Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2006


Lykilorð

  • Ábúð
  • Eignarnám


Þriðjudaginn 19

 

Þriðjudaginn 19. desember 2006.

Nr. 339/2006.

Kristinn Jens Sigurþórsson

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

gegn

Prestssetrasjóði

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Ábúð. Eignarnám.

K var skipaður sóknarprestur í Saurbæjarprestakalli 14. mars 1996 og varð þar með umráðamaður prestssetursjarðarinnar S. P gerði samning við K um afnot hans og umráð yfir jörðinni 31. janúar 2001. L fékk í ágúst 2004 heimildir yfirvalda til að leggja háspennulínu um svæði, sem náði meðal annars til lands S, svo og til að flytja þar til aðra línu, sem lá þegar um landið. Samningar tókust ekki milli L og P um bætur vegna þessa og leitaði L til matsnefndar eignarnámsbóta sem komst að þeirri niðurstöðu að L bæri að greiða P 9.343.000 krónur í eignarnámsbætur. K taldi sig eiga rétt á að fá þessa fjárhæð greidda vegna umráða hans yfir jörðinni og höfðaði því mál á hendur P til heimtu skaðabóta sem þessu svara. Tekið var fram að bæturnar, sem P fékk greiddar, hefðu verið ákveðnar vegna varanlegrar skerðingar á réttindum yfir landi jarðarinnar S, en að engu leyti vegna jarðrasks eða átroðnings sem kunni að hafa leitt af framkvæmdum við lagningu háspennulína þar. Ekki var talið að K hefði fært fram nein haldbær rök, hvorki á grundvelli laga né samnings aðila frá 31. janúar 2001, sem leitt gætu til þess að hann ætti sem leigutaki að jörðinni tilkall til þessara eignarnámsbóta með öllu eða að hluta. Var P því sýknaður af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 9.343.000 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. september 2005 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi skipaður 14. mars 1996 sóknarprestur í Saurbæjarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi frá 1. júní sama ár að telja. Með þessu varð áfrýjandi umráðamaður prestssetursjarðarinnar Saurbæjar í Hvalfjarðarstrandarhreppi, sem samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði er eign fjársýslu ríkisins, en af ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 137/1993 um prestssetur leiðir að stefndi fer með fyrirsvar vegna jarðarinnar og hefur með hendi yfirstjórn hennar. Áfrýjandi kveðst hafa tekið við ábúð jarðarinnar á fardögum 1996, en samning um afnot hans og umráð yfir henni, svokallað haldsbréf, gerði stefndi við hann 31. janúar 2001. Landsvirkjun fékk í ágúst 2004 heimildir yfirvalda til að leggja háspennulínu um svæði, sem náði meðal annars til lands Saurbæjar, svo og til að flytja þar til aðra línu, sem lá þegar um landið. Samningar tókust ekki milli Landsvirkjunar og stefnda um bætur vegna þessa og leitaði því sá fyrrnefndi 20. desember 2004 úrlausnar matsnefndar eignarnámsbóta. Í úrskurði hennar 27. maí 2005 voru stefnda ákveðnar bætur úr hendi Landsnets hf., sem þá hafði tekið við réttindum og skyldum Landsvirkjunar vegna byggingar og reksturs þessara háspennulína. Fyrir rúmlega 2 hektara af landi jarðarinnar, sem fóru undir möstur, voru bætur metnar 852.000 krónur, en undir vegaslóða var tekið lítillega meira land, sem metið var á 995.000 krónur. Með því að svokallað byggingarbann var lagt á alls 36,8 hektara lands, sem var innan tiltekinnar fjarlægðar frá háspennulínunum, töldust takmarkanir hafa verið settar á afnot þess, auk þess sem eins fór af öðrum sökum um spildu, sem var 7 hektarar að stærð. Bætur vegna þessa voru ákveðnar samtals 13.386.000 krónur. Vegna þessara framkvæmda lögðust á hinn bóginn aftur til jarðarinnar rúmlega 19 hektarar lands, sem eldri háspennulína hafði legið um, og komu til frádráttar framangreindum bótum 5.890.000 krónur af þeim sökum. Niðurstaða matsnefndarinnar varð því sú að Landsneti hf. bæri að greiða stefnda 9.343.000 krónur í eignarnámsbætur. Fyrir liggur í málinu að þessar bætur voru inntar af hendi. Áfrýjandi telur sig eiga rétt á að fá þessa fjárhæð greidda vegna þeirra umráða, sem hann nýtur yfir jörðinni. Hann höfðaði því mál þetta á hendur stefnda 14. nóvember 2005 til heimtu skaðabóta, sem þessu svara.

