Hæstiréttur íslands

Mál nr. 115/2005


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Fyrning


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. september 2005.

Nr. 115/2005.

Gunnar Ágúst Ingvarsson

(Agnar Gústafsson hrl.)

gegn

Olíufélaginu ehf. og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Fyrning.

Í málinu var deilt um hvenær fjögurra ára fyrningarfrestur skv. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hefði hafist vegna tjóns sem G hlaut í umferðarslysi 4. júní 1993. Talið var að G hefði verið unnt að leita fullnustu kröfu sinnar árið 1997. Ekki var fallist á að miða ætti upphaf frestsins við læknisaðgerð, sem fram fór árið 1999, vegna sýkingar í gerfilið, sem G hafði fengið eftir slysið. Bótakrafa G var því fyrnd, er hann höfðaði málið, og voru O ehf. og V hf. af þeim sökum sýknaðir af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2005 og krefst þess að stefndu greiði sér 3.635.300 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum frá 12. júní 1999 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann naut fyrir héraðsdómi.

Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim greiddur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður þá felldur niður.

Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt endurrit þinghalda í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. apríl og 9. júní 2005, þar sem hinir dómkvöddu matsmenn í héraði, læknarnir Yngvi Ólafsson og Ágúst Karlsson, komu fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína frá 30. mars 2004 og svöruðu spurningum. Í framhaldi af þessu kom áfrýjandi aftur fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar.

Með gagnaöflun sinni eftir uppsögu héraðsdóms hefur áfrýjandi leitast við að renna frekari stoðum undir þá málsástæðu sína að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 við það að gerviliður úr hægri öxl hans var fjarlægður 28. júlí 1999. Þá fyrst hafi afleiðingar slyssins 4. júní 1993 endanlega komið fram og sé krafan því ófyrnd. Í svörum hinna dómkvöddu matsmanna kom fram að þeir hafi talið að ísetning gerviliðarins og brottnám hans vegna sýkingar fjórum árum síðar væru ófyrirsjáanleg atvik, sem ekki hafi verið raunhæft að taka tillit til við matið. Áfrýjandi verður því ekki talinn hafa rennt frekari stoðum undir staðhæfingu sína um að brottnám gerviliðarins hafi verið afleiðing slyssins. Þegar af þessari ástæðu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2004.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 2. júní 2003 og dómtekið 9. desember sl. Stefnandi er Gunnar Ágúst Ingvarsson, Nýbýlavegi 58, Kópavogi. Stefndu eru Olíufélagið ehf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir sameiginlega til greiðslu 3.635.300 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst þess einnig að stefndu verði dæmdir sameiginlega til greiðslu málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda sæti lækkun. Þeir krefjast einnig málskostnaðar.

Málið var upphaflega aðeins höfðað gegn stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. til réttargæslu. Eftir dómtöku málsins gerði stefnandi breytingu á dómkröfum sínum og beindi þeim einnig að Vátryggingafélag Íslands hf. Þessi breyting á dómkröfum og aðild málsins var samþykkt af Vátryggingafélagi Íslands hf. í þinghaldi 21. desember 2004. Í því þinghaldi lýstu aðilar málsins því yfir að breyting á varnaraðild málsins kallaði ekki á gagnaöflun af þeirra hálfu eða nýja aðalmeðferð. Að kröfu aðila var málið þá tekið að nýju til dóms.

I.

Málsatvik

Atvik málsins eru að meginstefnu óumdeild. Hinn 4. júní 1993 stöðvaði stefnandi bifreið sína við gangbraut á Lækjargötu fyrir framan Miðbæjarskólann vegna gangandi vegfarenda. Var þá ekið aftan á hann af bifreið sem var í eigu stefnda en tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.. Við höggið kastaðist bifreið stefnanda fram yfir gangbrautina með þeim afleiðingum að bakið í sæti hans brotnaði. Við slysið vankaðist stefnandi og fann fyrir eymslum í hálsi. Stefnandi fór að eigin frumkvæði á slysadeild Borgarspítalans þegar eftir slysið.

