Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2013


Lykilorð

  • Ökutæki
  • Slysatrygging ökumanns
  • Húftrygging
  • Stórkostlegt gáleysi


                                     

Fimmtudaginn 3. október 2013.

Nr. 44/2013.

Jón Ólafsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

Ökutæki. Slysatrygging ökumanns. Húftrygging. Stórkostlegt gáleysi.

J höfðaði mál gegn V hf. og krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til bóta úr slysa- og húftryggingum J hjá V hf. vegna tjóns sem J varð fyrir í umferðarslysi. J hafði áður verið sakfelldur í Hæstarétti fyrir líkamsmeiðingu af gáleysi og umferðarlagabrot vegna sama slyss. Í þeim dómi hafði verið talið sannað að J hefði keyrt á allt að 109 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði var 50 kílómetrar á klukkustund. Meðal annars af þessum sökum var talið að aksturinn hefði verið mjög háskalegur og að með honum hefði J sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 1. mgr. 90. gr. og  2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og ákvæða í vátryggingarskilmálum V hf. Var V hf. því sýknað af kröfum J.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2013. Hann krefst þess aðallega að viðurkenndur verði réttur sinn til fullra bóta úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar BH-A94 vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í umferðarslysi 28. september 2010. Þá krefst áfrýjandi að viðurkenndur verði réttur sinn til fullra bóta úr kaskótryggingu bifreiðarinnar vegna sama slyss. Til vara krefst hann þess að bótaskylda verði viðurkennd að hluta úr slysatryggingu ökumanns, sem og úr kaskótryggingu bifreiðarinnar. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að réttur áfrýjanda til greiðslna úr slysatryggingu ökumanns og kaskótryggingu bifreiðar verði einungis viðurkenndur að hluta og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Með dómi Hæstaréttar 12. september 2013 í máli nr. 241/2013 var áfrýjandi meðal annars sakfelldur fyrir líkamsmeiðingu af gáleysi og umferðarlagabrot vegna þess umferðarslyss sem hér um ræðir. Samkvæmt þeim dómi var talið sannað að áfrýjandi hafi í umrætt skipti ekið bifreið sinni vestur Bústaðaveg á allt að 109 kílómetra hraða á klukkustund að gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar þar sem hann missti stjórn á henni. Með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er því sannað að áfrýjandi umrætt sinn ekið á meira en tvöföldum leyfðum hámarkshraða sem var 50 kílómetrar á klukkustund. Var aksturinn mjög háskalegur og með honum sýndi áfrýjandi af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 1. mgr. 90. gr., 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og 9. gr. sameiginlegra vátryggingarskilmála stefnda. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jón Ólafsson, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. október sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 24. október 2011, af Jóni Ólafssyni, Kórsölum 3, Kópavogi, á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Aðallega að viðurkenndur verði réttur hans til fullra bóta úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar BH-A94, sem var tryggð hjá stefnda samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi 28. september 2010. Enn fremur krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til fullra bóta úr kaskótryggingu bifreiðarinnar BH-A94 sem tryggð var hjá stefnda á tjónsdegi hinn 28. september 2010.

Til vara krefst stefnandi þess að bótaskylda verði viðurkennd að hluta, bæði úr slysatryggingu ökumanns bifreiðar og úr kaskótryggingu bifreiðarinnar.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því sé þess krafist að málskostnaður beri virðisaukaskatt.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að bótaréttur stefnanda úr slysatryggingu ökumanns og/eða kaskótryggingu verði einungis viðurkenndur að hluta og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar BH-A94 sem lenti í umferðarslysi á mótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar kl. 6:57 að morgni hins 28. september 2010. Í stefnu er því lýst að stefnandi hefði umrætt sinn brotið gegn tollalögum og hafi hann ekið frá tollvörðum sem hafi ætlað að veita honum eftirför. Hér fyrir dóminum kvaðst stefnandi hins vegar ekki hafa orðið var við eftirför af hálfu tollvarða, þótt hann hefði mætt tollvarðabifreið með blikkljósum, og þá kvaðst hann ekki hafa gætt að því hvort honum væri veitt eftirför. Vitnið, Baldur Freyr Óskarsson tollvörður, kvaðst í skýrslu sinni hafa, ásamt öðrum tollverði, veitt stefnanda eftirför frá því stefnandi ók út úr Vatnagörðum og þar til umrætt slys varð. Hefðu þeir fengið tilmæli um eftirförina vegna gruns um að stefnandi væri með ótollskoðaðan varning í bifreið sinni. Fram kemur í stefnu að stefnandi hafði talið sig hafa stungið tollverðina af þegar hann lenti í slysinu.

