Hæstiréttur íslands

Mál nr. 455/2006


Lykilorð

  • Skattur
  • Lögskýring


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2007.

Nr. 455/2006.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

(Karl Axelsson hrl.

 Ragnheiður M. Ólafsdóttir hdl.)

og gagnsök

 

Skattar. Lögskýring.

Deilt var um hvort breyting á 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, sem gerð var með 3. gr. laga nr. 78/2001, hafi undanþegið O skyldu til að greiða skatt af fjármagnstekjum sem felld hafði verið á hann með breytingu á 72. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að þeir aðilar sem tilgreindir voru í 80. gr. orkulaga eins og hún hljóðaði í upphafi, hafi notið skattfrelsis allt frá gildistöku laga nr. 75/1981. Með 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 97/1996, hafi þeim aðilum sem tilgreindir voru í 80. gr. orkulaga, þó verið gert að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum. Með þeirri breytingu á 80. gr. orkulaga, sem gerð var með 3. gr. laga nr. 78/2001, var mælt fyrir um að sömu reglur og fyrir voru í greininni skyldu jafnframt gilda um hitaveitu og rafveitur, sem fullnægðu nánar tilteknum skilyrðum, en óumdeilt er að O féll þar undir. Var því ljóst að á O hvíldi skylda til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Var kröfu O um endurgreiðslu vegna fjármagnstekjuskatt sem O hafði þegar innt af hendi því hafnað.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2006 og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður þá felldur niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. október 2006. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 22.517.418 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. desember 2002 til 16. mars 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu á 22.517.418 krónum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. mars til 16. mars 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann sömu fjárhæðar með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. mars 2004 til 1. júní 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ella krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í öllum tilvikum í héraði og fyrir Hæstarétti.

Í málinu deila aðilarnir um hvort breyting á 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, sem gerð var með 3. gr. laga nr. 78/2001, hafi undanþegið gagnáfrýjanda skyldu til að greiða skatt af fjármagnstekjum, sem felld hafði verið á hann með breytingu á 72. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sem gerð var með 10. gr. laga nr. 97/1996. Verði gagnáfrýjandi talinn njóta þeirrar undanþágu greinir aðilana á um fjárhæð endurgreiðslukröfu hans vegna fjármagnstekjuskatts fyrir árið 2002, sem hann hafi greitt vegna starfsemi sinnar, sem sneri að rekstri hitaveitu og rafmagnsveitu.

Í 4. gr. laga nr. 75/1981 voru taldir upp aðilar, sem hvorki var gert að greiða tekjuskatt né eignarskatt. Í 7. tölulið 4. gr. voru í þessu sambandi nefndir þeir, sem undanþegnir væru skattskyldu með sérstökum lögum. Við gildistöku laga nr. 75/1981 var svohljóðandi ákvæði í 77. gr. orkulaga, sem síðar varð 80. gr. þeirra með 2. gr. laga nr. 53/1985: „Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins, Orkusjóður og jarðboranir ríkisins eru undanþegin tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sveitar- og bæjarfélaga.“ Fyrrnefndur 7. töluliður 4. gr. laga nr. 75/1981 tók eftir orðum sínum meðal annars til þessara orkufyrirtækja og stofnana, sem nutu samkvæmt því skattfrelsis.

Með 10. gr. laga nr. 97/1996 var tveimur nýjum málsgreinum bætt í 72. gr. laga nr. 75/1981 og mælt þar fyrir um að lögaðilum, sem undanþegnir væru greiðslu tekjuskatts og eignarskatts á grundvelli 2., 3., 5., 6., og 7. töluliðar 4. gr. laganna, væri þrátt fyrir það skylt að greiða tekjuskatt af nánar tilgreindum fjármagnstekjum. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 97/1996, sagði meðal annars um 10. gr. að þar væri áformuð veruleg útvíkkun skattskyldu þannig að lögaðilar, sem fram að því hafi verið skattfrjálsir, myndu greiða 10% skatt af fjármagnstekjum sínum eins og einstaklingar utan rekstrar. Ákvæðið næði til ríkissjóðs, ríkisstofnana og fyrirtækja, sem ríkissjóður ræki og bæri ótakmarkaða ábyrgð á, og til sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana, sem þau rækju og bæru ótakmarkaða ábyrgð á. Í lokamálsgrein greinarinnar væru tilgreindar stofnanir, sem talið væri eðlilegt að halda utan skattskyldu, en það væru lífeyrissjóðir og stofnanir, sem hefðu atvinnu af útlánum og greiddu skatt eftir almennum lögum á því sviði. Í samræmi við þetta voru í 5. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 97/1996, sérstaklega tilgreindir þeir lögaðilar, sem undanþegnir voru greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum. Þeir, sem 80. gr. orkulaga tók á þeim tíma til, féllu ekki þar undir. Þeir voru heldur ekki á meðal þeirra, sem getið var í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og undanþegnir voru skyldu til að greiða þann skatt samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna. Féll því skylda á þá með 10. gr. laga nr. 97/1996 til að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum.

