Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2003
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Aðild
- Stjórnarskrá
- Tjáningarfrelsi
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2003. |
|
Nr. 36/2003. |
Árni Matthías Mathiesen(Árni Grétar Finnsson hrl.) gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni (Gunnar Sæmundsson hrl.) |
Ærumeiðingar. Aðild. Stjórnarskrá. Tjáningarfrelsi. Mannréttindasáttmáli Evrópu.
M krafðist þess að tiltekin ummæli Á yrðu ómerkt, auk þess sem Á yrði gert að sæta refsingu og greiða M miskabætur. Fallist var á það með Á að ummælum hans um sviðsetningu frétta hafi verið beint að fréttastofu sjónvarpsins, en ekki M og gat M því ekki átt aðild að kröfu á hendur Á vegna þeirra ummæla. Var Á samkvæmt því sýknaður af kröfum M í þessum þætti málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Talið var að M hefði, með því að hasla sér völl í stjórnmáladeilu með þeim hætti sem hann gerði, mátt búast við því að andsvör kæmu frá Á. Að atvikum málsins virtum þóttu ekki efni til að fallast á að Á hefði veist að æru M með því að haga orðum sínum á þann hátt, sem hann gerði. Litið var til þess að Á hafi ekki átt upptökin að umræðunni, heldur hafi orð hans fallið að gefnu tilefni frá M. Sú aðstaða að Á var stjórnmálamaður og gegndi embætti sjávarútvegsráðherra gat hér engu breytt um þá niðurstöðu að með orðum hans var ekki farið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis. Var Á sýknaður af kröfum M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2003. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi höfðaði mál þetta gegn áfrýjanda vegna ummæla, sem hinn síðarnefndi lét falla í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fjölsýn í Vestmannaeyjum 23. nóvember 2001 og nánar verður getið um hér á eftir. Í viðtalinu var vikið að því athæfi að kasta veiddum fiski aftur í sjóinn af íslenskum fiskiskipum þótt skylt sé að færa aflann að landi. Áfrýjandi var þá alþingismaður og sjávarútvegsráðherra og gegnir hann þeim störfum enn. Stefndi er menntaður fiskifræðingur, en starfar nú sem alþingismaður. Er atvik málsins urðu starfaði hann sem sjálfstæður verktaki fyrir ríkisútvarpið, sjónvarp og hljóðvarp, við gerð þátta með fréttum og fréttatengdu efni auk þess að annast greinaskrif fyrir norska blaðið Fiskaren.
Nokkru fyrir áðurnefnt viðtal eða hinn 8. nóvember 2001 var sýndur í sjónvarpi ríkisútvarpsins fréttaþáttur, þar sem sýnt var brottkast afla á fiskimiðum við Ísland. Hafði stefndi aflað efnis í þáttinn skömmu áður um borð í fiskiskipinu Bjarma BA 326 frá Tálknafirði, en hann fór þá í tvær veiðiferðir með skipinu ásamt Friðþjófi Helgasyni, sem annaðist kvikmyndatöku. Lítill hluti efnisins var þó tekinn um borð í fiskiskipinu Báru ÍS 364, en kvikmyndatökumaðurinn fór einnig í eina veiðiferð með því skipi. Vakti þátturinn mikla athygli og urðu í kjölfarið umræður um hann í fjölmiðlum, sem stefndi tók þátt í, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi. Þar eru einnig tekin upp orðrétt þau ummæli áfrýjanda, sem stefndi taldi ærumeiðandi fyrir sig, og kröfur hans í málinu beindust að. Voru ummælin í fjórum liðum, sem stefndi merkti í málatilbúnaði sínum 1. a. til c. og 2. d. Héraðsdómur sýknaði áfrýjanda af kröfum stefnda vegna tveggja fyrsttöldu ummælanna, þ.e. í liðum 1. a. og b. en sakfelldi áfrýjanda fyrir þau, sem merkt voru 1. c. og 2. d. Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og lýsti yfir fyrir Hæstarétti að hann sætti sig við þá niðurstöðu, sem orðin væri. Þau ummæli áfrýjanda, sem eru því til umfjöllunar í málinu, eru þessi:
1.c. „Magnús Þór lýsti því hérna yfir að hann ætlaði sér sko að koma hérna höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið erlendis og hérna, og koma hvernig hann nú orðaði það, að hérna skemma fyrir íslenskum stjórnvöldum og því sem íslensk stjórnvöld eru að reyna að gera í fiskveiðistjórnun, á erlendri grundu. Þetta er náttúrulega fáheyrt, ef ekki bara óheyrt, að fréttamaður láti svona út úr sér, að hann hafi stefnu sem þessa.“
2.d. „... af því að við erum nú hérna í sjónvarpi og í svona fréttaviðtali, að mér finnst það hins vegar vera stórt mál fyrir fréttastofu hvort að hún ætli sér yfir höfuð að viðhafa svona vinnubrögð að sviðsetja fréttir. Á Stöð 2 einu sinni þá var fréttmaður sem sviðsetti dópviðskipti uppi í Rauðhólum og hann var rekinn. Og það var einu sinni fréttamaður í Bandaríkjunum sem að sviðsetti það að átta ára gömul blökkustúlka væri heróínneytandi og hann fékk Pulitzer Prize verðlaunin fyrir. Síðan komst þetta upp um hann og hann var auðvitað rekinn frá blaðinu sem hann var að starfa á og hérna hann þurfti að skila verðlaununum. Þess vegna spyr maður sjálfan sig sko, eru þetta vinnubrögðin sem að Ríkissjónvarpið ætlar að viðhafa, og þarf maður alltaf að hugsa í hvert einasta skipti sem maður hefur horft á einhverja frétt sko, bíddu -var þetta sviðsett eða var þetta alvörufrétt?“
II.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi skýrslu fyrir dómi. Lýsti hann þar aðdraganda að gerð þáttarins þannig að hann hafi heyrt haft eftir Níelsi Ársælssyni, skipstjóra á Bjarma, að hann hafi hent miklu af fiski í sjóinn og að ástandið væri að þessu leyti almennt slæmt. Hafi stefndi sett sig í samband við Níels, sem að nokkrum tíma liðnum féllst á tilmæli sín um að fá að koma með í veiðiferð og kvikmynda það, sem þar gerðist. Hafi stefndi og kvikmyndatökumaðurinn nokkru eftir þetta farið í veiðiferðir með Níelsi í byrjun nóvember 2001. Úr því myndefni, sem þá var aflað, hafi síðan verið valin um 30 mínútna löng myndskeið, sem færð hafi verið yfir á myndbandsspólu og hún afhent fréttastofu sjónvarpsins. Þetta verk hafi kvikmyndatökumaðurinn annast einn. Þá vísaði stefndi eindregið á bug ummælum, sem eftir sýningu þáttarins voru höfð í fjölmiðlum eftir skipstjóranum á Bjarma, þess efnis að brottkast fisks hafi verið sett á svið í veiðiferðunum og að stefndi og kvikmyndatökumaðurinn hafi ekki gert sér grein fyrir því. Að mati stefnda hafi ekkert verið sett á svið og öll háttsemi skipverja verið mjög trúverðug. Auðséð hafi verið að þeir voru vanir að gera þetta og ekkert hafi vakið grunsemdir sínar um að eitthvað óvenjulegt væri þarna að gerast. Skýringuna á þeirri háttsemi sjómanna að varpa fiski fyrir borð taldi stefndi að væri almennt að finna í sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu, svokölluðu kvótakerfi. Skip með litlar eða engar aflaheimildir væru gerð út á blandaðar botnfiskveiðar á Íslandsmiðum, en þeir sem stæðu að þeim veiðum væru yfirleitt illa staddir fjárhagslega og leigðu veiðiheimildir á okurverði. Við þær aðstæður leiddust þeir út í að henda fiski fyrir borð. Friðþjófur Helgason hafnaði því einnig í skýrslu sinni fyrir dómi að um sviðsetningu á brottkasti fisks hafi verið að ræða. Örn Sveinsson stýrimaður og Bjarni Pétursson vélstjóri, skipverjar á Bjarma í umræddum veiðiferðum, gáfu einnig skýrslu fyrir dómi. Kvað Örn brottkast á fiski í umrætt sinn hafa verið líkt því sem venjulega væri að því gættu þó að mjög vel hafi aflast í þessum veiðiferðum en veiði verið treg áður. Brottkast hafi verið mismunandi mikið í veiðiferðum. Sagði hann að því færi víðs fjarri að eitthvað hafi verið sviðsett. Skipstjórinn hafi sagt við skipverja: „Þið gerið þetta eins og venjulega.“ Spurningu vitnisins um hvort henda ætti fiski í sjóinn fyrir framan myndavélarnar hafi skipstjórinn svarað: „Já, já ... alla ýsu sem er undir einu kílói, allan þorsk sem er undir tveimur og hálfu kílói. Í sjóinn með þetta.“ Kvað Örn brottkast fisks hafa viðgengist síðan hann byrjaði á sjó og að það hafi ekki minnkað við tilkomu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis, en „þá jókst brottkastið frekar en hitt.“ Bjarni Pétursson bar með líkum hætti og Örn og þvertók fyrir að nokkuð hafi verið sviðsett. Veiði hafi verið mjög góð í umrætt sinn og brottkast því hugsanlega meira en venjulega. Gat hann sér þess til að nálægt fjórðungi eða fimmtungi heildaraflans í veiðiferðinni hafi verið kastað í sjóinn aftur, en nálægt 70 tonnum verið landað eftir þriggja daga veiðar. Níels Ársælsson skipstjóri gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Sagði hann að einungis 40 fiskum hefði verið hent í sjóinn aftur í þessum veiðiferðum, en þeir hafi verið sýktir af ormi og selbitnir. Á hans skipi væri bannað að henda fiski. Hafi það verið gert væri það í algerri andstöðu við fyrirmæli sín.