Í stefnu er því lýst að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi ekið vestur Bústaðaveg en misst stjórn á bifreiðinni við gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar með þeim afleiðingum að bifreiðin skall framan á strætisvagni. Leyfilegur hámarkshraði þar sem áreksturinn varð er 50 km/klst. Óumdeilt er að báðar bifreiðarnar voru með öllu óökufærar eftir áreksturinn. Þá slösuðust bæði bílstjóri strætisvagnsins og stefnandi sjálfur.

Að beiðni tæknideildar lögreglu gerði Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði, rannsókn á ökuhraða bifreiðar stefnanda umrætt sinn. Samkvæmt skýrslu Magnúsar Þórs, dagsettri 29. desember 2010, tók rannsóknin í fyrsta lagi til athugunar á því hver hafi verið ætlaður hraði bifreiðarinnar BH-A94 áður en ökumaður hennar missti stjórn á henni og hún lenti í árekstri við strætisvagn NR-369, í öðru lagi hver hafi verið minnsti mögulegi hraði, sem bifreiðin BH-A94 var á miðað við forsendur málsins og í þriðja lagi hver hafi verið mesti mögulegi hraðinn, sem bifreiðin BH-A94 var á miðað við forsendur málsins. Segir í niðurstöðukafla skýrslunnar að hraðinn hafi verið reiknaður út frá orkubreytingu vegna skriðs, formbreytinga við áreksturinn, skriðs og orkubreytinga vegna núnings í frákasti. Segir síðan að með vísan til framangreindra aðferða og forsendna sé reiknaður hraði bifreiðarinnar BH-A94 eftirfarandi: „- ætlaður hraði hennar er: 94 km/klst – mögulegur lágmarkshraði er: 80 km/klst – mögulegur hámarkshraði er: 109 km/klst“.  

Lögregla aflaði bíltæknirannsóknar vegna bifreiðar stefnanda og liggur hún frammi í málinu. Rannsóknina framkvæmdi fyrirtækið Gnostika ehf. og segir í skýrslu um rannsóknina að Snorri S. Konráðsson hafi unnið hana í september, október og nóvember 2010. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að engar vísbendingar hafi fundist um bilun eða óeðlilegt ástand ökutækisins í aðdraganda slyssins og hafi rannsóknin leitt í ljós að orsök slyssins verði ekki rakin til ástands ökutækisins. Segir jafnframt að öryggisbelti vinstra megin að framan hafi ekki verið í notkun í slysinu, það hafi verið spennt en strengt aftur fyrir sætisbakið og haft í beltalásnum.

Stefnandi var fluttur á sjúkrahús og segir í niðurstöðu framlagðs læknisvottorðs Friðriks E. Yngvasonar, sérfræðings í lyf- og lungnalækningum, dagsettu 14. febrúar 2011: „Eftir árekstur á miklum hraða í jeppabifreið við strætisvagn er sjúklingur með brotáverka á afturtindi 7. hálsliðs án tilfærslu og hann er með svolítið brot niður í endaplötu á 1. brjósklið. Hann er að sjálfsögðu tognaður í kringum þetta og marinn en aðrir áverkar greinast ekki og sjúklingur fær fyrst og fremst verkjastillingu. Horfur ættu að vera góðar.“

Bifreiðin BH-A94 var tryggð hjá stefnda lögboðinni slysatryggingu ökumanns og kaskótryggingu. Stefnandi gerði kröfu um bætur úr slysatryggingu ökumanns og úr kaskótryggingu bifreiðarinnar. Með vísan til skilmála félagsins og ákvæða laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga áskilur félagið sér rétt til þess að losna úr ábyrgð sinni í heild eða að hluta ef vátryggingaratburður verður rakinn til stórkostlegs gáleysis vátryggðs og jafnframt ef afleiðingar slyssins verða meiri en ella vegna stórkostlegs gáleysis stefnanda.

