Hæstiréttur íslands

Mál nr. 683/2008


Lykilorð

  • Bifreið
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Saknæmi


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. maí 2009.

Nr. 683/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Bifreiðir. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Saknæmi.

X var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var brot hans talið varða við 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Af hálfu ákæruvaldsins var á því byggt að X hefði sýnt af sér saknæma og refsiverða háttsemi er hann ók bifreið í umrætt skipti eftir að hafa neytt ávana- og fíkniefna með óbeinum reykingum nóttina fyrir hið meinta brot er hann kaus að sitja inni í lokaðri bifreið í allt að hálfa klukkustund á meðan aðrir, sem voru í bifreiðinni, neyttu þar kannabisefnis með reykingum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki kæmi til refsiábyrgðar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga, nema uppfyllt væru skilyrði grunnreglunnar um saknæmi. X bar því við fyrir héraðsdómi að hann hefði ekki áttað sig á því að vera hans í bifreiðinni þar sem aðrir reyktu kannabisefni gæti leitt til þess að reykurinn hefði áhrif á líkamskerfi hans. Þá kvað dósent í eiturefnafræði fyrir héraðsdómi að hann gæti ekki fullyrt hvort dvöl við mjög háan styrk kannabisefnis í andrúmslofti í 15 til 20 mínútur væri nægjanleg til að efni fyndust í þvagi. Taldi Hæstiréttur ekki sannað að X hefði vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreið þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum leiddi til þess að í þvagi hans yrðu leifar ávana- og fíkniefna um hálfum sólarhring síðar. Var akstur hans á þeim tíma, sem fór í bága við 45. gr. a umferðarlaga, því ekki talinn honum saknæmur. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna bæri X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. desember 2008 af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta ökuréttarsviptingu.

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Af hálfu ákæruvalds eru ekki gerðar athugasemdir við málavaxtalýsingu héraðsdóms. Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar er grundvelli málsins lýst svo: ,,Ákæruvaldið sættir sig við sönnunarmat hins áfrýjaða dóms, ... um orsakir þess að kannabis mældist í þvagi ákærða, ... Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að ákærði hafi sýnt af sér saknæma og refsinæma háttsemi er hann ók bifreið í umrætt skipti eftir að hafa neytt ávana- og fíkniefna með óbeinum reykingum nóttina fyrir hið meinta brot er ákærði kaus að sitja inni í lokaðri bifreið í allt að hálfa klukkustund og ákærði gerði sér grein fyrir því að aðrir sem voru í bifreiðinni neyttu þar kannabisefnis með reykingum, ... Ákærði vissi eða mátti vita að reykur inni í bifreiðinni með kannabisefni gat farið inn í hans eigið líkamskerfi með innöndun eins og byggt er á í hinum áfrýjaða dómi.“

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 er nægilegt að efni mælist í blóði eða þvagi ökumanns til þess að hann teljist ,,vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.“ Eins og í héraðsdómi greinir kemur þó ekki til refsiábyrgðar fyrir slíka háttsemi nema uppfyllt séu skilyrði grunnreglunnar um saknæmi, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði kvaðst í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi ekki hafa áttað sig á því að vera hans í bifreiðinni þar sem aðrir reyktu kannabisefni gæti leitt til þess að reykurinn hefði áhrif á líkamskerfi hans. Jakob Kristinsson dósent í eiturefnafræði við Háskóla Íslands var spurður fyrir héraðsdómi hvort tetrahýdrókannabínólsýra gæti fundist í þvagi vegna óbeinna reykinga. Hann svaraði því svo, að það væri fjarlægur möguleiki en þó möguleiki. Hann kvaðst hafa séð rannsóknir þar sem tetrahýdrókannabínólsýra hefði verið mæld í þvagi, lítið magn en þó merkjanlegt, sem gæti komið ef menn dveldu mjög lengi við mjög háan styrk kannabisefnis í andrúmslofti. Spurður um hve lengi sú dvöl þyrfti að vera kvaðst hann ekki þora að fullyrða það, en nefndi eina eða tvær klukkustundir. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvort dvöl í slíku rými í 15 til 20 mínútur væri nægjanleg til að efni fyndust í þvagi. Hann áréttaði síðar í skýrslunni að sér þætti afar ólíklegt að efnin sem mældust í þvagi ákærða hefðu komið vegna dvalar hans í bifreiðinni, en vildi þó ekki útiloka það.