Í málsvörn sinni leggur áfrýjandi áherslu á að brottkast fisks hafi einnig viðgengist áður en núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp og nefnir ýmis dæmi því til stuðnings. Kvótakerfinu verði því ekki um það kennt. Stefndi sé hins vegar harður andstæðingur núverandi kerfis og hafi barist gegn því á opinberum vettvangi, ekki síst með staðhæfingum um að ástæður brottkasts á fiski lægju í sjálfu stjórnkerfi fiskveiðanna. Sjálfur sé áfrýjandi sem sjávarútvegsráðherra í forsvari fyrir þá stefnu, sem fylgt sé, og hafi hann mátt sæta árásum af hálfu stefnda. Augljóst sé að stefndi hafi ætlað að láta kné fylgja kviði í gagnrýni sinni með sjónvarpsþættinum 8. nóvember 2001 og talið sig hafa fengið öflug vopn í hendur með því myndefni, sem hann hafði aflað. Ýmis ummæli hans á þeim tíma beri þess vott, eins og til dæmis þau orð hans í Fréttablaðinu degi eftir sýningu þáttarins að stjórnvöldum sé engin vorkunn, þau séu búin að „sigla með þessa sprengju í lestinni í alla vega tíu ár án þess að gera neitt með hana. Núna springur hún.“ Stefndi hafi sýnilega talið sjónvarpsþátt sinn vera þessa sprengju. Í viðtali við fréttamann ríkisútvarps, hljóðvarps 8. nóvember 2001, nokkrum klukkustundum fyrir sýningu þáttarins, hafi stefndi sagt að hann gæti ekki ímyndað sér „að umræðan um þetta fiskveiðistjórnunarkerfi á Íslandi að hún geti hreinlega orðið söm eftir þetta því að þessar myndir eru alveg skelfilegar.“ Ennfremur að myndirnar ættu „eftir að fara út um allan heim og álitshnekkirinn fyrir íslenska fiskveiðistjórn og íslensk stjórnvöld hann á eftir að vera gríðarlegur.“ Þessa og aðra framgöngu stefnda í viðkvæmu pólitísku deilumáli telur áfrýjandi að verði að hafa í huga við mat á þeim ummælum, sem málið er sprottið af, og um leið rétti hans til andsvara. Hér sé um að ræða pólitíska baráttu stefnda í umdeildu máli og gildi einu hvort slík barátta sé háð í nafni stjórnmálaflokka eða utan þeirra.
Að því er varðar sérstaklega orðið sviðsetningu, sem kemur fyrir í lið 2. d. í hinum umþrættu ummælum, bendir áfrýjandi á að stefndi kveðist hafa aflað um tveggja klukkustunda myndefnis í veiðiferðunum. Úr því hafi verið klippt um þrjátíu mínútna efni handa sjónvarpinu, en einungis um tvær mínútur verið sýndar. Þar sjáist stöðugt brottkast fisks, án vafa til að gera efnið sem áhrifaríkast. Alls ekki sé þó víst að þessi stutta sýning gefi rétta mynd af umfangi brottkasts á fiski í veiðiferðunum, en svar við því fáist aðeins með því að skoða allt myndefnið. Klipping og röðun slíks efnis ráði miklu um það hvernig frétt sé meðtekin af áhorfendum, en með þeirri framsetningu, sem viðhöfð var, sé reynt að sýna brottkastið sem ákafast. Hafi hann því skorað á stefnda undir rekstri málsins að leggja fram allar filmurnar, sem hann aflaði, svo fá mætti raunsanna mynd af því sem gerðist í veiðiferðunum. Þessu hafi stefndi hins vegar hafnað, sem hljóti að skipta máli þegar litið sé til þess að stefndi krefjist þess engu að síður að áfrýjandi verði meðal annars dæmdur til að sæta refsingu. Starfsmaður fréttastofunnar, Benedikt Sigurðsson fréttamaður, hafi klippt og valið myndefnið, sem sýnt var í fréttum, en fyrir dómi hafi hann haldið fram að það efni, sem hann fékk í hendur, hafi sýnt stöðugt brottkast. Bæði stefndi og Friðþjófur Helgason hafi hins vegar sagt fyrir dómi að á myndbandsspólunni kæmi ekki fram að verið væri að henda fiski allan tímann. Þar sé sitthvað annað sýnt, svo sem flokkun fisks um borð og fleira. Fréttamaðurinn hagræði hins vegar myndefninu og hafi eingöngu verið sýnt þegar fiski var hent. Hér sé um hreina sviðsetningu að ræða, sem fréttastofa sjónvarpsins beri ábyrgð á. Þetta sé áróður og fréttastofan sek um sviðsetningu. Að auki hafi fréttamaður ríkisútvarps, hljóðvarps, í áðurnefndu viðtali við stefnda 8. nóvember 2001 sagt að hann sé búinn að sjá þessar myndir og þar sé „stærðarinnar fiski dælt dauðum í sjóinn bókstaflega í tonnatali.“ Fyrir liggi þó að skipstjórinn á Bjarma hafi verið ákærður og sakfelldur fyrir Héraðsdómi Vestfjarða fyrir að kasta 53 fiskum, sem sjónvarpssýningin beri með sér að hafi verið gert, en ekki tugum tonna eins og fréttamaðurinn leyfi sér að staðhæfa að kastað hafi verið fyrir borð. Varðandi þennan þátt málsins ber áfrýjandi ennfremur fyrir sig að hvað sem öðru líði geti stefndi ekki átt aðild að máli á hendur sér vegna ummælanna í lið 2. d. Áfrýjandi hafi beint gagnrýni, sem þar komi fram, að fréttastofu sjónvarpsins en ekki að stefnda. Fréttastofan hafi ekki höfðað mál af þessu tilefni. Stefndi viðurkenni að orðunum sé beint að fréttastofunni og sé ekkert hald í þeirri viðbáru hans að „ummælin verði að skilja sem ábendingu til Sjónvarpsins um að hætta að nýta sér þjónustu stefnda og þá jafnframt aðgerð til að bola honum úr starfi fréttamanns.“ Ekkert slíkt hafi heldur gerst í raun.
III.
Ummæli áfrýjanda í lið 2. d. varða sviðsetningu frétta. Hvernig skilja eigi orðið sviðsetningu og hvað raunverulega hafi falist í ummælunum hafa málsaðilar skýrt með ólíkum hætti, svo sem rakið er í II. kafla að framan. Hvað sem þessum ágreiningi líður verður að fallast á með áfrýjanda að þessum orðum hafi verið beint að fréttastofu sjónvarpsins. Er orðalagið að þessu leyti skýrt og samhengi orðanna við það, sem á undan var sagt, breytir því ekki. Getur stefndi því ekki átt aðild að kröfu á hendur áfrýjanda vegna ummælanna í lið 2. d. Verður áfrýjandi samkvæmt því sýknaður af kröfum stefnda í þessum þætti málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Með ummælum sínum í lið 1. c. hélt áfrýjandi fram að stefndi hafi ætlað að koma höggi á fiskveiðistjórnkerfið erlendis og skemma fyrir íslenskum stjórnvöldum og því, sem þau séu að reyna að gera, einnig í útlöndum. Orðin „erlendis og hérna“ voru af hálfu áfrýjanda nánar skýrð við flutning málsins fyrir Hæstarétti þannig að með þeim væri átt við bæði á erlendum og innlendum vettvangi. Orðalag áfrýjanda í lið 1. c. ber glöggt með sér að hann telur stefnda hafa lýst þessum ásetningi sínum berum orðum, sbr. orðin „lýsti því yfir ...“, „hvernig hann nú orðaði það ...“ og „láti svona út úr sér ...“. Í málinu hafa verið lögð fram endurrit ýmissa ummæla stefnda á opinberum vettvangi um íslenska fiskveiðistjórnkerfið og þá háttsemi að henda fiski fyrir borð á Íslandsmiðum. Eru mörg þeirra nánar tilfærð í héraðsdómi og í II. kafla að framan. Ekki hefur verið bent á þann stað í umræðu stefnda í fjölmiðlum þar sem hann hafi sagt eða lýst yfir berum orðum að markmið hans væri það, sem áfrýjandi hélt samkvæmt áðursögðu fram. Fær því ekki breytt þótt fyrirvari hafi falist í staðhæfingu hins síðarnefnda um orðalag stefnda í slíkum yfirlýsingum, sbr. „hvernig hann nú orðaði það ...“.
Áfrýjandi byggir á því að stefndi hafi haldið uppi andstöðu við stefnu stjórnvalda í stjórnun fiskveiða með pólitískri baráttu á opinberum vettvangi. Hann hafi því hvað sem öðru líður unnið gegn henni í verki og reynt að koma höggi á stjórnvöld með framgöngu sinni og skemma fyrir þeim. Til að skjóta stoðum undir málsvörn sína hefur áfrýjandi lagt fram mörg endurrit úr fjölmiðlum, þar sem stefndi hefur fjallað um og lýst skoðunum sínum á fiskveiðistjórnkerfinu og brottkasti á fiski úr skipum við veiðar. Er einkum um að ræða endurrit úr innlendum fjölmiðlum frá árunum 2000 og 2001, en í nokkrum tilvikum einnig erlendum frá nóvember 2001. Þá er fram komið að stefndi hefur komið fréttamyndinni á framfæri á tilteknar erlendar vefsíður.