Með 3. gr. laga nr. 78/2001 var nýjum málslið bætt við fyrrgreint ákvæði 80. gr. orkulaga, svohljóðandi: „Sama á við um hitaveitur og/eða rafveitur sem hafa einkaleyfi til starfsemi sem kveðið er á um í IV. og V. kafla laga þessara.“ Í athugasemdum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 78/2001, sagði meðal annars að það væri lagt fram til þess að gera starfandi raf- og hitaveitum fært að breyta um rekstrarform án þess að slíkt hefði áhrif á skattalega stöðu þeirra. Hvergi í athugasemdunum kom fram að með viðbótinni við 80. gr. laganna hafi ætlunin verið að hrófla við reglu 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981 um skattskyldu af fjármagnstekjum.

Eins og að framan er rakið hafa þeir, sem tilgreindir voru í 80. gr. orkulaga eins og hún hljóðaði í upphafi, notið skattfrelsis allt frá gildistöku laga nr. 75/1981. Þeim var þó gert að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum með 4. mgr. 72. gr. síðastnefndra laga, eins og þeim var breytt með 10. gr. laga nr. 97/1996. Með þeirri breytingu á 80. gr. orkulaga, sem gerð var með 3. gr. laga nr. 78/2001, var mælt fyrir um að sömu reglur og fyrir voru í greininni skyldu jafnframt gilda um hitaveitur og rafveitur, sem fullnægðu nánar tilteknum skilyrðum, en óumdeilt er að gagnáfrýjandi fellur þar undir. Sömu reglur myndu ekki gilda um gagnáfrýjanda annars vegar og hins vegar fyrirtækin og stofnanirnar, sem 80. gr. orkulaga tók til fyrir gildistöku laga nr. 78/2001, ef hann nyti undanþágu frá skyldu til að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum sínum. Gagnáfrýjanda er því ekki hald í þeirri röksemd að lög nr. 78/2001 séu yngri en lög nr. 97/1996 og gangi þeim því framar. Þegar svo stendur á skiptir heldur ekki máli um lögskýringu hvort orkulög geti talist sérlög gagnvart lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Eru því engin rök til að fallast á kröfu gagnáfrýjanda og verður aðaláfrýjandi sýknaður af henni.

Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Orkuveitu Reykjavíkur.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

                                         Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. apríl sl., er höfðað  29. júní 2005. Stefnandi er Orkuveita Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Stefndi er fjármálaráðherra f.h.  íslenska ríkisins, Arnarhvoli, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda, eins og þær voru leiðréttar við aðalmeðferð málsins 25. apríl sl., eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 22.517.418 kr., sem var áður samkvæmt stefnu 22.662.507, að viðbættum vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, með síðari breytingum, af 9.567.272 kr. frá 31. desember 2002 til 9. mars 2004, af 22.517.418 kr. frá þeim degi til 16. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 22.517.418 kr., að viðbættum vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 frá 9. mars 2004 til 16. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga frá 16. mars 2004 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi gerir þá kröfu aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Orkuveita Reykjavíkur var stofnuð 1. janúar 1999 með sameiningu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem hvor um sig hafði fram til þess tíma verið rekin af og á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Ári síðar, eða 1. janúar 2000, bættist Vatnsveita Reykjavíkur við, sem eins hafði verið háttað um í rekstrarlegu tilliti.

Með lögum nr. 139/2001 var Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Borgarbyggð, Garðabæ og Borgarfjarðarsveit heimilað að stofna sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness, undir nafni Orkuveitu Reykjavíkur. Í lögunum var kveðið á um að heimili fyrirtækisins og varnarþing væri í Reykjavík, fyrirtækið væri sjálfstæður réttaraðili, með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Var fyrirtækið stofnað og eru núverandi eigendur þess Reykjavíkurborg með 93,54% eignarhlut, Akranesbær með 5,53% eignarhlut, Borgarbyggð með 0,76% eignarhlut og Borgarfjarðarsveit með 0,17% eignarhlut. 

Sem fyrirtæki í eigu, rekstri og á ábyrgð sveitarfélaga, hefur stefnandi og forverar hans notið víðtæks skattfrelsis, bæði samkvæmt almennum lögum um skatta og sérlögum sem gilt hafa um starfsemi fyrirtækjanna. Forverar stefnanda nutu  undanþágu frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts á grundvelli þágildandi 3. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og sambærilegra ákvæða í eldri lögum um sama efni, þar sem kveðið var á um skattfrelsi sýslu- og sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem þau rækju og bæru ótakmarkaða ábyrgð á.

