Hæstiréttur íslands

Mál nr. 433/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


           

Föstudaginn 29. október 1999.

Nr. 433/1999.

X

(Ólafur Birgir Árnason hrl.)

gegn

Akureyrarbæ

(Baldur Dýrfjörð hdl.)

                                              

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdómara um að hafna kröfu X um að fellt yrði úr gildi samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að hún yrði vistuð gegn vilja sínum á sjúkrahúsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. október 1999, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 14. sama mánaðar um að sóknaraðili yrði vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Skilja verður kæruna svo að sóknaraðili krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. október 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar  19. október sl., er tilkomið vegna kröfu X, [...] um að úr gildi verði felld nauðungarvistun hennar á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA), er dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitti samþykki fyrir þann 14. október sl.

Hin kærða ákvörðun um nauðungarvistun er reist á vottorðum Péturs Péturssonar, heilsugæslulæknis, dags. 13. og 14. október sl., sem rituð voru að beiðni fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, en upplýst er að sóknaraðili heldur heimili í [...]. 

Í nefndum læknisvottorðum er lýst tímabundnum sjúkrahúsvistunum sóknaraðila, þ.á.m. á geðdeild FSA, í nóvember 1997 og í aprílmánuði 1998. Þá er í  fyrra vottorði læknisins ástandi sóknaraðila lýst svofellt eftir skoðun þann 22. september sl. á heimili hennar;

„Svo virðist sem konan sé haldin greinilegum oflátum og skortir hana algjörlega sjúkdómsinnsæi. Dómgreindarleysi og hömluleysi er mjög áberandi hjá henni, en raunveruleikatengsl eru í lagi að því frátöldu, að hún hefur miklar aðsóknarhugmyndir og nokkrar ranghugmyndir. Þetta ástand er orðið langvinnt og virðist fara versnandi. Hún virðist ófær um að sjá fótum sínum forráð á eigin spýtur og á það á hættu að missa húsnæðið. Verður þá á köldum klaka. Þar sem hún að auki veldur nánasta umhverfi sínum miklum truflunum og óþægindum, virðist brýnt að grípa hér inn í gang mála með markvissum hætti og með langtímamarkmið í huga. Þarf tvímælalaust á vistun á geðdeild að halda til mats og meðferðar, en þar sem konuna skortir allt sjúkdómsinnsæi og samþykkir ekki slíkt, er nauðsynlegt að svipta hana sjálfræði á meðan verið er að koma henni til heilsu ánýja leik og tryggja velferð hennar til einhverrar frambúðar.“

Nefndur læknir áréttaði álit sitt í síðara læknisvottorði sínu, en það er ritað eftir vitjun til sóknaraðila þann 14. október sl.

Sóknaraðili var færð á geðdeild FSA þann 15. október sl. af héraðslækni Norðurlands eystra og lögreglumönnum. 

Áðurgreind krafa barst Héraðsdómi Norðurlands eystra 18. október sl. fyrir tilstilli ráðgjafa nauðungarvistaðs fólks á Akureyri, sem tilnefndur er af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Af hálfu dómsins var óskað eftir athugasemdum frá geðdeild FSA og liggur fyrir vottorð Sigmundar Sigfússonar, yfirlæknis, dags. 19. október sl. Í vottorðinu er í upphafi greint frá því að sóknaraðili sé haldin langvinnum alvarlegum geðsjúkdómi og að henni hafi við komu á sjúkrahúsið verið gefin róandi lyf.  Niðurlag vottorðsins er svofellt;

„Meðferð X í fjóra sólarhringa á Geðdeild FSA hefur borið allnokkurn árangur sem kemur fram í því að hún er rórri, er færari um að halda uppi samræðum, hún er til betri samvinnu og tortryggni hefur minnkað. Nætursvefn og næring er í góðu lagi. Samt sem áður ber töluvert mikið á órökréttri hugsun sem er óeðlilega hröð og tal sömuleiðis. Hún hefur engan skilning á þörf fyrir vistun sinni og meðferð á sjúkrahúsi. Út frá núverandi geðhorfi sjúklingsins svo og þekkingu undirritaðs á sjúkdómssögu hennar álit ég að hún þurfi nauðsynlega enn margra vikna meðferð og vistun á sjúkrahúsinu. Til þess að meðferð beri varanlegan árangur þarfnast hún þess að vera undir geðlæknishendi í nokkur ár og taka viðeigandi lyf.

Hvað varðar sjúkdómsgreiningu er það niðurstaða undirritaðs að X sé haldin svonefndu geðklofalíku geðrofi geðhæðargerðar (Psychosis schizoaffectiva, typus manicus, F25.0 í alþjóðasjúkraskránni).“

Á dómþingi síðdegis þann 19. október sl. gaf sóknaraðili skýrslu, en auk þess létu til sín taka skipaður talsmaður hennar, Ólafur Birgir Árnason, hæstaréttarlögmaður, og bæjarlögmaður Akureyjarbæjar, Baldur Dýrfjörð.

Það er álit dómsins að öllu ofangreindu virtu, að ekkert sé fram komið er hnekki mati áðurnefndra lækna að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, skorti sjúkdómsinnsæi og að sjúkrahússvist sé brýn. Ber því að staðfesta ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 14. október sl. um að sóknaraðili, X, [...] skuli vistast á sjúkrahúsi. 

Samkvæmt 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar, hrl., 30.000 krónur úr ríkissjóði.

Úrskurð þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Nauðungarvistun, X, [...], samkvæmt ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 14. október 1999 er óhögguð.

Málskostnaður talsmanns sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar, hrl., krónur 30.000 greiðist úr ríkissjóði.