Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/2012


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Afleiðusamningur
  • Slit
  • Aðfinnslur


                                     

Fimmtudaginn 24. janúar 2013.

Nr. 253/2012.

Arnar Sigurðsson

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

gegn

SPB hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.

Heiðar Örn Stefánsson hdl.)

og gagnsök

Fjármálafyrirtæki. Verðbréfaviðskipti. Afleiðusamningur. Slit. Aðfinnslur

Fjármálafyrirtækið S hf. höfðaði mál gegn A til heimtu ætlaðar skuldar hans á grundvelli tveggja samninga sem A og forveri S hf. höfðu gert með sér um afleiðuviðskipti, svonefnda skiptasamninga, í júní 2008. Til grundvallar samningum aðila lágu annars vegar viðmiðunarbréf A, nánar tiltekin ríkisskuldabréf, og hins vegar viðmiðunarbréf S hf., nánar tilgreindir víxlar á hendur E hf. Tók krafa S hf. mið af því að A bæri bæði ábyrgð á hækkun eigin viðmiðunarbréfa og lækkun viðmiðunarbréfa S hf. á lokadegi samninganna 8. október 2008. A mótmælti skýringu S hf. á efni skiptasamninganna og hélt því fram að áhætta hvors samningsaðila um sig hefði átt að takmarkast við hækkun sem gæti orðið á markaðsvirði viðmiðunarbréfa hans á samningstímanum og að í samningunum hefði verið innbyggt „gólf“ sem takmarkaði áhættuna. Lækkun á markaðsvirði viðmiðunarbréfanna félli því utan við efni samninganna. Þá taldi A að S hf. yrði að bera ábyrgð á því að hafa gert samkomulag við E hf. í stað þess að innheimta víxlana þá þegar hjá félaginu, sem ætla mætti að hefði borið árangur miðað við fjárhagsstöðu þess þá, en S hf. hafði 1. desember 2008 upplýst A um að hann hefði 10. október sama ár gengið að tilboði E hf. um að greiða tiltekið hlutfall víxilskuldarinnar með reiðufé og afhenda nýja víxla á hendur E hf., en S hf. miðaði við að markaðsvirði nýju víxlanna hefði ekkert verið á lokadegi skiptasamninganna. Hæstiréttur vísaði til þess að A hefði meðal annars krafist sýknu á grundvelli þess að samningar aðila væru ógildir með skírskotun til 15. og 16. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í því samhengi benti rétturinn á að A hefði ekki borið fyrir sig almennar ógildingarreglur fyrr en við meðferð málsins fyrir Hæstarétti og var sýknukröfu hans því hafnað. Næst taldi Hæstiréttur að ákvæði skiptasamninganna um skuldbindingar viðskiptamanns og banka, sem voru einhliða samin af S hf., væru í raun óskiljanleg og að S hf. yrði að bera hallann af því. Samkvæmt því var fallist á með A að skýra yrði samningana svo að áhætta hvors aðila um sig hefði takmarkast við hækkun viðmiðunarbréfa hans og var kröfu S hf. hafnað að öðru leyti en því sem nam hækkun viðmiðunarbréfa A. Loks var litið svo á að S hf. hefði þegar fengið þá fjárhæð greidda enda hefði S hf. gengið að innstæðu, sem A hafði sett forvera S hf. að handveði til tryggingar efndum skiptasamninganna, sem talið var sannað að hefði numið hærri fjárhæð en svaraði skuld A við S hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2012. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, til vara sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en að því frágengnu að hún verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. júní 2012. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 175.429.497 krónur, til vara 145.129.497 krónur og að því frágengnu 91.184.826 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. október 2008 til greiðsludags, en ella að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Aðaláfrýjandi gerði tvo samninga um afleiðuviðskipti 13. júní 2008 við gagnáfrýjanda sem þá nefndist Icebank hf. Um var að ræða svonefnda skiptasamninga, sem fólu í sér að hvor aðili tók á sig áhættu af þróun tiltekinna fjármálagerninga fram að ákveðnu tímamarki. Fyrri samningurinn bar auðkennið TRS 2008│008-466 og þar var samningsdagur tilgreindur 13. júní 2008 en lokadagur 8. október sama ár. Viðmiðunarbréf aðaláfrýjanda voru nánar tilgreind ríkisskuldabréf að nafnverði 92.495.359 krónur en að markaðsvirði 94.405.862 krónur á samningsdegi, en viðmiðunarbréf gagnáfrýjanda voru víxlar á hendur Exista hf. að nafnverði 100.000.000 krónur og markaðsvirði 94.405.862 krónur á samningsdegi. Í þeim hluta staðlaðs samningstexta sem fjallaði um skuldbindingu aðaláfrýjanda, er þar var nefndur viðskiptamaður, sagði meðal annars: „Greiðsla: Viðskiptamanni ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns frá samningsdegi miðað við markaðsgengi það sem bankinn býður á gjalddaga, en til frádráttar koma þær lækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns.“ Þar sem greindi frá skuldbindingu gagnáfrýjanda eða „banka“ sagði meðal annars í samningstexta: „Greiðsla: Bankanum ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa frá samningsdegi miðað við markaðsgengi það sem bankinn býður á gjalddaga, en til frádráttar koma þær lækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa.“ Þá var svohljóðandi ákvæði í samningnum um greiðslufyrirkomulag: „Greiðslum samningsaðila skal ávallt skuldajafna, þannig að aldrei komi til greiðslu á öðru en mismuni á greiðsluskyldu samningsaðila.“ Ennfremur voru ákvæði í samningnum um tryggingar þar sem sagði í upphafi: „Til tryggingar skuldbindingum sínum skv. samningi þessum hefur viðskiptamaður sett bankanum að handveði verðbréf og/eða innstæðu á bankareikningi og/eða afhent tryggingarbréf, sbr. meðfylgjandi handveðssamning/tryggingarbréf dags. 25.6.2007 sem teljast hluti af samningi þessum. ... Við uppgjör í kjölfar slíkra vanefnda skal greiðslufyrirkomulagi háttað með sama máta og hér að framan greinir, þ.e. með skuldajöfnun (nettun).“ Síðari samningur aðilanna bar auðkennið TRS 2008│008-467. Öll ákvæði hans voru samhljóða hinum fyrrnefnda, þar á meðal um samnings- og lokadag, viðmiðunarbréf, greiðslu, greiðslufyrirkomulag og tryggingar ef undan eru skildar fjárhæðir sem lagðar voru undir. Ríkisskuldabréf, sem töldust viðmiðunarbréf aðaláfrýjanda, voru í þessum samningi að nafnverði 184.753.417 krónur og að markaðsvirði 188.567.423 krónur á samningsdegi, en víxlar á hendur Exista hf., sem voru viðmiðunarbréf gagnáfrýjanda, voru á sama degi að nafnverði 200.000.000 krónur og 188.567.423 krónur að markaðsvirði.

Á lokadegi samninganna 8. október 2008 lá fyrir að markaðsvirði ríkisskuldabréfanna hafði hækkað frá samningsdegi sem nam 4.555.327 krónum samkvæmt öðrum þeirra og 9.101.065 krónum samkvæmt hinum, samtals 13.656.392 krónur. Sú fjárhæð er óumdeild og felur í sér hluta af kröfu gagnáfrýjanda í málinu. Óumdeilt er að markaðsvirði víxla Exista hf. hafði lækkað á lokadegi. Gagnáfrýjandi greindi aðaláfrýjanda ekki frá því fyrr en 1. desember 2008 að hann hefði 10. október sama ár gengið að tilboði Exista hf. um að greiða 40% víxilskuldarinnar með reiðufé og afhenda nýja víxla á hendur félaginu til að greiða 60% hennar. Í málatilbúnaði sínum miðar gagnáfrýjandi við að markaðsvirði nýju víxlanna hafi ekkert verið þegar hann tók við þeim skömmu eftir lokadag samninga hans við aðaláfrýjanda. Hann byggir jafnframt á því að samkvæmt skiptasamningunum beri aðaláfrýjandi ábyrgð bæði á hækkun eigin viðmiðunarbréfa og lækkun viðmiðunarbréfa gagnáfrýjanda, en lækkunin hafi samkvæmt þessu verið 54.405.682 krónur samkvæmt öðrum samningnum og 107.367.423 krónur samkvæmt hinum, samtals 161.773.105 krónur. Samanlögð hækkun ríkisskuldabréfanna og lækkun víxlanna myndar aðalkröfu gagnáfrýjanda í málinu. Við meðferð þess fyrir héraðsdómi fékk gagnáfrýjandi dómkvaddan matsmann, sem taldi virði viðmiðunarbréfa gagnáfrýjanda hafa numið 50 til 70% af nafnverði þeirra á lokadegi samninga málsaðila. Við aðalmeðferð málsins í héraði gerði gagnáfrýjandi varakröfur á grundvelli matsgerðarinnar, sem voru þær sömu og hann gerir nú fyrir Hæstarétti samkvæmt áðursögðu.

Aðaláfrýjandi mótmælir framangreindri skýringu gagnáfrýjanda á efni samninga þeirra. Hann heldur fram að áhætta hvors samningsaðila hafi átt að takmarkast við þá hækkun sem gæti orðið á markaðsvirði viðmiðunarbréfa hans á samningstímanum, en tæki ekki til lækkunar sem kynni að verða á virði þeirra eða viðmiðunarbréfa hins. Í samningunum hafi þannig verið innbyggt „gólf“ sem takmarkaði áhættuna. Þá hafi víxlar gagnáfrýjanda verið greiddir honum sem næst á lokadegi, bæði með reiðufé og nýjum víxlum, og hann þannig fengið fullar efndir kröfu sinnar á Exista hf. Það uppgjör hafi verið án samráðs við aðaláfrýjanda, jafnframt því sem gagnáfrýjandi hafi ranglega synjað fyrir gerð þess vikum saman. Gagnáfrýjandi verði sjálfur að axla ábyrgð á því að hafa gert samkomulag við skuldarann í stað þess að innheimta víxlana þá þegar hjá honum, sem ætla megi að hefði borið árangur miðað við fjárhagsstöðu hans þá. Aðaláfrýjandi mótmælir jafnframt að virði viðmiðunarbréfa gagnáfrýjanda hafi ekkert verið á lokadegi, eins og matsgerð dómkvadds manns sýni glögglega.

