Hæstiréttur íslands

Mál nr. 579/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                                                              

Mánudaginn 7. nóvember 2011.

Nr. 579/2011.

Einar Ólafsson

(Klemenz Eggertsson hdl.)

gegn

Friðriki Ingva Jóhannssyni

Önnu Þorbjörgu Jónsdóttur

Geir Guðjónssyni

Ingveldi Kr. Friðriksdóttur

Friðriki Ara Friðrikssyni

Guðrúnu Ólínu Geirsdóttur

Mikkalínu M. Friðriksdóttur

Jóni Ingva Geirssyni

Sigurjóni H. Friðrikssyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 og

Fagraási ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

E kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur F og fleiri var vísað frá dómi. Aðila greindi á um landamerki jarðanna Vestur-Sviðholts og Sviðholts á Álftanesi. Á fyrri stigum málsins hafði héraðsdómur hafnað kröfu F og fleiri um frávísun þar sem öflun sýnilegra sönnunargagna var ekki lokið og E hafði enn færi á að afla og leggja fram frekari gögn. Að lokinni aðalmeðferð tók héraðsdómur að nýju til skoðunar hvort vísa bæri málinu frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms sagði að telja yrði málatilbúnað E vera haldinn slíkum annmörkum og það vanreifaðan að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.      

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2011, þar sem málinu var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „lagt fyrir héraðsdómara að taka dómkröfurnar til efnismeðferðar.“ Hann krefst og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

          Sóknaraðili, Einar Ólafsson, greiði varnaraðilum, Friðriki Ingva Jóhannssyni, Önnu Þorbjörgu Jónsdóttur, Geir Guðjónssyni, Ingveldi Kr. Friðriksdóttur, Friðriki Ara Friðrikssyni, Guðrúnu Ólínu Geirsdóttur, Mikkalínu M. Friðriksdóttur, Jóni Ingva Geirssyni og Sigurjóni H. Friðrikssyni sameiginlega 300.000 krónur og Fagraási ehf. 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2011.

Mál þetta, sem var tekið til dóms 19. september sl., var höfðað 29. september 2009.

Stefnandi er Einar Ólafsson, Gesthúsi, Álftanesi.

Stefndu eru Friðrik Ingvi Jóhannsson, Sviðholti, Álftanesi, Anna Þorbjörg Jónsdóttir, Lindasmára 95, Kópavogi, Ingveldur Kr. Friðriksdóttir, Hlíðarvegi 66, Kópavogi, Friðrik Ari Friðriksson, Blikahjalla 16, Kópavogi, Guðrún Ólína Geirsdóttir, Grófarsmára 25, Kópavogi, Mikkalína M. Friðriksdóttir, Lindasmára 95, Kópavogi, Jón Ingvi Geirsson, Álfholti 56B, Hafnarfirði og Sigurjón H. Friðriksson, Vesturhúsum 5, Reykjavík, Geir Guðjónsson, Vogatungu 31, Kópavogi og Fagriás ehf., Brúnastöðum 73, Reykjavík.

Í málinu gerir stefnandi þær dómkröfur óskipt gagnvart öllum stefndu, að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Vestur-Sviðholts (áður Sviðholts II og III), fasteignanúmer 123589, eign stefnanda og Sviðholts, fasteignanúmer 123241 í óskiptri eign stefndu, Friðriks Ingva, Önnu Þorbjargar, Jóhönnu og Geirs, Sveitarfélaginu Álftanesi, og lands úr jörðinni Sviðholti, Spilda C úr landi Sviðholts, landnúmer 206449, sem stefndu Friðrik Ingvi o.fl. seldu meðstefnda Fagraási ehf. hinn 31. janúar 2006, austan Suðurnesvegar, sé samkvæmt framlögðum hnitsettum uppdrætti gerðum af Jóni Þór Björnssyni verkfræðingi á Hnit verkfræðistofu hf., dags. 27. maí 2008, dskj. 3, eftir línu, sem dregin er milli mælipunkta, upphafspunkti nr. 145, (hnit austur-26810.502 og norður 12942.749) nr. 146, (hnit austur-26803.620 og norður 12943.741), nr. 147, (hnit austur-26776.400 og norður 12947.700), nr. 148, (hnit austur-26773.340 og norður 12926.660), nr. 149, (hnit austur-26786.900 og norður 12923.680) og nr. 150, endapunktur, (hnit austur-upphafspunktur, hnit austur-26799.086 og norður 12917.047), nr. 153, (hnit austur-26785.730 og norður 12920.140), nr. 154, (hnit austur-26776.957 og norður 12921.533), nr. 155, (hnit austur-26776.423 og norður 12919.309), nr. 156, (hnit austur-26774.011 og norður 12893.281), nr. 157, (hnit austur-26758.551 og norður 12896.075), nr. 158, (hnit austur-26756.320 og norður 12883.910), nr. 159, (hnit austur-26747.120 og norður 12833.790) og endapunktur nr. 160 (hnit austur-26744.969 og norður 12822.073) (spilda sunnan heimkeyrslu að Sviðholti). Á stefnandi land vestan marka, en stefndu austan.

