymslunni og síðar í gestaherbergi. Sérstaklega er því haldið fram að engin nauðung hafi verið varðandi háttsemina í geymslunni þar sem A hafi sjálf lýst því að hún hafi komist fram um leið og hún gerði tilraun til þess og því geti meint háttsemi ákærða þar ekki talist annað en kynferðisleg áreitni. Meint atvik í geymslunni og síðar gestaherbergi séu tvö aðskilin atvik. Ákærði vísar, máli sínu til stuðnings, til þess að framburður vitna hafi verið misvísandi varðandi það sem A sagði þeim og bendir t.d. á að A hafi sjálf borið að hún hafi ekki sagt vitninu F að henni hafi verið nauðgað þó svo hann að hafi haldið því fram fyrir dómi. Þá verði ekki annað ráðið en hann hafi skipað henni að kæra atvikið og vera kunni að hann hafi breytt upplifun hennar á atburðinum. Framburður F og C um tímasetningar á símtölum þeirra við A og hver hringdi í hvern sé ekki í samræmi við gögn málsins. Loks tengi önnur gögn, svo sem lífsýni sem tekin voru, ákærða ekki við málið. Fyrir liggi að sæði fannst í lífsýni sem tekið var úr A en það hafi ekki komið frá ákærða. Þá verði ekki framhjá því horft að ekkert fannst á líkama ákærða sem tengi hann við málið en ólíklegt sé að hann hafi þrifið sig eftir atburðinn. Þegar gögn málsins séu skoðuð í heild sé einfaldlega ekki komin fram lögfull sönnun fyrir sekt ákærða.

Ákærði hefur bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum borið við nánast algeru minnisleysi vegna ölvunar varðandi það hvað gerðist á heimili hans eftir að A bar að garði umræddan dag. Vitnið Jakob Líndal bar að á einhverjum tímapunkti hafi áfengismagn í blóði ákærða verið yfir 2‰ og er því ljóst að hann var töluvert ölvaður. Við úrlausn málsins verður samkvæmt þessu að miða við að ákærði muni ekki eftir atvikum. Háttar því svo til að einvörðungu er við framburð kæranda að styðjast um samskipti hennar og ákærða eftir að fundum þeirra bar saman umrætt kvöld, auk sýnilegra sönnunargagna sem aflað hefur verið og lögð hafa verið fram í málinu. Þó verður ekki framhjá því litið að sumt af því sem ákærði bar fyrir dóminum er ekki í samræmi við framburð vitna. Þannig bar bróðir ákærða að hann hafi komið til ákærða um kl. 18 umræddan dag en þá hafi ákærði ekki verið drukkinn. Bróðurdóttir ákærða átti við hann samtal, sem samkvæmt gögnum málsins átti sér stað kl. 18:01, en þá heyrðist henni hann ekki vera drukkinn. Annað samtal áttu þau kl. 21:00 en vitnið bar að í því símtali hafi ákærði sagt að stelpan sem hjá honum var hafi verið „blindfull og kolrugluð”. Rannsókn á blóðsýni sem tekið var úr A útilokar að hún hafi verið ölvuð þetta kvöld.

Áður er þess getið að af hálfu ákæruvalds er m.a. byggt á trúverðugleika framburðar vitnisins A og því að framburður hennar fái stoð í framburði annarra vitna og sýnilegum gögnum málsins. Framburður A hefur verið staðfastur um þau atvik sem hún hefur lýst og er ekkert í framburði hennar til þess fallið að draga úr trúverðugleika hans. Að mati dómsins er framburður hennar trúverðugur.

Að framan er rakinn framburður vitna sem komu fyrir dóminn. Vitnin F, C, Kristján Þorbjörnsson, Vilhjálmur Stefánsson, Anna Mýrdal, og Ingibjörg Gyða, sem töluðu við A þetta kvöld og nóttina eftir, báru öll að hún hafi verið í miklu uppnámi, átt erfitt með að lýsa því sem gerst hafði og grátið mikið. Framburður nefndra vitna er til þess fallinn að renna stoðum undir framburð A. Þá er lýsing A á aðstæðum í geymslu og frásögn hennar af bjórbletti á gólfinu í samræmi við gögn málsins. Þá er samræmi í framburði A og vitnisins F um það hvar hún var stödd þegar hún hringdi fyrst til hans eftir atvikið. Réttarfræðileg rannsókn, sem gerð var á sýnum sem aflað var, styður hvorki né afsannar frásögn A.

Að mati dómsins er framburður vitna varðandi tímasetningar símtala og mismunandi vætti um það hver hringdi í hvern ekki til þess fallið að draga úr gildi framburðar þeirra, enda ekki óeðlilegt að minni manna hvað slíkt varðar sé brigðult. Það er því niðurstaða dómsins að leggja verði staðfasta og trúverðuga frásögn A til grundvallar í málinu og að fram sé komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir. Sú háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru er metin sem eitt brot sem er réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

Ákvörðun refsingar

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að brot hans er alvarlegt, en það beindist að kynfrelsi brotaþola. Þá misnotaði hann sér traust sem hún bar til hans. Þá ber einnig að horfa til þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing ákærða samkvæmt þessu og með vísan til 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 13. til 16. ágúst 2008 að báðum dögum meðtöldum komi til frádráttar refsingunni.

Einkaréttarkrafa

Af hálfu brotaþola hefur, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verið gerð krafa um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna. Með vísan til sakfellingar ákærða á brotaþoli rétt á bótum frá honum á grundvelli tilvitnaðrar lagagreinar. Ljóst er að kynferðisbrot eru almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum en vottorð um líðan brotaþola eftir atvikið hafa ekki verið lögð fram í málinu. Með hliðsjón af þessu og framburði brotaþola og unnusta hennar fyrir dómi þykja bætur úr hendi ákærða til brotaþola hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir.

Sakarkostnaður

Samkvæmt yfirliti sækjanda nemur sakarkostnaður 432.309 krónum. Þar við bætast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 560.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 373.500 krónur. Við ákvörðun þóknunar og málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til vinnu verjanda og réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins hjá lögreglu svo og tíma sem fór í ferðalög þeirra. Við þennan kostnað bætist 22.080 króna aksturskostnaður verjanda, aksturskostnaður réttargæslumanns, 22.080 krónur, og loks útlagður ferðakostnaður réttargæslumanns að fjárhæð 28.180 krónur.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.

Málið er dæmt af Halldóri Halldórssyni dómstjóra, Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara og Þorgeiri Inga Njálssyni dómstjóra. Fyrir uppsögu dómsins var gætt að ákvæðum 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

DÓMSORÐ

Ákærði, Vilhjálmur Kristinn Skaftason, sæti fangelsi í þrjú ár. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 13. til 16. ágúst 2008 að báðum dögum meðtöldum komi til frádráttar refsingunni.

Ákærði greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. ágúst 2008 til 30. maí 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.438.399 krónur í sakarkostnað, þar með talin 560.250 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, og 373.500 króna þóknun Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþola.