Hæstiréttur íslands
Mál nr. 114/2007
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2007. |
|
Nr. 114/2007. |
M(Dögg Pálsdóttir hrl. Berglind Svavarsdóttir hdl.) gegn K (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. Hjördís E. Harðardóttir hdl.) |
Börn. Forsjá. Umgengnisréttur.
Staðfestur var dómur héraðsdóms um að K færi ein með forsjá sonar hennar og M og um fyrirkomulag umgengnisréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 29. desember 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 14. febrúar 2007 og var áfrýjað öðru sinni 28. sama mánaðar. Hann krefst þess að sér verði dæmd forsjá A, sonar hans og stefndu, til 18 ára aldurs. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við rekstur málsins fyrir Hæstarétti kom fram að eftir uppkvaðningu héraðsdóms flutti stefnda son málsaðila úr leikskóla í B í annan nærri heimili hennar á C, þar sem hann hefur verið frá 29. janúar 2007. Hafa jafnframt verið lögð fram tvö vottorð þess leikskóla 26. apríl og 15. október 2007, þar sem fram kemur að drengurinn hafi aðlagast nýju umhverfi vel. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. desember 2006.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. nóvember sl. að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af M, [...], gegn K, [...], með stefnu áritaðri um birtingu 3. janúar 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði dæmd forsjá yfir barni aðila, A, fæddum [...] 2002, og að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá barnsins. Krefst stefnandi þess að umgengni stefndu við barnið verði hagað þannig: Regluleg umgengni verði önnur hver vika og sæki stefnda barnið í leikskóla á mánudegi og skili því í leikskóla á mánudagsmorgni vikuna á eftir, jóla- og áramótaumgengni skiptist þannig að barnið verði önnur hver jól hjá stefndu og dvelji þá um áramót hjá stefnanda og öfugt. Umgengni um páska skiptist til helminga milli aðila og sumarumgengni verði hagað þannig að barnið dvelji í fjórar vikur að sumri hjá stefndu og skal stefnda fyrir 1. apríl ár hvert láta stefnanda vita hvaða tími hentar best til sumarleyfis hennar og barnsins og fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi barnsins með hvoru foreldri fyrir sig. Verði ekki fallist á forsjárkröfu stefnanda gerir hann kröfu um að honum verði dæmd sambærileg umgengni við barnið eins og að framan er lýst. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að viðbættu 24,5% álagi vegna virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefndu eru þær að kröfum stefnanda verði hafnað og staðfest verði með dómi að barnið A skuli áfram lúta forsjá stefndu til 18 ára aldurs. Þess er enn fremur krafist að lögheimili barnsins skuli vera hjá stefndu. Þá er þess krafist að dæmt verði að stefnanda beri að greiða stefndu einfalt meðlag með drengnum frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hans. Stefnda krefst þess einnig að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki hlýtur forsjá barnsins og verði fallist á kröfu hennar um forsjá verði reglulegri umgengni stefnanda við drenginn hagað þannig að hún verði aðra hverja helgi frá fimmtudagssíðdegi fram til mánudagsmorguns og sæki stefnandi barnið í leikskóla og fari með það þangað aftur á mánudagsmorgni. Önnur umgengni verði eins og fram kemur í kröfugerð stefnanda í stefnu, s.s. um stórhátíðir og í sumarleyfum, t.d. þannig að barnið dvelji í fjórar vikur hjá stefnanda í sumarleyfum. Loks er þess krafist að stefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
II.
Málavextir eru þeir helstir að málsaðilar hófu sambúð árið 2001 en gengu í hjónaband í maí 2002. Þau eignuðust soninn A í [...] 2002 en fyrir átti stefnandi soninn D sem fæddur er 1990. Stefnandi hefur óskipta forsjá eldri sonar síns. Sonur aðila hefur gengið í leikskólann E í B. Snemma árs 2003 greindist stefnandi með hvítblæði og fór vegna þess í lyfjameðferð og mergskiptaaðgerð. Vegna hvítblæðisins fékk stefnandi sýkingu í hornhimnur augna sinna og missti sjón á öðru auga.