Með lögum nr. 97/1996 um breyting á lögum nr. 75/1981, var nýjum málsgreinum bætt við 72. gr. laganna, sem urðu 3. og 4. mgr. Í 3. mgr. var mælt fyrir um að lögaðilar, sem undanþegnir væru skattskyldu samkvæmt 2., 3., 5., 6. og 7. tölulið 4. gr. laganna, skyldu þrátt fyrir það greiða 10% tekjuskatt af fjármagnstekjum, sbr. 3., 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. laganna (vextir, verðbætur, afföll, gengishagnaður, arður af hlutum og hlutabréfum, greiðslur úr samvinnufélögum og þess háttar félögum), svo og samkvæmt 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. vegna söluhagnað­ar af hlutabréfum. Í 4. mgr. voru taldir upp þeir lögaðilar sem undanþegnir voru skattskyldu samkvæmt 3. mgr. Orkufyrirtæki voru ekki talin þar upp. Lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1997. Lög nr. 75/1981 voru endurútgefin með lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er að finna nánast samhljóða ákvæði í 2. tölul. 4. gr. og 4. og 5. mgr. 71. gr. Með breytingalögum nr. 129/2004 varð heiti laga nr. 90/2003, lög um tekjuskatt.

Það leiddi af lögum nr. 97/1996 að forverar stefnanda, og síðar stefnandi eftir að hann varð til, voru taldir skyldir til að greiða skatt af tilteknum fjármagnstekjum sínum frá 1. janúar 1997, þar sem sérlög kváðu ekki á um skattfrelsi þeirra hvað þetta varðar.

Með 3. gr. laga nr. 78/2001 um breytingu á orkulögum nr. 58/1967, var nýjum málslið bætt við 80. gr. orkulaga, sem eftir breytinguna varð svohljóðandi:

Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins og jarðboranir ríkis­ins eru undanþegin tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sveitar- og bæjarfélaga. Sama á við um hitaveitur og/eða rafveitur sem hafa einka­leyfi til starfsemi sem kveðið er á um í IV. og V. kafla laga þessara.

Í byrjun árs 2003 leituðu fyrirsvarsmenn stefnanda álits borgarlögmanns um skyldu stefnanda til greiðslu opinberra gjalda. Í minnisblaði borgarlögmanns til forstjóra stefnanda, dags. 16. maí 2003, komst borgarlögmaður að þeirri niðurstöðu að stefnandi væri samkvæmt ótvíræðu ákvæði 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts, svo sem ákvæðinu hefði verið breytt á árinu 2001. Tæki undanþágan til reksturs og eigna hitaveitu og rafveitu, en aðrir þættir í rekstri stefnanda nytu ekki þessarar undanþágu.

Á grundvelli minnisblaðs borgarlögmanns fór stefnandi þess á leit við ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 31. desember 2003, að álagning opinberra gjalda stefnanda og áður Hitaveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarnes, fyrir gjaldárin 1997-2002, yrði endurupptekin og viðurkennt yrði að stefnandi og forverar hans væru undanþegnir greiðslu skatts á fjármagnstekjur sem stöfuðu frá þeim þætti í starfsemi stefnanda er laut að rekstri hitaveitu og rafmagnsveitu. Jafnframt var gerð krafa um endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts sem stefnandi og forverar hans höfðu greitt á tímabilinu, ásamt vöxtum.

Með bréfi skattstjórans í Reykjavík til stefnanda, dags. 20. febrúar 2004, var skorað á stefnanda að leggja fram greinargerð um fjármagnstekjur ársins 2002. Stefnandi lagði fram greinargerðir um fjármagnstekjur áranna 2002 og 2003. Hinn 9. mars 2004 greiddi stefnandi fjármagnstekjuskatt, með fyrirvara um endurgreiðslu.

Með bréfum stefnanda, dags. 16. mars 2004, annars vegar til skattstjórans í Reykjavík og hins vegar til ríkisskattstjóra, voru leiðréttar kröfur þær sem settar höfðu verið fram í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 31. desember 2003. Var beiðni um endurupptöku álagningar og endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts áréttuð, en einskorðuð við gjaldárin 2002-2004, auk þess sem lögð voru fram gögn frá endurskoðanda um fjármagnstekjur stefnanda þau ár og greiðslur á eftirstöðvum álagðs skatts á þær, þ.e. sem ekki hafði verið innheimtur í staðgreiðslu, en inntar höfðu verið af hendi með fyrirvara um endurgreiðslu vegna síðari tveggja áranna.

Með bréfi, dags. 2. september 2004, synjaði ríkisskattstjóri erindi stefnanda um endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts og hafnaði beiðni hans um viðurkenningu á því að hann væri undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts. Var niðurstaða ríkisskattstjóra byggð á því að þrátt fyrir að stefnandi væri almennt undanþeginn skattskyldu samkvæmt 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, sbr. og 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, þá næði sú undanþága ekki til skatts af fjármagnstekjum að því marki sem um væri að ræða tekjur samkvæmt 3., 4., 5. eða 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Með bréfi, dags. 1. júní 2005, óskaði stefnandi eftir því við fjármálaráðuneytið að það hlutaðist til um að álagður fjármagnstekjuskattur, sem stefnandi hefði greitt af fjármagnstekjum sem hann hefði haft á tímabilinu frá 15. júní 2001 til 31. desember 2004, yrði endurgreiddur stefnanda að viðbættum vöxtum. Bréfinu fylgdi samantekt endurskoðanda stefnanda um greiddar fjármagnstekjur félagsins, dags. 1. júní 2005, minnisblað borgarlögmanns og álitsgerð Lex-Nestor lögmannsstofu, dags. 6. maí 2005. Leiðrétt samantekt endurskoðanda stefnanda um greiddar fjármagnstekjur félagsins, dags. 3. júní 2005, var send fjármálaráðuneytinu með bréfi stefnanda, dags. 14. júní 2005.

