Hæstiréttur íslands
Mál nr. 574/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Ógjaldfærni
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2015. Hann krefst þess að rift verði eftirfarandi ráðstöfunum áfrýjanda til stefnda: Greiðslu 1. janúar 2008 að fjárhæð 149.999.993 krónur, greiðslum 14. janúar sama ár að fjárhæð 314.719 krónur og 337.866 krónur, greiðslum 15. febrúar sama ár að fjárhæð 353.887 krónur og 329.559 krónur, greiðslum 17. mars sama ár að fjárhæð 372.204 krónur og 346.627 krónur, greiðslu 18. ágúst sama ár að fjárhæð 33.700.000 krónur, greiðslu 22. ágúst sama ár að fjárhæð 25.000.000 krónur og greiðslu 2. september sama ár að fjárhæð 21.300.000 krónur. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 95.083.470 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2010 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 578/2015 var komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að Milestone ehf. hafi orðið ógjaldfært fyrr en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf. 7. október 2008 og skilanefnd var skipuð. Að því gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, þrotabú Milestone ehf., greiði stefnda, Lyfjum og heilsu ehf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2015.
Mál þetta var höfðað 8. nóvember 2010, þingfest 13. janúar 2011 og tekið til dóms 17. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Þrotabú Milestone ehf., kt. 640388-1109, Borgartúni 26, Reykjavík.
Stefndi er Lyf og heilsa ehf., kt. 650299-2649, Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, Milestone ehf., til stefnda, samtals að fjárhæð 232.054.855 krónur.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 149.999.993 kr. þann 1. janúar 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 314.719 kr. þann 14. janúar 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 337.866 kr. þann 14. janúar 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 353.887 kr. þann 15. febrúar 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 329.559 kr. þann 15. febrúar 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 372.204 kr. þann 17. mars 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 346.627 kr. þann 17. mars 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 33.700.000 kr. þann 18. ágúst 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 25.000.000 kr. þann 22. ágúst 2008.
- Greiðslu Milestone ehf. til stefnda að fjárhæð 21.300.000 kr. þann 2. september 2008.
Enn fremur er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 95.083.470 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 30. september 2010 til greiðsludags. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
I.
Málsatvik
Milestone ehf. var stofnað 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Árið 2004 eignaðist félagið Apótek Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapótek ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti m.a. stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu.
Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. september 2009. Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins og kom þá í ljós að síðustu mánuðina fyrir gjaldþrot Milestone ehf. hafði félagið greitt töluverða fjármuni til stefnda eða gefið stefnda eftir skuldir við Milestone ehf. Nánar tiltekið telur stefnandi að hér hafi verið um þrenns konar ráðstafanir að ræða:
1. Gjaldmiðlaskiptasamningur
Þann 1. janúar 2008 var skuldfærður í bókhaldi Milestone ehf. framvirkur gjaldmiðlaskiptasamningur við stefnda að fjárhæð 149.999.993 kr. Áður en færslan var framkvæmd skuldaði stefndi Milestone ehf. 13.028.608 kr., en eftir færsluna skuldaði Milestone ehf. stefnda 136.971.385 kr.
Gjaldmiðlaskiptasamningurinn milli Milestone ehf. og stefnda var ódagsettur og fól það í sér að þann 1. janúar 2008 bar Milestone að greiða stefnda 506.857.223 krónur en stefndi átti að greiða Milestone ehf. GVT 4.224.162. Hinn 31. mars 2008 bar Milestone að greiða stefnda GVT 4.224.162 en stefndi átti á móti að greiða Milestone ISK 506.857.223.
Með GVT var átt við vísitölu íslensku krónunnar gagnvart ýmsum erlendum gjaldmiðlum og gert var ráð fyrir framangreindum viðskiptum án þess að til afhendingar umræddra gjaldmiðla kæmi.
Í framangreindum samningi var ekki ákvæði um vaxtamun líkt og venja er í samningum af þessu tagi. Gerð samningsins og framkvæmd hans eru talin hafa verið skaðleg fyrir Milestone ehf., auk þess sem engar viðskiptalegar forsendur voru af hálfu Milestone ehf. fyrir gerð hans.
Stefnandi telur myndun umræddrar skuldar, og þar með í raun greiðslu til stefnda, vera riftanlega ráðstöfun á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir gþl.) og rifti því þeirri ráðstöfun sem felst í samningnum með bréfi dags. 29. júní 2010. Í máli þessu krefst stefnandi staðfestingar á riftun þessari með dómi, sem og endurgreiðslu þeirrar skuldar sem gefin var eftir með samningnum.
2. Greiðsla afborgana leigusamnings
Með sex greiðslum (2 færslur hvern dag) dagana 14. janúar 2008 (652.585 kr.), 15. febrúar 2008 (683.446 kr.) og 17. mars 2008 (718.831 kr.) greiddi Milestone ehf. stefnda samtals 2.054.862 kr. Skýringin á greiðslunum samkvæmt bókhaldi Milestone ehf. er að um var að ræða greiðslur til Glitnis banka hf. vegna afborgana af leigusamningi.
Stefnandi telur umræddar greiðslur riftanlega gerninga á grundvelli XX. kafla gþl. og rifti því greiðslunum með bréfi dags. 9. júlí 2010. Stefnandi krefst nú staðfestingar á riftununum með dómi.
3. Endurgreiðsla láns
Þann 15. júlí 2008 veitti stefndi Milestone ehf. lán að fjárhæð 80.000.000 kr. Lánið var endurgreitt með þremur greiðslum dagana 18. ágúst 2008 (33.700.000 kr.), 22. ágúst 2008 (25.000.000 kr.) og 2. september 2008 (21.300.000 kr.).
Stefnandi telur endurgreiðslu lánsins riftanlegan gerning á grundvelli XX. kafla gþl. Með vísan til þess rifti stefnandi greiðslunum með bréfi 9. júlí 2010 og krefst nú staðfestingar á riftununum með dómi.
Af hálfu stefnda hefur því verið hafnað að skilyrði riftunar séu fyrir hendi. Varnir stefnda hafa að miklu leyti beinst að því að hrekja staðhæfingar stefnanda um ógjaldfærni Milestone ehf. síðla árs 2007. Í þeim tilgangi hefur stefndi m.a. reifað í löngu máli atriði er lúta að rekstri félagsins, eignabreytingum og umsvifum frá 2007-2008.
Meðal þess sem stefndi tiltekur sérstaklega er að Milestone samstæðan hafi aflað nýs lánsfjármagns á árunum 2007 og 2008, m.a. með útgáfu víxla á íslenskum verðbréfamarkaði. Helstu tilvikin voru þessi:
- Víxilútgáfa Milestone að fjárhæð 8 milljarðar króna í maí 2007 sem voru með gjalddaga í maí 2008. Þessir víxlar voru endurfjármagnaðir í maí 2008.
- Milestone seldi víxla á markaði í október 2007 (MILE 081026) upp á 6,2 milljarða króna sem voru á gjalddaga í október 2008.
- Milestone seldi víxla á markaði í maí 2008 upp á 560 milljónir króna sem voru með gjalddaga í nóvember 2008.
- Invik gaf út víxla í maí 2008 (INV 081121) upp á um það bil 500 milljónir króna sem voru með gjalddaga í nóvember 2008.
Þessi viðskipti hafi farið fram á opnum markaði með tilheyrandi upplýsingagjöf um stöðu félagsins. Eftirspurn hafi verið vel ásættanleg sem og kjör. Stefndi bendir einnig á fleiri dæmi um fjármögnun innan Milestone samstæðunnar á árinu 2008.
Milestone og félög í þess eigu hafi því haft aðgang að margs konar fjármögnun bæði seinnihluta árs 2007 og á árinu 2008. Einnig hefur stefndi nefnt í þessu sambandi að í tengslum við viðskiptabankastarfsemi Glitnis, sem var aðalviðskiptabanki samstæðunnar, hafi verið veitt ýmis skammtíma- og rekstrartengd lán á árinu 2008. Með vísan til þessara atriða segir stefndi fullyrðingar skýrslu Ernst & Young um vandkvæði Milestone og tengdra félaga við að afla fjármögnunar vera beinlínis rangar og órökstuddar.
Svo sem ljóst er af framanskráðu ber mikið á milli aðila um það hvaða augum beri að líta framangreind atvik og hefur héraðsdómi því verið falið að leysa úr deilunni.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
1. Grundvöllur riftunar
1.1. Gjaldmiðlaskiptasamningur
Stefnandi byggir á því að 1. janúar 2008 hafi verið skuldfærður í bókhaldi Milestone ehf. framvirkur gjaldmiðlaskiptasamningur við stefnda að fjárhæð 149.999.993 kr. Með þessu hafi farið fram greiðsla til stefnda á 149.999.993 kr. Áður en greiðslan var framkvæmd á viðskiptareikningi stefnda hjá stefnanda, hafi stefndi skuldað Milestone ehf. 13.028.608 kr. en eftir greiðsluna hafi félagið skuldað stefnda 136.971.385 kr.
Stefnandi telur mjög óvenjulegt að gjaldmiðlaskiptasamningurinn sé ódagsettur, en auk þess beri til þess að líta hann lúti að umtalsverðum fjárhæðum. Þá hafi Milestone ehf. afsalað sér vaxtamun sem einnig sé óvenjulegt í slíkum samningum.
Ekki verði séð að viðskiptalegar forsendur hafi verið fyrir umræddum samningi. Í skýrslu Ernst & Young bls. 113 og 117 segi að umræddur gjaldmiðlaskiptasamningur hafi verið skaðlegur fyrir Milestone ehf. Samningurinn hafi verið gerður á milli tengdra félaga og virðist vera málamyndagerningur á þeim tíma, til þess gerður að færa fjármuni frá Milestone ehf. til stefnda.
