Hæstiréttur íslands

Mál nr. 722/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)
gegn
X (Úlfar Guðmundsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Fallist var á kröfu lögreglustjóra um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um háttsemi sem varðað getur fangelsisrefsingu. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2016.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember 2016 og að honum verði gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stendur.

                Í greinargerð með kröfunni segir að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi undanfarið haft til rannsóknar innflutning kærða á ætluðum ávana- og fíkniefnum. Hinn 6. október 2016 hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um afskipti af kærða á tollhliði vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni  fórum sínum. Hafi kærði verið að koma með flugi [...] frá [...].

                Hafi kærði verið færður í leitaraðstöðu tollgæslunnar þar sem leit hafi verið framkvæmd. Hafi vaknað grunur um að hann kynni að hafa fíkniefni í farangri sínum og hafi kærði greint frá því að hann væri með 500-600 g af kókaíni falin í farangri sínum. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann hafi verið vistaður á lögreglustöð.

                Rannsókn máls þessa standi enn yfir og taki mið af því að kærði hafi flutt töluvert magn ætlaðra ávana- og fíkniefni hingað til lands og að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar.

Að mati lögreglu hafi framburður kærða verið í megindráttum ótrúverðugur um veigamikil atriði. Kærði hafi fyrst verið yfirheyrður fimmtudaginn 6. október sl. Í þeirri yfirheyrslu hafi hann mestmegnis neitað að tjá sig um sakarefnið utan þeirra atriða sem þegar höfðu komið fram. Aðspurður um aðdraganda þess að hann fór í ferðina hafi kærði neitað að tjá sig. Hann kvaðst hafa skipulagt ferðina sjálfur og verið einn á ferð. Hann hefði sjálfur bókað farmiðana í gegnum tölvu heima hjá sér, en ekki muna hvað hann greiddi fyrir farmiðana. Hann kvaðst hafa farið út til [...] um hálfum mánuði áður en hann kom heim. Þar hefði hann gist á hótelum, en neitaði að gefa upp hvaða hótel það væru né vildi hann tjá sig um hvað hann hefði á annað borð gert í ferðinni. Um flutninginn á fíkniefnunum hingað til lands kvaðst kærði hafa geymt þau í ferðatösku sem hann ætti sjálfur. Fíkniefnin hefðu verið í litlum kubbaeiningum og hefði verið komið fyrir í litlum smokkum og í plastdósum. Kærði hafi neitað að tjá sig um kaupin á fíkniefnunum og fjármögnun þeirra. Í skýrslutöku hinn 18. október hafi lítið nýtt komið fram í framburði kærða til upplýsingar í málinu annað en að hann hafi breytt framburði sínum á þann hátt að hann hefði ekki farið í ferðina á eigin vegum. Þá hafi hann jafnframt neitað að upplýsa um hver hefði verið í vitorði með honum og kvaðst ekki vita hver hefði átt að móttaka fíkniefnin.

                Kærði hafi neitað lögreglu um heimild til húsleitar á heimili hans svo og um bankaupplýsingar og farsímanotkun. Lögregla hafi aflað dómsúrskurðar um heimild til húsleitar og um skoðun á bankareikningum og fjarskiptagögnum í kjölfar neitunar kærða á heimild þar um. Hafi húsleit farið fram á heimili kærða í kjölfarið og hafi þar verið m.a. haldlögð tölva, ásamt fleiri munum, auk þess sem lögreglu hafi nýverið borist gögn í tengslum við öflun upplýsinga um fjármál kærða og fjarskipti. Hafi rannsóknin nú þegar leitt í ljós að kærði hafi frá því í vor tvívegis farið til [...] og [...] og telji lögregla að þær ferðir tengist skipulögðum innflutningi ávana- og fíkniefna.

                Á þessum tímapunkti beinist rannsóknin lögreglu m.a. að því að upplýsa um tengsl kærða við vitorðsmenn hér á landi og erlendis. Telji lögregla einsýnt að kærði hafi ekki staðið einn að innflutningi á því magni ætlaðra fíkniefna sem um ræði. Þá beinist rannsóknin að því að rannsaka nánar skipulagningu og hlutverk kærða í innflutningnum, aðdraganda hans og loks fjármögnun ferðarinnar hingað til lands. Lögregla telji sig þurfa svigrúm til að vinna nánar úr þeim gögnum sem hún hefur undir höndum og upplýst geta um framangreind atriði. Sé því nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi og í ljósi þess sem fram hefur komið sé að sama skapi nauðsynlegt að honum verði gert að sæta einangrun.

Verið sé að rannsaka innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Að mati lögreglustjóra séu lagaskilyrði uppfyllt fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar. Megi ætla að kærði kunni að torvelda áframhaldandi rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Að sama skapi sé hætta á að kærði kunni að verða beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hann, af hendi samverkamanna hér á landi eða erlendis, gangi hann laus.

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember 2016, klukkan 16.

                Þess sé einnig krafist að kærða verði gert að sæta einangrun, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan gæsluvarðhaldi stendur með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna.

Kærði hefur mótmælt kröfunni og hefur krafist þess aðallega að henni verði hafnað, til vara að kærða verði gert að sæta vægari úrræðum eins og farbanni eða vistun á sjúkrahúsi, en til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist sé.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Rannsókn málsins stendur enn yfir og beinist hún m.a. að því að upplýsa um tengsl kærða við vitorðsmenn hér á landi og erlendis. Má ætla að kærði kunni að torvelda áframhaldandi rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka eða vitni gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga til að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða og að hann sæti einangrun meðan á því stendur, allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember 2016, klukkan 16.

Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.