Samkvæmt vottorði Brynjólfs Jónsson bæklunarskurðlæknis 14. mars 1995 leiddi fyrsta skoðun á slysadeild í ljós að stefnandi var stífur í baki og herðum, kvartaði yfir óþægindum í hálsi og var einnig í greinilegu uppnámi. Við endurkomu 14. júlí 1993 hafði hann kvartanir um höfuðverk og verk út í hægri öxl og handlegg. Hafi honum verið ráðlögð sjúkraþjálfun. Við endurkomu 7. desember 1994 kvað stefnandi sig hafa verið mjög slæman í hægri öxl og hafa veruleg óþægindi frá hálsinum, verki eftir álag, sársauka við álag og voru hálshreyfingar mjög sárar. Þá kom í ljós að hann var mjög stirður í öxlinni. Röntgenmyndir hafi sýnt algert slit. Þá segir í vottorðinu að í byrjun árs hafi verið ljóst að öxlin var svo slitin og óþægindi svo mikil að nauðsynlegt var að koma fyrir gervilið. Sú aðgerð hafi verið framkvæmd 28. febrúar 1995. Við þetta hafi öxlin breyst til mikils batnaðar. Samkvæmt öðrum gögnum málsins fór aftur að bera á verkjum í öxl um áramótin 1998/1999 og fóru þeir versnandi. Hafi rannsóknir leitt í ljós að komin var sýking í axlarliðinn. Hafi stefnandi gengist undir tvær aðgerðir í framhaldi af þessu og var axlarliðurinn fjarlægður í seinni aðgerðinni 28. júlí 1999. Hafi hann síðan haft hengilið í öxlinni.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefnandi til Svavars Halldórssonar bæklunarlæknis vegna vandamála í hægri öxl fyrir slysið, þ.e. 22. mars 1993. Sýndi röntgenskoðun að kalkanir voru í öxlinni og slit í sinum ofan á öxlinni. Fékk stefnandi innspýtingarmeðferð vegna þessara einkenna. Aðilar deila um hvort og að hvaða marki rekja megi varanleg einkenni stefnanda í öxl til atvika fyrir slysið. Að því er varðar hlutfall tímabundinnar og varanlegrar örorku er þó af hálfu beggja aðila lagðar til grundvallar niðurstöður dómkvaddra matsmanna, læknanna Ágústar Kárasonar og Yngva Ólafssonar, í matsgerð 30. mars 2004. Í umræddri matsgerð eru læknisfræðileg gögn um þróun einkenna í öxl stefnanda ítarlega rakin. Álit hinna dómkvöddu matsmanna er sú að hefði stefnandi ekki haft undirliggjandi sjúkdóm í öxlinni hefðu afleiðingar slyssins líklega ekki orðið svo slæmar að nauðsynlegt hefði verið að setja gervilið í öxlina. Niðurstaða dómkvaddra matsmanna er sú að þriðjungur núverandi einkenna stefnanda verði eingöngu rakinn til slyssins. Í matsgerðinni er stefnandi talinn hafa verið 100% óvinnufær í sex mánuði og 50% óvinnufær í þrjá mánuði. Varanleg örorka er talin vera 15% og varanlegur miski 15%. Lögmaður stefnanda ritaði matsmönnum bréf 7. apríl 2004 og óskaði eftir að matsmenn upplýstu hvort framangreindar tölur breyttust ef miðað væri við þær reglur sem giltu fyrir gildistöku laga nr. 50/1993. Í svari matsmanna 29. maí 2004 kemur fram að matsmenn telji að í besta falli megi rökstyðja hækkun læknisfræðilegrar örorku um 2-5%. Eins og síðar greinir byggir stefnandi á því að varanleg örorka hans hafi verið 15% í samræmi við matsgerð dómkvaddra matsmanna. Eins og sakarefni málsins liggur fyrir er ekki ástæða til að rekja frekar læknisfræðilegar afleiðingar slyssins.

Í málinu liggur fyrir örorkumat læknanna Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar dagsett 24. júlí 1995. Niðurstaða þeirra var að tímabundin læknisfræðileg örorka stefnanda væri 100% í sex mánuði og síðan 50% í þrjá mánuði. Varanleg læknisfræðileg örorka væri 10%.  Tímabundin fjárhagsleg örorka væri sú sama og læknisfræðileg örorka, þ.e.a.s. 100%  í sex mánuði og 50% í þrjá mánuði.  Eftir það væri varanleg fjárhagsleg örorka 10%. Stefnandi féllst ekki á niðurstöðu umrædds mats og aflaði að eigin frumkvæði álits Júlíusar Valssonar á afleiðingum slyssins. Niðurstaða hans, dags. 12. desember 1996, var sú, að tímabundin örorka væri 100% í sex mánuði og 50% í þrjá mánuði en varanleg örorka væri 20%. Með hliðsjón af því að af hálfu beggja aðila er nú byggt á niðurstöðum dómkvaddra matsmanna í matsgerð 30. mars 2004 er ekki ástæða til að rekja umrædd örorkumöt frekar.