Bréfi stefnanda var svarað með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 28. júní 2005, þar sem erindi stefnanda var synjað.

II.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts sem fyrirtækinu var gert að greiða vegna þess hluta starfsemi stefnanda sem sneri að rekstri hitaveitu og rafmagnsveitu á árinu 2002.

Stefnandi telur að með breytingu þeirri sem gerð var með lögum nr. 78/2001, á 1. mgr. 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, hafi skylda hans til greiðslu fjármagnstekjuskatts, sem til hafi verið stofnað með lögum nr. 97/1996 um breyting á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, fallið niður. Með breytingunni sem gerð hafi verið með lögum nr. 78/2001 sé skýrt kveðið á um að stefnandi skyldi njóta skatt­frelsis að því er tæki til tekjuskatts til ríkisins, en skattur á fjármagnstekjur falli óumdeilanlega undir það hugtak, hvað sem líði túlkun ákvæðisins að öðru leyti. Enginn fyrirvari sé gerður um það í ákvæðinu sjálfu að þau fyrirtæki sem ákvæðið taki til skuli engu að síður greiða skatt af tilteknum tekjum, þ.e. fjármagnstekjum, sbr. þágildandi 72. gr. laga nr. 75/1981, nú 71. gr. laga nr. 90/2003. Telja verði að tilefni hafi verið til slíks, ef til þess hafi verið ætlast. Samhliða þessari breytingu hafi hins vegar ekki verið gerðar breytingar á lögum nr. 75/1981, þannig að eftir standi þverstæða milli orkulaga og laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að orkulög séu sérlög gagnvart lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þau séu auk þess yngri en þau lög sem mælt hafi fyrir um skyldu skattfrjálsra aðila til að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum frá og með upphafi ársins 1997. Lög nr. 90/2003 séu endurútgáfa laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, sem sjálf hafi verið endurútgáfa laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum gangi sérlög framar almennum lögum og yngri lög framar eldri, ljósti þessum heimildum saman. Í lögunum frá 2001 hafi fyrirtækjum á borð við stefnanda verið  bætt við upptalningu þeirra sem njóta skyldu skattfrelsis samkvæmt 80. gr. orkulaga. Ljóst sé að í orði kveðnu undanþiggi orkulög stefnanda tekjuskatti eftir gildistöku laganna, þ.m.t. af fjármagns­tekjum.

Þá styður stefnandi kröfu sína ennfremur við það að Alþingi hafi sjálft talið nauðsynlegt að breyta orkulögum á árinu 2003, með setningu laga nr. 135/2003 um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði, í því skyni að árétta skyldu skattfrjálsra aðila til að greiða fasteignaskatt, með þeim orðum að ekki hafi staðið til að breyta henni árið 2001. Tilefni lagasetningar þessarar sé rakið í frumvarpinu (þskj. nr. 351), en í framsöguræðu iðnaðarráðherra á Alþingi 17. nóvember 2003 hafi m.a. komið fram, að ef frumvarpið yrði að lögum yrðu lagfærð „... mistök þau er urðu við setningu laga nr. 78/2001“ og áréttuð með lögum skylda orkufyrirtækja til að greiða fasteignaskatt, þegar tefla hafi mátt fram þeim rökum að skattskylda réðist af skýrum löggjafarvilja. Afstaða þingsins hafi verið í samræmi við viðtekin sjónarmið um að lagareglur á sviði skattaréttar eigi að vera skýrar og afdráttar­lausar og að án slíkra heimilda verði skattur ekki lagður á. Sömu sjónarmið eigi við um skyldu til greiðslu skatts á fjármagnstekjur. Orkulögin taki sjálf af tvímæli um að orku­fyrirtæki séu undanþegin tekjuskatti og nefni ekki nein frávik frá því. Það sé því eðlilegt að draga þá ályktun að lagaheimild fyrir innheimtu skatts á fjármagnstekjur stefnanda hafi fallið niður við gildistöku laga nr. 78/2001 um breytingu á orkulögum nr. 58/1967, með síðari breytingum. Lögin hafi verið birt í Stjórnartíðindum 15. júní 2001 og öðlast þegar gildi, sbr. 4. gr. laganna.