Almennt sé tilgangur gjaldmiðlaskiptasamninga að verja félög fyrir áhættu í rekstri af flökti gjaldmiðla. Það sé hins vegar grundvallarforsenda að slík áhættudreifing nái út fyrir fyrirtækið – ef áhættuvörnin sé t.d. aðeins milli deilda fyrirtækisins sé engin raunveruleg vörn fólgin í áhættudreifingunni.
Nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við um áhættudreifingu innan samstæðu. Móðurfélög geti tekið að sér að sjá um áhættuvarnir fyrir dótturfélög, í því skyni að einfalda áhættuvarnir samstæðunnar, þannig að þær séu í raun á einni hendi. Til að áhættuvörnin hafi áhrif þurfi móðurfélagið síðan að gera samninga utan samstæðunnar á sama tíma og samningar séu gerðir við félög innan samstæðunnar. Þannig verði áhættuvörnin virk fyrir samstæðuna. Áhættuvörnin sé hins vegar með öllu áhrifalaus ef hún nær ekki út fyrir samstæðuna. Ef áhættuvörn sé eingöngu innan samstæðu, þá virki það eins og ef fyrirtæki gerir ekkert annað en að kaupa og selja sjálfu sér áhættuvörn. Samstæðan virki í raun eins og sér fyrirtæki utan um margar deildir. Niðurstaðan breytist ekki fyrr en viðskiptin fara út fyrir samstæðuna.
Engir samningar um áhættudreifingu hafi verið gerðir við aðila utan samstæðu Milestone ehf., samhliða gerð gjaldmiðlaskiptasamningsins sem hér er fjallað um. Eini tilgangur samningsins virðist því hafa verið sá að færa til fjármuni innan Milestone-samstæðunnar, þ.e. frá Milestone ehf. til dótturfélaga þess, þ.m.t. stefnda. Alls hafi millifærslur frá Milestone ehf. á grundvelli samninga þessara árið 2008 numið 10,5 milljörðum króna og dótturfélög félagsins hafi hagnast um sömu fjárhæð.
Stefnandi telur því að enginn raunverulegur tilgangur hafi verið með gerð gjaldmiðlaskiptasamningsins, enda ómögulegt að samningurinn gæti haft í för með sér áhættudreifingu eða áhættuvörn fyrir samstæðuna og þaðan af síður Milestone ehf. Krafa stefnanda um riftun rástöfunarinnar byggir á eftirfarandi málsástæðum.
1.1.1 Riftun skv. 131. gr. gþl.
Stefnandi reisir kröfu sína um riftun á greiðslu Milestone ehf. til stefnda, á grundvelli gjaldmiðlaskiptasamnings þann 1. janúar 2008, á því að gjaldmiðlasamningurinn hafi verið skaðlegur fyrir stefnanda og án viðskiptalegs tilgangs.
Þegar skuld samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum var færð í bókhald Milestone ehf. hafi stefndi skuldað Milestone ehf. 13.028.608 kr. Tap stefnanda á samningnum hafi því verið 13.028.608 kr. auk þess sem stefndi hafi á grundvelli samningsins átt kröfu á hendur Milestone ehf. að fjárhæð tæplega 137 milljónir króna. Með uppgjöri samningsins hafi Milestone ehf. því greitt stefnda 149.999.993 kr. Stefnandi telur greiðsluna vera gjöf í skilningi 2. mgr. 131. gr. gþl. sem beri að rifta.
Greiðsla 149.999.993 kr. til stefnda hafi verið færð í bókhald Milestone ehf. 1. janúar 2008. Greiðslan og þar með gjöfin hafi verið afhent á síðustu 24 mánuðum fyrir frestdag, enda stefndi og stefnandi nákomnir í skilningi 3. gr. gþl. Öll skilyrði riftunar skv. 131. gr. gþl. séu uppfyllt.
1.1.2 Riftun skv. 136. gr. gþl.
Enn fremur byggir stefnandi kröfu sína um riftun á greiðslu 149.999.993 kr. vegna gjaldmiðlaskiptasamnings 1. janúar 2008 á því að með því hafi skuld stefnda við Milestone ehf. verið greidd með skuldajöfnuði á móti kröfu stefnanda. Samkvæmt 136. gr. gþl. megi rifta greiðslu sem greidd er með skuldajöfnuði ef ekki mátti beita honum skv. 100. gr. gþl.
Skilyrði 100. gr. gþl. fyrir skuldajöfnuði hafi ekki öll verið til staðar þegar skuldajöfnuður fór fram, en í ákvæðinu sé m.a. gert að skilyrði að lánardrottinn hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum.
Ljóst sé að fyrirsvarsmenn Milestone ehf. sátu í stjórn stefnda þegar gjaldmiðlaskiptasamningurinn og hin riftanlega ráðstöfun var gerð. Auk þess átti Milestone ehf. ráðandi hlut í stefnda á þeim tíma.
Milestone ehf. hafi orðið ógjaldfært síðla árs 2007. Fyrirsvarsmenn stefnda – sem eru sömu einstaklingar og fyrirsvarsmenn Milestone ehf. – hafi verið grandsamir í skilningi 100. gr. gþl. um ógjaldfærni Milestone ehf. Þeir sem hafa vitneskju eða eiga að hafa vitneskju um fjárhagsstöðu skuldara geti ekki knúið fram skuldajöfnuð og þar með betri stöðu en aðrir kröfuhafar.
Stefnda hafi því verið ljóst eða mátt vera ljóst að Milestone ehf. átti ekki fyrir skuldum í skilningi 100. gr. gþl. þegar gjaldmiðlaskiptasamningurinn var gerður og þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram.
Því beri á grundvelli 136. gr. gþl. að rifta þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu á skuld stefnda við Milestone ehf. að fjárhæð 13.028.608 kr. með uppgjöri samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum.
1.1.3 Riftun skv. 134. gr. gþl.
Þegar umrædd greiðsla fór fram með uppgjöri gjaldmiðlaskiptasamningsins hafi Milestone ehf. verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir sínar enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Á þessum tíma hafi þannig verið fyrirséð að Milestone ehf. gæti ekki greitt allar skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Greiðslan teljist því greidd fyrr en eðlilegt getur talist, auk þess sem greiðsla skuldar með skuldajöfnuði við þessar aðstæður teljist óvenjulegur greiðslueyrir. Því beri skv. 2. mgr. 134. gr. gþl. að rifta þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu á skuld stefnda við Milestone ehf. að fjárhæð 13.028.608 kr. með uppgjöri samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum.
1.1.4 Riftun skv. 141. gr. gþl.
Stefnandi byggir kröfu sína um riftun á greiðslu Milestone ehf. til stefnda samkvæmt uppgjöri á gjaldmiðlaskiptasamningnum, einnig á því að ráðstöfunin hafi á ótilhlýðilegan hátt leitt til þess að 149.999.993 kr. hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Með greiðslunni hafi skuld stefnda við Milestone ehf., 13.028.608 kr., verið greidd upp auk þess sem stefndi hafi eignast kröfu á hendur Milestone ehf., 136.971.385 kr., sem lýst hefur verið í bú stefnanda. Með vísan til þess byggir stefnandi á því að rifta megi ráðstöfuninni, sbr. 141. gr. gþl.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 141. gr. gþl. séu skilyrði fyrir riftun ráðstöfunar fjögur: 1. að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg, 2. að ótilhlýðilega ráðstöfunin falli í einn af þremur upptöldum flokkum í ákvæðinu, 3. að skuldari hafi verið ógjaldfær og 4. að sá sem hafði hag af ráðstöfuninni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni og þær aðstæður sem leiddu til ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar.
Viðvíkjandi fyrsta og öðru skilyrðinu byggir stefnandi á því að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Greiðsla 149.999.993 kr. á grundvelli uppgjörs gjaldmiðlaskiptasamnings, sem engar viðskiptalegar forsendur voru fyrir aðrar en ívilnun til handa stefnda, teljist ótilhlýðileg ráðstöfun. Samningurinn var skaðlegur fyrir stefnanda. Þessi ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að 13.028.608 kr. voru ekki til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa stefnanda, auk þess sem stefndi taldi sig hafa eignast kröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 136.971.385 kr. Þetta hafi leitt til skuldaaukningar til tjóns fyrir kröfuhafa.
Í þriðja lagi hafi stefndi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin var framkvæmd. Um þetta fjallar stefnandi nánar síðar.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg, enda sömu aðilar sem stjórnuðu báðum aðilum og héldu um alla þræði.
Af öllu framangreindu leiði að fyrrnefnd ráðstöfun, þ.e. greiðsla Milestone ehf. til stefnda, 149.999.993 kr., sé riftanleg samkvæmt 141. gr. gþl.
1.2. Greiðsla afborgana leigusamnings
1.2.1 Riftun skv. 2. mgr. 131. gr. gþl.
Stefnandi byggir á því að skuld við stefnda hafi myndast í bókhaldi Milestone ehf. að fjárhæð 136.971.385 kr. við uppgjör gjaldmiðlaskiptasamnings milli félaganna 1. janúar 2008. Fram til 17. mars sama ár hafi Milestone ehf. greitt samtals 2.054.862 kr. inn á þá skuld, en um var að ræða afborganir af eignaleigusamningi sem inntar voru af hendi til Glitnis banka hf. í nafni Milestone ehf. en stefnda til hagsbóta.