Svo sem áður var getið starfaði stefndi sem fréttamaður á þeim tíma, sem atvik málsins urðu. Þátttaka hans í opinberri umræðu um fiskveiðistjórnkerfið og brottkast á fiski takmarkaðist þó engan veginn við tilvik, þar sem hann kom fram í hlutverki fréttamanns við miðlun eða skýringu á fréttaefni. Dæmi þess eru viðtal við hann í Sjómannablaðinu Víkingi í júlí 2000, þar sem af hálfu blaðsins var leitað eftir skoðunum hans sem fiskifræðings og fréttamanns á áðurnefndum málefnum. Í því viðtali sagði stefndi meðal annars að útvegsmenn eða sjávarútvegsráðherra hefði „svæft“ fram komnar tillögur varðandi brottkast á fiski. Annað slíkt dæmi er ritdeila stefnda við fulltrúa Landssambands íslenskra útvegsmanna á fréttavef Morgunblaðsins á tímabilinu frá júlí til október 2001. Hafa gögn málsins að geyma ýmis fleiri dæmi þar sem stefndi lýsti í fjölmiðlum persónulegum skoðunum sínum á framkvæmd og göllum kvótakerfisins. Af skrifum stefnda í erlenda fjölmiðla hefur einkum verið bent á grein hans í blaðinu Fiskaren 16. nóvember 2001, þar sem hann lýsti kvótakerfinu sem „en ødeleggende helvetesmaskin“ og að „det bør avskaffes snarest mulig.“ Fyrir dómi þýddi stefndi þessi tilteknu ummæli þannig: „Íslenska kvótakerfið er í raun eyðileggjandi vítisvél. Það ætti að afleggja eins fljótt og mögulegt er.“
Samkvæmt öllu framanröktu kvaddi stefndi sér margoft hljóðs á opinberum vettvangi og gagnrýndi stefnu stjórnvalda í máli, sem heitar pólitískar deilur hafa staðið um, auk þess sem gagnrýni var beint að áfrýjanda sjálfum. Með því að hasla sér völl í stjórnmáladeilu með þessum hætti mátti stefndi búast við því að andsvör kæmu frá áfrýjanda sem forsvarsmanni stjórnvalda við framkvæmd stefnu þeirra um stjórn fiskveiða. Stefndi er menntaður fiskifræðingur og þegar hin ýmsu ummæli hans eru virt er hafið yfir vafa að þau voru til þess fallin að kasta rýrð á stefnu stjórnvalda, hvort heldur var í augum útlendinga eða Íslendinga sjálfra. Verður að fallast á með áfrýjanda að stefndi hafi í raun gengið fram með þeim hætti að orð hans fólu óhjákvæmilega í sér að höggi yrði komið á stjórnvöld, sem skemmt gat fyrir stefnu þeirra. Getur þá ekki ráðið úrslitum þótt stefndi hafi ekki lýst berum orðum ásetningi sínum í þessa veru, enda verður framganga hans ekki metin öðru vísi en svo að hann hafi gert það í verki. Þegar þetta er virt eru ekki efni til að fallast á að áfrýjandi hafi veist að æru stefnda með því að haga orðum sínum á þann hátt, sem hann gerði. Verða ummælin í lið 1. c. því hvorki ómerkt né kröfur stefnda teknar til greina að öðru leyti. Geta þá heldur engu breytt þau rök stefnda í greinargerð til Hæstaréttar að við mat á ummælum áfrýjanda verði að hafa í huga að „þau eru viðhöfð af manni sem gegnir áhrifa- og virðingarstöðu í þjóðfélaginu og sé því tekið meira mark á en almennum borgara.“ Áfrýjandi átti ekki upptökin að umræðunni, sem áður er lýst, heldur féllu orð hans að gefnu tilefni frá stefnda. Sú aðstaða að áfrýjandi er stjórnmálamaður og gegnir embætti sjávarútvegsráðherra getur hér engu breytt um þá niðurstöðu að með orðum hans var ekki farið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis.
Samkvæmt öllu framanröktu er niðurstaða málsins sú að áfrýjandi verður sýknaður af kröfum stefnda. Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Árni Matthías Mathiesen, er sýkn af kröfum stefnda, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.
Málskostnaður í hérað og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2002.
Málið var höfðað 26. apríl 2002 og dómtekið 17. október 2002. Stefnandi er Magnús Þór Hafsteinsson, Háholti 33, Akranesi. Stefndi er Árni Matthías Mathiesen, Lindarbergi 18, Hafnarfirði.
Í málinu er deilt um hvort ummæli sem stefndi viðhafði í viðtali við Ómar Garðarsson fréttamann hjá sjónvarpsstöðinni Fjölsýn í Vestmannaeyjum hinn 23. nóvember 2001 um brottkast sjávarafla séu ærumeiðandi í garð stefnanda.
Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi:
1. Að eftirfarandi ummæli í framangreindu viðtali verði ómerkt samkvæmt heimild í 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940:
a. „... hann er nú yfirlýstur andstæðingur kvótakerfisins og hefur margsagt það að hans markmið sé hérna að rífa niður þetta kerfi.“
b. „... ég held að það sé, geti ekki verið að skipstjóri sem er búinn að viðurkenna það, að hann hafi sviðsett þetta, að hann hafi verið að blekkja fiskifræðinginn og fréttamanninn.”
c. „Magnús Þór lýsti því hérna yfir að hann ætlaði sér sko að koma hérna höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið erlendis og hérna, og koma hvernig hann nú orðaði það, að hérna skemma fyrir íslenskum stjórnvöldum og því sem íslensk stjórnvöld eru að reyna að gera í fiskveiðistjórnun, á erlendri grundu. Þetta er náttúrulega fáheyrt, ef ekki bara óheyrt, að fréttamaður láti svona út úr sér, að hann hafi stefnu sem þessa.”
2. Að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna framangreindra ummæla samkvæmt 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga, sem og fyrir eftirfarandi ummæli, sem stefndi viðhafði í umræddu viðtali og stefnandi telur fela í sér refsiverða meingerð við persónu sína þótt þeim sé beint að þriðja aðila:
d. „... af því að við erum nú hérna í sjónvarpi og í svona fréttaviðtali, að mér finnst það hins vegar vera stórt mál fyrir fréttastofu hvort að hún ætli sér yfir höfuð að viðhafa svona vinnubrögð að sviðsetja fréttir. Á Stöð 2 einu sinni þá var fréttamaður sem sviðsetti dópviðskipti uppi í Rauðhólum og hann var rekinn. Og það var einu sinni fréttamaður í Bandaríkjunum sem að sviðsetti það að átta ára gömul blökkustúlka væri heróínneytandi og hann fékk Pulitzer Prize verðlaunin fyrir. Síðan komst þetta upp um hann og hann var auðvitað rekinn frá blaðinu sem hann var að starfa á og hérna hann þurfti að skila verðlaununum. Þess vegna spyr maður sjálfan sig sko. Eru þetta vinnubrögðin sem Ríkissjónvarpið ætlar að viðhafa, og þarf maður alltaf að hugsa í hvert einasta skipti sem maður hefur horft á einhverja frétt sko bíddu var þetta sviðsett eða var þetta alvörufrétt.”
3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu 500.000 króna miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er mál þetta telst höfðað til greiðsludags.
Loks verði stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og málskostnaðar.
I.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins fimmtudaginn 8. nóvember 2001 fjallaði Benedikt Sigurðsson fréttamaður um brottkast sjávarafla af tveimur ónafngreindum fiskiskipum á Íslandsmiðum. Fréttinni fylgdi um það bil tveggja mínútna myndskeið af brottkasti afla um borð í skipunum og vakti hún sterk viðbrögð og mikla umræðu í fjölmiðlum. Fljótlega kom í ljós að stefnanda og Friðþjófi Helgasyni kvikmyndatökumanni hafði nokkrum dögum áður verið boðið í veiðiferð á skipunum Bjarma BA 326 og Báru ÍS 364 og að þar hefði Friðþjófur kvikmyndað brottkast afla. Fyrir liggur að Friðþjófur eigi um tveggja klukkustunda langa upptöku frá veru sinni um borð og að hann hafi afhent fréttastofu sjónvarpsins um það bil þrjátíu mínútna myndskeið, sem fréttin hafi verið unnin upp úr. Stefnandi reisir málsókn sína á því að í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali á Fjölsýn hafi verið vikið að umræddri frétt og stefndi þá látið þau ummæli falla, sem urðu tilefni málshöfðunarinnar. Stefndi gaf ekki aðilaskýrslu fyrir dómi. Liggur því ekki fyrir með ótvíræðum hætti hvort frétt Ríkissjónvarpsins hafi verið kveikjan að ummælum hans. Í greinargerð lögmanns stefnda er grundvelli málsins svo lýst að það snúist annars vegar um hatramma gagnrýni stefnanda á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi íslendinga, sem stefndi sé í fyrirsvari fyrir sem sjávarútvegsráðherra og hins vegar um rétt stefnda til að svara fyrir sig og láta í ljós álit sitt í nefndu sjónvarpsviðtali á gagnrýni stefnanda og vinnubrögðum hans við gerð og birtingu fréttarinnar. Í ljósi framanritaðs verður ekki hjá því komist að fjalla um forsögu málaferlanna, með hliðsjón af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn.
II.
Stefnandi er fiskifræðingur að mennt, en hefur frá árinu 1999 starfað sem blaðamaður hjá norska sjávarútvegsblaðinu „Fiskaren“. Samhliða því starfi hefur hann verið í lausamennsku hjá fréttastofum Ríkisútvarpsins; sjónvarpi og útvarpi, skrifað greinar um málefni tengd sjávarútvegi í Morgunblaðið og tímaritið Fiskifréttir og kennt veiðarfæratækni við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Sumarið 2000 flutti stefnandi fréttir í Ríkissjónvarpinu um brottkast sjávarafla af íslenskum fiskiskipum, sem vöktu hörð viðbrögð af hálfu Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og urðu tilefni opinberrar umræðu í þjóðfélaginu. Í viðtali við blaðamann Sjómannablaðsins Víkings 5. júní 2001 sagði stefnandi að með fréttaumfjöllun sinni um svo viðkvæm mál væri hann „að stinga höfðinu í gin úlfsins“. Menn væru svo viðkvæmir og hlustuðu og horfðu á fréttir um brottkast afla með sama hugarfari og fjandinn læsi Biblíuna. Greinilegt væri að hann hefði með fréttaflutningi sínum og viðtölum við sjómenn verið að fjalla um málefni, sem ekki ætti að ræða um. Sjómenn hefðu komið fram undir nafni og sagt frá eigin reynslu af brottkasti afla. Slíkar frásagnir hefðu þó heyrst áður, en þegar fréttamenn hefðu borið þær undir LÍÚ og sjávarútvegsráðherra hefðu þeir „svæft málið“. Stefnandi hefði því ákveðið að fara aðra leið í umfjöllun sinni, þ.e. birta fréttirnar fyrst og heyra síðan í LÍÚ. Aðspurður um viðbrögð við fréttunum gat stefnandi þess meðal annars að LÍÚ hefði klagað hann skriflega til fréttastjóra sjónvarpsins, en fréttaflutningur hans hefði ekki fallið í góðan jarðveg hjá útvegsmönnum. Stefnandi skýrði blaðamanni frá því að hann hefði þó eingöngu verið að fjalla um staðreyndir og sagði að ef hann væri stoltur af einhverju sem hann hefði gert sem fréttamaður þá væri það umfjöllun hans um brottkastið. Þá gat hann þess að ef hin háværa umræða um brottkastið hefði ekki farið af stað, þá hefði nýbirt könnun á umfangi bottkasts tæplega verið gerð. Síðar í viðtalinu sagði stefnandi að kvótakerfið á Íslandi væri einfaldlega ekki að skila því sem það ætti að gera. „Það er borðleggjandi staðreynd sem ég þori að standa við gagnvart hverjum sem er“, er haft eftir stefnanda. Nánar aðspurður um brottkast afla í viðtalinu er haft eftir honum: „... Brottkastið á Íslandsmiðum er að mínu mati eitt stærsta hneykslismál sem upp hefur komið í stuttri sögu þessa lýðveldis. Okkur var talin trú um að þetta væri ekki svona slæmt, en líklega er það verra en flesta grunaði. Stjórnvöld hafa brugðist hlutverki sínu og gerst sek um alvarleg afglöp með því að hafa látið þetta viðgangast. ...“
Framangreind kvörtun frá LÍÚ mun vera framlagt bréf samtakanna til Boga Ágústssonar fréttastjóra Ríkissjónvarpsins frá 29. júní 2000, þar sem farið er hörðum orðum um fréttamennsku stefnanda af fiskveiðistjórnunarkerfinu og því haldið fram að hann sé í huga samtakanna „yfirlýstur andstæðingur núgildandi laga um fiskveiðistjórnun“, sem nýti sér aðstöðu sína sem fréttamaður hjá sjónvarpinu til að hafa áhrif á almenningsálitið málstað sínum til stuðnings. Eru í bréfinu rakin nokkur dæmi þessa og vísað til ummæla stefnanda í fréttum dagana 7.-28. júní, þar sem hann hreyfir því meðal annars í sjónvarpsviðtali við stefnda hvort brottkast afla í fiskveiðikerfi, sem byggi á kvóta og frjálsu framsali, sé ekki staðfesting á því að kvótakerfið sé ónýtt. Í niðurlagi bréfsins, sem undirritað er af Kristjáni Ragnarssyni formanni LÍÚ, segir að samtökin óski eindregið eftir því að þurfa ekki að eiga orðastað við stefnanda komi til frekari samskipta samtakanna við fréttastofu Sjónvarpsins.
Hinn 5. júlí 2000 boðaði stefndi, sem sjávarútvegsráðherra, til blaðamanna-fundar þar sem kynntar voru aðgerðir stjórnvalda til að meta umfang brottkasts og bæta eftirlit um borð í fiskiskipum. Meðal annars skyldi ráðist í gerð skoðanakönnunar meðal sjómanna fyrir tilstilli Gallup og fór hún fram í desember 2000 til janúar 2001. Samkvæmt henni var talið að heildarbrottkast botnfiskafla á Íslandsmiðum væri nálægt 27.000 tonnum á ári og af því magni væri þorskur um það bil 15.000 tonn. Þá var gerð sérstök könnun á vegum svokallaðrar brottkastsnefndar þar sem niðurstöður voru byggðar á samanburði á mælingum á veiddum afla um borð í fiskiskipum og lönduðum afla. Samkvæmt þeirri könnun taldist árlegt brottkast í þorski vera á bilinu 2,3-9,2% af veiddum afla, en brottkast í ýsu um 10%.
Meðal málsskjala eru einnig aðsendar greinar til Morgunblaðsins á tímabilinu frá 24. júlí til 10. október 2001, sem sýna glöggt ritdeilu milli stefnanda annars vegar og Kristjáns Ragnarssonar og Kristjáns Þórarinssonar hjá LÍÚ hins vegar. Er þar hart tekist á um umfjöllun stefnanda um sjávarútvegsmál á Íslandi og í Færeyjum í fréttum Ríkisútvarpsins og Fiskaren í Noregi mánuðina á undan.
III.
Sumarið 2001 hafði stefnandi samband við Níels Adolf Ársælsson útgerðarmann og skipstjóra á Tálknafirði og fór þess á leit að hann og Friðþjófur Helgason fengju að fara í veiðiferð með Bjarma BA 326 í því skyni að kvikmynda brottkast sjávarafla. Að sögn stefnanda lágu fyrir upplýsingar frá Níelsi á fréttastofu Ríkisútvarpsins þess efnis að hann hefði hent miklu af fiski í sjóinn og að ástandið væri afar slæmt. Eftir nokkra umhugsun hefði Níels samþykkt málaleitan stefnanda og hefði ferðin verið farin í byrjun nóvember. Hún hefði staðið yfir í tvo sólarhringa og á þeim tíma hefði skipið veitt um 70 tonn; langmest af þorski. Þar af hefði um 20-25 tonnum verið hent í sjóinn. Sem fyrr segir fékk fréttastofa Ríkissjónvarpsins myndskeið úr ferðinni á Bjarma og veiðiferð með Báru ÍS 364. Frétt sjónvarpsins af brottkasti afla 8. nóvember og sýning myndskeiðs úr veiðiferðunum hratt síðan af stað umræðu í fjölmiðlum næstu daga og vikur á eftir.
Í DV 9. nóvember birtist t.d. frétt um málið og frásögn skipstjórans á Bjarma, þar sem hann þrætti fyrir brottkast á sínu skipi í nefndri veiðiferð og kannaðist ekki við að hafa nokkru sinni hent afla frá borði. Í blaðinu var einnig rætt við stefnanda, stefnda og Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóra LÍÚ.
Daginn eftir mun skipstjórinn á Báru hafa gengist við því undanbragðalaust í viðtali við DV að hann hefði látið fleygja fiski í sjóinn að viðstöddum fréttamönnum.
Í frétt sama dagblaðs 13. nóvember var því hreyft hvort brottkastið gæti hafa verið sviðsett. Stefnandi svaraði þeirri gagnrýni og sagði myndirnar „eins ekta og hægt er“. Hann kvað norðmenn vera áhugasama um þetta mál og sagði Fiskaren myndu birta fréttir af því daginn eftir og setja myndir af brottkastinu á veraldarvefinn.
Hinn 14. nóvember birtist grein eftir stefnanda í Fiskaren með aðalfyrirsögninni: „Hendir fyrir fleiri milljarða“ og undirfyrirsögninni: „Útgerðarmaður og skipstjóri á íslensku fiskiskipi viðurkennir fyrir Fiskaren að hafa um árabil kastað fleiri þúsund tonnum af verðmætum fiski í sjóinn“. [þýðing dómara á norskum texta greinarinnar] Í greininni lýsir stefnandi veiðiferðinni á Bjarma BA 326 og segir frá ástæðum skipstjórans fyrir brottkasti aflans, sem hefði helgast af því að kvóti skipsins hefði verið búinn og leiguverð á kvóta verið hátt. Því hefði skipstjórinn gefið skipun um að henda öllum þorski undir 1,8 kílói og allri ýsu undir 1 kílói. Auk þess skyldi henda öllum hliðarafla. Í lok greinarinnar nefnir stefnandi eftirfarandi staðreyndir („fakta“) um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið: Í fyrsta lagi, að íslenskir sjómenn hafi margsinnis viðurkennt stórfellt brottkast á fiski. Í annan stað, að rannsóknir bendi til þess að síðustu tíu ár sé líklega búið að henda meira en hálfri milljón tonna af fiski í hafið. Í þriðja lagi, að verðmætustu tegundunum sé hættast við brottkasti, þ.e. þorski og ýsu og að sjómenn kasti smáfiski í von um að fá stærri og verðmeiri fisk sömu tegundar, en þannig græði þeir mest á kvótanum. Í fjórða lagi, að brottkastið hafi kostað íslenskt efnahagslíf fleiri milljarða síðustu ár og loks í fimmta lagi, að íslensk stjórnvöld stæri sig af því að vera með eitt ábyrgðarmesta fiskveiðistjórnunarkerfið í heiminum.
Í sjónvarpsviðtali við Stöð 2 daginn eftir fullyrti skipstjórinn á Bjarma að umrætt brottkast hefði verið sett á svið fyrir fréttamenn um borð í skipinu, sem þó hefðu ekki vitað um sviðsetninguna. Tilgangurinn hefði verið að sýna umheiminum hvernig ástandið væri hjá fiskiskipaflotanum almennt, en ekki hvernig það væri á hans skipi. Skipstjórinn kannaðist þó við að hafa fyrir umrædda veiðiferð hent fiski í sjóinn, en aldrei í þeim mæli, sem þarna hefði verið gert. Hann kvað og myndskeiðið með frétt Ríkissjónvarpsins vera öfgafullt, þar sem myndirnar væru „klipptar hressilega saman“. Ummæli skipstjórans voru borin undir stefnanda í fréttatímanum. Hann kvaðst ekki leggja trúnað í þá frásögn og sagði skipstjórann einfaldlega í nauðvörn, meðal annars vegna yfirvofandi kæru. Stefnandi kvað óbirt myndskeið úr ferðinni sýna að brottkastið hafi verið sannfærandi og eðlilegt, sem og hegðun áhafnarinnar, en tekin hafi verið viðtöl við skipverja í ferðinni, sem staðfesti frásögn hans. Stefnandi kvað til greina koma af hálfu Ríkissjónvarpsins að sýna fleiri myndir úr ferðinni til að sanna málstað hans og kvikmyndatökumannsins.
Hinn 16. nóvember birtist önnur grein eftir stefnanda í Fiskaren með aðalfyrirsögninni: „Ógnvekjandi kvótakerfi“ og undirfyrirsögninni: „Brottkastsmyndir, sem birtar voru í Fiskaren og myndskeið birt á vefsíðu Intrafish.no og Intrafish.com á miðvikudag eru áfellisdómur yfir íslenska kvótakerfinu. Þau eru í raun siðferðislegt gjaldþrot hins umdeilda fiskveiðistjórnunarkerfis.“ [þýðing dómara á norskum texta greinarinnar] Stefnandi byrjar meginmál greinarinnar, sem er nokkurs konar fréttaskýring („kommentar“) með því að segja að myndbirtingin sé án efa stóráfall fyrir þá ímynd, sem íslensk stjórnvöld hafi um áraraðir reynt að byggja upp í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið á erlendri grund. Ríkisstjórnarflokkarnir hafi lengi fullyrt að íslenska kvótakerfið væri það besta í heimi og hafi umboðsmenn stjórnarinnar farið vítt um heiminn og lofað kerfið, sem byggi á stjórnun fiskistofnanna með hjálp kvóta, sem væru ákveðnir á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og ábyrgrar fiskveiði. Þetta sé allt ein stór lygi. Hér beri íslensk stjórnvöld mikla ábyrgð; bæði stjórnmálamenn og embættismenn. Þeim sé þó ekki vorkunn, því þeir hafi vitað um brottkast afla í áraraðir og snúið blinda auganu við því. Engar alvarlegar tilraunir hafi verið gerðar til að ljóstra upp um brottkastið og stöðva það. Stefnandi heldur síðan gagnrýni sinni áfram á sömu nótum og segir stjórnvöld hafa litið algjörlega framhjá vandamálinu og meðal annars þagað í hel niðurstöður skoðanakönnunar frá tíunda áratug síðustu aldar. Þeir sem staðið hafi að baki henni hefðu verið stimplaðir sem vafasamir einstaklingar í krossferð gegn fyrirmyndar fiskveiðistjórnunarkerfi og sjómenn, sem gengið hafi fram fyrir skjöldu, hafi verið úthrópaðir af sjórnvöldum sem glæpsamlegir svikarar. Stefnandi víkur síðan máli sínu að rannsóknum og aðgerðum stjórnvalda vorið 2000, sem hafi verið fyrstu teikn um viðurkenningu vandans af þeirra hálfu, tíu árum eftir að vandinn hafi legið ljós fyrir. Því næst ræðir hann vandann enn frekar og kemst í lok greinarinnar að svohljóðandi niðurstöðu: „Maður getur alveg eins sagt það hreint út. Íslenska kvótakerfið er í raun eyðileggjandi vítisvél. Það hefur hvorki stuðlað að uppbyggingu fiskistofnanna né heldur stuðlað að uppgangi hinna dreifðu sjávarbyggða. Heldur þvert á móti. Þetta er eyðileggingarkerfi. Það ætti að leggja af eins fljótt og mögulegt er.“ [þýðing dómara á norskum texta greinarinnar]
Sama dag voru enn birtar fréttir og viðtöl við skipstjórann á Bjarma BA 326, þar sem hann hélt fast við það að umrætt brottkast af skipinu hefði verið sett á svið fyrir fréttamenn um borð. Í viðtali á útvarpsstöðinni Bylgjunni kom fram að skipstjórinn hefði sagt í fréttum Stöðvar 2 kvöldið áður að fréttamennirnir hefðu ekki komið nærri sviðsetningunni; þeir hefðu með öðrum orðum verið blekktir af skipstjóranum og áhöfn hans í þeim tilgangi að sýna fram á raunverulegt brottkast á miðunum.
