Hæstiréttur íslands

Mál nr. 124/2003


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Samkeppni
  • Févíti
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. október 2003.

Nr. 124/2003.

Plast, miðar og tæki ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Sigurði Þorsteini Guðjónssyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Vinnusamningur. Samkeppnisákvæði. Févíti. Skaðabætur.

S var ráðinn til starfa til PMT ehf. árið 1993 og tók við stöðu yfirmanns þjónustudeildar félagsins árið 1998. Í tengslum við launahækkun til S var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur 30. maí 2000. Í samningnum var meðal annars ákvæði um að S skuldbindi sig til að ráða sig ekki hjá fjórum nafngreindum fyrirtækjum í tvö ár frá starfslokum sínum hjá PMT ehf., að viðlögðu févíti að fjárhæð 12.000 krónur á dag. Var P ehf. eitt þeirra. S sagði upp starfi sínu  hjá PMT ehf. og hætti í ágúst 2001. Í desember sama ár hóf hann störf hjá P ehf. Í málinu krefur PMT ehf. um greiðslu févítis vegna samningsbrots S að fjárhæð 3.120.000 krónur. Talið var að samningsskuldbinding S hafi hvorki verið víðtækari en heimilað sé í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936, né verði henni vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. sömu laga. Þóttu heildarbætur til PMT ehf. vegna samningsrofs S hæfilega metnar 900.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2003 og krefst þess að stefndi greiði sér 3.120.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.484.000 krónum frá 25. júlí 2002 til 12. mars 2003 en af 3.120.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi hóf stefndi hóf störf hjá áfrýjanda 1993, er hann var enn í námi í rafeindavirkjun. Hann starfaði í verkstæðis- og þjónustudeild áfrýjanda lengst af ásamt tveimur öðrum starfsmönnum og annaðist uppsetningu og viðhald tækja fyrir viðskiptamenn. Honum var falin yfirstjórn þjónustudeildar haustið 1998. Í tengslum við launahækkun, sem hann fór fram á, var skriflegur ráðningarsamningur gerður 30. maí 2000 og var ákvæði um trúnað í 6. gr. hans. Þessi grein samningsins er tekin orðrétt í héraðsdómi. Stefndi sagði upp starfinu árið eftir og voru starfslok í júní 2001. Þá fór stefndi í sumarfrí fram í ágúst og var þá á launaskrá áfrýjanda.

Í desember 2001 hóf stefndi störf hjá Plastco ehf., andstætt 2. mgr. 6. gr. ráðningarsamningsins, en þar hafði hann skuldbundið sig, léti hann af starfi, til þess að taka ekki við starfi næstu tvö árin hjá fjórum nafngreindum fyrirtækjum í samkeppnisstöðu, þar á meðal Plastco ehf. Fram er komið að það hafi verið sameiginleg niðurstaða samningsaðila að setja nöfn þessara fjögurra fyrirtækja í 6. gr., eftir að stefndi hafði neitað að skrifa undir almennt bann við að ráða sig hjá samkeppnisaðila eftir starfslok. Fyrir héraðsdómi hélt stefndi því fram að hann hafi ekki verið sáttur við að skrifa undir samkeppnisákvæðið og talið sig þvingaðan til þess, þar sem ella fengi hann ekki þá launahækkun sem hann hafði farið fram á, en hún hafi verið töluverð.

Áfrýjandi og Plastco ehf. selja bæði sérhæfðan búnað til fyrirtækja í matvælaiðnaði. Þau hafa hvort sín umboð fyrir tæki sem gegna sama eða svipuðu hlutverki, en það eru vafningsvélar, flæðipökkunarvélar, samvalsvogir, færibandavogir og sprautuprentarar. Markaðurinn, sem þessi tvö fyrirtæki starfa á, er þröngur og þau hafa yfirburða markaðsstöðu hér á landi og eru í harðri samkeppni.

II.

Í máli þessu reisir stefndi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ákvæðið í 6. gr. ráðningarsamnings aðila sé brot á stjórnarskrárvörðum rétti hans til atvinnufrelsis, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt dómvenju stendur 75. gr. stjórnarskrárinnar því ekki í vegi að slík samkeppnisákvæði séu í samningum manna enda er ráð fyrir því gert í 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 7. gr. laga nr. 11/1986.

Í öðru lagi reisir stefndi kröfu sína á því að ákvæðið í 6. gr. ráðningarsamningsins sé ekki bindandi fyrir hann með vísan til 2. og 3. mgr. 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Þessi ákvæði laganna eru almennar reglur um trúnað í starfi. Verður ekki séð að þessi málsástæða styðji málstað hans.

Í þriðja lagi reisir stefndi kröfu sína á því að hann sé óbundinn af 6. gr. ráðningarsamningsins með vísan til 37. gr., svo og 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 og 1. gr. laga nr. 14/1995.

Grunnregla samningaréttarins er að samninga skuli halda. Í meginreglunni um samningsfrelsi felst meðal annars heimild atvinnurekanda til að semja við starfsfólk um að það ráði sig ekki í vinnu hjá öðrum í framhaldi af ráðningartímanum. Eins og fyrr greinir er gert ráð fyrir slíku samningsákvæði í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936. Þar er jafnframt kveðið á um að við tilteknar aðstæður séu slík samningsákvæði óskuldbindandi, það er ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess sem tókst skylduna á herðar. Stefndi gerði ráðningarsamning við áfrýjanda, sem báðir höfðu ávinning af. Hann féllst á að hafa þetta ákvæði í samningnum og þarf því að sýna fram á að þær aðstæður 1. mgr. 37. gr. laganna séu fyrir hendi sem geri ákvæðið óskuldbindandi fyrir hann.

Í 6. gr. ráðningarsamningsins eru talin upp þau fjögur fyrirtæki sem stefndi lofaði að taka ekki til starfa hjá í tvö ár eftir starfslok. Plastco ehf. er hið fyrsta í röðinni. Samningsákvæðið var því þröngt, afmarkað og hnitmiðað, sett í því skyni að vernda ákveðna og lögmæta samkeppnishagsmuni. Það skyldi aðeins gilda í tvö ár, sem er hæfilegur tími. Það getur því ekki talist víðtækara en nauðsynlegt var til að varna samkeppni. Stefndi er rafeindavirki að mennt. Ekki hefur verið sýnt fram á að þeir eigi erfitt með að fá atvinnu við sitt hæfi. Stefndi var einn af helstu starfsmönnum áfrýjanda og gegndi lykilstöðu í fyrirtækinu, var í beinu sambandi við viðskiptamenn og bar ríka trúnaðarskyldu. Þegar þetta er virt verður ekki talið að samningsákvæðið hafi skert atvinnufrelsi hans með ósanngjörnum hætti. Af framangreindum ástæðum eru því hvorki skilyrði til þess að telja loforð stefnda óskuldbindandi fyrir hann með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 né til 36. gr. sömu laga.

 Í 6. gr. nefnds ráðningarsamnings varðar brot á ákvæðinu févíti, 12.000 krónum á dag. Gerir áfrýjandi kröfu um að stefndi greiði þessa fjárhæð í 260 daga frá því hann hóf störf hjá Plastco ehf. 1. desember 2001 til útgáfudags stefnu, samtals 3.120.000 krónur. Stefndi gekkst undir þetta févíti ryfi hann samninginn við áfrýjanda. Fjárhæðin hefur væntanlega átt að vera til þess fallin að koma í veg fyrir samningsrof. Stefndi réði sig til samkeppnisaðila, án þess að bera það undir áfrýjanda eða leita til hans, og varð ekki við áskorun um að hætta í nýja starfinu.

Fallast ber á með áfrýjanda að ákvæðið um févíti feli í sér samningsbundnar bætur og því þurfi hann ekki að sanna tjón vegna brots stefnda á samkeppnisákvæðinu. Þegar til þess er litið að stefndi réði sig sem launaðan starfsmann en stofnaði ekki sitt eigið fyrirtæki þykir við ákvörðun bóta til áfrýjanda mega líta til mánaðarlauna stefnda og þeirrar launahækkunar sem hann fékk við gerð samningsins, fremur en dagsekta þeirra sem févítið greinir. Þykir verða að ákveða heildarbætur til áfrýjanda vegna samningsrofs stefnda að álitum og teljast þær hæfilega metnar 900.000 krónur. Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda þessa fjárhæð ásamt dráttarvöxtum frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.

 Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Sigurður Þorsteinn Guðjónsson, greiði stefnanda, Plast, miðar og tæki ehf., 900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 2003.

Mál þetta sem höfðað var 26. ágúst 2002 og tekið til dóms 13. febrúar sl.  hefur stefnandi, Plast, miðar og tæki ehf., kt. 410497-2209, Krókhálsi 1, Reykjavík höfðað gegn stefnda Sigurði Þorsteini Guðjónssyni, kt. 110370-5479, Kársnesbraut 89, Kópavogi, til greiðslu févítis, auk vaxta og málskostnaðar. 

Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.120.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af 2.484.000 krónum frá 25. júlí 2002, en af 3.120.000 krónum frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Að auki krefst stefnandi að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrst sinn þann 25. júlí 2003, en síðan árlega þann dag.  Einnig krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að sér verði dæmdur málskostnaður og við ákvörðun hans verði tekið tillit til þess að stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu fyrirsvarsmenn stefnanda, Sigurður Oddsson og framkvæmdastjóri stefnanda Oddur Sigurðsson, aðilaskýrslur.  Stefndi gaf einnig aðilaskýrslu.  Fyrir dóminn komu sem vitni Ingi R. Árnason og Hulda Birna Baldursdóttir, fyrrum starfsmenn stefnanda og Emil Þór Reynisson starfsmaður stefnanda.  

I.

                Málsatvik eru þau að stefnandi er fyrirtæki sem annast framleiðslu á límmiðum, sölu á vogum og pökkunartækjum sem einkum notast í matvælaframleiðslu.  Stefndi sem er rafeindavirki mun hafa hafið störf hjá stefnanda á árinu 1993 þegar hann var enn í námi.  Samkvæmt frásögn aðila mun stefndi alla tíð hafa starfað við verkstæðis- og þjónustudeild stefnanda, lengst af ásamt tveimur öðrum starfsmönnum.  Umrædd verkstæðis- og þjónustudeild annast uppsetningu á tækjum fyrir viðskiptamenn og viðhald sömu tækja.  Haustið 1998 mun yfirmaður stefnda í þjónustudeild, vitnið Ingi R. Árnason, hafa verið fluttur yfir í söludeild fyrirtækisins og stefnanda hafi í framhaldi af því verið falin yfirstjórn þjónustudeildar.  Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda vegna starfa hans í þágu stefnanda fyrr en 30. maí 2000.  Mun hafa verið gengið frá þeim samningi í tengslum við launahækkun til hans.  Í ráðningarsamningnum er m.a. eftirfarandi ákvæði:

„6. Trúnaður

Starfsmaður gegnir ábyrgðar- og trúnaðarstarfi fyrir vinnuveitanda.  Hann skal því gæta fyllsta trúnaðar um hvað eina sem hann hefur orðið áskynja í starfi sínu varðandi fyrirtækið og viðskiptavini þess og skaðað getur hagsmuni þessara aðila.  Eðlis starfs síns vegna ber honum að meðhöndla allar upplýsingar, skjöl og gögn sem hann hefur aðganga að í starfi sínu af fyllsta trúnaði.  Trúnaður þessi gildir áfram eftir starfslok.

Láti starfsmaður af starfi hjá vinnuveitanda skuldbindur hann sig til þess að taka ekki við starfi, hvorki beint eða óbeint, hjá eftirfarandi fyrirtækjum í samkeppnisstöðu:  Plastco, Eltak, Valdimar Gíslason/Íspakk og A. Karlsson, hefja eða tengjast þeirri starfsemi sem þar fer fram í a.m.k. tvö ár frá starfslokum.

Brot á ofangreindum ákvæðum um samkeppnisbann varða févíti kr. 12.000 á dag.“

Fram kom í skýrslu vitnisins Inga sem var forveri stefnda í umræddri yfirmannstöðu að stefnandi hafi farið þess á leit við hann að hann skrifaði undir samning með samkeppnisákvæði en kvaðst vitnið hafa hafnað því og hafi því ekki verið bundið af slíku ákvæði hvorki sem yfirmaður verkstæðis- og þjónustudeildar né í starfi sínu sem sölumaður fyrir stefnanda.