Jafnframt er þess krafist óskipt gagnvart stefndu að sala stefndu Friðriks Ingva, Önnu Þorbjargar, Jóhönnu og Geirs til meðstefnda Fagraáss ehf., á 1.316 fm landspildu úr jörðinni Vestra- Sviðholti, í heimildarleysi hinn 31. janúar 2006, verði dæmd ógild.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndu krefjast öll sýknu auk málskostnaðar.

Frávísunarkröfu stefndu var hrundið með úrskurði 2. desember 2010.

Upphaflega var Jóhönnu Jónsdóttur stefnt í máli þessu. Hún lést þann 12. febrúar 2010 og hafa erfingjar hennar, þau Friðrik Ingvi Jóhannsson, Ingveldur Kr. Friðriksdóttir, Friðrik Ari Friðriksson, Guðrún Ólína Geirsdóttir, Mikkalína M. Friðriksdóttir, Jón Ingvi Geirsson og Sigurjón H. Friðriksson tekið við aðild hennar að málinu eftir að hafa skipt dánarbúi hennar einkaskiptum, sbr. skiptayfirlýsingu dags. 24. ágúst 2010.

I.

Stefnandi lýsir helstu málsatvikum svo að hann hafi orðið eigandi jarðarinnar Vestur-Sviðholts (Sviðholt II og III) með skiptayfirlýsingu frá 8. maí 1974. Undanfarin misseri hafi Sveitarfélagið Álftanes sýnt áhuga á að kaupa jörðina ásamt hluta úr jörð stefndu Friðriks Ingva o.fl., Sviðholti og fleiri aðliggjandi jarðir. Samningaviðræður hafi farið fram, en ekki hafi orðið af kaupum og hafi þeim verið slitið af hálfu stefnanda. Í tengslum við þessar samningaumleitanir hafi stefnandi orðið þess áskynja að eigendur Sviðholts, stefndi Friðrik o.fl., hafi selt í heimildarleysi hluta úr jörð hans, Vestur-Sviðholti, til stefnda Fagraáss ehf., með kaupsamningi dagsettum 31. janúar 2006 og afsali útgefnu 28. nóvember 2007. Sé um að ræða 1.316 fm spildu neðan heimkeyrslu að Sviðholti samkvæmt framlögðum uppdrætti Jóns Þórs Björnssonar, verkfræðings, dagsettum 24. maí 2008. Með gerningum þessum hafi eigendur Sviðholts selt stærstan hluta jarðarinnar og sé það nefnt Spilda úr landi Sviðholts I, Álftanesi, fastanr. 206449, í þinglýsingabók sýslumannsins í Hafnarfirði.

Sala þessi sé í sjálfu sér stefnanda óviðkomandi, þar sem seljandi svari til vanheimildar gagnvart kaupanda.

Við ofangreindar samningaviðræður við sveitarfélagið hafi einnig orðið ljóst að ágreiningur var um mörk jarðanna austan Suðurnesvegar, einkum vegna þess að skjal þar sem stefnandi afhenti spildu úr jörðinni undir lóð fyrir nýtt einbýlishús, sem tilgreint er sem Sviðholt I á framlögðum uppdráttum, finnst ekki.

