Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Þriðjudaginn 16. september 2014.

Nr. 540/2014.

 

Björg Júlíana Árnadóttir og

Kristján Ólafsson

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Hafdísi Ingu Gísladóttur

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

B og K höfðuðu mál gegn H og kröfðust viðurkenningar á rétti þeirra til afsláttar af kaupverði tiltekinnar fasteignar sem og til að skuldajafna ógreiddum eftirstöðvum kaupverðsins við afsláttarkröfuna, sem var sömu fjárhæðar. Þá kröfðust þau þess að H gæfi út afsal til þeirra fyrir fasteigninni að viðlögðum dagsektum auk þess sem þau kröfðust málskostnaðar. Við þingfestingu málsins í héraði lögðu B og K fram bókun þar sem þau lýstu yfir að þar sem H hefði orðið við kröfum þeirra um afslátt, skuldajöfnuð og útgáfu afsals féllu þau frá þeim kröfum en hins vegar héldu þau kröfu sinni um málskostnað til streitu. Laut deila aðila að því hvort B og K hefðu fengið afsalið undirritað af H áður en henni var birt stefna í málinu. Héraðsdómur taldi B og K ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málskostnaðarkröfu sína og vísaði málinu frá héraðsdómi. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að B og K hefðu lagt fram gögn um að umslag með afsalinu hefði verið póstlagt degi eftir að H hefði verið birt stefna í málinu og kváðust þau hafa fengið það afhent degi síðar. Hefði H ekki lagt fram gögn um með hvaða hætti hún hefði sent afsalið til B og K, en samkvæmt 16. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup bæri hún sönnunarbyrði fyrir því að hún hefði sent það með sannlegum hætti sem gilt þætti að nota. Þá sönnunarbyrði hefði hún ekki axlað. Var því lagt til grundvallar að B og K hefðu ekki fengið afsalið í hendur fyrr en tveimur dögum eftir að málið var höfðað. Hefði þeim að lögum verið rétt að halda málskostnaðarkröfu sinni til streitu þótt þau hefðu við þingfestingu málsins fallið frá öðrum kröfum sínum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júlí 2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar. 

I

Sóknaraðilar keyptu 27. mars 2013 fasteignina Frjóakur 4 í Garðabæ af varnaraðila. Umsamið kaupverð var 99.500.000 krónur og skyldi það greiðast með þremur greiðslum, þeirri fyrstu 66.500.000 krónur við undirritun kaupsamnings, næstu við afhendingu 10. maí 2013, 32.000.000 krónur og loks við útgáfu afsals 10. júní 2013, 1.000.000 krónur. Ekki liggur annað fyrir en að sóknaraðilar hafi greitt fyrstu tvær greiðslurnar á gjalddögum þeirra, en þá þriðju greiddu þeir ekki á gjalddaga. Sóknaraðilar halda því fram að fjölmargir gallar hafi komið fram á fasteigninni sem varnaraðili eigi að bera ábyrgð á. Þeir telja að kostnaður við að bæta úr ætluðum göllum sé nálægt 1.500.000 krónur og ákváðu að halda eftir síðustu greiðslunni til tryggingar því að úr ætluðum göllum yrði bætt. Ekki mun hafa náðst samkomulag um þetta. Sóknaraðilar rituðu varnaraðila bréf 4. febrúar 2014 þar sem rakið var að þeir teldu ýmsa galla hafa komið fram á fasteigninni og að kostnaður þeirra vegna úrbóta væri 1.519.939 krónur. Til þess að ljúka málinu væru þeir reiðubúnir til að lýsa því yfir að þeir féllu frá skaðabótakröfu sinni gegn útgáfu afsals af hálfu varnaraðila. Yrði þá ætluð krafa þeirra greidd með skuldajöfnuði við þær 1.000.000 krónur, sem þeir hefðu haldið eftir af kaupverðinu. Með bréfinu sendu sóknaraðilar afsal, sem undirritað var af þeirra hálfu 3. febrúar 2014 og var rétt undirskrift þeirra og dagsetning vottuð af tveimur vitundarvottum. Í bréfinu var þess óskað að varnaraðili undirritaði afsalið af sinni hálfu og sendi það til baka innan tíu daga. Sóknaraðilar hafa lagt fram gögn sem þeir segja að sýni að varnaraðili hafi sótt bréfið á pósthús 11. febrúar 2014. Sóknaraðilar kveðast ekki hafa fengið afsalið til baka undirritað af varnaraðila innan þess tíu daga frests er áður greinir. Þeir höfðuðu mál fyrir héraðsdómi með birtingu stefnu 4. mars 2014. Þar var krafist viðurkenningar á rétti þeirra til afsláttar af kaupverði fasteignarinnar að fjárhæð 1.000.000 krónur og jafnframt að viðurkenndur yrði réttur þeirra til að skuldajafna ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs að sömu fjárhæð við afsláttarkröfuna. Þá kröfðust þeir jafnframt að varnaraðili gæfi út afsal til þeirra fyrir fasteigninni að viðlögðum dagsektum auk þess sem þeir kröfðust málskostnaðar. Varnaraðili sendi sóknaraðilum afsalið undirritað af sinni hálfu en ágreiningur er með aðilum um hvenær það var sent og móttekið af sóknaraðilum. Þeir hafa lagt fram gögn um að umslagið með afsalinu hafi verið póstlagt 5. mars 2014, einum degi eftir að varnaraðila var birt stefna í málinu. Þeir kveðast hafa fengið það afhent 6. sama mánaðar. Varnaraðili mótmælir þessu, en hefur ekki lagt fram gögn eða fært með öðrum hætti sönnur að því hvenær hún sendi umslagið með afsalinu eða hvenær það var afhent sóknaraðilum.

Málið var þingfest í héraði 12. mars 2014 og var þá meðal annars lögð fram bókun af hálfu sóknaraðila þar sem lýst var yfir að þar sem varnaraðili hefði orðið við kröfum þeirra um afslátt, skuldajöfnuð og útgáfu afsals féllu þeir frá þeim kröfum en héldu málskostnaðarkröfunni til streitu. Varnaraðili krafðist frávísunar málsins og féllst héraðsdómur á þá kröfu.

II

Kröfu sínar um frávísun málsins frá Hæstarétti reisir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé um að þeir fá greiddan málskostnað að fjárhæð 682.414 krónur. Samkvæmt 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 verði reglum þeirra laga um áfrýjunarmál beitt um kærumál eftir því sem við geti átt, enda séu ekki sérreglur um þau mál. Þar sem ekki sé sérstaklega fjallað um málskotsfjárhæð í XXIV. kafla laga 91/1991 gildi ákvæði 1. mgr. 152. gr. laganna um áfrýjunarfjárhæð. Samkvæmt því og auglýsingu innanríkisráðherra 5. desember 2013 sé áfrýjunarfjárhæð 761.423 krónur frá 1. janúar 2014 og gildi hún út það ár. Þar sem fjárhæð kröfu sóknaraðila nái ekki áfrýjunarfjárhæð bresti skilyrði til kæru í málinu og sé óhjákvæmilegt að vísa því frá Hæstarétti.

Eins og ítrekað hefur verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur skilyrði 1. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 verið beitt um kæru til Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 150. gr. laganna. Má um þetta í dæmaskyni vísa til dóma réttarins 19. maí 1994 í máli nr. 176/1994, sem birtur er á síðu 1101 í dómasafni réttarins það ár og 7. maí 2013 í máli nr. 290/2013. Þessi regla á þó ekki við í þeim tilvikum sem máli er vísað frá héraðsdómi. Í þeim tilvikum verður ekki gerð krafa um að hagsmunir nái áfrýjunarfjárhæð, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 9. september 2014 í máli nr. 573/2014. Samkvæmt framansögðu verður kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti hafnað.

