Hæstiréttur íslands
Mál nr. 560/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 6. nóvember 2007. |
|
Nr. 560/2007. |
Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Þorsteini Hjaltested (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S og K kröfðust ógildingar erfðaskrár á þeim forsendum að brotið hefði verið í veigamiklum atriðum gegn ákvæðum hennar og forsendur fyrir gildi hennar því brostnar. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði meðal annars að hin umdeilda erfðaskrá hefði þegar verið lögð til grundvallar við skipti á þremur dánarbúum. Andmælum gegn gildi hennar hefði verið hafnað við arftöku M fyrir tæpum 40 árum síðan. Þá hefðu engin andmæli komið fram gegn gildi erfðaskrárinnar við skipti á dánarbúi M árið 2000. Samkvæmt 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skulu andmæli gegn gildi erfðaskrár borin fram jafnfljótt og tilefni verður til. S og K hafi í engu leitast við að gera fyrir því grein að þrátt fyrir allt framangreint stæðu til þess heimildir að lögum að ógilda erfðaskrána með þeim réttarverkunum sem í kröfugerð þeirra fælist. Var því fallist á kröfu Þ um frávísun málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, greiði óskipt varnaraðila, Þorsteini Hjaltested, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2007.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 7. f.m., er höfðað 10. mars 2007 af Sigurði Kristjáni Hjaltested, Marargötu 4 í Vogum, og Karli Lárusi Hjaltested, Ósabakka 19, Reykjavík, á hendur Þorsteini Hjaltested, Vatnsenda í Kópavogi.
Í stefnu er þess krafist „að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested [...] dags. 4. janúar 1938 og staðfest að nýju með áritun arfleiðanda, dags. 29. október 1940 [...] verði felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kveður á um verði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga, enda verði taldar brostnar forsendur fyrir gildi og framkvæmd erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested umfram það er segir í upphafi erfðaskrárinnar, svohljóðandi „allar eignir mínar, fastar og lausar, skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested“.“ Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi skilaði greinargerð 23. maí 2007. Í henni er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um sýknu. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Stefnendur gera þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að þeim verði dæmdur sérstakur málskostnaður úr hendi hans vegna þessa þáttar málsins.
I.
Magnús Einarsson Hjaltsted úrsmiður eignaðist jörðina Vatnsenda árið 1914, en hún tilheyrði þá Seltjarnarneshreppi. Hinn 4. janúar 1938 gerði Magnús, sem var ókvæntur og barnlaus, erfðaskrá þar sem hann arfleiddi bróðurson sinn, Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested að öllum eignum sínum. Þau ákvæði erfðaskrárinnar sem þykja hafa þýðingu við úrlausn málsins hljóða svo:
„1. gr. Allar eignir mínar, fastar og lausar, skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina. a) Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi- er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri. b) Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2. [...]
2. gr. Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á fyrrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla. [...]
3. gr. Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.frv. koll af kolli, þannig að ávallt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefur sagt verið. Sé enginn erfingi réttborinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framansögðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum. Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfylli skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.
4. gr. Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.
[...]
6. gr. Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefir inni að halda. Vanræki einhver það, varðar það tafarlaust réttindamissi fyrir hlutaðeigandi.
7. gr. Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda.“
Magnús Einarsson Hjaltested lést 31. október 1940 og tók Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested þá við Vatnsendajörðinni og þeim eignum öðrum sem erfðaskráin tók til. Hann lést 13. nóvember 1966 og gekk jörðin þá til elsta sonar hans, Magnúsar. Við fráfall hans 21. desember 1999 kom jörðin síðan í hlut elsta sonar hans, stefnda Þorsteins.
Í málinu gera stefnendur, sem eru synir Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested af seinna hjónabandi, kröfu um að erfðaskráin verði ógilt með þeim hætti sem áður er rakið. Styðja þeir kröfu sína þeim rökum að allt frá því að jörðin Vatnsendi komst í eigu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested hafi í veigamiklum atriðum verið brotið gegn ákvæðum erfðaskrárinnar og að forsendur hafi þannig brostið fyrir gildi hennar að því marki sem dómkröfur þeirra fela í sér.
II.
