Hæstiréttur íslands
Mál nr. 830/2016
Lykilorð
- Umboðssvik
- Fjármálafyrirtæki
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2016. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og hann dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að refsing verði látin niður falla.
I
Ákærða eru í máli þessu gefin að sök umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína, annars vegar sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins A og hins vegar sem stjórnarformaður B ehf., dótturfélags sparisjóðsins, og brotið með því gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
1
Sakargiftir í fyrsta kafla ákæru lúta að því að ákærði hafi stefnt fé Sparisjóðsins í A í verulega hættu þegar hann hafi farið út fyrir heimildir sínar með því að veita 16. júní 2008 C ehf. 100.000.000 króna lán í formi yfirdráttar á reikningi félagsins hjá sparisjóðnum án þess að afstaða lánanefndar hans lægi fyrir, áhættu- og greiðslumat færi fram eða endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti. Lánsfjárhæðinni hafi verið ráðstafað inn á annan reikning félagsins hjá sparisjóðnum og þaðan tveimur dögum síðar inn á reikning þess hjá D hf. sem hafi samdægurs fengið handveð í innstæðu þess reiknings fyrir öllum skuldum og skuldbindingum E ehf. við bankann.
Í héraðsdómi er ítarlega lýst málavöxtum, þar á meðal sögu E ehf., fjárfestinga félagsins og skuldbindinga, en það var stofnað 19. apríl 2007 af fimm félögum sem áttu það að jöfnu. Tilgangur félagsins var eignarhaldsstarfsemi, kaup og sala verðbréfa, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Mun félagið hafa meðal annars keypt stofnfjárhluti í Sparisjóðnum A og hluti í F hf., sem síðar hlaut heitið D hf. Á árinu 2007 gerðist Sparisjóðurinn A hluthafi í félaginu þegar hann eignaðist 13,9% hlut. Skuldir félagsins munu hafa vaxið mjög á árinu 2007, þar á meðal með láni frá D hf. að fjárhæð 4.100.000.000 krónur, en andvirði þess mun hafa verið ráðstafað til kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóðnum A og Sparisjóði G sem munu hafa verið sett að veði fyrir láninu. Á árinu 2008 krafðist D hf. ítrekað frekari trygginga vegna lána E ehf. sem munu hafa verið komin yfir leyfileg mörk stórra áhættuskuldbindinga. Þá er í héraðsdómi getið um gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamning milli E ehf. og D hf. 7. september 2007, þar sem kveðið var á um 171.340.672 krónu höfuðstólsgreiðslu E ehf. gegn afhendingu stofnfjárbréfa í Sparisjóðnum A, en lokadagur samningsins var 8. september 2008. Krafði bankinn félagið um frekari tryggingar vegna samningsins 4. apríl 2008.
Í héraðsdómi er rakinn framburður vitna og efni samtímagagna um fjárhagsstöðu E ehf. á árinu 2008 og vitneskju ákærða þar um, en á fundi stjórnar Sparisjóðsins A 12. febrúar það ár hafði verið samþykkt að heimila ákærða að selja allt hlutafé sparisjóðsins í félaginu „á bókfærðu virði.“ Ákærði, sem einnig var formaður stjórnar D hf., átti samkvæmt framlögðu endurriti af upptöku símtal 7. mars 2008 við framkvæmdastjóra fjármálasviðs Sparisjóðsins A þar sem hann lýsti þeirri skoðun að D hf. myndi ekki fá greiddar kröfur sínar á hendur E ehf., en sagði jafnframt að það væri „hægt að bara setja þetta inn í eitthvert félag í einhverja svona tólf eða átján mánuði meðan að svona hlutirnir eru að ná sér.“ Eins og greinir í héraðsdómi gengu tölvubréf milli fyrirsvarsmanna hluthafa í félaginu í mars 2008 um öflun ábyrgða frá eigendum þess til handa D hf. Þannig sendi fulltrúi eins af eigendum E ehf., er jafnframt sat í stjórn D hf., bréf til ákærða og fleiri fyrirsvarsmanna hluthafa í félaginu 7. mars 2008 þess efnis að stjórn bankans hafi fundað þá um daginn og tekið vel í hugmyndir um að hver hluthafanna gengist í ábyrgð gagnvart bankanum fyrir greiðslu á 100.000.000 krónum af skuldum félagsins, en unnið yrði „áfram að frágangi málsins“. Þó hafði einn hluthafanna lýst því þremur dögum áður að hann myndi ekki veita slíka ábyrgð og hygðist selja sinn hlut í félaginu, en gert var ráð fyrir því að aðrir hluthafar myndu kaupa hlut hans fyrir eina krónu og skipta með sér. Í lok mars 2008 lá fyrir að stjórnir tveggja annarra hluthafa í E ehf. hefðu ekki enn tekið afstöðu til málefnisins.
Í héraðsdómi er lýst aðdraganda að stofnun C ehf. 18. mars 2008 og aðkomu ákærða að gerð samnings 31. mars það ár um kaup félagsins á öllum hlutum Sparisjóðsins A í E ehf. að nafnverði 95.216.128 krónur. Í samningnum sagði meðal annars að kaupverð hinna seldu hluta væri 1.000.000 krónur og væri kaupanda „kunnugt um að seljandi hefur tekið á sig ábyrgð fyrir E ehf. að fjárhæð kr. 100.000.000 ... Verði sú ábyrgð seljanda virk og þurfi seljandi að ... leggja út fé vegna ábyrgðar sinnar skuldbindur kaupandi sig til að greiða seljanda þær greiðslur til baka sem nemur allt að kr. 10.000.000“. Fyrir liggur að C ehf. mun hvorki hafa haft á hendi starfsemi sem sneri að öðru en eignarhaldi að hlutunum í E ehf. né átt aðrar eignir, en hlutafé í fyrrnefnda félaginu var 1.000.000 krónur.
Formaður stjórnar E ehf. sendi eins og greinir í héraðsdómi tölvubréf til ákærða og fyrirsvarsmanna hluthafa í félaginu 4. og 8. apríl 2008 í kjölfar sölu Sparisjóðsins A á öllum hlutum sínum í félaginu og í tilefni af kalli D hf. eftir frekari tryggingum vegna framangreinds gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamnings. Í bréfum þessum kom meðal annars fram að alvarleg staða félagsins hefði verið rædd á fundi stjórnar þess, svo og að forráðamönnum D hf. hafi verið tjáð að „afar ólíklegt“ væri að samstaða yrði meðal hluthafa í E ehf. um að gangast í frekari ábyrgðir fyrir félagið. Í bréfi fulltrúa sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins A 8. apríl 2008 til stjórnarformanns E ehf. kom á hinn bóginn fram að hann hefði talið að samkomulag væri um „frágang á skuldbindingum félagsins við D og það hafi gengið út á að lagðar væru fram tilgreindar ábyrgðir og þar með væru þau mál ... komin í eðlilegan farveg.“
Hinn 8. apríl 2008 var gerð svofelld bókun á stjórnarfundi Sparisjóðsins A: „GK fór yfir aðkomu félagsins E ehf. að kaupum á D hf. og stofnfé í A. Félagið var stofnað til kaupa á hlut í X. Þau kaup gengu ekki eftir og þá fjárfesti félagið í öðru fyrir lánsfé. Í dag stendur félagið tæplega undir skuldum. Nauðsynlegt er að auka hlutafé eða gefa út ábyrgð eigenda. Það hefur ekki tekist. A átti hlut í E og hafði selt þann hlut en stjórn E hefur ekki samþykkt viðskiptin vegna ákvæða í lánasamningnum að þeirra sögn.“
Í málinu eru ekki skjalfest gögn um að Sparisjóðurinn A hafi gengist í ábyrgð við D hf. fyrir skuldum E ehf. að fjárhæð allt að 100.000.000 krónur önnur en fyrrgreind ummæli sem að því lutu í kaupsamningi sparisjóðsins við C ehf. frá 31. mars 2008. Fyrir liggur að 16. júní sama ár var C ehf. veitt 100.000.000 króna lán í formi yfirdráttar hjá Sparisjóðnum A og var þeirri fjárhæð sama dag ráðstafað inn á annan reikning félagsins þar og tveimur dögum síðar af þeim reikningi inn á reikning þess hjá D hf. sem fékk handveð í innstæðu síðastnefnda reikningsins, að virðist 10. júní 2008. Áðurnefndur fulltrúi sparisjóðsstjóra mun hafa framkvæmt millifærsluna inn á reikning C ehf. í D ehf. og bar hann fyrir dómi að líklegast hafi hann gert það að beiðni ákærða. Fyrrnefndur gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamningur E ehf. við D hf. var síðan gjaldfelldur 2. júlí 2008. Hinn 22. september sama ár tók D hf. sér greiðslu af reikningi C ehf. sem nam allri innstæðu hans til lúkningar á hluta skuldar E ehf. við bankann. Bú E ehf. mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 4. mars 2009.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi setti Fjármálaeftirlitið 22. apríl 2010 bráðabirgðastjórn yfir Sparisjóðinn A og var hann í framhaldi af því tekinn til slita 23. júlí sama ár eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Bú sparisjóðsins var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 1. nóvember 2010 og lauk þeim 2. september 2013. Fjármálaeftirlitið ráðstafaði einnig 22. apríl 2010 tilteknum eignum og skuldbindingum Sparisjóðsins A til H sparisjóðs sem var síðan sameinaður Landsbankanum hf., sem þá hét NBI hf., á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011. Krafa Sparisjóðsins A á hendur C ehf. vegna fyrrnefnds yfirdráttarláns færðist þannig til Landsbankans hf., en hana fékk bankinn ekki greidda og var bú C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 16. apríl 2015.
2
Héraðsdómur sýknaði ákærða af sakargiftum í fyrri kafla ákæru. Sem rök fyrir þeirri niðurstöðu vísaði dómurinn til framburðar fyrirsvarsmanns C ehf. um að ætlunin hafi verið að standa skil á ábyrgðarfjárhæð þeirri sem greindi í kaupsamningnum 31. mars 2008 og nota til þess fé sem til ráðstöfunar var á reikningi C ehf. hjá Sparisjóðnum A í júní 2008 vegna fyrrnefnds yfirdráttarláns. Aldrei hafi staðið til að félagið yrði endurkrafið um það lán ef undan væri skilinn hlutur þess í ábyrgðinni samkvæmt kaupsamningnum.Vísaði dómurinn jafnframt til skýringa er fyrirsvarsmaðurinn gaf á tilurð yfirdráttarheimildarinnar í greinargerð til héraðsdóms 6. maí 2012 í tilefni af kröfu um gjaldþrotaskipti á búi C ehf., en þar greindi hann meðal annars frá því að ákærði hafi tjáð sér að hann myndi greiða út fjárhæð ábyrgðar Sparisjóðsins A á skuldum E ehf. við D hf. með „heimild hjá félaginu C ehf. þangað til hann hefði fundið þessu fjármagni farveg.“ Hafi fyrirsvarsmaðurinn þá strax gert ákærða grein fyrir því „að ef hann ætlaði að gera þetta svona þá yrði það að vera alveg á hreinu að hann myndi klára það fyrir árslok“ og hafi fyrirsvarsmanninum verið tjáð að það yrði gert og þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. Á þessum grunni komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um eiginlega lánveitingu að ræða er yfirdráttarheimildin var stofnuð, heldur hafi sú ráðstöfun verið liður í efndum Sparisjóðsins A á tilteknum skuldbindingum sínum gagnvart E ehf. annars vegar og C ehf. hins vegar. Hafi hvorki saksókn né sönnunarfærslu verið markaður farvegur til samræmis við það. Miðað við þessi atvik hafi ekkert kallað á það í tengslum við yfirdráttarheimildina að leitað yrði eftir afstöðu lánanefndar, áhættu- eða greiðslumat færi fram eða trygginga yrði aflað svo sem byggt væri á í ákæru. Væri jafnframt gegn eindreginni neitun ákærða óvarlegt að telja sannað að hann hafi komið því til leiðar eða stuðlað að því með öðrum hætti að D hf. hafi verið veitt handveð í innstæðu á reikningi C ehf. hjá bankanum til tryggingar skuldum og skuldbindingum E ehf., en án veðsetningarinnar hefði bankinn ekki getað leitað fullnustu í innstæðunni.
3
Fallist er á með héraðsdómi að við sölu Sparisjóðsins A á hlutum sínum í E ehf. 31. mars 2008 hafi engin niðurstaða legið fyrir um hvort aðrir hluthafar í því félagi myndu allir gangast undir ábyrgðarskuldbindingar við D hf. sem til umræðu voru í þeirra röðum, en allt hafi á hinn bóginn bent til að tilraunir til þess væru að fara út um þúfur. Af gögnum málsins verður raunar ekki annað séð en að ákærða hafi verið fullkunnugt sem sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins A, fyrirsvarsmanni þess hluthafa í E ehf. og formanni stjórnar D hf. um að sumir hluthafanna í E ehf. hefðu þegar á þessum tíma hafnað að veita slíka ábyrgð til tryggingar kröfum bankans. Jafnframt verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi mælt fyrir um veitingu yfirdráttarheimildarinnar til C ehf. sem um ræðir í ákæru.
Í hinum áfrýjaða dómi var sem áður segir byggt á áðurnefndum framburði fyrirsvarsmanns C ehf. um að félaginu hafi verið veitt yfirdráttarlánið að fjárhæð 100.000.000 krónur til að unnt yrði að standa D hf. skil á fé til efnda á ábyrgð Sparisjóðsins A vegna skulda E ehf. og hafi aldrei staðið til að C ehf. endurgreiddi þá fjárhæð nema með 10.000.000 krónum í samræmi við ákvæði kaupsamningsins frá 31. mars 2008. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar fyrirsvarsmannsins ekki endurmetið fyrir Hæstarétti og verður þetta því lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Sparisjóðurinn A hafi nokkru sinni gengist fyrir sitt leyti undir ábyrgðarskuldbindingu við D hf. fyrir 100.000.000 krónum. Af gögnum málsins um ráðagerðir um slíka ábyrgð verður heldur ekki annað ráðið en að sparisjóðnum hafi ekki verið ætlað að veita hana nema aðrir hluthafar í E ehf. myndu jafnframt gangast undir sams konar ábyrgð fyrir sitt leyti og að samningar þar um tækjust við D hf. Hvorugt þetta gerðist. Er einnig til þess að líta að fyrir lá að alvarlegir fjárhagserfiðleikar steðjuðu að E ehf. á þeim tíma er stjórn Sparisjóðsins A veitti ákærða áðurnefnda heimild á fundi sínum 12. febrúar 2008 til að selja allt hlutafé sjóðsins í félaginu á bókfærðu verði sem hann svo raunar hvergi nærri gerði við ráðstöfun hlutafjárins í kaupsamningnum við C ehf. 31. mars sama ár. Verður með engum hætti séð að ákærða hafi ekki verið allt þetta ljóst. Án tillits til þess hvort honum hefði vegna starfs síns sem sparisjóðsstjóri verið formlega heimilt að taka upp á sitt eindæmi ákvörðun um að Sparisjóðurinn A veitti lán að fjárhæð 100.000.000 krónur verður að gæta að því að samkvæmt framansögðu var þessi ráðstöfun ákærða klædd gagnvart sparisjóðnum í búning lánveitingar til að fram gæti farið greiðsla sem hann bar enga skyldu til að inna af hendi. Enginn samningur var gerður um endurgreiðslu fjárhæðarinnar eða tryggingu fyrir henni og bersýnileg hætta var á að lántakinn hefði enga burði til að standa skil á henni. Fór einnig svo að fjárhæðin glataðist sparisjóðnum að frátalinni endurgreiðslu C ehf. á 10.000.000 krónum eftir ákvæði kaupsamningsins frá 31. mars 2008. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið fellur þessi háttsemi ákærða innan lýsingar í fyrri kafla ákæru með þeim hætti að hann verður sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga, enda leiddi háttsemi hans til stórfelldrar fjártjónshættu fyrir Sparisjóðinn A.
II
1
Samkvæmt ákæru voru atvik að baki sakargiftum í seinni kafla hennar þau að í mars 2008 voru stofnfjárbréf í Sparisjóðnum A að verðmæti 683.368.783 krónur framseld frá dótturfélagi hans, B ehf., til I ehf. án endurgjalds. Hvorki var gerður lánssamningur né veitt trygging fyrir greiðslu kröfu af þessu tilefni, en stofnfjárbréfin munu hafi verið skráð á I ehf. hjá Verðbréfaskráningu Íslands 7. mars 2008. Er ákærða gefið að sök að hafa sem stjórnarformaður B ehf. misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu með því að framselja á þennan hátt bréfin fyrir hönd þess, en við framsalið hafi B ehf. eignast kröfu á I ehf. sem fært hafi á móti skuld í bókhaldi sínu. Í árslok 2009 hafi eftirstöðvar kröfunnar, samtals 633.268.783 krónur, verið færðar í gegnum viðskiptareikning tengdra aðila frá B ehf. yfir í sparisjóðinn sem krafa og þar flokkuð meðal útlána. Lánveitingin hafi síðan verið að fullu afskrifuð í bókhaldi sparisjóðsins 31. mars 2010.
Eftir gögnum málsins eignaðist B ehf. síðari hluta árs 2007, aðallega með kaupum en að nokkru með framsali frá Sparisjóðnum A, stofnfjárbréf í Sparisjóði J annars vegar og Sparisjóði K hins vegar að andvirði samtals 683.368.783 krónur. Stofnfjáreigendur í þessum sparisjóðum samþykktu ásamt stofnfjáreigendum í Sparisjóðnum A samruna sparisjóðanna þriggja í desember 2007. Hinn 22. febrúar 2008 veitti Fjármálaeftirlitið samþykki fyrir samrunanum á grundvelli 106. gr. laga nr. 161/2002 og tók hann gildi frá og með þeim degi, en frá 1. júlí 2007 taldist Sparisjóðurinn A hafa tekið við öllum réttindum og skyldum hinna sparisjóðanna tveggja. Sparisjóðirnir voru sameinaðir undir nafni Sparisjóðsins A, en með því urðu stofnfjárbréfin sem B ehf. hafði eignast samkvæmt áðursögðu að stofnfjárbréfum í síðastnefnda sparisjóðnum. Bréf þessi voru eftir gögnum málsins enn í eigu I ehf. þegar þau urðu verðlaus í kjölfar áðurnefndrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010.
B ehf. var eftir gögnum málsins stofnað 16. desember 1993 en allir hlutir í félaginu komust í eigu Sparisjóðsins A 20. desember 2005 og varð ákærði þar stjórnarformaður. Samkvæmt samþykktum félagsins var tilgangur þess að eiga og reka fasteignir, skip og bifreiðir, kaupa og selja hlutabréf og verðbréf og taka þátt í öðrum félögum. Mun sparisjóðurinn hafa hagað starfsemi félagsins í samræmi við þetta.
I ehf. mun hafa verið stofnað á árinu 1994 undir heitinu L ehf. og upphaflega tilheyrt M, en með samningi 5. mars 2008 voru allir hlutir í félaginu, að nafnverði 500.000 krónur, framseldir til Deloitte hf. Félaginu munu þá hvorki hafa tilheyrt eignir né það borið skuldir. Síðastgreindan dag gerði Deloitte hf., sem veitti Sparisjóðnum A þjónustu við endurskoðun, nýjar samþykktir fyrir félagið og breytti jafnframt heiti þess í I ehf. Samkvæmt samþykktunum var tilgangur félagsins kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, kaup, sala og rekstur fasteigna og lausafjár ásamt lánastarfsemi tengdri rekstrinum og öðrum skyldum rekstri. Deloitte hf. gerði síðan 7. mars 2008 samning við N, [...], um framsal til hans á öllum hlutum í félaginu. Í tengslum við þann samning hélt N hluthafafund í félaginu sama dag og var hann þar einn kjörinn í stjórn ásamt því að honum var veitt prókúruumboð, en varamaður hans í stjórninni var kjörinn O, sem þá mun hafa verið starfsmaður Deloitte hf. Ráðstafanir þessar voru allar tilkynntar til fyrirtækjaskrár. Stjórn félagsins hélst óbreytt þar til N tilkynnti fyrirtækjaskrá 14. júní 2010 að hann hefði sagt sig úr henni og gerði síðan O það sama fyrir sitt leyti 8. mars 2011. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að félagið hafi á þessu tímabili eignast annað en stofnfjárbréfin sem um ræðir í ákæru auk fjármagnstekna vegna þeirra eða stofnað til skuldbindinga sem vörðuðu annað en eignarhald að bréfunum og kostnað af rekstri félagsins.
2
Í hinum áfrýjaða dómi var talið sannað að ákærði hafi verið með í ráðum þegar tekin var ákvörðun um að færa stofnfjárbréfin með endurgjaldslausu framsali frá B ehf. til I ehf. Þá var það niðurstaða dómsins að þegar umrædd stofnfjárbréf voru ekki lengur í óbeinni eigu Sparisjóðsins A gegnum dótturfélagið B ehf. hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að þeim yrði ráðstafað án aðkomu sparisjóðsins og án þess að fyrir hendi væri trygging fyrir því að skuld I ehf. við B ehf., sem þá var sögð nema 683.368.783 krónum, yrði greidd. Ekki eru efni til annars en að staðfesta þessar niðurstöður hins áfrýjaða dóms. Til þess verður jafnframt að líta að eftir gögnum málsins voru ekki gerðir samningar um kröfuréttindi B ehf. á hendur I ehf., greiðslu síðarnefnda félagsins fyrir framsal stofnfjárbréfanna, tryggingarréttindi fyrrnefnda félagsins fyrir greiðslu, forræði þess á bréfunum eða afskipti af ráðstöfun þeirra eftir framsalið. Þá liggur ekkert fyrir um að B ehf. hafi á grundvelli löggernings haft forræði á málefnum I ehf.
Á hinn bóginn verður að gæta að því, svo sem í héraðsdómi greinir, að ráða má af gögnum málsins að umsýsla af ýmsu tagi sem snerti I ehf. hafi verið í höndum starfsmanna Sparisjóðsins A þótt félagið hafi ekki verið í eigu hans og hafi hann greitt kostnað fyrir félagið. Starfsmenn sparisjóðsins hafi þannig annast samskipti við endurskoðendur í tengslum við reikninga þess og skil á þeim til yfirvalda, en stjórnarmaðurinn í félaginu og eigandi þess hafi lítt annað gert en að koma gögnum sem honum hafi borist og vörðuðu félagið í hendur starfsmanna sparisjóðsins til afgreiðslu. Þá mun arður af stofnfjárbréfunum, sem ákveðið var að greiða 12. mars 2008 og nam 44.750.000 krónum, hafa, ásamt endurgreiðslu á fjármagnstekjuskatti 26. júní sama ár að fjárhæð 5.350.000 krónur, runnið til B ehf. til lækkunar á skuld I ehf. Að auki hefur sú skýring komið fram í gögnum málsins á ástæðum fyrir framsali B ehf. á stofnfjárbréfunum til I ehf. að grípa hafi þurft til ráðstöfunar sem þessarar til að formlegt eignarhald á þeim yrði ekki lengur á hendi Sparisjóðsins A eða óbeint gegnum dótturfélag hans, enda hefðu bréfin að öðrum kosti glatað verðgildi sínu í samstæðureikningsskilum fyrir sparisjóðinn. Ákærði hefur jafnframt vísað til þess í málsvörn sinni að staða sparisjóðsins hafi ekki verið sett í tvísýnu með þessu framsali því ógerlegt hefði verið án samþykkis stjórnar hans að framselja stofnfjárbréfin frá I ehf.
Það sem hér hefur verið greint getur engu breytt um þau grundvallaratriði að stofnfjárbréfin voru framseld frá B ehf. til I ehf. og færð í verðbréfaskráningu sem eign síðarnefnda félagsins án þess að nokkuð hafi verið að gert til tryggja fyrrnefnda félaginu ráð yfir bréfunum eða tilkall til verðmætis þeirra. I ehf. tilheyrði hvorki B ehf. né Sparisjóðnum A, heldur N sem fór að lögum einn með öll ráð yfir málefnum félagsins. Þótt félagið hefði ekki getað framselt stofnfjárbréfin án samþykkis stjórnar Sparisjóðsins A gat sparisjóðurinn ekki vegna framangreindra aðstæðna einna skipt sér að öðru leyti af afdrifum bréfanna eða málefnum félagsins. Meðal annars hefði hann þannig ekki getað fengið rönd við reist ef N hefði sem eigandi félagsins kosið að framselja alla hluti í því til annarra, hann hefði skuldsett félagið við aðra, lánardrottinn I ehf. hefði leitað fullnustu kröfu með fjárnámi í þessari eign félagsins eða lánardrottinn N hefði leitað fullnustu kröfu á hendur honum með fjárnámi í hlutum hans í félaginu.
Að virtu öllu framangreindu fól framsal stofnfjárbréfanna frá B ehf. til I ehf. í sér verulega fjártjónshættu fyrir fyrrnefnda félagið af völdum ákærða. Hann hefur því gerst sekur um þá háttsemi sem um ræðir í síðari kafla ákæru og réttilega er þar færð til refsiákvæðis.
III
Ákærði er fæddur 1944 og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þá er nokkuð liðið síðan hann framdi brot sín. Að því virtu og að teknu tilliti heilsufars ákærða verður refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði eins og hann var þar ákveðinn. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Geirmundur Kristinsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan sakarkostnað eins og hann var ákveðinn í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 3.107.891 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 3.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 7. f.m., var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 29. febrúar 2016, á hendur Geirmundi Kristinssyni, kt. [...], Baldursgarði 6 í Reykjanesbæ.
Ákæra málsins er í tveimur köflum og taka þeir báðir til þess að ákærði hafi gerst sekur um umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í fyrri kafla ákæru er hann sóttur til saka fyrir slíkt brot „með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs A, kt. [...] og stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu, þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga með því að veita einkahlutafélaginu C, kt. [...], þann 16. júní 2008, 100.000.000 króna lán í formi yfirdráttar á reikningi félagsins hjá sparisjóðnum nr. [..], án þess að afstaða lánanefndar sparisjóðsins lægi fyrir, án þess að áhættu- og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti. Sama dag var lánsfjárhæðinni ráðstafað inn á annan reikning félagsins nr. [...] hjá sparisjóðnum. Þann 18. júní 2008 var fjárhæðinni ráðstafað inn á reikning C ehf. nr. 1100-15-550181, hjá D hf. Sama dag tók D hf. handveð í fyrrgreindum reikningi félagsins hjá bankanum, ásamt allri innistæðu reikningsins eins og hún var á hverjum tíma, fyrir öllum skuldum og skuldbindingum E ehf., kt. [...], gagnvart D hf. Þann 22. september 2008 tilkynnti D hf. um ráðstöfun handveðsettra fjármuna. Var gengið að allri innistæðu reiknings C ehf. hjá bankanum til greiðslu á skuld E ehf. við D hf. Yfirdráttarlánið var upphaflega veitt til eins mánaðar og var á gjalddaga 16. júlí 2008. Þann 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins, vék stjórn sjóðsins frá og skipaði í framhaldinu skilanefnd yfir sparisjóðnum. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fól einnig í sér að allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins voru færðar í nýtt félag, H sparisjóð, sem var í eigu Bankasýslu ríkisins. Með ákvörðun 5. mars 2011 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar H sparisjóðs. Ákvörðunin fól í sér að NBI hf. tæki í einu lagi við rekstri, eignum og skuldbindingum á H sparisjóðnum. Um var að ræða samruna án skuldaskila. H sparisjóðurinn var því sameinaður NBI hf. með yfirtöku eigna og skulda. NBI hf., nú Landsbankinn hf., afskrifaði kröfuna í júlí 2015 vegna gjaldþrots C ehf. Ekkert fékkst greitt upp í kröfur bankans í kjölfar gjaldþrotsins og er krafan því Landsbankanum að fullu glötuð.“
Í seinni kafla ákæru eru ákærða gefin að sök umboðssvik „með því að hafa misnotað aðstöðu sína, sem stjórnarformaður dótturfélags sparisjóðsins, einkahlutafélagsins B, kt. [...], og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu, þegar hann framseldi fyrir hönd einkahlutafélagsins stofnfjárbréf í Sparisjóði A, að verðmæti 683.368.783 króna, frá B ehf. til einkahlutafélagsins I, kt. [...], í lok árs 2007, án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir stofnfjárbréfin. Við framsalið eignaðist B ehf. kröfu á I ehf. sem færði á móti skuld í bókhaldi sínu. Enginn lánasamningur var gerður og ekki gengið frá neinni tryggingu fyrir því að krafan yrði greidd. Samkvæmt skráningu hjá Verðbréfaskráningu Íslands voru stofnfjárbréfin skráð á I ehf. þann 7. mars 2008. Sama dag og umrædd stofnfjárbréf voru skráð á I ehf. var félagið framselt frá Deloitte til [...], N. Í árslok 2009 voru eftirstöðvar kröfunnar, samtals 633.268.783 krónur, færðar í gegnum viðskiptareikning tengdra aðila frá B ehf. yfir í sparisjóðinn sem krafa og þar flokkuð á meðal útlána. Lánveitingin var að fullu afskrifuð í bókhaldi sparisjóðsins þann 31. mars 2010.“
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.
I
Ákærði var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs A frá því í byrjun árs 1991 og fram á mitt ár 2009. Fyrir liggur að 10. mars 2009 sótti sparisjóðurinn um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, en um það leyti var eiginfjárstaða hans undir lögbundnum mörkum og um nokkurra mánaða skeið hafði lausafjárstaða hans verið erfið. Er meðal málsgagna fundargerð stjórnarfundar í sjóðnum 8. apríl 2008 þar sem bókað var eftir ákærða að ef ekki færi að rætast úr erlendum lánamörkuðum væru verulegar blikur á lofti varðandi lausafjárstöðu en von væri til þess að aðgerðir ríkisins skiluðu einhverju. Vegna stöðu sparisjóðsins skipaði Fjármálaeftirlitið sérfræðing 4. júní 2009 til að hafa sértækt eftirlit með honum. Á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á fyrrgreindum lögum, tók Fjármálaeftirlitið 22. apríl 2010 yfir vald stofnfjáreigendafundar sparisjóðsins, vék stjórn hans frá og skipaði honum bráðabirgðastjórn. Jafnframt tók eftirlitið ákvörðun um ráðstöfun tilgreindra eigna sparisjóðsins og skuldbindinga hans vegna innlána og tiltekinna ábyrgða til nýs sjóðs, H sparisjóðs. Störfum bráðbirgðastjórnar Sparisjóðsins A lauk 23. júlí 2010 með því að hann var tekinn til slita og honum skipuð slitastjórn samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002. Bú hans var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 1. nóvember 2010 sem lauk 2. september 2013 án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur. Loks er þess að geta að 7. mars 2011 tók NBI hf., nú Landsbankinn hf., við rekstri, eignum og skuldbindingum H sparisjóðs á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins eins og rakið er í ákæru.
Upphaf rannsóknar lögreglu á sakargiftum samkvæmt fyrri kafla ákæru má rekja til bréfs sem tveir starfsmenn Landsbankans hf. rituðu embætti sérstaks saksóknara 8. desember 2011. Í því kemur fram að við endurskipulagningu á félögum tengdum einum af viðskiptamönnum H ehf. hafi vaknað grunur um að lánveitingar og viðskipti sparisjóðsins við einkahlutafélagið C kynnu að varða við ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga og lög og reglur sem giltu um starfsemi fjármálafyrirtækja. Bréfinu fylgdi minnisblað þar sem gerð var frekari grein fyrir málsatvikum. Á grundvelli rannsóknar sem ráðist var í að þessu erindi framkomnu er það mat ákæruvalds að ákærði hafi veitt C ehf. lán að fjárhæð 100.000.000 króna án þess að áhættu- og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og að hann hafi með því og í ljósi annarra atvika sem lýst er í ákæru gerst sekur um umboðssvik.