Stefnandi svaraði þessu í viðtali við Fréttablaðið 20. nóvember og í grein, sem birt var á vefsíðu héraðsfréttablaðsins Bæjarins Besta á Ísafirði sama dag. Þar sagði stefnandi einkennilega spaugilegt að fylgjast með fullyrðingum skipstjórans og áréttaði, með röksemdum, að útilokað væri að um sviðsetningu hefði verið að ræða. Því næst svaraði hann þeim öðrum, sem hefðu af veikum mætti reynt að draga sannleiksgildi myndanna í efa á undanförnum dögum og nafngreindi sérstaklega Kristján Ragnarsson hjá LÍÚ, Guðbrand Sigurðsson forstjóra Útgerðarfélags Akureyringa hf. (ÚA), Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor og Sigurjón M. Egilsson fréttastjóra Fréttablaðsins. Menn þessa kallaði stefnandi „sjálfskipaða sérfræðinga um fiskveiðar“ og „hælbíta“, sem hefðu talað fjálglega um að myndirnar bæru þess glöggt vitni að hafa verið sviðsettar. Þar væri hann nefndur til sögunnar sem aðalsökudólgurinn og sagði Friðþjóf Helgason myndatökumann þá væntanlega vera meðsekan í meintri fréttafölsun um borð í báðum fiskiskipunum. Sem fréttamanni væri honum gróflega misboðið með slíkum ummælum, sem fælu í sér ásakanir um einn þann versta glæp, sem hægt væri að bera á fréttamann, þ.e. að hann falsaði fréttir.
Stefnandi sendi forstjóra ÚA kaldar kveðjur í sérstakri svargrein við skrifum forstjórans, sem birt var á sjávarútvegsvefnum interseafood.com 22. nóvember. Í lok þeirrar greinar áréttar stefnandi að hann og Friðþjófur Helgason hafi farið í umrædda fréttaöflun að eigin frumkvæði og alls ekki á vegum Ríkisútvarpsins. Þeir hefðu fjármagnað ferðina sjálfir og ættu allt myndefnið. Fréttastofu Ríkissjónvarpsins hefði verið boðið að sýna afrakstur ferðarinnar endurgjaldsslaust og sagði stefnandi umrætt myndefni vera „gjöf til þjóðarinnar svo hún fái loks séð með eigin augum hvaða rugl er að viðgangast á miðunum.“
Enn birtust fréttir af málinu í Fiskifréttum 23. nóvember, sem og í DV, þar sem Örn Sveinsson skipverji á Bjarma BA 326 lýsti því yfir að brottkastið hefði ekki verið sviðsett.
Sama dag var stefndi staddur í Vestmannaeyjum og veitti hið umdeilda sjónvarpsviðtal á Fjölsýn, sem varð tilefni málshöfðunarinnar. Í viðtalinu, sem er tæplega klukkustundar langt, ræðir Ómar Garðarsson fréttamaður við stefnda vítt og breitt um sjávarútvegsmál. Stefndi er meðal annars beðinn um að lýsa kostum og göllum núverandi kvótakerfis og nefnir í þeirri umræðu brottkast sjávarafla, sem sé þekkt vandamál. Hann segir brottkastið ekki vera kvótakerfinu að kenna heldur því að menn fari ekki eftir kerfinu. Ómar víkur síðar að endurskoðunarnefnd, sem skipuð hafi verið til að koma með tillögur um veiðileyfagjald og gerir stefndi grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar til slíkra hugmynda. Eftir um það bil 40 mínútna spjall segir fréttamaðurinn svo: „Þú varst nú eiginlega að rugla mig í röðinni áðan þegar þú fórst að tala um brottkastið.“ „Nú bíddu ...“ svarar stefndi í spurnartón og því næst hlægja þeir báðir. Síðan segir fréttamaðurinn:
„Brottkastið hefur verið, eins og þú komst inn á, mikið í umræðunni undanfarið og ég held að það sé nú að koma sífellt betur í ljós að bæði sjónvarpið og Morgunblaðið hafi verið, eiginlega ja, kannski ég segi ekki, ekki að þau hafi gert þetta viljandi, eða þá í besta falli, þau hafi verið misnotuð þarna.“
Stefndi svarar þessu svo: [umstefnd ummæli eru auðkennd skáletruð]
„Ég vil nú reyndar gera greinarmun á Morgunblaðinu og hérna sjónvarpinu í þessu tilfelli. Því að fréttamaður sjónvarpsins, hann er nú yfirlýstur andstæðingur kvótakerfisins og hefur margsagt það að hans markmið sé hérna að rífa niður þetta kerfi.“
Ómar spyr hvort stefndi eigi þarna við stefnanda þessa máls og því svarar stefndi með þessum orðum: [umstefnd ummæli eru auðkennd skáletruð]
„Já, en það hefur aldrei verið yfirlýst stefna Morgunblaðsins að gera það, þó það hafi haft mjög sterkar skoðanir á ákveðnum hlutum eins og gjaldtökunni, þá hafa þeir ekki verið með þessa stefnu og ég held að það sé, geti ekki verið að skipstjóri sem er búinn að viðurkenna það, að hann hafi sviðsett þetta, að hann hafi verið að blekkja fiskifræðinginn og fréttamanninn.“
Í framhaldi segir Ómar:
„Það er svolítið athyglisvert, að þessi frétt kemur á fimmtudegi. Deginum eða kvöldinu áður að þá var Hafró með fund hérna, í höll þar sem þú verður í kvöld og þar sagði Óskar Þórarinsson skipstjóri og útgerðarmaður á Frá VE og fullyrti að andstæðingar kvótakerfisins og þeir sem vilja það feigt, að það séu þeir sem að stjórna umræðunni um brottkastið. Ert þú á sama máli?“
Stefndi svarar svo:
„Nei, ég er nú ekki á sama máli. Ég er búinn að láta gera mjög ítarlegar athuganir á brottkasti. Bæði með því að bera saman eldri tölur og lengdir á lönduðum afla og afla mældum upp úr sjó, það er að segja úti á sjó og síðan er Gallup könnunin. Og það er alveg ljóst að það er umtalsvert brottkast sem á sér stað og hefur átt sér stað. Eldri kannanir Kristins Péturssonar frá því um 1990 eru á mjög svipuðum nótum og síðan eru til ennþá eldri kannanir, frá ´87, frá ´82, sem að sýna svona svipaða mynd af brottkasti. Og síðan rakst ég á í bók, sem ég var, sem mér var gefin um daginn, sem fjallar um fiskveiðistjórnunarkerfið, eftir Kristinn Hugason. Þar er tilvitnun í Sverri Hermannsson frá því 1975 ef ég fer rétt með, þar sem Sverrir er að tala um hvað brottkastið á smáfiski sé gríðarlega mikið á Íslandsmiðum. Þannig að þetta er út af fyrir sig ekki nýtt. En ég held að það sé óþarft, og við eigum að koma í veg fyrir það, og við eigum að reyna að gera það innan kerfisins með því að gefa mönnum möguleika á því að koma með þennan afla að landi eins og við höfum gert með undirmálsfiskinn, að hann teljist bara hálfur í kvóta allt að tíu prósent af aflanum. Eins og í tegundatilfærslunni, fimm prósent, þar sem menn geta fært til á milli tegunda innan síns eigin kvóta þó það sé ekki nema tvö prósent í hverja eina tegund. Þær breytingar sem við gerðum í fyrra, og svo eins og með þessum fimm prósenta Hafró kvóta, sem við erum að leggja til núna og svo síðan í því að menn geti komið með afla sem menn hafa haft leyfi til að henda, skemmdan og selbitinn og verðlausan afla, koma með hann að landi og hann teljist ekki til kvóta. Við fáum allt að landi, við fáum allar upplýsingarnar og fáum öll verðmætin hversu lítil sem þau eru. Og ég held að það bara skipti okkur verulega miklu máli. Bæði fyrir vísindamennina og auðvitað verðmætin og síðan bara fyrir okkar rykti sem þjóð sem er að nýta auðlind. Og það eru fáar þjóðir sem byggja eins mikið á auðlindanýtingunni og auðlindanýting hún er virkilega í algerum fókus og ef að við göngum ekki vel um okkar auðlind þá getum við bara hreinlega lent í vandræðum.“
Ómar segir þessu næst:
„Ég sá nú, held að það hafi verið í Mogganum í dag eða DV, þar sem þeir voru að vitna í Fiskaren, þar sem stóð að við hendum fiski fyrir milljarða, ég held að þar hafi Magnús Þór ...“ [stefnandi innskot dómara] Stefndi grípur þarna fram í fyrir fréttamanninum með orðunum: „Já það er bara Magnús, það er Magnús Þór ...“ og því næst bætir fréttamaðurinn við: „Það er ekki góð auglýsing fyrir okkur.“
Stefndi segir því næst: [umstefnd ummæli eru auðkennd skáletruð]
„Nei, nei. Nei, nei. Magnús Þór lýsti því alveg yfir að hann ætlaði sér sko að hérna koma höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið erlendis og hérna, og koma hvernig hann nú orðaði það, að hérna skemma fyrir íslenskum stjórnvöldum og því sem íslensk stjórnvöld eru að reyna að gera í fiskveiðistjórnun, á erlendri grundu. Þetta er náttúrulega fáheyrt, ef ekki bara óheyrt, að fréttamaður láti svona út úr sér, að hann hafi stefnu sem þessa. En við megum ekki láta það villa okkur eitthvað sýn í þessu. Þetta skiptir engu máli hvort þetta var sviðsett eða ekki. Ég veit af vandamálinu og við vitum af vandamálinu og við erum að takast á við það, erum búnir að gera það í nokkur misseri, alveg óháð þessari umræðu, en af því að við erum nú hérna í sjónvarpi og í svona fréttaviðtali, að mér finnst það hins vegar vera stórt mál fyrir fréttastofu hvort að hún ætli sér yfir höfuð að viðhafa svona vinnubrögð að sviðsetja fréttir. Á Stöð 2 einu sinni þá var fréttamaður sem sviðsetti dópviðskipti uppi í Rauðhólum og hann var rekinn. Og það var einu sinni fréttamaður í Bandaríkjunum sem að sviðsetti það að átta ára gömul blökkustúlka væri heróínneytandi og hann fékk Pulitzer Prize verðlaunin fyrir. Síðan komst þetta upp um hann og hann var auðvitað rekinn frá blaðinu sem hann var að starfa á og hérna hann þurfti að skila verðlaununum. Þess vegna spyr maður sjálfan sig sko. Eru þetta vinnubrögð sem Ríkissjónvarpið ætlar að viðhafa, og þarf maður alltaf að hugsa í hvert einasta skipti sem maður hefur horft á einhverja frétt sko bíddu var þetta sviðsett eða var þetta alvöru frétt?“
Nokkrum mínútum síðar lauk viðtalinu.
