Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-15

A (Gunnhildur Pétursdóttir lögmaður)
gegn
B (Halldór Kr. Þorsteinsson lögmaður) og barnaverndarþjónustu C (Árni Ármann Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Börn
  • Innsetningargerð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Haagsamningurinn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 31. janúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. janúar 2023 í máli nr. 813/2022: A gegn B og til réttargæslu barnaverndarþjónustu C. Gagnaðili leggst gegn beiðninni en barnaverndarþjónusta C tekur ekki afstöðu til hennar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að börn aðila verði tekin úr umráðum leyfisbeiðanda með beinni aðfarargerð og afhent sér.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila. Leyfisbeiðandi gerði kröfu um frávísun málsins á þeim grundvelli að kröfu gagnaðila hefði ekki verið beint að réttum aðila þar sem börnin hefðu verið vistuð hjá honum á grundvelli ákvörðunar fjölskyldunefndar C sem hefði verið staðfest með úrskurði héraðsdóms. Landsréttur tók fram að rétturinn hefði með úrskurði 20. janúar 2023 í máli nr. 751/2022 komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun fjölskyldunefndar C hefði stangast á við 1. mgr. 20. gr. laga nr. 160/1995 um fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. og þar með skort lagastoð. Var úrskurður héraðsdóms um að hafna frávísunarkröfu leyfisbeiðanda því staðfestur. Landsréttur féllst á að leyfisbeiðandi héldi börnunum í andstöðu við 2. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995. Þá taldi rétturinn ekki unnt að slá því föstu að andstætt væri hagsmunum barnanna að þau færu aftur til gagnaðila sem hefði forsjá þeirra. Það var mat Landsréttar að viðhlítandi gögn lægju fyrir svo unnt væri að taka afstöðu til kröfu gagnaðila um afhendingu barnanna samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995. Var ekki talið unnt að draga þá ályktun af gögnunum að alvarleg hætta væri á að afhending barnanna til gagnaðila myndi skaða þau andlega eða líkamlega eða koma þeim á annan hátt í óbærilega stöðu, sbr. 2. tölulið 12. gr. sömu laga. Því yrði heldur ekki slegið föstu að afhending barnanna væri ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda, sbr. 4. tölulið sömu lagagreinar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann einkum til þess að mikilvægt sé að Hæstiréttur fjalli um hvort rétt hafi verið að beina kröfu um afhendingu barnanna að sér þegar fyrir lægi að fjölskyldunefnd C hefði ákveðið að vista börnin með ákvörðun á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Áður en aðfararbeiðnin kom fram hafi börnin því verið vistuð af barnavernd sem eftir það hafi farið með allt ákvörðunarvald um málefni barnanna og leyfisbeiðandi einungis verið vistunaraðili samkvæmt ákvörðun barnaverndar. Af þessu leiði jafnframt að sú niðurstaða Landsréttar að leyfisbeiðandi haldi börnunum í andstöðu við 2. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995 hljóti að vera röng. Leyfisbeiðandi byggir á því að ofbeldi af hálfu gagnaðila hafi hvorki verið rannsakað nægilega né aðstæður barnanna í búseturíki. Leyfisbeiðandi byggir auk þess á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng þar sem hún sé reist á fölsuðum sönnunargögnum sem varði grundvallaratriði í málinu. Eftir uppkvaðningu úrskurðar Landsréttar hafi leyfisbeiðandi áttað sig á að munur var á frumriti forsjármats sem unnið var á […] og þeirri útgáfu skjalsins ásamt þýðingu sem lögð hafi verið fram í málinu.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Í því sambandi ræður ekki úrslitum staðhæfing leyfisbeiðanda um fölsun á tilteknum gögnum. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðninni er því hafnað.