Hæstiréttur íslands
Mál nr. 75/2014
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Stjórnsýsla
- Meðalhóf
- Skaðabætur
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2014. |
|
Nr. 75/2014.
|
Ólafur Kjartansson (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Verkmenntaskólanum á Akureyri (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Stjórnsýsla. Meðalhóf. Skaðabætur. Miskabætur.
Ó var sagt upp starfi sínu sem kennari hjá V. Var uppsögnin rökstudd með því að skólinn hefði þurft að skera niður í hagræðingarskyni og að Ó fullnægði ekki lengur hæfniskröfum til kennslu í þeim greinum sem hann hefði haft með höndum hjá skólanum. Ó höfðaði í kjölfarið mál gegn V til heimtu bóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Reisti hann kröfu sína meðal annars á því að V hefði við uppsögnina hvorki gætt fyrirmæla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins né meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, auk þess sem óheimilt hefði verið að segja honum upp þar sem hann gegndi stöðu trúnaðarmanns og sem slíkur notið verndar 3. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að þær reglur, sem breytingar á hæfniskröfum V byggðu á, væru almennt orðaðar og gæfu svigrúm til mats á því hvaða hæfniskröfur væru gerðar til kennslu í þeim greinum sem Ó hafði haft með höndum. Var talið að V hefði ekki sýnt fram á að Ó uppfyllti ekki lengur hæfniskröfur í viðkomandi greinum. Þá kom fram að í beinu framhaldi af uppsögn Ó hefði V auglýst stöðu kennara á kennslusviði Ó og ráðið í þá stöðu nokkrum mánuðum síðar. Var talið að í ljósi þeirrar ríku verndar sem Ó hefði notið vegna stöðu sinnar sem trúnaðarmaður hefði V verið rétt að taka til skoðunar hvort komast hefði mátt hjá uppsögn Ó með því að ráða ekki í umrædda stöðu og ná þar með fram því hagræðingarmarkmiði, sem að hefði verið stefnt með uppsögn Ó, og gera viðeigandi ráðstafanir vegna tilfærslu kennslu. V hefði þannig ekki sýnt fram á að því lögmæta markmiði, sem að hefði verið stefnt með uppsögn Ó, hefði ekki verið náð með öðru og vægara móti, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var V því dæmdur til að greiða Ó bætur að álitum vegna fjártjóns hins síðarnefnda. Á hinn bóginn þóttu ekki efni til að dæma V til að greiða Ó miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 80/1993.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. febrúar 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.527.388 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2011 til 15. janúar 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Hinn 17. september 1997 var gefið út leyfisbréf til áfrýjanda fyrir meistaraprófi í vélvirkjun. Með bréfi menntamálaráðherra 8. ágúst 2001 var áfrýjanda veitt leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa sem slíkur hér á landi, sbr. 1. gr. þágildandi laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla. Þar kom fram að sérsvið áfrýjanda væri „faggreinar í vélsmíði.“ Áfrýjandi var í fullu starfi hjá stefnda á árunum 2001 til 2011. Í ótímabundnum ráðningarsamningi 29. maí 2001 milli aðila var kveðið á um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Með bréfi stefnda 28. apríl 2011 var áfrýjanda sagt upp starfi sínu frá og með 1. ágúst sama ár. Um ástæðu uppsagnarinnar, sem áfrýjandi óskaði 10. maí 2011 eftir að yrði rökstudd, var í bréfi skólameistara stefnda sama dag vísað til þess að hún væri í hagræðingarskyni vegna niðurskurðar fjárveitinga til stefnda, en honum hefði verið gert að spara um 100.000.000 krónur árin 2010 og 2011. Þá hafi kennslumagn í ákveðnum greinum minnkað umtalsvert sem og nemendum í einstökum deildum. Einnig var tilgreint að frá því að áfrýjandi var ráðinn til starfa hafi verið lögð áhersla á að kennarar á málmsmíðabraut væru jafnframt með 4. stigs vélstjórnarréttindi. Enn fremur kom þar fram að áfrýjandi uppfyllti ekki skilyrði svonefndra IMO reglna Siglingamálastofnunar Íslands og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um menntun og færni til þessa að mega kenna vélstjórnargreinar, sem veitt geti réttindi til stjórnar véla skipa sem sigla á alþjóðlegu hafsvæði. Stæði áfrýjandi ekki faglega undir framangreindum kröfum nema að takmörkuðu leyti, þar sem hann væri aðeins með 2. stig vélstjórnar. Að lokum var vísað til þess að eftirspurn eftir námi í vélvirkjun væri nánast engin, sérstakir námsáfangar, sem áfrýjandi hefði kennt, væru ekki lengur í boði og minnkað svigrúm væri til kennslu í tilteknum áföngum á almennri braut. Á sama tíma var þremur öðrum kennurum hjá stefnda sagt upp störfum í hagræðingarskyni, en þeir störfuðu á öðrum kennslusviðum en áfrýjandi.
II
Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ber forstöðumaður ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar, sem hann stýrir, sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ef út af þessu er brugðið er ráðherra eftir sömu málsgrein heimilt að áminna forstöðumanninn. Forstöðumaður stefnda komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að fækka starfsmönnum til að ná fram hagræðingu í rekstri vegna niðurskurðar á fjárveitingum. Verður að játa forstöðumönnum rúmar heimildir við þær aðstæður. Sætir slík ákvörðun ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir, sem gripið er til, þurfa að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Í lögum nr. 70/1996 eru ekki reglur um hvað skuli ráða vali forstöðumanns á starfsmanni, einum eða fleiri, sem segja skal upp við þær aðstæður sem hér um ræðir. Þótt ákvörðun um þetta ráðist þannig að meginstefnu af mati stefnda eru valinu settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar. Ein þeirra er réttmætisreglan, en samkvæmt henni verða stjórnvöld ávallt að reisa matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Í því tilviki að starfsmönnum er fækkað í hagræðingarskyni þarf að leggja mat á hæfni starfsmanns, sem ráðgert er að segja upp, í samanburði við aðra starfsmenn, meðal annars með tilliti til þekkingar og starfsreynslu á viðkomandi sviði. Þá þurfa forstöðumenn að gæta að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar með því að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til við töku hinnar íþyngjandi ákvörðunar. Að auki er til þess að líta að áfrýjandi gegndi á þeim tíma sem honum var sagt upp starfi hlutverki öryggistrúnaðarmanns og naut samkvæmt því réttarverndar 3. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. og 11. gr. laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar er kveðið á um að trúnaðarmaður skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni þegar til uppsagnar kemur vegna fækkunar starfsmanna. Þurfa því að vera ríkar ástæður fyrir því að segja trúnaðarmanni upp starfi við þessar aðstæður.
Eins og áður greinir var áfrýjandi eini kennarinn sem sagt var upp starfi á því sviði sem hann starfaði. Fyrir liggur í málinu að fram fór hæfnismat á kennurum sviðsins áður en ákvörðun var tekin um að segja áfrýjanda upp starfi. Af þeim átta kennurum, sem voru með meistararéttindi í vélsmíði, voru sex þeirra auk þess með 4. stigs vélstjórnaréttindi, en áfrýjandi og annar nafngreindur kennari voru með 2. stigs vélstjórnaréttindi. Er á því byggt af hálfu stefnda að umræddir sex kennarar hafi staðið áfrýjanda framar samkvæmt faglegu viðmiði. Þá hafi kennarinn, sem var með samsvarandi vélstjórnaréttindi og áfrýjandi, haft að baki mun meiri kennslureynslu jafnframt því að vera með menntun í tækniteikningu sem hafi komið að notum í starfi. Ekki eru efni til að hnekkja þessu mati stefnda.