Að því er seinni kafla ákærunnar varðar liggur það fyrir að 27. júlí 2011 sendi slitastjórn Sparisjóðsins A embætti sérstaks saksóknara skýrslu, sem unnin hafði verið fyrir Fjármálaeftirlitið af PricewaterhouseCoopers ehf. og laut að starfsháttum sparisjóðsins. Í kjölfar athugunar á efni skýrslunnar ákvað embættið að rannsaka frekar lánveitingar til N, [...], og skuldauppgjör gagnvart honum. Beindist rannsóknin meðal annars að einkahlutafélaginu I sem samkvæmt hlutafélagaskrá var um tíma í eigu N. Meðal gagna málsins er umfjöllun um félagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Í henni segir svo: „I ehf. er félag sem nýtt var til þess að halda utan um stofnfjárbréf í Sparisjóðnum A. Deloitte hf. framseldi alla hluti félagsins til N með framsalssamningi undirrituðum af starfsmönnum Deloitte og N 7. mars 2008. Hann var einnig í stjórn félagsins. Þá voru stofnfjárbréf í Sparisjóðnum A fyrir samtals 683 milljónir króna að gangverði flutt frá B ehf., dótturfélagi sparisjóðsins, til I ehf. Þetta var gert með viðskiptafærslu þannig að B ehf. átti kröfu á I ehf. sem færði skuld á móti bréfunum. Aðeins fimm dögum síðar, 12. mars 2008, var samþykkt á aðalfundi sparisjóðsins að greiða 20% arð af stofnfé. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni upplýsti P, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte og endurskoðandi Sparisjóðsins A, að Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri hefði við gerð ársreiknings sparisjóðsins fyrir árið 2007 óskað eftir því við sig að fá keypt félag hjá Deloitte sem myndi taka við stofnfjárbréfum í eigu sjóðsins. Úr varð að félagið I ehf. var nýtt til þess. B ehf., dótturfélag Sparisjóðsins A, hafði átt stofnfjárbréf í Sparisjóði J og Sparisjóði K. Þessir tveir sparisjóðir sameinuðust Sparisjóðnum A á árinu 2007 og urðu stofnfjárbréf B ehf. í þessum sjóðum því að stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum A. Endurskoðandinn kvaðst ekki vita hvers vegna óskað var eftir að bréfin yrðu flutt úr samstæðu sjóðsins inn í I ehf. Sparisjóðsstjóri sagðist kannast við félagið I ehf. í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni en taldi sig ekki vita að það hefði tengst B ehf. á nokkurn hátt. ... Samkvæmt kerfum sparisjóðsins voru stofnfjárbréf að verðmæti 683 milljónir króna færð yfir til I ehf. með rafrænum hætti 7. mars 2008 án þess að fyrir lægi lánasamningur um þá fjárhæð eða veðsamningur þar sem bréfin eða félagið væru veðsett B ehf. þar til skuldin hefði verið greidd. N staðfesti í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að aldrei hefði verið gerður lánasamningur við I um skuldina né veðsamningur um hin yfirfærðu stofnfjárbréf. I ehf. hefði því getað selt bréfin áfram til þriðja aðila án þess að B ehf. eða Sparisjóðurinn A hefðu getað varið sína hagsmuni. ... Í minnispunktum fyrrverandi forstöðumanns fjármálasviðs Sparisjóðsins A til lögmanns vegna fréttaumfjöllunar um I ehf. í febrúar 2011 kom fram að einkahlutafélagið hafi verið nýtt til að vista stofnfjárbréf í Sparisjóði J og Sparisjóði K sem voru í eigu Sparisjóðsins A. „Ólíkt því sem gerist í samruna hlutafélaga er sá kostur ekki mögulegur fyrir sparisjóð að eiga eigin bréf eftir samruna. Í eigu Sparisjóðsins A voru hlutir í hinum sjóðunum tveimur sem hefðu eyðst við samrunann.“ ... Arðstekjur I ehf. á árinu 2008, þ.e. arðgreiðslur vegna ársins 2007, voru 48,5 milljónir króna. Samkvæmt minnispunktunum gekk arðurinn að fullu til niðurgreiðslu á viðskiptaskuld félagsins við B ehf.“ Við þetta má bæta að samkvæmt gögnum málsins var einnig ráðstafað inn á viðskiptaskuldina endurgreiddum fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 5.350.000 krónur. Er það mat ákæruvalds að rannsókn lögreglu sem stofnað var til á grundvelli framangreindra skýrslna hafi leitt það í ljós að ákærði hafi sem stjórnarformaður B ehf. átt aðild að framsali stofnfjárbréfa félagsins í Sparisjóði A til einkahlutafélagsins I án þess að endurgjald kæmi fyrir þau og að öðru leyti með þeim hætti sem lýst er í seinni kafla ákæru þannig að varði við ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga.
Teknar voru tvær skýrslur af ákærða við rannsókn málsins. Við þingfestingu þess neitaði hann alfarið sök. Við aðalmeðferð skýrði hann svo frá að hann hefði falið undirmönnum sínum „að framkvæma þau mál sem að hér um ræðir“. Það hefðu þeir gert án aðkomu hans, enda ekki í hans verkahring að leiða þessi mál til lykta. Hann hafi þó undirritað samning um kaup C ehf. á hlut Sparisjóðsins A í E ehf. en ekki komið að gerð hans og tók í því sambandi fram að Q, starfsmaður sparisjóðsins, hafi lagt samninginn fullbúinn fyrir hann til undirritunar. Að þessu sögðu lýsti ákærði því yfir að hann hygðist notfæra sér rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að neita að svara spurningum varðandi þá refsiverðu háttsemi sem honum er gefin að sök. Hann hefði þegar svarað öllum spurningum um sakargiftir við skýrslugjöf hjá lögreglu og vísaði til þess sem þar kæmi fram.
Kröfu sína um sýknu af sakargiftum samkvæmt fyrri kafla ákæru byggir ákærði á því að hann hafi ekki komið að ákvörðun um lánveitingu í formi yfirdráttar til C ehf. Verði ekki á það fallist er á því byggt að hann hafi ekki misnotað aðstöðu sína gagnvart Sparisjóði A með einhliða og ólögmætri ráðstöfun, en í því felist að hann hafi engar reglur brotið með lánveitingunni, hvorki skráðar né óskráðar. Loks séu saknæmisskilyrði ekki uppfyllt. Sýknukrafa að því er tekur til sakargifta samkvæmt seinni kafla ákæru er í fyrsta lagi reist á því að ákæra sé röng í veigamiklum atriðum. Í öðru lagi heldur ákærði því fram að ósannað sé að hann hafi komið að ákvörðun um framsal á eignarhluta B ehf. í Sparisjóðnum A til I í lok árs 2007. Í þriðja lagi er á því byggt að ákærði hafi ekki misnotað aðstöðu sína sem stjórnarformaður B ehf. með einhliða og ólögmætri ráðstöfun. Í fjórða lagi séu saknæmisskilyrði ekki uppfyllt.
II
1.
Að því er varðar málsatvik sem tengjast fyrri kafla ákæru er þess fyrst að geta að einkahlutafélagið E var stofnað í ársbyrjun 2007 og skiptist eignarhald að því í fimm jafna hluti í eigu R ehf., S hf., T svf., U ehf. og V hf. Stjórnarformaður var W. Hlutafé félagsins var 10.000.000 króna. Í upphafi mun hafa staðið til að félagið keypti hlut í X. Af því varð ekki en í staðinn voru keyptir hlutir í Sparisjóði A, D, sem síðar varð F, og Y. Í kjölfarið breyttist eignarhald að félaginu þannig að Sparisjóðurinn A kom inn í hluthafahópinn. Samkvæmt gögnum málsins hækkuðu skuldir félagsins og tengdra félaga um 5,6 milljarða króna á tímabilinu janúar 2007 til október 2008. Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 4,7 milljörðum króna á tímabilinu, en þar af nam lán frá F 4,1 milljarði króna. Mun andvirði þessara lána hafa verið ráðstafað til kaupa á hlutum í Sparisjóði A og Z. Í umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna segir nánar um þetta: „Tryggingar fyrir framangreindum fyrirgreiðslum voru veð í bréfum F, Z og H. E og tengd félög voru vensluð F vegna eignarhlutar Sparisjóðsins A í E ehf. og tengdum félögum. AA var lengst af framkvæmdastjóri E og sat jafnframt í stjórn F. Geirmundur Kristinsson var sparisjóðsstjóri í Sparisjóðnum A ásamt því að vera stjórnarformaður bankaráðs F. E og tengd félög voru einn af stærri lántakendum F. E ehf., BB ehf. og CC ehf. fengu upphaflega fyrirgreiðslu frá F í formi framvirks samnings vegna kaupa á stofnbréfum Sparisjóðs A. Tryggingarnar fyrir framangreindum fyrirgreiðslum voru veð í keyptum hlutum. ... Á árinu 2008 þurfti F ítrekað að óska eftir ábyrgðum frá öðrum sparisjóðum vegna lána E og tengdra aðila þar sem lán þeirra voru komin yfir leyfileg mörk stórra áhættuskuldbindinga.“
Fyrir framvindu þessa máls hefur sérstaka þýðingu gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamningur sem gerður var á milli E ehf. og D hf. 7. september 2007 að höfuðstól 171.340.672 krónur. Liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að með bréfi 4. apríl 2008 var þess krafist af hálfu D að lagðar yrðu fram frekari tryggingar „þannig að tryggingaþörf samningsins verði uppfyllt að fullu“. Samningaviðræður um þetta skiluðu ekki árangri, svo sem rakið verður nánar hér á eftir, og var skiptasamningurinn því gjaldfelldur með bréfi bankans til E ehf. 2. júlí 2008.
2.
Einkahlutafélagið C var stofnað í mars 2008 af DD sem þá var skráður framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Hlutafé var 1.000.000 króna. Hinn 31. mars 2008 var undirritaður samningur á milli félagsins og Sparisjóðs A um kaup þess á öllu hlutafé sjóðsins í E ehf., sem þá var 13,9% af heildarhlutafé félagsins. Ritaði ákærði undir samninginn fyrir hönd sparisjóðsins og DD fyrir hönd C ehf. Kaupverðið var 1.000.000 króna en í samningnum kemur fram að nafnverð selds hlutafjár væri 95.216.128 krónur. Í 4. grein samningsins segir svo meðal annars: „Kaupanda er kunnugt um að seljandi hefur tekið á sig ábyrgð fyrir E ehf. að fjárhæð kr. 100.000.000. Verði sú ábyrgð seljanda virk og þurfi seljandi að greiða leggja út fé (svo) vegna ábyrgðar sinnar skuldbindur kaupandi sig til að greiða seljanda þær greiðslur til baka sem nemur allt að kr. 10.000.000. Seljandi mun ekki greiða kaupanda greiðslur umfram það þó ábyrgð falli á seljanda.“ Fyrir liggur að á fundi í stjórn Sparisjóðs A 12. febrúar 2008 var samþykkt heimild til handa ákærða til að selja allt hlutafé sjóðsins í E ehf. Rétt rúmri viku eftir að framangreindur kaupsamningur var undirritaður, nánar tiltekið 8. apríl 2008, var fjallað um málefni E ehf. á fundi í stjórn sjóðsins. Kemur fram í fundargerð að ákærði hafi farið yfir aðkomu félagsins að kaupum á D hf. og stofnfé í sparisjóðnum. Þá segir svo undir þessum lið í fundargerðinni: „Í dag stendur félagið tæplega undir skuldum. ... A átti hlut í E og hafði selt þann hlut en stjórn E hefur ekki samþykkt viðskiptin vegna ákvæða í lánasamningi að þeirra sögn.“ Samkvæmt fundargerð gerði ákærði grein fyrir skuldastöðu E ehf. gagnvart sparisjóðnum og D á stjórnarfundi sjóðsins 20. maí 2008.
Hinn 16. júní 2008 var C ehf. veitt yfirdráttarheimild upp á 100.000.000 króna í Sparisjóði A. Svo sem fram er komið hefur ákærði neitað því að hann hafi samþykkt þessa heimild. Tveimur dögum seinna, það er 18. júní, var þessi fjárhæð millifærð af reikningi félagsins hjá sjóðnum og inn á reikning nr. [...] á nafni þess hjá D hf. Sama dag mun DD fyrir hönd C ehf. hafa undirritað handveðsyfirlýsingu til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og skuldbindingum E ehf. við bankann, en sú yfirlýsing um þetta sem liggur fyrir í gögnum málsins er óundirrituð og á henni er önnur dagsetning. Samkvæmt henni tók handveðsetningin til framangreinds reiknings C ehf. hjá bankanum og allrar „innistæðu reikningsins eins og hún er á hverjum tíma“. Hinn 22. september 2008 beindi bankinn síðan tilkynningu til C ehf. um ráðstöfun handveðsettra fjármuna samkvæmt framangreindri yfirlýsingu félagsins. Í tilkynningunni er vísað til handveðsyfirlýsingar 18. júní 2008 og efni hennar rakið í samræmi við það sem að framan greinir, en að auki tekið fram að samkvæmt henni væri veðhafa heimilt einhliða og fyrirvaralaust að taka sér greiðslu af handveðinu eins og þörf krefði vegna vanskila á þeim skuldum sem veðinu væri ætlað að tryggja. Því næst segir svo: „Með veðkalli, dags. 4. apríl 2008, sem sent var forsvarsmönnum E ehf. var þess krafist af hálfu D að E legðu fram viðbótartryggingar vegna skiptasamnings við bankann svo að tryggingaþörf hans yrði uppfyllt að fullu. Í kjölfar þessa fóru fram frekari samningaviðræður um það hvernig tryggingaþörf skiptasamningsins yrði fullnægt en þær viðræður báru engan árangur. Enn vantar töluvert upp á að samningurinn verði nægjanlega tryggður. Skiptasamningurinn var gjaldfelldur með tilkynningu dags. 2. júlí 2008. Með vísan til alls framangreinds hefur D hf. tekið sér í dag greiðslu af reikningi C ehf. sem nemur allri innistæðu reikningsins til greiðslu á skuld E ehf. við bankann.“
Af gögnum málsins verður helst ráðið að EE, sem starfaði sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Sparisjóðsins A á þessum tíma, hafi séð um að setja yfirdráttarheimildina upp, en þegar það hafði verið gert var ekkert því til fyrirstöðu að fjármunum yrði ráðstafað út af viðkomandi reikningi C ehf. í Sparisjóði A. Þá bera gögn um millifærslu á 100.000.000 króna af þeim reikningi yfir á reikning félagsins hjá D 18. júní 2008 það með sér að Q, sem var fulltrúi sparisjóðsstjóra á árunum 2007 og 2008, hafi annast hana.
Bú C ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 16. apríl 2015.
3.
Meðal gagna málsins eru tölvubréf sem varpa ljósi á atvik í aðdraganda þess að framangreind yfirdráttarheimild var veitt.
