Hæstiréttur íslands
Mál nr. 719/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 7. janúar 2010. |
|
Nr. 719/2009. |
Símvirkinn ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem mál L gegn S hafði verið fellt niður með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. S var gert að greiða L kærumálskostnað, en við ákvörðun hans var tekið tillit til þess að kæra S var algjörlega að ófyrirsynju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2009, þar sem fellt var niður mál varnaraðila gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kæra sóknaraðila er algjörlega að ófyrirsynju.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Símvirkinn ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 17. nóvember sl., var þingfest 30. október sl.
Dómkrafa gerðarbeiðanda í aðfararbeiðni var á þann veg, að bifreiðin Ford F350 með fastanúmeri MT-841 árgerð 2004 yrði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda.
Í greinargerð krafðist gerðarþoli þess að hafnað yrði með úrskurði að gerðin næði fram að ganga. Til vara var þess krafist að gerðinni yrði frestað þar til niðurstaða æðri dóms lægi fyrir. Í báðum tilvikum krafðist gerðarþoli málskostnaðar.
Við þingfestingu málsins 30. október sl. mótmælti gerðarþoli kröfu gerðarbeiðanda með vísan til þess að það ríkti óvissa um lögmæti þess samnings, sem lægi fyrir, í fyrsta lagi þegar til hans var stofnað auk þess sem fyrir lægi forsendubrestur jafnvel þótt talið yrði að samningurinn hefði verið lögmætur í upphafi. Þá var jafnframt byggt á ákvæðum 36. gr. samningalaga. Fór gerðarþoli fram á frest til þess að leggja fram greinargerð og var sá frestur veittur til 17. nóvember sl. Þann 9. nóvember sl. barst dómara málsins og lögmanni gerðarþola tölvupóstur frá lögmanni gerðarbeiðanda þar sem upplýst var að gerðarbeiðandi hefði endurheimt bifreiðina Ford F350 með fastanúmerinu MT-841. Af þeim sökum var óskað eftir niðurfellingu málsins.
Við fyrirtöku málsins 17. nóvember sl. lýsti lögmaður gerðarbeiðanda því yfir að gerðarbeiðandi afturkallaði kröfu sína í málinu og óskaði eftir því að málið yrði fellt niður. Af hálfu gerðarþola var því mótmælt að málið yrði fellt niður og þess krafist að dómari tæki kröfu gerðarbeiðanda til efnislegrar úrlausnar þar sem gerðarþoli hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn í málinu við þessar sérstöku og óvæntu aðstæður þegar fyrir lægi að gerðarbeiðandi, sem væri fjármálafyrirtæki og með starfsleyfi sem slíkt, hefði einhliða tekið sér þann rétt sem var til efnisúrlausnar undir rekstri málsins. Gerðarbeiðandi mótmælti málskostnaðarkröfu gerðarþola sérstaklega.
Í 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför segir að beita skuli almennum reglum um meðferð einkamála um mál samkvæmt 13. kafla laganna sem fjallar um meðferð aðfararmála fyrir héraðsdómi. Eins og rakið er hér að framan óskaði gerðarbeiðandi eftir því að málið yrði fellt niður þar sem hann hefði endurheimt bifreiðina, sem hann hafði krafist innsetningar í. Samkvæmt greinargerð gerðarþola var það aðalkrafa hans að innsetningarkröfu gerðarbeiðanda yrði hafnað. Af hálfu gerðarþola hefur því allt að einu verið haldið fram, að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn í málinu. Þeir hagsmunir hafa hins vegar ekki verið skýrðir frekar. Þegar litið er til kröfugerðar gerðarbeiðanda í aðfararbeiðni annars vegar og kröfugerðar gerðarþola í greinargerð hins vegar, sem áður eru raktar, virðist ljóst að með afturköllun á kröfu gerðarbeiðanda og niðurfellingu málsins hafi í raun verið uppfyllt aðalkrafa gerðarþola í greinargerð. Verður því ekki séð að gerðarþoli hafi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn í málinu. Verður málið því fellt niður með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kemur þá til úrlausnar krafa gerðarþola um málskostnað. Gerðarþoli hefur lagt fram ódagsetta greinargerð ásamt frekari gögnum og hefur haldið því fram að greinargerðin hafi verið unnin áður en tölvupóstur barst frá lögmanni gerðarbeiðanda 9. nóvember sl. um afturköllun innsetningarkröfunnar. Er það niðurstaða dómsins að beita beri meginreglu 130. gr. laga nr. 91/1991 við úrlausn á ágreiningi aðila um málskostnað. Samkvæmt því ber gerðarbeiðanda að greiða gerðarþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Mál þetta er fellt niður.
Gerðarbeiðandi, Lýsing hf., greiði gerðarþola, Símvirkjanum ehf., 100.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, í málskostnað.