Meðal röksemda stefnda fyrir uppsögn áfrýjanda er að nokkrum árum áður en honum var sagt upp starfi hafi gæðakerfið ISO 9001 verið innleitt hjá stefnda til að uppfylla kröfur Siglingamálastofnunar Íslands og þar með Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um að þeir skólar, sem menntuðu vélstjórnarmenn á skipum, væru gæðavottaðir þar sem vélstjórnarnámið veiti alþjóðleg réttindi í samræmi við IMO reglur (International Maritime Organization). Beri viðkomandi skólum að gera kröfu um vélfræðingsréttindi auk reynslu og helst viðbótarmenntunar á sviði verk- eða tæknifræði. Vélfræðingsréttindi, eða 4. stig vélstjórnar, séu því lágmarksskilyrði til að kennari sé hæfur til að kenna vélstjórnargreinar. Sú regla sem stefndi vísar til er eftirfarandi: „Each party shall ensure that instructors, supervisors and assessors are appropriately qualified.“ Regla þessi er almennt orðuð og gefur svigrúm til mats á hvaða hæfniskröfur eru gerðar til kennslu í þeim greinum sem áfrýjandi hafði með hendi hjá stefnda. Hefur stefndi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að áfrýjandi hafi ekki uppfyllt umræddar kröfur til kennslu í þessum námsgreinum. Jafnframt verður ekki horft fram hjá því að áfrýjandi hélt áfram kennslu um nokkurra ára skeið eftir innleiðingu gæðakerfisins og að honum var fyrst í rökstuðningi fyrir uppsögninni kynnt að hann uppfyllti ekki framangreindar kröfur. Að lokum er þess að gæta að annar kennari með 2. stigs vélstjórnaréttindi hélt samkvæmt áðursögðu áfram kennslu eftir að áfrýjanda var sagt upp starfi. Er því ekki hald í þessari málsástæðu stefnda.
Í vætti kennslustjóra tæknisviðs stefnda kom fram að áfrýjandi væri með kennsluréttindi í faggreinum vélsmíða, en ekki vélstjórnar. Vitnið kvað vélvirkjun og vélsmíði í raun sömu greinina, en munurinn væri sá að fyrri greinin væri iðnnám til sveinsréttinda og þá í framhaldi af því til meistararéttinda. Vélstjórn væri atvinnuréttindi til vélstjórnar. Málmiðnaráfangar væru kenndir innan vélstjórnar. Væri fullnægjandi að vera meistari í viðkomandi málmiðngrein til að kenna smíðaáfanga sem þátt í vélstjórnarnámi þótt slíkir áfangar væru kenndir á vélstjórnarsviði og hafi áfrýjandi haft réttindi til að kenna marga þeirra. Ekki hafi farið fram „bein“ skoðun á því hvort áfrýjandi hefði verið fær um að kenna þá alla, en þeir væru kenndir af öðrum mönnum, sem hefðu reynslu af því og engin ástæða verið til að „bola“ þeim úr því til að koma öðrum að.
Fram er komið í málinu að í beinu framhaldi af uppsögn áfrýjanda í lok apríl 2011 var auglýst staða kennara á kennslusviði hans og ráðið í þá stöðu um haustið sama ár. Um var að ræða stöðu, þar sem krafist var 4. stigs vélstjórnarréttinda, og er ágreiningslaust að áfrýjandi uppfyllti ekki það hæfnisskilyrði. Af hálfu stefnda er því haldið fram að nafngreindur kennari hafi gegnt þessari sömu stöðu á þeim tíma, sem áfrýjanda var sagt upp. Nafn hans var hins vegar ekki að finna á fyrirliggjandi yfirliti stefnda yfir kennara í málm- og véltæknigreinum skólaárið 2010 til 2011. Á hinn bóginn var þar getið kennara þess, sem ráðinn var í stöðuna um haustið 2011, og jafnframt að sótt hefði verið um undanþágu fyrir hann vegna áðurnefnds skólaárs. Í ljósi hinnar ríku verndar, sem áfrýjandi naut samkvæmt framansögðu vegna stöðu sinnar sem öryggistrúnaðarmaður, var sérstök ástæða fyrir stefnda að ganga kyrfilega úr skugga um hvort unnt væri að komast hjá uppsögn áfrýjanda með því að kanna hvort fela mætti honum kennslu í áföngum, sem hann hafði ekki kennt áður en hafði réttindi til að kenna, og færa þá til því til samræmis kennslu milli annarra kennara. Hlaut í því efni að koma til skoðunar hvort komast mætti hjá uppsögn áfrýjanda með því að ráða ekki í fyrrnefnda stöðu og ná þar með fram því hagræðingarmarkmiði, sem að var stefnt með uppsögn áfrýjanda, og gera sem fyrr segir viðeigandi ráðstafanir vegna tilfærslu kennslu. Hefur stefndi ekki gert viðhlítandi grein fyrir því að þessi leið hafi ekki verið fær. Samkvæmt þessu hefur stefndi ekki sýnt fram á að því lögmæta markmiði, sem að var stefnt, hefði ekki verið náð með öðru og vægara móti en uppsögn áfrýjanda, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Uppsögn áfrýjanda var því ólögmæt.
III
Áfrýjandi reisir fjárhæð kröfu um bætur vegna fjártjóns, 5.027.388 krónur, á að hún samsvari föstum launum að meðtalinni fastri yfirvinnu sem hann hefði haft í starfi hjá stefnda á 12 mánaða tímabili að meðtöldu 11,5% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt því hafi mánaðarlaun hans numið 375.739 krónum á þessu tímabili og við það bæst fyrrgreint framlag vinnuveitanda. Þá beri við mat á fjártjóni að líta til aldurs áfrýjanda, kyns, menntunar, starfsreynslu og aðstæðna að öðru leyti. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti námu tekjur áfrýjanda samtals 4.191.621 krónu frá og með ágúst 2011 til og með júlí 2012, eða 349.302 krónum að meðaltali á mánuði, án tillits til framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Við ákvörðun á fjárhæð skaðabóta vegna fjártjóns verður litið til þess að áfrýjandi var ráðinn ótímabundið til starfa með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og fékk greidd laun á umsömdum uppsagnarfresti. Þá ber að taka tillit til þess að áfrýjandi var 56 ára þegar honum var sagt upp starfi, sem hann hafði sinnt átölulaust frá ágúst 2001. Að því virtu og teknu tilliti til tekna, sem áfrýjandi hafði á 12 mánaða tímabili fyrir starfslok sín hjá stefnda, samanborið við tekjur hans sama tímabil eftir þau, eru bætur vegna fjártjóns hæfilega ákveðnar að álitum 400.000 krónur.
Kröfu sína um miskabætur reisir áfrýjandi á því að sér hafi verið sagt fyrirvaralaust upp starfi á grundvelli uppsagnarástæðu, sem ekki standist grundvallarreglur laga. Hafi þetta falið í sér ólögmæta meingerð og valdið sér miska, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Uppsögn áfrýjanda var ekki fyrirvaralaus, heldur var honum eins og áður segir sagt upp starfi sínu með kjarasamningsbundnum þriggja mánaða fyrirvara. Þá hefur áfrýjandi ekki rökstutt að framganga stefnda við að slíta ráðningu hans hafi verið til þess fallin að vera meiðandi fyrir áfrýjanda þannig að uppfyllt séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta úr hendi stefnda.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 400.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Stefndi verður jafnframt dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Verkmenntaskólinn á Akureyri, greiði áfrýjanda, Ólafi Kjartanssyni, 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2011 til 15. janúar 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2014.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember sl. er höfðað með stefnu útgefinni 20. desember 2012 af Ólafi Kjartanssyni, Aðalstræti 2b, 600 Akureyri, á hendur Verkmenntaskólanum á Akureyri, Eyrarlandsholti, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.527.388 krónur ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2011 til þingfestingardags, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.