AA, framkvæmdastjóri E ehf., sendi fyrirsvarsmönnum þeirra lögaðila sem áttu eignarhlut í félaginu, þar á meðal ákærða, tölvubréf 12. febrúar 2008 þar sem þeim voru kynnt drög að lánssamningi og samkomulagi um uppgjör milli D hf. og félagsins. Kemur fram að samningurinn sé afrakstur viðræðna aðila. Voru viðtakendur tölvubréfsins hvattir til að kynna sér þessi gögn, sem fylgdu í viðhengi „en skuldbindingar hluthafa E samkvæmt þeim eru í samræmi við það sem við ræddum á síðasta fundi okkar.“ Í öðru þessara fylgiskjala var yfirlýsing um skipta sjálfskuldarábyrgð þar sem tilgreindir eigendur E ehf., þar á meðal Sparisjóðurinn A, sem eigendur 99,11% hluta „ábyrgjast greiðslu á láni samkvæmt lánssamningi þeim sem um getur í 2. gr., en þó að hámarki 712.508.986 [krónur]. Hlutföll ábyrgðar hvers og eins ábyrgðarmanns samkvæmt ábyrgðinni skal vera 14,035% af framangreindri hámarksfjárhæð af endurgreiðslu lánsins.“ Þá var með tölvubréfinu boðað til eigendafundar næsta dag og aftur 18. sama mánaðar þar sem taka átti til umræðu nýja samningstillögu frá D.
AA sendi tölubréf að nýju til sama hóps 29. febrúar 2008. Í honum segir meðal annars svo: „Í ljósi framanskráðs og þess að tillaga að lánasamningi við D, sem kynnt var á síðasta fundi okkar fékk góðar undirtektir, teljum við W ekkert því til fyrirstöðu að ganga til frágangs þessara mála á þeim forsendum sem fyrir liggja og menn hafa verið sammála um. ... Því liggur fyrir hluthöfum E til ákvörðunar og afgreiðslu: 1. Skrifa undir pro rata ábyrgð 100 mkr pr. aðila til D sbr. nýjustu tillögu lánasamnings sem þið hafið undir höndum og ræddur var á síðasta fundi okkar.“
Hinn 2. mars 2008 sendi E, fyrirsvarsmaður R ehf. og stjórnarformaður E ehf., sem vitnað er til í síðastgreindu tölvubréfi, tölvubréf á fyrirsvarsmenn annarra hluthafa í E, þar á meðal ákærða, þar sem tekið var fram að félagið myndi skrifa undir sjálfskuldarábyrgð á lánssamningi við D, en með þessu brást hann við tölvubréfi frá AA 29. febrúar 2008 þar sem því var komið á framfæri við eigendahópinn að afstaða einstakra eigenda til málsins þyrfti að liggja fyrir „um helgina þar sem miðað er við að ganga frá undirritun lánssamnings í D nk. mánudag“. Með tölvubréfi strax í kjölfar þess að W kom sinni afstöðu fyrir hönd R ehf. á framfæri gerði AA það sama fyrir hönd Sr hf.
Q var sent afrit af framangreindum tölvubréfum á sama tíma og þau voru send þeim aðilum sem voru í forsvari fyrir hluthafa í E ehf. Hinn 3. mars 2008 framsendi hann ákærða framangreint tölvubréf AA frá 29. febrúar sama ár og spurðist fyrir um það hvort ákærði væri búinn að kynna afstöðu Sparisjóðsins A til málsins. Þessari fyrirspurn svaraði ákærði neitandi með tölvubréfi sama dag og sagði enn fremur: „AA hringdi í gær og ég sagði honum að ég vissi ekkert um þetta, þú værir með þetta.“
Hinn 5. mars 2008 sendi W tölvubréf á eigendahópinn, þar á meðal ákærða, þar sem segir svo: „Staða mála hjá E er þannig núna að allir eru tilbúnir til að halda áfram með málin og leysa vandamál félagsins, nema að V hefur kosið að selja sinn hlut, og hefur endurskoðandi félagsins gert uppkast að samningi þar um, þar sem við erum, hver aðili fyrir sig, kaupendur hlutfallslega að hlut V hf. [..]menn hafa nú samningsuppkastið til skoðunar. Nauðsynlegt er að klára þetta atriði áður en skrifað verður undir skuldbindingar gagnvart D, þannig að á hreinu sé hverjir séu eigendur félagsins, og að þeir taki þær skuldbindingar á sig sem um ræðir. D er nú með til athugunar að breyta samningnum um lán, þar sem sjálfsskuldarábyrgðin er í, í þá veru, að hún verði óbreytt hjá hverjum aðila fyrir sig, en að V verði ekki með lengur, og lækkar því heildarskuldbinding um 100M, vonast er eftir svari D í dag.“ Daginn eftir var boðað til fundar með tölvubréfi „til frágangs lánsskjala vegna D“. Þann sama dag sendi AA tölvubréf til ákærða og Q þar sem þeir voru upplýstir frekar um stöðu mála. Hinn 7. mars sendi AA tölvubréf til forsvarsmanna hluthafa og Q þar sem tekið var fram að bankaráð D hefði fundað þann sama dag og tekið jákvætt í „hugmyndir okkar um 100 mkr ábyrgð ... pr. aðila án vaxta.“
W sendi tölvubréf til eigendahópsins 25. mars 2008 þar sem hann upplýsti um stöðu mála gagnvart D. Var Q móttakandi tölvubréfsins fyrir hönd Sparisjóðsins A sem hann framsendi til ákærða með orðunum „til upplýsingar“ þennan sama dag. Í tölvubréfi W segir svo: „Ég náði ekki að klára undirskriftir sjálfskuldarábyrgða fyrir páska, og lét FF í D vita um það á miðvikudag fyrir páska. Ég sagði honum að ég myndi ekki ná í hluta eigenda fyrr en að páskum loknum. Stjórnir U og T hafa ekki klárað sín mál. Nú hef ég sent póst og sms á GG í U í morgun og póst á HH í II og óskað eftir að þeirra afstaða til málsins komi skýrt fram, hvort þeir ætli að skrifa undir sjálfskuldarábyrgðina eða ekki. Ég mun ekki hreyfa mig með skjölin fyrr en afstaða þeirra liggur fyrir, sem ég vona að verði í dag.“
Hinn 1. apríl 2008 sendi Q tölvubréf til W og afrit til AA þar sem þeir voru upplýstir um að kominn væri á samningur um sölu á hlut Sparisjóðsins A í E ehf. og leitað eftir afstöðu félagsins til þess hvort það hefði í hyggju að nýta sér forkaupsrétt sinn að seldum hlutum í samræmi við samþykktir félagsins. Þá var tekið fram að sjóðurinn myndi „að sjálfsögðu standa við allar sínar skuldbindingar gagnvart félaginu sem hluthafi og ákveðið hefur verið til þessa eins og áður hefur komið fram“. Sama dag framsendi hann þetta tölvubréf til ákærða.
Hinn 4. apríl 2008 sendi W tölvubréf til ákærða þar sem hann greindi frá því að haldinn hefði verið fundur í stjórn E ehf. daginn áður þar sem umræður hefðu aðallega snúist um alvarlega stöðu félagsins. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort forkaupsréttur yrði nýttur. Í niðurlagi tölvubréfsins segir svo: „Niðurstaða stjórnar á fundinum var að fela mér sem formanni stjórnar að óska eftir því við þig að þú beittir þér fyrir fundi forsvarsmanna helstu lánardrottna E ehf. ... og D með stjórn félagsins. Þar yrði rædd staða félagsins og framtíð þess. Brýnt er að þessi fundur verði haldinn sem fyrst í ljósi þeirrar erfiðu og alvarlegu stöðu sem félagið er í.“
Hinn 8. apríl 2008 sendi W tölvubréf til hluthafa í E þar sem fram kemur að hann hafi að morgni þess dags verið boðaður á fund forsvarsmanna D og D. Forsvarsmenn Sparisjóðsins A hafi ekki verið á fundinum. Í tölvubréfinu segir svo: „Það kom fram hjá fundarboðendum að ljúka þyrfti málinu sem allra fyrst, og þeir báðu um okkar afstöðu til þess að koma með frekari ábyrgðir. Þeim var sagt að afar ólíklegt yrði að samstaða hluthafa yrði um að koma með frekari ábyrgðir eða hlutafé nú, enda hefði verið reynt frá í lok janúar að leysa málin, og ekki tekist, þá væri nýlokið útboði á hlutafé í E ehf. og engin áskrift hefði borist. Í raun bjóðast ekki margir kostir varðandi áframhaldið, og í samræmi við aðvörun endurskoðanda í endurskoðunarbréfi sem fylgdi ársreikningi, þá er ábyrgð stjórnar á því hvernig framhaldið verður nokkuð ljós.“
Framangreint tölvubréf var sent ákærða og Q. Sá síðarnefndi brást við því með eftirfarandi hætti í tölvubréfi sem hann sendi W þennan sama dag: „Átta mig ekki alveg á þessari stöðu. Ég taldi að samkomulag væri í gangi um frágang á skuldbindingum félagsins við D og það hafi gengið út á að lagðar væru fram tilgreindar ábyrgðir og þar með væru þau mál, samhliða frágangi á Z málinu, komin í eðlilegan farveg. Er niðurstaðan sú að þeirri leið sé alfarið hafnað af D?“ Í svari W í tölvubréfi daginn eftir, sem einnig var sent til AA, segir svo: „Ég sendi á alla hluthafa á mánudagsmorgun minnir mig skannað veðkall frá D, en lét vita af því í maili á föstudag til hluthafa, þannig að það er augljóst að D eru ekki að bíða eftir þeim ábyrgðum sem ekki hefur enn tekist að ná saman frá öllum. Það voru veruleg vonbrigði að A var ekki í hópnum, því að það skipti bæði okkur máli og ykkur að þið séuð með í þessu. Það er í mínum huga óskiljanlegt að þið skulið láta sem ykkur komi málefni E og E1 ekki við.“ Þetta tölvubréf framsendi Q til ákærða samdægurs ásamt svohljóðandi athugasemdum sínum: „Ég taldi að búið væri að útskýra stöðu okkar í málinu en það er augljóst að það erum við sem erum vonbrigðin í þessu máli E að mati W, en hann forðast að svara spurningunni sem ég lagði fram.“
4.
Á stjórnarfundi í E ehf., sem haldinn var 1. júlí 2008, var tekin til umræðu lokatillaga D um lánssamning og tryggingar. Á fundinn mættu forsvarsmenn hluthafa, þar á meðal DD fyrir hönd C ehf. Komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að ekki næðist samstaða um að ganga að tillögunni. Lagði stjórnarformaður til að gengið yrði til samninga við lánardrottna um yfirtöku á félaginu, en gengi það ekki eftir væri ekki um annað að ræða en að óska eftir því að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var þessi tillaga samþykkt. Í fundargerð var fært til bókar að DD væri ósáttur við þessa samþykkt þar sem hann hefði fyrir hönd C ehf. greitt sinn hluta af tryggingu til bankans og hefði viljað ganga til samninga við kröfuhafa á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs.
Svo sem áður er fram komið var stjórnarformanni E ehf. 2. júlí 2008 tilkynnt bréflega um gjaldfellingu skiptasamningsins frá 7. september 2007 og skorað á félagið að greiða D hf. 3.346.926.673 krónur gegn afhendingu stofnfjárbréfa í Sparisjóðnum A að nafnvirði 178.268.496 króna.
Bú E ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. mars 2009.
5.
Svo sem fram er komið er ákærða í fyrri kafla ákæru gefið að sök að hafa veitt C ehf. lán í formi yfirdráttar á reikningi félagsins hjá Sparisjóði A án þess að afstaða lánanefndar sjóðsins lægi fyrir, án þess að áhættu- eða greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti. Að því er þetta varðar hefur af hálfu ákæruvalds verið vísað til samþykkta Sparisjóðs A frá 4. desember 2007, reglna sjóðsins um lánveitingar og ábyrgðir frá 29. mars 2005, reglna fyrir starfsmenn hans um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra frá 29. mars 2005 og reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá 26. febrúar 2007. Hefur í þessu sambandi sérstaklega verið bent á ákvæði 4. gr. í reglum um útlánaheimildir starfsmanna þar sem mælt var fyrir um að í sparisjóðnum skyldi starfa lánanefnd sem ætti að fjalla um lánsbeiðnir sem væru hærri en 15 milljónir króna. Að auki skyldi lánanefndin fjalla um aukin útlán til lánþega sem væru með heildarlán og ábyrgðir yfir 100 milljónum króna. Þá var tekið fram að sparisjóðsstjóri skyldi merkja lánsskjöl útlána sem samþykkt væru af lánanefnd með upphafsstöfum sínum. Í 5. gr. sömu reglna var tekið fram að gætt skyldi ýtrustu varfærni við ákvarðanir, bæði að því er varðaði greiðslugetu lántaka, tryggingar og önnur atriði sem fylgja bæri til að tryggja endurgreiðslu viðkomandi útlána. Þá hefur jafnframt verið vísað til upphafsákvæðis 5. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir sparisjóðsins, þar sem fram kom að sparisjóðsstjóri skyldi setja reglur um útlán og ábyrgðir, meðhöndlun slíkra beiðna og framkvæmd þar sem skýrt kæmi fram hvernig meta skyldi áhættu og greiðslugetu, hvers konar tryggingar væru teknar gildar og hvernig þær væru metnar, hverjir mættu taka ákvörðun, hvaða atriði ættu að hafa mest áhrif á ákvörðunina, hvernig staðið skyldi að eftirliti og innheimtu og hvernig upplýsingagjöf til sparisjóðsstjóra skyldi háttað. Auk þess sem að framan er rakið er á því byggt af hálfu ákæruvalds að ákærða hafi við útlán borið að líta til annarra reglna, jafnt skráðra sem óskráðra.
Verði ekki á það fallist með ákærða að hann hafi enga aðkomu átt að umræddri lánveitingu reisir hann málsvörn sína hvað þetta snertir á því að hann hafi engar reglur brotið í tengslum við hana. Hefur ákærði vísað til þess að hann hafi haft mjög rúmar útlánaheimildir, svo sem gögn málsins sýni, og að það lán sem hér um ræðir sé langt undir þeim. Hefur ákærði sérstaklega tilgreint í þessu sambandi að hann hafi veitt fjögur lán, hvert að fjárhæð 1,5 milljarðar króna, sem stjórn sparisjóðsins hafi talið vera innan útlánaheimilda hans. Í reglum um lánveitingar og ábyrgðir Sparisjóðsins A frá 29. mars 2005 hafi til samræmis við þetta ekki verið settar takmarkanir á heimildir sparisjóðsstjóra til lánveitinga til viðskiptamanna sjóðsins. Í reglunum hafi ekki heldur verið greint frá því hvenær trygginga skyldi krafist eða viðmið sett varðandi slíkar tryggingar. Í reynd hafi það verið svo að í reglunum hafi engar kvaðir verið lagðar á sparisjóðsstjóra hvað viðkom hámarki útlána, tryggingum fyrir þeim eða verkferlum. Eina skyldan sem lögð hafi verið á sparisjóðsstjóra hafi verið að tilkynna stjórn sparisjóðsins á næsta fundi eftir að ákvörðun var tekin um útlán eða ábyrgðir vegna skuldbindinga sem væru umfram 10% af eigin fé sjóðsins. Þá hafi það verið svo að samkvæmt 28. gr. samþykkta fyrir sparisjóðinn hafi sparisjóðsstjóri farið með ákvörðunarvald í öllum málefnum sjóðsins sem ekki voru falin öðrum. Valdheimildir ákærða til að taka mikilvægar ákvarðanir, þar á meðal um lánveitingar, hafi verið ótvíræðar. Innan þeirra hafi augljóslega fallið veiting 100.000.000 króna láns án trygginga, umfjöllunar lánanefndar eða greiðslumats, enda hafi það verið mat sparisjóðsstjóra að það þjónaði hagsmunum sparisjóðsins að veita slíkt lán. Þá er á því byggt að reglur fyrir starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra frá 29. mars 2005 hafi ekki tekið til ákærða, enda hafi ætlunin með þeim verið sú að útfæra nánar framsal sparisjóðsstjóra á útlánaheimildum sínum til starfsmanna sjóðsins. Sú staðreynd breyti þó í reynd engu hvað varðar lánveitinguna sem um ræðir í málinu.
III
1.