Í fyrrnefndum samningi aðilanna frá 31. janúar 2001 segir í 2. lið að áfrýjandi hafi öll lögmæt og eðlileg umráð og afnot jarðarinnar uns hann lætur af embætti. Í 3. lið er mælt fyrir um að hann geti ekki ráðstafað prestssetrinu eða réttindum, sem því tengjast, þannig að bindandi sé fyrir stefnda lengur en hann gegni embætti sínu, nema til komi samþykki stefnda. Áfrýjandi megi heldur ekki án slíks samþykkis gera löggerninga, sem feli í sér óeðlilega ráðstöfun prestssetursins miðað við hefðbundin afnot þess. Samkvæmt 4. lið samningsins geri stefndi alla löggerninga eða ráðstafanir, sem feli í sér varanlega skerðingu eða breytingu á prestssetrinu, svo og löggerninga vegna réttinda, sem undanskilin séu umráða- og afnotarétti áfrýjanda. Í 17. lið er síðan vísað til þess að um réttindi og skyldur aðilanna fari að öðru leyti en mælt er fyrir í samningnum eftir ákvæðum laga og starfsreglna stefnda. Í lögum nr. 137/1993 eru ekki sérreglur um umráð eða afnot sóknarprests af prestssetri, en í 5. gr. þeirra er vísað til þess að um réttarsamband hans og stefnda fari eftir ákvæðum húsaleigulaga og ábúðarlaga eftir því, sem við geti átt. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, sem voru í gildi þegar aðilarnir gerðu áðurgreindan samning 31. janúar 2001, sbr. nú 1. mgr. 11. gr. laga nr. 80/2004 um sama efni, átti leiguliði rétt á bótum fyrir jarðrask og átroðning, sem leiddi af virkjun vatns eða starfrækslu þvílíkra fyrirtækja.

Bæturnar, sem stefndi fékk greiddar samkvæmt fyrrnefndum úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, voru ákveðnar vegna varanlegrar skerðingar á réttindum yfir landi jarðarinnar Saurbæjar, en að engu leyti vegna jarðrasks eða átroðnings, sem kann að hafa leitt af framkvæmdum við lagningu háspennulína þar. Áfrýjandi, sem hefur tímabundin umráð yfir jörðinni og afnot hennar sem ábúandi meðan hann gegnir embætti sóknarprests í Saurbæjarprestakalli, hefur að framangreindu virtu ekki fært fram nein haldbær rök, hvorki á grundvelli laga né samnings aðilanna frá 31. janúar 2001, sem leitt gætu til þeirrar niðurstöðu að hann ætti tilkall til þessara eignarnámsbóta með öllu eða að hluta. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest og áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kristinn Jens Sigþórsson, greiði stefnda, Prestssetrasjóði, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                   

                                                                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 10. apríl 2006

Mál þetta var höfðað 14. nóvember 2005, þingfest 6. desember 2005 og dómtekið 28. mars 2006.

             Stefnandi er Kristinn Jens Sigurþórsson, Saurbæ, Hvalfjarðarstrandarhreppi, Borgarfjarðarsýslu.

             Stefndi er Prestssetrasjóður, Biskupsstofu, Laugavegi 31, Reykjavík.

             Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 9.343.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. september 2005 til greiðsludags. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda lægri fjárhæð en í aðalkröfu, samkvæmt mati dómsins, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 22. september 2005 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar.

             Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar.

             Málsatvik stefnanda.

             Stefnandi kveðst hafa tekið við embætti sóknarprests að Saurbæ í Hvalfjarðarstrandarhreppi 1. júní 1996 og flutt þá á jörðina. Hann sé umráðamaður eða ábúandi jarðarinnar. Hafi hann tekið við ábúð á fardögum 1996 og úttekt farið fram í maí sama ár. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að gengið yrði frá samningi um afnot hans af jörðinni hafi það ekki verið gert fyrr en í janúar 2001. Um afnot hans af jörðinni fari samkvæmt haldsbréfi, eða byggingarbréfi, frá 31. janúar 2001. Umrætt haldsbréf sé samningur á milli stefnanda og stefnda ,,um afnot og umráð prestssetursins Saurbæjar...” Samkvæmt 2. gr. haldsbréfsins fari stefnandi með ,,öll lögmæt og eðlileg umráð og afnot prestsseturs...” Í 17. gr. haldsbréfsins segi að um réttindi og skyldur umráðamanns fari að öðru leyti en kveðið sé á um í haldsbréfinu sjálfu eftir ákvæðum laga og starfsreglna stefnda á hverjum tíma. Í raun sé útgefið haldsbréf byggingarbréf stefnanda fyrir jörðinni og fari því um réttarstöðu aðila að öðru leyti en kveðið sé á um í haldsbréfinu eftir gildandi ábúðarlögum á hverjum tíma. 

             Landsvirkjun hafi tekið ákvörðun um að leggja svokallaða Sultartangalínu 3 um land jarðarinnar Saurbæjar. Á sama tíma hafi legu svokallaðrar Brennimelslína 1, sem legið hafi um land jarðarinnar. Með úrskurði Skipulagsstofnunar frá 19. júlí 2002 hafi stofnunin fallist á þessa framkvæmd. Umhverfisráðherra hafi staðfest úrskurð stofnunarinnar 19. mars 2003 og iðnaðarráðherra 21. júlí 2004 veitt Landsvirkjun heimild til að byggja Sultartangalínu 3 og breyta legu Brennimelslínu 1. Sveitarstjórn Hvalfjarðarstrandarhrepps hafi veitt framkvæmdaleyfi í ágúst 2004. Samningaviðræður hafi farið af stað á milli stefnda og Landsvirkjunar vegna bóta fyrir það land jarðarinnar Saurbæjar sem myndi fara forgörðum og skerðast vegna fyrrgreindra framkvæmda. Samkomulag um fjárhæð bóta hafi ekki náðst og Landsvirkjun 20. desember 2004 farið fram á að matsnefnd eignarnámsbóta myndi skera úr ágreiningi um fjárhæð bóta. Með úrskurði nefndarinnar frá 27. maí 2004 hafi nefndin ákveðið að Landsnet hf., sem tekið hafi við réttindum og skyldum Landsvirkjunar varðandi ágreininginn, skyldi greiða stefnda 9.343.000 krónur í bætur fyrir hið eignarnumda land. Samkvæmt þeim úrskurði hafi bætur eingöngu miðast við hið eignarnumda land, þ.e. land sem annað hvort hafi ekki nýst eða orðið háð byggingarbanni. Ekki hafi verið fallist á kröfu matsþola um bætur vegna almennrar verðrýrnunar jarðarinnar.

