Hæstiréttur íslands
Mál nr. 19/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 17. september 2009. |
|
Nr. 19/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Hauki Helgasyni (Helgi Jóhannesson hrl. Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur piltum, A og B, sem hann kenndi á skellinöðru og bifreið. Sannað þótti að X hefði átt kynferðisleg samskipti við piltana og voru brot hans talin varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda yrði að líta svo á að piltarnir, sem voru innan 18 ára aldurs, hefðu án milligöngu forráðamanna sinna en með þeirra samþykki leitað eftir námi hjá X sem ökukennara. Þá var X ákærður fyrir kynferðisbrot og áfengislagabrot með því að hafa fengið C í fjögur til sex skipti til að afklæðast og tekið fjölda mynda af honum fáklæddum eða nöktum, en á sama tímabili keypt áfengi fyrir piltinn og afhent honum. Var X sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga en talið var sannað að hann hefði tekið myndir af piltinum í tvö til þrjú skipti. Gegn neitun X þótti ósannað að hann hefði keypt áfengi fyrir piltinn og var hann því sýknaður af ákærunni hvað það varðaði. Þá var X sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa haft í vörslu sinni samtals 3804 ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, þar á meðal myndir sem hann tók af A, B, C og D. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot X hefðu beinst að fjórum piltum á unglingsaldri og hefði hann misnotað freklega þá aðstöðu, sem hann komst í sem ökukennari þeirra allra. Var honum gert að sæta fangelsi í tvö ár. Þá var X gert að greiða A og B hvorum 1.000.000 krónur í miskabætur og C og D hvorum 400.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur að öllu leyti fyrir háttsemi, sem greinir í 1. og 2. lið ákæru eins og þeim var breytt við meðferð málsins í héraði, ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða verði að öðru leyti staðfest og refsing hans þyngd.
A og B krefjast hvor um sig að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur, en C og D 1.000.000 krónur hvor, allt með vöxtum og dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði, þó þannig að krafa þess síðastnefnda beri vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1999 til 1. júlí 2001, vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 19. desember 2007 og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en hann ella sýknaður af þeim.
I
Í ákæru ríkissaksóknara 3. júní 2008, eins og henni var breytt við aðalmeðferð málsins í héraði 21. nóvember sama ár, var ákærði í 1. lið borinn sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum með því að hafa sem ökukennari A, sem fæddur er [...] 1981, frá hausti 1997 fram í nóvember 1998 í tugi skipta á nánar tilgreindum stöðum fróað honum og haft við hann munnmök. Í 2. lið ákæru voru ákærða gefin að sök brot gegn sama lagaákvæði með því að hafa sem ökukennari B, sem fæddur er [...] 1981, frá árslokum 1996 fram í nóvember 1998 á tilteknum stöðum fróað honum að jafnaði einu sinni í viku og í eitt skipti sett fingur í endaþarm hans. Með 3. lið ákærunnar var ákærði sakaður um hafa brotið aðallega gegn 209. gr. almennra hegningarlaga en til vara 2. mgr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, svo og 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998 með því að hafa fengið C, fæddan [...] 1987, í fjögur til sex skipti frá hausti 2002 til vors 2003 til að afklæðast og tekið fjölda mynda af honum fáklæddum eða nöktum, en á sama tímabili hafi ákærði í allt að tuttugu skipti keypt áfengi fyrir piltinn og afhent honum. Loks var ákærði í 4. lið ákæru sakaður um að hafa brotið gegn 209. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa haft í vörslum sínum í myndaalbúmi, á framkölluðum filmum, á minniskorti úr myndavél og á átta geisladiskum samtals 3.804 myndir, sem sýni börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, þar á meðal drengina þrjá, sem að framan er getið, og D fæddan [...] 1982, en af þeim hafi ákærði sjálfur tekið myndir.
Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa fróað A og B eins og lýst var í fyrstu tveimur liðum ákæru, en ósannað þótti að ákærði hefði haft munnmök við þann fyrrnefnda og sett fingur í endaþarm þess síðarnefnda. Þá var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. sömu laga fyrir að hafa í tvö eða þrjú skipti fengið C til að afklæðast og tekið myndir af honum fáklæddum eða nöktum, svo sem greindi í 3. lið ákæru, en ekki þótti sannað að ákærði hafi aðhafst þetta oftar eða keypt áfengi fyrir piltinn og afhent honum. Loks var ákærði sakfelldur fyrir brot, sem greindi í 4. lið ákæru. Fyrir Hæstarétti er af hálfu ákæruvaldsins krafist að ákærði verði auk framangreinds sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem getið var í fyrstu tveimur liðum ákæru og hann var sýknaður af fyrir héraðsdómi, en það unir að öðru leyti við niðurstöður hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hans.