Með gögnum málsins og málflutningi fyrir dómi er fram komið að í lok árs 2007 samþykktu stofnfjáraðilar samruna Sparisjóðsins A, Sparisjóðs K og Sparisjóðs J. Voru sparisjóðirnir sameinaðir undir nafni Sparisjóðsins A sem tók við öllum réttindum og skyldum hinna sjóðanna frá og með 1. júlí 2007. Fjármálaeftirlitið veitti síðan samþykki sitt fyrir samrunanum 22. febrúar 2008. Sparisjóðurinn A átti hluti í hinum sjóðunum tveimur í gegnum dótturfélag sitt, B ehf. Mun félagið hafa keypt stofnfjárbréf í Sparisjóði J á tímabilinu 1. október til 31. desember 2007 fyrir samtals 559.092.472 krónur. Er því haldið fram í greinargerð ákærða að það hafi verið háð tilviljun hvort dótturfélagið eða sparisjóðurinn hafi átt að vera kaupandi bréfanna. Ekki liggur fyrir hvenær Sparisjóðurinn A festi kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóði K, en fram er komið að 31. desember 2007 voru þessi bréf, samtals að fjárhæð 124.276.311 krónur, færð úr bókhaldi Sparisjóðsins A yfir til B ehf.
Í málflutningi sækjanda við aðalmeðferð málsins var á því byggt að út frá viðteknum viðmiðum í reikningshaldi teljist framangreindur samruni hafa átt sér stað 4. desember 2007, það er þegar stofnfjáraðilar sjóðanna þriggja höfðu samþykkt hann, og í því sambandi vísað til skýringa við ársreikning Sparisjóðsins A fyrir árið 2007. Af hálfu ákærða hefur á hinn bóginn verið byggt á því að stofnfjárbréf í eigu B ehf. í lok árs 2007 hafi verið í Sparisjóði J annars vegar og Sparisjóði K hins vegar, enda hafi Fjármálaeftirlitið ekki verið búið að samþykkja samrunann á þeim tíma. Engu breyti þótt þessi bréf hafi síðar breyst í stofnfjárhluti í Sparisjóðnum A.
Samkvæmt gögnum málsins varð Sparisjóðurinn A eigandi einkahlutafélagsins B 12. desember 2005. Í tengslum við breytt eignarhald að félaginu þann dag var hlutafé þess hækkað úr 400.000 krónum í 418.000.000 króna. Ákærði var formaður stjórnar félagsins frá 12. desember 2005 til 6. apríl 2010 og JJ varamaður hans. Þá var KK framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi á þessu tímabili. Þeir JJ og KK störfuðu báðir hjá sparisjóðnum. Samkvæmt fundargerð frá 2. nóvember 2009, sem undirrituð er af ákærða, var á hluthafafundi þann dag ákveðið að hækka hlutafé félagsins um 1.100.000.000 króna eða í 1.518.000.000 króna. Tekið skal fram að tilkynning um hlutafjárhækkunina ásamt fylgigögnum barst fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra ekki fyrr en 13. október 2010.
Loks er þess að geta hér að 31. desember 2007 voru stofnfjárbréf í eigu B ehf. færð úr bókhaldi félagsins yfir á ónefndan viðskiptamann. Heldur ákærði því fram að þar hafi alfarið verið um bókhaldslegan gerning að ræða.
2.
Meðal gagna málsins eru skjöl sem snúa beint að skráningu á einkahlutafélaginu I hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Þau leiða eftirfarandi í ljós: Í byrjun mars 2008 var til skráð einkahlutafélag í eigu Deloitte hf. sem bar nafnið L. Vegna breytts eignarhalds að félaginu var nafni þess breytt 5. mars 2008 í I ehf. og ný stjórn kjörin, sem skipuð var tveimur starfsmönnum Deloitte. Þá voru félaginu settar nýjar samþykktir. Voru skjöl um þetta móttekin af fyrirtækjaskrá 7. mars 2008. Þann sama dag var haldinn hluthafafundur í félaginu og breytingar að nýju gerðar á stjórn þess vegna breytts eignarhalds. Tók N þá sæti í stjórn félagsins en O í varastjórn. Bera gögnin ekki annað með sér en að þeir hafi báðir undirritað fundargerð þar sem þetta er tekið fram, svo og að N hafi þennan sama dag undirritað samþykktir fyrir félagið. Skjöl um þetta voru móttekin af fyrirtækjaskrá 23. apríl 2008.
Sama dag og N tók sæti í stjórn I var gerður framsalssamningur um hluti í félaginu. Samkvæmt efni sínu tók samningurinn til þess að LL fyrir hönd Deloitte hf. framseldi hluti félagsins í I til DD. Nánar tiltekið væri um að ræða 100% eignarhlut í I að nafnverði 500.000 krónur. Samningurinn ber það með sér að DD hafi undirritað hann, en því hefur hann neitað.
Um málsatvik sem snerta þennan þátt málsins að öðru leyti og þá einkum yfirfærslu á stofnfjárbréfum frá B ehf. til I ehf. er á þessu stigi vísað til þess sem fram kemur þar að lútandi í I. kafla dómsins.
3.
Meðal gagna málsins eru tölvubréf og endurrit símtals á milli ákærða og P, sem var endurskoðandi Sparisjóðsins A, sem varpa ljósi á þau atvik sem seinni kafli ákæru tekur til.
Hinn 6. mars 2008 sendi MM, sem starfaði á viðskiptastofu Sparisjóðsins A, tölvubréf til JJ, sem var forstöðumaður fjármálasviðs sparisjóðsins, og afrit á NN, starfsmanns sjóðsins, þar sem spurt var hvort „allt [sé] klárt“ og hvort „búið [sé] að ákveða“. Svar JJ í tölvubréfi þennan sama dag var svohljóðandi: „Þetta félag heitir L ehf., kt. [...].“ Hinn 8. apríl 2008 sendi MM að nýju tölvubréf til JJ þar sem því var komið á framfæri að það þyrfti að stofna reikning hjá sparisjóðnum „þannig að við höldum arðinum“. Svar JJ í tölvubréfi sama dag var á þá leið að hann gæti ekki gert það „héðan“ en myndi biðja nafngreindan starfsmann um að gera það. Samdægurs var reikningsnúmerið sent MM og afrit þess tölvubréfs sent JJ. NN sendi tölvubréf til JJ 22. apríl 2008 þar sem tekið var fram að heiti félagsins „í dag“ væri I ehf. Síðar þennan sama dag sendi JJ tölvubréf til P þar sem sagði svo: „Sé ekki að það sé búið að skipta um stjórn í félaginu sem við færðum stofnfjárbréfin til, getur þú kannað málið.“
Hinn 20. júní 2008 sendi N tölvubréf til P þar sem sagði svo: „Ég er í stjórn I ásamt O. Ég var búinn að tala um þetta við O, en ég er alltaf að fá rukkun fyrir vinnunni ykkar vegna breytinga á samþykktum o.s.frv. Þetta er greinilega í innheimtu hjá Glitni. Hvernig förum við að því að greiða þetta? Ég er nefnilega ekki með ávísanahefti eða neitt slíkt.“ Svar P í tölvubréfi daginn eftir var á þann veg að Sparisjóðurinn A myndi greiða þetta og N beðinn um að senda þetta til „JJ.“.
Næst er þess að geta að N sendi tölvubréf til O og JJ 22. janúar 2009 þar sem hann kom því á framfæri við þá að hann hefði verið að fá ítrekanir vegna ársreikningsskila og skattskila I. Síðan segir svo: „Ég veit að O var búinn að koma ársreikningsmálinu í farveg en það þyrfti einnig að kíkja á skattamálin svo sýslumaður gefi ekki út handtökuskipun á mig.“ Í kjölfar þessa áttu sér stað samskipti á milli JJ og OO, endurskoðanda hjá Deloitte, um skattamál I. Hinn 29. janúar 2009 sendi JJ síðan tölvubréf til OO þar sem fram kom að hann hefði móttekið tiltekin gögn frá N. Að því sögðu tók hann fram að hann myndi sjálfur útbúa skilagrein vegna ársins 2007 og „fylla út 2008 og setja það í gegn hjá gjaldkera“. Þá vék hann að gerð skattframtals fyrir árið 2008 og veitti í tengslum við það tilteknar upplýsingar um kaup I á stofnfjárbréfum „[Sparisjóðsins A] af B ehf.“
Hinn 24. mars 2009 sendi N tölvubréf til JJ þar sem í viðhengi var ítrekun á beiðni ársreikningaskrár um skil á ársreikningi I 2007. Ársreikninginn sendi OO til JJ og PP, sem sinnti bókhaldsstörfum í sparisjóðnum, með tölvupósti 5. apríl 2009 þar sem þeir voru spurðir hvort þeir myndu ekki sjá um að senda hann til ársreikningaskrár. Þá sendi hún tölvubréf til JJ 6. október 2009 þar sem sagði svo: „Það á eftir að senda inn framtal 2009 vegna 2008 fyrir I. Getur þú sent mér yfirlit yfir bréfin í félaginu og uppreikninginn og þá getum við komið þessu inn í dag. Við P fundum ekki nema hluta af þessu hjá okkur í gær og QQ er ekki á svæðinu.“ Þessu erindi svaraði JJ með tveimur tölvubréfum þennan sama dag þar sem umbeðnar upplýsingar voru veittar og meðal annars tekið fram að skuld I ehf. við B ehf. væri 638.618.783 krónur.
Hinn 3. desember 2009 sendi N tölvubréf til PP þar sem í viðhengi var reikningur frá Deloitte fyrir gerð ársreiknings I og skattframtals. Sama dag framsendi PP þetta tölvubréf til JJ með orðunum „yfir til þín“. Með tölvubréfi JJ til starfsmanns Deloitte 21. desember 2009 tilkynnti hann að hann hefði greitt þennan reikning.
Loks skal hér getið um tölvubréf sem N sendi JJ 8. júní 2010. Þar sagði svo: „Ég er enn í stjórn og framkvæmdastjórn I fyrir ykkur. PP sagði mér að hann hefði verið búinn að ræða við þig um þetta. Væri flott ef hægt væri að kippa mér út úr þessu hið fyrsta. Ég er alltaf að fá einhver bréf vegna skila á ársreikningi, þinggjalda o.s.frv.“
Símtalið sem vísað er til hér að framan munu ákærði og P hafa átt í febrúar 2011. Gekk það meðal annars út á það að N hafi í reynd aldrei verið eigandi I ehf. Þannig sagði ákærði að „N náttúrulega átti aldrei nokkurn skapaðan hlut í þessu félagi“ og tók P undir það með því að segja „nei, hann átti aldrei neinn hlut í þessu“ og í framhaldinu með því að taka undir þau orð ákærða að N hafi aldrei komið nálægt félaginu nema bara með því að skrifa nafnið sitt.
4.
Meðal gagna málsins er bréf sem JJ ritaði 6. febrúar 2011 í tilefni af fréttaflutningi þess efnis að ákærði fyrir hönd Sparisjóðsins A hefði á síðustu starfsdögum sínum hjá sparisjóðnum afskrifað 700 milljóna króna skuld félags í eigu [...] við sjóðinn. Kemur fram í bréfinu að í ársbyrjun 2008 hafi N verið fenginn til að taka við einkahlutafélagi sem notað var til að vista stofnfjárbréf í Sparisjóði J og Sparisjóði K sem voru í eigu Sparisjóðsins A. Hugmyndin á bak við þessa ráðstöfun hafi verið að koma í veg fyrir að stofnfjárbréfin yrðu verðlaus í höndum sjóðsins vegna samruna þessara þriggja sparisjóða, en við slíkan samruna séu kröfur á milli félaga jafnaðar út. N hafi aldrei þegið greiðslu né haft fjárhagslegan ávinning af þessum gjörningi. Þá segir í bréfinu að hefði Sparisjóðurinn A valið að fara ekki þessa leið hefði hann „staðið jafnfætis lokaniðurstöðunni, ekki þurft að afskrifa en stofnfjárbréfin hefðu orðið verðlaus.“ Hefði hagur sparisjóðsins þróast á annan veg en raunin varð hefði félagið getað selt stofnfjárbréfin og fengið greiðslu fyrir. Þá er í bréfinu gerð grein fyrir virðisrýrnun stofnfjárbréfanna á árunum 2008 og 2009 og niðurfærslu af þeim sökum á viðskiptakröfu B ehf. að fjárhæð 683.368.783 krónur, sem stofnast hafði á hendur I ehf. við yfirfærslu stofnfjárbréfanna til þess félags. Samkvæmt því og að teknu tilliti til innborgana að fjárhæð samtals 50.100.000 krónur, þar sem annars vegar var um að ræða arðgreiðslu og hins vegar endurgreiddan fjármagnstekjuskatt, hafi staða kröfunnar í bókum Sparisjóðsins A í árslok 2009 verið 11.051.928 krónur. Koma þessir útreikningar með óverulegu fráviki fyrir í samtímagögnum sem eru meðal rannsóknargagna málsins.
IV
Við fyrri skýrslugjöf hjá lögreglu var ákærði sérstaklega spurður út í störf lánanefndar sem gert var ráð fyrir að yrði sett á laggirnar samkvæmt 4. grein reglna fyrri starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra frá 29. mars 2005. Skýrði hann svo frá að stjórn Sparisjóðs A hafi aldrei skipað slíka lánanefnd. Hann hafi sjálfur kvatt til forstöðumenn sem störfuðu hjá sjóðnum til að aðstoða sig við ýmsar lánveitingar en að öðru leyti hafi engin lánanefnd verið þar starfandi. Þessi hópur hafi fjallað um útlán en ekki haft útlánaheimildir. Þá var við þessa skýrslutöku beint spurningum til ákærða sem snertu einkahlutafélagið C og samning um kaup þess á hlut Sparisjóðs A í E ehf. Kannaðist hann við undirritun sína á kaupsamninginn en kvaðst ekki muna eftir samningnum sem slíkum og ekki heldur félaginu sem keypti hlutinn. Þá kvaðst hann engu geta svarað um yfirdráttarlán til C ehf. að fjárhæð 100.000.000 króna og kannaðist ekki við að hafa veitt heimild fyrir því.
Við seinni skýrslugjöf hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá þegar hann var spurður um lánareglur sparisjóðsins og heimildir sínar í þeim efnum að hann hafi haft lánsheimildir frá stjórn sjóðsins sem miðaðar hefðu verið við 10% af eigin fé sjóðsins. Þá hafi hann haft heimild stjórnarinnar til að framselja lánsheimildir til vissra starfsmanna. Þá áréttaði hann fyrri framburð sinn um aðkomu forstöðumanna að lánveitingum í gegnum óformlega lánanefnd sem hann hafi sjálfur sett á laggirnar og að endanlegt ákvörðunarvald hafi ávallt verið í hans höndum óháð afstöðu þeirra til lánveitingar hverju sinni. Hann áréttaði einnig þann skilning sinn að framangreindar reglur frá 29. mars 2005 hafi ekki tekið til hans sem sparisjóðsstjóra. Þegar um hafi verið að ræða beiðni um lánveitingu upp á hærri fjárhæð en 15 milljónir króna hafi hún í flestum tilvikum komið inn á borð þessa hóps sem fundað hafi einu sinni í viku. Spurður sérstaklega um lánveitingu til C ehf. og kaup þess félags á hlut sparisjóðsins í E ehf. kannaðist hann sem fyrr við að hafa undirritað samning um kaupin fyrir hönd sjóðsins og að það hafi oft verið rætt í stjórn hans að selja þennan hlut. Að öðru leyti kvaðst hann ekkert muna eftir þessu máli og hafnaði því alfarið að hann hafi samþykkt umrædda lánveitingu eða átt aðra aðkomu að henni. Þegar honum var kynntur framburður DD, eiganda C, um samtal sem þeir hefðu átt í aðdraganda þess að samningurinn var gerður og efnislegt inntak hans, meðal annars um samkomulag sem hafi verið í gildi um að auka þyrfti tryggingar F vegna veðkalls, var svar hans sem fyrr á þann veg að sig ræki ekki minni til þessa, hann kæmi alveg af fjöllum hvað allt þetta varðar. Hafði hann á orði að þetta væri einhver sérkennilegasta flétta sem hann hefði heyrt um.