Það muni hafa borið að með þeim hætti að sögn stefnanda, að faðir stefnda Friðriks fékk ekki leyfi til að byggja sér nýtt einbýlishús, nema að hann tryggði sér hæfilega lóð undir húsið sem væri þá inni á landi stefnanda. Faðir stefnda Friðriks hafi einhverju sinni komið með skjal sem stefnandi undirritaði og hafi það verið afhending á einhverjum fm undir lóð við húsið. Stefnandi hafi ekki fengið eintak af skjalinu og því hafi ekki verið þinglýst og hafi það ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit af hálfu stefnda Friðriks. Stefnandi hafi fengið greiddar 700 gamlar krónur fyrir skikann. Þetta muni hafa gerst á árunum 1962-1963; húsið sé fyrst skráð í fasteignamat 1964. Aðila greini á um hve stórri spildu hafi verið afsalað. Stefnandi hafi því dregið línu milli mælipunkta nr. 145-147 á meðfylgjandi uppdrætti, þannig að stefndi Friðrik, sem nú er eigandi einbýlishússins, sem nefnt er Sviðholt I, fái ríflega lóð undir einbýlishús sitt. Stefnandi telji víst að hann hafi aðeins selt skika sem hafi verið nauðsynlegur til þess að eðlileg lóð væri undir ofangreint einbýlishús. Eigendur Sviðholts verði að sýna fram á að afsalað hafi verið stærra landi.

Stefnandi hafi nýtt jörð sína til heyskapar síðustu ár.

Með afsali dagsettu 13. febrúar 1986 hafi stefnandi afsalað hluta úr jörðinni til Vegagerðar ríkisins undir breytt vegastæði fyrir Suðurnesveg. Annað land hafi ekki verið selt úr jörðinni á þessu svæði, en land jarðarinnar sé stærra.

Samkvæmt skjali nr. 35, „Landamerki jarðarinnar Sviðholts III í Bessastaðahreppi,“ í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 17. júní 1922 sé mörkum jarðanna sem hér um ræðir lýst svo:

„1. Mörk fyrir túni: Bein lína úr kálgarðshorninu við veginn í Svalbarðatröðum, niður með honum að vestan verðu í stein merktan einum kross, þaðan í beina línu vestur að Þórukotstúni í eins merktan stein...“

Í lið 2 í ofangreindu landamerkjabréfi segir m.a um „Mörk fyrir kálgörðum og landi undir bæjarhúsum...“

„Merktir staurar í kálgarðinum fram af bænum ráða mörkum í honum á milli jarðanna Sviðholts II og I annarsvegar og Sviðholts III hinsvegar, þannig að hin síðastnefnda á vestan við mörkin. Mörk austan að landi undir bænum eru úr Kálgarðshorni suðaustanvert við bæinn með fram bæjarhúsum í norður eftir steinaröð og girðingu í merktan staur fyrir norðan kálgarðinn, þaðan til vesturs í merktan staur í kálgarð norðan við veginn, þaðan bein lína með fram kálgarðinum til suðurs í merktan staur og þaðan til vesturs í kálgarðshornið sem er áfast við veginn.“

Stefnandi kveður hluta þessara kennileita vera horfin, en þó standi uppi girðing á mörkum að hluta sunnan heimkeyrslu að Sviðholti og kálgarður sé þar enn. Svalbarðatraðir hafi legið til suðurs frá bæjarhlaðinu að Sviðholti og sjáist á dómskjali nr. 5, en þar hafi þjóðvegurinn legið suður á nesið á sínum tíma og sjáist móta fyrir honum ennþá.

Ennfremur sé til gamall ómerktur og ódagsettur uppdráttur, dómskjal nr. 5, sem stefnandi segi að sýni landamerki jarðanna á þessum stað, en meira land tilheyri jörðinni og sé ekki ágreiningur um mörk þess lands svo vitað sé. Fari uppdrátturinn saman við lýsingu í ofangreindu landamerkjabréfi að því er best verði séð.

Ofangreindur uppdráttur Jóns Þórs Björnssonar verkfræðings, sem getið er um í dómkröfu, sé byggður á þessum gamla uppdrætti og upplýsingum stefnanda.