Aðilar skildu að borði og sæng 1. mars 2005. Í skilnaðarsamningi aðila dagsettum 23. febrúar 2005 kemur fram að stefnda skyldi fara með forsjá sonarins A en lögheimili hans yrði hjá stefnanda. Umgengni skyldi hagað þannig að drengurinn dveldi aðra hverja viku hjá stefnanda og hina vikuna hjá stefndu en önnur umgengni yrði eftir samkomulagi aðila hverju sinni. Þá skyldi stefnda greiða stefnanda einfalt meðlag með drengnum frá 1. mars 2005 til 18 ára aldurs drengsins. Kemur fram í samningnum að hann skuli gilda til eins árs og skuli endurskoðaður að þeim tíma liðnum. Um sumarið 2005 færði stefnda lögheimili drengsins á lögheimili sitt í F. Eftir að stefnandi hafði samband við þjóðskrá Hagstofu Íslands var lögheimili drengsins fært aftur til fyrra horfs hjá stefnanda.
Hinn 12. ágúst 2005 lagði stefnda fram hjá sýslumanni beiðni um ákvörðun um umgengni þar sem þess var óskað að regluleg umgengni stefnanda við drenginn yrði aðra hverja helgi, frá fimmtudegi til mánudagsmorguns. Stefnandi hafnaði kröfum stefndu um breytingu á inntaki umgengnisréttar í fyrirtöku hjá sýslumanni 25. ágúst sama ár. Með bréfi dagsettu 1. febrúar 2006 var aðilum tilkynnt að sýslumaður hefði ákveðið að vísa beiðni stefndu um ákvörðun um umgengni frá embættinu þar sem fyrir lá að stefna máls þessa hafði þá verið gefin út.
Með bréfi lögmanns stefndu dagsettu 6. september 2005 til Hagstofu Íslands var þess óskað að lögheimili A yrði flutt frá heimili stefnanda á lögheimili stefndu í F. Hagstofa hafnaði erindi stefndu með bréfi dagsettu 19. september sama ár en með bréfi dagsettu 5. október sama ár fór stefnda fram á að þeirri ákvörðun yrði breytt.
Í framlögðu bréfi dagsettu 25. nóvember 2005 var stefnanda gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum athugasemdum við flutningstilkynningu stefndu um flutning á lögheimili A frá heimili stefnda að heimili stefndu á C. Með bréfi dagsettu 2. desember sama ár krafðist stefnandi þess að Hagstofa hafnaði flutningi á lögheimili drengsins.
Stefnandi býr ásamt eldri syni sínum, D, í eigin íbúð að G í B en stefnda býr ásamt sambýlismanni sínum, H, í einbýlishúsi þeirra við I á C.
Málsaðilar óskuðu í sameiningu eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta forsjárhæfni þeirra. Í matsbeiðni var þess óskað að matsmaður skoðaði sérstaklega og mæti persónulega eiginleika og hagi hvors aðila um sig sem og eiginleika og hagi sonar þeirra og legði jafnframt mat á tengsl aðila við drenginn og önnur þau atriði sem talin eru upp í ellefu atriðum í athugasemdum við frumvarp til 34. gr. barnalaga. Til verksins var dómkvaddur Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur og liggur frammi í málinu matsgerð hans dagsett 17. september sl.
Í matsgerð kemur fram að samkvæmt niðurstöðum fjölskyldutengslaprófs, sem A tók, mælist tengsl drengsins sterkari við stefndu en stefnanda. Drengurinn hafi látið í ljós hlýjar tilfinningar til beggja aðila en þó tjáð sig meira og jákvæðar um stefndu. Þá hafi komið fram að drengurinn upplifi ákveðna væntumþykju frá eldri bróður sínum, D, og jafnframt séu ömmur drengsins og afi honum kær og fram hafi komið virk tengsl við þau.
Matsmaður átti viðtöl við leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra á leikskólanum E. Fram kom í máli þeirra að engan mun væri að sjá á umönnun drengsins hjá aðilum málsins og væri greinilegt að aðilar gerðu sitt besta. Væri drengurinn snyrtilegur til fara, vel þrifinn og liði yfirleitt vel og þá væru báðir foreldrar í sambandi við leikskólann eftir þörfum. Í matsgerðinni er haft eftir framangreindum leikskólastarfsmönnum að lengi vel hafi enginn munur verið á drengnum við hin vikulegu aðsetursskipti en eftir því sem hann eldist komi þó ýmislegt í ljós og þeir spyrja hvernig þetta verði þegar drengurinn fari í grunnskóla. Drengurinn sé meðvitaður um stíf samskipti foreldra sinna.
Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar segir að báðir aðilar hafi annast drenginn mikið og séu báðir vel færir um það. Um daglega umönnun og umsjá er tekið fram að drengurinn hafi undanfarin tvö ár verið til skiptis jafnt hjá báðum aðilum en fram að þeim tíma hafi stefnda annast drenginn heldur meira, einkum þar sem stefnandi var á sjúkrahúsum um hálfs árs skeið. Þá hafi drengurinn verið í sama leikskóla frá 18 mánaða aldri og uni þar hag sínum vel.
Tengsl A við málsaðila og stórfjölskyldu séu góð en tekið er fram að niðurstöður fjölskyldutengslaprófs „...renni stoðum undir þá skoðun að stefnda sé ef til vill næmari fyrir þörfum drengsins og að hann upplifi það þannig.“ Drengurinn hafi þó líka ánægju af samskiptum við stefnanda og hans fólk.
Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og staðfesti matsgerð sína. Kom fram hjá honum að ljóst væri að drengnum væri ekki illa við neinn í kringum sig en hins vegar væri blæbrigðamunur á boðum drengsins til foreldra sinna og taldi matsmaður að stefnda væri næmari fyrir þörfum drengsins. Þá benti matsmaður á að samvinna aðila hefði aldrei verið mikil en fram hefði komið að þeir töluðu aðallega saman með sms-sendingum. Taldi matsmaðurinn að það sem truflaði drenginn mest væri ósamkomulag foreldranna og að það væri forsenda fyrir viku-viku umgengnisfyrirkomulaginu að samskipti aðila bötnuðu. Viku-viku tilhögun umgengnisréttar gerði miklar kröfur til góðs samstarfs aðila en eins og staðan væri nú gæti hún hins vegar verið drengnum erfið. Að óbreyttu væri hætt við að drengurinn myndi ekki ná að festa rætur heldur lifa í tveimur aðskildum heimum. Þá kom fram hjá matsmanni að ekkert benti til þess að breyting á leikskóla yrði drengnum erfið.
III.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að það sé A fyrir bestu að stefnanda verði falin forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, nú þegar forsendur samkomulags aðila um óskipta forsjá hjá stefndu séu brostnar en stefnda hafi, með því að færa lögheimili drengsins frá stefnanda til sín sumarið 2005, gerst brotleg við samkomulag aðila við skilnaðinn. Stefnandi bendir á að drengurinn sé fæddur og uppalinn á því heimili sem stefnandi búi á með eldri syni sínum. Systir stefnanda búi í næsta nágrenni en sonur hennar og A séu mjög miklir vinir. Þá sé leikskóli drengsins í hverfinu sem stefnandi býr í en stefnda búi í öðru sveitarfélagi. Hafi það því enga röskun í för með sér fyrir drenginn verði stefnanda dæmd forsjá hans.
Að mati stefnanda hafi hann fremur en stefnda þá persónulegu eiginleika sem til þurfi til þess að axla forsjá drengsins þar sem hann geti búið honum öruggt umhverfi þar sem drengurinn búi við umhyggju og reglu. Þá geti stefnandi tryggt drengnum umgengni við eldri bróður sinn en þeir séu miklir mátar. Jafnframt séu aðstæður stefnanda góðar en ekki hafi borið á endurkomu sjúkdóms hans síðan læknismeðferð lauk. Stefnandi hafi þó misst sjón á öðru auga vegna veikindanna og sé metinn 75% öryrki vegna þessa. Skert sjón hafi ekki áhrif á möguleika stefnanda til að annast son sinn enda hafi hann fulla sjón á hinu auganu og sé samkvæmt læknisvottorði heimilt að aka bifreið. Stefnandi búi í eigin íbúð þar sem sonur aðila hafi eigið herbergi og hafi stefnandi engin áform um að flytja úr hverfinu. Þá hyggst stefnandi fá sér vinnu innan nokkurra ára. Loks bendir stefnandi á að kringum hann sé gott stuðningsnet vina og ættingja sem styðji við bakið á honum, sérstaklega þó systir hans og foreldrar þeirra.
Stefnandi telji nauðsynlegt að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga, en verði honum falin forsjá drengsins, muni hann stuðla að eðlilegri umgengni drengsins við stefndu. Leggur stefnandi til að umgengninni verði hagað þannig:
1. Regluleg umgengni verði önnur hver vika. Stefnda sæki drenginn í leikskóla á mánudegi og skili honum í leikskóla á mánudagsmorgni í vikunni á eftir.
2. Um jól og áramót skiptist umgengni þannig að drengurinn verði önnur hver jól hjá stefndu og dvelji þá um áramót hjá stefnanda og öfugt.