Meðal málsskjala eru blaðagreinar og ljósvakahandrit, sem hafa að geyma skoðanir og gagnrýni stefnanda, sem féllu til eftir sjónvarpsviðtalið á Fjölsýn. Eðli máls samkvæmt eru því ekki efni til að rekja þau skrif og ummæli í máli þessu.
IV.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi, en auk hans báru vitni Benedikt Sigurðsson fréttamaður, Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður og þrír úr áhöfn Bjarma BA 326; þeir Níels Adolf Ársælsson skipstjóri, Örn Sveinsson stýrimaður og Bjarni Pétursson vélstjóri.
Fram kom í vitnisburði Benedikts að fréttastjóri Ríkissjónvarpsins hefði falið honum gerð fréttarinnar um brottkastið og að hann hefði látið klippa til hið tveggja mínútna langa myndskeið, sem birst hefði í sjónvarpsfréttum 8. nóvember 2001. Benedikt kvaðst áður hafa skoðað um það bil þrjátíu mínútna langa myndbandsupptöku frá Friðþjófi Helgasyni og taldi fréttamyndina hafa verið lýsandi fyrir það sem fram hefði komið á myndbandinu. Friðþjófur tók í sama streng, þótt hann myndi ekki hve löng myndbandsupptakan hefði verið og sagði upptökuna sýna raunverulegt umfang brottkasts af fiskiskipunum tveimur. Hann kvaðst ekki skilja hvernig menn gætu komist að þeirri niðurstöðu að brottkastið hefði verið sviðsett á einhvern hátt.
Níels Adolf Ársælsson bar fyrir dómi að ekkert brottkast hefði átt sér stað í nefndri veiðiferð á Bjarma BA 326 og taldi að einungis 40 fiskum hefði verið hent í sjóinn, en þeir hefðu verið ýmist sýktir eða selbitnir. Hann kvaðst hafa landað um 70 tonnum af fiski á meðan fréttamennirnir hefðu verið um borð.
Örn Sveinsson og Bjarni Pétursson voru á öðru máli. Þeir báru fyrir dómi að mjög vel hefði veiðst í umræddri veiðiferð og að líklega hefði skipið landað um 60-70 tonnum af fiski. Þegar vel veiddist væri ef til vill tilhneiging til meira brottkasts en ella, en ekkert hefði verið sviðsett í því sambandi. Bjarni gat sér til að um fjórðungi eða fimmtungi heildaraflans hefði verið hent frá borði. Örn kvaðst muna vel eftir veiðiferðinni og sagði að sér hefði brugðið þegar skipstjórinn hefði fyrirskipað áhöfninni að henda afla fyrir framan myndatökuvélarnar. Hann hefði spurt Níels hvort ætti virkilega að gera þetta og hefði hann svarað, að þeir ættu að bara að gera þetta eins og venjulega, þ.e. að henda allri ýsu undir 1 kílói og öllum þorski undir 2,5 kílóum, „í sjóinn með þetta“ eins og skipstjórinn hefði komist að orði.
V.
Stefnandi telur hin umstefndu ummæli höggva svo nærri æru sinni og starfsheiðri að ekki verði við unað. Jafnframt felist í þeim atvinnurógur, þar sem því sé beint til Ríkissjónvarpsins að það eigi ekki að nýta sér þjónustu hans. Ummælin feli því í sér refsiverða meingerð við persónu hans og séu til þess fallin að rýra hann í áliti almennings. Verður nú fjallað nánar um einstök ummæli, sem stefnt er út af og röksemdir stefnanda.
Ummælin í 1.a. dómkrafnanna segir stefnandi geyma fullyrðingu um að hann hafi margsagt að það sé markmið hans að rífa niður kvótakerfið samkvæmt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Sú fullyrðing sé röng. Stefnandi hafi vissulega margt við kvótakerfið að athuga, en kannast ekki við að hafa sagt, hvað þá margsagt, það markmið sitt að rífa kerfið niður. Hann telur að með hinum umstefndu ummælum drótti stefndi að óheiðarleik stefnanda í starfi, þ.e. að hann hafi gerst sekur um óvandaða fréttamennsku með því að nota aðstöðu sína sem fréttamaður skoðun sinni til framdráttar.
Ummælin í 1.b. telur stefnandi geyma aðdróttun um að umrædd sjónvarpsfrétt hafi verið sviðsett og að hann sem menntaður fiskifræðingur og starfandi fréttamaður hafi átt þar hlut að máli. Þessu mótmælir stefnandi alfarið og telur fullsannað með vætti vitna að brottkastið um borð í fiskiskipunum hafi ekki verið sviðsett. Hann bendir á að stefndi byggi ályktun sína um meinta grandsemi stefnanda á frásögn skipstjórans á Bjarma BA 326 um sviðsetningu brottkastsins í fjölmiðlum. Ummælin hafi skipstjórinn viðhaft eftir að honum hafi verið orðið ljóst að hann hefði skapað sér og útgerðinni stórfelldan vanda með því að leyfa myndatöku af brottkasti afla. Stefnandi fullyrðir að staðhæfing skipstjórans um sviðsetningu sé röng og það hefði stefnda átt að vera ljóst. Ummæli hans feli því í sér aðdróttun um fréttafölsun og verði það enn ljósara en ella þegar þau séu virt í samhengi við ummælin í 2.d. dómkrafnanna.
Ummæli stefnda í 1.c. telur stefnandi fela í sér ranga og ósannaða fullyrðingu um að hann hafi lýst því yfir að hann ætlaði sér að koma höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið hér heima og erlendis og skemma fyrir stjórnvöldum á erlendri grund. Í ummælunum felist aðdróttun um misnotkun á aðstöðu og óheiðarlega fréttamennsku.
Stefnandi telur að þótt ummælunum í 2.d. sé beint að fréttastofu Ríkissjónvarpsins en ekki honum sjálfum þá feli þau í sér refsiverða meingerð við persónu hans. Þar sé umræddri frétt líkt við tvær þekktar fréttafalsanir og verði ummælin skilin sem ábending til sjónvarpsins um að hætta að nýta sér þjónustu stefnanda og um leið aðgerð til að bola honum burt úr starfi fréttamanns. Við mat á ummælunum telur stefnandi að hafa verði í huga að þau eru viðhöfð af manni, sem gegnir áhrifa- og virðingarstöðu í þjóðfélaginu og því sé tekið meira mark á ummælunum en ella. Aðdróttun um óheiðarlega fréttamennsku og þá sérstaklega fréttafölsun sé mjög alvarleg árás á æru fréttamanns og til þess fallin að rýra álit hans í augum samborgaranna.
Stefnandi kveðst viðurkenna rétt stefnda til að gagnrýna ummæli hans og skrif í fjölmiðlum um sjávarútvegsmál, en það hafi stefnda borið að gera á málefnalegan hátt, en ekki með aðdróttunum og ósönnum ummælum. Stefnandi hafi einungis verið að sinna hlutverki sínu sem blaða- og fréttamaður og mótmælir því að hann hafi í þeirri umfjöllun veist að stefnda persónulega eða gagnrýnt það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem hann sé í fyrirsvari fyrir, á ómálefnalegan hátt. Þá hafi hann ekki farið út fyrir þau mörk, sem varin séu af 73. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og tjáningarfrelsisákvæði 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsing nr. 10/1979. Því beri að taka til greina framangreindar dómkröfur hans.
VI.
Stefndi kveður stefnanda í málflutningi sínum gegn kvótakerfinu hafa gert brottkast á fiski að megin árásarefni sínu og hafa talið kvótakerfið sem slíkt megin ástæðu brottkastsins. Þessu mótmælir stefndi og bendir á að brottkast sjávarafla hafi tíðkast og verið þekkt löngu fyrir daga kvótakerfisins. Gagnrýni á ríkjandi fiskveiðistjórnunarkerfi hafi gegnum árin einkum beinst að þeim sjávarútvegsráðherra, sem sé í fyrirsvari fyrir kerfið á hverjum tíma. Enginn hafi til þessa efast um rétt ráðherra til að bera fram andsvör við slíkri gagnrýni og láta í ljós skoðanir sínar á einstökum málum og framsetningu einstakra manna á gagnrýni sinni. Það sé fyrst í þessu máli, þar sem stefnandi er harðskeyttur gagnrýnandi gildandi fiskveiðistjórnunarkerfis, að leitað er til dómstóla og þess krafist að ákveðin ummæli sitjandi ráðherra verði dæmd ómerk og ráðherrann dæmdur til refsingar. Hér sannist sem oftar að sá sem óspar sé á gagnrýni þoli hana illa sjálfur. Ákafi stefnanda við að koma höggi á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og þá sem því stjórna sé að sjálfsögðu hans mál. Framganga hans geti hins vegar ekki notið réttarverndar gagnvart þeim sem svari gjörðum hans, framkomu, ummælum og skrifum um þessi mál og haldi fram sínum skoðunum með sama rétti og hann. Málfrelsi ríki í þessum efnum samkvæmt íslenskum rétti og þess njóti málsaðilar báðir í hinum pólitísku deilum, sem hér um ræðir.