Stefndu Friðrik Ingvi Jóhannsson og fleiri mótmæla framangreindri málavaxtalýsingu stefnanda sem rangri og ósannaðri í öllum aðalatriðum og mótmæla eignartilkalli stefnanda samkvæmt dómkröfum. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þau telja að Jóhann heitinn, faðir stefnda Friðriks, hafi keypt allt landið (707 fm) af eiganda Vestra-Sviðholts, þegar hann reisti íbúðarhús sitt að Sviðholti. Húsinu hafi fyrst verð huguð staðsetning á þessum reit og byggingarfulltrúi gert kröfu til að hann keypti landið áður en byggt yrði sem Jóhann hafi gert, en síðan eftir landkaupin hafi verið ákveðið að reisa húsið norðar, þar sem það nú er. Stefndu telji stefnanda engin rök hafa til stuðnings eignarrétti að spildunni sem er merkt 2.177 fm á uppdráttum, dómskjölum nr. 3 og 4. Þegar Vegagerðin keypti land fyrir nýja Suðurnesveginn hafi hún greitt stefndu fyrir reitinn sem afmarkast af hnitum nr. 160-164 og rauðu línunni norðan við hnitin, sem sanni að stefndu áttu þann reit en ekki stefnandi, sbr. kröfugerð hér fyrir dómi. 2.177 fm reiturinn hafði áður verið tekinn af stefndu við fyrri vegaframkvæmdir um 1960 og 1984, en verið skilað til þeirra að nýju þegar vegurinn var færður til og þangað sem hann er nú. Þetta sjáist vel á dómskjali nr. 25 sem sýni spildur sem Vegagerðin tók eignarnámi vegna vegagerðar á Álftanesi, sem hófst með matsbeiðni 12.6. 1984. Vegagerðin hafi tekið eignarnámi 7.939 fm og skilað 960 fm. Á sama tíma hafi land í eigu stefnanda verið tekið eignarnámi vegna vegagerðar, sbr. dómskjal nr. 32. Þá hafi Vegagerðin greitt til stefnanda fyrir 1958,65 og 1.374,7 fm og virðist þar með tæmd þau réttindi sem hann átti við og umhverfis Álftanesveginn við Sviðholt, vestan og sunnan Sviðholtsjarðar, sunnan bæjarins við Suðurnesveg. Spildurnar sem stefnandi geri nú tilkall til virðast annars vegar hafa verið teknar eignarnámi af Vegagerðinni og stefndu fengið bætur fyrir þá skerðingu og hins vegar komnar í eigu stefndu þar sem Vegagerðin skilaði 960 fm til stefndu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi nokkru sinni átt land austan við spilduna sem er 960 fm eða austan og norðan við spilduna sem er 3.058 fm, sbr. dómskjal 25.

Við aðalmeðferð málsins gáfu munnlegar skýrslur: Aðilaskýrslur: stefnandi Einar Ólafsson og stefndi Friðrik Ingvi Jóhannsson. Vitnaskýrslur: Snorri Jóhannsson, íbúi á Álftanesi, Jón Gunnar Gunnlaugsson, íbúi á Álftanesi, Klemenz B. Gunnlaugsson, íbúi á Álftanesi, Arngrímur B. Sæmundsson, íbúi á Álftanesi og Jón Þór Björnsson verkfræðingur, búsettur á Álftanesi.

II.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins. Hann vísar til laga nr. 41/1919 um landamerki með síðari breytingum.

Stefndu Friðrik Ingvi o.fl. vísa til laga um hefð til stuðnings kröfum sínum. Stefndu hafi farið með allt landið sem málið varðar og er austan Suðurnesvegar sem sína eign um margra áratuga skeið. Faðir Friðriks hafi tekið við rekstri Sviðholts um 1960 og nytjað landið alla tíð og sama gildi um stefnda Friðrik sem tók við búinu 1996 en bjó félagsbúi með föður sínum rúm 10 ár þar áður. Landið hafi lengst af verið afgirt og þannig útilokað afnot og nýtingu annarra á landinu. Landið hafi verið nytjað til sláttu og einnig til garðyrkju og ræktunargarða, ekki einungis fyrir heimafólk heldur af öllum stefndu, eigendum Sviðholts. Hefðarreglur kveði á um að samfellt eignarhald í 20 ár sé grundvöllur eignarréttar fyrir hefð sem skapi eignarrétt að landi.

Stefnandi nefni í stefnu með óljósum hætti viðskipti um landið umhverfis íbúðarhúsið að Sviðholti. Sú frásögn staðfesti að stefndu hafi eignast spilduna í viðskiptum á árinu 1962 eða 1963 og séu því í góðri trú að þessu leyti.

Stefndu bendi á að aldrei hafi verið gerð athugasemd við nýtingu þeirra á landinu sem stefnandi geri nú tilkall til. Engin krafa um leigu, eða viðurkenningu á eignarrétti eða nokkurt einasta orð látið falla um að svo eigi að vera.