Til vara krefst stefnandi þess að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
II.
Málsatvik
Stefnandi máls þessa lauk meistaraprófi í vélvirkjun 17. september 1997 og var veitt leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari með sérsvið faggreinar í vélsmíði 8. ágúst 2001. Stefnandi var ráðinn hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri vorið 2001 sem kennari í faggreinum málmiðna. Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda við stefnda var stéttarfélag hans Kennarasamband Íslands, samanber 1. gr. laga nr. 94/1986
Stefnandi var öryggistrúnaðarmaður á vinnustaðnum og einnig fulltrúi félagsmanna Kennarasambands Íslands í samstarfsnefnd Kennarasambands Íslands og Verkmenntaskólans á Akureyri.
Þegar stefnandi var ráðinn að skólanum hafði ásókn í vélvirkjun verið nokkuð stöðug en með nýrri námskrá í vélvirkjun árið 2001, sem lengdi námið, minnkaði ásókn í námið og hafði stefndi ekki kennt það nám til enda eftir þá breytingu. Haustið 2008 höfðu af hagkvæmnisástæðum grunndeildir málmiðngreina og vélstjórnar verið sameinaðar í grunndeild málm- og véltæknigreina.
Stefndi er eini skólinn fyrir utan Véltækniskóla Tækniskólans (áður Fjöltækniskóli Íslands) sem hefur heimild til að bjóða upp á fullnaðarnám í vélstjórn sem veitir alþjóðleg réttindi í samræmi við kröfur Alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) frá 1978, sem samþykktar voru með ákvörðun Alþjóðasiglingamálastofnunar, skammstafað IMO, árið 1995, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 76/2001 og reglugerð nr. 416/2003 með síðari breytingum. Til þess að uppfylla þessar kröfur til þess að geta boðið upp á fullnaðarnám í vélstjórn var gæðakerfið ISO innleitt hjá stefnda árið 2007, en það var skilyrði fyrir því að skólinn gæti annast menntun og þjálfun til vélstjóraréttinda í samræmið við STCW alþjóðasamþykktina. Véltækniskóli Tækniskólans er kjarnaskóli vélstjórnar, sbr. 29. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 og ber stefnda að fara eftir tilmælum og fyrirmælum kjarnaskólans.
Á kjarnaskólafundi 8. apríl 2011 voru kynntar nýjar og endurbættar kröfur frá IMO vegna vélstjóranáms og fram kom að aðeins þeir sem lokið hefðu fyllstu vélstjórnarréttindum og væru vélfræðingar uppfylltu lágmarkskröfur varðandi menntun fagkennara í vélstjórnargreinum.
Stefnanda var sagt upp störfum 28. apríl 2011 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ástæða uppsagnarinnar var hagræðing í rekstri stefnda vegna niðurskurðar á fjárframlögum til skólans, til þess að mæta fækkun nemenda og laga kennslu og áfangaframboð að breyttum aðstæðum. Af þessum sökum var jafnframt þremur öðrum kennurum sagt upp. Rekstrarumhverfi stefnda hafði verið erfitt og þurft hafði að skera niður í rekstri bæði 2010 og 2011 og grípa til ýmissa sparnaðaraðgerða.
Stefnandi óskaði með bréfi, dags. 10. maí 2011, eftir skriflegum rökstuðningi skólameistara og með bréfi skólameistara til stefnanda, dags. 10. maí 2011, var uppsögnin rökstudd. Í rökstuðningi skólameistara kom fram að nauðsynlegt hafi verið að hagræða í rekstri á margvíslegan hátt, kennslumagn í ákveðnum greinum hefði minnkað umtalsvert og deildum fækkað. Þá hefði aðsókn nemenda minnkað. Þá var vísað til ISO 9001 gæðakerfis sem innleitt hefði verið til að uppfylla gæðakröfur Siglingastofnunar Íslands og Alþjóðasiglingamálastofnunar um að þeir skólar, sem menntuðu vélstjórnarmenn á skipum, væru gæðavottaðir. Í reglunum sé jafnframt gerð sú krafa að kennarar hafi tilskilda menntun og færni til að mega kenna vélstjórnargreinar. Þar sem stefnandi væri aðeins með 2. stig vélstjórnar stæði hann ekki undir framangreindum kröfum nema að takmörkuðu leyti. Þá væri eftirspurn eftir námi í vélvirkjun nánast engin og þeir, sem hafi viljað fá réttindi á því sviði, hafi gert það með því að ljúka 4. stigi vélstjórnar. Þá benti skólameistari á að undanfarnar annir hefði verið reynt með ýmsu móti að finna kennslu til að uppfylla stöðuhlutfall stefnanda og jafnvel verið settir á sérstakir námsáfangar í því skyni sem ekki hafi verið nauðsynlegir samkvæmt námskrá, en vegna sparnaðaraðgerða yrðu slíkir áfangar ekki í boði áfram. Þannig væri ljóst að skólinn hefði ekki næg verkefni fyrir stefnanda á næsta ári.
Í framhaldi af bréfi skólameistara óskaði formaður Félags framhaldsskólakennara eftir svörum við tilteknum spurningum, er vörðuðu rökstuðninginn, með tölvupósti 24. maí 2011 og því svaraði skólameistari með bréfi, dags. 7. júní 2011.
Þar sem stefnandi taldi uppsögnina ekki lögmæta, m.a. í ljósi trúnaðarmannaverndar sinnar, fól hann lögmanni sínum að mótmæla uppsögninni og skora á stefnda að draga hana til baka. Bréf lögmanns stefnanda var dagsett 24. júní 2011, en skólameistari hafnaði þeirri kröfu með tölvupósti 13. júlí 2011 þar sem fram kemur að stefndi telji málinu lokið af sinni hálfu.
Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Stefndi kvaðst hafa verið ráðinn tímabundið árið 2001 sem kennari við málmiðnaðarbraut hjá stefnda og kvaðst vera vélvirkjameistari að mennt og með 2. stigs vélstjórnarréttindi, reyndar hefði hann lokið skólanáminu en ekki unnið tilskilinn vinnutíma til að öðlast full 2. stigs vélstjórnarréttindi. Ástæðan hafi verið sú að hann skipti yfir í vélvirkjanám. Stefnandi rakti síðan hvaða kennslu hann hefði sinnt. Stefndi kvað því ekki hafa verið beint til sín að auka vélstjórnarréttindi sín. Þá kvað stefnandi enga árekstra hafa orðið á milli sín sem trúnaðarmanns og skólastjórnenda þó að meiningarmunar hafi stundum komið upp. Þá benti stefnandi á kennslugreinar sem hann taldi sig hafa getað kennt, en kennsla í þeim greinum hafi verið í höndum annarra. Stefnandi kvaðst hafa beðist undan því að kenna lífsleikniáfanga þar sem hann hafi verið farinn að finna fyrir kulnun í því starfi, en lífsleikni hafi ekki verið á hans sérsviði og óháð faggreinum.