Stefndi telur ljóst að ef riftun á greiðslu samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi félaganna verður staðfest, eignist stefnandi beina fjárkröfu á hendur stefnda vegna framangreindra innborgana á skuldina skv. gjaldmiðlaskiptasamningnum – enda verði þá ekki litið á greiðslurnar sem innborgun á skuld Milestone ehf. við stefnda, heldur beinlínis sem lán Milestone ehf. til stefnda. Við þær aðstæður sé greiðsluskylda stefnda í raun óumdeild, og óþarfi að krefjast riftunar á greiðslunum, þótt þess sé krafist í endurgreiðsluhluta stefnunnar að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda greiðslurnar. Mótmæli stefndi allt að einu greiðsluskyldu, þrátt fyrir að ráðstöfun skv. gjaldmiðlasamningi verði rift, byggir stefnandi riftunarkröfu sína á 2. mgr. 131. gr. gþl.
Stefnandi telur með öðrum orðum að ef greiðslurnar voru ekki til niðurgreiðslu á skuld Milestone ehf. við stefnda, hafi verið um gjöf að ræða til stefnda. Öll skilyrði 131. gr. gþl. séu til staðar.
Verði komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla samkvæmt uppgjöri á gjaldmiðlaskiptasamningi stefnda við Milestone ehf. sé ekki riftanlegur gerningur, eða þá að miða beri riftunarkröfu stefnanda við stöðu í bókhaldi Milestone ehf. þegar greiðslurnar fóru fram, sé ljóst að framangreindar afborganir á eignaleigusamningi hafi verið innborgun á skuld Milestone ehf. við stefnda. Stefnandi krefst riftunar á þeim ráðstöfunum, og byggir kröfu sína á eftirfarandi sjónarmiðum:
1.2.2 Riftun skv. 134. gr. gþl.
Stefnandi byggir á því að greiðslurnar séu riftanlegar á grundvelli 2. mgr. 134. gr. gþl. Greiðslurnar hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var. Skuld Milestone ehf. við stefnda hafi numið 136.971.385 kr. þegar framangreindar þrjár greiðslur voru inntar af hendi. Sú skuld hafi myndast vegna færslu á skuld samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi, sem samkvæmt efni sínu hafi átt að gera upp 31. mars 2008. Fyrir þann dag hafi fyrirsvarsmenn félaganna tveggja ekki vitað hver staða samningsins yrði. Samkvæmt bókhaldi Milestone ehf. hafi skuld samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum því verið greidd niður um framangreindar 2.054.862 kr. áður en skuldin varð raunverulega til. Slík greiðsla falli undir ákvæði 2. mgr. 134. gr. gþl., um að vera greidd fyrr en eðlilegt er.
Verði talið að Milestone ehf. hafi borið að greiða framangreinda skuld skv. gjaldmiðlaskiptasamningnum á árinu 2008 byggir stefnandi á því að enginn tilgreindur gjalddagi hafi verið á skuldinni. Ekki verði séð að stefndi hafi gert nokkurn reka að innheimtu skuldarinnar eða skorað á Milestone ehf. að greiða hana. Þá verði ráðið af málavöxtum að greiðsla framangreindra reikninga hafi ekki verið í neinum tengslum við uppgjör á skuld Milestone ehf. við stefnda, heldur hafi Milestone ehf. eingöngu lagt út fjármuni til hagsbóta fyrir stefnda, sem síðar hafi verið jafnað á móti umræddri skuld samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum. Þannig hafi ekki verið um eiginlegt uppgjör að ræða á skuld Milestone ehf. við stefnda, enda stefndi aldrei farið fram á slíkt uppgjör.
Stefnandi telur að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að gjalddagi skuldar samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi hafi verið kominn og að framangreindar greiðslur hafi verið uppgjör á þeirri skuld.
Stefnandi telur að kröfuhöfum stefnanda hafi verið mismunað með framangreindum greiðslum til stefnda og krefst þess að riftun greiðslnanna verði staðfest með dómi.
1.2.3 Riftun skv. 141. gr. gþl.
Stefnandi telur að öll skilyrði 141. gr. gþl. séu uppfyllt sem eigi að leiða til riftanleika þessarar ráðstöfunar. Beri því að rifta ráðstöfuninni skv. 141. gr. gþl.
1.3. Endurgreiðsla láns
Stefnandi skírskotar til þess að 15. júlí 2008 hafi stefndi veitt Milestone ehf. lán að fjárhæð 80.000.000 kr. Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um lánið og því ekkert kveðið á um lánaskilmála eða endurgreiðslu með sannanlegum hætti. Lánið hafi Milestone ehf. endurgreitt með þremur greiðslum, dagana 18. ágúst 2008 (33.700.000 kr.), 22. ágúst 2008 (25.000.000 kr.) og 2. september 2008 (21.300.000 kr.).
Stefnandi byggir á því að endurgreiðsla lánsins hafi verið framkvæmd með riftanlegum gerningum.
1.3.1 Riftun skv. 134. gr. gþl.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að greiðslan sé riftanleg á grundvelli 2. mgr. 134. gr. gþl. Ekki hafi verið samið sérstaklega um endurgreiðslu lánsins eða að öðru leyti um skilmála þess. Lánið hafi verið endurgreitt án allra vaxta eða annarra þóknana til stefnda og ekki verði séð að lánið hafi verið endurgreitt að kröfu stefnda.
Stefnandi telur að stefndi geti ekki haldið því fram nú að lánið hafi verið endurgreitt á gjalddaga, enda liggi ekkert fyrir um það hvenær umræddir gjalddagar voru. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því. Þá telur stefnandi jafnframt að stefndi geti ekki haldið því fram nú að gjalddagi lánsins hafi verið við stofnun kröfunnar eða þegar krafa var gerð um endurgreiðslu – og beri stefndi sönnunarbyrði fyrir báðum fullyrðingum.
Á meðan ósannað sé að lánið hafi verið endurgreitt á gjalddögum þess eða að kröfu stefnda telur stefnandi ljóst að skuldin hafi verið gerð upp fyrr en eðlilegt er. Því sé endurgreiðsla lánsins riftanlegur gerningur á grundvelli 2. mgr. 134. gr. gþl.
1.3.2 Riftun skv. 141. gr. gþl.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að endurgreiðsla skuldarinnar sé riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. gþl. Stefnandi telur að öll framangreind skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.
Í fyrsta lagi sé háttsemin, þ.e. endurgreiðsla lánsins, ótilhlýðileg. Megi ráða það af því að það hafi ekki verið venja eða háttur Milestone ehf. á þessum tíma að greiða upp skuldir sínar við kröfuhafa. Greiðslan feli í sér bersýnilega mismunun kröfuhafa, enda hafi aðrir kröfuhafar ekki fengið uppgjör skulda sinna með sambærilegum hætti. Það hafi fyrirsvarsmönnum Milestone ehf. – sem jafnframt voru fyrirsvarsmenn stefnda á þessum tíma – mátt vera ljóst þegar greiðslurnar voru inntar af hendi. Stefnandi telur að ekki verði séð að krafa stefnda hafi verið komin á gjalddaga eða að stefndi hafi sett fram kröfu um greiðslu kröfunnar þegar hún var greidd.
Stefnandi telur nær augljóst að uppfyllt sé það skilyrði að ráðstöfunin hafi verið stefnda til hagsbóta, en á kostnað annarra kröfuhafa. Hefði Milestone ehf. ekki innt greiðsluna af hendi hefðu umræddar 80.000.000 kr. staðið öðrum kröfuhöfum til fullnustu. Þá verði jafnframt að telja að skilyrði um að eignir þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum vegna ráðstöfunarinnar sé einnig uppfyllt.
Stefnandi byggir á því að uppfyllt sé skilyrði um ógjaldfærni Milestone ehf. á þeim tíma sem endurgreiðsla lánsins fór fram, þ.e. í lok ágúst og byrjun september árið 2008.
Að síðustu reisir stefnandi málatilbúnað sinn á því að uppfyllt sé skilyrði um grandsemi þess er greiðslunnar naut. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi vitað og mátt vita að Milestone ehf. var ógjaldfært á þeim tíma sem endurgreiðsla lánsins fór fram. Stafi það af þeirri einföldu staðreynd að um sömu fyrirsvarsmenn var að ræða; fyrirsvarsmenn Milestone ehf. á þessum tíma voru jafnframt fyrirsvarsmenn stefnda. Karl Wernersson og Steingrímur Wernersson hafi setið bæði í stjórnum stefnda og Milestone ehf. og jafnframt verið meirihlutaeigendur beggja félaga. Báðum hafi þeim mátt vera ljóst að Milestone ehf. var ógjaldfært í lok ágúst 2008 og að endurgreiðsla skuldarinnar að fullu fæli í sér ótilhlýðilega ráðstöfun.
Öllum skilyrðum 141. gr. gþl. sé því fullnægt, og greiðslurnar riftanlegar af þeim sökum.
2. Krafa um endurgreiðslu verðmæta
Krafa stefnanda um endurgreiðslu byggir á 142., sbr. 143. gr. gþl.
Krafa stefnanda um endurgreiðslu vegna uppgjörs gjaldmiðlaskiptasamnings er byggð á 1. mgr. 142. gr. gþl. Með samningnum hafi verið búin til fjárkrafa stefnda á hendur Milestone ehf. að fjárhæð 149.999.993 kr. Af þeirri fjárhæð voru 13.028.608 kr. nýttar til skuldajafnaðar á móti kröfu sem Milestone ehf. átti á hendur stefnda. Stefnandi telur að umræddur gjörningur hafi þannig nýst stefnda sem nemur 13.028.608 kr. enda hefði stefnda ella borið að greiða stefnanda skuldina. Tjón stefnanda nemur sömu fjárhæð. Skilyrði fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gþl. eru því fyrir hendi.
Krafa um endurgreiðslu afborgana af eignaleigusamningi er einnig byggð á 1. mgr. 142. gr. gþl. Milestone ehf. hafi innt af hendi greiðslur samtals að fjárhæð 2.054.862 kr. sem hafi nýst stefnda, enda hafi stefndi á þessum tíma verið skuldari í umræddu samningssambandi. Tjón stefnanda nemi sömu fjárhæð.
