Hæstiréttur íslands

Mál nr. 299/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti


Ár 1999, þriðjudaginn 24

                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 299/1999.

Árni Jónsson

Guðrún Stefánsdóttir

Guðjón Stefán Guðbergsson

Sigríður Hjartar

Reynir Ólafsson og

Fjóla Ólafsdóttir

(Kristin Hallgrímsson hrl.)

gegn

Fljótshlíðarhreppi

(Othar Örn Petersen hrl.)

Kærumál. Kæruheimild. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Talið var að stefndi í einkamáli nyti ekki lögvarins réttar til að krefjast efnisdóms í máli, heldur yrði hann að sæta því að það væri meðal annars fellt niður án tillits til þess hvort hann kynni fremur að vilja láta það ganga til efnisdóms um kröfu sína um sýknu. Þótti þessi meginreglna standa því í vegi að Á, GS, GG, SH, RÓ og FÓ gætu leitað endurskoðunar á úrskurði héraðsdómara um að vísa frá máli, sem F hafði höfðað gegn þeim, til að fá honum hnekkt. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. júní 1999, þar sem máli varnaraðila gegn sóknaraðilum var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til j. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara höfðaði varnaraðili málið og krafðist þess einkum að nánar tiltekinn úrskurður landbúnaðarráðherra yrði ógiltur með dómi. Með hinum kærða úrskurði vísaði héraðsdómari málinu frá án kröfu vegna annmarka, sem hann taldi vera á málinu.

Svo sem ráðið verður af b., c., d. og e. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 er í lögunum byggt á þeirri meginreglu að stefndi í einkamáli njóti ekki lögvarins réttar til að krefjast efnisdóms í máli, heldur verði hann að sæta því að það verði meðal annars fellt niður án tillits til þess hvort hann kunni fremur að vilja láta það ganga til efnisdóms um kröfu sína um sýknu. Þessi meginregla stendur því jafnframt í vegi að stefndi geti leitað endurskoðunar á úrskurði um frávísun máls til að fá honum hnekkt, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1793. Sóknaraðili nýtur því ekki hagsmuna, sem varðir eru að lögum, af fyrrgreindri kröfu sinni um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Af þessum sökum og þar sem varnaraðili kærði ekki úrskurðinn fyrir sitt leyti verður ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. júní 1999.

                Mál þetta höfðaði hreppsnefnd Fljótshlíðarhrepps, kt. 550169-7119, með stefnu útgefinni 7. apríl sl. á hendur Árna Jónssyni, kt. 150132-4959, og Guðrúnu Stefánsdóttur, kt. 020259-4509, báðum til heimilis að Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, Guðjóni Stefáni Guðbergssyni, kt. 070743-2219, og Sigríði Hjartar, kt. 300143-3939, báðum til heimilis að Langagerði 19, Reykjavik, Reyni Ólafssyni, kt. 110625-7319, Múlakoti II, Fljótshlíð, og Fjólu Ólafsdóttur, kt. 010131-3169, Viðarrima 42, Reykjavík.

                Þann 7. apríl 1999 veitti dómstjóri heimild til þess að mál þetta yrði rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þinghaldi 18. júní var því beint til aðila að reifa málið um formhlið og hvort skylt væri að vísa því frá dómi af sjálfsdáðum. Var málið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um þetta atriði 22. júní sl.

                Um efnishlið eru í málinu hafðar uppi þessar kröfur:

                Stefnandi krefst þess að ógiltur verði úrskurður landbúnaðarráðuneytisins, dagsettur 24. febrúar 1999, um að ákvörðun stefnanda frá 15. desember 1998 um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Múlakoti II í Fljótshlíðarhreppi sé felld úr gildi, svo og að ógilt verði viðurkenning ráðuneytisins á því að stefnandi hafi glatað rétti sínum til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Múlakoti II samkvæmt kauptilboði dagsettu 11. nóvember 1998. Þá krefst stefnandi þess að staðfest verði að óhögguð standi ákvörðun stefnanda á fundi 15. desember 1998 um að neyta forkaupsréttar að jörð þessari. Við fyrirtöku málsins 18. þessa mánaðar bætti stefnandi við þennan síðasta kröfulið fyrirvara með orðunum „að svo miklu leyti sem kauptilboð, dagsett 11. nóvember 1998, telst vera gilt ...“.

                Stefndu krefjast þess að greindur úrskurður landbúnaðarráðuneytisins, dags. 24. febrúar 1999, verði staðfestur.

                Í þessum þætti krefst stefnandi þess að málinu verði ekki vísað frá dómi heldur tekið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar hvernig sem málið fari. Stefndu krefjast hins sama, þó málskostnaðar því aðeins að málinu verði vísað frá.

                Stefndu Árni Jónsson, Guðrún Stefánsdóttir, Guðjón Stefán Guðbergsson og Sigríður Hjartar gerðu hinn 11. nóvember 1998 meðstefndu Reyni og Fjólu Ólafsbörnum tilboð um kaup á jörðinni Múlakoti II í Fljótshlíðarhreppi. Tilboðið var samþykkt 17. nóvember. Samningur þessi var kynntur oddvita Fljótshlíðarhrepps með bréfi dagsettu 20. nóvember. Málefnið var tekið til umræðu á hreppsnefndarfundi og að fengnum frekari skýringum ákvað hreppsnefnd á fundi 15. desember að neyta forkaupsréttar að jörðinni samkvæmt heimild í 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976.