Með vísan til fyrirliggjandi gagna og málsatvika hafnaði stefndi bótaskyldu að öllu leyti og taldi stefnanda hafa fyrirgert rétti sínum til bóta úr kaskótryggingu ökutækisins sem og úr slysatryggingu ökumanns og eiganda samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1997, þ.e. vegna ofsaaksturs í aðdraganda árekstursins.

Í málinu liggur frammi ákæra, dagsett 22. maí 2012 þar sem stefnanda eru m.a. gefnar að sök „líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni BH-A94, of hratt miðað við aðstæður og sýna ekki almenna tillitsemi eða varúð við aksturinn, burt af athafnasvæði Eimskipa við Sundahöfn, austur Vatngarða, upp Sægarða og gegn rauðu ljósi á gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar, austur Sæbraut, inn á Skeiðarvog og yfir brúna við Skeiðarvog og Réttarholtsveg, en á brúnni ók ákærði til vinstri yfir umferðareyju og yfir á öfugan vegarhelming á móti umferð, gegn rauðu umferðarljósi áður en hann fór aftur yfir á réttan vegarhelming við Réttarholtsveg. Af Réttarholtsvegi beygði ákærði til hægri og ók vestur Bústaðaveg, gegn rauðu ljósi á gatnamótum Bústaðavegar og Grensásvegar, og áfram til hægri af Bústaðavegi upp Háaleitisbraut þar sem ákærði missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hann ók upp á umferðareyju sem skilur að akreinar og lenti framan á strætisvagni sem kom úr gagnstæðri átt...Þetta telst varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 4. mgr. 14. gr., 1. mgr. 25. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 36. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.“

II.

Stefnandi kannast við að hafa brotið gegn tollalögum og ekið greitt frá tollvörðum sem ætluðu að veita honum eftirför. Þá viðurkennir hann að hafa stungið tollverðina af og hafi hann talið sig hafa lokið við að hrista þá af sér þegar slysið varð. Stefnandi kveðst ekki hafa ekið á ofsahraða í aðdraganda slyssins og hafnar því að slysið megi rekja til slíks aksturslags þótt mögulegt sé að hann hafi ekið yfir löglegum hámarkshraða. Bendir stefnandi á að samkvæmt lögregluskýrslu hafi meðalhraði bifreiðar hans verið 79,7 km/klst. meðan á akstri stóð og samkvæmt matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í vélaverkfræði, hafi mögulegur lágmarkshraði bifreiðarinnar verið 80 km/klst. þegar hann missti stjórn á henni. Sé því ljóst að stefnandi gat ekki hafa ekið bifreiðinni með slíkum hætti að jafnað verði við stórkostlegt gáleysi.

Vátryggingafélag geti ekki takmarkað ábyrgð sína nema vátryggingaratburði sé valdið af stórkostlegu gáleysi, sbr. ákvæði 90. gr. laga um vátryggingarsamninga. Brot gegn skilmálum, sem einhliða séu samdir af vátryggingafélagi, geti ekki sjálfkrafa skoðast sem stórkostlegt gáleysi. Við gáleysismatið beri að horfa til atriða þegar vátryggingaatburður varð, m.a. hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, aksturslags og aðstæðna og atvika að öðru leyti. Vátryggingafélag beri sönnunarbyrði fyrir stórkostlegu gáleysi.

Hafi stefnandi valdið vátryggingaatburði af stórkostlegu gáleysi, hafi vátryggingafélag heimild til þess að annað hvort lækka bótaábyrgð sína eða fella hana algerlega niður. Vátryggingafélag geti ekki tekið ákvörðun þar um óbundið og án hliðsjónar af málsatvikum öllum, á þeirri stundu sem slys varð og með hliðsjón af því tjóni sem varð.

Stefnandi hafnar því að hann hafi sýnt af sér nokkurs konar eigin sök eða stórkostlegt gáleysi sem réttlæti að bætur hans séu felldar niður. Við mat á meintu gáleysi stefnanda verði að taka mið af heildaraðstæðum. Á slysstað sé hámarkshraði bifreiðar 50 km/klst. Stefnandi hafnar því alfarið að hafa ekið bifreiðinni á ofsahraða, enda bendi ekkert til þess. Það eitt að aka yfir leyfðum hámarkshraða á greiðfærri umferðarleið flokkist ekki sem stórkostlegt gáleysi.