Aðalkröfu sína um vexti frá 31. desember 2002 til 16. mars 2004, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, byggir stefnandi á 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, með síðari breytingum. Í fyrri málsgrein ákvæðisins komi fram að vexti skuli greiða af ofteknum sköttum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma sem greiðsla þeirra hafi átt sér stað og þar til endurgreiðsla fari fram. Fyrir liggi að 10.806.813 krónum hafi verið haldið eftir af fjármagnstekjum stefnanda til staðgreiðslu fjármagnstekna í síðasta lagi 31. desember 2002. Þar af telur stefnandi 9.567.272 krónur vera til komnar vegna þess hluta rekstrar stefnanda sem sneri að hitaveitu og rafveitu, miðað við hlutdeild þeirra miðla í heildartekjum stefnanda. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi greitt eftirstöðvar fjármagnstekjuskatts ársins 2002 hinn 9. mars 2004. Þá sé mælt fyrir um það í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 að greiða skuli dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim tíma er gjaldandi lagði sannanlega fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda. Hinn 16. mars 2004 hafi stefnandi óskað eftir því við ríkisskattstjóra og skattstjórann í Reykjavík að álagning skatts á fjármagnstekjur hans yrði endurupptekin og sá skattur sem stefnandi hefði greitt yrði endurgreiddur.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um upphafstíma vaxta, gerir stefnandi þá kröfu að vextir verði reiknaðir af kröfufjárhæðinni allri frá 9. mars 2004 þegar eftirstöðvar hennar höfðu sannanlega verið greiddar, og til 16. mars 2004, þegar krafa hafi verið sett fram um endurgreiðslu stefnukröfunnar, en dráttarvextir verði reiknaðir af stefnufjárhæðinni frá þeim tíma og til greiðsludags.

Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003 um tekjuskatt, orkulaga nr. 58/1967, sbr. lög nr. 78/2001, laga nr. 139/2001 um stofnun sameignarfélags um Orkuveitu Reykjavíkur, laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. lög nr. 131/2002 og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

III.

Stefndi mótmælir því að stefnandi sé undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts með vísan til 1. mgr. 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, sbr. lög nr. 78/2001. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda.

Stefnandi vísar til þess að í 1., 2. og 3. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú sömu greinar laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sé kveðið á um almenna skattskyldu einstaklinga og lögaðila samkvæmt þeim lögum. Í 4. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 4. gr. laga nr. 90/2003, séu á hinn bóginn taldir upp þeir aðilar sem ekki sé gert að greiða tekjuskatt og eignarskatt. Þar á meðal séu þeir sem undanþegnir séu skattskyldu með sérstökum lögum, sbr. 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, nú 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sem  hafi tekið til þeirra orkufyrirtækja sem tilgreind hafi verið í 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, þegar við setningu laga 40/1978 um tekju- og eignarskatt

Stefndi bendir á að núgildandi stofnlög um tekjuskatt séu frá árinu 1978, en lög nr. 40/1978 hafi leyst af hólmi lög nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Lög nr. 90/2003 séu endurútgáfa laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Þrátt fyrir að aðilar, tilgreindir í 4. gr. laga um tekju- og eignarskatt, væru almennt undanþegnir greiðslu tekjuskatts og eignarskatts frá setningu laga nr. 40/1978, hafi þessum aðilum þó síðar, þ.e. með lögum nr. 97/1996 um breytingu á lögum nr. 75/1981, verið gert að greiða tekjuskatt af nánar tilgreindum fjármagnstekjum frá gildistöku sérákvæðis í 3. og 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981,  nú 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1996 sé að finna eftirfarandi skýringu á sérákvæðinu sem sé í 10. gr. breytingalaganna.

Greinin kveður á um skattlagningu félaga, sjóða og stofnana.

Fjármagnstekjur rekstraraðila falla að hinum almenna skattstofni rekstrarins. Samkvæmt núgildandi lögum er hundraðshluti sameignarfélaga 41% af tekjuskattsstofni en annarra lögaðila 33%. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi þegar um rekstur og almenna skattskyldu er að ræða.

Hins vegar er áformuð samkvæmt þessari grein frumvarpsins veruleg útvíkkun skattskyldu þannig að lögaðilar, stofnanir og félög sem hingað til hafa verið skattfrjáls greiði 10% skatt af fjármagnstekjum sínum eins og einstaklingar utan rekstrar.

Ákvæðið nær til ríkissjóðs, ríkisstofnana og fyrirtækja sem ríkissjóður rekur og ber ótakmarkaða ábyrgð á og til sýslu- og sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem þau reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á. Sama gildir um félög, sjóði og stofnanir sem starfa að almannaheillum eða eru ekki reknar í atvinnuskyni og loks aðila sem eru undanþegnir samkvæmt sérlögum.

Þessum aðilum verður ekki gert að skila skattframtölum og er áformað að staðgreiðsla skatts af vöxtum og arði verði ígildi lokaálagningar, sbr. frumvarp um staðgreiðslu fjármagnstekna.

Í lokamálsgrein greinarinnar eru tilgreindar stofnanir sem talið er eðlilegt að halda alfarið utan skattskyldu. Er þar um að ræða lífeyrissjóði og stofnanir sem atvinnu hafa af útlánum og greiða skatt í samræmi við almenn lög á því sviði.

Hin víðtæka skylda til að greiða fjármagnstekjuskatt af nánar tilgreindum tekjum, sbr. 3. og 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, hafi þó verið afmörkuð nánar með því að tilgreina sérstaklega í 5. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 5. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, þá aðila sem undanþegnir væru greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum samkvæmt tilvitnuðu sérákvæði 4. mgr.  Þeir aðilar sem tilgreindir séu í 80. gr. orkulaga, falli ekki undir sérstaka upptalningu 5. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 5. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003.