3. Umgengni um páska skiptist til helminga milli aðila.
4. Að sumri dvelji drengurinn í fjórar vikur hjá stefndu en stefndu beri að láta stefnanda vita fyrir 1. apríl ár hvert hvaða tími henti henni best til sumarleyfis hennar og drengsins og fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi drengsins með hvoru þeirra fyrir sig.
Að öðru leyti en að framan greinir vísar stefnandi um lagarök til ákvæða XXI. kafla einkamálalaga nr. 91/1991, einkum 130. gr. laganna, að því er varðar málskostnað. Um kröfuna um að tekið verði tillit til áhrifa virðisaukaskatts við ákvörðun málflutningsþóknunar vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því sé honum nauðsynlegt að fá kostnað vegna skattsins tildæmdan úr hendi stefndu.
IV.
Stefnda byggir kröfu sína um áframhaldandi forsjá á því að það sé A fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Bendir stefnda á að hún hafi verið aðalumönnunaraðili drengsins frá fæðingu hans og séu tengsl drengsins og stefndu mjög góð. Stefnda mótmælir fullyrðingum stefnanda um að hún hafi gerst brotleg við samkomulag aðila og bendir á að samkvæmt samkomulaginu fari stefnda nú með forsjá drengsins. Stefnanda sé ljóst að það hafi verið forsenda fyrir samkomulagi þeirra af hálfu stefndu að lögheimili barnsins yrði tímabundið hjá stefnanda þar til stefnda hefði keypt sér framtíðarhúsnæði. Hefði stefnda samið á þennan veg til að raska sem minnst aðstæðum drengsins við skilnaðinn. Aðstæður stefndu hafi nú breyst og hafi stefnda ásamt sambýlismanni sínum fest kaup á góðu einbýlishúsi í barnvænu hverfi á C. Drengurinn búi við gott atlæti hjá stefndu, eigi þar sérherbergi og uni hag sínum vel. Hann taki þátt í tómstundum og íþróttastarfsemi á C og þá hafi stefnda sótt um og eigi þess kost að fá gott leikskólapláss fyrir drenginn í sveitarfélaginu en það geti þó ekki orðið fyrr en lögheimili drengsins verður skráð hjá stefndu. Starfsmenn á núverandi leikskóla drengsins hafi talað mjög vel um leikskólann á C og séu hlynntir því að drengurinn skipti um leikskóla. Telur stefnda að það myndi ekki vera slæmt fyrir drenginn að skipta um leikskóla enda sé hann ungur að árum og vilji búa hjá sér.
Stefnda bendir á að hún hafi þá persónulegu eiginleika sem geri hana að mjög hæfum forsjáraðila og að hún sé barninu góð fyrirmynd. Hún vinni við eigið fyrirtæki og þar sem hún sé sjálfstæður atvinnurekandi, geti hún verið til taks fyrir drenginn þegar hann komi heim úr leikskólanum. Þá sé hún heilsuhraust, reglusöm og fjárhagslega sjálfstæð og búi við góðar og traustar heimilisaðstæður með sambýlismanni sínum. Stefnda telur drenginn vera mjög háðan sér og upplifi öryggi og vellíðan hjá sér. Hafi drengurinn myndað tengsl við sambýlismann stefndu og uni hag sínum vel hjá þeim. Jafnframt vísar stefnda til þess að móðir hennar hafi komið að umönnun drengsins frá fæðingu hans ásamt stefndu. Hafi hún dvalið meira og minna á heimili málsaðila og hjálpað til við umönnun drengsins á meðan á veikindum stefnanda stóð.
Loks vísar stefnda til þess að stefnandi hafi verið þver og ósamvinnuþýður í samskiptum aðila og hafi framkoma hans einkennst af reiði í hennar garð. Stefnandi hafi ekki tekið tillit til löngunar drengsins til að dvelja meira hjá henni. Hins vegar sé stefnda reiðubúin til að veita stefnanda ríkulega og góða umgengni við drenginn og taka tillit til vilja drengsins að því leyti. Verði fallist á kröfu stefndu um áframhaldandi forsjá, leggi hún til að regluleg umgengni drengsins við stefnanda verði aðra hverja helgi frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns, þannig að stefnandi sæki drenginn í leikskóla á fimmtudegi og fari með hann þangað aftur á mánudagsmorgni. Að öðru leyti sé stefnda sammála tillögu stefnanda um tilhögun umgengni, svo sem um stórhátíðir og í sumarleyfum, t.d. þannig að drengurinn dvelji í fjórar vikur hjá stefnanda í sumarleyfum.