Í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda Sigurðar Oddssonar lýsti hann aðdraganda þess að aðilar gerðu með sér ráðningarsamning með samkeppnisákvæði.  Kvaðst hann hafa boðið stefnanda að taka við stjórn verkstæðis- og þjónustudeildar þegar vitnið Ingi færðist í söludeild fyrirtækisins.  Kvað Sigurður að hann hefði rætt meðal annars við stefnda um að í tengslum við þetta yrði gerður skriflegur ráðningarsamningur við hann með samkeppnisákvæði.  Af þessu hafi hins vegar ekki orðið fyrr en 30. maí 2000 og þá í tengslum við launahækkun sem stefndi hafi farið fram á.  Kvað Sigurður að í upphaflegri gerð hafi samkeppnisákvæði samningsins verið orðað með þeim almenna hætti að stefndi mætti ekki starfa fyrir samkeppnisaðila, en stefnda hafi þótt ákvæðið of víðtækt og að hans frumkvæði hafi verið farin sú leið að telja upp tiltekin fyrirtæki í samkeppni sem stefndi mætti ekki starfa hjá eftir starfslok hjá stefnanda.

Stefndi sagði upp starfi sínu hjá stefnanda með uppsagnarbréfi sem dagsett er 30. mars 2001.  Segir m.a. í því bréfi að starfsmaður telji síðasta starfsdag sinn 29. júní og að í framhaldi af því muni hann taka sumarfrí.  Hefur ekki annað komið fram í málinu en að starfslok stefnda hafi verið með þeim hætti sem ráðgert var í bréfinu.

Í greinargerð stefnda er ástæða uppsagnarinnar sögð vera ágreiningur um bifreiðahlunnindi.

Stefnandi skrifaði meðmælabréf í þágu stefnda við starfslok hans og liggur það fyrir í málinu.    Er starfi stefnda lýst þannig að hann hafi tekið við stjórn þjónustudeildar haustið 1998 og hafi haft tvo menn undir sinni stjórn.  Segir og að starf forstöðumanns þjónustudeildar sé fólgið í því að bera ábyrgð á  og sjá um að þjónusta á tækjum sem stefnandi flytji inn og selji sé góð.  Mörg þessara tækja og véla t.d. fyrir matvælaiðnaðinn séu mjög sérhæfð og oft sem hlekkir í einni keðju, þannig að bilun geti þýtt stöðvun á einni framleiðslulínu eða heilli verksmiðju.  Það segi sig því sjálft að forstöðumaðurinn þurfi að vera fjölhæfur, þolinmóður og þrautseigur.  Allt séu þetta eiginleikar sem stefndi hafi sýnt og sannað að hann hafi til að bera.  Segir og að á vegum stefnanda hafi stefndi sótt ýmis þjónustunámskeið hjá erlendum vélaframleiðendum eins og t.d. í tölvuvogum, bleksprautuprenturum, kjöt- og fiskvinnsluvélum og pökkunarvélum.

Í greinargerð stefnda kemur fram að honum hafi ekki tekist að fá starf eftir starfslok sín hjá stefnanda, utan tímabundin verkefni.  Þegar honum hafi síðan boðist starf hjá Plastco í gegn um ráðningarþjónustu hafi hann neyðst til að taka því þar sem fjárhagur hans hafi verið orðinn bágur.  Kveðst hann hafa hafið störf hjá Plastco í desember 2001 og hafi hann starfað þar síðan.

Stefnandi kveðst hafa fengið vitneskju um starf stefnda í þágu Plastco vorið 2002 og setti fram lögbannsbeiðni þann 10. apríl 2002 hjá sýslumanninum í Kópavogi, þar sem krafist var lögbanns á störf stefnda í þágu Plastco hf.  Lögbannsbeiðni þessari hafnaði sýslumaður þann 13. maí s.á.