II
Um þær sakir samkvæmt 1. og 2. lið ákæru, sem ákærði var sýknaður af í héraði, nýtur ekki við annarra sönnunargagna en framburðar vitnanna A annars vegar og B hins vegar um þá háttsemi, sem þeir hvor fyrir sitt leyti kveða ákærða hafa sýnt af sér gagnvart þeim. Þessum sökum hefur ákærði eindregið neitað. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða að þessu leyti er eðli máls samkvæmt reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar hvors vitnisins gagnstætt skýrslu hans fyrir dómi, en samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða V. við þau lög, verður sú niðurstaða ekki endurmetin til sakfellingar ákærða fyrir Hæstarétti, enda hafa munnlegar skýrslur ekki verið gefnar hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu kemur ekki til frekari skoðunar krafa ákæruvaldsins um sakfellingu ákærða fyrir aðrar sakir en þær, sem fallist var á fyrir héraðsdómi, en ekki eru efni til að neyta um þetta heimildar 3. mgr. 208. gr. sömu laga til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er sannað að ákærði hafi átt þau kynferðislegu samskipti við A og B, sem þar þótti sýnt fram á og greinir í 1. og 2. lið ákæru. Eins og málið liggur fyrir verður að líta svo á að þeir A og B, sem á þessum tíma voru innan 18 ára aldurs, hafi án milligöngu forráðamanna sinna en með þeirra samþykki leitað eftir námi hjá ákærða sem ökukennara. Með þessu komst ákærði í þá aðstöðu gagnvart piltunum, sem um ræðir í 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot samkvæmt þessum liðum ákæru, en vegna refsimarka nefnds lagaákvæðis verður að gæta að því að A var 16 til 17 ára að aldri mestan hluta tímans, sem brot ákærða gagnvart honum stóðu yfir, og B 15 til 16 ára.
Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot, sem greinir í 3. lið ákæru, verður staðfest með vísan til forsendna hans.
Eins og áður greinir var ákærða gefið að sök í 4. lið ákæru að hafa haft í myndaalbúmi og á filmum, minniskorti úr myndavél og geisladiskum, „sem haldlagðir voru á heimili ákærða 15. febrúar og 2. mars 2007, samtals 3804 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt“, svo sem sagði í ákærunni. Þar var einnig tekið fram að ákærði hafi tekið „margar myndanna“, meðal annars af piltunum, sem áður er getið, en með „vörslu sinni á nektarmyndum af þessum fjórum piltum særði hann blygðunarsemi þeirra“. Þetta var sem fyrr segir talið varða við 209. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. Í ákærunni var þess getið að meðal þeirra ljósmynda, sem þar um ræddi, hafi á tiltekinni tegund af minniskorti úr myndavél verið „194 ljósmyndir sem ákærði eyddi af kortinu á árinu 2006 en unnt var að endurheimta.“ Vegna þessa verður að gæta að því að eftir hljóðan ákærunnar var ákærða ekki gefið að sök að hafa haft 3.804 ljósmyndir í vörslum sínum á tilteknum tíma, heldur var þar aðeins vísað til þess að þær hafi verið að finna í ferns konar munum, sem hald var lagt á fyrrgreinda daga. Getur því engu skipt um úrlausn þessa sakarefnis að myndirnar hafi ekki allar verið ákærða tiltækar þá daga, sem getið var í ákæru, en ekki hefur verið vefengt að hann hafi enn haft þær í vörslum sínum á árinu 2006. Í málinu hefur ákærði ekki borið brigður á að hann hafi sjálfur tekið hluta af þessum myndum af piltunum fjórum, en eftir gögnum málsins munu þær myndir samtals hafa verið 777 að tölu. Eftir hljóðan þessa liðar ákæru er ákærða þó ekki gefið að sök að hafa sært blygðunarsemi piltanna með því að hafa tekið myndirnar, heldur með því að hafa haft þær í vörslum sínum. Sú háttsemi ákærða varðar við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sem tæmir hér sök. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt 4. lið ákæru, en brot hans verður samkvæmt framansögðu einungis heimfært til síðastnefnds lagaákvæðis.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess að brot hans beindust að fjórum piltum á unglingsaldri og misnotaði hann freklega þá aðstöðu, sem hann komst í sem ökukennari þeirra allra. Brot hans gagnvart tveimur piltanna stóðu yfir um lengri tíma, en öll voru brotin alvarleg og fallin til að hafa mikil áhrif á þá, sem þau beindust að. Gagnstætt þessu verður á hinn bóginn að gæta að því að rannsókn lögreglu á brotum ákærða hófst ekki fyrr en nærri var fullnaður fyrningartími þeirra eftir þágildandi ákvæðum 81. gr. almennra hegningarlaga, svo og að hann hefur ekki áður unnið til refsingar. Að þessu virtu verður ákærða gert að sæta fangelsi í tvö ár.