III

Að efni til deila aðilar einkum um hvort sóknaraðilar hafi fengið í hendur undirritað afsal frá varnaraðila áður en henni var birt stefna í málinu. Afsal fyrir fasteign er að jafnaði einhliða yfirlýsing seljanda um fyrirvaralausa yfirfærslu eignarréttar að hinni seldu fasteign til kaupanda. Skjalið er eins konar kvittun til kaupanda og af því leiðir að seljandi telur að kaupandi hafi efnt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt kaupsamningi. Afsal varnaraðila var því einhliða yfirlýsing hennar um fyrirvaralausa yfirfærslu eignarréttar til sóknaraðila að fasteigninni Frjóakri 4 í Garðabæ. Afsalið fól jafnframt í sér að varnaraðili hygðist una við þá ákvörðun sóknaraðila að þeir héldu eftir hluta kaupverðs, enda segir í afsalinu að kaupverðið sé að fullu greitt. Er þetta í samræmi við ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup.

Í bréfi sóknaraðila 4. febrúar 2014 var áskorun til varnaraðila um að samþykkja útgáfu afsals og senda það innan tiltekins frests sem var tilgreindur tíu dagar. Áskorun þessi er í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fyrir liggur að varnaraðili samþykkti tilboð sóknaraðila og sendi afsalið af sinni hálfu. Hún heldur því fram að ósannað sé að sóknaraðilum hafi ekki verið kunnugt um útgáfu hennar á afsali er þeir höfðuðu málið 4. mars 2014. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1936 er samþykki bindandi þegar það er komið til móttakanda. Í 16. gr. laga nr. 40/2002 eru fyrirmæli um tilkynningar kaupanda og seljanda í fasteignakaupum. Samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar skal senda tilkynningar samkvæmt lögunum með sannanlegum hætti, sem gilt þykir að nota við þær aðstæður sem um ræðir. Sé það gert ber sendandi ekki ábyrgð þótt sendingu seinki eða mistök verði við hana svo hún komist ekki til viðtakanda, eða ekki á réttum tíma. Varnaraðili hefur ekki lagt fram gögn um með hvaða hætti hún sendi afsalið til sóknaraðila. Samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði ber hún sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi sent það með sannlegum hætti, sem gilt þykir að nota. Þá sönnunarbyrði hefur hún ekki axlað. Verður því að leggja til grundvallar staðhæfingar sóknaraðila, sem þeir hafa stutt nokkrum gögnum, um að þeir hafi ekki fengið afsalið í hendur fyrr en 6. mars 2014, tveimur dögum eftir að málið var höfðað. Þeim var að lögum rétt að halda málskostnaðarkröfu sinni til streitu þótt þeir féllu við þingfestingu málsins frá öðrum kröfum sínum. Verður því að hafna forsendum og niðurstöðu héraðsdóms um að þeir hafi ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málskostnaðarkröfu sína.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Ákvörðun um málskostnað í héraði bíður efnisdóms.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Varnaraðili, Hafdís Inga Gísladóttir, greiði sóknaraðilum, Björgu Júlíönu Árnadóttur og Kristjáni Ólafssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júlí 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. júní sl., höfðuðu stefnendur, Björg Júlíana Árnadóttir og Kristján Ólafsson, bæði til  heimilis að Frjóakri 4, Garðabæ, hinn 4. mars 2014, gegn stefndu, Hafdísi Ingu Gísladóttur, Asparhvarfi 6, Kópavogi.

Dómkröfur stefnenda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnendum málskostnað. Þá krefjast stefnendur þess jafnframt að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað.

Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefnda sýknu af öllum kröfum stefnenda, en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnenda.

I

Mál þetta er til komið vegna kaupa stefnenda á fasteigninni Frjóakri 4 í Garðabæ af stefndu. Samkvæmt kaupsamningi aðila frá 27. mars 2013 var kaupverð eignarinnar 99.500.000 krónur.