Spurður um einkahlutafélagið I kvaðst ákærði fyrst hafa heyrt það félag nefnt í apríl 2008 eða um það leyti. Skýrði hann svo frá að JJ, starfsmaður sparisjóðsins, hefði rætt um það við sig að stofna þyrfti félag til að halda utan um stofnfjárbréf sjóðsins í Sparisjóði J og Sparisjóði K. Þessi ráðstöfun hafi tengst bókhaldi Sparisjóðs A og uppgjöri. Að sögn JJ hafi verið nauðsynlegt að gera þetta því að annars yrðu þessi stofnfjárbréf að engu. Kvaðst ákærði hafa dregið þá ályktun af þessu að JJ og endurskoðandi sparisjóðsins hefðu stofnað þetta félag í þessu skyni í nafni sjóðsins og að þeir yrðu að útskýra það nánar af hverju þeir töldu nauðsynlegt að gera þetta. Þetta hafi bara átt að standa svona yfir áramótin. Hann stæði í þeirri meiningu án þess þó að vera viss um það að Deloitte hafi selt sparisjóðnum þetta félag. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi sem stjórnarformaður B ehf. veitt heimild sína fyrir því að stofnfjárbréfin yrðu færð yfir í annað félag svo framarlega sem það yrði alfarið í eigu sparisjóðsins. Hann hafi á hinn bóginn enga hugmynd um það hvernig staðið var að yfirfærslunni og ekki fengið um það vitneskju fyrr en löngu seinna hvernig eignarhaldi að I væri háttað og að [...] ætti aðild að því. Tók ákærði fram í þessu sambandi að starfsmaður sparisjóðsins hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra í B ehf. og annar haft prókúru fyrir það. Þá hafi JJ komið að rekstri félagsins ásamt þessum tveimur starfsmönnum sparisjóðsins. Áréttaði ákærði þann skilning sinn að það hafi aldrei staðið til að færa stofnfjárbréfin yfir í félag sem væri í eigu óskylds aðila og að hann hafi ekki veitt samþykki sitt til slíkrar ráðstöfunar.
V
1.
Í þessum kafla verður gerð grein fyrir framburði vitna að því er tekur til þeirrar háttsemi sem ákærða er gefin að sök í fyrri kafla ákæru.
Vitnið DD, eigandi C ehf., kvað félagið hafa verið stofnað gagngert í þeim tilgangi að kaupa hlutabréf Sparisjóðs A í E ehf. Lýsti hann aðdraganda kaupanna með þeim hætti að ákærði hafi boðað hann til sín og boðið honum að kaupa þennan hlut sparisjóðsins fyrir 1.000.000 króna. Hann hafi verið upplýstur um stöðu E og að fram væri komið veðkall hjá F, en á þessum tíma hafi ekki verið orðið ljóst hvort það yrði að veruleika. Kvaðst hann hafa gengið að tilboðinu og kaupsamningur verið gerður. Spurður um samninginn og sérstaklega það ákvæði hans að kaupanda væri kunnugt um að seljandi hefði tekið á sig ábyrgð fyrir E að fjárhæð 100.000.000 króna svaraði DD því til að ákærði hafi líklega upplýst hann um þetta. Hafi það verið gert munnlega og hann hafi engin gögn séð hvað þetta varðar. Spurður út í yfirdráttarheimild sem C ehf. var veitt 16. júní 2008 kvaðst hann sjálfur hafa átt að greiða 10.000.000 króna fyrir þennan hlut ef til veðkalls kæmi, en „Geirmundur bað um það á sínum tíma að fá að setja þetta upp tímabundið og ég gaf leyfi á það og með það að leiðarljósi að þessi heimild yrði þá sett á núll í lok árs.“ Yfirdráttarheimildin hafi þannig í rauninni ekkert tengst C ehf. eða DD sem eiganda félagsins. Enginn samningur hafi verið gerður um yfirdráttarlánið og það hafi alfarið verið grundvallað á gagnkvæmu trausti. Inntur eftir því hver hefði heimilað yfirdráttinn kvaðst hann ekki vita það. Kvaðst hann aðallega hafa verið í samskiptum við ákærða um þetta mál og eitthvað við Q, en hvað þeir hefðu sérstaklega rætt kvaðst hann ekki muna. Spurður um handveðsyfirlýsinguna skýrði DD svo frá að hann hafi verið boðaður á fund í F á sínum tíma út af þessu máli og rætt þar við lögfræðing bankans, RR, auk annars manns „og þá var verið að viðra þetta, þá var kominn þrýstingur á Sparisjóðinn A að efna þetta veðkall sem að var fyrir mína tíð af málinu en var vitnað til í samningnum hjá mér.“ Fn hafi greinilega viljað fá þessa peninga og talið sig eiga rétt á þeim á grundvelli munnlegs samkomulags við E ehf. Kvaðst DD minnast þess að handveðsyfirlýsing hafi verið kynnt en ekki minnast þess að hafa undirritað slíka yfirlýsingu. Engin niðurstaða hafi fengist á þessum fundi en í kjölfar hans hefði hann greint ákærða frá þrýstingi um að veðkall yrði greitt og í framhaldi hafi verið tekin ákvörðun um að greiða þetta. Í kjölfarið hafi honum borist tilkynning F um ráðstöfun handveðsettra fjármuna. Landsbankinn hafi á síðari stigum gert kröfu um endurgreiðslu yfirdráttarins, en fallið frá málsókn í tengslum við hann í maí 2012 að framkominni greinargerð sem DD hafi ritað um málið.
Vitnið EE, sem eins og áður segir starfaði sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Sparisjóðs A á árinu 2008, kvaðst ekki þekkja til félagsins C ehf. og ekki hafa haft heimild til að veita því lán að fjárhæð 100.000.000 króna. Hann hefði skráð umrædda yfirdráttarheimild til félagsins C inn í kerfi bankans að ósk ákærða, sem hafi verið hans næsti yfirmaður. Kvaðst hann aðspurður ekki hafa séð lánsskjöl á bak við þessa heimild og ekki muna eftir skriflegum fyrirmælum um að veita ætti yfirdráttarheimildina. Allur gangur hafi verið á því með hvaða hætti, munnlega eða skriflega, ákærði fór þess á leit við hann að setja upp heimildir sem þessa. Kvaðst hann ekki hafa vitað í hvað yfirdrátturinn væri ætlaður. Inntur eftir merkingu þess að á framlögðum lista yfir útlán umfram 70.000.000 króna á tímabilinu júlí til desember 2007 er að finna áritunina „bókað samþykkt af GMN“ aftan við tvö lán eða heimildir á listanum, kvaðst hann ekki hafa verið að samþykkja lán með þessu heldur bóka þau. Hafi verið nokkuð algengt að hann fengi til sín beiðnir sem þessar.
Vitnið Q kvaðst aðspurður hvorki muna eftir millifærslu á 100.000.000 króna af reikningi C ehf. hjá Sparisjóðnum A yfir á reikning félagsins hjá D né hver hafi beðið hann um að framkvæma millifærsluna. Kvaðst hann ekki muna eftir samskiptum við eiganda C og kannaðist ekki við að lánveiting til félagsins í formi yfirdráttar hafi verið í hans höndum. Hann hafi ekki haft útlánaheimildir. Aðspurður um aðkomu sína að E hf. kvaðst hann hafa verið beðinn um að sitja tvo stjórnarfundi í félaginu fyrir hönd sparisjóðsins. Þá kvaðst hann halda að á þeim tíma þegar hlutur sparisjóðsins í félaginu var seldur til C hafi verið talið að ábyrgð sjóðsins væri komin á og að hann væri skuldbundinn til að standa við hana. Þá kvaðst hann ekki vita hver það var sem samdi kaupsamninginn á milli sparisjóðsins og C. Hann hafi vottað samninginn en sig ræki ekki minni til þess að hafa átt frekar aðkomu að honum. Loks kvaðst hann ekki kannast við þau ummæli í tilkynningu Landsbankans til yfirvalda að salan á E hafi verið nauðvörn hjá stjórnendum Sparisjóðs A til að sjóðurinn héldi starfsleyfi sínu.
Vitnið RR, sem var á þeim tíma sem um ræðir í málinu forstöðumaður lögfræðisviðs hjá F, skýrði svo frá fyrir dómi að á einhverjum tímapunkti hafi verið rætt um að hver og einn hluthafi í E ehf. myndi leggja félaginu til 100.000.000 króna. Hann kvaðst þó halda að enginn samningur hefði náðst um þetta, enda hefði lánið sem þetta framlag tengdist verið gjaldfellt. Að honum vitandi hafi þannig ekki komist á samningur um að Sparisjóðurinn A skyldi leggja fram 100.000.000 króna, en „hvort að það hafi verið rætt eða eitthvað, ég veit ekkert um það, en ég kannast ekki við skriflegan samning ... og það var alveg örugglega rætt, ég held að það hafi alveg örugglega verið í umræðunni“. Veturinn hafi farið mikið í það að ræða þetta mál. Spurður út í framburð sinn hjá lögreglu um fund sem haldinn hafi verið með flestum hluthöfum í E í febrúar eða mars 2008 kvaðst hann muna eftir fundi þar sem staða á samningnum hefði verið rædd í ljósi þess að verðmæti bréfanna hefði lækkað og mikið vantaði upp á að „samningurinn væri á pari“. Hafi það verið niðurstaða fundarins að menn væru ekki að koma fram með einhverjar tryggingar en „ekki þar með sagt að það yrði endilega loku fyrir það skotið, en svona gengur þetta, það er fundur og einhver niðurstaða, og svo halda menn áfram að reyna að semja.“ Aðspurður um félagið C ehf. og að greiddar hefðu verið 100.000.000 króna inn á reikning félagsins hjá D kvaðst RR þekkja til þess máls. Hafi hans aðkoma að því verið sú að hann hafi hitt fyrirsvarsmann félagsins, DD, sem hafi komið í bankann í því skyni að stofna reikning og leggja inn pening. Hafi DD skrifað upp á peningaþvættisskjöl og önnur nauðsynleg gögn. Hafi fjármunirnir farið til tryggingar á þessum samningi og kveðst hann halda að í handveðssamningnum hafi skilmerkilega verið kveðið á um það. Þá kvaðst hann ekki hafa verið í samskiptum við ákærða vegna þessa máls.
Vitnið SS kvaðst hafa verið varaformaður stjórnar Sparisjóðs A á árunum 2007 og 2008. Spurður um hvort lánveitingar hefðu komið inn á borð stjórnar skýrði hann svo frá að unnið hafi verið eftir starfsáætlun og í samræmi við hana hafi stjórninni nokkrum sinnum á ári verið greint frá stærstu skuldurum og stærstu fjármagnseigendum og farið yfir stöðu þessara aðila. Þá hafi einstaka sinnum verið teknar fyrir lánveitingar til einstakra aðila. Kvað hann sparisjóðsstjóra hafa haft heimild til að veita lán upp að 15% af eigin fé sjóðsins á hverjum tíma, sem síðar hafi lækkað niður í 10%. Í bankanum hafi ekki verið starfandi lánanefnd, en ákærði haft sér við hlið óformlega lánanefnd sem hafi verið honum til halds og trausts við að fara yfir stöðu mála. Kvaðst hann muna eftir að viðskipti sparisjóðsins við E hafi komið fram í yfirlitum til stjórnar og málefni félagsins komið til umræðu öðru hvoru. Kvaðst hann ekki muna eftir því að rætt hafi verið um ábyrgð við D né að félagið C fengi yfirdráttarheimild. Spurður um hvort hann hafi vitað að til hafi staðið að selja hlut sparisjóðsins í E í febrúar eða mars 2008 svaraði hann því til að hann hafi „ugglaust verið upplýstur um það ... það leit ekkert vel út á þessum tíma, það var bara verið að bjarga því sem væri hægt að bjarga og ég efast ekki um að það var þannig með fleiri fyrirtæki sem við áttum hlut í að við vildum bara koma okkur út úr þeim áður en illa færi“.
Vitnið KK, forstöðumaður rekstrarsviðs Sparisjóðsins og staðgengill sparisjóðsstjóra á árunum 2007-2008, kvað þá lánanefnd sem starfaði innan bankans hafa verið ráðgefandi og að hún hafi ekki tekið endanlegar ákvarðanir. Kvaðst hann hvorki þekkja til sölu á hlut sparisjóðsins í E ehf. né að sjóðurinn hafi verið í ábyrgð fyrir félagið. Þá kvaðst hann fyrst hafa heyrt um félagið C við yfirheyrslu hjá lögreglu.
Vitnið TT, sem var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Sparisjóðsins A á árunum 2007 og 2008, kvaðst fyrir dómi hafa átt sæti í lánanefnd sparisjóðsins. Ákvarðanir lánanefndar hafi ekki verið bindandi fyrir sparisjóðsstjóra, sem hafi sjálfur tekið ákvarðanir og haft útlánaheimildir. Að sögn TT minntist hann þess að ákærði hafi viljað selja hlut sparisjóðsins í E vegna þess að það félag var búið að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóðnum.
2.
Í þessum kafla verður gerð grein fyrir framburði vitna að því er tekur til þeirrar háttsemi sem ákærða er gefin að sök í seinni kafla ákæru.
Vitnið SS, stjórnarmaður í Sparisjóði A, skýrði svo frá að B ehf. hafi verið einkahlutafélag í eigu sparisjóðsins þar sem vistaðar hafi verið fullnustueignir sjóðsins og eignir í öðrum fjármálafyrirtækjum. Yfir félaginu hafi verið sérstök stjórn, en stjórn sparisjóðsins hafi fengið upplýsingar um félagið og hvaða eignir væru inni í því. Hafi JJ lagt fyrir stjórnina formlegar tilkynningar um hvaða viðskipti hefðu átt sér stað með stofnfjárbréf, en hann gæti ekki sagt til um hvort JJ hafi unnið þær. Þau stofnfjárbréf sem sparisjóðurinn átti sjálfur hafi verið inni í B ehf. „og I var líka í eigu sparisjóðsins“. [...] ákærða hafi verið fenginn til að vera þar í fyrirsvari. Inn í félagið hefðu verið settar eignir, stofnfjárbréf að hann minnti. Hefði það haft jákvæð áhrif á eiginfjárhlutfallið að hafa slíkar eignir inni í dótturfélögum í stað þess að hafa þær hjá sparisjóðnum sjálfum. Inntur eftir því hvort hann hafi talið að sparisjóðurinn væri eigandi I svaraði SS því til að honum hafi verið tjáð að svo væri.
Vitnið JJ, forstöðumaður fjármálasviðs Sparisjóðsins A á árunum 2007 og 2008, kvaðst hafa haldið utan um stofnfjárskrá sparisjóðsins og sem slíkur komið að framsali á stofnfjárbréfunum frá B yfir í I. Kvaðst hann hafa talað við ákærða um að sparisjóðurinn myndi færa bréfin yfir í sérstakt félag og hafi hugsunin verið sú að það félag yrði óskylt sparisjóðnum. Að öðru leyti hafi hann ekki komið að stofnun I. Kvaðst hann ekki vita hver var eigandi félagsins „en það var talið að það væri N“. Félagið hafi aldrei verið í eigu sparisjóðsins. Kvaðst hann hafa tekið við pósti og gögnum varðandi þetta félag frá N og taldi það vel geta verið að hann hafi eitthvað aðstoðað við að greiða reikninga fyrir félagið samkvæmt beiðni. Hann vissi þó ekki hver hefði óskað eftir því við hann. Þá kom fram hjá honum að hann hafi ekki getað tekið ákvörðun um að flytja stofnfjárbréfin yfir í félagið og kvaðst ekki muna hver hafi tekið þá ákvörðun. Var hann helst á því að það hafi verið sameiginleg ákvörðun „þá milli manna í sparisjóðnum“, hans, Geirmundar og fleiri. Hafi málið snúist um „svokallað CAD ... og hugmyndin var að þetta yrði geymt þá í óskyldu félagi og þetta yrði síðan selt þegar að tækifæri gæfist“. Bréfin hefðu að öðrum kosti „dottið dauð inn í eiginfjárgrunninum“. Aðspurður kvaðst hann ekki vita af hverju ekki var gerður lánssamningur vegna þessara viðskipta, en að byggt hefði verið á gagnkvæmu trausti á milli eigenda I og sparisjóðsins. Benti JJ í því sambandi á að arðgreiðsla upp á rúmar 40 milljónir hafi runnið beint til sparisjóðsins til lækkunar á skuldum félagsins. Hafi það alltaf verið „hugmyndin að þetta væri eign og yrði eign Sparisjóðsins til frambúðar“. Í hans huga hafi það verið þannig að ef bréfin yrðu seinna meir seld myndi sparisjóðurinn sjálfur njóta söluverðsins að öllu leyti. Hugsunin með þessu hafi verið sú ein að gæta hagsmuna sparisjóðsins.