Krafa stefnanda um endurgreiðslu láns að fjárhæð 80.000.000 kr. byggir annars vegar á 1. mgr. og 3. mgr. 142. gr. gþl. Verði talið að 131. eða 134. gr. gþl. eigi við um endurgreiðslu skuldarinnar byggir endurgreiðslukrafa á 1. mgr. 142. gr. laganna, en stefnandi telur ljóst að þær 80.000.000 kr. sem Milestone ehf. greiddi stefnda hafi komið honum að notum. Tjón stefnanda nemi sömu fjárhæð.
Samtals gerir stefnandi á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gþl. þá kröfu að stefndi greiði stefnanda 95.083.470 kr.
Verði talið að almenn riftunarregla 141. gr. gþl. eigi við um framangreindar ráðstafanir, byggir stefnandi endurgreiðslukröfu sína á 3. mgr. 142. gr. laganna og lýsir henni sem skaðabótakröfu, en tjón stefnanda hafi numið 95.083.470 kr. Er þess krafist að stefndi greiði stefnanda bætur sem samsvara því tjóni.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af fjárhæðinni á grundvelli III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 30. september 2010, en þá var liðinn mánuður frá því stefnandi sendi stefnda tilkynningu um riftun framangreindra ráðstafana og krafðist endurgreiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001
4. Ógjaldfærni Milestone ehf. þegar ráðstöfun/greiðsla átti sér stað.
4.1 Almennt um ógjaldfærni.
Stefnandi byggir á því að Milestone ehf. teljist hafa verið „ógjaldfært“ ef annað hvort af eftirfarandi átti við um það, þegar hinn riftanlegi gerningur átti sér stað: 1. Eignir Milestone ehf. voru minni en skuldir félagsins. 2. Fyrirséð var að Milestone ehf. gat ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.
Stefnandi telur að það sé ekki skilyrði ógjaldfærni að kröfur hafi fallið í gjalddaga eða að vanskil hafi þegar orðið á kröfum á hendur Milestone ehf. Samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum geti Milestone ehf. talist ógreiðslufært á tilteknu tímabili jafnvel þótt félagið hafi þá enn verið í fullum skilum við kröfuhafa. Nægjanlegt sé að það hafi verið orðið fyrirsjáanlegt að Milestone ehf. myndi ekki geta staðið í skilum við alla kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga.
Mat á því hvort Milestone ehf. hafi getað staðið í skilum við lánardrottna sína þegar skuldir þeirra féllu í gjalddaga ráðist af heildarmati ýmissa atriða eins og t.d. fjárhæðum krafna, gjalddaga krafna, lausafjárstöðu Milestone ehf., eignastöðu Milestone ehf., hversu auðvelt var að koma eignum í verð, hvort eignir voru bundnar kvöðum, væntanlegar framtíðartekjur og fleiri atriðum.
Af framangreindum lagaákvæðum og dómaframkvæmd telur stefnandi ljóst að stefndi, sem riftunarþoli, beri sönnunarbyrðina fyrir því að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært þegar ráðstöfunin átti sér stað. Í því samhengi er áréttað að almennt sé talið að mat skuldarans sjálfs á eigin eignum verði ekki lagt til grundvallar þegar eignarstaða hans er könnuð. Stefnda dugi þannig ekki að vísa til ársreikninga Milestone ehf. til að sýna fram á að eignir félagsins hafi verið nægjanlegar og umfram skuldir. Til þess að stefndi geti með fullnægjandi hætti leitt í ljós gjaldfærni Milestone ehf. verði hann að sýna fram á raunverulegt söluverðmæti eignanna þegar ráðstöfun/greiðsla fór fram.
4.2 Afstaða eigenda Milestone ehf. til gjaldfærni félagins.
Samkvæmt ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2007 nam eigið fé félagsins rúmum 84 milljörðum króna í lok ársins 2007 og þar af nam óráðstafað eigið fé rúmum 74 milljörðum króna.
Stefnandi leggur áherslu á að ársreikningur sé ekki hlutlaus greining á stöðu félagsins enda sé hann saminn af stjórn og framkvæmdastjóra félags, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Stjórn Milestone ehf. hafi hvorki verið óháð né skipuð fagmönnum, heldur hafi stefndi og bróðir hans setið í stjórn, en þeir áttu um 95% alls hlutafjár í Milestone ehf. Framkvæmdastjóri félagsins var Guðmundur Ólason sem átti 1,5% í félaginu. Stefnandi telur því að þeir sem sömdu ársreikninginn hafi átt gríðarlega hagsmuni af gengi félagsins. Sönnunargildi ársreiknings fyrir árið 2007 verði því að meta í samræmi við meginreglur réttarfars um skjöl sem annar aðilinn útbýr og með hliðsjón af þeim hagsmunum sem stjórnarmenn og framkvæmdastjóri höfðu af efni ársreikningsins.
Að mati stefnanda ber bókhald Milestone ehf. með sér að rekstur félagsins hafi verið erfiður allt árið 2008 þar sem félagið fjármagnaði sig ítrekað með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum.
Trú stjórnenda Milestone ehf. eða annarra um stöðu félagsins á hverjum tíma skipti engu við mat á gjaldfærni félagsins. Jafnvel þótt stjórnendur og aðrir hafi talið að staða félagsins hafi verið góð fram á síðustu mánuði ársins 2008 hafi seinni tíma könnun á staðreyndum leitt í ljós að svo hafi ekki verið.
Stefnandi telur ljóst að Milestone ehf. hafi ekki verið gjaldfært „þegar ráðstöfun/greiðsla fór fram“.
Stefnandi telur að Milestone ehf. þurfi annaðhvort að hafa verið fyrirsjáanlega ófært um að greiða skuldir á gjalddaga eða hafa átt minni eignir en skuldir. Hvor aðstaðan fyrir sig sé nægjanleg til að Milestone ehf. teljist hafa verið ógjaldfært.
Stefndi vísar til þess að félag teljist ógjaldfært þegar fyrirséð er að það getur ekki greitt skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga. Þegar félag greiðir ekki skuldir á gjalddaga sé þannig ljóst að félagið sé orðið ógjaldfært. Milestone ehf. hafi vanefnt nokkrar skuldir sínar löngu fyrir frestdag og úrskurð um gjaldþrot.
Skuld Milestone ehf. við Leiftra Ltd. hafi verið í vanskilum frá 23. nóvember 2007, sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 50 og 53. Milestone ehf. hafi skuldað SJ1 ehf. lán sem var á gjalddaga 1. júní 2007. Lánið hafi aldrei verið greitt en athyglisvert sé að Milestone ehf. átti einnig að greiða Karli Wernerssyni, stærsta hluthafa félagsins, lán á sama gjalddaga, þ.e. 1. júní 2007. Lánið sem Karl veitti hafi ekki verið greitt á gjalddaga frekar en lánið við SJ1 ehf. Skuldin við Karl hafi þó verið greidd í lok september 2007, sbr. skýrslu Ernst & Young bls. 51-52, en ekki með hefðbundinni greiðslu heldur skuldajöfnuði. Það eitt veiti vísbendingu um greiðsluerfiðleika að tvær sambærilegar skuldir, sem báðar eru komnar nokkra mánuði fram yfir gjalddaga, séu meðhöndlaðar með svo ólíkum hætti.
Með vísan til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis heldur stefnandi því fram að Milestone ehf. hafi verið í hópi þeirra sem átt hafi óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé sökum þess hvernig eignarhaldi var háttað að Glitni banka hf. og Milestone ehf. Stór fjárfestingafélög eins og Milestone ehf. hafi skuldað bönkunum svo mikið að bankinn hafi verið orðinn háður velgengni þeirra. Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar segi m.a. að fall Karls Wernerssonar hefði getað ýtt Glitni banka hf. „fram af brúninni“ (SRA 2. bindi, bls. 318). Glitnir banki hf. hafi þannig haft mikla hagsmuni af því að það kæmi ekki í ljós að Milestone ehf. væri orðið ógjaldfært.
Frá og með seinni hluta ársins 2007 hafi Milestone ehf. einungis fengið lán frá Glitni og aðilum sem tengdir voru Milestone ehf. (eigendum félagsins og dótturfélögum). Eina undantekningin sé níu daga lán (frá 21. maí 2008 til 30. maí 2008) sem Milestone ehf. fékk frá Icebank að upphæð 1.065.000.000 kr. Að öðru leyti hafi fjármögnun Milestone ehf. falist fyrst og fremst í því að Glitnir veitti Milestone ehf. ný lán, veitti ítrekaða fresti á eldri lánum til félagsins og endurfjármagnaði kröfur annarra lánveitenda, sem misst höfðu trú sína á Milestone ehf. Milestone ehf. hafi frá og með hausti 2007 verið ófært að standa við skuldbindingar sínar á gjalddögum og félagið þar með verið ógjaldfært. Félagið hafi vanefnt nokkur lán sem komin voru á gjalddaga, m.a. frá júní 2007, og félagið hefði vanefnt mun fleiri skuldbindingar ef Glitnir banki hf. hefði ekki tekið þátt í að leyna stöðu félagsins. Milestone ehf. hafi þannig komist hjá því að vanefna allar skuldir félagsins frá og með seinni hluta ársins 2007 með sífelldri fjármögnun Glitnis banka hf. Vegna framangreindra tengsla sé ljóst að lán Glitnis banka hf. til Milestone ehf., a.m.k. frá og með síðari hluta ársins 2007, hafi ekki verið veitt á viðskiptalegum forsendum heldur verið til komin vegna hagsmuna Glitnis banka hf. sjálfs af því að rekstur Milestone ehf. virtist ganga vel.