II

Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu aðallega á 15. gr. og 16. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þar sem innleidd var í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um svonefndar MiFID-reglur. Fyrrnefnda lagagreinin tekur til annars konar verðbréfaviðskipta en þeirra, sem ágreiningur málsaðila snýst um, en í 1. mgr. 16. gr. segir að fjármálafyrirtæki, sem veitir aðra þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta en um getur í 1. mgr. 15. gr., skuli óska eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskiptavinar á sviði viðkomandi tegundar verðbréfaviðskipta til að geta metið hvort þjónustan sé viðeigandi fyrir hann. Í 2. mgr. sömu greinar segir að telji fjármálafyrirtæki á grundvelli upplýsinga samkvæmt 1. mgr. að verðbréfaviðskiptin séu ekki viðeigandi fyrir viðskiptavininn skuli það ráða honum frá þeim. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að veiti viðskiptavinurinn ófullkomnar upplýsingar eða láti hann með öllu hjá líða að veita upplýsingarnar skuli fjármálafyrirtækið gera honum viðvart um að það leiði til þess að ekki verði unnt að leggja mat á hvort viðskiptin séu viðeigandi fyrir hann. Viðbrögð fjármálafyrirtækis samkvæmt 2. eða 3. mgr. mega koma fram á stöðluðu formi. Aðaláfrýjandi heldur fram að gagnáfrýjandi hafi látið undir höfuð leggjast að uppfylla þær skyldur, sem með þessu séu lagðar á hann, en af því leiði að aðaláfrýjanda hafi verið óheimilt að eiga viðskiptin sem hér um ræðir við gagnáfrýjanda. Samningarnir séu sjálfkrafa ógildir frá upphafi. Gagnáfrýjandi mótmælir þessum málatilbúnaði aðaláfrýjanda og bendir meðal annars á að engin ákvæði séu í lögunum um ógildi samnings, ef út af sé brugðið um leiðbeiningarskyldu fjármálafyrirtækis, og aðaláfrýjandi styðji ógildi samninganna heldur ekki við aðrar réttarreglur. Þá hafi aðaláfrýjandi átt að baki langa reynslu af hvers kyns fjármálagerningum, þar á meðal samningum á því sviði sem hér um ræðir.

Meðal málskjala eru tölvupóstsamskipti aðilanna 21. janúar 2008. Starfsmaður gagnáfrýjanda spurði þar aðaláfrýjanda hvort hann hefði fengið í hendur gögn vegna MiFID-flokkunar sem hann svaraði með orðunum: „Var búin að klára þetta MiFid.“ Við meðferð málsins kvað aðaláfrýjandi þessi orð sín hafa byggst á misminni. Gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram önnur gögn frá aðaláfrýjanda um þetta, sem honum bar þó að varðveita ef borist hefðu. Getur þetta atriði samkvæmt því ekki skipt máli. Gagnáfrýjandi hefur á hinn bóginn sýnt fram á að aðaláfrýjandi hafi áður gert fjölmarga fjármálagerninga við hann, þar á meðal skiptasamninga með viðmiðunarbréfum. Með samningunum, sem ágreiningur aðilanna snýst um, var því ekki stofnað til nýrrar tegundar viðskipta milli þeirra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. ágúst 2012 í máli nr. 505/2012. Engin ákvæði eru í lögum nr. 108/2007 um hverju það varði ef út af er brugðið með leiðbeiningarskyldu fjármálafyrirtækis. Fyrir héraðsdómi bar aðaláfrýjandi ekki fyrir sig ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða ólögfestar reglur fjármunaréttar um ógildingu samninga, sbr. hins vegar til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010. Viðleitni til þess að vísa til síðastnefndra laga var fyrst höfð uppi við meðferð málsins fyrir Hæstarétti án þess að sérstakur rökstuðningur fylgdi þeim tilvísunum um það hvernig einstök lagaákvæði gætu átt við. Samkvæmt þessu er hafnað sýknukröfu aðaláfrýjanda sem er á því reist að samningar aðila séu sjálfkrafa ógildir, auk þess sem á engan hátt er sýnt fram á að ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 komi til álita.

III

Við úrlausn ágreinings aðilanna um efni samninga þeirra skipta mestu ákvæði í þeim, sem fjalla annars vegar um skuldbindingu viðskiptamanns og hins vegar skuldbindingu banka, og hefjast eins og fram er komið á orðinu „Greiðsla“. Óumdeilt er hvað felst í orðunum: „Viðskiptamanni ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns frá samningsdegi miðað við markaðsgengi það sem bankinn býður á gjalddaga ...“. Að því er varðar framhald setningarinnar, þar sem segir „en til frádráttar koma þær lækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns“, verður með engu móti komið heim og saman að lækkanir á markaðsvirði ríkisskuldabréfanna frá samningsdegi til lokadags geti komið til frádráttar hækkun sömu bréfa á sama tímabili. Í þessu felst þversögn sem úr verður markleysa.

Hvað varðar ákvæði samninganna um skuldbindingu banka er með sama hætti óumdeilt hvað felst í orðunum: „Bankanum ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa frá samningsdegi miðað við markaðsgengi það sem bankinn býður á gjalddaga ... .“ Gagnáfrýjandi tók áhættu af hækkun víxla Exista hf. á samningstímanum, sem í reynd varð engin. Framhald setningarinnar er hins vegar óljóst þar sem segir að „til frádráttar koma þær lækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa.“ Sá munur er þó á að hér er í lokin sleppt að taka fram hvaða viðmiðunarbréf er átt við, en gagnáfrýjandi sýnist byggja á að þarna hafi átt að standa „viðmiðunarbréfa banka.“ Þannig skýrt hefði ákvæðið þó að geyma sömu þversögnina og áður var getið um viðmiðunarbréf viðskiptamanns. Með þessum skilningi heldur gagnáfrýjandi síðan fram að samanlögð jákvæð hækkun ríkisskuldabréfanna og „neikvæð hækkun“ víxlanna teljist svara til áhættu aðaláfrýjanda samkvæmt samningunum.

Samningar aðilanna voru einhliða samdir af gagnáfrýjanda, sem var fjármálafyrirtæki er gera mátti kröfur til um aðgæslu og vandvirkni í samskiptum við viðskiptamenn sína. Í því tilviki, sem hér um ræðir, tókst ekki betur til en svo að síðari hluti ákvæðanna um skuldbindingar viðskiptamanns og banka var í raun óskiljanlegur og verður gagnáfrýjandi að bera hallann af því. Ljóst er að aðaláfrýjandi tók á sig áhættu af hækkun, sem kynni að verða á markaðsvirði ríkisskuldabréfanna fram til lokadags, og hið sama á við um gagnáfrýjanda að því er tekur til hugsanlegrar hækkunar á virði víxla á hendur Exista hf. Verður fallist á með aðaláfrýjanda að samningana beri að skýra svo að áhætta hvors um sig hafi takmarkast við hækkun viðmiðunarbréfa hans en lækkun fallið þar utan við. Á lokadegi samninganna var jöfnuður gagnáfrýjanda í hag þannig 13.656.392 krónur. Loks er þess að geta að engin skylda fólst í samningunum fyrir aðila til að eiga þau viðmiðunarbréf, sem hvor um sig tók áhættu af, heldur var einungis um viðmiðun við tiltekin bréf að ræða og útreikning samkvæmt því. Gagnáfrýjandi kaus hins vegar að eiga umrædda víxla, sem hann tapaði síðan fé á og er samningum hans við aðaláfrýjanda óviðkomandi.

Samkvæmt framansögðu er kröfu gagnáfrýjanda hafnað að undanskildum þeim hluta sem leiðir af hækkun ríkisskuldabréfa. Af því leiðir að ekki gerist þörf á að taka afstöðu til ágreinings aðilanna um það hve mikið andvirði víxla Exista hf. hafi lækkað á lokadegi og þar með til matsgerðar, sem gagnáfrýjandi hefur aflað. Hinu sama gegnir þar með um aðalkröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms, sem varðar þætti í þeim hluta kröfu gagnáfrýjanda sem þegar hefur verið hafnað.

IV

Fjármálaeftirlitið neytti 21. mars 2009 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Sparisjóðabanka Íslands hf., sem nú ber heiti gagnáfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem einnig breyttu ákvæðum laga nr. 161/2002 og tóku gildi 22. apríl 2009, var gagnáfrýjandi tekinn til slita. Meðal málskjala er kröfulýsing aðaláfrýjanda 3. nóvember 2009, sem beint var til slitastjórnar gagnáfrýjanda. Þar var vísað til innköllunar slitastjórnar til kröfuhafa og gerð krafa um greiðslu að höfuðstól 19.968.169 krónur ásamt nánar tilteknum vöxtum og dráttarvöxtum, samtals 23.186.150 krónur. Jafnframt kom þar fram að um væri að ræða inneign aðaláfrýjanda á handveðsettum reikningi hans hjá gagnáfrýjanda, en fyrir lægi að „kröfuhafi skuldaði bankanum ekki neitt eftir uppgjörsdag tveggja skiptasamninga sem handveðinu var ætlað að tryggja efndir á.“ Um stöðu kröfunnar í réttindaröð var vísað til 109. gr. og til vara 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn tilkynnti aðaláfrýjanda 13. janúar 2010 að kröfu hans væri hafnað þar eð „innstæðu hefur verið ráðstafað til greiðslu skuldar á grundvelli veðsamnings við bankann.“ Þá var vakin athygli á að aðaláfrýjandi hefði fengið greiddar 6.000.000 krónur af reikningnum 12. september 2008. Aðaláfrýjandi mótmælti samdægurs þessari afstöðu slitastjórnar og taldi að óheimilt hafi verið að ganga að veðinu, enda engri skuld aðaláfrýjanda til að dreifa samkvæmt skiptasamningunum. Á fundi 24. febrúar 2010 lýsti slitastjórn yfir að hún frestaði að taka endanlega afstöðu til kröfu aðaláfrýjanda þar til niðurstaða í þessu máli lægi fyrir.

Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að á grundvelli skiptasamninganna hafi skuld aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda numið 13.656.392 krónum 8. október 2008. Ekki liggur fyrir hvenær gagnáfrýjandi gekk að hinni veðsettu innstæðu aðaláfrýjanda hjá honum. Að gættri greiðslu á 6.000.000 krónum til aðaláfrýjanda 12. september 2008 verður ráðið að inneign á umræddum reikningi hafi 8. október 2008 numið hærri fjárhæð en svaraði skuld hans vegna uppgjörs skiptasamninganna, en gagnáfrýjanda hefði verið í lófa lagið að taka af tvímæli um þetta ef svo var ekki. Verður því að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi þar með fengið kröfu sína á hendur aðaláfrýjanda greidda. Að þessu virtu verður krafa aðaláfrýjanda um sýknu tekin til greina.

Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Það athugast að lýsingu málavaxta er verulega áfátt í hinum áfrýjaða dómi.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Arnar Sigurðsson, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, SPB hf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi og endurupptekið og flutt að nýju 2. febrúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af SPB hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík, á hendur Arnari Sigurðssyni, Bergstaðastræti 84, Reykjavík, með stefnu útgefinni 18. nóvember 2011.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 175.429.497 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. október 2008 til greiðsludags, en til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 145.129.497 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 8. október 2008 til greiðsludags, en til þrautavara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 91.184.826 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. október 2008 til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað.

II

Málavextir eru þeir, að hinn 13. júní 2008 gerðu stefnandi og stefndi tvo skiptasamninga um víxla og ríkisbréf, sem bera auðkennin TRS 20081008-466 og TRS 20081008-467, en stefndi hafði hinn 19. júní 2007 samþykkt og undirritað almenna skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskiptum og kveður stefnandi að stefndi hafi einnig undirritað gögn vegna svokallaðrar Mifid flokkunar.

Skuldbindingar aðila samkvæmt samningnum tengdust þróun á markaðsverði svokallaðra viðmiðunarbréfa, svo sem nánar er lýst í samningunum.  Með skiptasamningi TRS 20081008-466 skuldbundu málsaðilar sig til að skiptast á greiðslum á lokadegi samningsins sem ákveðinn var 8. október 2008.

Samkvæmt samningnum skyldi greiðsla stefnda jafngilda hækkunum á því markaðsvirði sem stefnandi byði í ríkisbréfum með auðkennið RB 08 1212, að nafnvirði 92.495.359 krónur frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Var um að ræða markaðsverð í viðskiptum með umrædd bréf á þeim tíma.

Samkvæmt samningnum skyldi lækkun á markaðsvirði framangreindra ríkisbréfa koma til frádráttar greiðslu stefnda.  Samkvæmt samningnum skyldi stefndi að auki greiða stefnanda afborganir, vexti og/eða útdrætti sem fallið hefðu á framangreind ríkisbréf frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Enginn vaxtagjalddagi var á samningstímanum og hefur því það ákvæði engin áhrif á uppgjör skuldbindinga aðila samkvæmt samningnum.

Hinn 13. júní 2008 var framangreint markaðsvirði á RB 08 1212 að nafnvirði 92.495.359 krónur, samtals 94.405.862 krónur.  Hinn 8. október 2008 var framangreint markaðsvirði RB 08 1212, að nafnvirði 92.495.359 krónur, samtals 98.961.189 krónur, miðað við gengið 106,990437, sem var gengi bréfanna þann tíma dagsins hinn 8. október 2008 er skiptasamningnum var lokað.

Stefndi hafði með handveðsyfirlýsingu sett stefnanda að handveði reikning sinn hjá honum og allar innstæður á þeim reikningi til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og skuldbindingum sínum.

Hvorugur samningsaðila gerði reka að því að loka samningunum fyrir lokadag.

Hinn 9. október 2008 barst stefnanda tölvuskeyti frá stefnda auðkennt, tilkynning um greiðsluskyldu“, þar sem honum var tilkynnt að mismunur á greiðsluskyldu hans og stefnanda, samkvæmt skiltasamningnum væri 298.269.665 krónur.  Var þess krafist að stefndi greiddi stefnanda umrædda fjárhæð fyrir lok þess sama dags.  Einnig var tekið fram að ef greiðslan yrði ekki innt af hendi innan tilgreinds frests myndi stefnandi nota tryggingar stefnda til lækkunar á kröfu sinni og jafnframt leita lögformlegra leiða til innheimtu kröfunnar.

Hinn 10. október 2008 kveðst stefndi hafa fengið það staðfest frá Exista hf., að það félag hefði samið við alla kröfuhafa samkvæmt flokki EXIS 08 1008 um fullnaðaruppgjör á víxlunum með greiðslu 40% kröfufjárhæðar í reiðufé, en greiðslu 60% kröfufjárhæðar með víxlum úr öðrum útgáfuflokki, EXIS 09 0317.  Ekki var samið um neina lækkun kröfunnar.

Hinn 11. október 2008 sendi stefndi stefnanda tölvuskeyti, þar sem hann óskaði eftir lokauppgjöri skiptasamninganna samkvæmt efni þeirra, enda væri honum kunnugt um að Exista hefði gert upp viðmiðunarbréf stefnanda að fullu.  Þá áréttaði stefndi að samið hefði verið við hann um að hann héldi skortsölu á RB 08 1212 (viðmiðunarbréf stefnda) út líftíma þeirra bréfa, þ.e. til 12. desember 2008.

Hinn 13. október 2008 sendi stefndi stefnanda tölvupóst, þar sem hann óskaði eftir því að 10.000.000 króna yrðu fluttar af hinum handveðsetta reikningi yfir á reikning hans í Landsbanka Íslands.  Stefndi kveður, að þar hafi verið um að ræða hluta þeirrar fjárhæðar sem inni á reikningnum hafi verið til að mæta tryggingarþörf vegna skiptasamninganna og sem stefndi hafi talið að hlyti að vera laus, þar sem Exista hefði greitt skudir sínar við stefnanda, samkvæmt EXIS 08 1008 að fullu.  Þann sama dag hafi honum borist það svar að ekki væri hægt að verða við ósk stefnda fyrr en „við klárum uppgjörið“.  Jafnframt hafi honum verið sagt að hann yrði látinn vita þegar uppgjörið væri klárt.  Seinna þann sama dag sendi stefndi stefnanda tölvuskeyti, þar sem hann spurði hvort tryggingarfé hans væri ekki örugglega á handveðsettum innlánsreikningi.  Hafi hann fengið það svar að verið væri að skoða málið og að stefnandi yrði í sambandi þegar niðurstaða lægi fyrir.

Hinn 15. október 2008 sendi stefnandi stefnda svohljóðandi tölvuskeyti: „…Varðandi samning þinn við bankann um bréf Exista hf. þá ætti það að falla í þinn hlut samkvæmt samningnum að bera fulla ábyrgð á verðfalli þeirra veðbréfa sem um ræðir í samningnum og útgefin eru af Exista hf.  Ef einhverjar tillögur bærust bankanum frá Exista hf. um uppgjör verðbréfanna við bankann yrði að skoða það hvort uppgjörið væri að fullu eða ekki.  Færi svo að greiðsla bærist einungis að hluta, t.d. ef Exista hf. byðist til að greiða 40% kröfufjárhæðarinnar skv. verðbréfunum en gæfi út nýtt verðbréf fyrir eftistöðvunum, er það skoðun bankans að þú yrðir að greiða mismuninn á fjárhæðinni sem krafist var í pósti, dags. 9. október sl., þ.e. kr. 298.269.665, og 40% kröfufjárhæðar, eða samtals kr. 178.269.665, en gætir fengið verðbréfið sem Exista gæfi út fyrir 60% framselt til þín.  Með þeim hætti telur bankinn að hann fengi fullar efndir skv. samningnum milli þín og bankans ef tilfellið er eins og því er lýst hér að framan.  Með framangreindu væri einnig búið að gera upp skortsöluna.“

Lögmaður stefnda svaraði stefnanda seinna þennan sama dag og í svari hans kom fram að stefndi hefði fengið þær upplýsingar frá Exista hf. að skuld skv. viðmiðunarbréfið stefnanda hafi verið að fullu greidd, annars vegar með greiðslu 40% í reiðufé og hins vegar 60% með víxli.  Viðmiðunarbréfið væri þannig ekki lengur til, enda hefðu réttaráhrif þess fallið niður með fullum efndum.  Það varðaði stefnda engu hver verðmæti stefnandi hefði kosið að þiggja til greiðslu á viðmiðunarbréfinu, en fyrir lægi að um hefði verið að ræða fullar efndir án afsláttar.  Áhættan af verðmætum þess greiðslueyris sem stefnandi hefði þegið hvíldi eftir gjalddaga alfarið á honum en ekki stefnda.  Þá var ítrekað að farið væri fram á greiðslu þess tryggingarfjár sem stefndi hefði lagt fram vegna skiptasamninganna.