Vitnið N skýrði svo frá aðkomu sinni að I ehf. að það hafi á einhverjum tímapunkti komið til umræðu að hann og O, endurskoðandi hjá Deloitte, settust tímabundið í stjórn þess félags og „síðan sennilega í mars 2008 þá er ég í sambandi við P endurskoðanda vegna minnar framtalsgerðar sem hann hafði aðstoðað mig við og hann spyr mig í leiðinni hvort að ég kvitti upp á stjórnarskipti í I um leið og framtalið er gert.“ Ræki hann ekki minni til þess hver hafi upphaflega óskað eftir því að hann settist í stjórn félagsins. Hann hafi haft mjög litlar upplýsingar um félagið að öðru leyti en því að það væri á vegum sparisjóðsins. Ekki hafi verið rætt um hvaða rekstur það ætti að hafa með höndum. Hefðu P, endurskoðandi sparisjóðsins, og JJ, forstöðumaður fjármálasviðs sjóðsins, verið með þetta mál á sinni könnu. Hann hafi treyst þessum mönnum og í ljósi stöðu þeirra ekki talið ástæðu til að spyrjast fyrir um félagið. Spurður um framsalssamninginn milli sín og Deloitte kvaðst hann ekki geta staðfest að undirskrift á samningnum væri hans og „ef þetta er mín undirskrift þá var hennar aflað á fölskum forsendum, það liggur alveg fyrir í mínum huga“. Þá gæti hann sömuleiðis ekki staðfest undirskrift sína á samþykktir fyrir I. Hvað varðaði fundargerð I frá 7. mars 2008 kynni að vera að hann hafi ritað undir það skjal hjá P. Hann hafi á hinn bóginn enga aðkomu átt að rekstri félagsins og aldrei setið hlutahafafundi, aðalfundi eða neitt í þessu félagi. Þá væri honum ekki kunnugt um að ákærði hafi haft aðkomu að félaginu og kvaðst ekki vita hver hafi séð um ákvarðanatöku í því. Spurður um hvort hann hafi haft vitneskju um að félagið keypti stofnfjárbréf í sparisjóðnum svaraði N því til að hann teldi að „þetta félag hafi aldrei keypt formlega nein stofnfjárbréf í sparisjóðnum, af því að ég hef aldrei séð neina kaupsamninga eða nokkurn skapaðan hlut um þetta félag, um neina eignarhluti inn í þetta félag.“ Hafi hann aldrei fengið upplýsingar um viðskipti og þekkti ekkert til þeirra. Honum hefðu borist heim til sín skjöl vegna félagsins og vegna þess spurt „P hvert ég ætti að fara með reikninga félagsins, kostnaðarreikninga, og hann benti á sparisjóðinn, og sá tölvupóstur er til, þannig að ég fór bara samviskusamlega með þetta til JJ.“ Hann hafi engin samskipti átt við ákærða vegna þessa máls. Þá hafi hann ekki vitað af framsalssamningnum þegar hann sagði sig úr stjórn félagsins, „ég veit ekki af honum fyrr en fréttir berast um mína meintu eignaraðild 1. febrúar 2011, þetta er náttúrulega fyrir þann tíma, en ég var búinn að fara til JJ, og fara niður í sparisjóð og senda honum tölvuskeyti um að finna nýjan stjórnarmann af því að ég taldi mig einungis vera í stjórn og ég var einungis beðinn um, ég og O, um að vera tímabundið í stjórn og það var nú ansi langt liðið þarna 2010 að vera í tímabundinni stjórn. Og ég er með skjalfesta tölvupósta um þetta að ég er að biðja hann um þetta og að lokum var þetta bara fullreynt þannig að ég bara sendi sjálfur mína úrsögn úr stjórninni niður á hlutafélagaskrá.“ Þá kvaðst N ekki hafa verið í samskiptum við O fyrr en eftir að fréttir fóru að birtast af málinu. Á fundi sem O hafi boðað til hefðu P og UU, starfsmenn Deloitte, borið málið upp með þeim hætti að hann og O sætu með þetta í fanginu og farið að „fabúlera um það hvernig sé hægt að koma okkur undan þessu án þess að við gerum félagið gjaldþrota sjálfir og svona, án þess að okkar nöfn birtist á þessu“. Á fundinum hafi verið lagt fram skjal um meint framsal „og ég sagði þá og stend við það að ég taldi að þetta plagg og þessi plögg væru fölsuð, vegna þess að ef ég á að hafa kvittað undir þessi plögg hjá P, þá hefði P ekki sagt í hljóðupptöku sem liggur fyrir hjá lögreglu að ég hafi aldrei átt þetta félag, þetta bara stenst ekki.“ Um ástæður þess að hann mætti ekki á síðari fundinn sem O boðaði til kvaðst hann ekki hafa verið í ástandi til þess. Spurður um hvort ákærði hafi mætt á fundinn fyrir hans hönd kvaðst hann ekki muna það. Að sögn N hafi hann áður en þetta gerðist hitt P og annan nafngreindan endurskoðanda hjá Deloitte á fundi ásamt eiginkonu sinni „og þá höfðum við fengið þau skilaboð að þeir ætluðu sér að leysa málið í góðu gagnvart okkur og við förum á fundinn í góðri trú að þeir ætli sér bara þá að leiðrétta málið fyrst að þeir töldu sig hafa eitthvað meint framsal en þá kom bara á daginn að þeir voru ekkert á þeim buxunum og ég náttúrulega auðvitað, maður var mjög hvumsa yfir þessu.“ Um áðurnefnt símtal milli ákærða og P kvaðst N hafa hlutast til um að það símtal var tekið upp. Ástæða þess hafi verið sú að í kjölfar fréttaflutnings 1. febrúar 2011 hafi farið að renna á hann tvær grímur „þannig að daginn eftir, 2. febrúar, bað ég [...] um að hringja í hann og spyrja hvernig þetta gæti staðist, hvernig í pottinn væri búið, og þá kemur bara í ljós eins og P segir, þar segir hann bara fullum fetum að ég hafi aldrei átt þetta félag.“ Að sögn N var þetta í fyrsta skipti sem hann átti samskipti við [...] vegna þessa máls. Þá er þess loks að geta að í skýrslu sinni kvaðst N enga aðkomu hafa átt að ráðstöfun á arðgreiðslu til I og ekki einu sinni vitað af þeirri greiðslu.
Vitnið KK, forstöðumaður rekstrarsviðs Sparisjóðsins og staðgengill sparisjóðsstjóra á árunum 2007-2008, kvaðst ekki muna hverjir hefðu tekið ákvarðanir fyrir hönd B ehf., en að hann gæti fullyrt að allar ákvarðanir „sem voru teknar þarna alvarlegar voru gerðar í samáði og með samþykkt yfirmanna okkar í sparisjóðnum, hvort sem það voru Geirmundur sparisjóðsstjóri eða þeir sem voru sparisjóðsstjórar á undan honum.“ Hafi honum ekki verið kunnugt um að félagið ætti í viðskiptum með stofnfjárbréf eða að það hafi verið að veita lán fyrir stofnfjárkaupum. Þá kvaðst hann ekki þekkja til félagsins I.
Vitnið P skýrði svo frá, spurður um aðkomu sína að félaginu I, að á lokametrunum við endurskoðun ársreikningsins Sparisjóðsins A fyrir árið 2007 hafi komið fram beiðni um að fá félag „og Deloitte seldi þetta félag til sjóðsins“. Beiðnin hafi komið frá ákærða. Kvaðst hann ekki muna hver hafi verið skráður eigandi félagsins samkvæmt framsalspappírum eftir að Deloitte framseldi það, en N hafi verið í stjórn þess. Kvaðst P ekki hafa samið framsalssamninginn en komið þeim skilaboðum á framfæri að það vantaði félag undir tiltekna eignarhluti í sparisjóðnum. Taldi P það vel geta verið að hann hafi hitt N og verið viðstaddur þegar hann skrifaði undir samninginn. Spurður um tilgang félagsins svaraði P því til að mikil vinna hafi verið lögð í þennan ársreikning þar sem Sparisjóður A hefði verið að sameinast Sparisjóði J og Sparisjóði K. Sumarið áður hefði Sparisjóður A eignast hluti í fyrrnefnda sjóðnum „og síðan þegar við erum á lokametrunum að setja upp samstæðuna fyrir þessa sjóði, eða klára samrunann, að þá kemur upp að þessir hlutir eru þarna í B og í framhaldi af því þá biður Geirmundur um að þeir séu settir í annað félag.“ Kvaðst hann ekki vita hver ástæðan hafi verið fyrir því. Þar sem eignarhlutirnir hafi verið í eigu dótturfélags sparisjóðsins hefðu þeir ekki eyðst í sjálfu sér við samrunann en í samstæðureikningi hefðu þeir „nettast“ út þar sem þetta væru hlutir innan samstæðu. Hefði það haft þau áhrif að lækka eiginfé samstæðunnar. Aðspurður kannaðist hann ekki við að hafa veitt ráðgjöf um að færa stofnfjárbréfin í annað félag. Þá kvaðst hann engar ákvarðanir hafa tekið fyrir hönd I og ekki vita hverjir hefðu gert það. Spurður um tölvubréf frá 20. júní 2008 til N um að hann ætti að senda reikninga frá Deloitte til „JJ.“ kvaðst hann lítið geta sagt um það en taldi líklegt að hann hafi haft samband við JJ, sem hafi verið yfir bókhaldinu hjá sparisjóðnum, áður en tölvubréfið var sent. Sparisjóðurinn hafi borgað „allan kostnað og [séð] um allt utanumhald. Öll okkar samskipti voru við sparisjóðinn um þetta félag.“ Spurður um samskipti sín við O kvaðst P vita að hann hafi verið í varastjórn I, en hann gæti ekkert sagt um samskipti þeirra í milli sem sérstaklega tengdust félaginu. Spurður út í framburð sinn hjá lögreglu þar sem hann lýsti því að upphafið að viðskiptunum hafi verið í janúar 2008 hjá „okkur“ og mætti rekja til minnispunkta, lýsti P því að þetta hefðu verið „review notes, þegar verið er að fara yfir liði í efnahagsreikningi og síðan höfum við óskað eftir staðfestingum um ákveðna hluti og fengið upplýsingar um það að þessir hlutir hafi verið færðir inn í sér félag og færð hafi verið skuld við B“. Spurður um bókhaldsfærslur í B í lok árs 2007, þar sem fram komi að hlutir í sparisjóðnum séu færðir á viðskiptamann, og þýðingu þessa, svaraði P því til að þar með hefðu B ehf. ekki lengur átt þá stofnfjárhluti sem um ræðir og í stað þeirra stofnast krafa á viðskiptamann. Hefði I ehf. verið eigandi hlutanna um áramótin. Þegar borið var undir P að fyrir lægi að það félag hafi ekki komið inn í myndina fyrr en í mars 2008 svaraði hann því til að það hafi verið „gengið frá þessu í kringum samrunann í mars 2008“. Hafi Deloitte fengið þær upplýsingar að í lok árs 2007 hefði komist á bindandi samningur og þetta félag svo orðið aðili að þeim samningi. Samningurinn sem hann vísi hér til hafi verið „um kaupin á þessum eignarhluta yfir í annað félag, það væru einhverjir aðrir aðilar utan sparisjóðsins sem ættu að eignast þessa hluti“. Hafi sparisjóðurinn í mars 2008 beðið um félag til þess að færa þessa hluti í og þeir orðið við þeirri beiðni með því að láta þá hafa I. Fyrir hafi legið „upplýsingar um það þarna á þessum tíma að þetta væri á grundvelli bindandi samnings sem væri um þessi viðskipti sem höfðu orðið þarna á árinu 2007 og þetta væri þá í rauninni bara formsatriði að klára þessi viðskipti.“ Aðkoma Deloitte að þessum viðskiptum hafi aðeins verið sú að útvega félagið og hafi hann aldrei beðið N um að ganga í stjórn þess. Þá kvaðst hann ekki muna hvernig það kom til að O tók sæti í varastjórn félagsins eða hvað hann hafi sagt við O um það hver væri eigandi þess. Spurður um símtal hans við ákærða 2. febrúar 2011, sem áður er vitnað til, kvaðst P ekki kunna á því skýringar að hann hafi þar sagt að Nhefði aldrei átt hlut í félaginu og að N ætti engan hlut að máli. Kvaðst hann ekki vita af hverju N hafi verið nefndur til sögunnar á sínum tíma „af því þegar þessi viðskipti koma til þarna í árslok 2007, að það eigi að færa þessa hluti í annað félag, að þá er ég á þeirri skoðun að það hafi aðrir átt að eiga þessa hluti“. Skýrði P þessi orð sín svo að hann ætti þar við einhverja aðra stofnfjáraðila en svo „þegar á að fara að efna þessi viðskipti, þá nefnir Geirmundur nafn [...], að hann eigi að vera í stjórn þessa félags, meira veit ég ekki“.
Vitnið O, sem á þeim tíma sem um ræðir í málinu gegndi starfi yfirmanns [...] í fjármáladeild Deloitte hf., skýrði svo frá aðkomu sinni að málinu að P, endurskoðandi sparisjóðsins, sem starfaði á sömu hæð og hann á endurskoðunarskrifstofunni, hafi beðið hann um að taka sæti í varastjórn I, en beiðnir um að taka sæti í stjórnum einkahlutafélaga hafi ekki verið óalgengar á þessum tíma. Kvaðst O reikna með að hafa undirritað skjal um breytt eignarhald að félaginu 7. mars 2008, eins og umrætt framsalsskjal bæri með sér. Aðspurður kvaðst hann hafa átt samskipti við P og JJ, fjármálastjóra hjá Sparisjóði A, við stofnun félagsins en engin samskipti átt við ákærða af því tilefni. Hafi P skýrt svo frá að um væri að ræða félag í eigu Sparisjóðs A og „ég vissi aldrei annað en að það væri þannig, fyrr en seinna þegar ég fer að skoða málið aðeins“. Það hafi gerst með þeim hætti að fjárnámsbeiðnir hafi farið að berast til hans í kjölfar þess að N sagði sig úr stjórn félagsins. Hann hafi þá talað við JJ og P til að fá á hreint hvað væri í gangi. Hafi hann hitt P á fundi, en auk þeirra hafi þar verið mættir N og UU lögfræðingur „og N segist ekkert vera tengdur félaginu öðru bara en að vera í stjórn.“ Hafi UU þá haft undir höndum kaupsamning 7. mars 2008 sem var undirritaður af N „en hann sagðist ekki hafa átt félagið, sem var auðvitað algjörlega á móti því sem raunverulega stóð í því plaggi.“ Kvaðst O síðar hafa óskað eftir öðrum fundi með N til að fá á hreint hvað hann ætlaði að gera með félagið. Á fund sem haldinn var í kjölfarið með O hefðu mætt ákærði, UU og P. N hafi ekki látið sjá sig. Kvaðst O hafa leitað eftir svörum en verið sagt að hann þyrfti sjálfur að setja félagið í gjaldþrot og ákærði boðið honum fyrir það 250.000 krónur, eða að hann skyldi greiða helminginn á móti því sem þyrfti að greiða til að setja félagið í þrot. Kvaðst hann hafa tekið algjörlega fyrir það. Aðspurður kvaðst hann ekkert hafa komið að rekstri I og ekki þekkja til þeirra viðskipta með stofnfjárbréf í sparisjóðnum sem fóru yfir í félagið. Hann hafi aldrei séð „nein gögn annað en bara það að það var verið að stofna eðlilegt félag í kring um rekstur“. Hann hafi hvorki heyrt af því að félagið hefði fengið greiddan arð né haft vitneskju um hvernig þeirri greiðslu var ráðstafað frá félaginu.