Frá miðju ári 2007 hafi Milestone ehf. nánast eingöngu verið rekið með lánum frá Glitni banka hf., sem hafi verið eini bankinn í heiminum sem var reiðubúinn að lána Milestone ehf. Það sé óeðlilegt og ósannfærandi að félag með 80 milljarða króna eigið fé hafi eingöngu lánstraust hjá einni fjármálastofnun - og sé um leið einn af stærstu eigendum fjármálastofnunarinnar. Slíkt bendi til þess að markaðurinn hafi talið að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Fjármögnun Glitnis banka hf. hafi enda ekki byggst á viðskiptalegum forsendum.
Glitnir banki hf. hafi gengið svo langt í að fela ógjaldfærni Milestone ehf. að bankinn hafi endurfjármagnað lán Milestone-samstæðunnar í gegnum félag utan samstæðunnar til að komast hjá reglum um stórar áhættuskuldbindingar og lán til tengdra aðila. Í febrúar 2008 hafi Morgan Stanley krafist greiðslu á um 217 milljóna evra láni sem bankinn hafði veitt Milestone ehf. Milestone ehf. hafi ekki getað greitt lánið og stefnt hafi í að félagið vanefndi gríðarstórt lán við einn stærsta banka heims. Milestone ehf. hafi ekki átt í önnur hús að venda en til Glitnis banka hf. en þeim banka hafi hins vegar verið óheimilt að veita félaginu lán vegna reglna um hámark áhættuskuldbindinga. Þá hafi verið gripið til þess að veita lánið til Svartháfs ehf., félags í eigu Werners Rasmussonar, föður Karls og Steingríms, þáverandi aðaleigenda Milestone ehf. Svartháfur ehf. hafi í kjölfarið greitt upp lánið við Morgan Stanley í gegnum flókna keðju lánveitinga til félaga sem tengdust Milestone ehf.
Glitnir hafi að auki leitað annarra leiða til að útvega Milestone ehf. lánsfjármagn, m.a. með því að sjá um víxilútgáfu fyrir félagið. Víxlarnir hafi svo verið seldir viðskiptavinum einkaþjónustu Glitnis.
Stefnandi byggir á því að almennt sé það talið til greiðsluvandræða ef skuldari tekur upp á því að veita tryggingar fyrir skuldum sem áður hefur verið stofnað til. Slíkt sé vísbending um að skuldari vilji tryggja endurheimtur tiltekinna nákominna kröfuhafa vegna fyrirsjáanlegra vanefnda. Slíkar eftirfarandi tryggingar séu enda grundvöllur riftunar samkvæmt 137. gr. laga nr. 21/1991.
Hinn 3. febrúar 2008 hafi Milestone ehf. veitt handveð í innistæðu bankareiknings. Handveðið hafi verið sett til tryggingar láni hjá Glitni banka hf. að upphæð 1.700.000 kr. sem stofnað var til 1. maí 2006. Stefnandi hafi þegar rift þessum gerningi.
Í apríl 2007 hafi fimm lykilstarfsmenn Milestone ehf. stofnað fimm einkahlutafélög. Í júní 2007 hafi verið undirritaðir kaupsamningar milli Milestone ehf. og félaganna, í eigu starfsmannanna, þar sem Milestone ehf. seldi félögunum eignarhluti í Askar Capital hf. að nafnverði kr. 17.000.000 kr., fyrir 340.000.000 kr.
Sama dag hafi verið undirritaðir lánasamningar milli Milestone ehf. og fyrrgreindra starfsmanna eða félaga í þeirra eigu, þar sem Milestone ehf. lánaði 170.000.000 kr. vegna hlutafjárkaupanna í Askar Capital hf. Í febrúar og mars 2008 hafi verið gerðar skuldskeytingar þannig að starfsmennirnir voru leystir úr persónulegum ábyrgðum og einkahlutafélög í þeirra tóku við sem skuldarar. Þessi skyndilega breyting á fyrirkomulagi lánanna veiti sterka vísbendingu um að starfsmennirnir sjálfir hafi vitað í hvað stefndi í rekstri félagsins.
Stefnandi vísar til þess að 29. febrúar 2008 hafi verið tekin ákvörðun á hluthafafundi um greiðslu arðs vegna ársins 2007. Skilyrði til arðgreiðslu, skv. XII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, hafi þá ekki verið fyrir hendi, sbr. bls. 118-120 í skýrslu Ernst & Young. Þá veiti það sterka vísbendingu um raunverulega stöðu félagsins að arðurinn var ekki greiddur út til hluthafa heldur færður á viðskiptareikning þeirra sem skuld félagsins til viðkomandi hluthafa. Slíkt bendi til að Milestone ehf. hafi einfaldlega ekki haft burði til að greiða arðinn út með peningum. Ákvörðunin hafi svo verið tekin upp í lok ársins 2008 og fjárhæðin lækkuð.
4.3 Niðurstaða um ógjaldfærni.
Stefnandi byggir á því að endurskoðendur Erns & Young hafi komist að þeirri niðurstöðu, sbr. bls. 13 í skýrslu þeirra, að Milestone ehf. hafi verið komið í veruleg vandræði á haustmánuðum ársins 2007 og að þá hafi verið „orðið ljóst að félagið myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar og að það hafi ekki verið líklegt að úr rættist um fjárhag félagsins í náinni framtíð“. Jafnframt hafi endurskoðendurnir talið „að sterkar vísbendingar hafi verið um að eignir Milestone ehf. og samstæðunnar hafi verið ofmetnar í ársreikningi 2007“ og þannig hafi Milestone ehf. verið orðið ógjaldfært síðla árs 2007.
5. Stefndi teljist nákominn stefnanda skv. 3. gr. gþl.
Stefnandi byggir á því að stefndi sé nákominn stefnanda í skilningi 3. gr. gþl. Er þar sérstaklega vísað til 4.-6. tl. ákvæðisins.
Tengsl Milestone ehf. og stefnda á því tímabili sem hér er til skoðunar hafi verið sem hér segir:
Fram til 31. desember 2007 átti Milestone ehf. 100% eignarhlut í félaginu L&H eignarhaldsfélag ehf., kt. 681103-2440, en það félag átti svo 100% hlutafjár í stefnda. Fram til 31. desember 2007 var því allt hlutafé í stefnda í eigu Milestone ehf. í gegnum eitt dótturfélag.
Um áramótin 2007/2008 fór fram svokallað „Project Supergood“ í rekstri Milestone ehf., en í því hafi falist verulegar skipulagsbreytingar á samstæðunni og færsla eigna frá Milestone ehf. til dótturfélaga Milestone ehf. í Svíþjóð. Við breytinguna hafi eignarhald á stefnda færst til innan samstæðunnar, sem hér segir:
- Milestone ehf. átti 100% hlutafjár í Þætti eignarhaldsfélagi ehf., kt. 590405-0510.
- Þáttur eignarhaldsfélag ehf. átti 100% hlutafjár í sænska félaginu Racon Holding A.B, kennitala 556726-9732.
- Racon Holding A.B. átti 100% hlutafjár í sænska félaginu Racon Holdings II AB, kennitala 556569-7686.
- Racon Holding II A.B. átti 100% hlutafjár í sænska félaginu Invik & Co AB, kennitala 556594-1787.
- Invik & Co AB átti 100% hlutafjár í íslenska félaginu L&H eignarhaldsfélag ehf., kt. 681103-2440.
- L&H eignarhaldsfélag var eftir sem áður eigandi alls hlutafjár í stefnda.
Eftir „Project Supergood“ hafi Milestone ehf. eftir sem áður átt 100% hlutafjár í stefnda, en í gegnum nokkuð fleiri dótturfélög en áður.
Þann 31. mars 2008 hafi hið stefnda félag verið selt úr samstæðu Milestone ehf. Kaupandi félagsins hafi verið Aurláki ehf., kt. 480208-2260. Eigendur Aurláka ehf. á þessum tíma hafi verið þeir sömu og eigendur Milestone ehf., þ.e. bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir, sem einnig hafi setið í stjórn Aurláka ehf. og Milestone ehf. á þessum tíma. Þá hafi þeir jafnframt setið í stjórn stefnda a.m.k. frá 7. september 2007, ásamt Guðmundi Ólasyni, forstjóra Milestone ehf.
Af þessu megi ráða að hið stefnda félag hafi verið í 100% eigu Milestone ehf. allt fram til 31. mars 2008. Augljóst sé að 5. tl. 3. gr. gþl. eigi við um tengsl félaganna fram til þess tíma. Við söluna á stefnda til Aurláka ehf. hafi eigendur Milestone ehf. orðið eigendur stefnda. Þar með hafi maður nákominn Milestone ehf. átt verulegan hlut í stefnda. Skilyrði 5. tl. 3. gr. gþl. hafi því enn verið fyrir hendi eftir söluna á stefnda til Aurláka ehf.
Stefnandi byggir einnig á því að 6. tl. 3. gr. eigi við um tengsl stefnanda og stefnda á því tímabili sem um ræðir.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabóta-, samninga- og kröfuréttar og laga nr. 7/1936, um ógilda löggerninga og málamyndagerninga. Stefnandi krefst dráttarvaxta af dómkröfum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist er dráttarvaxta frá 30. september 2010, er mánuður var liðinn frá því að stefnda var sent bréf með framangreindum kröfum stefnanda, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga. Um kröfusamlag er vísað til 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 33. gr. sbr. og 1. mgr. 35. gr., 40. gr. og 41. gr. sömu laga.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnda
Krafa stefnanda á hendur stefnda er um riftun á tilteknum greiðslum til stefnda og endurgreiðslu á tilteknum fjárhæðum vegna þeirra. Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt og krafist sýknu, einkum með þeim rökum að skilyrði riftunar séu ekki til staðar.