Stefndi vísar til þess að samhliða breytingum með lögum nr. 97/1996 og í tengslum við þau hafi verið sett lög nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.  Í 1. mgr. 2. gr. þeirra laga sé kveðið á um hverjir séu skyldugir til að greiða skatt og sæta innheimtu í staðgreiðslu samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. 2. gr. segi m.a. að greiðsluskylda samkvæmt ákvæðinu taki til þeirra lögaðila sem undanþegnir séu skattskyldu samkvæmt 2., 3., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, nú 4. gr. laga nr. 90/2003. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996 séu tilgreindir þeir sem undanþegnir séu skyldu samkvæmt 1. mgr. 2. gr. Þeir aðilar sem taldir séu upp í 80. gr. orkulaga séu ekki þar á meðal.

Stefndi vísar til þess að í 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sé tekið fram að rafmagn, varmi og önnur orka, teljist til skattskyldra vara í skilningi laganna. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og skila honum í ríkissjóð hvíli á þeim aðilum sem taldir séu upp í 3. gr. laganna. Í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. sé sérstaklega kveðið á um skattskyldu opinberra orku- og veitufyrirtækja. Um skattskyldu þeirra sé nánar fjallað í reglugerð nr. 248/1990 um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að með breytingu þeirri sem gerð hafi verið með lögum nr. 78/2001, á 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, hafi skylda Orkuveitu Reykjavíkur til greiðslu fjármagnstekjuskatts fallið niður.

Að mati stefnda ganga framar yngri ákvæði skattalaga, sem vísað sé til hér að framan, og kveði á um skattskyldu sömu aðila. Meðal þeirra sé 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, sem kveði á um að aðilar sem falli undir 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, séu skattskyldir af fjármagnstekjum við þær aðstæður sem tilgreindar séu í ákvæðinu. Sú sérregla hafi verið lögfest með 10. gr. laga nr. 97/1996 um breyting á lögum nr. 75/1981. Hún sé því yngri en efnisákvæði 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, enda hafi 3. gr. laga nr. 78/2001 um breytingu á orkulögum ekki breytt efnisinntaki undanþágunnar sem þar sé mælt fyrir um, heldur hafi með því verið fjölgað þeim aðilum sem undir ákvæði 80. gr. orkulaga falli. Fyrir breytinguna hafi undanþáguákvæði 80. gr. orkulaga tekið til Orkustofnunar, Rafmagnsveitu ríkisins, Rafmagnseftirlits ríkisins og jarðborana ríkisins. Með breytingunni hafi hitaveitur og/eða rafveitur, sem einkaleyfi hafi haft til reksturs slíkra veitna, verið felldar undir undanþáguákvæðið. Við túlkun 3. gr. laga nr. 78/2001, verði ekki litið fram hjá því að í greinargerð með frumvarpinu, sem varð að þeim lögum, sé ekki vikið að því einu orði að tilgangur laganna hafi verið sá að hrófla við þeirri sérreglu um skattskyldu af fjármagnstekjum sem felist í 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 71. gr. laga nr. 90/2003. Þvert á móti komi fram að frumvarpið hafi verið lagt fram til að gera starfandi raf- og hitaveitum mögulegt að breyta um rekstrarform án þess að slíkt hefði áhrif á skattalega stöðu þeirra. Af því verði ráðið að löggjafinn hafi ekki viljað breyta efnisinnihaldi undanþágunnar, heldur aðeins að hafa áhrif á rekstararform hennar. Stefndi telur því að stefnandi sé ekki undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Stefndi mótmælir því að orkulög séu sérlög gagnvart lögum um tekju- og eignarskatt sem eigi að ganga framar þeim síðarnefndu.

Stefndi telur að ekki sé nægileg grein gerð fyrir útreikningi kröfu í stefnu. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda.

Stefndi vísar í fyrsta lagi til þess að stefnandi byggi fjárhæð kröfu sinnar í fyrsta lagi á því að hann hafi hinn 9. mars 2004 staðið ríkissjóði skil á fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 14.628.642 kr., af vaxtatekjum ársins 2002, er ekki sættu afdrætti skatts í staðgreiðslu. Greiðsla þessi sé hins vegar aðeins hluti af kröfu stefnanda.

Í öðru lagi bendir stefndi á að fjárkrafa stefnanda sé byggð á því að hann hafi á árinu 2002 sætt afdrætti fjármagnstekjuskatts í staðgreiðslu að fjárhæð 10.806.813 kr.  Þar af telji stefnandi 9.567.272 krónur vera til komnar vegna þess hluta rekstrar hans sem sneri að hitaveitu og rafveitu, miðað við hlutdeild þeirra miðla í heildartekjum stefnanda. Stefndi telur sig ekki hafa forsendur til að meta réttmæti þessa þáttar kröfunnar og mótmælir þessu sem ósönnuðu, enda sé fjármálastofnunum ekki gert að standa skattayfirvöldum skil á upplýsingum um afdregna staðgreiðslu af vaxtatekjum, sundurliðuðum eftir gjaldendum. Stefndi telur því að þessi liður sé ósannaður með öllu, en stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að umrædd fjárhæð hafi verið greidd eða dregin af stefnanda. Þau gögn sem fyrir liggi í málinu sanni ekki greiðslu framangreindrar fjárhæðar.