Í málinu liggja ekki fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brota ákærða á þolendur þeirra. Að því gættu er hæfilegt að ákærða verði gert að greiða A og B hvorum 1.000.000 krónur í miskabætur, en niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð bóta til C og D verður staðfest. Um vexti af þessum kröfum fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en ákærði hefur ekki borið fyrir sig fyrningu vaxta að hluta.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Haukur Helgason, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði A og B hvorum fyrir sig 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 19. desember 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2003 til 19. desember 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 1. maí 1999 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 19. desember 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 592.749 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2008.
I
Málið, sem dómtekið var 21. nóvember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 3. júní 2008 „á hendur Hauki Helgasyni, kennitala 221158-7419, án lögheimils á Íslandi.
1. Fyrir kynferðisbrot, með því að hafa sem ökukennari A, sem ákærði kenndi á skellinöðru og bifreið, frá vori 1996 og fram í nóvember 1998, þegar pilturinn var 14 til 17 ára gamall, í tugi skipta fróað A og haft við hann munnmök. Kynferðismökin áttu sér oftast stað á heimili ákærða að Kárastíg í Reykjavík, en einnig í bifreið ákærða í Heiðmörk, í nokkrum tilvikum í bifreiðinni í ökutímum, og á ferðalagi þeirra tveggja til Skandinavíu og Þýskalands sumarið 1997 eða 1998.
Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992, 3. gr. laga nr. 40/2003 og 10. gr. laga nr. 61/2007.
2. Fyrir kynferðisbrot, með því að hafa sem ökukennari B, sem ákærði kenndi á skellinöðru og bifreið, frá sumri 1996 og fram í nóvember 1998, þegar pilturinn var 14 til 17 ára gamall, að jafnaði einu sinni í viku fróað piltinum og í eitt skipti sett fingur í endaþarm hans. Kynferðismökin áttu sér stað á heimili ákærða að Kárastíg í Reykjavík, en í eitt skipti í ökutíma í bifreið ákærða á leiðinni í Heiðmörk.
Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992, 3. gr. laga nr. 40/2003 og 10. gr. laga nr. 61/2007.
3. Fyrir kynferðisbrot og áfengislagabrot, með því að hafa sært blygðunarsemi C er ákærði, í fjögur til sex skipti frá hausti 2002 fram til vors 2003, í bílskúrum í Garðabæ og Hafnarfirði, fékk piltinn, sem ákærði kenndi á skellinöðru á þeim tíma, til að afklæðast og tók af honum fjölda mynda þar sem pilturinn var fáklæddur eða nakinn, og fyrir að hafa í allt að tuttugu skipti á sama tímabili, keypt áfengi fyrir piltinn og afhent honum, en C var 15 og 16 ára gamall á þeim tíma sem um ræðir.
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, en til vara við 2. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998.
4. Fyrir kynferðisbrot, með því að hafa haft í vörslu sinni í/á neðangreindum munum sem haldlagðir voru á heimili ákærða 15. febrúar og 2. mars 2007, samtals 3804 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Margar myndanna tók ákærði sjálfur, m.a. af þeim piltum sem um ræðir í 1.-3. lið ákærunnar og D sem þá var 15 ára gamall. Með vörslu sinni á nektarmyndum af þessum fjórum piltum særði hann blygðunarsemi þeirra:
a) Í myndaalbúmi 83 ljósmyndir.
b) Á filmum sem framkallaðar voru 87 ljósmyndir.
c) Á Compact Flash minniskorti úr myndavél 194 ljósmyndir sem ákærði eyddi af kortinu á árinu 2006 en unnt var að endurheimta.
d) Á átta geisladiskum 3440 ljósmyndir.
Telst þetta varða við 209. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, 7. gr. laga nr. 39/2000, 2. gr. laga nr. 14/2002 og 2. gr. laga nr. 74/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á myndaalbúmi, filmum, minniskorti og átta geisladiskum, sbr. tilgreining í ákærulið 4.
Einkaréttarkröfur á hendur ákærða:
A, kennitala [...], krefst bóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til 19. desember 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
B, kennitala [...], krefst bóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til 19. desember 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
C, kennitala [...], krefst bóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júní 2003 til 19. desember 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
D, kennitala [...] krefst bóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1999 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til 19. desember 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“
Við upphaf aðalmeðferðar breytti sækjandi 1. lið ákæru á þann veg að í stað frá vori 1996 komi frá hausti 1997 og í stað 14 til 17 ára komi 15 til 17 ára. Í öðrum lið ákæru er henni breytt á þann veg að í stað frá sumri 1996 komi frá áramótum 1996/1997 og í stað 14 til 17 ára komi 15 til 17 ára.