Það verði sérstaklega að telja það ólíklegt að kröfur stefnanda eigi við rök að styðjast þar sem faðir stefnanda hafi verið nokkuð málglaður maður og að rekin hafi verið nokkur dómsmál um eignarréttindi í sveitarfélaginu sem tengdust Vestra Sviðholti, en aldrei hafi verið hreyft neinum athugasemdum um blettina sem nú eru til umfjöllunar. Athafnaleysi og tómlæti stefnanda tali sínu máli.

Stefndu vísa til laga nr. 41/1919 um landamerki og laga nr. 46/1905 um hefð til stuðnings sýknukröfum.

Af hálfu stefnda Fagraáss ehf. er sýknukrafa á því byggð að Fagriás ehf. hafi keypt eignarland meðstefndu og að treysta hafi mátt þeim opinberu gögnum sem lögð hafi verið fram og staðfesta að um eignarland þeirra sé að ræða.

Byggt sé á reglunum um traustfang og á réttmætum væntingum stefnda. Í því sambandi sé vísað til 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, sbr. og 3. mgr. 25. gr.

Stefndi Fagriás ehf. hafi þannig verið í góðri trú og að eigninni kominn með fullkomlega eðlilegum og lögmætum hætti.

Stefndi vísar til umfjöllunar í riti Þorgeirs Örlygssonar um þinglýsingar þar sem höfundur fjallar um 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga en þar segi m.a.: „Það er meginregla samkvæmt 1. mgr. 33. gr. ÞL að aðili C sem fær eignarréttindi yfir eign með samningi við þinglýstan eiganda B þarf ekki að sæta þeirri mótbáru, að heimildarbréf B sé óskuldbindandi fyrir A upphaflegan eiganda, ef C er grandlaus um ógildingarástæðuna.“ Þorgeir haldi áfram og segi: „Ef C, sem hvorki veit né má vita um framangreinda agnúa (hér á Þ við svik) á afsali A til B ætti að láta af rétti sínum gæti það leitt til óöryggis í öllum viðskiptum. Grundvöllur myndi hrynja undan mörgum réttindum og gæti slíkt haft víðtækar afleiðingar aftur í tímann.“

Stefndi Fagriás ehf. sé kominn að eigninni með fullkomlega eðlilegum og lögmætum hætti og hafi ekki haft hugmynd um þá meintu sögu er stefnandi rekur í stefnu, er félagið tók við afsalinu. Félagið hafi að öllu leyti farið að þeim reglum sem gilda um aðilaskipti að eignarréttindum og eigi því þau réttindi, er það keypti og því voru afsöluð. Auk þess byggi stefndi á öllum rökum og málsástæðum meðstefndu sem fram komi í greinargerð þeirra.

III.

Í máli þessu er deilt um landamerki jarðanna Vestur-Sviðholts, sem er eign stefnanda, og jarðarinnar Sviðholts á Álftanesi, sem er að hluta til í óskiptri sameign stefndu, Friðriks Ingva Jóhannssonar, Önnu Þorbjargar Jónsdóttur, Geirs Guðjónssonar, Ingveldar Kr. Friðriksdóttur, Friðriks Ara Friðrikssonar, Guðrúnar Ólínu Geirsdóttur, Mikkalínu M. Friðriksdóttur, Jóns Ingva Geirssonar og Sigurjóns H. Friðrikssonar, en að hluta til í eigu stefnda Fagraáss ehf. Fram kemur í gögnum málsins að með kaupsamningi, dagsettum 31. janúar 2006, seldu stefndu stefnda Fagraási 58.650 fm spildu úr landi Sviðholts og taka dómkröfur stefnanda um landmerki jarðanna bæði til þess hluta jarðarinnar sem er í óskiptri sameign stefndu og fyrrgreindrar spildu. Afsal var gefið út fyrir spildunni 28. nóvember 2007 og samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði er stefndi Fagriás ehf. þinglýstur eigandi hennar.

Þá gerir stefnandi þá kröfu í málinu að sala stefndu Friðriks Ingva o.fl. til meðstefnda Fagrááss ehf. á 1.316 fm landspildu úr jörðinni Vestra- Sviðholti, í heimildarleysi hinn 31. janúar 2006, verði dæmd ógild.