Með bréfi 25. júní 2002 krafðist stefnandi dagsekta úr hendi stefnda og var þeirri kröfu hafnað með bréfi 3. júlí s.á.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi gegnir sams konar starfi hjá Plastco og hann gegndi hjá stefnanda.  Stefndi kveðst ekki hafa þar mannaforráð en starfi að uppsetningu og viðhaldi þeirra véla og tækja sem það fyrirtæki selur.  Einnig má ráða af gögnum að um er að ræða sambærilegan tækjabúnað sem notaður sé meðal annars í matvælavinnslu.  Einnig er fram komið að viðhald þessa búnaðar getur verið vandasamt og krefst oft á tíðum sérþekkingar.  Stefnandi og Plastco virðast í sumum tilvikum hafa selt sömu aðilum tækjabúnað, þannig að stefndi komi í starfi sínu fyrir Plastco í fyrirtæki sem hafa tæki frá stefnanda í notkun.

II.

                Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á skýru ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings aðila frá 30. maí 2000.  Kveður stefnandi að samkvæmt því ákvæði varði það stefnda févíti að fjárhæð 12.000 krónur hvern dag að starfa fyrir Plastco hf.  Stefndi hafi hafið störf hjá Plastco hf. 1. desember 2001 og starfi þar enn í dag.  Alls hafi stefndi því unnið í 260 daga fyrir Plastco hf. á ritunardegi stefnu.  Nemi því fjárhæð dagsekta samtals 3.120.000 krónum og sé það stefnukrafa málsins. 

Byggir stefnandi á að tilefni hins skriflega ráðningarsamnings hafi verið að stefndi hafi farið fram á launahækkun sem samþykkt hafi verið af stefnanda.  Stefndi hafi verið gerður að yfirmanni verkstæðis og hafi sem slíkur borið, f.h. stefnanda, ábyrgð á uppsetningu á nýjum vélum og þjónustu á tækjum sem stefnandi hafi selt.  Í tengslum við hið nýja starf stefnda hafi hann verið sendur á dýrt námskeið til að gera hann betur færan til að takast á við krefjandi verkefni hjá fyrirtækinu.  Stefndi hefði einnig áður sótt fleiri sérhæfð námskeið á kostnað stefnanda.  

Kveður stefnandi að við gerð tilvitnaðs ákvæðis ráðningarsamnings aðila frá 30. maí 2000 hafi stefndi sjálfur óskað eftir því að tekin yrðu upp í samninginn nöfn þeirra fyrirtækja sem stjórnendur stefnanda vildu ekki að hann réði sig í vinnu hjá, kysi hann að hætta störfum hjá stefnanda.  Stefndi hafi ekki á nokkurn hátt verið þvingaður til að undirrita samninginn og hafi 6. gr. hans verið samin að forskrift stefnda sjálfs.

Stefndi kveðst vísa til 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga og telur að ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings aðila sé í fullu samræmi við nefnda lagagrein, enda ekki um víðtæka skuldbindingu að ræða af hálfu stefnda.  Sé þá sérstaklega vísað til þess að tiltekin séu sérstaklega nokkur fyrirtæki sem stefnda hafi verið óheimilt að ráða sig til starfa hjá, en ekki hafi verið útlokað að stefndi gæti unnið við iðn sína að öðru leyti.

Varðandi lagarök kveðst stefnandi vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og til ráðningarsamnings aðila 30. maí 2000.  Stefnandi vísar og 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 37. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.  Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og kröfu um málskostnað við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

III.

Stefndi styður kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að ákvæðið í 6. gr ráðningarsamningi aðila um að stefnda sé óheimilt um tveggja ára skeið eftir starfslok að ráðast til starfa hjá tilteknum aðilum sé brot á stjórnarskrárvörðum rétti stefnda til atvinnufrelsis, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segi að öllum skuli frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi.  Þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.  Svo víðtækt afsal á atvinnufrelsi sem stefndi hafi undirgengist með samningi sínumm við stefnanda standist því ekki.

Stefndi byggir í öðru lagi á því að umrætt ákvæði í ráðningarsamningi sé ekki bindandi fyrir stefnda með vísan til 2. og 3. mgr. 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.  Þar sé kveðið á það að sá sem fengið hafi vitneskju eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan megi ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál.  Bannið gildi í þrjú ár frá því að starfi ljúki.  Ennfremur segi þar að þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hafi verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu uppskriftum, líkönum eða þess háttar sé óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.