Ákærði neitar sök að hluta eins og rakið verður í III. kafla. Hann krefst vægustu refsingar. Hann krefst þess að bótakröfunum verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Framangreindur A kærði ákærða til lögreglu 31. janúar 2007 fyrir kynferðisbrot sem ákærði átti að hafa framið gagnvart honum á árunum 1995 til 1998. Skýrði hann svo frá að hann hefði kynnst ákærða sumarið 1995 er hann hóf að læra á skellinöðru, en ákærði var ökukennari. Upp úr þessu hafi kynni þeirra þróast og eins hefði ákærði kynnst fjölskyldu A og orðið eins konar fjölskylduvinur. Um vorið 1996 hefði ákærði beðið um að fá að finna á sér púlsinn og þar á meðal í náranum. Í framhaldi af því hefði ákærði farið að eiga við sig kynmök sem fólust í því að ákærði fitlaði við lim hans og saug hann. Þetta gerðist í nokkra tugi skipta frá því um veturinn 19951996 og þar til ökunámi A lauk í nóvember 1998. A kvað ákærða ekki hafa beitt sig ofbeldi heldur hefði hann frekar verið háður honum vegna þess að hann hefði litið upp til hans og treyst honum sem heimilisvini og ökukennara. Þá hefðu þeir farið saman tvær ferðir til útlanda. Í fyrri ferðinni hefði ekkert gerst en í þeirri síðari hefði ákærði misnotað sig eins og hér heima. Þá hefði ákærði einnig tekið af sér nektarmyndir.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu um samskipti sín við A 15. febrúar 2007 og neitaði í fyrstu að hafa haft kynferðisleg samskipti við hann. Honum var kynnt skýrsla A og kvað hann þá samskipti þeirra hafa verið í megindráttum eins og A lýsti þeim nema hvað hann hefði ekki haft við hann munnmök.
Framangreindur B lagði fram kæru á hendur ákærða 27. febrúar 2007 og var tekin af honum skýrsla sama dag. Hann skýrði svo frá að hann hefði sótt ökutíma til ákærða og kynnst honum þannig. Samband þeirra hefði þróast á þann veg að B fór að fara heim með ákærða er hefði lagt fyrir hann próf og ef B svaraði rangt átti hann að klæðast úr einni flík fyrir hvert rangt svar. Þetta hefði svo endað þannig að hann var orðinn nakinn og hefðu þeir þá farið inn í herbergi þar sem B lagðist á rúm og ákærði fróað honum eftir að hafa fundið púlsinn á honum. Fyrir hvert skipti hefði B fengið eitt þúsund krónur, en þetta hefði gengið svona fyrir sig þar til hann tók ökupróf, en þá lauk samskiptum þeirra. Samskiptin áttu sér stað á heimili ákærða nema einu sinni í Heiðmörk. Þá kvað B ákærða einu sinni hafa sett fingur í endaþarm sinn og sagst þurfa að athuga blöðruhálskirtilinn.
Lögreglan yfirheyrði ákærða 2. mars 2007 um samband hans við B. Ákærði kannaðist við að hafa fróað honum nokkrum sinnum og hefði það verið með samþykki B, hann ekki mótmælt því sem gerðist. Aftur var ákærði yfirheyrður 21. nóvember sama ár og bar sem fyrr að hann hefði fróað B í einhver skipti og greitt honum fyrir þúsund krónur í hvert sinn. Hann neitaði að hafa sett fingur sinn í endaþarm hans.
C gaf skýrslu 25. október 2007 og skýrði frá því að ákærði hefði kennt sér á skellinöðru og upp úr því farið að venja komur sínar til hans og í framhaldinu taka af honum myndir nöktum og eins hefði hann keypt fyrir sig áfengi í fleiri en tuttugu skipti.
Ákærði var yfirheyrður 21. nóvember 2007 um samskipti hans og C og kannaðist við að hafa tekið af honum myndir, en neitaði að hafa látið hann hafa peninga eða áfengi.
Framangreindur D kærði ákærða til lögreglu 1. mars 2007. Hann skýrði svo frá að hann hefði kynnst ákærða 1997 er hann fór að læra á skellinöðru hjá honum. Þeir hefðu átt sameiginlegt áhugamál sem var skellinöðrur og bifreiðar og hefðu kynni þeirra þróast þess vegna. Ákærði hefði auk þess viljað bjóða sér í kvikmyndahús og jafnvel til útlanda en hann ekki kært sig um það. Síðar hafi D farið að læra á bifreið hjá ákærða og hann lýsti atviki þegar þeir óku út fyrir bæinn þar sem ákærði tók af honum myndir nöktum.