Stefnda byggir kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefnanda á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003, og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris skv. 57., sbr. 55. gr. laganna. Kröfu um málskostnað byggir stefnda á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 130. gr. Um kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísar stefnda til laga nr. 50/1988.
V.
Við ákvörðun um það hjá hvoru foreldri forsjá barns verði, ber dómara að láta hagsmuni barnsins ráða og fer niðurstaðan eftir því sem er barni fyrir bestu, sbr. ákvæði 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þegar meta skal hvað sé barni fyrir bestu verður einkum litið til tengsla barnsins við foreldri, daglegrar umönnunar og umsjár, persónulegra eiginleika og hags hvors foreldris um sig svo og barnsins, óska barnsins sjálfs, kyns og aldurs þess auk þess sem horft er til systkinahóps, hvort foreldrar njóta liðsinnis vandamanna, hvaða áhrif breytingar hafi á barnið, umgengni barns og forsjárlauss foreldris og hvort um ólögmæta sjálftöku á barni hefur verið að ræða. Við matið er einnig litið til þess hvort foreldri, sem krefst forsjár barns, hafi verið tálmuð umgengni við barnið.
Við skilnað málsaðila að borði og sæng í mars 2005 sömdu þeir um að stefnda færi með forsjá sonar þeirra, A, sem fæddur er árið 2002 og því rúmlega fjögurra ára, en mælt var fyrir um að drengurinn ætti lögheimili hjá stefnanda. Var jafnframt kveðið á um að forsjársamningurinn gilti í eitt ár og skyldi endurskoðaður að þeim tíma liðnum. Aðilar hafa ekki náð samkomulagi um nýtt fyrirkomulag og deila nú um forsjá drengsins og tilhögun umgengnisréttar. Við mat á því hvort hagsmunum drengsins sé betur borgið með því að forsjá hans verði áfram í höndum stefndu eða hvort það sé betra fyrir hann að stefnandi fái forsjá hans, verður að líta til ofangreindra sjónarmiða en þó verður ekki talið að sjónarmið sem lúta að kyni, aldri eða ólögmætri sjálftöku eigi við í máli þessu. Þá verður ekki talið að óskir barns hafi hér úrslitaáhrif vegna ungs aldurs drengsins.
Samkvæmt framlagðri matsgerð Sæmundar Hafsteinssonar sálfræðings eru báðir aðilar vel hæfir til að fara með forsjá drengsins. Þegar litið er til tengsla drengsins við aðila málsins verður að líta til þess sem segir í matsgerðinni um að drengnum þyki vænt um báða foreldra sína og vilji vera hjá þeim báðum en að komið hafi fram á fjölskyldutengslaprófi sem drengurinn tók að stefnda væri næmari fyrir þörfum drengsins en stefnandi og að drengurinn upplifi það þannig. Þessa niðurstöðu staðfesti matsmaður við skýrslutöku fyrir dóminum. Hjá matsmanni kom jafnframt fram að drengurinn hefði góða aðlögunarhæfni og væri hagvanur hjá báðum foreldrum sínum auk þess að vera í góðum tengslum við eiginmann stefndu. Þá taldi matsmaður að húsnæðismál beggja málsaðila væru fullnægjandi og að þau nytu bæði liðsinnis stórfjölskyldu sinnar. Hins vegar verður ekki litið framhjá því sem bæði kom fram í matsgerð og í framburði matsmanns hér fyrir dóminum að hjá stefnanda og fjölskyldu hans mætti finna greinilega reiði og biturð út í stefndu. Þessi afstaða þykir líkleg til að hafa neikvæð áhrif á samvinnu foreldranna við framkvæmd umgengni og telur dómurinn því líklegt að stefnda muni leggja sig betur fram um að eiga góð samskipti vegna málefna drengsins.
Eina systkini drengsins, sonur stefnanda sem er tólf árum eldri en A, býr hjá stefnanda og er drengurinn hændur að bróður sínum. Verður þó ekki talið að samskipti bræðranna myndu falla niður þótt breyting yrði á forsjá og hugsanlega umgengni drengsins við foreldra sína enda um að ræða 15 ára bróður sem þekkir stefndu og er að sögn hennar velkominn á heimili hennar.