Stefndi sé með starfi sínu hjá Plastco ekki að brjóta ákvæði samkeppnislaga.  Hann búi ekki yfir neins konar atvinnuleyndarmálum, sem hann nýti í þágu nýs atvinnurekanda, né hafi honum verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu, uppskriftum, líkönum eða þess háttar, sem hann sé nú að nýta sér.  Starf hans hjá stefnanda hafi falist í skipulagningu á viðgerðum og þjónustu, því að afla aðfanga, sjá um samskipti deildar við byrgja og sinna viðgerðum á tækjabúnaði, sem ekki hafi verið framleiddur hjá stefnanda.  Hann hafi líka haft mannaforráð.  Starfsemi Plastco sé einkum þjónusta við sjávarútveginn á meðan stefnandi vinni aðallega í kjötvinnslu og selji vélar í verslanir og bakarí.  Ekkert í störfum stefnda hjá stefnanda hafi verið þess eðlis að hætta gæti verið á því að hann flytti á milli fyrirtækja einhvers konar vitneskju sem Plastco gæti ekki aflað sér annars staðar frá.

Stefndi vinni nú við stillingu og viðgerð á vélum og tækjum, vinnu sem hvaða rafeindavirki sem er geti sinnt, sem hafi kunnáttu til að bera sem kennd sé í skóla.  Stefndi ógni með engum hætti samkeppnisstöðu stefnanda, einnig þar sem Plastco vinni fyrst og fremst fyrir sjávarútveginn á meðan stefnandi vinni aðallega í kjötvinnslu og selji vélar í verslanir og bakarí.  Því bresti stefnanda heimildir til að knýja fram greiðslur févítis.  Ákvæðið bindi ekki stefnanda með vísan til almennra ógildingarreglna samningaréttarins.

Í þriðja lagi kveðst stefndi óbundinn af samkeppnisákvæði ráðningar­samningsins með vísan til samningalaga nr. 7/1936, einkum 37. gr., svo og 36. gr. laganna.

Ákvæði 37. gr. samningalaganna sé ætlað að tryggja að verndin sem aðili, í þessu tilviki stefnandi, áskilji sér með slíku samningsákvæði, sé innan eðlilegra marka hvað varði samkeppnisvernd og skerði ekki atvinnufrelsi þess mann, í þessu tilviki stefnda, sem tekist hafi skylduna á herðar.  Við mat á því hvort verndin skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi manns, skuli líta til þeirra hagsmuna sem atvinnurekandinn hafi af því að ákvæðið sé haldið.

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir neinu tjóni við það að stefndi hafi hafið störf hjá Plastco.  Stefnandi hafi ekki heldur sýnt fram á að stefndi hafi búið yfir neinum þeim leyndarmálum sem kunni að skaða stefnanda.  Störf stefnda fyir stefnanda hafi ekki verið þess háttar að þau sjónarmið gætu átt við sem réttlæti samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi.

Jafnvel þótt einhver viðskiptaleg hætta kynni að hafa verið á því að stefndi færi að vinna hjá samkeppnisaðila, verði að telja, með vísan til 36. gr. samningalaga að stefndi hafi verið óbundinn af ákvæði ráðningarsamningsins.  Í þessu sambandi verði að líta til þess að stefndi hafi enn verið atvinnulaus hálfu ári eftir að hann hafi hætt störfum hjá stefnanda og 9 mánuðum eftir að hann hafi sagt þar upp starfi.  Hann hafi reynt að leita fyrir sér sem rafvirki, en ekki fundið sér starfsvettvang.  Kona stefnda hafi ennfremur verið atvinnulaus.  Fjárhagsgrundvelli fjölskyldunnar hafi verið ógnað.

Kveður stefndi að þótt hann hafi hafið störf hjá Plastco í desember 2001, hálfu ári eftir að hann hafi látið af störfum hjá stefnanda sé ekki um það að ræða að réttindi stefnanda hafi verið að fara forgörðum eða stefnandi hafi orðið fyrir teljandi spjöllum þótt stefndi sé í vinnu hjá Plastco.