Hinn 17. október 2008 barst stefnda tölvupóstur frá stefnanda, þar sem fram kom að hann teldi sig hafa staðið við sinn hluta skiptasamninganna og „búist við að umbjóðandi þinn geri slíkt hið sama og axli ábyrgð á greiðslufalli undirliggjandi bréfa.  Varla verður um það deilt að greiðslufall hefði orðið“.  Um þær staðhæfingar stefnda að stefnandi hefði samþykkt uppgjör viðmiðunarbréfa sinna, EXIS 08 1008, sagði stefnandi: „Staðreynd málsins er sú að bankinn hefur ekki samþykkt annars konar greiðslu en efndir samkvæmt orðanna hljóðan, sem er greiðsla reiðufjár, vegna undirliggjandi verðbréfa í samningum milli umbjóðanda þíns og bankans.  Bankinn telur sig enda hafa gert samning við umbjóðanda þinn sem ætti að tryggja verðfall og greiðslu af undirliggjandi bréfum.  Vera kann að bankinn hafi samþykkt annars konar greiðslu vegna verðbréfa, í sama flokki og undirliggjandi bréf umbjóðanda þíns, en það er þá einungis vegna þess að ekki var annarra kosta völ, enda gerði bankinn ekki samninga eins og þann sem gerður var við umbjóðanda þinn um alla eign bankans í viðkomandi flokki verðbréfa.  Hafi umbjóðandi þinn einhvern samningsvilja er bankinn reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til að miðla málum og samþykkja einhvers konar annan greiðslumáta úr hendi Exista hf., og framselja þau verðmæti eða þann rétt til umbjóðanda þíns gegn tryggingu hans á fullri greiðslu verðbréfanna, allt eins og greinir í fyrri póstum og samskiptum bankans.  Þetta tilboð bankans mun renna út í lok dags þann 20. október 2008.“ 

Lögmaður stefnda svaraði fyrrgreindum pósti hinn 21. október 2008, þar sem áréttaðar voru fram komnar kröfur stefnda um útborgun tryggingarfjár.

Hinn 22. október 2008 kveður stefndi að stefnandi hafi óskað eftir því að lögmaður stefnda kæmi, f.h. umbjóðanda síns, á fund hjá stefnanda þann sama dag eða næsta dag til viðræðu við lögmenn stefnanda.  Sá fundur fór fram 23. október 2008.  Kveður stefndi að á þeim fundi hafi lögmenn stefnanda fullyrt, að stefnandi hefði hvorki tekið við reiðufé né viðskiptabréfum sem greiðslu á EXIS 08 1008 víxlunum.  Hafi þeir jafnframt sagt, að ekkert samkomulag um fullnaðaruppgjör við Exista hf. hefði verið gert vegna víxlanna.  Hafi þeir ekki viljað gefa upplýsingar um hvort hafnar væru innheimtuaðgerðir gegn Exista hf. vegna vanefndanna.

Hinn 29. október 2008 gerði stefnandi stefnda tilboð, sem stefndi telur hafa gengið út á það að velta áhættunni af greiðslu víxlanna, sem stefnandi tók við sem 60% af fullnaðaruppgjöri kröfunnar, samkvæmt viðmiðunarbréfum sínum EXIS 08 1008, yfir á stefnda.  Stefndi hafnaði þessu tilboði.

Hinn 6. nóvember 2008 sendi lögmaður stefnda stefnanda tölvuskeyti, með þeirri tillögu til lausnar málsins, að skortstaða stefnda á RB 08 1212 yrði gerð upp og að gerður yrði samningur á milli aðila um að allar tryggingar sem lægju inni hjá stefnanda vegna málsins yrðu settar á vörslureikning í umsjón LOGOS eða annarrar lögmannsstofu á meðan málið yrði útkljáð fyrir dómstólunum. 

Hinn 17. nóvember 2008, sendi lögmaður stefnanda, stefnda bréf, þar sem fram kom m.a. að ekki væri fallist á kröfu stefnda um að tryggingar hans yrðu færðar inn á vörslureikning þriðja aðila og að skortstaða hans á RB 08m1212 yrði gerð upp í samræmi við kröfur hans þar um.  Þá var stefnda veittur sjö daga frestur til að greiða 178.269.665 krónur, auk dráttarvaxta frá 8. október 2008.  Var krafan sögð samanstanda af uppgjörsfjárhæð samkvæmt skiptasamningum, auk þóknunar að fjárhæð 1.638.886 krónur, að frádreginni fjárhæð sem greidd var bankanum hinn 10. október 2008.  Þá sagði svo í bréfinu: „Verði ekki orðið við kröfu um greiðslu fyrir þennan frest tilkynnist hér með að Sparisjóðabankinn mun nota tryggingar umbjóðanda samkvæmt handveðsyfirlýsingu dags. 1. júlí 2008 til lækkunar á ofangreindri kröfu ásamt því að leita lögformlegra leiða til að innheimta kröfuna með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir umbjóðanda þinn.“

Hinn 1. desember 2008 sendi lögmaður stefnanda, f.h. stefnanda stefnda bréf, þar sem vísað var til fyrra bréfs stefnanda frá 17. nóvember 2008.  Í bréfinu var útlistað að í útreikningum krafna stefnanda á hendur stefnda hafi ekki verið tekið tillit til hugsanlegs andvirðis nýs víxils sem Exista hafi afhent fyrir 60% greiðslu EXIS 08 1008 víxlanna.  Síðan segir: „Ekki var tekið tillit til framangreindra víxla í fyrri útreikningum þar sem Sparisjóðabankinn taldi sig ekki hafa tekið við þeim.  Nú hefur hins vegar komið í ljós að það var gert.“  Var síðan boðað að bankinn myndi láta dómkveðja matsmann til að verðmeta víxilinn sem notaður hafi verið til greiðslu og að ekki yrði gengið að tryggingum stefnda að svo stöddu.

Við innköllun slitastjórnar stefnanda lýsti stefndi kröfu um afhendingu tryggingafjár vegna skiptasamninganna í samræmi við fyrri kröfur sínar á hendur stefnanda.  Snemma árs 2010 var stefnda tilkynnt að kröfu hans væri hafnað, þar sem stefnandi hefði þegar leyst til sín umræddar tryggingar .

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að greiðsla stefnda skuli vera mismunur á gengi skiptasamningsins, eða 4.555.327 krónur, miðað við lokagengi samningsins.

Samkvæmt samningnum skyldi greiðsla stefnanda jafngilda hækkunum markaðsvirðis á víxlum með auðkennið EXIS 08 1008, að nafnvirði 100.000.000 króna, frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Samkvæmt samningnum skyldi lækkun á markaðsvirði framangreindra víxla koma til frádráttar greiðslu stefnanda.  Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi að auki greiða stefnda afborganir, vexti og/eða útdrætti sem fallið hefðu á framangreinda víxla frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Gjalddagi EXIS 08 1008 hafi verið 8. október 2008, en þar sem engin greiðsla hafi borist á samningstímanum hafi umrætt ákvæði ekki áhrif á uppgjör milli aðila.

Hinn 13. júní 2008 hafi markaðsvirði á EXIS 08 1008 verið að nafnvirði 100.000.000 króna, samtals 94.405.862 krónur.  Hinn 8. október 2008 hafi enginn markaður verið með umrædda víxla, enda hafi gjalddagi þeirra verið sama dag.  Þar sem EXIS 08 1008 hafi verið á gjalddaga á lokadegi skiptasamningsins verði að telja að sanngjarnt viðmiðunarverð sé raunveruleg endurgreiðsla vegna víxlanna, enda ekki til staðar markaður með bréfin.  Hinn 10. október 2009 hafi EXIS 08 1008 verið greiddur með reiðufé, sem samsvari 40% kröfunnar, og með útgáfu nýrra víxla til kröfuhafa, sem samsvarað hafi til 60% kröfunnar.

Stefnandi telur að markaðsvirði hinna nýju víxla hafi á útgáfudegi þeirra verið ekkert, enda enginn markaður með víxlana á þeim tíma.  Byggir stefnandi á framlagðri matsgerð, þar sem fram kemur, að verðmæti víxlanna hafi verið í kringum 70% af nafnvirði.  Stefnandi byggir á því, í ljósi framangreinds, að gera eigi skiptasamninginn upp miðað við að virði EXIS 08 1008, að nafnvirði 100.000.000 króna sé 40.000.000 króna á lokadegi samningsins.  Greiðsla stefnanda skuli því, samkvæmt framangreindu, vera mismunur 40.000.000 króna og 94.405.862 krónur, eða -54.405.862 krónur.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skilmála stefnanda um markaðsviðskipti og ákvæðis í samningum aðila skuli uppgjör greiðslna aðila samkvæmt samningnum fara fram þannig að greiðslur aðila jafnist hvor á móti annarri með skuldajöfnun að svo miklu leyti sem þær mætist.  Skuld stefnanda vegna skiptasamnings TRS 20081008-466, nemi því alls 58.961.009 krónum, þ.e. 4.555.327 – (-54.405.682).

Með skiptasamningi TRS 20081008-467 hafi málsaðilar skuldbundið sig til að skiptast á greiðslum á lokadegi samningsins sem ákveðinn hafi verið 8. október 2008.

