Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 2. október 2002. |
|
Nr. 452/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Sigurgeirsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. október nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2002.
Ár 2002, laugardaginn 28. september, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Hirti O. Aðalsteinssyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. október 2002 klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík segir að kærði hafi verið handtekinn laust eftir miðnætti í nótt að [...] í Reykjavík, en hann sé grunaður um að standa fyrir rekstri þar sem stundað sé fjárhættuspil og að hafa af því verulegar tekjur.
Undanfarin misseri hafi lögreglunni í Reykjavík margsinnis borist til eyrna orðrómur um að rekið sé „spilavíti” að [...] í Reykjavík. Á árinu 1998 hafi farið fram af hálfu lögreglu athugun á starfsemi í umræddu húsnæði sem laut að spilamennsku einhverskonar en af þeirri rannsókn hafi helst verið ályktað að um væri að ræða lokaðan klúbb manna og almenningur hefði þar engan aðgang. Á þeim tíma hafi verið og sé enn skráður bridgeklúbbur í húsinu.
Fyrr á þessu ári hafi gefið sig fram við lögreglu maður sem hafi óskað nafnleyndar og skýrt frá því að hann hefði verið haldinn spilafíkn og verið fastagestur á þessum stað og þar sé spilað um háar fjárhæðir og sé hart gengið fram í innheimtu skulda. Í júní sl. hafi óeinkennisklæddir lögreglumenn farið að [...]. Þar muni þá hafa verið fimm stór spilaborð, tvö „rúllettuborð” og þrjú „blackjack” borð. Allnokkrir starfsmenn hafi þá verið við störf í spilaklúbbnum. Komið hafi í ljós að menn virðist geta gengið inn af götunni og spilað upp á peninga þarna en þeim sem spila sé veitt áfengi án sérstaks endurgjalds. Séu gestir ekki við spilamennsku muni hins vegar rukkað fyrir drykki áþekkt verð og á veitingahúsum en staður þessi hafi ekki leyfi til áfengisveitinga. Lögreglumennirnir hafi keypt aðgang að spilunum fyrir 5000 krónur hver og fengið afhentar greiðslu- eða debetkortanótur sem þeir hafi svo þurft að skipta fyrir spilapeninga. Í stað tilgreiningar á fyrirtæki á greiðslukortanótunum hafi staðið X. Kærði hafi komið við sögu lögreglu áður, en hann hafi verið sakfelldur í Hæstarétti að [...].
Lögreglan hafi farið inn á umræddan stað í nótt og leitað þar samkvæmt úrskurði Héraðsdóms. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi verið þar 11 gestir og 7 starfsmenn að kærða meðtöldum. Hafi þá verið spilað á þremur borðum, þ.e. rúllettuborði, blackjackborði og pókerborði, og hafi verið fimm gjafarar við borðin þrjú auk eins stjórnanda. Lagt hafi verið hald á ríflega tvær milljónir króna í reiðufé auk spilaborða og annars útbúnaðar til spilamennsku, talsvert af áfengi og tóbaki, auk svokallaðrar posavélar, að ótöldum húsgögnum og öðrum búnaði.
Fram hafi komið í framburði vitna að þarna sé og hafi verið stundað fjárhættuspil og séu nefndar í því sambandi fjárhæðir sem nemi tugum þúsunda króna. Komi jafnframt fram að kærði sé einn forsvarsmanna staðarins og haldi utan um fjármál hans og rekstur en þegar hafi komið fram að þegar keyptur sé aðgangur að spilunum þá greiði spilamenn með debet- eða kreditkorti og sé kærði tilgreindur á nótunum í stað fyrirtækis. Kærði hafi verið yfirheyrður af lögreglu og neiti hann að svara spurningum sem varði sakarefnið.
Lögreglan kveður rannsókn málsins vera á frumstigi en ljóst sé að talsverð vinna sé framundan við rannsókn málsins, enda liggi fyrir afstaða kærða að svara ekki spurningum lögreglu um sakarefnið og hafi fleiri sem hafi verið á staðnum við inngöngu lögreglu tekið sömu afstöðu. Þurfi að taka frekari skýrslur af kærða og bera undir hann ýmis gögn s.s. bankagögn, sem þurfi að afla, og framburði annarra eftir því sem þeir verði til en fyrirsjáanlegt sé að skýrslur muni þurfa að taka af mörgum mönnum vegna málsins en þar sé einkum um að ræða vitni. Beri brýna nauðsyn til að hneppa kærða í gæsluvarðhald til að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins með því að hafa samband við vitni eða samseka og þannig torveldað rannsókn málsins eða komið undan gögnum sem kunni að hafa þýðingu í málinu. Rannsókn málins sé á frumstigi og brýnt að vernda rannsóknarhagmuni strax í upphafi.
Lögreglan kveðst vera að rannsaka ætluð brot kærða gegn 183. og/eða 184. gr. almennra hegningarlaga sem geti varðað fangelsisrefsingu ef sannist. Rannsókn málsins sé á frumstigi og ef kærði gengi nú laus gæti hann torveldað mjög þá rannsóknarvinnu sem enn sé ólokið. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað í a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 1. mgr. 183. gr. og/eða 184. gr. almennra hegningarlaga. Refsing samkvæmt þeim lagagreinum er fjársekt eða fangelsi allt að einu ári. Kærði hefur neitað að tjá sig um sakarefnið en lagt hefur verið hald á ýmis gögn sem benda til þess að einhvers konar fjárhættuspil sé stundað í húsi [...]. Þá er ljóst að yfirheyra þarf fjölda manns og kanna bankagögn í þágu rannsóknar málsins. Haldi kærði óskertu frelsi er augljós hætta á því að hann geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og samseka eða skjóta undan munum.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. október nk. kl. 16.00.