Af hálfu stefnanda er aðallega á því byggt, að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda á grundvelli slysatryggingar ökumanns sem og úr kaskótryggingu bifreiðar en óumdeilt sé að stefnandi slasaðist við notkun bifreiðar í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og að bifreið hans skemmdist verulega. Beri því að viðurkenna að tjónþoli eigi rétt á fullum bótum úr slysatryggingu ökumanns og kaskótryggingu bifreiðar.

Varakröfu sína byggir stefndi í meginatriðum á sömu málsástæðum og aðalkröfu sína. Verði talið að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sé stefnda hins vegar ekki heimilt að fella niður bætur til stefnanda að öllu leyti. Horfa beri á heildaraðstæður og ljóst sé að stefnandi hafi orðið fyrir talsverðu tjóni bæði persónulegu og fjárhagslegu. Aðstæður á vettvangi hafi verið góðar og þá hafi stefnandi ekki sýnt af sér stórfellt aðgæsluleysi við sjálfan aksturinn. Beri því að dæma honum bætur að hluta.

Stefnandi byggir kröfur sína á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, meginreglum skaðabótaréttar og lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Kröfur um málskostnað byggja á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

III.

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi valdið umræddum árekstri með háttsemi sem telja verði stórkostlegt gáleysi þannig að ábyrgð stefnda á grundvelli kaskótryggingar ökutækis sem og lögboðinnar slysatryggingar ökumanns og eiganda samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi fallið niður með vísan til 3. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og 9. gr. vátryggingarskilmála stefnda nr. YY10 sem bæði vátryggingarskilmálar BA10 og BK10 vísi til.

Gögn málsins beri með sér að stefnandi hafi ekið á miklum hraða allt frá því eftirför tollgæslunnar hófst hjá hafnarsvæði Eimskipa í Reykjavík og þar til hann rakst á strætisvagninn með fyrrgreindum afleiðingum. Stefnandi hafi ekið umrædda leið á næstum 80 km hraða á klst. að meðaltali og oft farið langt yfir löglegan hámarkshraða. Þá hafi ætlaður hraði bifreiðar stefnanda þegar hann missti stjórn á henni verið á bilinu 80-109 km/klst. samkvæmt skýrslu prófessors í vélaverkfræði en leyfilegur hármarkshraði á slysstað sé 50 km/klst. og stefnandi hafi verið í þann mund að beygja inn Háaleitisbraut þegar hann missir stjórn á bifreið sinni. Við þessar aðstæður sé ljóst að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að aka á fyrrgreindum hraða. Þá beri ummerki á bifreið og vettvangi öllum með sér að stefnandi hafi ekið á ofsahraða er hann missti stjórn á bifreiðinni. Við sakarmat verði einnig að líta til þess, a.m.k. hvað slystryggingu ökumanns varðar, að stefnandi hafði ekki spennt öryggisbelti og hafi tjón hans af þeim sökum því orðið meira en ella.

Stefnandi hafi jafnframt sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann reyndi að stinga bifreið tollgæslunnar af eftir að hafa hundsað merki hennar um að stöðva bifreið sína og ekið mjög glæfralega, m.a. yfir umferðareyjar og gegn rauðu ljósi. Við sakarmatið verði að líta til atvikanna í heild sinni. Öll gögn málsins bendi eindregið til þess að umrætt slys megi rekja til ofsaaksturs stefnanda við aðstæður sem leyfðu ekki slíkan akstur og séu yfirlýsingar stefnanda um annað því marklausar með öllu.

Vegna fullyrðingar stefnanda í stefnu um að lögregla hafi ekki veitt sér eftirför í umrætt sinn, bendir stefndi á að tollyfirvöld fari með tollgæsluvald að lögum en í því felist heimild til þess að beita úrræðum samkvæmt XXI. kafla tollalaga til að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem tollstjóri ber ábyrgð á að framfylgja, sbr. 146. gr. laganna. Hafi tollyfirvöld og lögregla því sambærilegar heimildir samkvæmt tollalögum í málum sem heyra undir tollalögin.