Vitnið, Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð. Vitnið kvað samskipti við stefnanda sem trúnaðarmann hafa verið góð, stefnandi væri samviskusamur og ábendingum hans hafi verið vel tekið. Staða stefnanda sem trúnaðarmanns hafi ekki með neinum hætti valið uppsögn hans, en horft hafi verið til verndar stefnanda sem trúnaðarmanns áður en ákvörðun var tekin. Vitnið kvað rekstrarumhverfi stefnda hafa versnað mikið, stefndi hafi verið ofmannaður, harðar hagræðingarkröfur hafi verið gerðar af ráðuneytinu og þær orðið enn harðari eftir hrunið. Niðurskurður á fjárveitingum til skólans hafi verið fyrirsjáanlegur, einnig hafi nemendum fækkað og óhjákvæmilegt hafi verið að segja upp starfsfólki. Af þessum sökum hafi fjórum starfsmönnum verið sagt upp og einn þeirra hafi verið stefnandi. Ómögulegt hafi verið að finna kennslu fyrir stefnanda, vélvirkjun hafði lagst af sem grein og verið innlimuð í vélstjórn. Til þess að uppfylla kröfur svo unnt væri að bjóða upp á fullnaðarnám í vélstjórn hafi gæðakerfið ISO 9001 verið innleitt hjá stefnda og þar væri skýlaus krafa um að kennarar sem sinntu kennslu þar hefðu full vélstjórnarréttindi. Þessa kennslu hefði því ekki verið hægt að fela stefnanda þar sem hann hafði ekki þau réttindi. Fyrirhuguð hafi verið úttekt á því hvernig staðið væri að kennslunni hjá stefnda og því hafi stefndi átt tvo kosti, að uppfylla skilyrði gæðakerfisins eða leggja af vélstjórnarnám á Akureyri.
Vitnið kvað hafa verið reynt til þrautar að finna verkefni fyrir þá kennara sem sagt var upp en það hafi ekki tekist. Einn kennara hafi haft sömu menntun og stefnandi, Gunnlaugur Björnsson. Gert hafi verið hæfnismat á þeim og Gunnlaugur verið metinn stefnanda fremri. Gunnlaugur hafi haft sambærilega menntun og stefnandi, en haft réttindi í tækniteiknum umfram stefnanda og mun lengri kennsluferil, Hann hafi auk þess verið deildarstjóri. Allir aðrir kennarar hjá stefnda í þessari kennslu hafi verið með full vélstjórnarréttindi og stefnandi hafi haft minnstan sveigjanleika til að kenna í báðum deildum eftir að þær höfðu verið sameinaðar. Á undanförnum önnum hafi verið fundin verkefni fyrir stefnanda við kennslu í valgreinum sem ekki voru á námskrá, til þess að uppfylla kennsluskyldu, en þær hafi orðið að sníða af þar sem ekki var fé til að reka þær.
Einnig gaf skýrslu við aðalmeðferð vitnið Baldvin Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs. Vitnið kvað að þær kennslugreinar sem mögulegt hefði verið að fela stefnanda hafi verið í höndum annarra kennara með meiri menntun en stefnandi. Þá kvað hann stefnanda ekki hafa haft réttindi til að kenna þá áfanga sem Jóhann Björgvinsson hafi kennt, til þess hafi þurft 4. stig vélstjórnar.
Einnig gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins Garðar Lárusson, áfangastóri stefnda. Vitnið kvað stefnda hafa verið ofmannaðan. Dregið hafi úr námi á vissum sviðum, sumt nám hafi verið lagt niður og námskrá verið breytt. Á undanförnum önnum hafi verið erfitt að finna kennslu fyrir stefnanda. Stefnandi hafi færst undan því að kenna lífsleikni og grunnteiknun og vegna krafna um aðhald og sparnað hafi ekki verið um annað að ræða en segja stefnanda upp.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt þar sem hann hafi gegnt stöðu öryggistrúnaðarmanns og notið sem slíkur trúnaðarmannaverndar, sem kveðið er á um í 11. gr. laga nr. 38/2001 um stéttarfélög og vinnudeilur. Til viðbótar hafi stefnandi notið trúnaðarmannaverndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 1. gr. samkomulags fjármálaráðherra og BHMR f.h. aðildarfélaga um trúnaðarmenn, frá því í janúar 1989.
Í ofangreindum ákvæðum felist sú meginregla að trúnaðarmanni eigi ekki að segja upp störfum við fækkun starfsmanna nema vinnuveitandi sýni fram á ríkar ástæður til þeirrar ráðabreytni. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn þessari reglu með uppsögninni. Rökstuðningur skólameistara fyrir uppsögninni í bréfum hans, dags. 10. maí 2011 og 7. júní sama ár, hafi verið ófullnægjandi.
Stefnandi byggir á því að uppsögn hans verði ekki réttlætt með aðhaldsaðgerðum, enda hefði stefnandi þá sem trúnaðarmaður átt að sitja fyrir um vinnuna. Að mati stefnanda hafi verið fráleitt að segja honum upp á þeim grundvelli, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess að fyrir liggi að stefndi auglýsti um sama leyti eftir kennara við sömu deild. Sá aðili, sem ráðinn hafi verið sem leiðbeinandi haustið 2010, Jóhann Björgvinsson, hafi verið endurráðinn á grundvelli þessarar auglýsingar og þannig látinn ganga framar stefnanda um starf hjá stefnda.
Þá byggir stefnandi á því að með uppsögn hans og endurráðningu Jóhanns Björgvinssonar hafi stefndi virt að vettugi ákvæði 19. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sé óheimilt að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laganna til kennslu við framhaldsskóla, þ.e.a.s. þá sem hafa framhaldsskólakennararéttindi. Stefnandi uppfyllti þetta lagaskilyrði en þessi aðili ekki. Ekki sé því unnt að fallast á að brýnt tilefni hafi verið til að segja stefnanda upp.
Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi verið réttmætt að segja stefnanda upp á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki kröfur IMO-reglna. Eins og áður segi, sé ákvæðið í reglunum sem stefndi hafi vísað til almennt orðað og ekki sé unnt að líta svo á að stefnandi hafi hætt að uppfylla menntunarkröfur til kennslustarfa sem hann hafði sinnt. Stefnandi bendir á að áður en honum barst uppsagnarbréfið hafði aldrei komið til tals að hann uppfyllti ekki menntunar- eða réttindakröfur og IMO-reglur hafði aldrei borið á góma í samskiptum við stefnanda. Aftur á móti hafi sá aðili, sem ráðinn var í framhaldi af framangreindri auglýsingu, ekki uppfyllt lögbundnar menntunarkröfur þar sem hann hafi ekki haft réttindi sem framhaldsskólakennari.
Hvað það varðar, að menntunarkröfum hafi verið breytt með tilteknum hætti, þá byggir stefnandi á því að slíkar breytingar hafi ekki haggað kennsluréttindum, sem stefnandi hafði áunnið sér. Hefð sé fyrir því hér á landi, m.a. við lagasetningu, að breyttar menntunarkröfur leiði ekki til þess að starfsmaður, sem uppfyllt hafi gerðar kröfur til starfsins, verði fyrir réttinda- eða starfsmissi. Þá hafi borið að veita stefnanda raunhæft tækifæri til að aðlagast breyttum menntunarkröfum innan hæfilegs tíma, en stefndi hafi ekki kannað þann möguleika.
Stefnandi mótmælir því að undanfarnar annir hafi verið reynt með ýmsu móti að finna kennslu til þess að uppfylla stöðuhlutfall hans eins og haldið sé fram í bréfi skólameistara. Stefnandi hafi uppfyllt kennsluskyldu sína miðað við fullt starf og rúmlega það. Þá bendir stefnandi á að auk áfanga sem stefnandi kenndi hafi verið fjölmargir aðrir áfangar á umræddum fagsviðum sem voru kenndir, sem stefnandi var fullfær um að kenna ef svo bæri undir.