Með vísan til þessa verður ekki talið sannað að ákærði hafi vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreið þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum, eins og lýst er í héraðsdómi, leiddi til þess að í þvagi hans yrðu leifar ávana- og fíkninefna um hálfum sólarhring síðar. Verður akstur hans á þeim tíma, sem fór í bága við 45. gr. a umferðarlaga, því ekki talinn honum saknæmur. Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður allur áfrýjunarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð þar með talinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 19. nóvember 2008.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 11. ágúst 2008 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...] á Akranesi. Málið var dómtekið 3. nóvember 2008.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir umferðarlagabrot á Akranesi, með því að hafa sunnudaginn 10. febrúar 2008, um kl. 16:10, ekið bifreiðinni Y, undir áhrifum bannaðra ávana- og fíkniefna, vestur [...] og suður [...] uns lögreglan stöðvaði aksturinn á móts við [...].“ Er brotið talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.

I.

Hinn 10. febrúar 2008, kl. 16:10, voru lögreglumenn á lögreglubifreið við umferðareftirlit á [...] þegar þeir sáu bifreiðina Y, sem ekið var vestur sömu götu en beygt þaðan inn á [...]. Var ákveðið að stöðva akstur bifreiðarinnar til að athuga með ástand og réttindi ökumanns, sem reyndist vera ákærði. Á vettvangi vaknaði sá grunur að ákærði væri undir áhrifum fíkniefna og var hann færður til frekari rannsóknar á lögreglustöðina á Akranesi. Á lögreglustöðinni gaf ákærði þvagsýni og við skimun þess fékkst jákvæð svörun við kókaín og kannabis. Var því jafnframt tekið blóðsýni frá ákærða og var það ásamt þvagsýni sent til frekari rannsóknar. Svo sem nánar verður rakið hér á eftir mældust umbrotsefni kannabis í þvagi ákærða en fíkniefni mældust ekki í blóði hans.

II.

Í kjölfar handtöku var tekin framburðarskýrsla af ákærða á lögreglustöðinni á Akranesi. Kannaðist ákærði við að hafa ekið bifreiðinni en neitaði því að hafa sjálfur neytt fíkniefna. Hann kvaðst hins vegar hafa deginum áður verið innan um fólk sem var að reykja hass. Ákærði var á ný yfirheyrður hjá lögreglu 30. júlí 2008 og þá lýsti hann atvikum þannig að nóttina áður en hann var tekinn við akstur hefði hann fengið far heim með fjórum strákum sem voru á bifreið að gerðinni Toyota Corolla. Kvaðst ákærði hafa verið í bifreiðinni í 20–30 mínútur og að umræddir strákar hefðu reykt hass í um 20 mínútur í lokaðri bifreiðinni.

Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að nóttina áður en lögregla hafði afskipti af akstrinum hefði hann um kl. 4 fengið far með strákum á Toyota Corolla bifreið. Ákærði kvaðst hvorki hafa þekkt strákana né vita á þeim nokkur deili, en þeir hefðu ætlað að skutla honum heim. Á leiðinni hefði bifreiðin verið stöðvuð á stað sem nefndur er „Núllið“ og þar hefðu verið teknar upp hassreykingar í lokaðri bifreiðinni. Ákærði sagði að sér hefði verið boðið að reykja en hann afþakkað. Þetta hefði staðið yfir í um 20–30 mínútur en svo hefði verið haldið aftur á stað, ekinn smá rúntur og ákærða loks skilað til síns heima. Aðspurður kvaðst ákærði telja að hann hefði verið í bifreiðinni í um 30–40 mínútur. Einnig sagði ákærði að honum hefði verið ljóst að um neyslu kannabisefna var að ræða.

III.