Í þriðja lagi vísar stefndi til þess að stefnandi byggi fjárkröfuna á því að hluti þess skatts sem hann hafi greitt sé vegna fjármagnstekna sem fallið hafi til í rekstri hans á vatnsveitu, en stefnandi geri ekki kröfu um endurgreiðslu þess hluta skattsins.  Ósamræmi sé í framlögðum gögnum varðandi það hve hárri fjárhæð þessi hlutur vatnsveitunnar nemi. Í bréfi Deloitte hf., dags. 1. júní 2005, sé hlutur vatnsveitunnar sagður 2.772.948 kr., en hlutur raf- og hitaveitu 22.662.507 kr. sem sé í samræmi við kröfugerð í stefnu. Í bréfi Deloitte hf., dags. 3. júní 2005, sé hlutur vatnsveitunnar sagður 2.918.037 kr., en hlutur raf- og hitaveitu 22.517.418 kr. Samkvæmt því sem fram komi í bréfi lögmannsstofunnar Lex Nestor ehf. til fjármálaráðuneytisins, dags. 14. júní 2005, feli síðarnefndu tölurnar í sér leiðréttingu á hinum fyrrnefndu. Af því megi draga þá ályktun að stefnufjárhæð sé röng. Stefndi telur sig ekki hafa forsendur til að meta réttmæti skiptingar fjármagnstekjuskatts eftir því hvort tekjurnar varða rekstur vatns-, raf- eða hitaveitu stefnanda, en stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir kröfugerð sinni.

Við munnlegan flutning málsins lagfærði lögmaður stefnanda kröfugerðina og lækkaði hana úr 22.662.507 kr. í 22.517.418 kr.

Stefndi telur fráleitt að miða upphafstíma vaxta við þær dagsetningar sem fram koma í dómkröfum stefnanda. Þess er krafist að vextir reiknist fyrst frá þingfestingu málsins. Verði ekki á það fallist bendir stefndi á að ósannað sé að dregið hafi verið af stefnanda eins og að framan greinir í lok ársins 2002. Ekki sé að sjá að óskað hafi verið eftir endurgreiðslu fyrr en með bréfi, dags. 16. apríl 2004, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 skuli ekki reikna dráttarvexti fyrr en gjaldandi lagði sannanlega fram kröfu um endurgreiðslu.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki tæmt þær leiðir í stjórnsýslunni sem honum hafi verið tækar.

Vegna varakröfu er vísað til sömu sjónarmiða og fram koma varðandi aðalkröfu.

Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Í málinu er þess krafist að stefnanda verði endurgreiddur sá fjármagnstekjuskattur sem honum var gert að greiða vegna þess hluta starfsemi hans sem snýr að rekstri hitaveitu og rafmagnsveitu á árinu 2002. Það að stefnandi hafi ekki tæmt kæruleiðir á stjórnsýslustigi girðir ekki fyrir það að hann geti borið málið undir dómstóla.

Stefnandi og forverar hans hafa notið undanþágu skattskyldu vegna tekjuskatts og eignarskatts á grundvelli 3. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, nú 2. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Með lögum nr. 97/1996 um breyting á lögum nr. 75/1981, sem tóku gildi 1. janúar 1997, var tekin upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga. Með 10. gr. laga nr. 97/1996, sem bætti tveimur nýjum málsgreinum við 72. gr. laga nr. 75/1981, er urðu 3. og 4. mgr., var fjármagnstekjuskattur hins vegar einnig látinn ná til lögaðila sem undanþegnir voru skattskyldu. Samkvæmt 4. mgr. voru þeir lögaðilar, sem gert var skylt að svara fjármagnstekjuskatti, m.a. sýslu- og sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir sem þau ráku og báru ótakmarkaða ábyrgð á. Þá voru taldir upp þeir aðilar sem undanþegnir voru ákvæðum um skyldu til greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum. Var þar um að ræða lífeyrissjóði og stofnanir sem atvinnu höfðu af útlánum. Voru orkufyrirtæki ekki talin þar upp. Samhljóða ákvæði er nú í 71. gr. laga nr. 90/2003. Í lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sem kveða á um þær reglur sem gilda um staðgreiðsluskil skatts á fjármagnstekjur, er að finna sambærilegt ákvæði, sbr. 2. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 78/2001, eru Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins og jarðboranir ríkisins undanþegin tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sveitar- og bæjarfélaga. Sama á við um hitaveitur og/eða rafveitur sem hafa einkaleyfi til starfsemi sem kveðið er á um í IV. og V. kafla laganna.