Stefndi vísar til þess að við gáleysismatið beri að horfa til atriða er vátryggingaratburður varð, m.a. hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, aksturslags og aðstæðna og atvika að öðru leyti. Stefnandi hafi með aksturslagi sínu og hegðun valdið almannahættu og að tilviljun ein hafi ráðið því að ekki urðu alvarlegri slys á öðru fólki en raun bar vitni. Þá hafi stefnandi viðurkennt að ætlunin hafi verið að stinga tollverði af, sem leiði sterkar líkur að því að stefndi hafi ekið mjög hratt og ógætilega, auk þess sem um saknæma hegðun sé að ræða. Við heildstætt mat á aðstæðum eins og ákvæði laga kveði á um, sé augljóst að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að aka hratt og glæfralega undan tollyfirvöldum í því skyni að komast undan með ótollafgreiddar vörur. Sé því sannað að stefnandi hafi valdið slysinu með stórkostlega gálausri hegðun sinni og eigi af þeim sökum ekki rétti til bóta úr hendi stefnda. 

Varakrafa stefnanda byggir á sömu málsástæðum og aðalkrafa. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 losni stefndi úr ábyrgð í heild eða að hluta ef sýnt þykir að stefnandi hafi valdið vátryggingaratburðinum eða alvarleika afleiðinga hans með háttsemi sem telja verði stórkostlegt gáleysi. Jafnframt segi í 2. mgr. 27. gr. sömu laga að hafi stefnandi í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verði stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losni stefndi úr ábyrgð í heild eða að hluta. Samkvæmt 3. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 megi lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá, sem varð fyrir tjóni, var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að hann hafi sökum stórkostlegs gáleysis stefnanda losnað úr ábyrgð í heild en varakröfu sína á því að hann losni úr ábyrgð að hluta.

Um lagarök vísar stefndi til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, sérstaklega 3. mgr. 88. gr. laganna sem og hátternisreglna 36. gr., 37. gr. og 71. gr. laganna. Þá vísar stefndi til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, sérstaklega 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laganna, vátryggingarskilmála sem gilda um lögboðna slysatryggingu ökumanns, umferðarlaga nr. 50/1987 og ólögfestra meginreglna vátrygginga- og skaðabótaréttar. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

                Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort stefnandi njóti réttar til bóta úr slysatryggingu ökumanns og kaskótryggingu bifreiðar sinnar hjá stefnda eða hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn og eigi því að bera tjón sitt sjálfur, að öllu leyti eða að hluta samkvæmt 9. gr. umræddrar vátryggingar, 3. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

                Í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, segir: „Hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losnar félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Við mat á ábyrgð félagsins skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.“

                Bæði skilmálar slysatryggingar og kaskótryggingar stefnanda hjá stefnda vísa til sameiginlegra skilmála stefnda, svonefndra vátryggingarskilmála nr. YY10. Þar segir í 9. gr.: „Ef vátryggingaratburður verður rakinn til stórkostlegs gáleysis vátryggðs losnar félagið úr ábyrgð sinni í heild eða að hluta, nema hann hafi ekki vegna aldurs eða andlegs ástands gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.“ Síðar í ákvæðinu segir jafnframt: „Við mat á ábyrgð félagsins skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.“  