Þá mótmælir stefnandi því sem fram kemur í bréfi skólameistara þess efnis að stefnandi hafi beðist undan tilteknum verkefnum sem ómaklegum og það réttlæti á engan hátt uppsögn.
Af sömu ástæðum byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar með því að segja stefnanda upp störfum án málefnalegrar ástæðu, án þess að hæfnismat hafi verið gert og án tillits til trúnaðarmannaverndar. Einn kennara hafi haft sömu menntun og stefnandi, Gunnlaugur Björnsson. Gert hafi verið hæfnismat á þeim og Gunnlaugur verið metinn stefnanda fremri. Gunnlaugur hafi haft sambærilega menntun og stefnandi, en haft réttindi í tækniteiknum umfram stefnanda og mun lengri kennsluferil. Auk þess hafi hann verið deildarstjóri. Allir aðrir kennarar hjá stefnda í þessari kennslu hafi verið með full vélstjórnarréttindi og stefnandi hafi haft minnstan sveigjanleika til að kenna í báðum deildum eftir að þær höfðu verið sameinaðar. Á undanförnum önnum hafi verið fundin verkefni fyrir stefnanda við kennslu í valgreinum sem ekki voru á námskrá til þess að uppfylla kennsluskyldu, en þær hafi orðið að sníða af þar sem ekki var til fé til að reka þær.
Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem uppsögn hafi ekki verið nauðsynleg eins og á stóð.
Stefnandi reisir kröfur sínar um skaðabætur á almennu skaðabótareglunni, en samkvæmt
henni eigi stefnandi rétt á að fá tjón sitt bætt sem sé afleiðing af ólögmætri starfsuppsögn og vísar hann til dómvenju í málum vegna ólögmætra starfsuppsagna.
Stefnandi krefst skaðabóta að fjárhæð 5.027.388 kr. vegna fjártjóns og miskabóta að fjárhæð 500.000 kr. Fjárhæð kröfu um bætur vegna fjártjóns samsvari föstum launum, þ.m.t. fastri yfirvinnu, sem stefnandi hefði haft í starfi hjá stefnda á 12 mánaða tímabili að meðtöldu 11,5% mótframlagi vinnuveitanda í ríkissjóð, 375.739 kr. x 12 x 1,115%. Mánaðarlaun séu meðaltal fastra launa stefnanda, þ.m.t. fastri yfirvinnu, á fyrstu sex mánuðum ársins 2011. Stefnandi hafi að loknum uppsagnarfresti unnið í tímavinnu hjá einkahlutafélaginu Seiglu ehf. og laun stefnanda í því starfi hafi verið umtalsvert lakari en í starfinu hjá stefnda. Þannig hafi meðaldagvinnulaun fyrstu sex mánuði ársins 2012 verið kr. 273.199 kr. Að því er varði launaseðla frá Akureyrarbæ tekur stefnandi fram að þar sé um að ræða aukastörf sem ekki beri að taka tillit til við launasamanburð.
Stefnandi byggir á því að við mat á fjártjóni beri að líta til aldurs stefnanda, kyns, menntunar, starfsreynslu og aðstæðna að öðru leyti, en atvinnuhorfur fyrir framhaldsskólakennara á aldur við stefnanda séu ekki góðar. Vegna efnahagshrunsins og ástands í ríkisfjármálum megi vænta þess að á næstu árum haldi framhaldsskólar að sér höndum hvað varðar nýráðningar, auk þess sem uppsögnin sé beinlínis til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á starfsmöguleika hans. Þá beri að líta til þess við ákvörðun bóta að stefnandi naut sérstakra réttinda sem ríkisstarfsmaður og sem sjóðfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hann hafi mátt að öðru jöfnu treysta því að halda starfinu og bæta við lífeyrisréttindi sín, en þetta síðastnefnda atriði hefði verið honum verðmætt til lengri tíma litið.
Stefnandi byggir kröfu sína um miskabætur á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnanda hafi verið sagt upp fyrirvaralaust á grundvelli uppsagnarástæðu sem ekki standist grundvallarreglur laga. Stefnandi byggir á því að þessi atriði hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn honum og valdið miklum miska. Fjárhæð miskabótakröfu, 500.000 kr., sé sett fram að álitum.
Kröfu um skaðabótavexti og dráttarvexti gerir stefnandi með vísan til 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafa er gerð með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 og gerð er krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og vísar kröfum á þeim reistum eindregið á bug. Ástæða uppsagnar stefnanda hafi verið sú sama og ástæða uppsagnar þriggja annarra kennara, að nauðsynlegt hafi verið að hagræða í rekstri og hafi uppsögnin ekki með nokkrum hætti tengst starfi hans sem trúnaðarmanns.
Rekstrarumhverfi framhaldsskóla hafi verið erfitt síðustu ár og stefndi hafi þurft að skera niður um 9% í rekstri árin 2010 og 2011 eða samtals un nær 100 milljónir króna. Gert hafi verið ráð fyrir að á árinu 2012 myndu stjórnvöld fara fram á 3-5% hagræðingu til viðbótar. Hagrætt hafi verið í rekstri skólans á margvíslegan hátt, t.d. með því að fækka hópum í stórum námsgreinum og fjölga nemendum í þeim hópum sem eftir hafi staðið. Þetta hafði bæði orðið til þess að fækka kenndum stundum og að álag á kennara hafi aukist. Vegna þessa hafi kennslumagn í ákveðnum greinum minnkað umtalsvert. Nemendum í einstökum deildum hafði jafnframt fækkað. Stjórnendur hafi því ekki séð fram á að næg kennsla væri fyrir viðkomandi kennara. Rekstrarfé skólans hafi dregist verulega saman á nokkrum árum og við því hafi orðið að bregðast á ýmsan hátt í almennum rekstri. Að lokum hafi þurft að grípa til þess ráðs að segja upp fjórum kennurum.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins beri forstöðumaður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ef útgjöld fara fram úr fjárlagaheimildum, geti ráðherra veitt forstöðumanni áminningu skv. 21. gr. eða veitt honum lausn frá embætti skv. VI. kafla ef hann hefur gerst sekur um ítrekaða eða stórfellda vanrækslu í starfi með þeim hætti sem að framan er lýst. Í 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, segi að forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila beri ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir. Brot á ákvæðum laganna varði skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi og samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna sé ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar ef hún stafar af því að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Það hafi því verið mat stefnda í apríl 2011 að segja þyrfti upp fjórum kennurum, þ.á.m. stefnanda, vegna hagræðingar í rekstri.
Stefndi byggir á því að stéttarfélag stefnanda sé Kennarasamband Íslands samkvæmt ráðningarsamningi hans við stefnda. Í 1. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir að lögin gildi um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem skv. 4. og 5. gr. laganna hafi rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnununum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Kennarasamband Íslands falli undir 3. tl. 5. gr. laganna. Stefnandi falli því undir 1. gr. laganna og eigi lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur því ekki við um hann.
Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna skuli trúnaðarmaður í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til þessa trúnaðarstarfs. Í 4. mgr. sömu greinar segi að sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skuli hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda starfinu.
Stefnandi hafi verið ráðinn hjá stefnanda vorið 2001 sem kennari í faggreinum málmiðna, en á þeim tíma hafði ásókn í vélvirkjun verið nokkuð stöðug. Með nýrri námskrá í vélvirkjun árið 2001, sem lengdi námið, virtist áhugi nemenda á því námi hins vegar hverfa og hafði skólinn ekki kennt það nám til enda eftir þá breytingu. Haustið 2008 hafi því af hagkvæmnisástæðum grunndeildir málmiðngreina og vélstjórnar verið sameinaðar í grunndeild málm- og véltæknigreina. Miklar breytingar hafi því orðið frá því stefnandi hóf störf hjá stefnda.