- Krafa um sýknu.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda með þeim rökum að skilyrði 131., 134., 136. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um riftun séu ekki uppfyllt.
a. Almennt um ógjaldfærni.
Stefndi andmælir skírskotun stefnanda til ákvæða 131., 134., 136. og 141. gr. gþl. Stefndi vísar í því samhengi til þess að meira en sex mánuðir hafi verið á milli þeirra greiðslna sem stefnandi vill rifta og frestdags. Því standi og falli málatilbúnaður stefnanda um riftun með því hvenær Milestone varð ógjaldfært.
Stefndi heldur því fram að til að félag teljist ógjaldfært í skilningi riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt, þ.e. eignir félagsins hafi verið minni en skuldir þess og auk þess hafi verið fyrirsjáanlegt að félagið gæti ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Þessi skilyrði þurfa að mati stefnda að vera uppfyllt á þeim tíma sem meintur riftanlegur gerningur á sér stað.
Varðandi gjaldfærni/greiðslufærni þá telur stefndi að skera þurfi úr því hvort skuldari geti staðið í skilum þegar kröfur, sem beint er að honum, falla í gjalddaga. Meta þurfi hvort greiðsluþrot skuldarans sé fyrirsjáanlegt eða ekki. Við það mat þurfi, auk athugunar á þeim kröfum sem beint er að skuldaranum og gjalddögum þeirra, að kanna tvennt. Annars vegar hvaða eignir skuldarinn eigi og hvaða möguleika hann hafi á því að koma þeim í verð og hins vegar hvaða tekjum hann geti átt von á í framtíðinni. Að auki þurfi að skoða möguleika skuldara til fjármögnunar og frekari lántöku.
Hvað varðar mat á verðmæti eigna skuldarans beri almennt að leggja til grundvallar söluverð þeirra. Það geti haft mikla þýðingu fyrir skuldarann, hvað hann hefur mikinn tíma til að selja eignir, þannig að ætla megi, að hann geti greitt skuldir sínar, þegar þær falla í gjalddaga. Við mat á því, hvert svigrúm skuldari hefur í þessu efni, skipti mestu hvenær gjalddagi krafnanna er. Hann hefur a.m.k. þann tíma, sem líður fram að gjalddaga þeirra. Með orðalaginu að ekki verði talið að greiðsluörðugleikar skuldara muni líða hjá innan skamms tíma, sé vísað til þess að ekki megi vera um tímabundið ástand að ræða. Með þessu sé meðal annars gefið svigrúm til að taka mið af mismunandi aðstæðum og tímabundnum sveiflum í vissum atvinnugreinum. Við mat á þessu atriði verði í raun að spyrja hversu löng venjuleg lægð sé í greiðslugetu þeirra sem fást t.d. við sömu atvinnugrein og viðkomandi skuldari og hvort það sjáist batamerki í tilviki skuldarans þegar sú lægð hefur liðið hjá.
Af þessu telur stefndi mega ráða að skuldari hafi visst svigrúm til þess að ráða bót á fjárhagslegum erfiðleikum sínum. Stefndi telur að af orðalagi 2. mgr., sbr. 1. mgr., 64. gr. gþl., megi ráða að fjárhagsleg endurskipulagning sem felist í því að skuldarinn tekur fé að láni og/eða gengur á eignir sínar, falli hér undir.
Stefndi telur margar fullyrðingar í framlagðri skýrslu Ernst & Young hf. um málsatvik beinlínis rangar. Nauðsynlegt sé að réttar upplýsingar liggi fyrir um atriði sem snúa að mati á gjaldfærni félagsins til þess að unnt sé að komast að upplýstri niðurstöðu með viðurkenndum lögskýringaraðferðum.
Stefndi telur að Milestone hafi verið gjaldfært a.m.k. fram til þess tíma er íslenska bankakerfið hrundi. Félagið hafi brugðist við þrengingum á fjármálamörkuðum með eignasölu og viðleitni til þess að ná fram sem hagkvæmastri samsetningu eigin fjár og lánsfjár. Þetta ferli hafi verið stutt fullkomlega af helstu lánardrottnum og síðar í fullu samráði við þá og með aðkomu þeirra. Því sé ljóst að Milestone hafi augljóslega getað staðið við skuldbindingar sínar allt fram að hruni íslenska fjármálakerfisins í lok ársins 2008, m.a. með því að ganga á eignir sínar eða taka fé að láni. Ekki hafi verið fyrirséð að fjármögnunarþörf Milestone myndi aukast og ekki útlit fyrir annað en að félagið hefði trausta fjármögnun hjá aðalviðskiptabanka samstæðunnar, Glitni banka hf.
Stefndi heldur því fram að lánveitingar Glitnis banka hf. til Milestone séu ekki tortryggilegar. Hér sé til skoðunar gjald- og greiðslufærni Milestone, en ekki innri málefni Glitnis banka hf. Þar sem Milestone náði að fjármagna sig, hvaðan sem þeir fjármunir komu, þá hafi ekki verið uppfyllt skilyrði þess að félagið væri bæði ógreiðslufært og ógjaldfært. Ekki sé hægt að leggja það á lántaka, sem ekki hefur neina stöðu innan fjármálafyrirtækis og/eða yfirsýn yfir það hvort lánareglum þess sé fylgt þegar kemur að ákvarðanatöku, að fylgjast með innri málefnum fjármálafyrirtækis þegar kemur að ákvörðun um lánveitingu. Þar sem Milestone hafi getað endurfjármagnað sig og komið í veg fyrir að skuldir þess féllu í gjalddaga þá var félagið ekki ógreiðslufært fyrr en eftir fall bankakerfisins. Mótmælir stefndi því einnig að fyrirsjáanlegt hafi verið orðið að Milestone gæti ekki staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga. Engar kröfur hafi fallið í gjalddaga fyrr en eftir hrun íslenska bankakerfisins.
Í stefnu og skýrslu Ernst & Young kemur fram að Milestone hafi þegar á árinu 2007 verið farið að vanefna skuldbindingar sem féllu á gjalddaga. Stefndi mótmælir þessu og vísar til þess að það teljist ekki vanefnd á skuld þegar lánveitandi samþykkir skilmálabreytingu á láni sem felur í sér að gjalddagi greiðslu er færður. Þetta hafi verið tilfellið varðandi kröfur Leiftra Ltd., SJ1 ehf. og Karls Wernerssonar.
Stefndi reisir varnir á því að forsendur Ernst & Young hf. byggi ekki á þeim reikningsskilastöðlum sem gilda um gerð og framsetningu ársreikninga fyrirtækja. Niðurstöðurnar byggi frekar á fullyrðingum, án tilvísana í reglur, og tilvísunum í viðmiðanir sem ekki sé heimilt að beita við gerð ársreikninga samkvæmt þeim stöðlum sem um það gilda. Af hálfu stefnda er lögð áhersla á að til grundvallar ársreikningsgerð hjá Milestone og dótturfélögum þess liggi fjölmargar matsgerðir um virði eigna. Ítarleg yfirferð endurskoðenda samstæðunnar og dótturfélaga liggi jafnframt til grundvallar. Allir þessir aðilar miði vinnu sína við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS sem viðurkenndir séu í þeim ríkjum þar sem félögin störfuðu.
Um áramótin 2007/2008 hafi átt sér stað umfangsmikil tilfærsla á eignum innan Milestone samstæðunnar. Þeirri yfirfærslu hafi verið endanlega lokið um mánaðamótin mars/apríl 2008. Sú eignatilfærsla hafi byggst á ítarlegum verðmötum sem fjölmargir íslenskir og erlendir aðilar komu að (sjá dskj. nr. 133-138). Til viðbótar því hafi farið fram ítarleg skoðun eftirlitsaðila bæði á Íslandi og Svíþjóð á reikningum félaganna í því skyni að ganga úr skugga um að eftir endurskipulagninguna myndu félögin uppfylla þær kröfur sem gerðar voru um eftirlit með fjármálasamsteypum á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þeim forsendum sem Ernst & Young hf. leggur til grundvallar í skýrslu sinni og þeirri niðurstöðu að Milestone hafi verið ógjaldfært um haustið 2007, sé því í raun haldið fram að illa rökstutt álit Ernst & Young hf. eigi að ganga framar eða sé marktækara en vinna allra þeirra þaulreyndu sérfræðinga sem komu að mati á efnahag og gjaldfærni Milestone á þessum tíma, hvort sem þeir störfuðu hjá endurskoðunarstofum, alþjóðlegum fjárfestingarbönkum og/eða opinberum eftirlitsaðilum. Af þessum sökum mótmælir stefndi því að slíkar skilmálabreytingar sýni fram á að félagið hafi verið ógjaldfært á þessum tíma. Stefnandi, sem og Ernst & Young, hefði getað fengið þessar upplýsingar frá stjórnendum félagsins ef eftir því hefði verið leitað. Stefndi kannast ekki við að Milestone hafi vanefnt „aðrar skuldbindingar“ eins og til dæmis um „Indlandsverkefni“ Aska Capital hf.
Í tengslum við yfirfærslu allra íslenskra eigna Milestone til Invik um áramótin 2007/2008 hafi eignarhald Invik á eftirlitsskyldum félögum í Svíþjóð, Hollandi og á Íslandi hlotið samþykki þarlendra eftirlitsaðila. Af umsóknarferlinu megi ráða að slíkt samþykki hefði ekki fengist ef móðurfélag Invik, þ.e. Milestone, hefði verið ógjaldfært í þeim skilningi sem hér er til umræðu.
Ársreikningur fyrir rekstrarárið 2007 sýni að eigið fé Milestone var um þau áramót 84.132.000.000 króna. Fráleitt sé að halda því fram að félag með slíkt eigið fé teljist ógjaldfært. Ársreikningurinn hafi verið staðfestur án fyrirvara af óháðum endurskoðendum félagsins, KPMG hf.