Samkvæmt samningnum skyldi greiðsla stefnda jafngilda hækkunum á því markaðsvirði sem stefnandi byði, samanber framangreint, á ríkisbréfum með auðkennið RB 08 1212, að nafnvirði 184.753.417 krónur frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.   Samkvæmt samningnum skyldi lækkun á markaðsvirði framangreindra ríkisbréfa koma til frádráttar greiðslu stefnda.  Samkvæmt samningnum skyldi stefndi að auki greiða stefnanda afborganir, vexti og/eða útdrætti sem fallið hefðu á framangreind ríkisbréf frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Enginn vaxtagjalddagi hafi verið á samningstímanum og hafi það ákvæði því engin áhrif á uppgjör skuldbindinga aðila samkvæmt samningnum.

Hinn 13. júní 2008 hafi markaðsvirði á RB 08 1212 verið að nafnvirði 184.752.417 krónur, samtals 188.567.423 krónur.  Hinn 8. október 2008 hafi markaðsvirði það sem stefnandi hafi boðið á RB 08 1212 verið að nafnvirði 184.753.417 krónur, samtals 197.668.488 krónur, en það sé miðað við gengið 1,06990437, sem sé gengi bréfanna á þeim tíma hinn 8. október 2008, sem skiptasamningnum hafi verið lokað.  Lokagengi 7. október 2008 hafi verið 1,0649044 og lokagengi 8. október 2008 hafi verið 1,0701366.  Greiðsla stefnda skuli samkvæmt framangreindu vera mismunur á 197.668.488 krónum og 188.567.423 krónum, eða 9.101.065 krónur.

Samkvæmt samningnum skyldi greiðsla stefnanda jafngilda hækkunum á því markaðsvirði sem stefnandi byði, á víxlunum með auðkennið EXIS 08 1008 að nafnvirði 203.000.000 krónur frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Samkvæmt samningnum skyldi lækkun á markaðsvirði framangreindra víxla koma til frádráttar greiðslu stefnanda.  Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi að auki greiða stefnda afborganir, vexti og/eða útdrætti, sem fallið hefðu á framangreinda víxla frá 13. júní 2008 til 8. október 2008.  Engin greiðsla hafi borist á samningstímanum vegna víxlanna og hafi það ákvæði því engin áhrif á uppgjör skuldbindinga aðila samkvæmt samningnum.

Hinn 13. júní 2008 hafi markaðsvirði það sem stefnandi hafi boðið á EXIS 08 1008, að nafnvirði 203.000.000 krónur, verið samtals 188.567.423 krónur.  Hinn 8. október 2008 hafi enginn markaður verið með umrædda víxla, enda hafi gjalddagi þeirra verið hinn sama dag.  Þar sem EXIS 08 1008 hafi verið á gjalddaga á lokadegi skiptasamningsins verði að telja að sanngjarnt viðmiðunarverð sé raunveruleg endurgreiðsla vegna víxlanna enda ekki markaður til staðar með bréfin.

Hinn 10. október 2009 hafi EXIS 08 1008 verið greiddur með reiðufé, sem samsvarað hafi 40% kröfunnar, og með útgáfu nýrra víxla til kröfuhafa, sem samsvarað hafi 60% kröfunnar.

Stefnandi telur einsýnt að markaðsvirði hinna nýju víxla hafi á útgáfudegi þeirra verið ekkert, enda enginn markaður með víxlana á þeim tíma.  Byggir stefnandi á framlagðri matsgerð vegna þessa.

Í ljósi framangreinds beri að gera skiptasamninginn upp miðað við að virði EXIS 08 1008 að nafnvirði 203.000.000 krónur, sé 81.200.000 krónur á lokadegi skiptasamningsins.  Greiðsla stefnanda skuli samkvæmt framangreindu vera mismunur á 81.200.000 krónum og 188.567.423 krónum, eða – 107.367.423 krónur.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skilmála stefnanda um markaðsviðskipti og ákvæðum samningsins skuli uppgjör greiðslna aðila samkvæmt samningnum fara fram þannig að greiðslur aðila jafnist hvor á móti annarri með skuldajöfnun að svo miklu leyti sem þær mætist.  Skuld stefnanda vegna skiptasamningsins TRS 20081008-467 nemi því alls 116.468.488 krónum, eða 9.101.065 kr.– (-107.367.423 kr.).

Samkvæmt framangreindu sé heildarskuld stefnda við stefnanda 175.429.497 krónur eða 58.961.009 krónur + 116.468.488 kr., sem sé stefnufjárhæð málins.

Stefnandi hefur sundurliðað samantekt útreiknings dómkröfu á eftirgreindan hátt í stefnu:

TRS 20081008-466:

Greiðsla stefnda:

-Markaðsvirði RB 08 1212 að nafnvirði

92.495.359 kr. hinn 13. júní 2008

kr. 94.405.862

-Markaðsvirði RB 08 1212 að nafnvirði

92.495.359 kr. hinn 8. október 2008

kr.98.961.189

Samtals

kr. 4.555.327

Greiðsla stefnanda:

-Markaðsvirði EXIS 08 1008 að nafnvirði

100.000.000 kr. hinn 13. júní 2008

kr. 94.405.682

-Virði EXIS 08 1008 að nafnvirði

100.000.000 kr. hinn 8. október 2008

kr. 40.000.000

Samtals

kr. -54.405.682

Greiðsla stefnda að

frádreginni greiðslu stefnanda

kr. 58.961.009

TRS 20081008-467

Greiðsla stefnda:

-Markaðsvirði RB 08 1212 að nafnvirði

184.753.417 kr. hinn 13. júní 2008

kr. 188.567.423

-Markaðsvirði RB 08 1212 að nafnvirði

184.753.417 kr. hinn 8. október 2008

kr. 197.668.488

Samtals

kr. 9.101.065

Greiðsla stefnanda:

-Markaðsvirði EXIS 08 1008 að nafnvirði

203.000.000 kr. hinn 13. júní 2008

kr. 188.567.423

-Virði EXIS 08 1008 að nafnvirði

203.000.000 kr. hinn 8. október 2008

kr. 81.200.000

Samtals

kr .-107.367.423

Greiðsla stefnda að

frádreginni greiðslu stefnanda

kr. 116.468.488

Alls

kr. 175.429.497

Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá lokadegi skiptasamninga stefnanda og stefnda hinn 8. október 2008.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. þeirra laga.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

Stefndi byggir kröfu sína á því, að hann hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu að lögum til þess að fjármálafyrirtæki megi eiga afleiðuviðskipti við fjárfesta svo skuldbindandi sé fyrir þá.  Til þess að fjármálafyrirtæki geti átt afleiðuviðskipti við viðskiptamann, þurfi viðskiptamaðurinn að hafa fyllt út svokallað MiFid (Market in Financial Instruments Direcitive) spurningaform og á grundvelli svara sinna að hafa verið skilgreindur sem fagfjárfestir.  Hafi hann ekki verið skilgreindur fagfjárfestir, beri fjármálafyrirtæki að lágmarki að fá skriflega staðfestingu hans á því að hann geri sér grein fyrir því að fjármálaafurðin sem honum sé boðin til sölu sé utan þess áhættusviðs sem hann sé talinn hæfur til að fjárfesta á.  Framangreindar kröfur séu hlutlægar og ófrávíkjanlegar.  Stefndi finni hvorki hjá sér gögn um að hann hafi fyllt út áðurnefnt MiFid spurningaform hjá stefnanda né undirritað yfirlýsingu um að hann gerði sér grein fyrir því að hann væri að fjárfesta utan síns áhættusviðs.  Þau gögn sem stefnandi hafi lagt fram um annað sýni þannig væntanlega einungis misminni stefnda hvað þetta atriði varði á þeim tíma.  Stefnanda sem fjármálafyrirtæki beri að halda til haga öllum þeim MiFid gögnum sem viðskiptamenn hafi fyllt út og hljóti hann því að hafa slík gögn frá stefnda undir höndum sé þeim yfirleitt til að dreifa.  Hann hafi hins vegar engin gögn lagt fram hvað þetta varði og verði að bera hallann af því.  Þeir skiptasamningar sem málið varði séu því þegar af þeim sökum ógildir frá upphafi og geti því hvorki skapað aðilum réttindi né skyldur.

Stefndi heldur því fram að vanhöld stefnanda á því að gera við hann skortsölusamning hinn 8. október 2008 og út líftíma RB 08 1212, þ.e. til 12. desember 2008, eins og lofað hafi verið, feli í sér forsendubrest sem leiði til ógildingar skiptasamninganna í heild sinni, enda hafi sá samningur verið óaðskiljanlegur hluti skiptasamninganna og forsenda fyrir gerð þeirra, sem rædd hafi verið strax í upphafi og staðfest hafi verið í tölvupósti skömmu síðar.  Viljaskortur stefnanda til að gera þann skortsölusamning, sem báðir aðilar hafi vitað að væri óaðskiljanlegur þáttur af samningsgerð aðila, feli í sér forsendubrest, sem leiði til ógildingar skiptasamninganna.  Vilji og geta mótaðila til að efna samninga sína teljist ávallt ákvörðunarástæða við samningsgerð og misbrestur þar á veiti aðila rétt til að bera fyrir sig ógildingu samnings eða lýsa yfir riftun hans.  Hin nánu tengsl skiptasamninganna og þess skortsölusamnings sem lofað hafi verið kristallist í því að stefnandi hafi borið fyrir sig meinta vanefnd stefnda á skiptasamningnum sem réttlætingu fyrir því að neita að gera skortsölusamninginn og talið loforð sitt þar að lútandi ógilt.