             Í tillögu að aðalskipulagi fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp, sem til endanlegrar afgreiðslu sé hjá skipulagsyfirvöldum, sé gert ráð fyrir frístundabyggð á hinu eignarnumda landi Saurbæjar. Stefnandi, sem umráðamaður og ábúandi á jörðinni Saurbæ, hafi talið að fjárhæð sem næmi bótum fyrir hið eignarnumda land ætti að falla í hans hlut. Í samræmi við það hafi hann 22. ágúst 2005 ritað stefnda bréf þar að lútandi. Þar hafi hann sett fram kröfu um að stefndi myndi greiða stefnanda fjárhæð sem næmi bótunum. Með bréfi 16. september 2005 hafi stefndi hafnað því að greiða stefnanda þá fjárhæð og tekið fram að það væri ,, mat sjóðsstjórnar að bætur þessar eigi að renna í fyrningarsjóð prestssetursins til viðhalds og endurbóta á því.” Stefnandi hafi því ekki átt annan kost en að höfða mál til heimtu skaðabóta.

             Málsástæður og lagarök.

             Stefnandi kveðst byggja fjárkröfu, eða skaðabótakröfu sína, á því að hann sé umráðamaður og ábúandi á jörðinni Saurbæ og sem slíkur hafi hann öll hefðbundin not hennar. Framkvæmdir Landsnets hf. hafi skert nýtingarmöguleika hans á jörðinni og þar með möguleika hans á tekjuöflun. Stefnanda beri því fjárhæð sem nemi umræddum eignarnámsbótum frá Landsneti hf. Stefnandi hafi samkvæmt haldsbréfi öll lögmæt og eðlileg umráð prestssetursins og sé því ábúandi á jörðinni í skilningi ábúðarlaga. Stefnanda sé því heimilt að nýta jörðina eins og honum þyki best henta meðan sú notkun rúmist innan gildandi laga, reglna og haldsbréfsins. Sé honum m.a. heimilt að afla tekna með nýtingu jarðarinnar með venjulegum og hefðbundnum hætti. Sé eðlileg og skynsamleg notkun stefnanda á jörðinni takmörkuð með einhverjum hætti hljóti bætur fyrir slík not að eiga að koma í hans hlut. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. eldri ábúðarlaga, nr. 64/1974, skyldi leiguliði hafa öll leiguliðaafnot ábúðarjarðar sinnar, en í því hafi falist að hafa full afnotaumráð þeirra nytja, sem jörðin sjálf hafi gefið af sér og rétt til framkvæmda, sem auka myndi framleiðsluhæfi jarðarinnar. Í 2. mgr. 24. gr. laganna hafi verið talið upp hvað teldist til leiguliðaafnota og þar sagt að þeim skyldu fylgja það sem fylgt hafi þeim að fornri landsvenju. Það hafi verið venja að ábúendum, eða umráðamönnum, prestssetra væri t.d. heimild að leigja land eða lóðir á viðkomandi jörð og að tekjur af landleigu kæmu þá í hlut ábúenda eða umráðamanns. Samkvæmt 10. gr. gildandi ábúðarlaga, nr. 80/2004, skuli ábúandi hafa öll leiguliðaafnot ábúðarjarðar sinnar og í því felist að hafa full afnotaumráð ,,þeirra nytja sem jörðin sjálf gefur af sér...” Í 11. gr. laganna séu talin upp þau réttindi sem séu undanskilin leiguliðaafnotum og sé landleiga þar ekki nefnd. Stefnandi telji því að bæði í eldri og núgildandi ábúðarlögum felist réttur honum til handa til að leigja land eða lóðir úr jörðinni Saurbæ. Það land sem tekið hafi verið eignarnámi hafi hentað mjög vel til leigu undir frístundabyggð. Réttur stefnanda að því leyti hafi verið rýrður með eignarnáminu og því beri honum umræddar bætur. Stefnandi telji jafnframt ljóst að meðan hann hafi umráð jarðarinnar sé stefnda ekki heimilt að skipuleggja land undir frístundabyggð á jörðinni eða leigja land úr henni. Sama gildi um annan atvinnurekstur á jörðinni en engum öðrum en stefnanda sé heimilt að stunda atvinnustarfsemi eða rekstur af neinum toga á jörðinni á meðan stefnandi hafi umráð eða ábúð á henni.