Í stefnu og gögnum stefnanda kemur fram að frá árinu 1942 hefur 963,28 ha landsvæði verið tekið undan jörðinni Vatnsenda. Munar þar mestu um 689 ha land í Heiðmörk sem tekið var eignarnámi með lögum nr. 57/1942 um heimild fyrir Reykjavíkurbæ til þess að taka eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi. Hér skal þess og getið að 90,5 hektarar voru teknir eignarnámi af Kópavogsbæ árið 2000 og tókst samkomulag um bætur fyrir það land á milli bæjarins og stefnda. Þá liggur fyrir að Kópavogsbær hefur leitað heimildar umhverfisráðherra til að taka eignarnámi tvær spildur úr landi jarðarinnar, samtals 173 ha að stærð, og allt uppland jarðarinnar ofan Heiðmerkur allt upp undir Bláfjöll, en það svæði er 590 ha að stærð. Hafa aðilar náð samkomulagi um bætur vegna þess eignarnáms. Samkvæmt því greiðir Kópavogsbær stefnda 2.250.000.000 krónur fyrir hið eignarnumda land. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 14. febrúar 2007, sem vegna samkomulags aðila um eignarnámsbætur tók einvörðungu til kostnaðar stefnda vegna matsmálsins, telur nefndin að verðmæti samkomulagsins fyrir stefnda sé á bilinu 6 til 8,5 milljarðar króna. Stefnendur halda því fram að enn frekara eignarnám sé í bígerð. Stefni þannig í að eftir standi af upphaflegu landi jarðarinnar 3-4 ha umhverfis Vatnsendabæinn, sem skilgreint verði sem landbúnaðarsvæði.
Að mati stefnenda er ljóst að raunverulegur landbúnaður hafi ekki verið stundaður að Vatnsenda hin síðari ár. Með kaupum Kópavogsbæjar á 863 ha úr landi Vatnsendajarðarinnar nú sé á hinn bóginn ljóst að útilokað verði að stunda þar búskap í venjubundinni merkingu þess orðs. Sé þessi aðstaða meginástæða þess að stefnendur telja að ekki séu lengur fyrir hendi þær forsendur fyrir erfðatilkalli sem út frá var gengið samkvæmt erfðaskránni frá 1938. Þar við bætist að jörðin hafi í gegnum árin verið veðsett langt umfram þær heimildir þar að lútandi sem erfðaskráin veitir. Ekki sé um það deilt að vilji Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi verið skýr og afdráttarlaus um það að allar eigur hans, þar með talin jörðin Vatnsendi, skyldu renna til föður stefnenda með þar tilgreindum skilyrðum og takmörkunum. Þennan vilja Magnúsar beri að virða, en að öðru leyti verði á grundvelli brostinna forsendna samkvæmt framansögðu að ógilda erfðaskrána með þeim hætti sem dómkröfur kveða á um. Lúti dómkröfur stefnenda þannig að því að fá úr því skorið hvort ábúendur eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested hafi fyrirgert rétti sínum til ábúðar á jörðinni og henni beri því að skipta eftir almennum skiptareglum erfðalaga.
Stefnendur byggja á því, að til grundvallar fyrirhuguðu eignarnámi Kópavogsbæjar liggi samkvæmt framansögðu samningur á milli bæjarins og stefnda um endurgjald fyrir það land sem eignarnámið muni taka til. Því sé um eiginlega sölu á landi að ræða, en hún fari samkvæmt skýrum orðum erfðaskrárinnar í bága við skilmála hennar. Eignarnámið sé aðeins málamyndagerningur sem til sé stofnað í þeim tilgangi að komast framhjá ákvæðum erfðaskrárinnar. Þá sé það í andstöðu við vilja arfleifanda samkvæmt erfðaskránni frá 1938 að stefndi einn hagnist gríðarlega vegna þessarar sölu og útiloki um leið að búskapur verði í framtíðinni stundaður á Vatnsenda.
Auk þessa að reisa dómkröfur sínar í málinu á brostnum forsendum samkvæmt framansögðu er á því byggt af hálfu stefnenda að erfðaskránni beri að víkja til hliðar á grundvelli lögjöfnunar frá 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísa þeir í þeim efnum til þess að erfðaskráin sé í raun ígildi samnings um erfðaábúð.
III.