Verði ekki fallist á að skiptasamningarnir séu ógildir frá upphafi og óskuldbindandi fyrir stefnda, heldur stefndi því fram, að viðmiðunarbréf stefnanda samkvæmt skiptasamningnum, EXIS 08 1008, hafi verið greidd upp að fullu með afhendingu 40% víxilfjárhæðar í reiðufé og 60% með öðrum víxlum.  Þannig hafi ekkert greiðslufall verið á víxlunum, sem fallið hafi úr gildi við fullar efndir og hafi eftir það ekki haft frekari réttaráhrif.  Ekki verði því miðað við annað gengi viðmiðunarbréfa stefnanda á lokadegi en 100 og heildarmarkaðsverðmæti bréfanna 300.000.000 króna.  Þess utan beri stefndi enga greiðslufallsábyrgð á viðmiðunarbréfum stefnanda, enda hvergi getið um slíka ábyrgð í skiptasamningunum.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi samþykkt fullnaðaruppgjör EXIS 08 1008 með framangreindum hætti, þrátt fyrir að hafa reynt lengi vel með öllum ráðum að telja stefnda trú um annað.  Það að stefnandi skyldi samþykkja að víxlarnir skyldu greiddir með öðrum greiðslueyri en þeir sjálfir geri ráð fyrir sé algerlega á hans ábyrgð, enda ekkert samráð haft við stefnda um þessa uppgjörsaðferð.  Það sé útilokað að nokkur ábyrgð á framangreindu fullnaðaruppgjöri verði lögð á stefnda, enda hafi með því verið girt fyrir að unnt væri að láta reyna á greiðslugetu Exista hf. með fullnustuaðgerðum eða öðrum aðgerðum sem tryggt hefðu getað greiðslu víxlanna.  Ekkert liggi fyrir um að Exista hf. hafi, hinn 8. október 2008, ekki verið gjaldfært og getað greitt víxlana að fullu með reiðufé hefði á það reynt eða að félagið hefði ekki getað lagt fram tryggingar fyrir efndum þeirra síðar og hljóti stefnandi að bera hallann af sönnunarskorti um það atriði.  Þvert á móti liggi fyrir að félagið hafi síðan þá a.m.k. greitt á annan milljarð króna í rekstrarkostnað árlega auk annarra greiðslna sem félagið hafi innt af hendi.  Ef stefnda hefði verið ætlað að gera greiðslufallsábyrgð á viðmiðunarbréfum stefnanda hefði ákvæði þar að lútandi þurft að koma fram í skiptasamningunum en hafi ekki gert það.  Slíkt ákvæði hefði verið verulega íþyngjandi fyrir stefnda og þar sem stefnandi hafi samið samningsskilmálana hafi honum verið í lófa lagið að láta það koma fram ætti áhættuskipting aðila að vera með þeim hætti og bera hallann af því að svo hafi ekki verið.  Stefndi heldur því fram að þetta sýni þvert á móti þann ásetning aðila við samningsgerðina að greiðslufall útgefanda viðmiðunarbréfa stefnanda hafi ekki verið einn þeirra þátta sem stefndi bæri ábyrgð á.  Þetta sé enn skýrara þegar litið sé til annarra skiptasamninga sem aðilar hafi gert, þar sem þessu hafi verið öndvert háttað.  Annars vegar sé um að ræða skiptasamning með auðkennið TRS 20241502-473, en hins vegar skiptasamning með auðkennið TRS 20240215-472.  Í báðum samningunum segi í 2. gr., „efni samningsins“: „Með samningi þessum tekur viðskiptamaður/bankinn á sig áhættu vegna verðlækkunar [markaðsáhætta-athugasemd stefnda] og greiðslufalls [greiðslufallsáhætta-athugasemd stefnda] af viðmiðunarbréfum skv. 5. gr….“  Efni skiptasamninganna beri það með sér að stefndi beri markaðsáhættu af verðþróun viðmiðunarbréfa sinna upp á við en gefi enga vísbendingu um ábyrgð á annarri áhættu.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður byggir stefndi á því, að greiðslufall að hluta á viðmiðunarbréfum stefnanda, EXIS 08 1008, hafi engin áhrif á greiðsluskyldu hans á grundvelli skiptasamninganna, þar sem það hafi ekki haft áhrif á markaðsvirði viðmiðunarbréfa stefnanda á því tímamarki sem máli skipti.

Í stefnu sinni leggi stefnandi að jöfnu fyrirbærin markaðsvirði og greiðslufall og fjalli í raun um þau sem eitt væri.  Hér sé hins vegar um að ræða tvo ólíka hluti og aðili sem sé tilbúinn til að taka, og eftir atvikum tekur á sig, markaðsáhættu þurfi alls ekki að taka á sig greiðslufallsáhættu og öfugt.  Markaðsáhætta (market risk) vísi til þeirrar áhættu sem hugsanlegar breytingar á gengi fjármálagerninga geti haft á þeim tíma sem hagsmunir aðila séu tengdir því gengi, en greiðslufallsáhætta (credit risk) vísi til þeirrar áhættu að útgefendur skuldaskjala sem aðili eigi hagsmuni af, standi ekki í skilum á gjalddaga eða síðar.  Orðalag skiptasamninganna, sem um ræði, sýni að þeir feli einungis í sér markaðsáhættu frá samningsdegi og út lokadag, enga greiðslufallsáhættu.  Lokadagur skiptasamninganna, sem um ræði, hafi, samkvæmt skýru orðalagi þeirra, verið sá sami og gjalddagi viðmiðunarbréfa stefnanda, EXIS 08 1008, þ.e. 8. október 2008.  Að þeim degi loknum sé þannig ekki gert ráð fyrir því að breyting á markaðsvirði viðmiðunarbréfa hafi nokkur áhrif, heldur aðeins gert ráð fyrir að uppgjör fari fram innan tveggja daga frá lokunardegi.  Þrátt fyrir að greiðslufall á viðmiðunarbréfunum geti vissulega haft áhrif á markaðsvirði þeirra bréfa eftir að ljóst sé orðið að það hafi átt sér stað, sé útilokað að greiðslufall sem slíkt geti haft áhrif á markaðsvirði bréfanna fyrr.  Greiðslufall geti aldrei legið fyrir fyrr en daginn eftir gjalddaga, enda þá fyrst ljóst að ekki hafi verið greitt eins og efni bréfs hafi staðið til.  Hvað viðmiðunarbréfin í skiptasamningnum áhræri, hafi sá dagur verið daginn eftir lokadag skiptasamninganna og markaðsvirði bréfanna á því tímamarki óviðkomandi réttarstöðu aðila á grundvelli skiptasamninganna.  Ekkert bendi til þess að greiðslufall hafi verið fyrirsjáanlegt og þannig haft áhrif á markaðsvirði viðmiðunarbréfa stefnanda á eða fyrir gjalddaga, enda hafi aldrei komið fram nein sölutilboð í bréfin í kerfi Kauphallar Íslands, sem hefði verið augljós afleiðing ótta um greiðslufall.

Umfjöllun stefnanda um markaðsverð í stefnu einkennist annars af því að hann virðist ekki skilja hugtakið.  Þegar rætt sé um markaðsverð hlutabréfa eða skuldabréfa sé það verðið sem fjárfestar á markaði séu reiðubúnir að greiða fyrir verðbréf, eða selja það á.  Þegar um skráð verðbréf sé að ræða sé byggt á síðustu skráðu viðskiptum með bréfið fyrir það tímamark sem miðað sé við.  Þannig sé ekki hægt að halda því fram að ekki sé til markaðsverð á skráðu verðbréfi kl. 15 um eftirmiðdaginn vegna þess að síðustu skráðu viðskipti hafi átt sér stað kl. 10 um morguninn, eða að halda því fram að ekkert markaðsverð sé til á skráðu verðbréfi á miðvikudegi vegna þess að síðustu skráðu viðskipti hafi átt sér stað á þriðjudegi.  Þetta sé hins vegar það sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Hann haldi því fram að ekkert markaðs-verð hafi verið til á EXIS 08 1008 vegna þess að engin viðskipti hafi átt sér stað á lokadegi.  Þetta sé að sjálfsögðu alrangt.  Gengi EXIS 08 1008 hafi verið 100 á lokadegi og verðmæti viðmiðunarbréfa stefnanda því nafnverð þeirra, eða samtals 300.000.000 krónur.  Um hafi verið að ræða víxla sem þýði að hvorki vextir né verðbætur bætist við höfuðstól frá útgáfudegi til greiðsludags.  Þess í stað hafi víxlarnir verið seldir á nafnverði að frádregnum 18,65% ársvöxtum margfölduðum með lánstíma.  Í framangreindu hafi falist að gengi víxlanna hafi hækkað línulega frá útgáfugengi að 100 sem hafi verið lokagengi.  Ársvextir, sem hafi numið 18,65%, hafi endurspeglað áhættumat kaupenda á víxlunum.  Hefðu einhverjir kaupendur talið að greiðslufallsáhætta víxlanna hefði aukist frá kaupdegi hefðu þeir reynt að selja víxla miðað við hærri ávöxtunarkröfu en 18,65% og þar af leiðandi á lægra verði en framangreind gengisþróunarformúla geri ráð fyrir.  Hefðu einhverjir kaupendur talið að greiðslufallsáhætta víxlanna hefði minnkað frá kaupdegi hefðu þeir reynt að kaupa fleiri víxla miðað við lægri ávöxtunarkröfu en 18,65% og þar af leiðandi á hærra verði.  Hins vegar hafi hvorki fyrr né síðar komið fram kauptilboð né sölutilboð í víxla í flokknum EXIS 08 1008 frá skráningu þeirra í Kauphöll Íslands.  Framangreint staðfesti með ótvíræðum hætti að ávöxtunarkrafa víxlanna á markaði hafi aldrei breyst á líftíma víxlanna og þess vegna hafi gengi þeirra ekki getað verið annað en 100 á lokadegi skiptasamninganna.