Undanfarin ár hafði verið lögð áhersla á að kennarar, sem ráðnir hafi verið inn á málmsmíðabraut, væru ekki aðeins menntaðir í málmiðngreinum heldur væru líka 4. stigs vélstjórar. Tilgangurinn með því hafi verið að tryggja að kennarar þar gætu einnig kennt vélstjórnargreinar. Þá hafði sýnt sig, t.d. á vorönn 2011, að kennslumagn á málmsmíðabraut hafi tæpast verið nægilegt til að fylla allar stöður kennara þar.
Eftir að ný námskrá í vélvirkjun var tekin upp árið 2001, virtist áhugi nemenda á námsbrautinni hverfa sem áður segir. Þannig hafi nánast engin eftirspurn verið eftir námi í vélvirkjun er stefnanda var sagt upp. Stefnandi hafi kennt áfangana VST (vélstjórn) og VIR (vélvirkjun) á vélstjórnarbraut stefnda og áfanga á almennri braut og starfsbraut sem hann var fenginn til að kenna þar sem ekki hafði verið nægilegt framboð áfanga á hans sviði.
Gæðakerfið ISO 9001 hafi verið innleitt fyrir nokkrum árum til að uppfylla kröfur Siglingastofnunar Íslands og þar með Alþjóða siglingamálastofnunar um að þeir skólar sem menntuðu vélstjórnarmenn á skipum væru gæðavottaðir þar sem vélstjórnarnámið veiti alþjóðleg réttindi í samræmi við IMO-reglur (International Maritime Organization). Beri viðkomandi skólum að gera kröfu um vélfræðingsréttindi auk reynslu og helst viðbótarmenntunar á sviði verk- eða tæknifræði. Vélfræðingsréttindi, þ.e. 4. eða D-stig vélstjórnar, séu því lágmarksskilyrði til að kennari sé hæfur til að kenna vélstjórnargreinar. Stjórnendur stefnda telji það grundvallaratriði að tryggt sé að það nám sem nemendum í vélstjórn sé boðið upp á uppfylli framangreindar kröfur, enda sé skólanum treyst til að gefa út brautskráningarskírteini sem veitir alþjóðleg réttindi. Stefnandi sé hins vegar aðeins með 2. stig vélstjórnar og standi því ekki faglega undir framangreindum kröfum. Vegna þessa hafi ekki lengur verið hægt að fela honum kennslu í áfanganum VST og áfanginn VIR vélvirkjun hafi breyst í áfangann viðhald véla og sé kenndur í samstarfi við Slippinn á Akureyri af sérfræðingum með sérþekkingu á vélum og búnaði skipa. Þá hafi nánast engin eftirspurn verið eftir sérstöku námi í vélvirkjun og reynslan sú að þeir nemendur sem höfðu áhuga á að öðlast réttindi á því sviði hafi gert það með því að ljúka 4. (D) stigi vélstjórnar. Þá hafi með ýmsu móti verið reynt að finna kennslu á almennri braut og starfsbraut til að uppfylla starfshlutfall stefnanda og jafnvel settir á sérstakir námsáfangar sem ekki voru nauðsynlegir samkvæmt námskrá. Vegna margvíslegrar hagræðingar í rekstri skólans og sparnaðaraðgerða hafi slíkir áfangar ekki verið í boði áfram. Stefnandi hafi verið umsjónarkennari nýnemahóps NSK á almennri braut um skeið og annast lífsleiknikennslu í tengslum við það starf sitt. Stefnandi hafði beðist undan lífsleiknikennslu og svigrúm var minnkað til kennslu í NSK áföngum. Faggrein stefnanda sé vélvirkjun en sú grein sé ekki kennd lengur við stefnda nema að því leyti sem hún er innifalin í fullnaðarnámi til vélstjórnar. Starf stefnanda sé því ekki lengur til við stofnunina og enginn hafi verið ráðinn í hans stað.
Stefndi mótmælir því sem stefnandi heldur fram að auk áfanga sem hann hafi kennt hafi fjölmargir aðrir áfangar verið kenndir sem hann hefði verið fullfær um að kenna ef svo bæri undir án þess þó að einn einasti sé tiltekinn.
Þegar stefnanda hafi verið sagt upp hafi enginn með sambærilega menntun verið í sambærilegri stöðu hjá stefnda. Gunnlaugur Björnsson, brautarstjóri málmsmíðabrautar, hafði sömu menntun og stefnandi, en auk þess hafi hann haft próf í tækniteiknun. Gunnlaugur hafði kennt við skólann frá upphafi og jafnframt veitt málmsmíðabrautinni forstöðu. Áður hafi hann starfað við Iðnskólann á Akureyri um árabil. Þegar valið stóð á milli þeirra tveggja hafi löng starfsreynsla Gunnlaugs og menntun hans á sviði tækniteiknunar ráðið því að stefnanda var sagt upp en ekki honum. Gunnlaugur hafi síðan síðan látið af störfum vegna aldurs vorið 2012 og hafi enginn verið ráðinn í hans stað.
Samkvæmt framangreindu hafi stefnanda ekki verið sagt upp störfum vegna starfa sinna sem trúnaðarmaður og hafi stefnandi á engan hátt verið látinn gjalda trúnaðarmannastarfa sinna. Uppsögn stefnanda hafi því verið byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Áður en ákveðið var hverjum ætti að segja upp, hafi verið farið vel yfir menntun og fyrri störf allra kennara sem kenna málm- og véltæknigreinar. Varðandi áðurnefndan Gunnlaug var það mat stefnda, eins og að framan greinir, að löng starfsreynsla og menntun Gunnlaugs á sviði tækniteiknunar réði því að stefnanda var sagt upp störfum en ekki honum.
Staðhæfingum stefnanda um að á sama tíma og honum hafi verið sagt upp hafi verið auglýst og endurráðið í laust kennarastarf á fagsviði stefnanda er eindregið vísað á bug. Sú staða sé á sviði vélstjórnar þar sem krafist er 4. stigs vélstjórnar. Stefnandi sótti ekki um starfið enda uppfylli hann ekki þær menntunarkröfur sem gerðar voru en krafist er fullnaðarréttinda í faginu (vélfræðingur). Annar kennari, Friðrik Friðriksson, hafði áður gegnt því starfi og á sama tíma og stefnandi var enn við störf hjá stefnda. Jóhann Björgvinsson hafi verið ráðinn í kjölfar auglýsingar 6. maí 2011 sem leiðbeinandi í stöðu vélfræðings við kennslu á vélstjórnarbraut en enginn vélfræðingur með kennsluréttindi sótti um starfið og fékk stefndi því heimild til þess frá undanþágunefnd framhaldsskóla, sbr. 19. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Stefndi byggir því að það fái ekki staðist að starfið hafi verið á fagsviði stefnanda og Jóhann Björgvinsson hafi verið látinn ganga framar stefnanda um það starf hjá stefnda.
Stefndi byggir á því að samkvæmt öllu framangreindu hafi ríkar ástæður verið fyrir uppsögn stefnanda og stefndi hafi því ekki brotið gegn 30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefnda hafi því verið heimilt að segja stefnanda upp störfum þó að hann hafi verið trúnaðarmaður.
