Hæstiréttur íslands
Mál nr. 100/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2017, þar sem felldur var niður málskostnaður í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, en því var að öðru leyti lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2017.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um málskostnað 30. janúar 2017, var höfðað með stefnu útgefinni 2. september 2016 af hálfu K, [...] í [...] á hendur M, [...] í [...], til breytingar á lögheimili og ákvörðunar um meðlag. Stefndi tók til varna og lagði fram greinargerð sína í málinu 11. október 2016.
Dómkröfur stefnanda voru þær að henni yrði dæmt lögheimili barns aðila, A, til 18 ára aldurs hennar. Yrði fallist á þá kröfu krafðist stefnandi þess að stefnda yrði gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með stúlkunni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar. Stefnandi krafðist að auki málskostnaðar úr hendi stefnda, að viðbættu álagi vegna virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda voru þær að hann krafðist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt gerði stefndi í greinargerð kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins, en gerði þá kröfu til vara við málflutning í dag að hvor aðili yrði látinn bera sinn kostnað af málinu.
Í þinghaldi 16. nóvember 2016 var ákveðið að dómari leitaði til sérfróðs aðila sem ræða myndi við stúlkuna og kanna viðhorf hennar til ágreinings foreldra. Af hálfu foreldra var þess óskað að könnun myndi ekki hefjast fyrr en stúlkan, sem er 17 ára gömul, hefði lokið jólaprófum í menntaskóla rúmum mánuði síðar. Dómarinn fól sama dag B sálfræðingi að kanna viðhorf stúlkunnar og gefa dóminum skýrslu þar að lútandi, sbr. 1. mgr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003. Skýrsla sálfræðingsins, dags. 12. janúar 2017, var lögð fram í þinghaldi 18. janúar s.á.
Í þinghaldi 26. janúar 2017 gerðu aðilar með sér dómsátt sem felur í sér samkomulag foreldra um aðrar kröfur þeirra en kröfur um málskostnað. Með dómsáttinni fellst stefndi á kröfur stefnanda um lögheimili og meðlag.
Báðir aðilar krefjast málskostnaðar úr hendi hins, en stefndi krefst þess til vara að málskostnaður verði felldur niður. Hvorugur aðila hefur gjafsókn í málinu. Það er ágreiningur aðila um málskostnað sem hér er til úrskurðar.
Yfirlit málsatvika
Málsaðilar eiga saman dótturina A, sem fædd er [...] 1999. Þau fara sameiginlega með forsjá hennar samkvæmt samkomulagi við skilnað þeirra að borði og sæng [...]. september 2013. Samkomulag var um að lögheimili stúlkunnar væri hjá föður, stefnda, og að móðir, stefnandi, greiddi föður einfalt meðlag með henni frá 1. október 2013 til 18 ára aldurs hennar. Samkomulag var um umgengni þannig að stúlkan dveldi til skiptis hjá foreldrum sínum, viku í senn.
Móðir leitaði til Sýslumannsins í Reykjavík 26. maí 2014 með beiðni um að rætt yrði við stúlkuna um fyrirkomulag umgengni, sem hún gæti unað við, en stúlkan, sem þá var 14 ára, teldi að ekki hafi verið hlustað á sjónarmið sín. Málinu lauk með samkomulagi foreldra um óbreytta umgengni samkvæmt vottorði sýslumanns um sáttameðferð 26. september 2014. Stúlkan mun þó í raun hafa dvalið meira á heimili móður en samkomulag var gert um og mun hún frá því í ágúst 2015 ekki hafa komið á heimili föður þar sem hún á lögheimili. Með beiðni lögmanns móður til sýslumannsins í Reykjavík 4. maí 2016 var þess óskað að lögheimili stúlkunnar flyttist til móður. Faðir hafnaði kröfunni og sættir tókust ekki samkvæmt vottorði sýslumanns 2. september 2016 um árangurslausa sáttameðferð í deilu foreldra. Var mál þetta höfðað í kjölfarið með stefnu útgefinni sama dag.
Sjónarmið stefnanda um málskostnaðarkröfu sína
Stefnandi telur að stefnda beri að greiða henni málskostnað samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um að sá sem tapar máli í öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til þess að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Stefndi hafi ekki haft uppi neinar efnislegar varnir gegn dómkröfum stefnanda um lögheimili og meðlag og hafi fallist á þær, en varnir stefnda í málinu snúist fremur um umgengni hans og stúlkunnar. Við málsmeðferð á embætti sýslumanns á árinu 2014 hafi foreldrar orðið sammála um að umgengni yrði með óbreyttu sniði og þá hafi vilji stúlkunnar legið fyrir.