Ákærði kannaðist við hjá lögreglu að hafa tekið myndir af D.
Við húsleit hjá ákærða lagði lögreglan hald á þær myndir sem tilgreindar eru í ákæru og kannaðist hann við að eiga þær. Sumt af þeim hefði hann tekið sjálfur með samþykki þeirra sem á þeim eru. Aðrar væru erlendar.
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði kynnst A haustið 1997. Hann kvað piltinn hafa verið orðinn 16 ára þegar kynferðisleg samskipti þeirra hófust. Þau hafi falist í því að ákærði fróaði piltinum og með hans samþykki en aldrei hefði verið um munnmök að ræða. Ákærði kvað piltinn hafa sagt að þetta væru samskipti eins og hann ætti við tiltekinn félaga sinn. Þetta hefði verið í nokkur skipti en ekki eins og segi í ákæru að um hefði verið að ræða tugi skipta. Ákærði kvað kynferðisleg samskipti þeirra hafa átt sér stað eins og lýst er í ákæru nema hvað ekkert slíkt hafi gerst í utanlandsferðunum eftir því sem hann kvaðst best muna.
Ákærði kvaðst hafa kynnst piltinum þegar hann fór að kenna honum á skellinöðru. Pilturinn hefði tekið skellinöðrupróf 31. október 1997. Ákærði kvaðst hafa verið kennari í Ökuskólanum í Mjódd og pilturinn verið þar að læra, en ekki kvaðst hann vita hver hefði greitt fyrir nám hans. Ákærði var kennari við skólann en hafði ekki með fjármál að gera. Ákærði kvaðst ekki geta borið um kynferðisleg samskipti þeirra annað en það að hann taldi sig hafa haft samþykki piltsins fyrir þeim. Hann hefði spurt hann hvort þeir ættu að hætta og pilturinn svarað því neitandi. Að öðru leyti kvaðst hann lítið muna eftir því hvernig samskipti þeirra þróuðust. Undir hann var borið það sem pilturinn hafði borið um að ákærði hefði viljað finna púls á honum og kvaðst hann ekki vilja neita því og gæti það vel passað. Þessi samskipti voru óregluleg en þó alltaf þannig að pilturinn var í ökutíma hjá honum og að honum loknum var farið heim til ákærða eða upp í Heiðmörk og þar hefði hann fróað honum með samþykki hans. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt af hverju hann gerði þetta, en hann hefði ekki fengið neitt kynferðislegt út úr því. Hann kvaðst hafa átt frumkvæðið en ekki pilturinn. Ákærði kvað samskiptum sínum og piltsins hafa lokið þegar hann tók ökupróf.
Við kynni sín af piltinum kvaðst ákærði hafa kynnst foreldrum hans og hefðu hann og faðir piltsins leigt saman bílskúr og eins hefðu þeir hjólað saman. Hann hafi orðið eins konar fjölskylduvinur.
Varðandi B bar ákærði að kynferðisleg samskipti við hann hefðu hafist þegar pilturinn var orðinn 16 ára. Hann fór að læra á skellinöðru haustið sem hann varð 16 ára. Hann viðurkenndi að hafa fróað honum í nokkur skipti en ekki að hafa sett fingur í endaþarm piltsins. Þetta gerðist á þeim stöðum sem lýst er í ákæru. Undir ákærða var borið það sem pilturinn hafði borið um leik sem var fólginn í því að hann tók próf og fyrir hvert rangt svar átti hann að fara úr einni flík og hefði leikurinn endað með því að pilturinn var orðinn nakinn. Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um þetta, hann myndi ekki sérstaklega eftir þessu. Hann neitaði því að þessi samskipti þeirra hefðu verið vikulega. Ákærði kvað samskiptum sínum og piltsins hafa lokið þegar pilturinn ók ökupróf. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt af hverju hann hefði gert þetta, en hann hefði ekki fengið neitt kynferðislegt út úr því. Hann hefði átt frumkvæðið en ekki pilturinn.
Varðandi samskiptin við C viðurkenndi ákærði það sem hann er sakaður um í 3. lið ákærunnar nema hvað hann taldi skiptin tvö til þrjú þegar tók af honum myndir og eins neitaði hann alfarið að hafa keypt handa honum áfengi. Myndirnar voru teknar í bílskúr í Hafnarfirði.