Stefnandi byggi einnig á því að með uppsögn hans og endurráðningu Jóhanns hafi stefndi virt að vettugi ákvæði 19. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sé óheimilt að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laganna til kennslu við framhaldsskóla, þ.e.a.s. þá sem hafa framhaldsskólakennararéttindi. Stefnandi hafi uppfyllt þetta skilyrði en ekki Jóhann og því sé ekki unnt að fallast á að brýnt tilefni hafi verið fyrir uppsögninni. Þessu er eindregið vísað á bug af stefnda. Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008 segi að óheimilt sé að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laganna til kennslu við framhaldsskóla. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar segir að sæki enginn um starfið sem fullnægi ákvæðum laganna þrátt fyrir endurtekna auglýsingu geti skólameistari sótt um heimild til undanþágunefndar framhaldsskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs.
Eins og áður hafi komið fram hafi Jóhann Björgvinsson verið ráðinn í kjölfar auglýsingar sem leiðbeinandi í stöðu vélfræðings við kennslu á vélstjórnarbraut þar sem enginn vélfræðingur með kennsluréttindi sótti um starfið og fékk stefndi því heimild til þess frá undanþágunefnd framhaldsskóla. Stefnandi sótt ekki um þetta starf enda hafi hann ekki uppfyllt þær menntunarkröfur sem gerðar voru. Krafist var fullnaðarréttinda í faginu vélfræðingur. Stefnandi er vélvirki og hann hafði ekki menntun til að gegna þessu starfi.
Samkvæmt framangreindu hafi stefndi ekki brotið gegn 19. gr. laga nr. 87/2008. Stefnda hafi því verið heimilt að ráða Jóhann til starfa enda enginn með kennsluréttindi sótt um starfið og fengin hafi verið heimild undanþágunefndar framhaldsskóla til að lausráða Jóhann.
Stefndi mótmælir því sem stefnandi byggir á að ekki hafi verið réttmætt að segja stefnanda upp á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki kröfur IMO-reglna. Ákvæðið í reglunum sé almennt orðað og ekki hafi verið unnt að líta svo á að stefnandi hafi hætt að uppfylla menntunarkröfur til kennslustarfa sem hann hafði sinnt. Stefnandi byggi einnig á því að stefndi hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar með því að segja stefnanda upp störfum án málefnalegrar ástæðu, án þess að hæfnismat hafi verið gert og án tillits til trúnaðarmannaverndar. Enn fremur byggi stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem uppsögnin hafi ekki verið nauðsynleg eins og á stóð. Stefndi vísar þessum sjónarmiðum stefnanda eindregið á bug.
Samkvæmt 29. gr. laga nr. 92/2009 um framhaldsskóla hafi kjarnaskólar sérstöku hlutverki að gegna. Í 2. ml. 1. mgr. 29. gr. segi að kjarnaskólar skuli hafa forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir og aðstoða aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði. Þá sé það krafa af hálfu kjarnaskólans að allir sem koma að faggreinakennslu í vélstjórn hafi hið minnsta fullnaðarréttindi í faginu vélfræðingur og helst frekari menntun. Þar sem stefndi kenni vélstjórn undir leiðsögn og forystu Véltækniskóla Tækniskólans sem er kjarnaskóli greinarinnar beri stefnda að fara að tilmælum og fyrirmælum kjarnaskólans.
Samkvæmt réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins verði stjórnvöld ávallt að byggja matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Með vísan til alls þess sem að framan greinir sé ljóst að stefndi byggði ákvörðun sína um að segja stefnanda upp störfum á málefnalegum sjónarmiðum og braut því ekki gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins með uppsögninni. Um röksemdir fyrir því að stefndi hafi ekki með uppsögninni brotið gegn ákvæðum um trúnaðarmannavernd vísar stefndi í það sem að framan hefur verið rakið.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Eins og áður hafi komið fram hafði stefnandi aflað sér 2. stigs vélstjórnarréttinda. Stefnandi hafi því ekki staðið faglega undir áðurnefndum kröfum til að kenna vélstjórnargreinar. Þess vegna hafi ekki lengur verið unnt að fela honum kennslu í faggreinum vélstjórnar. Undanfarnar annir hafi verið reynt með ýmsu móti að finna kennslu til að uppfylla stöðuhlutfall stefnanda. Jafnvel hafi verið settir á sérstakir námsáfangar sem ekki voru nauðsynlegir samkvæmt námskrá. Vegna margvíslegrar hagræðingar í rekstri skólans voru slíkir áfangar ekki í boði áfram. Stefnandi hafi verið umsjónarkennari nýnemahóps um skeið og annast lífsleiknikennslu í tengslum við það starf sitt en hann hafði síðustu annir sem hann kenndi við skólann beðist undan því. Ekki var starf fyrir stefnanda eða annan með sambærilega menntun hjá stefnda. Stefnandi hafi lýst áhuga á því við stefnda að læra pípulagnir en hafi horfið frá því. Stefndi hafi aldrei sýnt áhuga á því að halda áfram námi í vélstjórn og ekki sé unnt með hæfnismati að öðlast aukin réttindi í vélstjórn. Það hefði tekið stefnanda þrjú til fjögur ár í fullu námi í skóla auk þess sem til þarf sjótíma til að öðlast fullnaðarréttindi í vélstjórn.
Samkvæmt framangreindu sé því ljóst að stefndi reyndi hvað hann gat til að komast hjá uppsögn stefnanda en eins og áður hefur komið fram var slíkt ekki mögulegt lengur. Því sé ljóst að stefndi braut ekki gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Stefndi byggir síðan á því að með vísan til þess sem að framan greinir sé engum þeim atvikum vegna uppsagnar stefnanda til að dreifa er stofnað gæti að lögum til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda og beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda.
Þá mótmælir stefndi kröfum stefnanda um bætur vegna ætlaðs fjártjóns og miska. Ekki verði séð að neinu fjártjóni geti í reynd verið til að dreifa. Stefnandi byggi kröfu sína vegna fjártjóns að fjárhæð 5.027.388 kr. á ætluðum meðaltalsmánaðarlaunum í 12 mánuði frá 1. september 2011 að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð en án nokkurs frádráttar vegna launagreiðslna sem stefnandi naut á því tímabili og sem eiga að koma til frádráttar bótakröfu. Stefnandi gefi sér þær forsendur miðað við heildarlaunagreiðslur fyrstu sex mánuði ársins 2011 að meðaltalsmánaðarlaun nemi 375.739 kr. á mánuði. Innifalið í þeim greiðslum séu föst mánaðarlaun, yfirvinna, sérstök 50.000 króna eingreiðsla skv. kjarasamningi og orlofsuppbót. Þá fái ekki staðist þær forsendur sem stefnandi gefi sér um yfirvinnu hefði hann áfram verið við störf hjá stefnda í ljósi þess sem að framan sé rakið um skort á kennslumagni til að uppfylla kennsluskyldu stefnanda. Þá fái ekki staðist að reikna inn í meðaltalslaun sérstaka eingreiðslu og orlofsuppbót. Þegar stefnandi hafi látið af störfum hafi mánaðarlaun hans verið 335.374 krónur eða sem samsvarar í 12 mánuði 4.024.488 kr. Fyrir liggi að laun stefnanda í starfi hans hjá Seiglu ehf. hafi numið alls 4.144.210 kr. og greiðslur frá Akureyrarbæ 47.411 kr. eða hærri fjárhæð samtals en sem nemi hugsanlegu launatapi hjá stefnda. Þá komi skýrt fram af launaseðlum frá Seiglu ehf. og Akureyrarbæ að við laun bætist framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Þannig sé með öllu ósannað að nokkru fjártjóni geti hafa verið til að dreifa tengdu uppsögn stefnanda og því beri að sýkna af kröfu stefnanda vegna fjártjóns.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda vegna fjártjóns verði stórkostlega lækkaðar með hliðsjón af því sem rakið hafi verið. Þá sé viðmiðunartímabili mótmælt sem of löngu og staðhæfingu stefnanda um að uppsögnin hafi verið til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á starfsmöguleika hans. Sú fullyrðing sé órökstudd og í ósamræmi við ástæður fyrir uppsögn hans vegna hagræðingar í rekstri og ráðningar stefnanda hjá Seiglu ehf. frá 1. september 2011.