Kröfu sína um frávísun málsins byggir stefndi í fyrsta lagi á því að sakarefnið beri að leggja undir dómstóla eftir reglum um meðferð ágreiningsmála vegna búskipta. Vísar stefndi þessu til stuðnings til 2. mgr. 24 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og ákvæða XVI. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 155 gr. og 82.-84. gr. laganna. Í tilvitnuðu ákvæði erfðalaga felist að andmælum sem beinast gegn gildi erfðaskrár skuli beina til þess aðila sem fer með búskipti á hverjum tíma. Fyrir gildistöku laga nr. 20/1991 hafi dánarbú talist vera undir opinberum skiptum frá andláti og þá annað hvort til skiptaloka einkaskipta eða opinberra skipta. Öllum erindum sem lutu að dánarbúskiptum hafi þá verið beint til skiptaráðanda. Með núgildandi löggjöf hafi þessu verið breytt á þá lund að millibilsástand skapist við andlát, þar sem sýslumaður fari með forræði dánarbús, þar til annað hvort gerist að beiðni berst um einkaskipti eða þá að bú er tekið til opinberra skipta. Fyrirmæli ákvæðisins beri nú að skýra í þessu ljósi. Ákvæðið sé einnig afdráttarlaust orðað á þá leið að andmæli sem komi fram eftir skiptalok skuli ekki tekin til greina nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Engin undantekning sé gerð frá þeirri reglu að andmælum um gildi erfðaskrár skuli beina að þeim sem fer með skipti á hverjum tíma. Stefnendur verði því, vilji þeir fá dóm um sakarefni máls þessa, að reka það eftir reglum XVI. kafla laga nr. 20/1991. Til að svo megi verða þyrftu stefnendur að sækja um endurupptöku á skiptum á því dánarbúi sem þeir telja umrædd réttindi tilheyra. Kröfu um ógildingu á erfðaskránni bæri stefnendum að beina til skipaðs skiptastjóra, yrði fallist á endurupptöku skiptamálsins á annað borð. Um endurupptöku á opinberum skiptum á dánarbúi gildi lög nr. 20/1991. Samkvæmt 1. mgr. 84 gr. laganna séu heimildir til endurupptöku dánarbúskipta tæmandi taldar í 82 gr. og 83 gr. þeirra. Þeim skilyrðum sé ekki fullnægt í máli þessu og því blasi við að beiðni um endurupptöku yrði hafnað yrði látið á slíkt reyna af hálfu stefnenda. Stefndi byggir á því samkvæmt framansögðu að óheimilt sé að reka dómsmál um ágreining þennan, sem fjalli um gildi erfðaskrár, eftir lok opinberra skipta á dánarbúi nema að úrskurður um endurupptöku skipta hafi áður gengið og ágreiningsmáli síðan verið vísað til héraðsdóms að undangenginni lögmæltri málsmeðferð. Vísar stefndi þessu til stuðnings til H.1995.1963.
Í
öðru lagi heldur stefndi því fram að áskilnaður um lögvarða hagsmuni standi því
í vegi að stefnendur geti leitað dóms um kröfur sínar í málinu. Með lögvörðum
hagsmunum sé átt við að það skipti stefnendur máli að lögum að dómur gangi um
þann réttarágreining sem hér er uppi. Telur stefndi að þar sem stefnendur hafi
ekki sýnt fram á að heimilt sé að taka upp skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns
Lárussonar Hjaltested, sem lauk fyrir 40 árum síðan, hafi þeir ekki sýnt fram á
að þeir eigi lögvarða hagsmuni af dómsúrlausn í máli þessu. Stefnendur þurfi að
sýna fram á eitt af þrennu, svo skipti verði endurupptekin: Fé hafi verið tekið
frá til að mæta kröfu, sem ekki var útkljáð við skiptalok, og málalok eru
fengin um hana, sbr. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 20/1991. Skiptum hafi verið lokið
án tillits til eignar, sem dánarbúið gat ekki ráðið yfir við skiptalok, og
málalok eru fengin um hana sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 20/1991. Eign komi
fram eftir skiptalok, sem ekki var vitað um fyrr, en átti að renna til dánarbúsins,
sbr. 2. mgr. 83 gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr., sbr. 155 gr.
laga nr. 20/1991 sé ekki heimilt að endurupptaka opinber skipti á dánarbúi á
öðrum forsendum en hér greinir. Ákvæði 2. mgr. 84. gr. laganna geti ekki átt
við um stefnendur, sem verið hefðu aðilar að búskiptunum á sínum tíma. Áréttar
stefndi í þessu sambandi að jörðinni Vatnsenda hafi á skiptafundi í dánarbúi
Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 7. maí 1968 verið úthlutað til
Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Sú úthlutun hafi verið staðfest með dómi
Hæstaréttar 30. maí 1969 í málinu nr. 99/1968 (H.1969.780). Jörðin hafi því
tilheyrt eignum dánarbúsins sem skipt var og stefnendur hafi verið aðilar að
skiptamálinu. Stefnendur hafi ekki heldur sýnt fram á að þeim beri með
einhverjum hætti arfstilkall samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar
Hjaltested. Hafi þeir þar af leiðandi enga lögvarða hagsmuni af dómsúrlausn um
hvort stefndi eða faðir hans hafi brotið gegn erfðaskránni.