Varðandi 4. ákærulið kannaðist ákærði við að hafa haft myndir með barnaklámi undir höndum eins og greint er í ákærunni. Hann kannaðist við að myndir væru meðal annars af piltunum sem greindir eru í ákæru og eins væri erlent efni þar á meðal. Hann gerði ekki aðrar athugasemdir við fjölda mynda en þær að sér virtust geisladiskarnir of margir. Ákærði viðurkenndi að hafa tekið myndir af piltunum fjórum. Hann hefði einu sinni tekið 2 myndir af piltinum sem nefndur er í ákæruliðnum. Hann hefði hins vegar margfaldað þær í tölvu.
A bar að hann hefði kynnst ákærða sumarið þegar hann var 14 og hann hóf að læra á skellinöðru hjá honum í Ökuskólanum í Mjódd. Upp úr því kvaðst hann hafa farið að aðstoða ákærða við ýmislegt tengt náminu og eins hefði ákærði orðið eins konar fjölskylduvinur. Þegar hann var 15 ára að verða 16 ára hefðu kynferðisleg afskipti ákærða af honum hafist. Þetta byrjaði þannig að ákærði sagði honum að hann þyrfti að finna púls sem var í náranum. Af þessu leiddi svo káf og fróun og einnig munnmök. Eins hefði ákærði tekið af sér myndir. A kvaðst ekki hafa samþykkt þessi mök og sér hefði liðið illa út af þessu en ekki getað staðið á móti ákærða. Hann kvað ákærða aldrei hafa spurt sig hvort hann vildi hætta, en einu sinni hefði hann sagt ákærða að hann vildi hætta og þá hefði hann hætt í það skiptið, en haldið svo áfram síðar. A bar að ákærði hefði gert margt fyrir sig viðvíkjandi skellinöðrum og bílum sem var áhugamál þeirra beggja. Með þessu móti hefði ákærði eins og gert sig háðan sér en aldrei hefði hann beitt sig ofbeldi eða hótunum. Kynferðissamskiptin voru heima hjá ákærða og það oftar en einu sinni í mánuði. Hann kvað þá ákærða hafa farið tvisvar saman til útlanda og í seinni ferðinni hefði ákærði haft við sig kynferðismök en ekki í þeirri fyrri. Þessum samskiptum lauk þegar hann tók bílpróf, þá hefði hann getað slitið sig frá þessu. A þvertók fyrir að hann hefði átt í kynferðislegum samskiptum við annan karlmann á þessum tíma. Hann kvaðst hafa séð Kompásþátt á Stöð 2 og þá talið sig þekkja ákærða þar. Í framhaldinu hefði hann sagt foreldrum sínum frá þessu.
E, faðir framangreinds A, bar að hafa vitað að sonur hans var að læra hjá ákærða, fyrst á skellinöðru og síðar á bíl. Þetta leiddi til meiri samskipta ákærða og A sem svo hafi leitt til kynna ákærða og foreldra piltsins. Þau eignuðust vélhjól og leigðu bílskúr með ákærða. Mikill samgangur var milli þeirra og ákærða sem virkaði frekar einmana en kom vel fyrir. Hann kvað hvorki þau né piltinn hafa þurft að greiða fyrir ökutíma eða aðra kennslu og hafi pilturinn sagst vinna fyrir henni með því að ferja skellinöðrur fyrir ákærða og annað þess háttar tengt kennslunni. Varðandi utanferðirnar kvaðst hann hafa spurt ákærða hvort eitthvað lægi þar á bak við en hann hefði þvertekið fyrir það. Samskiptum ákærða við fjölskylduna lauk mjög skyndilega þegar ákærði sagðist hafa keypt húsnæði og ekki lengur þurfa að leigja bílskúr með þeim hjónum. Þetta hefði verið um svipað leyti og A lauk bílprófi.
F, móðir A, bar að hann hefði sjálfur fengið kennara til að kenna sér á skellinöðru og síðar á bíl. Þetta hefði verið með samþykki foreldranna. Í tengslum við nám piltsins hefi ákærði komist í kynni við þau E. Hún kvaðst hafa undrast boð ákærða um utanfarirnar og hefði E spurt hann hvort eitthvað byggi undir og hefði hann neitað því. Samskiptunum við ákærða lauk mjög snögglega með því að hann hætti að hafa samband við fjölskylduna eftir að þau hættu að vera með sameiginlegt húsnæði fyrir hjól og bíla.