             Í tillögu að aðalskipulagi fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp sé gert ráð fyrir að á hinu eignarnumda landi geti risið frístundabyggð. Verði slík áform að veruleika, verði sú starfsemi á vegum ábúanda á hverjum tíma en ekki stefnda, enda ekki hlutverk hans að lögum að stunda slíka starfsemi. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta komi fram að bætur sem nefndin hafi ákveðið séu vegna fjárhagslegs tjóns. Hið eignarnumda land hafi ýmist ekki nýst umráðamanni jarðarinnar eða orðið háð byggingarbanni og notkun því verulegum takmörkunum háð. Stefnandi telji ljóst að hann hafi orðið fyrir hinu fjárhagslega tjóni þar sem hann hafi umráð og ábúð jarðarinnar. Í eignarnámsmálinu hafi eignarnámsþoli haft uppi kröfu um bætur að fjárhæð 10.000.000 króna vegna almennrar verðrýrnunar á jörðinni. Á þá kröfu hafi ekki verið fallist. Ef svo hefði verið hafi þær væntanlega átt að koma í hans hlut en aðrar bætur og þar með þær sem ákveðnar hafi verið átt að koma í hlut stefnanda.     Varakröfu um lægri fjárhæð en í aðalkröfu byggi stefnandi á því að með því að hafna því að a.m.k. hluti hinna umdeildu bóta komi í hlut stefnanda hafi stefndi brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Stefndi hafi í verki viðurkennt að sambærilegar bætur, sem samið hafi verið um við Landsvirkjun vegna framkvæmda á jörðinni Valþjófsstað í Fljótsdal, ættu að koma í hlut umráðamanns eða ábúanda. Samkvæmt samningi stefnda við Landsvirkjun um landnot og efnisnám á jörðinni Valþjófsstað vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi Landsvirkjun átt að greiða stefnda 15.000.000 króna ,,vegna jarðrasks og átroðnings, sbr. 4. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976.” Stefndi hafi síðan fallist á að greiða umráðamanni jarðarinnar helming bótanna eða 7.500.000 krónur og umráðamaður jarðarinnar ákveðið að láta þar við sitja en hafa ekki uppi kröfu um að fá allar bæturnar. Ekki verði séð að aðrar aðstæður séu uppi hvað varði Valþjófsstað en Saurbæ og því eigi a.m.k. hluti bótanna að koma í hlut stefnanda. Í niðurlagi 2. mgr. 4. gr. eldri ábúðarlaga, nr. 64/1974, sé kveðið á um að leiguliði eigi rétt ,,á bótum fyrir jarðrask og átroðning, sem leiðir af virkjun vatns eða starfrækslu þvílíkra fyrirtækja.” Samsvarandi ákvæði sé í niðurlagi 1. mgr. 11. gr. núgildandi ábúðarlaga, nr. 80/2004, en þar komi fram að ábúandi eigi ,,rétt á bótum fyrir jarðrask og átroðning sem leiðir af virkjun vatns, nýtingu jarðhita og öðrum framkvæmdum.” Stefnandi telji ljóst að framkvæmdum Landsnets hf. á jörðinni fylgi jarðrask og átroðningur sem hann eigi rétt á bótum fyrir. Hinar umdeildu bætur séu a.m.k. að hluta til vegna jarðrasks og átroðnings sem þá eigi að koma í hlut stefnanda.

             Stefnandi vísar til almennrar reglu um að sá sem verði fyrir tjóni sem bætur komi fyrir eigi tilkall til bótanna og enginn annar. Jafnframt vísar stefnandi til eldri ábúðarlaga, nr. 64/1976, aðallega 1. og 2. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 4. gr. og núgildandi ábúðarlaga, nr. 80/2004, aðallega 10. og 11. gr. Loks vísar stefnandi til 65. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Krafa um dráttarvexti er reist á III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 34. gr. laga nr. 91/1991.

             Málsatvik stefnda.

             Stefndi vísar til málavaxtalýsingar stefnanda. Stefndi kveðst aldrei hafa samþykkt fyrir sitt leyti að jörðin Saurbær yrði nýtt til frístundabyggðar með sölu eða leigu á lóðum úr henni. Sú afstaða hafi verið stefnanda ljós en henni hafi margsinnis verið komið á framfæri við hann bæði í ræðu og riti.

             Málsástæður og lagarök.

             Stefndi kveðst byggja á því að með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 1/2005 hafi stefnda verið ákvarðaðar bætur vegna varanlegrar skerðingar á jörðinni Saurbæ í Hvalfjarðarstrandarhreppi, vegna lagningar Brennimelslínu 1 á nýjum stað og lagningu nýrrar línu, svonefndrar Sultartangalínu 3. Skerðing á landi stefnda hafi í raun verið tvíþætt. Annars vegar fullkomin skerðing vegna lands sem farið hafi undir staurasamstæður línunnar og vegaslóða að þeim og hins vegar takmörkuð skerðing vegna byggingarbanns sem reglur segi til um að þurfi að vera í næsta nágrenni við háspennulínur. Stefndi hafi sem eigandi jarðarinnar verið aðili að matsmálinu, en ekki stefnandi. Bætur hafi verið ákvarðaðar sem bætur til framtíðar til landeiganda þar sem háspennulínurnar muni standa á landinu til frambúðar. Í tengslum við flutning á Brennimelslínu 1 hafi landeiganda að nýju verið afhent land sem áður hafi verið undir þeirri línu og ýmist verið háð byggingarbanni eða fullkominni umráðasviptingu þar sem staurasamstæður hafi staðið.