                Fram kemur í framlagðri lögregluskýrslu um umrætt atvik að hámarkshraði þar sem áreksturinn varð er 50 km á klst. Stefnandi kvaðst í skýrslu sinni hér fyrir dóminum hafa verið á um það bil 60 km hraða á klst. þegar hann var kominn að gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar en telur sig hafa verið á milli 50 og 60 km hraða á klst. þegar hann beygði af Bústaðavegi inn á Háaleitisbraut og missti stjórn á bifreið sinni. Áður er rakin niðurstaða ökuhraðarannsóknar Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í vélaverkfræði, sem unnin var fyrir lögregluna. Þar kemur fram að ætlaður hraði bifreiðar stefnanda umrætt sinn er talinn hafa verið 94 km á klst. en mögulegur lágmarkshraði hafi verið 80 km á klst. og mögulegur hámarkshraði er talinn hafa verið 109 km á klst. Þar segir jafnframt að þeir þættir, sem ekki hafi verið tekið tillit til í útreikningunum, valdi því að raunverulegur hraði sé meiri en útreiknaður hraði. Verður að leggja skýrslu Magnúsar Þórs Jónssonar til grundvallar, enda ekkert fram komið í málinu sem rýrir sönnunargildi hennar. Þá kom fram í skýrslu Baldurs Freys Óskarssonar tollvarðar að þegar hann veitti bifreið stefnanda eftirför sem leið lá vestur Bústaðaveg, ásamt öðrum tollverði, hafi hraði bifreiðar þeirra verið um það bil 135 km/klst. en allt að einu hafi dregið í sundur milli bifreiðar þeirra og bifreiðar stefnanda. Verður því lagt til grundvallar í máli þessu að stefnandi hafi umrætt sinn ekið bifreið sinni á að minnsta kosti 80 km hraða á klst. og allt að 94 km hraða á klst. þegar slysið varð. 

                Í málinu liggja frammi myndir tæknideildar lögreglu sem teknar voru á vettvangi í kjölfar slyssins. Þar sést hvar hjólför bifreiðar stefnanda liggja beint yfir gangbraut á gatnamótunum og þaðan yfir umferðareyju út á akbrautina og yfir umferðareyju, sem staðsett er milli akbrauta Háaleitisbrautar, og þaðan inn á vestari akbrautina sem ætluð er umferð til suðurs. Er ekki að finna í gögnum málsins vísbendingar um að bifreiðinni hafi verið ekið með vinstri framhjólið utan í kantstein í beygjunni áður en hún fór yfir umferðareyjuna við gatnamótin, eins og stefnandi heldur fram.

Bifreið stefnanda lenti framan á strætisvagni, sem ók til suðurs eftir Háaleitisbraut, og er í skýrslu lögreglu haft eftir bílstjóra strætisvagnsins að áreksturinn hafi verið „kröftugur“. Kom fram í skýrslu stefnanda hér fyrir dóminum að hann hefði ekki þorað að bremsa af ótta við að bifreiðin ylti. Í málinu liggur frammi læknisvottorð þar sem fram kemur að stefnandi hafi við áreksturinn hlotið brotáverka á afturtindi 7. hálsliðs án tilfærslu, auk tognunar og mars. Þá liggur fyrir að bílstjóri strætisvagnsins kenndi sér meins í mjöðm og höfði og var fluttur á slysadeild. Má af framangreindu ráða að áreksturinn hafi verið allharður og að hraði bifreiðar stefnanda hafi enn verið mikill þegar stefnandi missti stjórn á bifreiðinni þegar hann kom í beygjuna inn á Háaleitisbraut. Fyrr er rakin niðurstaða bíltæknirannsóknar, sem unnin var í kjölfar slyssins, um að engar vísbendingar hafi fundist um bilun eða óeðlilegt ástand ökutækisins í aðdraganda slyssins og að slysið verði ekki rakið til þess.

                Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að umrætt slys verði rakið til þess að ákærði ók yfir leyfilegum hámarkshraða og af svo miklu aðgæsluleysi að hann missti stjórn á bifreið sinni. Þegar jafnframt er litið til þess að stefnandi ók með þessum hætti á gatnamótum í þéttbýli að morgni til þar sem bæði er gangbraut og von á umferð bæði akandi og gangandi vegfarenda, verður að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn. Leiðir sú niðurstaða til þess samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og 9. gr. sameiginlegra skilmála stefnda, sem gilda bæði um slysatryggingu og kaskótryggingu stefnanda hjá stefnda, að réttur stefnanda til bóta úr báðum tryggingum getur sætt takmörkunum. Þegar litið er til alls framangreinds og þess, sem fram kom í skýrslu Baldurs Freys Óskarssonar tollvarðar og öðrum gögnum málsins um aðgæsluleysi stefnanda við aksturinn í aðdraganda árekstursins, verður ekki séð að stefnandi eigi sér sérstakar málsbætur í máli þessu, sem leitt geti til þess að honum beri að dæma vátryggingabætur að hluta. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

                Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð : 

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Ólafssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.