Í samræmi við kenningar fræðimanna og dómaframkvæmd beri að leggja ársreikninga og skattframtöl félags til grundvallar við mat á því hvort eignir þess hafi verið hærri en skuldir á tilteknum tíma. Slíkum samtímagögnum verði ekki haggað nema eitthvað mikið komi til.
Með vísan til annars vegar þess að Milestone náði að endurfjármagna sig á árinu 2008 og að engar kröfur féllu í gjalddaga fyrr en eftir hrun íslenska bankakerfisins og hins vegar þess að ársreikningur félagsins miðað við 31. desember 2007 sýndi greinilega fram á góða stöðu félagsins telur stefndi að sönnunarbyrði um að Milestone hafi verið ógreiðslufært og ógjaldfært haustið 2007 hafi færst yfir á stefnanda.
Stefndi gagnrýnir þá aðferðafræði Ernst & Young hf. að leggja til grundvallar eftir á skýringar og staðreyndir sem lágu ekki fyrir á þeim tíma sem hér um ræðir, taka í engu tillit til samtímagagna og horfa ekki til eðlis félagsins og þeirrar atvinnugreinar sem um ræðir. Þá megi gagnrýna þau vinnubrögð Ernst & Young hf. að óska á aldrei eftir skýringum eða afstöðu fyrrverandi stjórnenda Milestone, endurskoðenda, eftirlitsaðila og fjármálaráðgjafa, að því er varðar efni skýrslunnar.
Stefndi byggir á því að félagið hafi ekki getað verið orðið ógjaldfært í september 2007. Sönnunarbyrði um gjaldfærni félagsins á þeim tíma sé fullnægt meðal annars vegna þess að öll samtímagögn, svo sem ársreikningar, skattframtöl, greiningar og óháðar sérfræðiskýrslur endurskoðunarfyrirtækja gefi til kynna að félagið hafi verið gjaldfært. Engin lán hafi verið vanefnd á því tímabili sem um ræðir eða næstu misserum þar á eftir.
Skýrsla endurskoðunarfyrirtækis sem aflað er einhliða löngu eftir þann tíma sem um ræðir og eftir hrun íslensks bankakerfis sem ekki hafi verið fyrirséð, sem aukinheldur grundvallist á rangri lagatúlkun á því lykilhugtaki sem lagt er til grundvallar, geti ekki haggað þessari sönnun. Ekkert í skýrslu Ernst & Young bendi til þess að Milestone hafi verið ógjaldfært fyrir hrun íslenska bankakerfisins, sé rétt lagatúlkun þess hugtaks lögð til grundvallar.
Stefndi mótmælir fullyrðingum um að lánardrottnar dótturfélaga hafi haft forgang að tekjum af eignum og að tekjustreymi hafi minnkað frá dótturfélögum til Milestone.
Stefndi heldur því fram að Milestone hafi ekki orðið ógjaldfært fyrr en í lok árs 2008 og krefst því sýknu af öllum kröfum stefnanda.
b. Krafa um riftun á greiðslu vegna gjaldmiðlaskiptasamnings.
Stefndi hafnar því að gjaldmiðlaskiptasamningur milli Milestone og stefnda hafi ekki verið gerður á viðskiptalegum forsendum heldur aðeins í þeim tilgangi að færa fjármuni frá Milestone til stefnda. Stefndi segir hið rétta í þessu vera að stefndi hafi, líkt og mörg önnur dótturfélög Milestone, haft allar tekjur sínar í íslenskum krónum. Stefndi hafi á hinn bóginn tekið lán í erlendri mynt og því verið berskjaldaður fyrir mögulegri veikingu íslensku krónunnar og talið rétt að verja sig gegn henni.
Milestone haf hins vegar átt langstærstan hluta eigna sinna í erlendri mynt og talið að með styrkingu íslensku krónunnar myndi verðmæti þessara eigna minnka. Í ljósi þessa hafi þótt rétt að gera gjaldmiðlaskiptasamning milli félaganna þar sem báðir aðilar myndu hagnast. Sambærilegir samningar hafi verið gerðir við önnur dótturfélög Milestone sem voru í sambærilegri stöðu. Samningurinn hafi verið undirritaður um sama leyti og samningar við önnur dótturfélög Milestone. Af hálfu stefnda hefur komið fram að ekki sé kunnugt um ástæður þess að samningurinn er ekki dagsettur en líklegast sé að um handvömm hafi verið að ræða. Gengi íslensku krónunnar hafi veikst á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. mars 2008.
Samningurinn hafi verið gerður upp í samræmi við efni hans. Stefndi segir ekki óeðlilegt að vaxtaákvæði hafi skort í samninginn. Byggir stefndi á því að slíkur munur, hefði verið um hann samið, hefði allt eins átt að vera stefnda í hag. Hér hafi verið um eðlilega ráðstöfun að ræða sem skýrðist af viðskiptalegum forsendum beggja samningsaðila. Stefndi segir sönnunarbyrði hvíla á stefnanda og hann hafi ekki axlað þá byrði með einhliða skýrslu endurskoðunarfyrirtækis. Af þessum sökum sé greiðsla vegna samningsins ekki riftanleg í skilningi riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga. Þannig hafi ekki verið um gjöf að ræða í skilningi 131. gr. laganna heldur þvert á móti eðlilega viðskiptaákvörðun.
Stefndi telur að riftun verði ekki byggð á 136. gr. gjaldþrotaskiptalaga enda sé þar ekki um sjálfstæða riftunarheimild að ræða. Ákvæði þessu verði því ekki beitt til riftunar á gerningi. Þar að auki hafi skilyrði 100. gr. laganna verið uppfyllt á fyrstu mánuðum ársins 2008. Með því að leggja til grundvallar grandsemi stefnda um ætlaða ógjaldfærni sé í raun verið að gera þá kröfu til hans að hann hafi átt að sjá fyrir hrun íslensks bankakerfis. Getur það ekki gengið upp.
Að mati stefnda verður riftun ekki heldur byggð á 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Greiðslan hafi verið innt af hendi með sama hætti og á sama tíma og samningur aðila gerði ráð fyrir. Slík greiðsla geti hvorki talist óvenjulegur greiðslueyrir né greidd fyrr en eðlilegt var. Þá hafi krafan ekki verið greidd með skuldajöfnuði heldur með skuldfærslu í bókhaldi Milestone. Geti skuldajöfnuður við slíkar aðstæður ekki talist óvenjulegur greiðslueyrir.
Stefndi hafnar því að 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga komi til álita í málinu. Ekkert hafi verið ótilhlýðilegt við gerð samningsins eða greiðslu á grundvelli hans. Auk þess hafi Milestone ekki verið ógjaldfært á þeim tíma og fráleitt sé að ætla að stefndi hafi verið grandsamur um það atriði.
c. Krafa um riftun afborgana leigusamnings
Stefndi ítrekar að gjalddagi gjaldmiðlaskiptasamningsins hafi verið 31. mars 2008. Hafi samningurinn verið gerður upp þann dag í samræmi við efni hans. Því sé ljóst að stefndi stóð í skuld við Milestone á tímabilinu 14. janúar til 17. mars 2008. Leigugreiðslur Milestone hafi verið stefnda til hagsbóta á því tímabili og því ekki greiðsla á skuld við stefnda, líkt og byggt er á í stefnu, heldur lánveiting Milestone til stefnda í gegnum viðskiptamannareikning stefnda. Hafi sú lánveiting numið afar smáum fjárhæðum í samhengi við stærð félaganna.
Með vísan til þessa telur stefndi grundvöll kröfugerðar í stefnu vera óljósan. Stefndi telur vafa leika á því hvort framsetning málsástæðna og kröfugerðar sé við þær aðstæður með slíkum hætti að samræmist 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þar sem ekki hafi verið um að ræða greiðslu á skuld geti riftun á henni ekki farið fram, hvort sem er á grundvelli 131., 134. eða 141. Skuldin sé enda þegar greidd með uppgjöri gjaldmiðlaskiptasamningsins 31. mars 2008.
Stefndi byggir einnig á því að jafnvel þótt talið yrði að um greiðslu á skuld hafi verið að ræða séu greiðslurnar ekki riftanlegar. Ekki hafi verið um gjöf að ræða í skilningi 131. gr. laganna enda enginn gjafatilgangur. Greiðsla hafi farið fram með peningum og því geti 134. gr. laganna ekki komið til álita. Þá hafi ekkert verið ótilhlýðilegt við hinar lágu lánveitingar sem greiddar hafi verið til baka örskömmu síðar. Þá hafi félagið ekki verið ógjaldfært á þeim tíma og grandsemi stefnda verði ekki lögð til grundvallar. Því komi 141. gr. laganna ekki til álita.
d. Riftun á endurgreiðslu láns
Um miðjan júlí 2008 hafi vaxtagreiðslur Milestone verið komnar á gjalddaga. Gjaldkeri Milestone hafi verið á meðal þeirra sem voru í sumarfríi á þessum tíma. Stefndi hafi bent Milestone á að gjaldkeri stefnda væri við störf og félagið ætti laust fé. Því hafi verið afráðið að einfaldast væri að stefndi lánaði Milestone skammtímalán til að standa við þessar greiðslur. Samið hafi verið um að lánið skyldi greiðast til baka að loknum sumarfríum. Lánið hafi verið að fullu greitt einum og hálfum mánuði eftir að það var veitt.
Stefndi byggir á því að endurgreiðslu lánsins verði ekki rift á grundvelli 2. mgr. 134 gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í fyrsta lagi hafi Milestone verið gjaldfært á þeim tíma sem lánið var endurgreitt. Í öðru lagi hafi lánið ekki verið greitt fyrr en eðlilegt var. Um hafi verið að ræða skammtímalán og umsamið að það skyldi endurgreiðast að loknu sumarfríi starfsmanna Milestone. Gjalddagi lánsins hafi því verið kominn við endurgreiðslu þess. Jafnvel þótt talið yrði að greiðslan hafi ekki verið talin venjuleg eftir atvikum yrði ráðstöfuninni ekki rift á grundvelli 2. mgr. 134. gr.