Stefndi byggir einnig á því að kröfur stefnanda byggi á óskhyggju um efni skiptasamninganna og tengds loforðs um skortsölusamning en ekki raunverulegu efni þeirra.  Hvergi í skiptasamningunum sé gert ráð fyrir því að lækkun á markaðsvirði viðmiðunarbréfa stefnanda skapi greiðsluskyldu fyrir stefnda.  Ekkert í orðalagi samninganna eða annað í tengslum við gerð þeirra styðji slíka niðurstöðu, enda hafi stefndi aldrei gert ráð fyrir því að svo færi.  Stefnandi virðist vera að reyna að fella á stefnda greiðslufallsáhættu „bakdyramegin“ sem hann sannarlega beri ekki samkvæmt skiptasamningunum.

Í hvorum skiptasamningi séu það í grundvallaratriðum þrír samningsliðir sem ráði því hver greiðsluskylda aðila kunni að vera við uppgjör samninganna, þ.e. liðirnir „Greiðsla“ í þeim köflum sem nefnist annars vegar „Skuldbinding viðskiptamanns“ og hins vegar „Skuldbinding banka“ og loks liðurinn „Greiðslufyrirkomulag/skuldajöfnun (nettun)“ í kaflanum „Sameiginlegar skyldur og/eða réttindi“.  Hvað varði stefnda, segi í liðnum „Greiðsla“: „Viðskiptamanni ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsverði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns frá samningsdegi miðað við markaðsgengi það sem bankinn býður á gjalddaga, en til frádráttar komi þær lækkanir sem kunni að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns…“. Hvað varði stefnanda segi í liðnum „Greiðsla“: „Bankanum ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsverði viðmiðunarbréfa frá samningsdegi miðað við markaðsgengi það sem bankinn býður á gjalddaga, en til frádráttar komi þær lækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa…“

Í liðnum „Greiðslufyrirkomulag/skuldajöfnun (nettun)“ segi: „Greiðslum samningsaðila skal ávallt skuldajafna, þannig að aldrei komi til greiðslu á öðru en mismun á greiðsluskyldu samningsaðila.  Reynist samanlagðar greiðslur viðskiptamanns hærri en samanlagðar greiðslur banka skal bankinn skuldfæra reikning viðskiptamanns fyrir mismuninum.  Reynist samanlagðar greiðslur banka hærri en samanlagðar greiðslur viðskiptamanns skal bankinn greiða mismuninn inn á reikning viðskiptamanns…“

Þegar ofangreind ákvæði séu skoðuð sé ekkert sem styðji þá hugmynd stefnanda sem fram komi í stefnu, að lækkun markaðsvirðis viðmiðunarbréfa hans myndi kröfu á stefnda.  Afdráttarlaust orðalag samninganna kveði á um að greiðsluskylda aðila geti aðeins myndast á grundvelli hækkunar á markaðsvirði eigin viðmiðunarbréfa, sbr. „Viðskiptamanni ber að greiða þær hækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns frá samningsdegi…“  Orðalagið „en til frádráttar komi þær lækkanir sem kunna að verða á markaðsvirði viðmiðunarbréfa viðskiptamanns“, verður ekki skilið með öðrum hætti en svo að greiðsluskylda myndist aðeins á grundvelli nettóhækkunar, en ekki hæsta markaðsvirðis bréfanna á samningstímanum.  Þannig sé algerlega órökstutt af hálfu stefnanda hvernig hann telji sig geta lagt lækkun á eigin viðmiðunarbréfum inn í svokallaða nettun á milli samningsaðila sem neikvæða stöðu og byggt kröfu á hendur stefnda á þeim grundvelli.  Samkvæmt orðalagi skiptasamninganna myndi upphafsgengi viðmiðunarbréfa aðila gólf á greiðsluskyldu þeirra sem geti þannig aldrei orðið lægri en núll.

Hefði það verið hugmynd stefnanda að lækkun viðmiðunarbréfa samningsaðila myndaði kröfu á hendur hinum aðilanum hefði honum verið í lófa lagið að geta þess í samningnum, enda hafi hann samið hið staðlaða samningsform.  Hann hljóti því að bera hallann af því ef orðalagið, hvað þetta áhræri, sé óskýrt eða orki tvímælis.  Stefnandi sé auk þess fjármálafyrirtæki sem byggi starfsemi sína að talsverðu leyti á viðskiptum af því tagi sem skiptasamningar eru, þ.e. afleiðuviðskiptum, og því megi gera til hans sérstaklega ríkar kröfur um fagmennsku.  Ótvírætt verði að vera í hverju áhætta viðskiptamanns felist.  Stefndi heldur því hins vegar fram að bankinn hafi einmitt alls ekki ætlast til þess að greiðsluskylda stefnda gæti myndast með þeim hætti sem hann nú byggi stefnukröfu sína á.  Stefnandi hafi raunar gert fjölmarga skiptasamninga þar sem slíkri greiðsluskyldu hafi verið ætlað að koma til og þá hafi það verið tekið fram berum orðum og með ótvíræðum hætti.  Ekkert sé fram komið um það hvers vegna stefnandi telji sig nú, án þess að hafa hreyft því með nokkrum hætti í þeim skiptasamningum sem mál þetta varði, geta byggt kröfu á atriði sem hann hafi hingað til séð ástæðu til að tilgreina sérstaklega í skiptasamningum, og það í sérstökum lið.  Vísar stefndi til tveggja framlagðra skiptasamninga sem hann hafi áður gert við stefnanda, þar sem lækkun á viðmiðunarbréfum hafi átt að skapa kröfu á mótaðila samningsins.  Annars vegar sé um að ræða skiptasamning með auðkennið TRS 20241502-473, en þar segi eftirfarandi í liðnum „lækkun á verðmæti viðmiðunarbréfa“ í kaflanum „Skuldbindingar banka“ :„Ef verðmæti viðmiðunarbréfa er lægra á gjalddaga en á fyrsta vaxtadegi þá skal bankinn greiða viðskiptamanni mismuninn, þ.e. mismun á viðmiðunarfjárhæð og verðmæti viðmiðunarbréfa, miðað við það gengi sem bankinn býður á gjalddaga“.  Skiptasamningur TRS 20240215-472, segi eftirfarandi í liðnum „lækkun á verðmæti viðmiðunarbréfa“ í kaflanum „Skuldbindingar viðskiptamanns.“ :„Ef verðmæti viðmiðunarbréfa er lægra á gjalddaga en á fyrsta vaxtadegi, þá skal viðskiptamaður greiða bankanum mismuninn, þ.e. mismun á viðmiðunarfjárhæð og verðmæti viðmiðunarbréfa, miðað við það gengi sem bankinn býður á gjalddaga…“

Stefndi byggir einnig á því, verði ekki fallist á fyrri málsástæður hans, að þeir víxlar, sem stefnandi hafi tekið við sem greiðslu á 60% fjárhæðar viðmiðunarbréfa sinna, hafi ekki verið verðlausir.  Það tímamark sem miða beri við í þessu samhengi sé greiðsludagur og hafi stefnandi enga tilraun gert til að sýna fram á ógjaldfærni Exista hf. á þeim tíma og verði því að bera hallann af því.  Það að víxlarnir hafi verið verðlausir sé í algerri þversögn við háttsemi stefnanda, sem vart hefði lagt á sig að taka við víxlunum hefði hann metið þá verðlausa með öllu.

Um lagarök vísar stefndi til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, auk ólögfestra meginreglna samningaréttarins og almennra reglna kröfuréttarins.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Ágreiningur mál þessa lýtur að uppgjöri á tveimur skiptasamningum nr. TRS 20081008-466  og nr. TRS 20081008-467, um víxla og ríkisbréf, sem aðilar gerðu með sér 13. júní 2008, en lokadagur samkvæmt samningunum var 8. október 2008. 

Byggir stefnandi á því að gera eigi upp samningana með svokallaðri „nettun“ þeirra, þ.e. að greiðsla aðila skyldi jafngildi hækkunum á markaðsvirði viðmiðunarbréfa að frádregnum lækkunum. 

Kröfur sínar vegna skiptasamnings TRS 20081008-466, byggir stefnandi á því að greiðsla stefnda skuli vera mismunur á gengi ríkisbréfanna frá samningsdegi, 13. júní 2008, 94.405.862 krónur og markaðsvirði á lokadegi samningsins, 98.961.189 krónur, eða 4.555.327 krónur.  

Byggir stefnandi á því að samkvæmt samningnum skyldi greiðsla stefnanda jafngilda hækkunum markaðsvirðis á víxlum með auðkennið EXIS 08 1008, að nafnvirði 100.000.000 frá 13. júní 2008 til 8. október 2008 og lækkun á markaðsvirði framangreindra víxla koma til frádráttar greiðslu stefnanda.

Fyrir liggur að á lokadegi skiptasamningsins hinn 8. október 2008 var enginn markaður með bréfin.    Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu stefnanda, dagsettri 24. október 2008, voru stefnanda greiddir umræddir víxlar úr víxilflokknum EXIS 081008, 40% kröfunnar með reiðufé og 60% hennar voru greidd með útgáfu nýrra víxla til kröfuhafa. 

Stefnandi byggði síðan á því í stefnu að markaðsvirði hinna nýju víxla hefði á útgáfudegi þeirra verið ekkert og fékk dómkvaddan matsmann til staðfestingar á þessum skilningi sínum. Sökum þess væri sanngjarnt að viðmiðunarverð þeirra væri raunveruleg endurgreiðsla vegna víxlanna.

Greiðsla stefnanda samkvæmt þessum samningi ætti því að vera mismunur á markaðsvirði sem stefnandi bauð á EXIS 08 1008, frá samningsdegi hinn 13. júní 2008, og virði víxlanna á lokadegi samningsins, sem væri þá 40% af nafnvirði.  Í samræmi við það ætti greiðsla stefnanda vera mismunur á 40.000.000 krónum og 94.405.862 krónum (markaðsvirði EXIS 08 1008 að nafnvirði 100.000.000 krónur á samningsdegi 13. júní 2008), eða -54.405.862 krónur.