Ennfremur byggir stefndi á því að ákvæði í ráðningarsamningi um févíti fái engan veginn staðist og sé sérstaklega mótmælt í þessu samhengi.  Þær skuldbindingar sem starfsmaður sé að taka á sig með þessu ákvæði séu langt umfram allt það sem eðlilegt megi telja og eigi sér enga lagastoð.  Ekki sé óalgengt að samið sé um greiðslu févítis í tengslum við verktakastarfsemi, en í ráðningarsamningum séu slík ákvæði algerlega óforsvaranleg.  Mikið ójafnræði sé með aðilum við samningsgerð og aðstæður síðar geti mjög auðveldlega valdið því að launþega sé ókleyft að virða ákvæði um að fara ekki í starf annað.  Févítisgreiðslan sé svo há að engum launamanni sé kleyft að standa straum af henni.  Í þessu sambandi vísar stefndi til ógildingarákvæða samningalaga, einkum 36. gr.

Stefndi byggir loks á því að í þeim dómum þar sem reynt hafi á 37. gr. samningalaga hafi í öllum tilvikum verið um að ræða að starfsmaður sem hætt hafi störfum hafi sjálfur stofnað fyrirtæki í samkeppni við fyrri atvinnurekanda.  Starfsemi fyrri atvinnurekandans sé þannig beinlínis ógnað með stofnun samkeppnisfyrirtækis.  Sama eigi við í danskri dómaframkvæmd.  Þannig hátti ekki til í þessu máli.  Starfsmaður haldi áfram að vera launþegi og fari þannig sjálfur ekki í samkeppni við atvinnurekanda.

Stefndi vísar eins og áður er komið fram til 74. gr. stjórnarinnar, auk 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 36. og 37. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Um málsmeðferð kveður stefndi byggt á lögum nr. 91/1991 og varðandi kröfu um málskostnað byggir stefndi á 91. gr. sbr. 130. gr. sömu laga.

IV.

Í máli þessu byggir stefnandi á því að stefndi hafi með því að ráða sig til starfa hjá Plastco hf. í desember 2001, brotið gegn 6. gr. ráðningarsamnings aðila frá 30. maí 2000.  Lýtur krafa stefnanda að því að stefnda beri að greiða honum af þessu tilefni févíti í samræmi við ákvæði sömu greinar samningsins að fjárhæð 12.000 krónur á dag frá upphafi ráðningar stefnda hjá Plastco hf. til útgáfudags stefnu. 

Varnir stefnda eru einkum tvíþættar.  Annars vegar að samkeppnisákvæði umrædds samnings sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda vegna ákvæða 37. gr. laga nr. 7/1936, sbr. og 36. gr. sömu laga og hins vegar að ákvæði um févíti í sömu grein ráðningarsamningsins sé ólögmætt og beri að víkja því til hliðar samkvæmt 36. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 37. gr. laga um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 segir að hafi maður í því skyni að varna samkeppni, áskilið sér hjá öðrum manni að sá maður reki eigi verslun eða aðra atvinnu, eða hann ráði sig eigi til starfa við slíkt fyrirtæki, þá sé það loforð eigi bindandi fyrir þann mann ef telja verði þegar litið er til allra atvika, að skuldbinding þessi sé víðtækari en nauðsynlegt sé til þess að varna samkeppni eða hún skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess manns sem tekist hafi þessa skyldu á herðar.  Við mat á hinu síðastnefnda skuli einnig hafa hliðsjón af því hverju það varði rétthafann að þessi skuldbinding sé haldin.