Í þriðja lagi reisir stefndi frávísunarkröfu sína á því að dómur hafi þegar gengið um sakarefnið, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í málinu séu hafðar uppi sömu dómkröfur og hafðar voru uppi af hálfu stefnenda í skiptaréttarmáli sem úrskurður gekk um í skiptarétti Kópavogs 24. júlí 1967. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í málinu nr. 110/1967 (H.1968.422). Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 sé dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar verði krafa sem dæmd hefur verið að efni til ekki borin undir sama eða hliðsettan dómstól nema sérstök lagaheimild standi til þess. Stefndi taki rétt eftir föður sinn í gegnum dánarbú hans og komi í hans stað að lögum í skilningi 1. mgr. 116 gr. einkamálalaga. Afstaða hafi þegar verið tekin til allra málsástæðna stefnenda, þar á meðal sjónarmiða um brostnar forsendur, í máli milli sömu aðila. Þannig segi í forsendum framangreinds úrskurðar skiptaréttar Kópavogs um það atriði: „Það sem gerast kann í óvissri framtíð, skiptir ekki máli við úrlausn málsins”. Þannig hafi í úrskurðinum, sem staðfestur var af Hæstarétti, beinlínis verið tekin afstaða til málsástæðna um brostnar forsendur vegna skipulagsmála á svæðinu. Þá hafi samkvæmt honum einnig verið talið „heimildarlaust [...] að draga þá ályktun, að hér hafi verið um stofnun óðalsbýlis að ræða, enda vantar mikið á að reglunum um þau sé fylgt í erfðaskránni“. Að því er þessa málsástæðu varðar er einnig á því byggt að dómar í málum Hæstaréttar á máli nr. 99/1968 og dómar réttarins frá 30. maí 1969 í máli nr. 117/1968 (H.1969.782) og 3. október 1969 í máli nr. 171/1969 (H.1969.1113) feli í sér bindandi dómsúrlausn um ágreiningsmál aðila sem leiða eigi til frávísunar þessa máls.
Í fjórða lagi færir stefndi þau rök fyrir frávísunarkröfu sinni að grunnforsendur fyrir kröfugerð stefnenda eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Málatilbúnaðar stefnenda sé að því er virðist byggður á því að eignaréttur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested samkvæmt erfðaskránni frá 1938 sé með öðrum hætti en eignarréttur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested og stefnda. Eignarréttur þessara aðila hafi stofnast fyrir erfðir með sama hætti hjá hverjum fyrir sig. Ekki sé sýnt fram á það í málinu að eignarréttarlegt tilkall Sigurðar Kristjáns til jarðarinnar Vatnsenda hafi verið með öðrum hætti en til dæmis stefnda. Þá verði ekki annað séð en að málatilbúnaður stefnenda byggi á því að eignarréttur samkvæmt erfðaskránni sé ekki beinn eignaréttur heldur einhvers konar leiguliðaréttur. Í engu sé þó getið um það hver sé þá landsdrottinn. Ekki sé skýrt kveðið að orði um þetta í stefnu, en þar segi þó að erfðaskráin sé í raun ígildi samnings um erfðaábúð. Stefndi telur engan grundvöll vera fyrir slíkum málatilbúnaði, enda hafi Magnús Einarsson Hjaltested glatað löggerningshæfi og hæfi til að vera aðili að eignarréttindum við andlát sitt 31. október 1940. Stefndi hafi fengið jörðina Vatnsenda í arf og öðlaðst beinan eignarrétt að fasteigninni í samræmi við gildandi viðhorf um eignayfirfærslu ipso jure við arftöku. Föður stefnda hafi verið veitt umráð yfir jörðinni með ákvörðun skiptaréttar, sem staðfest hafi verið í Hæstarétti 30. maí 1969 í málinu nr. 99/1968, en stefnendur hafi látið hjá líða að vísa til þess dóms, sem þó hafi verið þinglýst sem eignarheimild Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested fyrir jörðinni Vatnsenda. Með því að afhenda föður stefnda „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað með því, sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum sem honum eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested“ hafi beinn eignarréttur að eigninni með formlegum hætti verið færður yfir til föður stefnda. Með orðinu ábúandi í erfðaskránni hafi verið vísað til þess að eiganda væri skylt að búa á jörðinni og hafa arð af henni, meðal annars með leigu lóða úr landi hennar. Þannig hafi „ábúðin“ fjarri lagi verið skilyrt í samræmi við fyrirmæli þágildandi ábúðarlaga.