Samkvæmt því væri skuld stefnda vegna þessa samnings 58.961.009 krónur, þ.e. greiðsla stefnda að fjárhæð 4.555.327 krónur að frádreginni greiðslu stefnanda að fjárhæð -54.405.682 krónur.

Hins vegar byggði stefnandi á því að fara ætti með hinn skiptasamning aðila nr. TRS 20081008-467 með þeim hætti að greiðsla stefnda væri hækkun á markaðsvirði ríkisbréfa með auðkennið RB 08 1212, sem á samningsdegi var 188.567.423 krónur, en á lokadegi 197.668.488 krónur.  Hækkunin á bréfunum, og þar með greiðsla stefnda, ætti því að vera 9.101.065 krónur.  Greiðsla stefnanda samkvæmt þessum samningi ætti hins vegar að vera mismunur á markaðsvirði sem stefnandi bauð á EXIS 08 1008, frá samningsdegi hinn 13. júní 2008, eða 188.567.423 krónum, og virði víxlanna á lokadegi samningsins, sem væri þá 40% af nafnvirði, 203.000.000 krónur, eða 81.200.000 krónur.  Greiðsla stefnanda ætti því að vera -107.367.423 krónur.

Samkvæmt því væri skuld stefnda vegna þessa samnings 116.468.488 krónur, þ.e. greiðsla stefnda að fjárhæð 9.101.065 krónur að frádreginni greiðslu stefnanda að fjárhæð -107.367.423 krónur.

Heildarskuld stefnda við stefnanda vegna skiptasamninganna væri því 58.961.009 krónur + 116.468.488 krónur, eða 175.429.497 krónur.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að skiptasamningarnir hafi verið ógildir frá upphafi og óskuldbindandi fyrir hann, annars vegar vegna þess að hann hafi ekki uppfyllt kröfur sem gerðar séu að lögum til þess að fjármálafyrirtæki megi eiga afleiðuviðskipti við fjárfesta svo skuldbindandi sé fyrir þá, þar sem hann hafi ekki verið skilgreindur sem fagfjárfestir á grundvelli svara sinna á svokölluðu MiFid spurningaformi.  Hins vegar vegna forsendubrests vegna vanhalda stefnanda á því að gera við hann skortsölusamning hinn 8. október 2008 til 12. desember 2008, eins og lofað hefði verið, sem leiða ætti til ógildingar skiptasamninganna.

Eins og að framan greinir undirritaði stefndi 19. júní 2007 almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti, sem ætlað er að tryggja að viðskiptamaður hafi gert sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem falla undir skilmálana og þeirri áhættu sem þeim fylgir.  Hins vegar liggur ekki fyrir í málinu hvort stefndi hafi verið flokkaður sem fagfjárfestir.  Stefndi byggir á því að umræddir gerningar séu ógildir vegna þessa, þar sem stefnandi hafi ekki mátt eiga við hann afleiðuviðskipti.   Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 638/2010 varðar það ekki ógildingu samninga aðila af þeim ástæðum einum, að stefndi hafi ekki verið flokkaður sem fagfjárfestir.  Þá er með öllu ósönnuð sú fullyrðing stefnda að skilyrði fyrir gildi umræddra samninga hafi verið það að jafnframt yrði gerður skortsölusamningur.  Þar sem stefndi hefur ekki borið fyrir sig aðrar ógildingarástæður kemur ekki frekar til álita að ógilda beri umrædda samninga aðila.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því, að ekki hafi orðið greiðslufall á víxlunum, þar sem viðmiðunarbréf stefnanda samkvæmt skiptasamningnum, EXIS 08 1008, hafi verið greidd upp að fullu með afhendingu 40% víxilfjárhæðar í reiðufé og 60% með öðrum víxlum.  Víxlarnir hafi því fallið úr gildi og þar með ekki haft nein réttaráhrif eftir það.  Verði því ekki miðað við annað gengi viðmiðunarbréfa stefnanda en 100 og heildarmarkaðsverðmæti bréfanna 300.000.000 króna.  Ekki liggi fyrir að Exista hf. hafi ekki verið gjaldfært hinn 8. október 2008, og ekki getað greitt víxlana að fullu með reiðufé, hefði á það reynt.  Beri stefndi ekki greiðslufallsábyrgð á viðmiðunarbréfum stefnanda.

Til vara byggir stefndi á því, að greiðslufall að hluta á viðmiðunarbréfum stefnanda, EXIS 08 1008, hafi engin áhrif á greiðsluskyldu hans á grundvelli skiptasamninganna, þar sem það hafi ekki haft áhrif á markaðsvirði viðmiðunarbréfa stefnanda.  Stefnandi leggi að jöfnu markaðsvirði og greiðslufall, en orðalag skiptasamninganna feli einungis í sér markaðsáhættu frá samningsdegi og út lokadag, enga greiðslufallsáhættu.  Greiðslufall geti aldrei legið fyrir fyrr en daginn eftir gjalddaga, sem hafi verið daginn eftir lokadag skiptasamninganna, en sá dagur hafi verið óviðkomandi réttarstöðu aðila á grundvelli skiptasamninganna. 

Stefndi mótmælir því að ekkert markaðsverð hafi verið til á EXIS 08 1008 vegna þess að engin viðskipti hafi átt sér stað á lokadegi.  Heldur stefndi því fram að gengi EXIS 08 1008 hafi verið 100 á lokadegi og verðmæti viðmiðunarbréfa stefnanda því nafnverð þeirra, eða samtals 300.000.000 krónur, þar sem ávöxtunarkrafa víxlanna á markaði hafi aldrei breyst á líftíma þeirra.

Stefndi byggir og á því að hvergi sé gert ráð fyrir því að lækkun á markaðsvirði viðmiðunarbréfa skapi greiðsluskyldu fyrir hann.

Loks byggir stefndi á því, að víxlarnir EXIS 09 0317, sem stefnandi tók við sem greiðslu á 60% fjárhæðar viðmiðunarbréfa sinna hafi ekki verið verðlausir. 

Eins og að framan greinir gerðu aðilar með sér tvo skiptasamninga.  Samkvæmt framlögðum skiptasamningum bar að gera þá upp á lokadegi þeirra, sem var 8. október 2008, með skuldajöfnun.  Aðilar tóku með því áhættu á þróun verðmæta, en samkvæmt framlögðum samningum voru viðmiðunarbréf stefnda ríkisbréf, en viðmiðunarbréf stefnanda EXIS víxlar 08 1008.    Samkvæmt samningunum var það markaðsvirði viðmiðunarbréfanna sem ráða átti greiðsluskyldu hvors aðila.  Verður að skilja orðalag samninga með þeim hætti að á lokadegi hafi átt að fara fram svokölluð „nettun“ samninganna með þeim hætti að bæði hækkun og lækkun viðmiðunarbréfanna hafði áhrif á greiðsluskylduna. 

Í málinu er ekki ágreiningur um verðmæti  ríkisbréfanna.  Samkvæmt því er greiðsla stefnda vegna þeirra 13.656.392 krónur.  Hins vegar greinir aðila á um verðmæti EXIS víxlanna, þar sem engin viðskipti voru með víxlana frá útgáfudegi þeirra og fram að lokadegi.  Stefnandi kveður að víxlarnir hafi síðar verið greiddir, 40% með reiðufé og 60% með útgáfu nýrra víxla EXIS 09 0317.   Verður ekki fallist á það með stefnda að með því sé sýnt fram á markaðsvirði þeirra.   Eins og að framan greinir byggði stefnandi kröfu sína í stefnu á því að verðmæti víxlanna hafi ekkert verið á lokadegi samningsins og fékk hann dómkvaddan matsmann til þess að sanna þá fullyrðingu sína.  Samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar, sem byggði á innra virði Exista ehf., var markaðsvirði EXIS 08 1008 og EXIS 09 0317 á lokadegi samningsins á bilinu 50% til 70% og því markaðsvirði EXIS 08 1008, að teknu tilliti til 40% innborgunar, 68%-79% af nafnvirði.  Í samræmi við niðurstöðu matsins setti stefnandi fram vara- og þrautavarakröfu sína.  Þegar það er virt að stefnandi byggir aðalkröfu sína í stefnu á niðurstöðu matsgerðarinnar, sem þó lá ekki fyrir, og þar sem sú matsgerð styður ekki þá málsástæðu hans, verður ekki, gegn andmælum stefnda, á því byggt að markaðsvirði umræddra víxla hafi ekkert verið á lokadegi.  Hins vegar verður við mat á markaðsvirði að líta til framlagðrar matsgerðar við ákvörðun á markaðsvirði víxlana, enda hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð eða á annan hátt.  Í samræmi við málatilbúnað stefnanda þykir því rétt að miða útreikning á stöðu samningsins eins og gert er í matsgerð, við markaðsvirði EXIS 08 1008, að teknu tilliti til 40% innborgunar.  Með því að matsgerðin er ekki afdráttarlausari um markaðsvirði víxlanna á lokadegi þykir rétt að stefnandi beri hallann af því, og verður hæsta matsveð víxlanna samkvæmt matsgerðinni, þ.e. 79% af nafnvirði, lagt til grundvallar.  Greiðsla stefnda vegna þeirra bréfa er því 15.480.752 + 28.349.814 krónur.  Verður stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda 57.486.958 krónur, en ekki er tölulegur ágreiningur um útreikning kröfunnar miðað við þessa forsendu.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins og niðurstöðu þess, hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Arnar Sigurðsson, greiði stefnanda, SPB hf., 57.486.958 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. október 2008 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.