Stefndi bendir á að stefnandi sé menntaður fiskifræðingur og fréttamaður og því verði að gera þá kröfu til hans, sem og annarra fréttamanna, að hann gæti hófs og flytji málefnalegar og sannar fréttir, en láti ekki sterkar skoðanir sínar gegnsýra fréttaflutninginn. Ljóst sé af fréttaflutningi hans og greinaskrifum um sjávarútvegsmál að hann sé afar andsnúinn gildandi fiskveiðistjórnunarkerfi og hafi haft um það stór orð og látið frá sér fara ýmis meiðandi ummæli um stefnda og aðra stjórnendur kerfisins, svo sem fram komi í gögnum málsins.
Stefndi gagnrýnir sérstaklega framsetningu stefnanda og Friðþjófs Helgasonar kvikmyndatökumanns á myndskeiði því, sem sent hafi verið fréttastofu Ríkissjónvarpsins og þar hafi verið klippt til og búið til úr því tveggja mínútna löng frétt. Fyrir liggi að Friðþjófur eigi um tveggja klukkustunda langa upptöku frá veru sinni um borð í Bjarma BA 326 og Báru ÍS 364, sem stefnda og dóminum hafi ekki verið gefinn kostur á að skoða. Umrædd framsetning á efni fréttarinnar, þ.e. ætluðu brottkasti sjávarafla í stórum stíl, hljóti því að teljast ótrúverðug um það hvað raunverulega hafi gerst um borð í skipunum. Myndin, sem dregin hafi verið upp, hafi verið „ótrúleg“, svo sem stefnandi hafi sjálfur sagt í fjölmiðlum á eftir og aðrir hafi látið í ljós sömu skoðun og velt því upp hvort brottkastið hefði verið sviðsett. Skipstjórinn á Bjarma hafi staðfest þetta í viðtölum við fjölmiðla.
Í kjölfar fréttaútsendingarinnar hafi stefnandi allur færst í aukana og gefið út margvíslegar yfirlýsingar og birt blaðagreinar með harðri gagnrýni á ríkjandi fiskveiðistjórnunarkerfi, þar sem stuðst hafi verið aðallega við fréttamyndina. Þannig hafi hann strax daginn eftir sagt í viðtali við DV að brottkastið væri ekki vandamálið heldur fiskveiðistjórnunarkerfið sjálft, sem menn yrðu að vinna eftir. Stjórnvöldum væri ekki vorkunn að þetta hefði loksins komið upp á yfirborðið; menn væru „búnir að sigla með þessa sprengju í alla vega tíu ár án þess að gera neitt með hana.“ Telur stefndi ljóst af þessum orðum stefnanda að hann hafi verið að sprengja sprengju við gerð og sýningu hins umdeilda tveggja mínútna myndskeiðs. Tilgangurinn hafi verið auðsær. Stefnandi hafi þó ekki látið þar við sitja, heldur fylgt eftir árás sinni á íslenska kvótakerfið og þá sem því stjórna með því að dreifa myndefninu á veraldarvefnum og skrifa áróðursgreinar gegn íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu í norska blaðinu Fiskaren. Nefnir stefndi hér sérstaklega grein þá sem birt var 16. nóvember 2001 og lokaorð hennar, þar sem stefnandi segi að íslenska kvótakerfið sé í raun eyðileggjandi vítisvél, sem beri að leggja niður eins fljótt og mögulegt er. Ekki fari á milli mála að hér sé um að ræða hreina pólitíska baráttu stefnanda gegn kvótakerfinu, jafnt innanlands sem utan, þótt ekki tengist hún ákveðnum stjórnmálaflokkum.
Stefndi víkur að hinum umstefndu ummælum með svofelldum rökstuðningi.
Að því er varðar ummælin í 1.a. og 1.c. dómkrafna stefnanda segir stefndi að ekki þurfi annað en að vísa til margra þeirra ummæla, sem stefnandi hafi látið falla, til sönnunar á því að hann sé yfirlýstur andstæðingur kvótakerfisins og að markmið hans sé að rífa kerfið niður. Nægi þar til dæmis að vísa til ummæla hans í Fiskaren þess efnis að kvótakerfið sé eyðileggjandi vítisvél, sem þurfi að afnema hið fyrsta. Hin umstefndu ummæli stefnda séu því sönn og byggi á staðreyndum. Þau verði því ekki dæmd ómerk.
Ummæli stefnda í 1.b. dómkrafnanna snerti aðeins skipstjórann á Bjarma BA 326, en ekki stefnanda og komi því máli þessu ekkert við. Stefnandi eigi því ekki aðild vegna nefndra ummæla og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.
Með ummælunum í 2.d. dómkrafnanna hafi stefndi verið að nefna tvö þekkt dæmi um sviðsetningu frétta. Ekki sé hægt að lá honum það þótt umrædd dæmi hafi komið upp í huga hans þegar rætt hafi verið um sýningu umrædds myndskeiðs í fréttatíma Ríkissjónvarpsins og allan hamaganginn og auglýsingalætin, sem fylgt hafi í kjölfarið. Hér hafi stefndi verið að tjá hugleiðingar sínar og skoðanir og hafi ummælin beinst eingöngu að vinnubrögðum sjónvarpsins í sambandi við sýningu myndskeiðsins. Stefnandi sé ekki nefndur á nafn í þessu sambandi og því eigi hann heldur ekki aðild að málsókn vegna þessara ummæla stefnda. Verði ekki á það fallist, þá gildi hér hið sama og áður hafi verið rakið um framsetningu á hinu „ótrúlega“ tveggja mínútna myndskeiði stefnanda. Ummæli stefnanda sjálfs í þá veru að myndskeiðið sé ótrúlegt styðji það álit stefnda að brottkastið hafi verið sviðsett, en stefnandi hafi ekki fært viðhlítandi sönnur á hið gagnstæða.
Samkvæmt framansögðu telur stefndi að ákvæði 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi ekki við í málinu. Þá bendir hann á að samkvæmt 239. gr. laganna sé heimilt að láta refsingu samkvæmt 235. gr. falla niður ef tilefni ærumeiðingar hafi verið ótilhlýðilegt hátterni þess manns, sem telur sér misboðið, eða hann hefur goldið líku líkt. Stefnandi hafi þráfaldlega veist að stefnda, bæði persónulega og sem sjávarútvegsráðherra og æðsta yfirmanni ríkjandi fiskveiðistjórnunarkerfis, með meiðandi ummælum og hafi stefndi ekki gert annað en að tjá skoðanir sínar á gjörðum og framkomu stefnanda, með rökstuddum hætti, þ.e. goldið honum líku líkt, allt innan þess ramma sem réttarkerfið verndi. Fráleitt væri því ef stefnandi, sem átt hafi upptökin að deilunum, gæti leitað til dómstóla og krafist þess að þeir réttu hlut hans. Því beri að sýkna stefnda af háttsemi þeirri, sem lýst sé í 235. og 236. gr. Af því leiði að 241. gr. hegningarlaganna eigi heldur ekki við í málinu. Hið sama gildi um 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda feli hin umstefndu ummæli ekki í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda.
VII.
Stefnandi er fiskifræðingur að mennt, en hefur frá árinu 1999 starfað sem blaðamaður hjá norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren. Samhliða því starfi hefur hann verið í lausamennsku sem fréttamaður hjá fréttastofum Ríkisútvarpsins og skrifað greinar um málefni tengd sjávarútvegi í íslensk dagblöð og tímarit. Hafa þau skrif oftar en ekki beinst að hinu íslenska fiskveiðistjórnunarkerfi og hann gagnrýnt hið svokallaða kvótakerfi. Hefur sú gagnrýni verið hvöss og oft á tíðum óvægin og hún meðal annars beinst að stefnda, sem sjávarútvegsráðherra, svo sem fram kemur í II. og III. kafla hér að framan. Af gögnum málsins verður þó ekki annað ráðið en að gagnrýni stefnanda hafi verið sett fram á málefnalegan hátt og hún verið innlegg í heita þjóðfélagsumræðu um kvótakerfið. Í slíkri umræðu verða stjórnvöld að þola að gagnrýni sé að þeim beint, þótt orðfæri í því sambandi kunni að verða hvasst. Er réttur stefnanda að þessu leyti varinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995 og 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, með þeim takmörkunum sem þar greinir.
Ofangreind ákvæði lúta að tjáningarfrelsi. Í því felst grundvallarréttur hvers einstaklings til að hafa skoðanir og láta í ljós álit sitt og hugsanir, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, að svo miklu leyti sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, meðal annars til að vernda mannorð annarra. Nýtur stefndi hér sömu réttinda og stefnandi.
Í málinu er deilt um það hvort ákveðin ummæli, sem stefndi lét falla í sjónvarpsviðtali á Fjölsýn 23. nóvember 2001, séu ærumeiðandi í garð stefnanda. Við mat á því verður að líta til framangreindra ákvæða um tjáningarfrelsi og hvort undanfarandi gagnrýni stefnanda hafi veitt stefnda nægilegt tilefni til að ganga svo langt sem hann gerði í ljósi þeirrar opinberu umræðu, sem á var komin um kvótakerfið. Af hálfu stefnda er á því byggt að málið snúist annars vegar um hatramma gagnrýni stefnanda á kvótakerfið og hins vegar um rétt stefnda til að svara fyrir sig og láta í ljós álit sitt í nefndu sjónvarpsviðtali á gagnrýni stefnanda og vinnubrögðum hans við gerð og birtingu fréttar um brottkast sjávarafla, sem sýnd var í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 8. nóvember 2001. Um þátt stefnanda í gerð fréttarinnar er upplýst að hann og Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður fóru nokkrum dögum áður á eigin vegum um borð í fiskiskipin Bjarma BA 326 og Báru ÍS 364 og kvikmynduðu brottkast afla. Er óumdeilt að þeir hafi í framhaldi lagt fréttastofu sjónvarpsins til myndefni með fréttinni, sem síðan var unnin af Benedikt Sigurðssyni fréttamanni, svo sem áður er lýst. Hafði stefnandi ekki önnur afskipti af gerð og birtingu fréttarinnar.