Lögmaður stefnanda vísi til málskostnaðarreiknings þar sem tilgreindur kostnaður sé í samræmi við 129. gr. laga um meðferð einkamála. Um sé að ræða raunverulegan kostnað sem eðlilegt og sanngjarnt hafi verið að leggja í. Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að höfða málið í ljósi þess að stefndi hafi hafnað kröfum stefnanda um breytingu á lögheimili og um meðlag á embætti sýslumanns.
Sjónarmið stefnda um málskostnaðarkröfu sína
Stefndi telur stefnanda hafa höfðað mál þetta að óþörfu. Ástæða þess að ekki hafi tekist sættir á embætti sýslumanns hafi verið afstaða stefnanda til sáttameðferðar, en stefndi hefði vænst þess að sættir næðust í sáttameðferð þar. Stefnandi hafi talið sáttatilraunir tilgangslausar og gengið út af sáttafundi. Stefndi hefði fyrir fundinn með tölvupósti sérstaklega óskað eftir því við stefnanda að aðilar semdu frið, en hafi engin svör fengið. Hefði orðið af sáttameðferð hefði ekki þurft að höfða málið. Þá hafi stefnda verið ókunnugt um það þegar hann tók til varna í málinu að úrslit máls af þessu tagi réðust af afstöðu barns. Stefndi telur þær upplýsingar um afstöðu stúlkunnar til umgengni á árinu 2014 sem stefnandi vísi til séu ekki réttar. Afstaða stúlkunnar komi fram í skýrslu sérfræðings sem aflað hafi verið í þessu máli, á þann veg að hún vilji hafa samskipti. Stefndi kveður mál þetta hafa fengið á sig og m.a. valdið óvinnufærni á tímabilum.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal hver sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laganna. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.
Með dómsátt aðila 26. maí 2017 var ákveðið að stúlkan skyldi eiga lögheimili hjá stefnanda og að stefndi greiði stefnanda einfalt meðlag frá undirritun dómsáttarinnar til 18 ára aldurs hennar. Með sáttinni hefur stefndi því fallist á dómkröfur stefnanda.
Stefnandi hafði í ljósi þess að stúlkan býr hjá henni tilefni til málshöfðunar til þess að lögheimili hennar yrði skráð í samræmi við það. Aðilar höfðu frá upphafi máls á embætti sýslumanns bæði lýst þeirri afstöðu að þau vildu fara að vilja stúlkunnar varðandi lögheimili hennar. Þau hafði greint verulega á um það hver raunverulegur vilji stúlkunnar í þessum efnum væri. Stefndi taldi og færði fyrir því tiltekin rök að sú afstaða sem stefnandi lýsti að væri vilji stúlkunnar til að eiga lögheimili hjá henni væri ekki raunverulegur vilji hennar. Samkvæmt bókun í sifjamálabók 12. júlí 2016 vildi stefnandi ekki taka þátt í sáttafundum með stefnda á embætti sýslumanns og taldi engan grundvöll vera til sátta. Hún samþykkti við fyrirtökuna að rætt yrði við stúlkuna ef á þyrfti að halda og kvaðst samþykkja að mæta á sáttafund ef þess þyrfti til að fá útgefið sáttavottorð. Stefnandi mun hafa komið á sáttafund 1. september 2016, en ráða má af gögnum málsins að hún hafi gengið út af fundinum þegar hún hafði sjálf lýst því yfir, að eigin sögn fyrir hönd barnsins, að sættir væru útilokaðar. Samkvæmt vottorði sálfræðings á sýslumannsembættinu 2. september 2016 tókust sættir ekki með aðilum. Stefna í máli þessu var útgefin sama dag. Ekki verður séð af sáttavottorði sýslumanns að rætt hafi verið við stúlkuna og ekkert er skráð í vottorðið í reit sem ætlaður er skráningu um afstöðu barns. Vísaði sýslumaður málinu frá sér 5. september 2016 með vísun til þess að ekki hafi komist á samningur um breytta skipan lögheimilis barnsins. Að þessu virtu verður stefndi talinn hafa haft tilefni til að taka til varna í málinu.
Undir rekstri málsins, að fenginni skýrslu sálfræðings um viðhorf stúlkunnar, náðu foreldrar hennar loks að setja niður deilur sínar um lögheimili hennar. Ljóst þykir að þau atvik réðu úrslitum um sátt aðila um niðurstöðu málsins að vilji stúlkunnar hafði verið staðreyndur af sálfræðingi eftir að málið var höfðað.
Þegar öll atvik málsins eru virt er það í ljósi framangreinds niðurstaða dómsins að beita beri undantekningarákvæði 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála við úrlausn á ágreiningi aðila um málskostnað. Samkvæmt því verður fallist á varakröfu stefnda og ber hvor aðili sinn kostnað af málinu.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Málskostnaður fellur niður.