Eins og áður er getið voru lífsýni frá ákærða send til rannsóknar. Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði frá 20. maí 2008 segir að í þvaginu hafi mælst tetrahýdrókannabínólsýra en tetrahýdrókannabínól hafi ekki verið í mælanlegu magni í blóðinu.

Vitnið Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði og deildarstjóri hjá rannsóknarstofunni, gaf skýrslu fyrir dómi og kvað það ólíklegt að fíkniefni mældust í þvagi vegna óbeinna reykinga. Hins vegar gat Jakob ekki með öllu útilokað þetta og sagðist vita um tilvik þar sem tetrahýdrókannabínólsýra hefði mælst í þvagi við óbeinar reykingar, en það væri hugsanlegt ef dvalið væri lengi við háan styrk efnisins í andrúmslofti. Aðspurður sagði vitnið rökrétt að álykta að styrkur kannabis yrði því meiri í andrúmslofti því minna sem rými væri. Þá sagði vitnið tetrahýdrókannabínólsýru mælast lengi í þvagi, jafnvel nokkrar vikur, allt eftir því magni sem neytt væri. Nánar aðspurður kvaðst Jakob ekki geta sagt til um magn efnisins sem mældist í þvaginu.

IV.

Svo sem hér hefur verið rakið mældist tetrahýdrókannabínólsýra í þvagsýni frá ákærða sem tekið var í kjölfar þess að lögregla stöðvaði akstur hans síðdegis 10. febrúar 2008 á Akranesi. Í blóði ákærða mældust hins vegar ekki kannabisefni.

Ákærði hefur fyrir dómi staðfastlega neitað því að hafa neytt fíkniefna í umrætt sinn. Hann hefur hins vegar borið því við að aðrir hafi reykt kannabisefni í lokaðri bifreið sem ákærði sat í skamman tíma nóttina áður. Ákærði gat ekki nafngreint þá sem voru í bifreiðinni og enginn er til frásagnar nema hann um þessi atvik. Þegar frásögn ákærða er virt er til þess að líta að hann kom með þessa skýringu þegar í kjölfar handtöku og ekkert hefur komið fram í málinu sem fer í bága við framburð hans. 

Í vætti sínu gat Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði, ekki útilokað að tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi í kjölfar þess að viðkomandi hefði verið innan um aðra sem væru að reykja kannabis. Að virtum þessum vitnisburði sérfræðingsins verður skýringu ákærða ekki vísað á bug. Samkvæmt þessu þykir ekki sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 46. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, að það efni sem mældist í þvagi ákærða stafi af reykingum hans.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, svo sem lögunum var breytt með lögum nr. 66/2006, má enginn stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. mælast í blóði eða þvagi hans.

Til að verknaður geti bakað geranda refsiábyrgð þarf hann að vera saknæmur. Samkvæmt gagnályktun frá 18. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er saknæmisskilyrði brota gegn umferðarlögum ásetningur eða gáleysi. Verður ekki talið að með fyrrgreindum lögum nr. 66/2006 hafi verið vikið frá þessari meginreglu refsiréttar um að refsiábyrgð verði eingöngu byggð á sök brotamanns, enda verða frávik frá þeirri reglu að eiga sér ótvíræða og vafalausa stoð í lögum, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994.

Þótt við það sé miðað í 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga að engin ávana- og fíkniefni megi mælast í blóði eða þvagi ökumanns má slá því föstu að ökumaður sé í raun ekki undir áhrifum við það eitt að tetrahýdrókannabínólsýra mælist í þvagi hans, án þess að tetrahýdrókannabínól sé jafnframt að finna í blóðinu. Þá verður það með engu móti virt ákærða til gáleysis í þessu tilliti að hafa verið í návist við aðra sem voru að neyta fíkniefna þannig að hann hefði mátt reikna með að slík efni mældust í þvagi hans daginn eftir. Samkvæmt þessu verður ákærði gegn neitun hans ekki sakfelldur fyrir brotið og ber að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins.

Eftir þessum málsúrslitum verður sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, svo sem nánar greinir í dómsorði, sbr. 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður er felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, 153.384 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.