             Stefnandi hafi ekki með neinu móti orðið fyrir tjóni vegna lagningar raflínanna um landið. Þá séu engin efni til að bæta stefnanda sérstaklega átroðning og rask vegna framkvæmdanna, enda lagning línanna fjarri íbúðarhúsi stefnanda. Í stefnu sé ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því hvers vegna stefnandi eigi að fá eignarnámsbæturnar í sinn hlut, en þær séu ákvarðaðar landeiganda vegna framtíðartjóns hans. Til álita komi af hálfu dómsins að vísa málinu frá dómi ex officio vegna vanreifunar að þessu leyti, en ekki sé gerð sjálfstæð krafa um það. Eðli málsins samkvæmt muni stefnandi ekki búa á staðnum til frambúðar og eigi hann ekki jörðina, eins og ætla megi af kröfugerð hans. Stefnandi hafi í raun engra framtíðarhagsmuna að gæta því hann hafi ekki heldur forkaupsrétt að jörðinni og beri að skila henni þegar ,,prestskap” ljúki að Saurbæ. Ef krafa stefnanda verði tekin til greina væri aðalregla sú að landeigandi og sá sem hluti eignarréttinda væri tekinn af, sæti uppi með engar bætur, en tímabundinn ábúandi milljónir. Slík niðurstaða fái ekki staðist.

             Engar eignir stefnanda hafi farið forgörðum við framkvæmdina og ekki hafi verið sýnt fram á að tekjur stefnanda eða tekjumöguleikar hafi rýrnað vegna hennar. Því sé haldið fram af hálfu stefnanda að lagning raflínanna um landið hafi kippt stoðum undan möguleikum á frístundabyggð á svæðinu og tekjumöguleikum stefnanda af henni. Því sé alfarið mótmælt. Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir um að land sem tekið hafi verið undir línur eða verið undirorpið byggingarbanni, hafi verið ætlað undir frístundabyggð. Stefnandi hafi án samþykkis stefnda ekki ráðstöfunarrétt yfir því landi, hvorki með leigusamningum né kaupsamningum. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir og í raun hafi stefnanda ítrekað verið gert ljóst að stefndi hafi ekki í hyggju að nýta landið undir sumarhúsabyggð. Einnig sé bent á að stefnandi hafi, að stefnda forspurðum, haft milligöngu um vinnu við gerð aðalskipulags sem liggi fyrir. Stefndi hafi ekki komið inn í þá vinnu fyrr en á lokastigum hennar og gert sérstaka athugasemd við það með bréfi til hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps 23. mars 2004, en afrit af því hafi farið til skipulagshöfunda og stefnanda. 

             Þó svo fyrir lægi ákvörðun um að selja eða leigja sumarhúsalóðir úr jörðinni sé það land sem heppilegast sé til þess enn til staðar, en um sé að ræða land sem hafi runnið aftur til jarðarinnar með færslu á Brennimelslínu 1. Það sé land sem snúi mót suðri, með besta útsýninu og liggi næst bestu samgönguæðum. Ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmdin hafi á neinn hátt takmarkað tekjumöguleika með sölu eða leigu sumarhúsa, ef samþykki stjórnar stefnda hefði legið fyrir. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á tekjutap né eftirspurn eftir lóðum eða löndum, eða hvort slík eftirspurn hafi horfið eftir lagningu raflínanna. Verulegur hluti þess lands sem hinar nýju raflínur liggi um liggi hátt og sé það fjarri því að vera ákjósanlegt land undir sumarhúsa- eða frístundabyggð.

             Í 5. gr. laga nr. 137/1993 um prestssetur, 9. gr. starfsreglna Prestssetrasjóðs nr. 826/2000 og 7. gr. haldsbréfs komi fram að ákvæði húsaleigulaga og ábúðarlaga taki til réttarsambands aðila efir því sem við geti átt. Um leiguliðaafnot jarða sé fjallað í 10. og 11. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004. Landskerðing sú, sem stefnda hafi verið ákvarðaðar bætur fyrir, takmarki hvorki núverandi tekjur stefnanda af jörðinni né möguleika hans á tekjuöflun síðar. Þá sé sérstaklega bent á ákvæði 22. gr. ábúðarlaga sem kveði á um að ábúanda sé skylt vegna skipulags að láta af hendi land undir opinberar byggingar og atvinnurekstur eða framkvæmdir sem nauðsynlegar þyki að gera í landi jarðarinnar án annars endurgjalds en hlutfallslegrar lækkunar á jarðarafgjaldi. Til sanns vegar megi færa að lagning raflínu um jörðina falli undir það ákvæði og sé því enn frekari rökstuðningur fyrir því að stefnanda beri ekkert af eignarnámsbótum er greiddar hafi verið.

             Til stuðnings varakröfu byggi stefnandi m.a. á 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga og telji að fái hann ekki hluta bótanna sé stefndi að brjóta jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Því sé alfarið hafnað. Þessi dómkrafa sé einnig verulega vanreifuð af hálfu stefnanda og ætti að vísa frá dómi ex officio. Mál er varði bætur til umráðamanns Valþjófsstaðar sé á engan hátt sambærilegt því máli sem hér sé til umfjöllunar, enda byggist greiðsla til umráðamanns í því tilviki á samningi sem sérstaklega hafi verið vísað til í 4. gr. þágildandi ábúðarlaga, nr. 65/1976. Engum slíkum samningi sé til að dreifa í þessu máli og því sé um eðlisólík mál að ræða sem leiði til þess að grundvallarskilyrði fyrir broti á jafnræðisreglu skorti.

             Stefndi vísar til grundvallarreglna eignarréttar og ákvæða 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vísar stefndi til ábúðarlaga, nr. 80/2004 og eldri ábúðarlaga, nr. 64/1976 og laga nr. 137/1993 um prestssetur. Einnig vísar hann til stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991. Loks er vísað til starfsreglna um Prestssetrasjóð, nr. 826/2000.  

             Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og framkvæmdastjóri stefnda skýrslu fyrir dómi. Einnig gaf skýrslu fyrir dómi Sigurbjörg Ósk Áskellsdóttir. Sigurbjörg kvaðst hafa unnið aðalskipulag fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp á vegum fyrirtækisins Landlínur ehf., en vinna við skipulagið hafi byrjað í desember 2001 með undirritun samnings við hreppinn. Aðalskipulag hafi verið auglýst og samþykkt af hreppsnefnd. Skipulagsstofnun hafi gert tillögu til ráðherra um staðfestingu á aðalskipulaginu. Einungis formsatriði stæðu því í vegi að skipulagið yrði staðfest. Ekki væri haft sérstakt frumkvæði að því að hafa samband við einstaka landeigendur vegna slíkrar vinnu. Fréttabréf hafi verið sent út til íbúa á svæðinu. Þá hafi opnir fundir verið haldnir til að kynna fyrirliggjandi vinnu. Þeir fundir hafi verið auglýstir í Morgunblaði og í héraðsblaði. Samkvæmt drögum að aðalskipulagi hafi verið gert ráð fyrir sumarbústaðabyggð í landi Saurbæjar. Vegna þeirra áforma hafi engar formlegar athugasemdir borist frá stefnda. Sigurbjörg hafi verið í sambandi við stefnanda vegna vinnunnar. Skipulag væri unnið af hreppsnefnd og gætu þeir skipulagt hvaða jörð sem væri. Þó svo jörð væri skipulögð undir frístundabyggð væri engin skylda fyrir landeiganda til að nýta landið með þeim hætti. Sigurbjörg kvaðst kannast við að hafa séð afrit af bréfi er stefndi hafi ritað hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps 10. mars 2004 og þekkja sjónarmið stefnda varðandi frístundabyggð á jörðinni Saurbæ. Hún kvaðst þó vilja árétta að á auglýsingatíma aðalskipulagsins hafi hún ekki fengið athugasemdir frá sjóðnum varðandi skipulagið.  

Niðurstaða:

Stefnandi hefur sett kröfu sína fram bæði sem fjárkröfu og kröfu um skaðabætur og rökstutt hana sem fjárkröfu og kröfu um skaðabætur. Í kröfugerð í stefnu hefur hann uppi skaðabótakröfu að fjárhæð 9.343.000 krónur. Bætur matsnefndar eignarnámsbóta í máli nefndarinnar nr. 1/2005 eru bætur til landeiganda vegna undangengins eignarnáms á grundvelli 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Stefnandi var ekki aðili að því máli nefndarinnar, enda ekki eigandi jarðarinnar Saurbæjar í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Er ekki unnt að líta öðruvísi á en að hann sé í þessu máli að krefja stefnda um skaðabætur sem nemur fjárhæð þessara bóta og að bótagrundvöllurinn sé haldsbréf sem undirritað var milli aðila þessa máls 31. janúar 2001. Málstaður stefnanda fyrir fjárhæð aðalkröfu er rökstuddur í öllum aðalatriðum út frá því að honum hafi sem umráðamanni og ábúanda jarðarinnar Saurbæjar verið heimilt að koma á fót sumarbústaðabyggð í landi jarðarinnar, í samræmi við væntanlegt aðalskipulag á jörðinni. Tekjur af slíkri sumarbústaðabyggð kæmu í hlut stefnanda sem ábúanda jarðarinnar. Lagning Sultartangalínu 3 og Brennimelslínu 1 um land jarðarinnar hafi rýrt þá möguleika stefnanda, en línurnar fari um land sem sé ákjósanlegt fyrir sumarbústaðabyggð. Bætur matsnefndar eignarnámsbóta til stefnda hafi tekið mið af því fjárhagstjóni sem beinlínis stafi af lagningu línanna, en ekki af almennri verðrýrnun jarðarinnar. Í því ljósi sé rétt að stefndi greiði stefnanda fjárhæð sem nemi eignarnámsbótunum. Á þessi sjónarmið hefur stefndi ekki fallist og byggir á því að stefndi hafi ekki veitt leyfi fyrir því að sumarbústaðabyggð yrði komið á fót í landi jarðarinnar. Hafi stefnandi af þeim sökum ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni. Að auki myndu tekjur af slíkri starfsemi renna til stefnda, sem eiganda jarðarinnar, en ekki stefnanda.