Stefndu greiddu ekki lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningnum, að fjárhæð 1.000.000 króna, á umsömdum degi, þ.e. hinn 10. júní 2013. Héldu stefnendur greiðslunni eftir með vísan til þess að töluvert skorti á að hin keypta fasteign uppfyllti áskilda kosti. Þrátt fyrir að stefnda væri því ekki sammála fór svo að hún gaf út afsal til handa stefnendum fyrir fasteigninni. Afsalið liggur frammi í málinu og er það dagsett 3. febrúar 2014.

Svo sem fyrr var rakið höfðuðu stefnendur mál þetta 4. mars 2014. Upphaflegar dómkröfur stefnenda í málinu voru þær, auk áðurgreindrar kröfu um málskostnað, að viðurkennd yrði krafa stefnenda um afslátt úr hendi stefndu af kaupverði fasteignarinnar að Frjóakri 4 í Garðabæ, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 27. mars 2013, að fjárhæð 1.000.000 króna, og jafnframt að viðurkenndur yrði réttur stefnenda til að skuldajafna ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs eignarinnar að sömu fjárhæð við afsláttinn. Enn fremur kröfðust stefnendur þess að stefnda yrði dæmd til útgáfu afsals fyrir eigninni að viðlögðum dagsektum, svo sem nánar er rakið í stefnu.

Við þingfestingu málsins 12. mars sl. lögðu stefnendur fram bókun þess efnis að þeir féllu frá kröfum sínum á hendur stefndu í málinu, að málskostnaðarkröfu undanskilinni. Um efni bókunar stefnenda vísast að öðru leyti til II. kafla dómsins.

Stefnda lagði fram greinargerð í málinu í þinghaldi 23. apríl 2014 þar sem fram koma meðal annars áðurtaldar dómkröfur hennar. Málið var næst tekið fyrir 16. maí sl., en í því þinghaldi var öflun skriflegra gagna lýst lokið og tími aðalmeðferðar ákveðinn, sbr. meðal annars 2. málslið 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðalmeðferð í málinu fór síðan fram 18. júní sl. Voru skýrslutökur engar við aðalmeðferðina og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.

II

Stefnendur segja frávísunarkröfu stefndu haldlausa. Þá eigi ákvæði  18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki við í málinu, enda sé hér ekki um óskipt réttindi að ræða.

Stefnendur benda á að stefna í málinu hafi samkvæmt framlögðu birtingar­vottorði verið löglega birt stefndu þriðjudaginn 4. mars 2014. Daginn eftir birtingu stefnunnar hafi ábyrgðarbréf verið póstlagt af stefndu til lögmanns stefnenda, sem honum hafi borist degi síðar. Ábyrgðarbréfið hafi innihaldið undirritað afsal frá stefndu til stefnenda, en þetta sama afsal hefði stefndu verið sent nokkru áður, eða hinn 4. febrúar 2014, með áskorun um að stefnda ritaði undir afsalið og sendi það stefnendum, einmitt í þeim tilgangi að ekki kæmi til höfðunar þessa dómsmáls. Taka stefnendur sérstaklega fram að þeir hafi verið í þeirri stöðu að fá ekki afsal frá stefndu og þá hafi því skort eignarheimild fyrir hinni keyptu fasteign, Frjóakri 4 í Garðabæ. Af þeim sökum hafi höfðun máls þessa verið nauðsynleg.