Varðandi kröfu stefnanda um miskabætur að fjárhæð 500.000 kr. byggi hann á því að þau atriði sem fram koma í atvikalýsingu í stefnu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn honum og valdið honum miklum miska. Þessari kröfu stefnanda um miskabætur sé eindregið vísað á bug. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðun stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993. Ákvörðun stefnda hafi verið byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum um hagræðingu í rekstri.
Til vara mótmælir stefndi miskabótakröfu sem of hárri og krefst lækkunar hennar.
Kröfu stefnanda um skaðabótavexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2011 til þingfestingardags er mótmælt þar sem með stefnu í máli þessu hafi stefnandi fyrst sett fram bótakröfur sínar.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi starfaði við kennslu sem framhaldsskólakennari við stefnda, sem er ríkisstofnun. Stéttarfélag stefnanda er Kennarasamband Íslands sem fellur undir 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefnanda var sagt upp störfum með bréfi skólameistara, dagsettu 28. apríl 2011 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Um réttindi og skyldur starfsmanna stefnda fer eftir lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að honum hafi á ólögmætan hátt verið sagt upp starfi sem framhaldsskólakennari við stefnda. Uppsögnin verði ekki réttlætt með aðhaldsaðgerðum enda hafi stefnandi sem trúnaðarmaður átt að sitja fyrir um vinnu við fækkun starfsmanna. Þá hafi verið fráleitt að segja upp stefnanda, sem hafi réttindi sem framhaldsskólakennari, þegar fyrir liggi að stefndi auglýsti um sama leyti eftir kennara við sömu deild og hafi þá endurráðið leiðbeinanda sem ekki hafði slík réttindi. Þannig hafi stefndi virt að vettugi ákvæði 19. gr. laga nr. 87/2008. Þá verði ekki litið svo á að stefnandi hafi hætt að uppfylla menntunarkröfur til kennslustarfa sem hann hafi sinnt. Stefndi hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar með uppsögn sinni án málefnalegrar ástæðu, án þess að hæfnismat hafi verið gert og einnig hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Með þessu hafi stefndi bakað sér tjón, sem stefndi beri ábyrgð á og valdið sér miska.
Stefnanda var sagt upp starfi með þeim fyrirvara sem mælt er fyrir um í ráðningarsamningi hans. Í rökstuðningi skólameistara fyrir uppsögninni í bréfum dags. 10. maí 2011 og 7. júní 2011 kemur fram að uppsögnin hafi verið liður í endurskipulagningu vegna krafna ríkisvaldsins um hagræðingu í rekstri stefnda, til að mæta skertum fjárframlögum og fækkun nemenda og til að laga kennslu og áfangaframboð að breyttum aðstæðum. Þá hafi gæðakerfið ISO 9001 verið innleitt hjá stefnda til þess að uppfylla kröfur alþjóðasamþykktar sem samþykkt var með ákvörðun Alþjóða siglingamálastofnunar, sbr. lög nr. 76/2001 og reglugerð 416/2003 með áorðnum breytingum. Skv. 3. gr. reglugerðarinnar skuli nám í sjómannaskólum fullnægja ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar að því er varðar námsefni, hæfi kennara og fleira. Til þess að uppfylla þessar kröfur í því skyni að geta boðið upp á fullnaðarnám í vélstjórn hafi gæðakerfið ISO 9001 verið innleitt hjá stefnda 2007. Þetta hafi verið nauðsynlegt til að stefndi gæti gefið út brautskráningarskírteini sem veiti alþjóðleg réttindi í vélstjórn. Stefnandi uppfyllti ekki þær menntunarkröfur sem gerðar voru samkvæmt gæðakerfinu eins og rakið er hér að framan og á undanförnum önnun hafi verið erfitt að finna kennslu fyrir stefnanda og jafnvel teknar upp námsgreinar sem ekki voru á námskrá til þess að skapa honum verkefni svo að uppfylla mætti kennsluskyldu hans. Áður en ákveðið var hverjum ætti að segja upp, hafi verið farið vel yfir menntun og fyrri störf allra kennara sem kenna málm- og véltæknigreinar. Einn kennara hafi haft sömu menntun og stefnandi, Gunnlaugur Björnsson. Gert hafi verið hæfnismat á þeim. Gunnlaugur hafi verið metinn stefnanda fremri. Gunnlaugur hafi haft sambærilega menntun og stefnandi, en haft réttindi í tækniteiknum umfram stefnanda, mun lengri kennsluferil og verið deildarstjóri. Allir aðrir kennarar hjá stefnda í þessari kennslu hafi verið með full vélstjórnarréttindi og stefnandi hafi haft minnstan sveigjanleika til að kenna í báðum deildum eftir að þær höfðu verið sameinaðar. Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu.
Telja verður að ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp hafi ráðist af þeim atriðum sem rakin eru í rökstuðningi í bréfum skólameistara og fram koma í vitnisburði þeirra Baldvins Ringsted og Garðars Lárussonar. Varðandi þá málsástæðu að stefndi hafi virt að vettugi ákvæði 19. gr. laga nr. 87/2008 með ráðningu kennara í stöðu sem auglýst var um sama leyti og stefnanda var sagt upp liggur fyrir að stefnandi uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru til þeirra kennslu sem auglýsingin tók til. Staðan hafði ítrekað verið auglýst og enginn sótt um hana. Stefndi hafi fengið undanþágu skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2007 til ráðningar viðkomandi kennara. Þá sótti stefnandi ekki um stöðuna.
Þá byggir stefnandi á því að óheimilt hafi verið að segja sér upp þar sem hann hafi sem trúnaðarmaður átt að sitja fyrir um vinnu við fækkun starfsmanna. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um kjarasamninga opinberra starfsmanna skal trúnaðarmaður í engu gjalda þess að hafa valist til þessa trúnaðarstarfs. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skuli hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda starfinu. Samsvarandi ákvæði er í 11. gr. laga nr. 80/1980 um stéttarfélög og vinnudeilur. Reglur þær sem gilda um trúnaðarmenn eru settar til að tryggja að trúnaðarmaður geti sinnt trúnaðarmannaskyldum sínum án þess að eiga það á hættu að vera sagt upp vegna þeirra. Óumdeilt er í máli þessu að uppsögn stefnanda tengdist ekki með neinum hætti starfi hans sem trúnaðarmanns. Samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið litið svo á að trúnaðarmanni eigi ekki að segja upp við fækkun starfsmanna nema vinnuveitandi sýni fram á ríkar ástæður fyrir þeirri ákvörðun.
Telja verður að ríkar ástæður hafi legið að baki þeirrar ákvörðunar stefnda um að segja stefnanda upp störfum og hafi ákvörðunin verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum sem rakin hafa verið. Braut stefndi því ekki gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins með uppsögninni. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins, en eins og fram hefur komið hér að framan hafði stefndi gripið til ýmissa sparnaðaraðgerða áður en til uppsagnar stefnanda kom. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist. Aðilar og dómari telja hins vegar ekki þörf á endurflytja málið.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Verkmenntaskólinn á Akureyri, skal vera sýkn af kröfum stefnanda Ólafs Kjartanssonar. Hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
.