Úrlausn þess ágreinings sem hér er til meðferðar byggir að verulegu leyti á skýringu á efni nefnds haldsbréfs. Til fyllingar á efni bréfsins koma reglur ábúðarlaga, nr. 64/1976, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í ábúðarlögum nr. 80/2004, og reglur núgildandi ábúðarlaga nr. 80/2004, sbr. 17. gr. haldsbréfsins. Haldsbréfið er samkvæmt efni sínu byggingarbréf, er kveður á um að stefnandi hafi ábúð á prestssetrinu, uns hann lætur af embætti sóknarprests í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Skal stefnandi í leigu greiða árlegt leigugjald eða afgjald. Samkvæmt 7. gr. samningsins ákveður sjóðsstjórn stefnda leigukjör, þ.m.t. leigugjald. Skal það ákvarðað samkvæmt 5. gr. starfsreglna Prestssetrasjóðs, en til viðmiðunar árlegs gjalds skal stjórn stefnda taka fasteignamat þeirra eigna sem prestur hefur full umráð yfir, eins og það er 1. desember næst á undan gjaldaári, svo og einnig þau lögboðnu gjöld sem innt eru af hendi af hálfu stefnda vegna þessara sömu eigna. Ákvörðun gjalds skal tekin fyrir eitt ár í senn og skal því jafnað niður á gjaldaárið með mánaðarlegum greiðslum frá 1. júní til 31. maí og skal það tilkynnt leigutaka fyrir 1. mars. Skal gjaldið jafnan innt af hendi fyrirfram fyrir hvern mánuð og dregið af launum prests. Skal gjald stefnanda vera 36.000 krónur á mánuði fyrir árin 2000 og 2001 og breytast síðan ár hvert. Á fundi prestshjónanna í Saurbæ og tveggja stjórnarmanna stefnda 23. janúar 2001 var komist að samkomulagi um að ekki yrði tekið með í reiknigrunn afgjalds tiltekin útihús jarðarinnar sökum lélegs ástands og þar sem þau nýttust presti ekki. Átti það við um fjós, hlöðu byggða árið 1945 og hesthús eða súrheysgryfju sem byggt var 1949. Þá varð samkomulag um að veita stefnanda 20% afslátt af gjaldi á grundvelli þess að staðurinn þótti mikill sögustaður sem talinn var draga til sín fjölda ferðamanna, auk þess sem reknar voru á jörðinni búðir fyrir kristilega starfsemi í Vatnaskógi, sem talið var valda miklum ágangi á prestssetrinu. Samkvæmt samningi er hið leigða prestssetrið. Greinist það eftir eignarhlutum í fasteignamatsskrá ríkisins í íbúðarhús, bílskúr, fjórar geymslur, jörð sem er 893,2 hektarar að stærð, ræktað land sem er 21,2 hektarar að stærð og lax- og silungsveiði í Laxá í Leirársveit. Þá er sérstaklega vikið að hlunnindum sem ekki er getið í fasteignamatsskrá og er þar um að ræða æðarvarp, malarnám og framleiðslurétt sauðfjárafurða sem fylgi prestssetursjörðinni og er 22,4 ærgildi.

Í 14. gr. samnings er getið um kvaðir og samninga um prestssetrið. Þar kemur fram að Hvalfjarðarstrandarhreppur leigi land fyrir félagsheimili og sundlaug. Renni leigugjald til prestssetursins eða prestssetursjarðarinnar. Þá leigi hreppurinn land undir íbúðarhús í tengslum við félagsheimilið. Gildi sömu leigukjör um það land og um félagsheimilið. Leigt er 2,7 hektara land undir starfsemi fiskeldisstöðvar. Leigugjald greiðist sóknarpresti í Saurbæ og gangi til viðhalds og endurbóta á prestssetursjörðinni. Norræna skólasetrinu hf. er leigð 5 hektara lóð úr landi Saurbæjar. Leigugjald renni til endurbóta á prestssetursjörðinni, t.d. vegna viðhalds girðinga og uppgræðslu skógar. K.F.U.M hefur svonefndan Vatnaskóg til umráða, en svæðið er í landi Saurbæjar. Tekið er fram að Skógrækt ríkisins hafi afhent stjórn K.F.U.M. landið endurgjaldslaust til fullra umráða. Ungmennafélagið Vísir hefur til umráða afgirtan íþróttavöll. Loks er tekið fram að stefnandi hafi friðlýst látrum og æðarvarpi í landi Saurbæjar, að prestssetursjörðin eigi aðild að veiðifélagi Laxár í Leirársveit og njóti 5,19% arðs og sömu hlutdeildar í veiðihúsi að Stóra-Lambhaga og loks að stefndi, sem umráðaaðili Saurbæjar, sé hluthafi í Hitaveitufélagi Hvalfjarðar hf.

Um umráð, afnot, ráðstöfun prestssetursins eða réttinda þess, löggerninga og réttindi og skyldur umráðamanns er kveðið á um í 2., 3., 4. og 17. gr. samningsins. Kemur fram að umráðamaður hafi öll lögmæt og eðlileg umráð og afnot prestssetursins uns hann láti af embætti. Geti hann ekki ráðstafað prestssetri eða réttindum sem því tengist þannig að bindi stefnda og/eða þannig að ráðstöfun gildi lengur en hann gegni embætti sínu, án samþykkis stjórnar stefnda og annarra lögmæltra aðila hverju sinni. Umráðamaður geti ekki heldur, án samþykkis stjórnar stefnda, gert löggerninga sem feli í sér óeðlilega ráðstöfun prestsseturs, miðað við eðlileg og hefðbundin not þess. Alla löggerninga og/eða ráðstafanir sem feli í sér varanlega skerðingu eða breytingu á prestssetri, umhverfi þess og ásýnd, eða viðbætur við prestssetrið, geri stjórn stefnda, sem og löggerninga vegna réttinda sem undanskilin kunni að vera umráða- og afnotarétti prests. Loks er tekið fram að um réttindi og skyldur umráðamanns og stefnda fari að öðru leyti eftir ákvæðum laga svo og starfsreglum Prestssetrasjóðs á hverjum tíma.