Vitnið LL, sem starfaði sem lögfræðingur hjá Deloitte hf. á árunum 2007 og 2008, kannaðist við undirskrift sína á samning um framsal á einkahlutafélaginu I ehf. frá Deloitte til N og kvaðst hafa útbúið hann. Hann gæti ekki munað hvort hann hafi verið viðstaddur þegar N skrifaði undir samninginn og ekki heldur hvort N hafi verið kynnt sérstaklega yfirlýsing framseljanda á skjalinu. Þá var hann helst á því að P hafi beðið hann um að útbúa framsalssamninginn. Loks rak hann ekki minni til þess að hafa átt samskipti við ákærða.
Þrír aðrir starfsmenn Deloitte, sem samkvæmt gögnum málsins áttu ýmist aðkomu að umræddum framsalssamningi eða gerð skilagreina og skattframtala fyrir I, gáfu skýrslu fyrir dómi. Að því undanskildu, að enginn þeirra kvaðst muna eftir að hafa átt samskipti við N vegna málefna I ehf., kom ekkert fram í vitnisburði þeirra sem þýðingu getur haft við úrlausn málsins.
VI
1.
Annað meginskilyrðið fyrir því að háttsemi teljist refsiverð samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga er að maður hafi misnotað aðstöðu sem hann hefur fengið til að gera eitthvað sem annar verður bundinn við. Skilyrðið hefur meðal annars verið skýrt á þann veg að þegar þannig háttar til að heimild þess, sem hefur slíka aðstöðu, er ekki svo skýr sem skyldi nægi til þess að hann baki sér refsiábyrgð að færðar séu sönnur á að hann hafi verulega vikið frá þeim starfsháttum sem honum hlaut að vera ljóst að af honum væri krafist. Hitt meginskilyrðið fyrir því að háttsemi teljist refsiverð samkvæmt þessari lagagrein er að fyrir hendi hafi verið auðgunarásetningur hjá þeim, sem sakaður er um slíkt brot, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Nægir í því sambandi að sýnt sé fram á að háttsemin hafi valdið verulegri fjártjónshættu fyrir þann sem bundinn varð af henni.
2.
Á fundi sínum 12. febrúar 2008 veitti stjórn Sparisjóðsins A ákærða heimild til að selja allt hlutafé sjóðsins í E ehf. Það gerði hann 31. mars sama ár þegar hann undirritaði fyrir hönd sjóðsins samning um kaup C ehf. á hlutafénu fyrir 1.000.000 króna. Það er áður rakið að í samningnum var ákvæði þar sem fram kom að sparisjóðurinn hefði gengist í ábyrgð fyrir E ehf. að fjárhæð 100.000.000 króna, sem ekki væri enn orðin virk, en ef til þess kæmi gæti hann krafið kaupandann um allt að 10.000.000 króna. Fyrir liggur, svo sem áður er getið, að verulegir fjárhagsörðugleikar steðjuðu að E ehf. á þessum tíma. Í viðleitni sinni til að bjarga félaginu áttu hluthafar í því í viðræðum við helsta lánardrottinn þess, D hf., sem upphaflega gengu út á það að þeir myndu ábyrgjast greiðslu á láni samkvæmt fyrirliggjandi drögum að lánssamningi að hámarki 712.508.986 krónur þar sem ábyrgð hvers og eins ábyrgðarmanns skyldi vera 14.035% af hámarksfjárhæðinni. Á framangreint samningsákvæði rætur sínar að rekja til þessa. Í kafla II.3 hér að framan er gerð grein fyrir framgangi þessara viðræðna og þar um stuðst við tölvubréf sem gengu á milli fyrirsvarsmanna tiltekinna hluthafa í E ehf. og send voru ákærða vegna Sparisjóðsins A allt fram til 9. apríl 2008. Í þessum samtímagögnum kemur annars vegar fram að þegar kaupsamningurinn var gerður lá engin niðurstaða fyrir um það hvort þessir hluthafar myndu allir gangast undir þá ábyrgðarskuldbindingu sem til umræðu var í þeirra röðum. Ákveðnar vonir stóðu þó til þess að takast myndi að leiða málið til lykta á þeim grunni sem að var stefnt. Hins vegar er ljóst samkvæmt þessum gögnum að þegar yfirdráttarheimild upp á 100.000.000 króna til handa C ehf. var stofnuð 16. júní 2008 benti allt til þess að þessar tilraunir væru að fara út um þúfur. Benda gögnin reyndar til þess að strax um miðjan apríl hafi stefnt í þá niðurstöðu. Vonir um hið gagnstæða brustu síðan endanlega á fundi stjórnar E ehf. 1. júlí 2008 og svo sem rakið er í kafla II.4. Var ákærði samkvæmt framansögðu jafnan upplýstur um gang þessara viðræðna allt þar til í það stefndi að samkomulag myndi ekki takast. Þá var hann formaður bankaráðs D hf.
Svo sem að framan greinir undirritaði ákærði kaupsamninginn við C ehf. og samkvæmt vitnisburði DD eiganda félagsins, átti hann aðallega samskipti við ákærða um málefni þess. Hefur hann meðal annars lýst því að ákærði hafi beðið hann um að fá að setja upp yfirdráttarheimild á reikning C ehf. hjá Sparisjóðnum A. Þá hefur vitnið EE, sem starfaði sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Sparisjóðsins A og heyrði sem slíkur beint undir ákærða, borið á þann veg að hann hafi skráð umrædda yfirdráttarheimild inn í kerfi sjóðsins að beiðni ákærða. Er ekkert fram komið í málinu sem er til þess fallið að rýra trúverðugleika þessa vitnisburðar. Er að þessu virtu hafnað þeirri málsvörn ákærða að hann hafi enga aðkomu átt að ákvörðun um þetta og talið sannað að hann hafi mælt fyrir um að yfirdráttarheimildin skyldi stofnuð.
Í kaupsamningnum frá 31. mars 2008 var samkvæmt framansögðu afdráttarlaust tekið fram að Sparisjóðurinn A hefði tekið á sig ábyrgð fyrir E ehf. að fjárhæð 100.000.000 króna. Er ekki annað í ljós leitt en að niðurstaða um þann fyrirvara sem gerður var um ábyrgðina myndi í samræmi við það sem að framan er rakið ráðast af því hvort aðrir hluthafar í félaginu veittu samþykki sitt fyrir sambærilegri ábyrgð af sinni hálfu í tengslum við skuldaskil þess gagnvart D hf. og að samningur hefði að öðru leyti komist á um þau. Ábyrgð sparisjóðsins hafi þannig ekki á neinn hátt verið önnur og víðtækari en í þessu fólst. Þá breytti sala á hlut sjóðsins í E ehf. til C ehf. engu um ábyrgð hans. Til samræmis við þetta og með vísan til vitnisburðar DD liggur að mati dómsins ekki annað fyrir en að það hafi verið ætlunin að standa skil á ábyrgðarfjárhæðinni með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar voru á reikningi C ehf. hjá Sparisjóðnum A í júní 2008 og að það hafi aldrei staðið til að félagið yrði endurkrafið um hana, ef undan er skilinn hlutur þess í ábyrgðinni samkvæmt kaupsamningi. Má um þetta einnig vísa til skýringa sem DD gaf á tilurð yfirdráttarheimildarinnar í greinargerð til héraðsdóms 6. maí 2012 í tilefni af kröfu um gjaldþrotaskipti á búi C ehf., en þar greinir hann meðal annars frá því að ákærði hafi tjáð honum eftir undirritun kaupsamningsins að hann myndi setja ábyrgðina gagnvart E ehf. „á heimild hjá félaginu C ehf. þangað til hann hefði fundið þessu fjármagni farveg.“ Hafi DD þá strax gert ákærða grein fyrir því „að ef hann ætlaði að gera þetta svona þá yrði það að vera alveg á hreinu að hann myndi klára það fyrir árslok og var mér tjáð að það yrði gert og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því.“
Það leiðir af því sem að framan greinir að ekki var um eiginlega lánveitingu að ræða þegar umrædd yfirdráttarheimild var stofnuð heldur telst sú ráðstöfun hafa verið liður í efndum af hálfu Sparisjóðsins A á tilteknum skuldbindingum sjóðsins gagnvart E ehf. annars vegar og C ehf. hins vegar. Saksókn í málinu og þar með sönnunarfærsla í því hefur ekki verið markaður farvegur til samræmis við þetta. Miðað við þessi atvik var þannig ekkert sem kallað á það í tengslum við yfirdráttarheimildina að leitað yrði eftir afstöðu lánanefndar, að áhættu- eða greiðslumat færi fram og að trygginga yrði aflað, svo sem byggt er á í ákæru. Við þetta bætist að gegn eindreginni neitun ákærða þykir óvarlegt að telja það sannað að hann hafi komið því til leiðar eða stuðlað að því með öðrum hætti að D hf. var veitt handveð í innstæðu á reikningi C ehf. hjá bankanum 18. júní 2008 til tryggingar skuldum og skuldbindingum E ehf., en án veðsetningarinnar gat bankinn ekki leitað fullnustu í innstæðunni.
Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að sýkna ákærða af sakargiftum samkvæmt fyrri kafla ákæru.
3.
Svo sem fram er komið taka sakargiftir samkvæmt seinni kafla ákæru til stofnfjárbréfa sem áttu uppruna sinn í Sparisjóði J annars vegar og Sparisjóði K hins vegar. Liggur fyrir að í lok árs 2007 voru þau í eigu B ehf., dótturfélags Sparisjóðsins A, en þá lá jafnframt fyrir að stofnfjáraðilar þessara sparisjóða og Sparisjóðsins A höfðu samþykkt samruna sjóðanna þriggja undir nafni þess síðastnefnda, sem taka skyldi við öllum réttindum og skyldum hinna sjóðanna frá og með 1. júlí 2007. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann 22. febrúar 2008. Ágreiningur er um það hvenær samruninn öðlaðist lögformlega gildi, en sé miðað við þann skilning ákærða að það hafi gerst þegar Fjármálaeftirlitið samþykkti hann var fram að þeim tíma um að ræða stofnfjárbréf í Sparisjóði J og Sparisjóði K. Sé skilningur ákæruvalds á hinn bóginn lagður til grundvallar urðu bréfin að stofnfjárbréfum í Sparisjóði A um leið og stofnfjáraðilar sjóðanna þriggja höfðu samþykkt samruna þeirra í desember 2007. Hvað sem þessum ágreiningi líður má ljóst vera að saksókn á hendur ákærða tekur til þess að hann hafi ráðstafað þessum stofnfjárbréfum til einkahlutafélagsins I, sem samkvæmt gögnum málsins varð eign [...], N, 7. mars 2008, án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir þau og að við framsalið hafi stofnast krafa í bókhaldi B ehf. á I ehf. án þess að lánssamningur væri gerður og trygging sett fyrir því að hún yrði greidd. Stendur því ekkert í vegi að tekin sé afstaða til þessara sakargifta, enda má einu gilda með tilliti til þess brots sem ákærða er gefið að sök hvernig atvikum var nánar háttað.
Ákærði var formaður stjórnar B ehf. Með framburði hans telst fram komið að hann hafi verið með í ráðum þegar tekin var ákvörðun um að færa stofnfjárbréf í eigu þess yfir í annað félag. Hann hefur þó haldið því fram að samþykki hans fyrir þessari yfirfærslu á stofnfjárbréfunum hafi verið byggt á þeirri forsendu að áfram yrði haldið utan um þau í félagi sem væri að fullu í eigu sparisjóðsins og hann hafi enga vitneskju haft um annað.
Þegar umrædd stofnfjárbréf voru ekki lengur í eigu Sparisjóðsins A eða dótturfélags sjóðsins, B ehf., var í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að þeim yrði ráðstafað án aðkomu hans og án þess að fyrir hendi væri trygging fyrir því að skuld I ehf. við B ehf., sem þá var sögð nema 683.368.783 krónum, yrði greidd. Til slíkrar ráðstöfunar kom ekki.
Í kafla III.3 hér að framan er gerð grein fyrir efni samtímagagna sem tengjast þeim sakargiftum sem hér eru til umfjöllunar. Þá er í kafla V.2 rakinn framburður vitna við aðalmeðferð málsins að því marki sem þýðingu hefur að mati dómsins við úrlausn um þær. Af því sem fram kemur í gögnunum má ljóst vera að umsýsla af ýmsu tagi sem snerti I ehf. var í höndum starfsmanna Sparisjóðs A þrátt fyrir að félagið væri samkvæmt opinberri skráningu ekki í eigu hans og hann greiddi kostnað af henni. Þannig önnuðust þeir samskipti við endurskoðendur í tengslum við skattskil félagsins, gerð ársreikninga þess og skil á þeim. Þá verður ekki annað séð en að aðkoma N að málefnum félagsins hafi einskorðast við það að koma gögnum sem honum bárust og vörðuðu félagið í hendur starfsmanna sparisjóðsins til afgreiðslu. Loks er þess að geta að arður af stofnfjárbréfunum, 44.750.000 krónur, rann óskertur til sparisjóðsins, en ákvörðun um greiðslu arðs var tekin á fundi stjórnar sjóðsins 12. mars 2008. Hið sama á við um endurgreiðslu á fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 5.350.000 krónur 26. júní 2008. Að mati dómsins renna framlögð gögn að öðru leyti og framburður vitna fyrir dómi frekari stoðum undir það að aldrei hafi staðið til að forræði yfir stofnfjárbréfunum, sem ákæra tekur til, flyttist í reynd frá Sparisjóði A eða dótturfélagi hans og sjóðurinn gæti þar með ekki lengur varið hagsmuni sína tengda þeim, heldur hafi ástæður sem lutu að virði bréfanna í ljósi þess samruna, sem til var kominn, orðið til þess að sú leið var farin sem að framan er lýst. Er um þetta sérstaklega vísað til vitnisburðar JJ, forstöðumanns fjármálasviðs sparisjóðsins, og greinargerðar sem hann ritaði 6. febrúar 2011 og gerð hefur verið grein fyrir, sem að mati dómsins lýsa vel þeirri stöðu sem uppi var og umræðum um ráðstafanir í tengslum við hana. Af þessu leiðir að ekki er ástæða til að ætla að fjártjónshætta hafi verið samfara þeirri ráðstöfun sem saksókn tekur til. Má þá einu gilda hvort raunveruleg þörf hafi verið á því að ráðast í hana í ljósi þeirra hagsmuna sem leitast var við að verja með henni.
Að því virtu sem að framan er rakið standa engar forsendur til þess að líta megi svo á að skilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 243. gr. laganna, um auðgunarásetning sé uppfyllt í málinu. Er ákærði þegar af þeirri ástæðu sýknaður af sakargiftum samkvæmt seinni kafla ákæru.
VII
Samkvæmt öllu framansögðu er ákærði alfarið sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákæru.
Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála verður allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin verða að teknu tilliti til virðisaukaskatts eins og í dómsorði greinir.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Geirmundur Kristinsson, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlausn skipaðs verjanda ákærða, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 7.161.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.