B bar að hann hefði kynnst ákærða þegar hann ákvað að taka skellinöðrupróf sumarið 1996 þegar hann var að verða 15 ára. Hann kvaðst hafa leitað til ákærða vegna þess að gott orð fór af honum og hafi foreldrar sínir vitað af því. Pilturinn kvað ákærða hafa lagt próf fyrir nemendur og ef þeir svöruðu rangt áttu þeir að fara úr að ofan. Taldi hann að ákærði hefði þannig valið þá úr hópi nemenda sem líklegir væru til fylgilags við hann. Það hefði verið eftir einn svona tíma sem ákærði hefði spurt sig hvort hann vildi vinna fyrir sig. Launin áttu að vera frítt bílpróf. Eftir þetta fór B að aka bíl ákærða. Eftir ökutíma var svo farið heim til ákærða og þar lagði hann próf fyrir piltinn og fyrir hvert rangt svar átti hann að fara úr einni flík. Þetta endaði iðulega með því að hann var orðinn nakinn. Þá var farið inn í herbergi þar sem ákærði þreifaði eftir púlsi á piltinum eins og hann sagði gert í slökkviliðinu en þar vann ákærði þá. Svona hafði þetta gengið fyrir sig í hverri viku í þrjá til fimm mánuði en þá bað ákærði um að fá að fróa honum og greiddi honum eitt þúsund krónur fyrir hvert skipti. Hann kvað ákærða hafa þá haft það vald yfir sér að hann hafði ekki getað sagt nei. Pilturinn kvað ákærða hafa byrjað að fróa honum í ársbyrjun 1997 og gert það að jafnaði einu sinni í viku. Þessu lauk svo þegar hann tók bílprófið, en þá fannst honum hann ekki lengur eins háður ákærða og áður. Pilturinn kvað ákærða hafa í eitt skipti sett fingur sinn í endaþarm hans. Það var um einu ári eftir að ákærði hóf kynferðisleg afskipti af piltinum og sagði hann honum að hann væri að athuga blöðruhálskirtilinn. Í þetta skipti setti ákærði á sig gúmmívettling, smurði hann og stakk fingri inn í endaþarminn. Þetta gerðist heima hjá ákærða. Í eitt skipti reyndi ákærði að fróa honum í bíl á akstri í Heiðmörk. Þá bar pilturinn einnig um að ákærði hefði tekið af sér nektarmyndir. Pilturinn bar að sér hefði liðið illa þegar ákærði var að fróa honum en hann taldi sig ekki geta stöðvað ákærða því að þá væri hann eins og að bregðast honum. Hann bar þó að einu sinni hefði ákærði beðið sig um að fróa sér en hann hefði neitað því.
C bar að hann hefði kynnst ákærða þegar hann var á 16. ári og fór að læra á skellinöðru hjá ákærða. Síðar lærði hann á bíl hjá ákærða. Hann kvað ákærða hafa tekið af sér nektarmyndir í bílskúr í Garðbæ þar sem hann var að hjálpa ákærða. Hann var þá 16 ára. Þá kvað hann ákærða hafa keypt oft fyrir sig áfengi í nokkur skipti. Þetta var sterkt áfengi og greiddi ákærði fyrir það. Áfengiskaupin tengdust ekki myndatökunum. Pilturinn kvað ákærða einu sinni hafa reynt að káfa á sér og sló hann þá ákærða fast í öxlina og ekki reyndi ákærði oftar við hann. Pilturinn kvað sér hafa verið illa við myndatökurnar en hann var hræddur við ákærða sem er stór og stæðilegur maður og ekki viss um hvað hefði gerst ef hann hefði neitað.
D bar að hann hefði kynnst ákærða þegar hann fór að læra á skellinöðru hjá honum. Síðar lærði hann á bíl hjá honum. Kunningsskapur varð með þeim og einn daginn kvaðst ákærði hafa eignast nýja myndavél og bað piltinn að koma með sér upp í Heiðmörk til að prófa vélina. Þar tók ákærði myndir af honum, fyrst í fötum og svo nöktum. Í upphafi var ekki rætt um nektarmyndatökur, það kom upp þegar á staðinn var komið. Hann þorði ekki að segja nei en honum leið illa vegna þessa og vita til þess að ákærði hefði myndirnar undir höndum. Pilturinn kvaðst hafa verið 15 að verða 16 ára þegar þetta gerðist og þetta gerðist bara í eitt skipti.
IV
Í 1. lið ákærunnar er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gagnvart A frá hausti 1997 og fram í nóvember 1998 þegar pilturinn var 15 til 17 ára eins og ákærunni var breytt við upphaf málflutnings. Ákærði hefur viðurkennt að hafa fróað honum nokkrum sinnum en ekki í tugi skipta eins og í ákæru segir og pilturinn bar fyrir dómi. Þá hefur ákærði neitað munnmökum. Ekki nýtur annarra gagna við um munnmökin en framburðar piltsins og gegn eindreginni neitun ákærða er ekki komin fram lögfull sönnun fyrir þeim. Verður ákærði sýknaður af því að hafa haft munnmök við piltinn. Þegar litið er til þess hversu lengi kynferðisleg afskipti ákærða af piltinum vörðu og framburðar hans fyrir dómi, sem dómurinn metur trúverðugan, er hins vegar ekki óvarlegt að slá því föstu að ákærði hafi fróað honum í tugi skipta eins og hann er ákærður fyrir.