Þar sem stefnda hafi, degi eftir höfðun málsins, gefið út afsal fyrir fasteigninni og hún þannig orðið við öllum kröfum stefnenda í stefnu, öðrum en kröfu þeirra um málskostnað, hefðu stefnendur við þingfestingu málsins, sbr. framlagða bókun, fallið frá öllum kröfum í málinu, að málskostnaðarkröfunni undanskilinni, en í niðurlagi bókunar stefnenda í þinghaldi 12. mars sl. segir svo um málskostnaðarkröfuna: „Er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefndu í samræmi við reikning lögmanns stefnenda, dags. 21.03, þ.e. kr. 581.256,- m.vsk. Auk greiðslu á þingfestingargjaldi kr. 30.000,- og vinnu lögmanns frá útgáfu reiknings alls 3 tímar kr. 71.158 m. vsk. Alls kr. 682.414,- m. vsk.“

Stefnendur benda á að þar sem stefnda hafi ekki orðið við kröfum þeirra fyrr en eftir birtingu stefnu hafi þeir orðið fyrir málskostnaði sem stefndu, er fallist hafi á réttmæti málsástæðna stefnenda með athöfnum sínum, beri að bæta þeim. Var af hálfu stefnenda í munnlegum málflutningi í þessu sambandi vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem stefnda hefði í raun tapað málinu.

Við ákvörðun málskostnaðar segja stefnendur enn fremur mega hafa hliðsjón af háu kaupverði fasteignarinnar, er numið hafi 99.500.000 krónum, sem og þess hversu ítarlega greinargerð stefnda hafi séð ástæðu til að leggja fram í málinu þrátt fyrir að hafa með athöfnum sínum fallist á allar aðrar kröfur stefnenda í málinu en málskostnaðarkröfuna.

Til stuðnings kröfum sínum vísa stefnendur sérstaklega til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Stefnda kveður aðalkröfu sína um frávísun í fyrsta lagi byggjast á því að málskostnaðarkrafan beinist in solidum að stefndu og fasteignasölunni Stakfelli ehf. Ekki verði annað ráðið af framlögðum reikningi lögmannsstofu þeirrar sem unnið hafi fyrir stefnendur en hann sé meðal annars til kominn vegna vinnu lögmanns vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi Stakfells ehf. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eigi þeir sem beri óskipta skyldu óskipta aðild að dómsmáli. Sé þeim ekki öllum gefinn kostur á að svara til saka í dómsmáli skuli vísa málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. Að þessu gætu sé óhjákvæmilegt annað en fallast á aðalkröfu stefndu um frávísun málsins.

Í öðru lagi vísar stefnda til þess að stefnendur hafi með framlagðri bókun við þingfestingu málsins fallið frá öllum efnislegum kröfum sínum á hendur stefndu. Þeir hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af málsókn sinni á hendur stefndu, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991, og hafi það raunar legið fyrir við þingfestingu málsins. Einnig af þeim sökum verði að vísa málinu frá dómi.

Í þriðja lagi vísar stefnda, frávísunarkröfu sinni til stuðnings, til þess að skv. a-lið 1. mgr., sbr. 3. mgr., 105. gr. laga nr. 91/991 skuli mál fellt niður með bókun í þingbók ef stefndi hafi innt af hendi skyldu þá sem hann sé krafinn um í málinu. Þrátt fyrir að stefnendum hafi verið ljóst að þeir hefðu ekki lögvarða hagsmuni af málsókn sinni hafi þeir kosið að þingfesta málið í því skyni að ná fram skaðabótakröfu vegna lögfræðikostnaðar sem þeir telji stefndu eiga að greiða in solidum með fasteignasölunni Stakfelli ehf. Sú krafa sé nú sett fram sem málskostnaðarkrafa þótt stefnendur hafi fallið frá efnislegum kröfum í málinu. Hafi þingfesting málsins verið að ófyrirsynju og verði stefnendur að bera alla ábyrgð á þessum málatilbúnaði sínum. Ekki verði leyst úr skaðabótakröfu stefnenda á hendur stefndu og fyrrnefndri fasteignasölu með málskostnaðarkröfu, allra síst á hendur stefndu einni.

Þá hafi stefnendur ekki óskað eftir niðurfellingu málsins og úrskurði um málskostnað, sbr. c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, og verði ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnenda en þeir krefjist sjálfstæðs dóms um málskostnað. Það gangi ekki upp samkvæmt framansögðu. Verði einnig af þessum sökum að fallast á kröfu stefndu um frávísun.