Í greinargerð með lögum nr. 78/2001 segir að skipuð hafi verið nefnd til að gera heildarendurskoðun á skattalegu umhverfi orkufyrirtækja og séu því ekki lagðar til frekari breytingar á orkulögum. Gerð var breyting á 80. gr. orkulaga með lögum nr. 135/2003 um breyting á ýmsum lögum á orkusviði. Í greinargerð með þeim lögum segir að breytingar með lögum nr. 78/2001 hafi verið víðtækari en að hafi verið stefnt, þannig að raf- og hitaveitur hafi með þeim verið undanþegnar greiðslu fasteignaskatts. Var því nýrri málsgrein bætt við 80. gr. orkulaga um skyldu orkufyrirtækja til greiðslu fasteignaskatts. Ekkert var tekið fram um að annars konar skattur ætti einnig að vera undanskilinn undanþágu um skattskyldu, s.s. fjármagnstekjuskattur.

Með lögum nr. 50/2005 um skattskyldu orkufyrirtækja hafa verið felldar niður undanþágur orkufyrirtækja frá skattskyldu samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003. Skattskyldan tekur til allra orkufyrirtækja þrátt fyrir undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003. Lögin koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2007 vegna tekna á árinu 2006 og eigna í lok þess árs. Þá er með lögum nr. 65/2005 um breyting á ýmsum lögum á orkusviði, sem tóku gildi 31. desember 2005, felld niður ákvæði í sérlögum um einstök orkufyrirtæki sem undanþiggja þau frá slíkri skattskyldu, þ. á m. 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Eins og rakið hefur verið var stefnanda samkvæmt lögum nr. 97/1996, er breyttu lögum nr. 75/1981, skylt að svara fjármagnstekjuskatti. Með lögum nr. 78/2001, er breyttu 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, var stefnandi hins vegar undanþeginn tekjuskatti. Ljóst er að 80. gr. orkulaga varð með þeirri breytingu víðtækari en að var stefnt, eins og fram kemur í greinargerð með breytingalögum nr. 135/2003 vegna fasteignaskatts. Það er hins vegar á forræði löggjafarvaldsins að bæta þar úr. Nauðsynlegt er að skattaákvæði séu ótvíræð enda eru skattalög íþyngjandi fyrir skattaðila. Vafa verður því að jafnaði að skýra gjaldanda í hag. Það leiðir af ótvíræðu ákvæði 1. mgr. 80. gr. orkulaga, sbr. lög nr. 78/2001, að stefnandi naut undanþágu frá tekjuskatti. Fjármagnstekjuskattur er tekjuskattur af fjármagnstekjum og var stefnandi því undanþeginn greiðslu skattsins vegna þess árs sem hann krefst endurgreiðslu á. Gengur 80. gr. orkulaga, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 78/2001, sem sérákvæði og yngra ákvæði, fyrir almennum ákvæðum um fjármagnstekjuskatt samkvæmt lögum nr. 75/1981, sbr. lög nr. 97/1996. Dómurinn fellst því á það með stefnanda að hann eigi rétt til endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts sem honum var gert að greiða vegna þess hluta starfseminnar sem sneri að rekstri hitaveitu og rafmagnsveitu á árinu 2002.

Fyrir liggur staðfesting endurskoðanda hjá Deloitte hf. um fjármagnstekjuskatt stefnanda á árunum 2001-2004. Er samantektin byggð á bókhaldi, skilagreinum og ársreikningi stefnanda. Þar er fjármagnstekjuskattur, sem stefnanda ber að greiða, sundurliðaður annars vegar vegna vatnsveitu og hins vegar vegna hitaveitu og rafveitu. Kemur þar fram að stefnanda beri að greiða vegna ársins 2002, fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 22.517.418 kr., að frátaldri vatnsveitu. Hefur þessu ekki verið hnekkt. Gegn mótmælum stefnda og þar sem önnur gögn liggja ekki fyrir verður hins vegar ekki fullyrt að greiddur hafi verið fjármagnstekjuskattur í staðgreiðslu til ríkissjóðs að fjárhæð 10.806.813 kr., sem innheimtur hafi verið vegna ársins 2002, þar af 9.567.272 kr. vegna þess hluta rekstrar stefnanda sem snýr að hitaveitu og rafveitu. Hins vegar liggur fyrir að stefnandi greiddi 14.628.642 kr. hinn 9. mars 2002. Samrýmist sú fjárhæð greinargerð stefnanda um fjármagnstekjur ársins 2002 á eyðublaði RSK 1.07, dags. 9. mars 2004. Verður sú fjárhæð því lögð til grundvallar kröfu stefnanda um endurgreiðslu.

Með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda verður krafa stefnanda um upphafstíma vaxta miðuð við greiðslu stefnanda 9. mars 2004. Stefnandi fór fram á endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts, m.a. vegna ársins 2002, við skattstjórann í Reykjavík og Ríkisskattstjóra, með bréfum dags. 16. mars 2004. Verður krafa stefnanda um dráttarvexti því miðuð við það tímamark, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995.

 Eftir þessum úrslitum verður stefndi, með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmdur til að greiða stefnanda hluta málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 kr. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Orkuveitu Reykjavíkur, 14.628.642 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 9. mars 2004 til 16. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.