Í 2. lið ákærunnar er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gagnvart B frá áramótum 1996/1997 og fram í nóvember 1998 þegar pilturinn var 15 til 17 ára eins og ákærunni var breytt við upphaf málflutnings. Ákærði hefur viðurkennt að hafa fróað honum nokkrum sinnum en ekki að jafnaði einu sinni í viku á tímabilinu eins og í ákæru segir og pilturinn bar fyrir dómi. Þá hefur ákærði neitað að hafa sett fingur í endaþarm piltsins. Um það atriði nýtur ekki annarra sönnunargagna en framburðar piltsins og gegn eindreginni neitun ákærða telst það ósannað og verður ákærði sýknaður hvað það varðar. Þegar litið er til þess hversu lengi kynferðisleg afskipti ákærða af piltinum vörðu og framburðar hans fyrir dómi, sem dómurinn metur trúverðugan, er hins vegar ekki óvarlegt að slá því föstu að ákærði hafi fróað honum eins og honum er gefið sök í ákæru.
Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir í framangreindum liðum eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði hefur játað að hafa tekið myndir af C í tvö til þrjú skipti en neitað að hafa keypt áfengi fyrir hann. Með játningu ákærða sem styðst við framburð piltsins og myndir, sem hald var lagt á, er sannað að hann tók myndir af piltinum í tvö til þrjú skipti. Gegn neitun ákærða er ósannað að skiptin hafi verið fleiri. Gegn neitun hans er einnig ósannað að hann hafi keypt áfengi fyrir piltinn, enda styðst framburður hans um það ekki við önnur gögn en framburð piltsins og verður ákærði því sýknaður af ákærunni hvað þetta varðar.
Brot ákærða samkvæmt þessum lið varðar við 209. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað á sig sakir samkvæmt 4. ákærulið og styðst sú játning við önnur gögn málsins. Hann verður því sakfelldur fyrir það sem hann er ákærður fyrir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa í huga að hann var kennari piltanna við ökuskóla og hafði verið trúað fyrir þeim til kennslu. Breytir engu um þá niðurstöðu hvort þeir sjálfir leituðu sér skólavistar eða forráðamenn þeirra. Hafa verður í huga að ákærði virðist hafa leitað að piltum úr hópi nemenda til að vingast við og síðan haft kynferðislegt samneyti við þá sem hann náði tökum á. Þá ber að líta til þess að brotin sem getur í 1. og 2. lið ákæru stóðu í langan tíma eins og rakið var. Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Refsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfileg fangelsi í 3 ár.
Krafa um upptöku hefur hvorki sætt andmælum né athugasemdum og verður því orðið við henni eins og nánar greinir í dómsorði.
Piltarnir fjórir gera skaðabótakröfu á hendur ákærða. Með vísun til 26. gr. skaðabótalaga og þess sem að framan segir um ákvörðun refsingar ákærða verður orðið við kröfunum. Brot ákærða gagnvart A og B stóðu lengi yfir og var greinilegt þegar þeir gáfu skýrslu að þessi reynsla hafði reynst þeim mjög þungbær. Bætur til hvors þeirra eru hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Brot ákærða gagnvart C og D voru ekki eins alvarleg og verða bætur til hvors þeirra ákveðnar 400.000 krónur. Bætur til allra skulu bera vexti eins og segir í dómsorði.
Ákærði skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns Helga Jóhannessonar hrl., 747.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá skal hann greiða þóknun réttargæslumanns allra brotaþola Ásu Ólafsdóttur hrl., 515.528 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.
Héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Allan Vagn Magnússon og Sigríður Ólafsdóttir kváðu upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Haukur Helgason, sæti fangelsi í 3 ár.
Ákærði greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til 19. desember 2007, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til 19. desember 2007, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní 2003 til 19. desember 2007, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1999 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Upptækt til ríkissjóðs skal vera: Myndaalbúm með 83 ljósmyndum, 87 ljósmyndir sem framkallaðar voru af filmum, Compact Flash minniskort úr myndavél með 194 ljósmyndum, sem ákærði eyddi af kortinu á árinu 2006 en unnt var að endurheimta, og átta geisladiskar með 3440 ljósmyndir.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Helga Jóhannessonar hrl., 747.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hrl., 515.528 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.