Í fimmta lagi er frávísunarkrafa stefnda á því byggð að málsgrundvöllur stefnenda sé óljós og málatilbúnaður vanreifaður. Í stefnu sé þannig ekki gerð grein fyrir á hvaða grundvelli málið er rekið og ekki sé heldur getið um lagaheimildir fyrir málssókn stefnenda. Í stefnu sé fullyrt að ekki sé deilt um rétt Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til jarðarinnar Vatnsenda án sérstaks rökstuðnings þar að lútandi. Þá sé í stefnunni staðhæft að ágreiningslaust sé að vilji arfláta samkvæmt erfðaskránni hafi staðið til þess að Sigurður Kristjáns skyldi búa á jörðinni. Á engan hátt sé reynt að sýna fram á hvernig sá vilji komi fram í því að jörðinni verði nú skipt upp á milli margra aðila. Stefnendur geri enga tilraun til að útskýra hver sé landsdrottinn ef stefndi sé aðeins leiguliði á jörðinni. Þá sé á engan hátt reynt að gera grein fyrir eignarréttarlegri stöðu jarðarinnar í samræmi við hefðbundin viðhorf til stofnunar og yfirfærslu eignarréttar við arftöku með tilliti til þessa óljósa málatilbúnaðar. Í stefnu sé ekki gerð grein fyrir því hvers vegna meint brot stefnda á ákvæðum erfðaskárinnar eigi að leiða til ógildis hennar, en ekki réttindamissis og viðtöku næsta erfingja samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar. Þá sé ekki rökstutt hvers vegna brostnar forsendur fyrir gildi erfðaskrárinnar nú eigi að leiða til þess að hlaupið verði yfir réttindi dánarbús Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested til Vatnsenda. Þá komi á engan hátt skýrlega fram í stefnu hvort stefnendur telji þá að einungis fasteignin ein eigi að koma til skipta eða hvort skiptin eigi einnig að ná til greiddra bóta og áunninna réttinda samkvæmt síðustu eignarnámssátt.
Í sjötta og síðasta lagi er frávísunarkrafa reist á því að ákvæði 18. gr. einkamálalaga um samaðild standi því í vegi að unnt sé að taka dómkröfur stefnenda til efnislegrar úrlausnar. Samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar eigi jörðin Vatnsendi að ganga til elsta sonar stefnda við andlát stefnda. Verði því að telja að Magnús Pétur Þorsteinsson Hjaltested, elsti sonur stefnda, eigi óskipta aðild að þeim réttindum sem um er deilt í málinu. Efnisdómur í máli þessu muni annað hvort skerða eða staðfesta réttindi sem honum séu þegar áskilin. Stefndi telur einnig að stefna hefði þurft Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, ekkju Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, þar sem dánarbú Magnúsar eigi tilkall til Vatnsenda verði talið að fyrir tilverknað stefnda hafi brostið forsendur fyrir gildi erfðaskrárinnar. Vatnsendi hafi með lögmætum hætti komist í umráð Magnúsar og verið eign hans áður en stefndi tók við henni. Ekki sé því hægt að kveða upp dóm í máli þessu án þess að taka tillit til óskiptrar aðildar Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur vegna dánarbús Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested.
IV.