Til stuðnings kröfu sinni um sýknu vísar stefnda til þess að krafa stefnenda um afslátt af kaupverði fasteignarinnar að Frjóakri 4 í Garðabæ hafi verið ólögmæt og óréttmæt. Er í greinargerð stefndu gerð nánari grein fyrir málatilbúnaði hennar að þessu leyti.

Þá vísar stefnda jafnframt til þess að stefnendur hafi ekki átt rétt til útgáfu afsals fyrr en þeir höfðu innt af hendi lokagreiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi aðila. Krafa um útgáfu afsals hafi því verið að ófyrirsynju. Bendir stefnda í því sambandi enn fremur á að stefnendur höfðu þegar látið þinglýsa afsali stefndu er mál þetta var þingfest, en skjalið hafi verið innfært í þinglýsingarbók sýslumanns 7. mars 2014.

Sýknukrafa stefndu byggist jafnframt á því að af hálfu stefnenda hafi því verið lýst yfir, sbr. bréf lögmanns þeirra 4. febrúar 2014, að þeir myndu falla frá kröfum á hendur stefndu gegn því að stefnda gæfi út kvaðalaust afsal til þeirra fyrir eigninni. Hafi stefnda þá þegar verið búin að gefa út afsalið sem stefnendur hafi sjálfir áritað og síðan látið þinglýsa 7. mars sl. samkvæmt áðursögðu.

Með útgáfu afsalsins hafi stefnda, umfram skyldu, tekið tilboði stefnenda. Þar með hafi lokið ágreiningi málsaðila um uppgjör viðskipta vegna fasteignarinnar að Frjóakri 4 í Garðabæ. Stefnendur séu bundnir við umrætt tilboð sitt og verði því sjálfir að bera þann kostnað sem þeir kunni að hafa borið af málinu.

Af hálfu stefndu er enn fremur til þess vísað að skv. 3. málslið 2. mgr. 14. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 skuli aðili kaupsamnings um fasteign greiða kostnað sem kunni að hljótast af því að hann leiti sér aðstoðar annarra sérfræðinga en miðlara við kaupin. Þegar af þeirri ástæðu einni leiði að stefnendur verði að bera allan kostnað af vinnu lögmanns við skaðabóta- og/eða afsláttarkröfu á hendur stefndu og kröfu um skaðabætur úr hendi fasteignasölunnar. Af þessari ástæðu beri einnig að sýkna stefndu af kröfum stefnenda.

Til þrautavara krefst stefnda þess að málskostnaðarkrafa stefnenda verði lækkuð. Vísar stefnda í því sambandi bæði til málatilbúnaðar stefnenda fyrir dómi, sem og þess að krafa þeirra sé að verulegum hluta til komin vegna vinnu lögmanns stefnenda vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi fasteignasölunnar Stakfells ehf. Á þeirri vinnu geti stefnda í öllu falli enga ábyrgð borið. Framangreint kveður stefnda einnig eiga við um þrautavarakröfu hennar að breyttu breytanda.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda meðal annars til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 18. gr., 25. gr., 80. gr. og 105. gr., svo og meginreglna einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Vísar stefnda jafnframt til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir. Enn fremur vísar stefnda til ákvæða laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, einkum 14. gr., 18. gr., 37.-45. gr., 50. gr., 53. gr. og 59.-60. gr. Þá byggist krafa stefndu um málskostnað á 129.-131. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Svo sem áður var rakið höfðuðu stefnendur mál þetta gegn stefndu 4. mars 2014, sbr. framlagt birtingarvottorð stefnuvotts. Upphaflegar dómkröfur stefnenda í málinu voru þær, auk kröfu um málskostnað, sem sett var fram án tilgreiningar á fjárhæð, að viðurkennd yrði krafa stefnenda um afslátt, að fjárhæð 1.000.000 króna, úr hendi stefndu af kaupverði fasteignarinnar að Frjóakri 4 í Garðabæ og jafnframt að viðurkenndur yrði réttur stefnenda til að skuldajafna ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs eignarinnar að sömu fjárhæð við afsláttinn. Enn fremur kröfðust stefnendur þess að stefnda yrði dæmd til útgáfu afsals fyrir eigninni að viðlögðum dagsektum.