Fljótlega eftir örorkumat Júlíusar Valssonar fékk lögmaður stefnanda Jón Erling Þorláksson, tryggingafræðing, til að reikna út tjón stefnanda á grundvelli matsins og launatekna miðað við árslaun að fjárhæð 1.200.000 krónur á útreikningsdegi 6. mars 1997. Af hálfu stefnda Vátryggingafélags Íslands ehf. var ekki fallist á að gera upp tjónið á þessum grundvelli. Hins vegar gerði stefnda Vátryggingafélag Íslands ehf. stefnanda tilboð um uppgjör tjónsins 27. maí 2003 sem stefnandi hafnaði. Tilboð stefnda Vátryggingafélags Íslands ehf. var sett fram með fyrirvara um þau atriði sem tilboðið byggði á, meðal annars að því er varðaði fyrningu bótakröfunnar. Stefnandi hafnaði tilboði hins stefnda félags.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Garðar Þorbergsson, Einar Heimir Pétursson og Hallur Einar Ólafsson. Staðfestu vitnin yfirlýsingar sem lagðar hafa verið fram í málinu um áætluð verkefni og verkefnastöðu atvinnurekstrar stefnanda á þeim tíma er slysið var. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að ekki sé ágreiningur um bótaskyldu stefndu. Hins vegar deili aðilar um fjárhæð bóta. Endanlegar dómkröfur stefnanda miðast við niðurstöður í matsgerð dómkvaddra matsmanna 30. mars 2004 um ákvörðun örorku, en fullyrðingum matsmanna um stöðugleikapunkt er mótmælt af stefnanda. Að því er varðar útreikning bóta fyrir tímabundna og varanlega örorku byggir stefnandi á svofelldum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarstærðfræðings 21. júní 2004 sem tekur mið af niðurstöðum dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt þessu sundurliðar stefnandi kröfur sínar með eftirfarandi hætti:

 

Tímabundin örorka

547.800 krónur

Varanleg örorka

2.535.400 krónur

Töpuð lífeyrisréttindi

152.100 krónur

Miskabætur

400.000 krónur

Samtals

3.635.300 krónur

 

Eins og fram kemur í útreikningi tryggingarstærðfræðingsins byggir hann á þeirri forsendu að árlegar framtíðartekjur stefnanda hefðu verið 1.970.000 krónur. Að því er varðar tekjuviðmið útreikningsins bendir stefnandi á að tekjur hans árin fyrir slysið gefi ekki rétta mynd af þeim tekjum sem hann hefði haft í framtíðinni. Þegar slysið gerðist hafi stefnandi nýverið hafið rekstur eigin bókhaldsstofu og hafi slysið kippt grundvellinum undan þeim rekstri. Hafi hann orðið að vísa viðskiptavinum frá af þessum sökum. Vísar stefnandi til yfirlýsinga, sem lagðar hafa verið fram í málinu, sem og vitnaskýrslna við aðalmeðferð málsins um verkefni sem hann hafi haft og hefði haft með höndum, ef slysið hefði ekki komið til.

Stefnandi vísar til bótareglna umferðarlaga nr. 50/1987 til stuðnings kröfum sínum.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Aðalkrafa stefndu er byggð á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Heilsufarslegt ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt níu mánuðum eftir slysið samkvæmt fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum. Hafi stefnandi þá getað látið meta örorku sína og leitað fullnustu kröfunnar. Hafi fyrningarfrestur hafist í árslok 1994 og krafan því verið fyrnd í árslok 1998. Breyti engu þótt miðað sé við dagsetningar síðari matsgerða sem lágu fyrir í málinu við höfðun þess.

Varakröfu sína um lækkun reisa stefndu nú á því að tímabundið atvinnutjón sé ósannað og einnig sé miðað við of háar árstekjur við útreikning bóta. Þannig hafi stefnandi verið með litlar sem engar launatekjur árin 1990, 1991, 1992 og 1993, enda 75% öryrki. Fullyrðingum stefnanda um að hann hafi haft næg verkefni á sviði bókhalds og gerðar ársreikninga rétt fyrir slysið er mótmælt. Telja stefndu að sú mikla örorka sem stefnandi var með fyrir slysið svo og tekjusaga hans bendi til þess að hann hefði haft litlar sem engar tekjur ef slysið hefði ekki borið að höndum. Er framangreindum útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarstærðfræðings mótmælt í heild sinni. Telja stefndu að miða eigi við útreikninga Jóns Erlings þar sem miðað sé við raunverulegar árstekjur stefnanda, en samkvæmt þeim nemi heildartjón stefnanda 437.300 krónum að viðbættum 21.600 krónum vegna tapaðra lífeyrisréttinda og eigi þá eftir að taka tillit til frádráttar vegna ýmissa þátta, svo sem hagræðis vegna eingreiðslu og skattfrelsis.