Þá byggir stefndi á því að 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi ekki við í málinu. Ekkert sé ótilhlýðilegt við endurgreiðslu skammtímaláns sem veitt var örskömmu fyrr af þeim sökum sem að framan er lýst. Stefndi áréttar að Milestone hafi á þessum tíma engar skuldbindingar vanefnt. Því hafi ekki verið farið með þessa skuld á annan hátt en aðrar skuldir Milestone á þessum tíma. Stefndi telur að með riftun á endurgreiðslunni væri ekki verið að endurheimta tjón búsins, sé miðað við málflutning stefnanda sem telur félagið hafa orðið ógjaldfært áður en lánveitingin fór fram. Þannig sé í raun stefnt að óeðlilegri auðgun þess á kostnað stefnda.
Stefndi mótmælir sérstaklega upphafsdegi dráttarvaxta sem ósönnuðum og órökstuddum, en riftun fari aðeins fram með dómi og verði greiðsluskylda stefnda, sé um hana að ræða, ekki virk fyrr en að honum gengnum.
Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins komu dómkvaddir matsmenn, þeir Eggert Þór Kristófersson og Gylfi Zoega, fyrir dóm og gáfu skýrslu. Auk þeirra gáfu eftirtalin vitni skýrslu fyrir dómi: Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Morgan Stanley, Bryndís Dagsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður reikningshalds hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Guðjón Ásmundsson, fyrrverandi starfsmaður Milestone ehf., Matthias Björk, fjármálastjóri Invik & Co. AB. Volati, Sigurður Freyr Jónatansson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, Guðni B. Guðnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Lyfjum og heilsu ehf., Magnea Rannveig Hansdóttir, fyrrverandi fjárreiðustjóri hjá Lyfjum og heilsu ehf., Sigríður Inga Guðmundsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Sjóvár-Almennra trygginga hf., Þóra Hallgrímsdóttir, fyrrverandi aðallögfræðingur nefnds tryggingafélags, Alexander K. Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis banka hf., Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Milestone ehf., Arnar Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Milestone ehf., Guðný Sigurðardóttir, fyrrverandi lánastjóri á fyrirtækjasviði Glitnis banka hf., Rúnar Guðmundsson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, Jóhannes Sigurðsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Milestone ehf., og Eggert Þorvarðarson, fyrrverandi bókari hjá Milestone ehf.
Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á tíu greiðslum Milestone ehf. sem runnu til stefnda á tímabilinu 1. janúar 2008 til 2. september sama ár, en hefur auk þess uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda að fjárhæð 95.083.470 kr. Bú Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009 og frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefnandi styður dómkröfur sínar við ákvæði 20. kafla laga nr. 21/1991, sem heimila riftun ráðstafana þrotamanns að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum, þ. á m. um ógjaldfærni.
Áður en tekið er til við að leysa úr öðrum atriðum málsins þykir rétt að huga nánar að hugtaksskilyrðum gjaldfærni í skilningi laga nr. 21/1991 með tilliti til þess hvort títtnefnt félag teljist hafa verið gjaldfært þegar hinar umþrættu ráðstafanir voru gerðar.
Skilyrði riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldfærni verða ekki skýrð án tillits til ákvæða 64. gr. sömu laga. Af því leiðir að skuldari verður ekki talinn gjaldfær ef svo er komið að kröfur lánardrottna hans falla í gjalddaga án þess að skuldari geti þá staðið í fullum skilum eða innan skamms tíma frá því. Í samræmi við þetta verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði riftunar meðan búið sem um ræðir telst hafa verið greiðslufært.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að félagið hafi verið orðið ógjaldfært haustið 2007, en því hefur stefndi hafnað. Þótt sönnunarbyrði um gjaldfærni hvíli að meginstefnu á stefnda færist sú byrði yfir á stefnanda sjálfan sanni stefndi að bú Milestone ehf. hafi verið greiðslufært þegar ráðstöfun var gerð. Stefndi staðhæfir að Milestone ehf. hafi verið gjaldfært fram til 7. október 2008 og byggir þá staðhæfingu m.a. á tilvísun til framlagðra gagna um fjárhagsstöðu félagsins.
Við úrlausn um þetta álitaefni vegur þungt framlögð matsgerð þeirra Eggerts Þórs Kristóferssonar og Gylfa Zoega, sem dagsett er 28. apríl 2014 (dskj. 168). Matsgerð þessi ber með sér að vera grundvölluð á ítarlegum gögnum um fjárhagsstöðu Milestone á tímabilinu 2007-2008. Í matsgerð er um gjaldfærni félagsins komist að þeirri niðurstöðu að markaðsvirði eigna Milestone ehf. hafi verið orðið minna en skuldir félagsins undir lok fyrsta ársfjórðungs eða í byrjun annars ársfjórðungs 2008. Hvað greiðslufærni viðvíkur töldu matsmenn sig geta ráðið af fyrirliggjandi gögnum að Milestone ehf. hafi átt „í erfiðleikum með að standa í skilum með skuldir sínar og dótturfélaga a.m.k. frá nóvember 2007“. Þar er nánar rakið hvernig „fjármögnun láns Morgan Stanley í lok árs 2007“ sýni hvernig Glitnir og félög tengd Milestone hafi gert Milestone kleift að standa í skilum „við ótengda aðila Fram kemur að þetta hafi m.a. verið gert með því að Glitnir hafi millifært 8,6 milljónir evra á reikning Milestone. Þá segir að á fyrstu mánuðum ársins 2008 hafi „enn [komið] í ljós takmarkað greiðsluhæfi Milestone samstæðunnar“. Í framhaldi af þessu segir á bls. 28 í matsgerð að ljóst sé „að Milestone ehf. hafði takmarkaða greiðslufærni í lok árs 2007 og á fyrri hluta 2008 án aðstoðar Glitnis banka og dótturfélaga sinna“. Síðar á sömu blaðsíðu segir orðrétt: „Greiðslufærni félagsins var undir lok árs 2007 orðin takmörkuð og í lok febrúar var félagið orðið ógreiðslufært án fyrirgreiðslu Glitnis banka og með aðstoð dótturfélaga Milestone.“ Að áliti matsmanna markaði fall Glitnis banka hf. endapunkt í þessum efnum. Vísa matsmenn í niðurstöðum sínum til þess að 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið sett skilanefnd yfir Glitni banka hf. og telja matsmenn ljóst að eftir það „gat Glitnir banki ekki veitt Milestone ehf. þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg var til að tryggja greiðslufærni Milestone“. Í þessu samhengi er í matsgerð vísað til tölvupósts Jóhannesar Sigurðssonar, þáverandi aðstoðarforstjóra Milestone, 28. október 2008, þar sem fram kom að Milestone „muni ekki geta staðið að fullu í skilum með kröfur á gjalddaga“. Ekki verður séð að tölvupóstur þessi hafi verið lagður fram sem sjálfstætt dómskjal undir rekstri málsins,en við skýrslugjöf undir aðalmeðferð málsins staðfesti Jóhannes Sigurðsson að við fall bankanna hafi hann metið það svo að Milestone ehf. gæti ekki staðið lengur í skilum. Þá hafi orðið verðfall á eignum og þar með hafi skuldir verið orðið meiri en eignir. Bætti Jóhannes því við að fram að þessum tíma hafi menn haldið í vonina um að úr rættist. Í skýrslum sínum hér fyrir dómi staðfestu matsmenn niðurstöður sínar, þ. á m. að eftir að skilanefnd var sett yfir Glitni banka 7. október 2008 hafi félagið ekki verið greiðslufært. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum matsgerðar, sem stefnandi hefur ekki hnekkt með yfirmati, þykir héraðsdómi ógerlegt að staðhæfa að ógreiðslufærni Milestone ehf. skuli miðast við fyrra tímamark en þetta. Hefur í því sambandi verið til þess litið að ársreikningur félagsins fyrir rekstrarárið 2007 bar vott um sterka eiginfjárstöðu á þeim tíma. Eigið fé Milestone ehf. um áramót 2007-2008 er þar tilgreint sem 84.132.000.000 króna. Við það heildarmat sem héraðsdómur stendur hér frammi fyrir verður ekki fram hjá því litið að ársreikningur þessi var staðfestur án fyrirvara af óháðum endurskoðendum undir merkjum KPMG ehf. Þá ber stefna málsins með sér að stefnanda sé ljóst að stefndi hafi í reynd náð að fjármagna sig fram til 7. október 2008 „með yfirdráttarlánum og lánum frá tengdum aðilum“, eins og það er orðað í stefnuskjali. Að teknu tilliti til þessa og að virtum ofangreindum niðurstöðum dómkvaddra matsmanna þykir verða að hafna kröfum stefnanda um riftun þeirra ráðstafana sem gerðar voru fyrir áðurnefnt tímamark, þ.e. 7. október 2008. Skýrsla endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young hf., sem aflað var af hálfu stefnanda í aðdraganda þess að dómsmál þetta var höfðað, fær ekki haggað framangreindu mati dómsins.
Með því að allar þær greiðslur sem dómkröfur stefnanda lúta að voru inntar af hendi fyrir ofangreint tímamark og þar með meðan Milestone ehf. taldist enn gjaldfært, er önnur niðurstaða ekki tæk í máli þessu en að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem með hliðsjón af umfangi málsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts þykir hæfilega ákveðinn 3.000.000 kr.
Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Lyf og heilsa ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Milestone ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 3.000.000 kr. í málskostnað.