Eins og áður greinir er landamerkjum jarðarinnar Sviðholts III í Bessastaðahreppi svo lýst í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 17. júní 1922:

„1. Mörk fyrir túni: Bein lína úr kálgarðshorninu við veginn í Svalbarðatröðum, niður með honum að vestan verðu í stein merktan einum kross, þaðan bein lína vestur að Þórukotstúni í eins merktan stein...“

Í lið 2 í ofangreindu landamerkjabréfi segir m.a. undir fyrirsögninni „Mörk fyrir kálgörðum og landi undir bæjarhúsum.“:

„Merktir staurar í kálgarðinum fram af bænum ráða mörkum í honum á milli jarðanna Sviðholts II og I annarsvegar og Sviðholts III hinsvegar, þannig að hin síðastnefnda á vestan við mörkin. Mörk austan að landi undir bænum eru úr Kálgarðshorni suðaustanvert við bæinn með fram bæjarhúsum í norður eftir steinaröð og girðingu í merktan staur fyrir norðan kálgarðinn, þaðan til vesturs í merktan staur við kálgarð vestan við veginn, þaðan bein lína með fram kálgarðinum til suðurs í merktan staur og þaðan til vesturs í kálgarðshornið sem er áfast við veginn.“

Stefnukröfur í málinu eru reistar á útreikningum Jóns Þ. Björnssonar verkfræðings á flatarmáli Vestur-Sviðholts. Í uppdráttum Jóns Þ. Björnssonar segir: „Vestur-Sviðholt: Útreikn. á flatarmáli.

Útreikningar gerðir samkvæmt GPS- mælingu Hnits, ásamt loftmyndakortgrunni Hnits h/f frá 2002 og samkv. gömlum landamerkjakortum og ábendingum Einars Ólafssonar um eignarmörk Vestur-Sviðholts. Gera má ráð fyrir um -+ 0,25 m skekkju í hnitum girðinga úr loftmyndaflugi, t.d. vegna halla girðingarstaura. Kortgrunnur: Loftmyndakort frá Hnit h/f, flug 2002. Hnitakerfi Reykjavíkur. Mælikv. = 1: 750.“

Jón Björnsson staðfesti fyrir dómi þá uppdrætti sem hann gerði og lagðir hafa verið fram sem dómskjöl 3, 4, 7, 24 og 25. Uppdrættina kvaðst hann hafa unnið út frá grunnkorti Álftaness og loftmyndakorti úr flugi úr 2000 metra hæð og einnig GPS mælingum á einstökum svæðum þar sem það var nauðsynlegt. Flestir punktar á uppdrætti á dskj. 3 séu mældir punktar. Hann kvaðst hafa verið beðinn um að mæla svæðin sem eru sýnd á kortinu. Hann hefði mælt svæðin í samráði við stefnanda og samkvæmt upplýsingum frá honum einkum varðandi efra svæðið. Hann hefði ekki gert annað en að mæla inn girðingarnar sem voru þarna. Þetta hefði verið uppmæling á svæðinu. Þetta hefði verið mælt eins og staðan var þarna er mæling fór fram. Hann kvaðst ekki hafa notað gamla uppdráttinn á dskj. nr. 37. Töluverð kvarðaskekkja væri í þeim uppdrætti. Hann kvaðst ekki vita hvaðan sá uppdráttur kom. Aðpurður um gömul „landamerkjakort“ sem vitnað er í á uppdráttum vitnisins kvaðst hann hafa notað þau til hliðsjónar. Mæling hefði hins vegar verið gerð á staðnum eins og staðan var. Hann hefði verið með eldri landamerkjakort, m.a. kortið á dskj. 37, en ekki getað notað kortin, sem ekki voru hnitsett og á þeim hafi enginn kvarði verið. Mun eldri kort hefðu verið til. Ekki hefði verið hægt að koma þeim við. Hann hefði ekkert farið ofan í landamerkjalýsinguna á dskj. nr. 8.

Er frávísunarkröfu stefndu var hafnað 2. desember 2010 var það einkum byggt á því að rök stefndu fyrir frávísunarkröfu lytu fremur að sönnunargildi framlagðra gagna og skorti á gögnum en vanreifun og vörðu því fremur efnishlið málsins. Var sérstaklega tekið fram öflun sýnilegra sönnunargagna hefði ekki verið lýst lokið og stefnandi hefði því enn tækifæri til að afla og leggja fram frekari gögn. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki nýtt sér það tækifæri sem honum var með þessu gefið til að afla ítarlegri gagna og treysta málatilbúnað sinn frekar og verður því að leggja mat á það nú hvort málið sé það vanreifað að á það verði ekki lagður efnisdómur og því beri að vísa málinu frá dómi án kröfu. Fram kom í málflutningi lögmanna stefndu að þeir teldu enn vera rök fyrir því að vísa málinu frá dómi án kröfu. Málatilbúnaður stefnanda væri enn svo vanreifaður og ófullkominn að enn kæmi til greina að vísa máli frá dómi. Stefnandi hefði ekki bætt úr gagnaskorti.