Þegar litið er til alls framanritaðs í heild og einkum þess sem fram er komið um að stefnda sé næmari fyrir þörfum drengsins, að meiri líkur séu á að hún muni stuðla að góðum samskiptum við stefnanda og þess sem fram kom hjá matsmanni að drengurinn hafi góða aðlögunarhæfni og að ekkert bendi til þess að breyting á leikskóla yrði drengnum erfið, er það niðurstaða dómsins að það sé drengnum fyrir bestu að stefnda fari með forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. barnalaga nr. 76/2003. Dæmist því stefndu forsjá A.
VI.
Með hliðsjón af niðurstöðu dómsins um forsjá og með vísan til 4. mgr. 34. gr., sbr. 53. og 54. gr. barnalaga er krafa stefndu um lágmarksmeðlag með drengnum úr hendi stefnanda tekin til greina. Skal stefnandi greiða einfalt meðlag með syni sínum eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs drengsins.
VII.
Báðir aðilar gera kröfu um að í dóminum verði kveðið á um inntak umgengnisréttar A við það foreldri sem ekki fær forsjá hans, sbr. ákvæði 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Er ágreiningur um það með aðilum hvort rétt sé að halda áfram þeirri tilhögun á umgengni sem verið hefur frá skilnaði þeirra að drengurinn dvelji viku í senn hjá hvoru foreldri. Fram kom hjá matsmanni að fyrra árið sem sú tilhögun var við lýði, hefði hún gengið vel en seinna árið hefði örlað á breytingu á því. Taldi matsmaður viku-viku fyrirkomulagið kalla á gott samstarf foreldra en eins og staðan væri nú gæti fyrirkomulagið verið drengnum erfitt og kæmi hugsanlega í veg fyrir að hann festi rætur. Með vísan til þessa og með hliðsjón af því sem áður er rakið um að samstarf aðila um málefni drengsins hafa ekki verið sem skyldi, er það niðurstaða dómsins að það þjóni hagsmunum drengsins best að regluleg umgengni hans við stefnanda verði aðra hverja helgi frá skólalokum á fimmtudegi til þriðjudagsmorguns, þannig að stefnandi sæki barnið í skóla á fimmtudegi og fari með það þangað aftur á þriðjudagsmorgni. Aðilar eru sammála um að jóla- og áramótaumgengni sé með þeim hætti að drengurinn sé önnur hver jól hjá stefndu en dvelji þá um áramót hjá stefnanda og síðan koll af kolli auk þess sem þeir eru sammála um að umgengni um páska skiptist til helminga. Dómurinn telur það samrýmast hagsmunum drengsins að farið verði að vilja aðila að þessu leyti eins og nánar greinir í dómsorði. Rétt þykir að drengurinn dvelji hjá stefnanda í fjórar vikur að sumri og skal stefnandi fyrir 1. apríl ár hvert láta stefndu vita hvaða tími hentar best til sumarleyfis hans og drengsins og fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi drengsins með hvoru þeirra fyrir sig.
VIII.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Þrátt fyrir framangreind málsúrslit er það álit dómsins að svo sé statt fyrir málsaðilum sem um ræðir í nefndri 3. mgr. Þykir því rétt að málskostnaður falli niður.
Dómurinn er kveðinn upp af Arnfríði Einarsdóttur héraðsdómara og sálfræðingunum Ágústu Gunnarsdóttur og Gunnari Hrafni Birgissyni.
Dómsorð:
Stefnda, K, fer með forsjá A, sonar síns og stefnanda, M.
Stefnandi hefur umgengnisrétt við A þannig:
- Regluleg umgengni A við stefnanda er aðra hverja helgi frá skólalokum á fimmtudegi til þriðjudagsmorguns, þannig að stefnandi sækir barnið í skóla á fimmtudegi og fer með það þangað aftur á þriðjudagsmorgni.
- A verður önnur hver jól hjá stefndu en dvelur þá um áramót hjá stefnanda og síðan koll af kolli. Jólin 2006 dvelur drengurinn hjá stefndu en verður um áramót hjá stefnanda. Umgengni um páska skiptist til helminga eftir nánara samkomulagi aðila.
- A dvelur hjá stefnanda í fjórar vikur að sumri og skal stefnandi fyrir 1. apríl ár hvert láta stefndu vita hvaða tími hentar best til sumarleyfis hans og drengsins og fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi drengsins með hvoru þeirra fyrir sig.
Málskostnaður fellur niður.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.