Stefndu mótmæla vaxtakröfu stefnanda. Þeir telja eldri vexti en fjögurra ára frá málshöfðun fyrnda, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi.

IV.

Niðurstaða

Eins og áður greinir rekur stefnandi tjón sitt til umferðarslyss 4. júní 1993. Í málinu liggur fyrri örorkumat læknanna Sigurjóns Sigurðssonar og Ragnars Jónssonar 24. júlí 1995 sem óskað var eftir af stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og  stefnanda sameiginlega. Er niðurstaða læknanna sú að tímabært sé að meta örorku stefnanda vegna slyssins. Er tímabundin læknisfræðileg örorka talin vera 100% í sex mánuði, 50% í þrjá mánuði, en varanleg læknisfræðileg örorka 10%. Varanleg fjárhagsleg örorka er talin vera sú sama og varanleg læknisfræðileg örorka eða 10%. Að beiðni stefnanda lagði Júlíus Valsson læknir mat á varanlega örorku stefnanda með örorkumati 12. desember 1996. Í niðurstöðum mats Júlíusar kemur einnig fram að tímabært sé að meta tímabundna og varanlega örorku stefnanda vegna slyssins. Er tímabundin örorka stefnanda talin vera 100% í sex mánuði, 50% í þrjá mánuði, en varanleg örorka 20%. Í framhaldi af þessu mati sendi lögmaður stefnanda stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. bréf 6. maí 1997, þar sem sett var fram sundurliðuð krafa stefnanda vegna tjónsins með hliðsjón af útreikningi tryggingarstærðfræðings sem þá hafði verið aflað.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að stefnandi taldi sér unnt að leita fullnustu kröfu sinnar eigi síðar en 6. maí 1997. Af hálfu stefnanda er hins vegar á því byggt að afleiðingar slyssins hafi endanlega komið fram þegar gerviliður var tekinn úr öxl hans 2. júlí 1999. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna 30. mars 2004, eins og hún hefur verið nánar skýrð af hinum dómkvöddu matsmönnum með bréfi 29. maí 2004, er varanleg örorka stefnanda 15%, líklega að viðbættum 2-5% til samræmis við þær reglur sem giltu fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, og er þá miðað við skoðun matsmanna á stefnanda 13. febrúar 2004. Að þessu virtu er ekki komið fram að verulegar breytingar hafi orðið á einkennum stefnanda frá því örorka hans var metin árið 1996 og hann gerði kröfu sína með bréfinu 6. maí 1997 vegna umræddrar aðgerðar eða af öðrum sökum. Telur dómari að stefnanda hafi verið unnt að leita fullnustu kröfu sinnar eigi síðar en árið 1997, eins og kröfubréf hans 6. maí 1997 ber vitni um. Verður því að telja að upphaf fyrningarfrests sé eigi síðar en við árslok 1997, sbr. 99. gr. laga nr. 50/1987. Samkvæmt ótvíræðum ákvæðum 99. gr. laga nr. 50/1987 er fyrningarfrestur kröfu hans fjögur ár. Eins og áður greinir höfðaði stefnandi mál þetta 2. júní 2003 og var krafa hans þá fyrnd. Er óhjákvæmilegt að sýkna stefndu af kröfu stefnanda af þessum ástæðum.

Stefnandi málsins fékk leyfi til gjafsóknar við reksturs málsins fyrir héraðsdómi 29. mars 2004. Í ljósi atvika málsins verður málskostnaður látinn niður falla. Þóknun lögmanns stefnanda þykir hæfilega ákveðin 425.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Útlagður kostnaður stefnanda nemur 404.095 krónum. Samkvæmt framangreindu nemur gjafsóknarkostnaður stefnanda 829.095 krónum og greiðist hann úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Agnar Gústafsson hrl.

Af hálfu stefndu flutti málið Sigurður B. Halldórsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Olíufélagið ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Ágústs Ingvarssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Agnars Gústafssonar hrl., að fjárhæð 425.000 krónur.