Stefnandi byggir heimild sína til að halda umræddu samkeppnisákvæði ásamt févíti upp á stefnda meðal annars á því að í tilvitnaðri lagagrein felist almenn heimild til að setja slík ákvæði í ráðningarsamninga starfsmanna.  Á þetta verður ekki fallist.  Ákvæðið felur þvert á móti í sér víðtækar takmarkanir á samningsfrelsi aðila varðandi slík ákvæði.  Verður að telja að séu sett slík ákvæði í ráðningarsamninga starfsmanna verði þau að meginstefnu að vera þess eðlis að þeim sé ætlað að varna samkeppni með réttmætum hætti.  Skiptir þá ekki máli að atvinnurekandi sýni fram á að samkeppnisstaða hans hafi versnað vegna þess að viðkomandi starfsmaður hætti heldur er það skilyrði að sýnt sé fram á það  að hún hafi versnað vegna þess að starfsmaðurinn hafi í bága við samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi aðila ráðið sig til samkeppnisaðila.  Það felst í því sem að framan greinir að skuldbindingargildi samkeppnisákvæðis í ráðningarsamningi stendur og fellur með því að starfsmaður sá sem um ræði gegni slíku starfi hjá atvinnurekanda að störf í þágu samkeppnisaðila veiki samkeppnisstöðu vinnuveitanda að nokkru marki og eins verða hagsmunir atvinnurekandans af því að samkeppnisákvæði sé haldið að vera meiri en launamannsins af því að halda fullu atvinnufrelsi sínu.  Við mat á stöðu starfsmanns innan fyrirtækis að þessu leyti verður ekki stuðst einhliða við orð ráðningarsamnings um að starfsmaður gegni trúnaðarstöðu fyrir vinnuveitanda, heldur verður að meta það heildstætt hvort svo hafi verið í raun og veru.  Ekki getur það veikt stöðu starfsmanns í þessu sambandi þó vinnuveitandi hafi kostað til menntunar starfsmannsins með því að senda hann á námskeið til að gera hann betur færan til að gegna starfi sínu, því vinnuveitandi þarf almennt að sæta því að þegar starfsmenn segja upp störfum hverfi úr fyrirtækinu sú  þekking sem þeir hafi aflað.  Til að vinnuveitandi geti hamlað því að starfsmaður noti þekkingu sem hann hefur aflað sér í þágu nýs vinnuveitanda þarf að vera um að ræða atriði sem leynt eiga að fara og nánar greinir í 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. 

Stefndi í máli þessu gegndi yfirmannsstöðu í þjónustu- og viðhaldsdeild stefnanda og hafði hlotið til þess sérstaka þjálfun að annast viðhald á tækjum og búnaði sem stefnandi hafði selt viðskiptamönnum sínum.  Í þágu nýs vinnuveitanda stundar stefndi sambærilegt starf og í sumum tilvikum virðist hann þjónusta sömu fyrirtæki og hann gerði áður í þágu stefnanda.  Stefndi var ekki sölumaður hjá stefnanda og þó að byggt hafi verið á því að stefndi hafi í starfa sínum átt að vekja athygli sölumanna á hugsanlegri þjónustuþörf viðskiptamanna þá verður ekki séð að það hafi verið sá afgerandi þáttur í starfi hans að jafna megi til sölumennsku.  Stefndi vann hjá stefnanda við þjónustu og viðhald á tækjum sem stefnandi hafði þegar selt.  Í þágu nýs vinnuveitanda vinnur stefnandi  að viðhaldi og þjónustu á tækjum sem sá aðili hefur selt.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að störf stefnda í þágu nýs vinnuveitanda hafi í raun haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu stefnanda, en eins og hér stendur á verður að telja að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni í þá veru. Stefnandi var fyrst og fremst viðgerðarmaður í þjónustu stefnanda. Hann tók ekki með sér umboð eða viðskiptamenn er hann lét af störfum hjá stefnanda. Hann gerðist almennur launamaður hjá hinum nýja atvinnurekanda og verður að telja að sú aðstaða leiði til þess að auknar kröfur verði gerðar til stefnanda um að sýna fram á að stefndi hafi raskað samkeppnisstöðu stefnanda með háttsemi sinni.    Einnig er vert að hafa í huga að stefndi hóf ekki störf hjá samkeppnisaðila fyrr en um það bil fimm mánuðum eftir að hann hætti störfum hjá stefnanda og virðist á því tímabili hafa haft stopula vinnu.  Samkvæmt framansögðu verður talið að miðað við stöðu stefnda hjá stefnanda skerði umrætt samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi aðila atvinnufrelsi stefnda. Þetta samningsákvæði var því brot á 37. gr. laga nr. 7/1936 um umboð, samningsgerð og ógilda löggerninga. Það er því  niðurstaða dómsins að stefndi sé ekki bundinn af samkeppnisákvæði ráðningarsamnings aðila frá 30. maí 2000 og því sé ekki grundvöllur til að dæma á hendur honum févíti eins og stefnandi krefst.

Í ljósi þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefndi skuli vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að fjárhæð 320.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatts.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sigurður Þorsteinn Guðjónsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Plasts, miða og tækja ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 320.000 krónur í málskostnað.