Stefnendur hafna alfarið þeim rökum sem teflt hefur verið fram af hálfu stefnda fyrir kröfu hans um frávísun málsins. Telja stefnendur að þeim sé rétt að leggja málið fyrir dóm með þeim hætti sem þeir hafa gert og að 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála styðji þá niðurstöðu. Væri þeim að öðrum kosti gert ómögulegt að fá málið tekið upp og sækja lögvarin réttindi sín. Grundvöllur málsins sé sá að forsendur fyrir gildi umræddrar erfðaskrár séu brostnar. Verði á það fallist með stefnendum að sú sé raunin megi ljóst vera að stefndi hafi fyrirgert rétti sínum til jarðarinnar Vatnsenda og að henni eigi þá að skipta eftir almennum reglum erfðalaga. Réttindi til handa stefnendum hafi þá stofnast og þau séu varin af ákvæðum erfðalaga. Vísa stefnendur hvað þetta varðar til H.1965.796, en með þeim dómi hafi erfingi, sem litið hafði verið framhjá við skipti á dánarabúi, fengið hlutdeild sína í eignum búsins viðurkennda með málsókn í almennu einkamáli.
Stefnendur andmæla því sérstaklega að málatilbúnaður af þeirra hálfu sé með einum eða öðrum hætti óljós. Þá sé kröfugerð þeirra einföld og skýr. Þá telja stefnendur að sjónarmið stefnda um nauðsyn samaðildar til varnar eigi ekki við rök að styðjast. Ef samaðild ætti við væri miklu frekar um það að ræða að Kristrún Ólöf Jónsdóttir stæði að málssókn á hendur stefnda við hlið stefnenda.
V.
Með erfðaskrá 4. janúar 1938 mælti Magnús Einarsson Hjaltested fyrir um það að allar eigur hans, þar með talin jörðin Vatnsendi, sem þá tilheyrði Seltjarnarneshreppi, skyldu að honum látnum ganga til bróðursonar hans, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Magnús lést 31. október 1940 og tók Sigurður Kristján þá við jörðinni á grundvelli erfðaskrárinnar. Í henni var um arfstilkall þó ekki látið við þetta sitja, heldur mælt fyrir um það að jörðin skyldi að Sigurði látnum ganga að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg og „sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.frv. koll af kolli, þannig að ávallt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því sem nú hefur sagt verið“. Að Sigurði Kristjáni látnum og í samræmi við þetta ákvæði erfðaskrárinnar kom Vatnsendajörðin í hlut elsta sonar hans, Magnúsar. Stefnendur, sem í málinu hafa uppi kröfu um ógildingu erfðaskrárinnar með nánar tilgreindum hætti, eru hálfbræður Magnúsar, synir Sigurðar Kristjáns og seinni konu hans, Margrétar. Með fyrri konu sinni, Sigurlaugu, eignaðist Sigurður Kristján þrjú börn, þau Sigríði, Markús Ívar og Magnús, sem áður er getið. Þau Sigríður og Markús Ívar eru á lífi, en Magnús lést í desember 1999.
Við fráfall Sigurðar Kristjáns árið 1966 kom til ágreinings á milli eftirlifandi eiginkonu hans, Margrétar, og sonar hans, Magnúsar, um arf eftir Sigurð. Gerði Margrét fyrir sína hönd og sona sinna, stefnenda í máli þessu, þá kröfu fyrir skiptadómi Kópavogs að öllum eignum dánar- og félagsbús hennar og Sigurðar „[yrði] skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga“. Að öðru leyti var kröfugerðin í framhaldi af þessu orðuð með sama hætti og kröfugerð stefnenda í því máli sem hér er til úrlausnar. Þessari kröfu var hafnað með úrskurði skiptadóms Kópavogs 24. júlí 1967, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 (H.1968.422). Sagði í úrskurðarorði „að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested [væri] áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938“. Með þessu og dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 (H.1969.780) var staðfestur réttur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested til jarðarinnar Vatnsenda. Stóð hann óhaggaður allt þar til Magnús féll frá árið 1999. Hann eignaðist þrjá syni og að honum látnum tók sá elsti þeirra, stefndi Þorsteinn, við eignarráðum og skyldum að jörðinni svo sem faðir hans hafði áður haft samkvæmt erfðaskránni.