Við þingfestingu málsins 12. mars sl. lögðu stefnendur fram bókun þess efnis að þeir féllu frá kröfum sínum á hendur stefndu í málinu, að málskostnaðarkröfu undanskilinni. Samkvæmt bókuninni er á því byggt af hálfu stefnenda að þeim hafi ekki verið kunnugt um útgáfu afsals stefndu við höfðun málsins.

Í málinu liggur frammi ljósrit afsals fyrir fasteigninni að Frjóakri 4 og er það dagsett 3. febrúar 2014. Afsalið er undirritað af málsaðilum öllum. Ekki verður annað ráðið af skjalinu en vottar að „... réttri dagsetningu, undirskrift og yfirlýsingu aðila um fjárræði“ séu „Gunnar Eir“, kt. [...], Einar Gísli Gunnarsson, kt. [...], og lögmaður stefnenda, Atli Már Ingólfsson hdl.

Málatilbúnaður stefnenda byggir á þeirri grundvallarforsendu að stefnendum hafi ekki verið kunnugt um útgáfu afsals stefndu við höfðun máls þessa. Á þessu er byggt af þeirra hálfu þrátt fyrir að afsalið sé dagsett 3. febrúar 2014 samkvæmt áðursögðu og undirritað af öllum fyrrgreindum aðilum. Þessu til sönnunar hafa stefnendur eingöngu lagt fram ljósrit „... af póstlögðu bréfi, dags. 5. mars 2014“, sbr. framlagða skjalaskrá stefnenda. Á því er byggt af hálfu stefnenda að bréf þetta hafi stefnda sent 5. mars 2014 og að bréfið hafi innihaldið títtnefnt afsal stefndu. Ekki verður hins vegar fram hjá því litið að af nefndu ljósriti verður hvorki ráðið hver sendandi bréfsins var né heldur hvert var innihald þess. Að þessu gættu þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að þeim hafi, þrátt fyrir það sem áður segir um dagsetningu og undirritanir á framlögðu afsali, verið ókunnugt um útgáfu þess við höfðun málsins.

Eftir útgáfu afsals var ekki lengur til staðar efnislegur ágreiningur milli aðila varðandi kröfu stefnenda um afslátt af kaupverði fasteignarinnar að Frjóakri 4 í Garðabæ, viðurkenningu á rétti stefnenda til að skuldajafna ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs eignarinnar við afsláttinn og rétt stefnenda til kvaðalauss afsals fyrir eigninni úr hendi stefndu. Höfðu stefnendur því hvorki lögvarða hagsmuni af rekstri dómsmáls um þær kröfur né heldur um málskostnaðarkröfu vegna þess ágreinings á grundvelli XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. tilvísun stefnenda til 130. gr. laganna í stefnu. Að því athuguðu og með vísan til 1. mgr. 25. gr. tilvitnaðra laga verður fallist á kröfu stefndu um frávísun málsins.

Vegna afdrifa málsins, og þar sem ósannað þykir samkvæmt framansögðu að stefnendum hafi verið ókunnugt um útgáfu afsalsins við höfðun máls þessa, ber skv. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að úrskurða stefnendur til að greiða stefndu málskostnað, er hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er sérstaklega litið til þess að varnir stefndu í greinargerð voru að mati dómsins umfangsmeiri en málsatvik, framlögð gögn og málatilbúnaður stefnenda gáfu tilefni til.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur,  Björg Júlía Árnadóttir og Kristján Ólafsson, greiði stefndu, Hafdísi Ingu Gísladóttur, 150.000 krónur í málskostnað.