Samkvæmt 2. gr. starfsreglna um Prestssetrasjóð, nr. 826/2000, greiðast í fyrningarsjóð hreinar tekjur af hlunnindum viðkomandi prestsseturs, húsaleiga og aðrar tekjur sem stjórn sjóðsins fer með og bókfærir hjá hverju prestssetri. Efni 3. gr. starfsreglnanna um umráð og afnot prestssetra og gerð löggerninga í tengslum við ráðstöfun prestssetra er samhljóða 2. – 4. gr. haldsbréfsins. Eru starfsreglurnar settar með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um prestssetur, nr. 137/1993, fer stjórn Prestssetrasjóðs með yfirstjórn prestssetra og hefur fyrirsvar þeirra vegna.

Það er grundvallarregla að sá sem skaðbótakröfu hefur uppi í máli þarf að sanna tjón sitt. Þar sem í gildi er byggingarbréf, í þessu tilviki haldsbréf, á milli stefnanda, sem leigutaka að prestssetrinu Saurbæ, og stefnda í fyrirsvari fyrir prestssetrið, má færa fyrir því rök að hugsanlegt sé að stefnandi hafi beðið eitthvert tjón við það að raflínur voru lagðar um land jarðar sem hann hafði á leigu og greiddi árlegt leigugjald fyrir. Haldsbréfið kveður ítarlega á um hvaða rétt stefnandi öðlast við ábúð jarðarinnar. Að öðru leyti gildir það ákvæði haldsbréfsins og 3. gr. starfsreglna um Prestssetrasjóð að alla löggerninga og/eða ráðstafanir sem feli í sér varanlega skerðingu eða breytingu á prestssetri, umhverfi þess eða ásýnd, eða viðbætur við prestssetrið, geri stjórn stefnda. Tilkoma sumarbústaðabyggðar felur án nokkurs vafa í sér varanlega breytingu á prestssetri, umhverfi þess og ásýnd og eru viðbætur við það. Er að mati dómsins engum vafa undirorpið að til þurfi atbeina stefnda til að sumarbústaðabyggð verði komið á fót í landi prestssetursins. Stefndi hefur fullyrt að stefnandi hafi ekki fengið leyfi stefnda til þess og hefur stefnanda ekki tekist sönnun um hið gagnstæða. 

Í haldsbréfinu kemur fram að tilgreind hlunnindi og tekjur af leigu renni til prestssetursins eða prestssetursjarðarinnar og er í ákveðnu tilviki mælt fyrir um í hvað þeim skuli varið. Stefnandi hefur fullyrt að leigutekjur samkvæmt gildandi leigusamningum og arður af hlunnindum berist sér og hefur stefndi í reynd ekki mótmælt því, en telur að stefnanda beri að verja þeim til viðhalds og endurbóta á prestssetrinu. Haldsbréfið geymir tæmandi talningu á hlunnindum og leigusamningum sem í gildi eru. Í 2. gr. starfsreglna Prestssetrasjóðs er kveðið á um að hreinar tekjur af hlunnindum viðkomandi prestsseturs renni í fyrningarsjóð sem tilheyri hverju lögboðnu prestssetri. Að mati dómsins yrði að kveða sérstaklega á um í samningi á milli aðila þessa máls ef tekjur af rekstri sumarbústaðabyggðar ættu að koma í hlut stefnanda, í stað þess að renna í fyrningarsjóð, svo sem reglur mæla fyrir um. Er það í samræmi við yfirlýsta afstöðu stefnda í þessu máli. Þegar til allra þessara þátta er litið er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi beðið fjárhagslegt tjón á grundvelli þess að raflínur í landi Saurbæjar hafi skert möguleika á að hafa tekjur af rekstri sumarbústaðabyggðar. Hefur stefnandi ekki teflt fram öðrum grundvelli til stuðnings fjárhæð í aðalkröfu, eða tekist að leiða þá niðurstöðu í ljós að öðru leyti af haldsbréfi eða ábúðarlögum.   

Stefnandi hefur uppi varakröfu um lægri fjárhæð og hefur fært fram henni til stuðnings fullyrðingar um að stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga með því að mismuna stefnanda og sóknarpresti á Valþjófsstað í Fljótsdal, í sambærilegum tilvikum. Til stuðnings varakröfu sinni á þessum grundvelli hefur stefnandi ekki teflt fram neinum sönnunargögnum. Loks styður stefnandi varakröfu sína þeim rökum að honum beri bætur fyrir jarðrask og átroðning sem leiði af lagningu raflínanna um landið, en stoð fyrir kröfu á þeim forsendum megi finna í 2. mgr. 4. gr. eldri ábúðarlaga, nr. 64/1976 og 1. mgr. 11. gr. núgildandi ábúðarlaga, nr. 80/2004. Ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 80/2004, sem gilda um þessa stöðu sbr. niðurlag bráðabirgðaákvæðis I í lögunum, miða við að ábúandi sanni að hann hafi í slíku tilviki orðið fyrir tjóni á eigin eignum. Stefnandi hefur ekki teflt fram neinum sönnunargögnum um að svo sé. Gegn mótmælum stefnda hefur honum því í hvorugu tilviki hér að framan tekist sönnun um tjón sem leiði til þess að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda skaðabætur lægri fjárhæðar en í aðalkröfu.

Þegar til alls framanritaðs er litið er það niðurstaða dómsins að sýkna skuli stefnda af öllum kröfum stefnanda. 

Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefnandi stefnda 250.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefnda Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður.

             Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Prestssetrasjóður, er sýknaður af kröfum stefnanda, Kristins Jens Sigurþórssonar. 

             Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.