Svo sem fram er komið er ógildingarkrafa stefnenda aðallega byggð á því að forsendur fyrir gildi erfðaskrárinnar frá 1938 séu brostnar. Í kröfugerð þeirra er þó miðað við að ekki verði haggað við arfstilkalli föður þeirra samkvæmt erfðaskránni, en að þeim eignum sem hún tók til og sem komu í hlut föður þeirra samkvæmt henni verði skipt eftir almennum skiptareglum skiptalaga. Vísa stefnendur í þessum efnum til ákvæðis í erfðaskránni þar sem mælt er fyrir um það að sérhver erfingi, sem nýtur erfðaréttar samkvæmt henni, sé skyldugur til að halda öll þau skilyrði sem Sigurði Kristjáni Lárssyni Hjaltested voru sett með henni. Lúta þau að banni við sölu jarðarinnar og veðsetningu hennar og þeirri skyldu erfingja að búa sjálfir á henni og stunda þar búskap. Eru þessi ákvæði áður tíunduð. Varðar það samkvæmt erfðaskránni tafarlausum réttindamissi fyrir hlutaðeigandi ef út af þessum skilyrðum er brugðið og skilja verður ákvæði hennar þannig að sá sem næstur er í erfðaröðinni taki þá við, en að þessu er sérstaklega vikið í tengslum við þá aðstöðu ef einhver erfingjanna hættir búskap á Vatnsenda. Stefnendur halda því fram svo sem áður greinir að stefndi og faðir hans hafi með nánar tilgreindum hætti ekki virt þessi skilyrði og að forsendur hafi þannig brostið fyrir gildi erfðaskrárinnar að því marki sem dómkröfur þeirra fela í sér.
Enginn ágreiningur er um það í málinu að jörðin Vatnsendi hafi réttilega komið í hlut Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested við skipti á dánarbúi föður hans, svo sem staðfest hefur verið af dómstólum. Hafi hann á eignarhaldstíma sínum brotið gegn þeim skilmálum sem hann var bundinn af samkvæmt framansögðu gat með réttu komið til kröfugerðar og eftir atvikum málsóknar af þeim sökum á hendur honum í almennu einkamáli af hálfu erfingja sem þá gat talið til réttar yfir jörðinni samkvæmt staðgönguákvæðum erfðaskrárinnar. Slík málsókn hefði þá tekið mið af því að erfðaskráin héldi gildi sínu. Aðrir, þar á meðal stefnendur í ljósi framanritaðs, gátu þar ekki haft lögvarinna hagsmuna að gæta, enda er skýrlega kveðið á um það í erfðaskránni hvaða áhrif það hefur ef brotið er gegn umræddum skilmálum. Um réttarstöðu stefnda sem eiganda jarðarinnar í þessu tilliti á hið sama við. Engar kröfur hafa verið settar fram á þessum grunni svo séð verði. Kröfur stefnenda ganga hins vegar út á það, svo sem rakið hefur verið, að erfðaskráin verði ógilt að hluta til og eignum sem hún tekur til skipt eftir almennum reglum í stað réttindamissis og viðtöku næsta erfingja samkvæmt fyrirmælum hennar.
Hin umdeilda erfðaskrá hefur svo sem fram er komið þegar verið lögð til grundvallar við skipti á þremur dánarbúum. Andmælum gegn gildi hennar var hafnað við arftöku Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested fyrir tæpum 40 árum síðan. Þá stóð réttur hans samkvæmt henni óhaggaður meðan hann var á lífi og það þrátt fyrir að tilefni hafi þá verið til þess samkvæmt málatilbúnaði stefnenda að hnekkja honum. Loks komu engin andmæli fram gegn gildi erfðaskrárinnar við skipti á dánarbúi Magnúsar árið 2000. Samkvæmt 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skulu andmæli gegn gildi erfðaskrár borin fram við skiptaráðanda, skiptastjóra eða erfingja, sem skipta einkaskiptum, jafnfljótt og tilefni verður til. Skulu andmæli sem koma fram eftir skiptalok ekki tekin til greina nema það sannist að erfingi hafi ekki haft tök á að bera þau upp við skiptin eða refsiverðu misferli sé til að dreifa við gerð erfðaskrár eða við skipti erfingja. Stefnendur hafa í engu leitast við að gera fyrir því grein að þrátt fyrir allt framangreint standi til þess heimildir að lögum að ógilda erfðaskrána með þeim réttarverkunum sem í kröfugerð þeirra felast og að þær eignir sem að hún tekur til eigi þannig að ganga til erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum. Með vísan til þessa eru ekki efni til þess að dómurinn taki dómkröfu stefnenda til efnislegrar úrlausnar. Er þegar af þessari ástæðu fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins frá dómi.
Eftir framangreindum málsúrslitum verður stefnendum óskipt gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, greiði stefnda, Þorsteini Hjaltested, 400.000 krónur í málskostnað.