Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun hans verði staðfest.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar.
Varnaraðili hefur staðfastlega neitað því að hafa valdið skemmdum á þeim bifreiðum sem greinir í hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 4. mars sl. þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni gagnvart barnsmóður sinni og fyrrum sambýliskonu A, B og C. X skal sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í Rvk og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti. Jafnframt þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili B að [...] á [...] og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti B eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti. Ennfremur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili C að [...] í [...] og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti C eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að X hafi þann 22. desember sl. verið ákærður fyrir að hafa beitt A ofbeldi þann 3. febrúar 2015 og haft í hótunum við hana í maí og og júní á síðasta ári. Sé það mál nú til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þann 28. febrúar sl. sé X grunaður um að hafa skorið á hjólbarða á bifreið brotaþola og að hafa hótað henni lífláti í gegnum samskiptaforritið Facebook.
Sama dag á hann að hafa sent mynd í gegnum Facebook af brotaþola við kynlífsathafnir til núverandi kærasta hennar B og til systur hennar C, ásamt skilaboðum þess efnis að ef A greiddi honum ekki háa peningaupphæð myndi hann birta umrædda mynd og fleira slíkt efni opinberlega.
Daginn áður, þ.e. þann 27. febrúar, hafi kærði haft í hótunum við foreldra hennar í gegnum sama forrit með því að krefjast þess að A greiði honum háar peningafjárhæðir fyrir 1. mars, en ella myndi hann birti nektar- og kynlífsmyndbönd af henni á netinu.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggi undir rökstuddum grun um að hafa nú hótað brotaþola og framið eignaspjöll á bifreið hennar. Þegar litið sé til fyrri sögu þeirra sé talin hætta á að X muni beita A frekara ofbeldi og valda henni og öðrum brotaþolum ónæði verði hann látin afskiptalaus. Þá sé ekki talið sennilegt að friðhelgi A, B og C verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur krafist þess að staðfest verði sú ákvörðun hans frá 4. mars 2016 þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni. Í a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b-lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 4. mars sl. Fallist er á það með lögreglustjóra að gögn þessi beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot gegn brotaþolanum A, sbr. a-lið ákvæðisins, þar sem hann hefur verið ákærður fyrir að hafa beitt hana ofbeldi 3. febrúar 2015 og fyrir að senda henni hótanir í tölvupósti á tímabilinu 10. maí–14. júní 2015. Engum sambærilegum atvikum er til að dreifa í tilvikum annarra brotaþola, þeirra C og B.
Í kröfu lögreglu segir að varnaraðili hafi hótað brotaþolanum A lífláti gegnum Facebook 28. febrúar sl. Þessa hótun telur lögregla felast í skilaboðum þar sem fram kemur að móðir barna hans segi að varnaraðili sé mafíósi og ef hann taki börnin til [...] muni hann koma aftur og drepa hana, það sé paranoia manneskju sem ekki sé heil í höfðinu og allur heimurinn þurfi að vita það. Verður ekki fallist á að skilaboðin, sem ekkert liggur fyrir um hverjum voru send eða hvenær en munu stafa frá varnaraðila, verði skilin með þeim hætti að hann sé að hóta brotaþolanum A lífláti.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt framansögðu. Samkvæmt 6. gr. laganna verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Ákvæðunum er beitt með hliðsjón af lögskýringargögnum og dómvenju sem mótuð er af dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 62/2015 og nr. 67/2015. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 85/2011 kemur m.a. fram að gera verði þá kröfu að ekki sé nægjanlegt til þess að beitt verði nálgunarbanni að búast megi við smávægilegum ama af hálfu þess sem óskað er að banninu sæti. Við mat á því hvort hætta verði talin á því að maður muni fremja refsivert brot eða á annan hátt raska friði brotaþola verði að líta til fyrri háttsemi þess manns sem krafan beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Þannig komi til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur samskipti sem veitt geta rökstudda vísbendingu um það sem kann að vera í vændum.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa beitt A líkamlegu ofbeldi og hefur hann verið ákærður fyrir að hafa beitt hana ofbeldi 3. febrúar 2015 og fyrir að senda henni hótanir í tölvupósti á tímabilinu 10. maí–14. júní 2015, sem fyrr segir. Varnaraðili er nú grunaður um að hafa valdið eignaspjöllum á bifreiðum A og B með því að stinga á hjólbarða bifreiðanna og eru kærur þeirra af því tilefni til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu. Eignaspjöll af þessu tagi geta falið í sér ögrun, en þau veita þó ekki þá rökstuddu vísbendingu um hættu á brotum gegn eigendum bifreiðanna að tilefni sé til ákvörðunar um nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011. Þá liggur jafnframt fyrir að varnaraðili hefur nýlega sent kynlífsmynd af A til systur hennar, C, og kærasta hennar, B. Í myndsendingunni felst ekki brot gegn viðtakendum sem gefi tilefni til að beita varnaraðila nálgunarbanni gagnvart þeim, enda eru þeim aðrar leiðir færar til að verjast móttöku slíkra sendinga og nálgunarbann veitir ekki þá vernd. Jafnvel þótt varnaraðili hafi með þessari háttsemi sinni rofið friðhelgi einkalífs A verður ekki talið að nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 veiti henni vernd gagnvart slíkri háttsemi.
Nokkur tími er liðinn frá því að þau atvik sem varnaraðili er ákærður fyrir áttu sér stað. Er ekkert í gögnum málsins málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi, hótað því eða að hætta sé á að hann muni brjóta gegn henni með þeim hætti. Verða umrædd atvik ekki tilefni til að beita nálgunarbanni nú. Í þeim nýlegu skilaboðum frá varnaraðila sem fyrir liggja í málinu felst hótun um dreifingu myndefnis, sem nálgunarbann getur ekki veitt vernd fyrir. Þá felst í skilaboðum til foreldra A jafnframt boðun málsóknar til innheimtu meintrar óuppgerðar skuldar, sem ekki verður séð að feli í sér refsiverða hótun gagnvart henni.
Með hliðsjón af framangreindu verður ekki ráðið að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni og verður það því fellt úr gildi.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Steinbergs Finnbogasonar hdl. fyrir dómi og á rannsóknarstigi Guðmundar Njáls Guðmundssonar 90.000 krónur til hvors þeirra greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, Ingu Lillýar Brynjólfsdóttur hdl., 150.000 krónur.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjóra frá 4. mars 2016 þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni skv. a. og b. lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Steinbergs Finnbogasonar hdl. fyrir dómi og á rannsóknarstigi Guðmundar Njáls Guðmundssonar 90.000 krónur til hvors þeirra greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, Ingu Lillýar Brynjólfsdóttur hdl., 150.000 krónur.