Verður nú vikið að hinum umstefndu ummælum hverjum fyrir sig.
Ummæli, sem getur í lið 1.a. dómkrafna stefnanda, eru tvíþætt. Þar heldur stefndi því annars vegar fram að stefnandi sé „yfirlýstur andstæðingur kvótakerfisins“ og hins vegar að stefnandi hafi „margsagt það að hans markmið sé að ... rífa niður þetta kerfi“. Að því er varðar fyrri ummælin ber að líta til yfirlýsinga stefnanda í fjölmiðlum, sem rakin eru í II. og III. kafla að framan og birtust í viðtölum og greinaskrifum hans fyrir sjónvarpsviðtalið við stefnda. Af þeim ummælum, einkum blaðaskrifum í Fiskaren 16. nóvember 2001, þykir ljóst að stefnandi er yfirlýstur andstæðingur núgildandi kvótakerfis, enda hefur hann ekki farið í grafgötur með það að hann sé kerfinu mótfallinn og vilji að það verði lagt af í núverandi mynd. Verður því ekki fallist á að stefndi hafi með tilvitnuðum ummælum farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis, sem framangreind ákvæði setja honum. Seinni ummælin lúta að því að stefnandi eigi að hafa margsagt að markmið hans sé að rífa niður kvótakerfið. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu að stefnandi hafi beinlínis sagt að hann hefði slíkt markmið og telst sú fullyrðing því ósönnuð. Á hitt er að líta að stefnandi hefur í skrifum sínum á undanförnum misserum og ummælum í fjölmiðlum lýst megnri óánægju sinni og vanþóknun á kvótakerfinu og hefur sú gagnrýni verið mjög óvægileg. Má hér enn nefna grein hans í Fiskaren þar sem hann segir að kerfið sé í raun eyðileggjandi vítisvél, sem beri að leggja af eins fljótt og mögulegt er. Verða greind ummæli og gagnrýni stefnanda almennt vart skilin öðru vísi en svo að hann vilji rífa niður kvótakerfið. Þegar hin umstefndu ummæli eru skoðuð í samhengi og hliðsjón er höfð af yfirlýsingum og ummælum stefnanda þykir einnig hér rétt að fallast á að stefndi hafi með orðfæri sínu í sjónvarpsviðtalinu verið innan þeirra marka, sem varin eru af grundvallarreglum um tjáningarfrelsi. Verður honum því hvorki refsað fyrir ummælin né heldur verða þau talin óviðurkvæmileg þannig að varði ómerkingu.
Ummæli stefnda samkvæmt lið 1.b. í kröfugerð stefnanda fela í sér huglægt mat eða gildisdóm, en óljóst er af hvaða tilefni þau voru sett fram og hvernig skilja beri ummælin í samhengi við spurningar fréttamanns Fjölsýnar í nefndu sjónvarpsviðtali. Er nærtækast að skoða ummælin með hliðsjón af ummælum skipstjórans á Bjarma BA 326, sem frá greinir í III. kafla að framan. Þar er því lýst að skipstjórinn hafi greint frá því í fjölmiðlum 15. nóvember 2001 að umrætt brottkast sjávarafla hafi verið sviðsett af hálfu hans og áhafnar skipsins, án þess að stefnandi og Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður hafi vitað af því og að þeir hafi þannig verið blekktir. Þykir rétt að meta hin umstefndu ummæli í þessu ljósi, en þar segir stefndi „ég held“ að skipstjórinn, sem búinn sé að viðurkenna sviðsetningu brottkastsins, hafi ekki verið að blekkja stefnanda. Er stefndi frjáls að þeirri skoðun sinni, enda verður því hvorki slegið föstu að ummælin hafi verið sögð gegn betri vitund né heldur hvaða merkingu beri að leggja í þau. Dómurinn telur þó varhugavert að leggja þá merkingu í orð stefnda að hann hafi með þeim gefið í skyn að stefnandi hafi tekið þátt í sviðsetningu brottkasts. Verða ummælin að því leyti ekki metin á annan hátt en þann sem þau birtust í sjónvarpsviðtalinu. Verður því ekki talið að í ummælunum felist refsiverð aðdróttun í garð stefnanda í skilningi 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki eru heldur efni til að dæma ummælin ómerk.
Með ummælum stefnda í lið 1.c. dómkrafnanna er því haldið fram að stefnandi hafi í störfum sínum sem fréttamaður lýst því yfir að hann ætlaði sér og að það væri beinlínis stefna hans að koma höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið á erlendri grund og skemma fyrir íslenskum stjórnvöldum og því sem þau væru að reyna að gera á alþjóðavettvangi. Eins og fyrr segir hefur stefnandi verið óspar á gagnrýni sína á kvótakerfið undanfarin misseri og hafa skrif hans og önnur umfjöllun í fjölmiðlum hér heima og erlendis einkennst mjög af persónulegum skoðunum hans og óánægju með kvótakerfið, sem hann líkti við eyðileggjandi vítisvél í grein sinni í Fiskaren 16. nóvember 2001. Þar vændi hann stefnda, sem sjávarútvegsráðherra og aðra, sem ábyrgð bera á framkvæmd kvótakerfisins, um að hafa snúið blinda auganu við vandamálum tengdu brottkasti afla og sagði málflutning stjórnvalda erlendis um ágæti kvótakerfisins vera eina stóra lygi. Með umfjöllun sinni um kvótakerfið, hvort heldur sem hún verður talin til fréttaflutnings í hefðbundnum skilningi eða skoðast sem einhliða gagnrýni, hefur stefnandi þannig gert sér far um að rífa kvótakerfið niður. Í þeirri stöðu verður hann að vera viðbúinn því að gagnrýni hans verði svarað, meðal annars af stefnda, sem æðsta fyrirsvarsmanni kvótakerfisins. Þó verður að gera þá kröfu til stefnda í þeim efnum að gagnrýnin sé sett fram á tilhlýðilegan og málefnalegan hátt. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi lýst því yfir að stefna hans væri sú að koma höggi á kvótakerfið á erlendri grund eða eyðileggja þar með öðrum hætti fyrir íslenskum stjórnvöldum. Umrædd staðhæfing stefnda er því ósönnuð. Þegar á hinn bóginn er litið til þess að greind ummæli voru sett fram í heitri þjóðfélagsumræðu um kvótakerfið, sem svar við óvæginni gagnrýni stefnanda á íslensk stjórnvöld, þykja ummælin ekki þess eðlis að varði refsingu samkvæmt 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin þykja engu að síður óviðurkvæmileg, eins og þau voru sett fram, og verða samkvæmt því dæmd ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.
Ummæli stefnda samkvæmt lið 2.d. í kröfugerð stefnanda fela líkt og ummælin í 1.b. í sér gildisdóm, sem beinist fyrst og fremst að fréttastofu Ríkissjónvarpsins. Þar gagnrýnir stefndi harkalega vinnubrögð fréttastofunnar og vænir hana um að sviðsetja umrædda frétt af brottkasti afla 8. nóvember 2001. Sem fyrr segir lagði stefnandi ásamt Friðþjófi Helgasyni aðeins til myndefni, sem notað var við gerð fréttarinnar. Af málatilbúnaði stefnda er hins vegar ljóst að hann bendlar stefnanda með beinum hætti við gerð og birtingu fréttarinnar og lýsir þeirri skoðun sinni að sér finnist það stórt mál ef fréttastofan ætli sér yfir höfuð að viðhafa slík vinnubrögð. Ummælin eru sett fram í beinu framhaldi af ummælunum í lið 1.c. kröfugerðarinnar, þar sem stefnandi er nafngreindur og verða þau ekki skilin öðru vísi en svo að í þeim felist ásökun um að myndskeiðið, sem birtist með umræddri frétt, hafi verið sviðsett. Stefndi fylgir ummælunum eftir með því að nefna tvær þekktar fréttafalsanir, sem leitt hafi til þess að viðkomandi fréttamenn voru reknir. Ummæli þessi verður að skoða í samhengi og í því ljósi að stefndi taldi samkvæmt framansögðu að stefnandi hefði komið að gerð og birtingu fréttarinnar með beinum hætti. Ummælin, að því leyti sem þau beinast að stefnanda, fela í sér meiðandi aðdróttun um óheiðarlega fréttamennsku og sviðsetningu á umræddu brottkasti, sem stefndi hefur hvorki sannað né réttlætt á annan hátt. Hefur þvert á móti verið nægjanlega leitt í ljós með vitnisburði Arnar Sveinssonar og Bjarna Péturssonar að brottkastið á Bjarma BA 326 hafi ekki verið sett á svið. Með nefndum ummælum þykir stefndi hafa vegið alvarlega að störfum og mannorði stefnanda þannig að varði við 235. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin voru hörð, ekki síst í ljósi þess að þau voru viðhöfð í sjónvarpsviðtali þar sem stefndi sat fyrir svörum sem sjávarútvegsráðherra. Verður því ekki fallist á það sjónarmið stefnda að hér eigi við ákvæði 239. gr. almennra hegningarlaga um orðhefnd þannig að heimilt sé að láta refsingu falla niður. Að þessu virtu og með hliðsjón af öllum atvikum þykir refsing stefnda hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt, sem renni í ríkissjóð. Greiði stefndi ekki sektina innan 4 vikna frá dómsbirtingu skal koma hennar í stað fangelsi í 20 daga.
Á það verður að fallast að stefnandi eigi rétt til miskabóta úr hendi stefnda samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, vegna ummælanna í lið 2.d. dómkrafna, sem ekki verða réttlætt með áðurnefndri gagnrýni stefnanda. Þykja þær því hæfilega ákveðnar 100.000 krónur, með dráttarvöxtum eins og segir í dómsorði.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum er ljóst að stefndi hefur tapað málinu að nokkru í skilningi 130. gr. og að stefnandi hefur á móti fengið framgengt kröfugerð sinni að vissu marki. Þykir því rétt að dæma stefnda til að greiða hluta af málskostnaði hans. Með hliðsjón af eðli og umfangi málsins þykir sá kostnaður hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Árni Matthías Mathiesen, greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Framangreind ummæli stefnda í garð stefnanda, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, sem fram koma í lið 1.c. kröfugerðar hans, skulu vera ómerk.
Stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.