Hæstiréttur íslands
Mál nr. 521/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Gagnaöflun
- Vitni
|
|
Miðvikudaginn 14. desember 2005. |
|
Nr. 521/2005. |
Sigurdís Benónýsdóttir(Ásgeir Jónsson hdl.) gegn dánarbúi Vigdísar Baldvinsdóttur (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Gagnaöflun. Vitni.
B var ekki talinn aðili máls og var honum því ekki heimilt að gefa skýrslu sem slíkum. Þá var ekki talið sýnt fram á neitt sem réttlætt gæti að víkja frá þeirri meginreglu að ekki skuli leiða vitni í málum sem rekin eru samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Var því ekki fallist á að heimilt væri að leiða B sem vitni í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leiða nafngreint vitni í máli hennar gegn varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og henni heimilað að leiða vitnið. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á þá niðurstöðu að Benóný Pétursson geti ekki talist hafa stöðu aðila við skýrslutöku í máli þessu. Þá verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á neitt það sem réttlætt geti að vikið verði frá þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga, að vitnaleiðslur skuli að jafnaði ekki fara fram í málum sem rekin eru eftir 15. kafla laganna. Ber því að staðefsta hinn kærða úrskurð.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2005.
Í máli þessu krefst sóknaraðili, Sigurdís Benónýsdóttir, [kt.], Hringbraut 106, Reykjanesbæ, þess að aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2005-07812, sem fram fór hjá henni þann 7. júlí sl að kröfu varnaraðila, dánarbús Vigdísar Baldvinsdóttur, [kt.], verði ógilt. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, þann 7. júlí 2005, um að fjárnám skuli fara fram í eignum sóknaraðila til tryggingar kröfu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að Benóný Pétursson gefi aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Lögmaður sóknaraðila mótmælir kröfunni. Krafan var tekin til úrskurðar 9. nóvember sl.
Mál þetta varðar gildi fjárnámsgerðar sem gert var til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu af Benóný Péturssyni, sem er faðir sóknaraðila, til Vigdísar Baldvinsdóttur, með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila og móður hennar.
Varnaraðili byggir á að þar sem Benóný Pétursson sé aðalskuldari á skuldabréfi því sem mál þetta snýst um skipti niðurstaða málsins hann miklu máli. Hann hafi því í raun stöðu aðila í málinu en svo sem ráða megi að lokaorðum 1. mgr. og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 94. gr. sömu laga séu aðilaskýrslur heimilar í málum sem rekin séu samkvæmt 15. kafla laganna. Nauðsyn beri til að fá frásögn Benónýs Péturssonar af samskiptum hans og Vigdísar Baldvinsdóttur heitinnar.
Sóknaraðili byggir á að sýnilega sé þarflaust að taka skýrslu í málinu af Benóný Péturssyni og því beri að hafna kröfu varnaraðila, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.
Í almennu einkamálaréttarfari er hugtakið aðili notað um þann sem höfðar mál eða máli er beint að. Í 48. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru almennar reglur um hverjir gefi munnlega skýrslu fyrir dómi sem aðilar að máli. Er í ákvæðinu rætt um aðila án nánari afmörkunar á því hvort reglur um aðilaskýrslur geti náð til allra tegunda aðildar samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna. Þessa þögn ákvæðisins er óhjákvæmilegt að skýra þannig að reglur kaflans nái jöfnum höndum til upphaflegra aðila að málinu og aðila sem koma inni í mál á síðari stigum. Þá þykir verða að ganga út frá að réttargæsluaðili eigi einnig hér undir. Þá er kveðið á um það í 4. mgr. 48. gr. að fyrirsvarsmaður, sem kemur fram í máli fyrir einstakling eða lögpersónu eftir ákvæðum 3. 5. mgr. 17. gr. laganna gefi einnig skýrslu sem aðili fyrir dómi.
Í 1. mgr. 51. gr. laganna er vitni skilgreint sem maður sem kemur fyrir dóm til munnlegrar skýrslugjafar og telst hvorki aðili að máli né fyrirsvarsmaður aðila.
Eins og áður greinir er aðili máls sá sem höfðar mál eða máli er beint að. Vitni gerir hins vegar engar kröfur um niðurstöðu máls og engum slíkum kröfum er beint að því. Þykir unnt að byggja á þessum einkennum þegar skera þarf úr um hverjir séu aðilar máls og hverjir vitni.
Samkvæmt framanröktu er því ekki fallist á að Benóný Pétursson, sem engar kröfur hefur uppi í málinu og engum kröfum er beint að, geti haft stöðu aðila við skýrslutöku í máli þessu. Þykir engu breyta í því tilliti að Benóný Pétursson hefði getað haft aðilastöðu í málinu. Verður því með hliðsjón af því og banni 1. mgr. 83. gr. laga 90/1989 við notkun vitnaframburðar í málum um aðfararbeiðni að hafna kröfu varnaraðila um að skýrsla verði tekin af Benóný Péturssyni.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að Benóný Pétursson gefi skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.