                Ákvörðun hreppsnefndar var kærð til landbúnaðarráðherra og var ákvörðun hreppsnefndar um að beita forkaupsrétti felld úr gildi með úrskurði 24. febrúar 1999. Hreppsnefnd höfðaði mál þetta til að fá úrskurðinum hnekkt.

                Áðurgreint samþykki kauptilboðs var undirritað af Reyni Ólafssyni og Margréti Ísleifsdóttur, sem skipuð er lögráðamaður stefndu Fjólu Ólafsdóttur. Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti ráðstöfunina sem yfirlögráðandi. Fyrir aðalmeðferð, sem ákveðin hafði verið 27. maí sl., kom upp meðal málsaðila vafi um hvort Fjóla Ólafsdóttir væri svipt fjárræði.

                Frammi liggur bréf sýslumannsins í Rangárvallasýslu, dagsett 1. október 1985, þar sem hann skipar Margréti til að vera lögráðamaður Fjólu, „sbr. ákvæði lögræðislaga nr. 68/1984“, eins og segir í bréfinu. Þar segir síðan: „Ástæða skipunarinnar nú er sú að komið er að skiptum í dánarbúi móður Fjólu, Láru Eyjólfsdóttur, sem lést 24. september 1984, þá til heimilis að Múlakoti II. Fjóla Ólafsdóttir er sökum andlegrar fötlunar eigi fær um að annast málefni sín ein og óstudd. “

                Ekki hefur fundist endurrit úrskurðar þar sem Fjóla er svipt fjárræði og á skrá sem haldin í Dómsmálaráðuneytinu um lögræðissvipta einstaklinga er nafn hennar ekki að finna. Að þessu athuguðu afturkallaði yfirlögráðandi samþykki sitt til sölunnar með bréfi 15. þessa mánaðar.

                Málsástæður aðila um efniskröfur í málinu verða ekki tíundaðar hér.

                Stefnandi mótmælir frávísun einkum með tilvísun til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð ráðuneytisins felldan úr gildi. Verði málinu vísað frá standi úrskurðurinn óhaggaður þó að salan sé markleysa.

                Stefndu telja að samningurinn um jarðakaupin sé ekki ógildur, hann kunni hins vegar að vera ógildanlegur, en það raski ekki grundvelli málsins. Þá benda þau á að viðskiptunum sé lokið, afsal hafi verið gefið fyrir jörðinni og kaupverðið verið greitt. Stefndu mótmæla sérstaklega því að mark sé takandi á afturköllun sýslumannsins í Reykjavík á samþykki til sölu jarðarinnar. Kveðast þau hafa kært þessa afturköllun til æðra stjórnvalds.

                Stefndu benda á að er sýslumaður skipaði stefndu Fjólu lögráðamann hafi hann farið með dómsvald, þ.á.m. í lögræðissviptingarmálum. Margrét Ísleifsdóttir hafi gegnt starfi lögráðamanns Fjólu faglega og af trúmennsku. Hagsmunir Fjólu standi til þess að sala á jörðinni takist, en arðs hafi hún ekki notið af þessari eign sinni.

                Niðurstaða.

                Engar heimildir eru til stuðnings því að stefnda Fjóla Ólafsdóttir hafi verið svipt fjárræði. Bréf sýslumanns Rangárvallasýslu 1. október 1985 skírskotar ekki til neins úrskurðar um sviptingu og er því ekki til sönnunar þess að slíkur úrskurður hafi verið kveðinn upp. Á þessum tíma var dómsvald í höndum sýslumanna og hefði sýslumaður Rangárvallasýslu verið bær til að svipta stefndu Fjólu fjárræði, en heimildir eru ekki til staðar um að það hafi verið gert. Skipunarbréf til lögráðamanns er ekki úrskurður um sviptingu lögræðis. Verður niðurstaða þessa máls því ekki reist á öðru en að stefnda Fjóla Ólafsdóttir sé fjárráða. Hún hefur ekki áritað kauptilboðið eða veitt umboð til undirritunar þess. Kaupsamningur um jörðina hefur því ekki komist á.

                Þá er þess og að gæta að Kristinn Hallgrímsson hrl., sem áritaði stefnu í máli þessu um næga birtingu fyrir hönd allra stefndu, kveðst sækja umboð sitt til Margrétar Ísleifsdóttur f.h. Fjólu Ólafsdóttur, en ekki Fjólu sjálfrar. Fjólu Ólafsdóttur hefur því ekki verið birt stefnan.

                Kaup hafa ekki verið gerð um hluta stefndu Fjólu í jörðinni. Ekki þarf að leysa úr því hvort samningur annarra stefndu um hluta stefnda Reynis í jörðinni er gildur, en þó svo væri yrði að bjóða stefnanda forkaupsrétt að þeim hluta sem í raun væri seldur, en forsendur stefnanda fyrir ákvörðun um beitingu forkaupsréttar breytast nokkuð ef einungis er seld hálf jörðin að óskiptu. Um hlut stefndu Fjólu hefur forkaupsréttur stefnanda ekki orðið virkur.

Stefnandi hefur enga hagsmuni af því að fá úrskurð landbúnaðarráðherra felldan úr gildi, enda er hann þýðingarlaus eins og nú er komið. Komi til þess síðar að jörðin verði seld yrði að bjóða stefnanda forkaupsrétt og ákvörðun hans yrði eftir atvikum kærð til ráðherra. Yrði þá að kveða upp úrskurð á grundvelli þeirra gagna sem þá verða lögð fram og um þau kaup sem þá hefðu verið gerð.

                Máli þessu verður því að vísa frá dómi. Rétt er að fella málskostnað niður.

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.