Að mati dómsins eru annmarkar á málatilbúnaði stefnanda. Kröfugerð stefnanda þykir í ljósi þess sem áður er rakið sannanlega ekki vera reist á réttum grundvelli, þ.e.a.s á landamerkjum, auðkennum, kennileitum og öðrum merkjum sem koma fram í landamerkjalýsingu, sem verður að telja hina réttu lýsingu og afmörkun á eignarrétti og landi stefnanda.

Leggja ber landamerki til grundvallar í landamerkjamáli. Þau mörk og landamerki eða merki sem fram koma í skjölum verða að vera raunveruleg og staðfest og framlögð svo hægt sé að fjalla um málið efnislega. Kröfugerð stefnanda þykir ekki reist á viðhlítandi sönnunargögnum. Má í því sambandi vitna til framburðar Jóns Þ. Björnssonar verkfræðings, sem bar að hann hefði ekki unnið málið eftir landamerkjalýsingunni. Hann hefði farið á vettvang, tekið punkta og verið beðinn að mæla landið. Að mati dómsins er landamerkjalýsing Sviðholts á dskj. 8 frumheimild um afmörkun lands stefnanda. Sú lýsing sem þar kemur fram er hins vegar ónothæf ein og sér nema jafnframt sé sýnt á vettvangi og með uppdráttum hvar landamerkin liggja. Þarna er um að ræða ritað mál og vísað sé til kennileita og aðstæðna og hornstaurar og krosssteinar nefndir. Ekkert af þessu hefur verið fært í myndræna framsetningu. Á vettvangsgöngu dómara, lögmanna og aðila kom landamerkjalýsingin að litlu haldi vegna þess að ekki var vitað hvar hin einstöku merki eða atriði sem þar eru tilgreind voru á staðnum sjálfum. Landamerkjalýsingin er frá árinu 1922 og eru raunverulegar aðstæður því í mörgu breyttar frá því að hún var samin. Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn um staðsetningu landamerkja þeirra sem getið er í landamerkjalýsingunni á dskj. 8, hvorki með innfærslu þeirra á uppdrætti á dskj. 3, 4 né aðra uppdrætti sem Jón Björnsson verkfræðingur vann. Það kynni að hafa orðið máli til framdráttar hefði slíkt verið gert. Kennileiti eru nú horfin og þeirra er hvergi getið á uppdráttum Jóns Björnssonar. Stefnandi hefur enga tilraun gert til þess að varpa ljósi á staðsetningu umræddra kennileita með framlagningu til að mynda gamalla ljósmynda eða loftmynda sem hefðu getað varpað ljósi á hvar kennileitin voru. Þá þykir stefnanda ekki hafa tekist að bæta úr þessum annmörkum með framburði vitna.

Að framangreindu virtu verður að telja málatilbúnað stefnanda haldinn slíkum annmörkum og vera það vanreifaðan að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Er málinu því vísað frá dómi án kröfu.

Eftir framangreindri niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til málflutnings um frávísunarkröfu stefndu þar sem frávísunarkröfunni var hrundið. Eftir atvikum þykir rétt að dæma stefnanda til að greiða stefndu Friðriki Ingva Jóhannssyni, Önnu Þorbjörgu Jónsdóttur, Geir Guðjónssyni, Ingveldi Kr. Friðriksdóttur, Friðriki Ara Friðrikssyni, Guðrúnu Ólínu Geirsdóttur, Mikkalínu M. Friðriksdóttur, Jóni Ingva Geirssyni og Sigurjóni H. Friðrikssyni sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Þá ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda Fagraási ehf. 200.000 krónur í málskostnað.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Einar Ólafsson, greiði stefndu Friðriki Ingva Jóhannssyni, Önnu Þorbjörgu Jónsdóttur, Geir Guðjónssyni, Ingveldi Kr. Friðriksdóttur, Friðriki Ara Friðrikssyni, Guðrúnu Ólínu Geirsdóttur, Mikkalínu M. Friðriksdóttur, Jóni Ingva Geirssyni og Sigurjóni H. Friðrikssyni sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað og stefnda Fagraási ehf. 200.000 krónur í málskostnað.