- Friðhelgi einkalífs
- Tjáningarfrelsi
- Stjórnarskrá
- Lögjöfnun
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2011. |
Nr. 100/2011.
|
Ingi Freyr Vilhjálmsson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson (Þórður Bogason hrl.) gegn Eiði Smára Guðjohnsen (Heimir Örn Herbertsson hrl.) |
Friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Lögjöfnun.
E höfðaði mál gegn I, R og J vegna umfjöllunar dagblaðsins DV um fjármál E sem birtist í dagblaðinu sjálfu og á vefriti þess. Taldi E að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs hans og að gera ætti I, R og J refsingu samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæma þá til að greiða sér miskabætur og fé til að standa straum af birtingu dómsins. Óumdeilt var að I bæri ábyrgð samkvæmt þágildandi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt á því efni sem birtist í dagblaðinu og hann var nafngreindur sem höfundur að. Á öðru efni báru R og J ábyrgð sem ritstjórar dagblaðsins samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Þar sem I hafði engin gögn fært fram um að hann hefði gert athugasemdir við ritstjóra eða útgefendur vefrits DV við það að honum væri þar ítrekað eignað efni um E sem hann taldi sig ekki höfund að var talið sannað að hann væri höfundur þess efnis og að kröfum vegna þess væri því réttilega beint að honum. Ekki var fallist á að R og J bæru á grundvelli lögjöfnunar frá 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 ábyrgð á efni um E sem birtist á vefriti DV og var ekki merkt tilteknum höfundi. Tekið var fram að 3. mgr. 15. gr. laganna væri í eðli sínu hlutlæg og því undantekning frá meginreglum laga um sök sem grundvöll ábyrgðar. Einnig yrði að gæta varúðar við að byggja refsiheimild á lögjöfnun, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga. Aftur á móti var talið að á R og J hefði hvílt eftirlitsskylda sem ritstjórum vefritsins. Saknæm vanræksla þeirra á að sinna þessari eftirlitsskyldu kynni að varða þá ábyrgð og þótti málinu því ekki ranglega beint að þeim vegna þessa efnis. Tekið var fram að þegar metið væri hvar mörkin lægju milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs yrði að líta til stöðu þjóðfélagsmála á hverjum tíma, hvaða málefni bæru hæst í opinberri umræðu og væru almennt talin miklu varða. Þótti umfjöllun DV um lántökur E lýsa dæmigerðu ferli um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kynni að hafa átt þátt í því hruni sem varð í íslensku efnahagslífi við fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 og hefði haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Við þessar aðstæður gæti skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um þessi fjárhagsmálefni E ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Um umfjöllun dagblaðsins og vefritsins um laun E frá tilteknu knattspyrnufélagi tók Hæstiréttur fram að E væri þjóðþekktur sem atvinnumaður í knattspyrnu og hefði ekki vikist undan því að vera í sviðsljósi fjölmiðla sem slíkur. Launamál þekktra atvinnuknattspyrnumanna væru reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum og tengdust því starfi E sem hann væri þjóðþekktur fyrir. Var talið að umfjöllun DV teldist að þessu leyti ekki brot á friðhelgi einkalífs E. Loks var ekki fallist á að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs E með umfjöllun vefrits DV um spilafíkn E. Vísað var til þess að um hefði verið að ræða endursögn umfjöllunar sem áður hafði birst opinberlega hjá öðrum fjölmiðlum og að E hefði sjálfur gert spilafíkn sína að umtalsefni í viðtölum. Voru I, R og J því sýknaður af kröfum E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, og Garðar Gíslason.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2011. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Á forsíðu dagblaðsins DV 2. desember 2009 birtist fyrirsögnin „Landsliðsfyrirliðinn reynir að standa í skilum: Eiður Smári í kröggum“ og undir henni þrjár svohljóðandi undirfyrirsagnir: „Skuldar 1,2 milljarða á 800 milljónir“, „Tapaði í Hong Kong, Tyrklandi og Reykjanesbæ“, „Monaco-launin í afborganir“. Á blaðsíðu 8 í sama tölublaði DV var nánar fjallað um fjárhagsmálefni stefnda í grein þar sem áfrýjandinn Ingi Freyr Vilhjálmsson var tilgreindur höfundur undir fyrirsögninni „Eiður Smári í kröggum“. Þar sagði meðal annars að „samkvæmt heimildum DV innan úr bankakerfinu“ skuldaði stefndi rúmlega 1.200.000.000 krónur en eignir sem metnar væru á nærri 750.000.000 krónur ætti hann á móti þessum skuldum. Hann væri í viðræðum við lánardrottna sína um hvernig hann gæti staðið í skilum, en honum væri mikið í mun að ráða fram úr þessum skuldavanda. Stærsti lánveitandi stefnda hafi verið Banque Havilland, áður Kaupþing í Lúxembourg, sem hann skuldaði tæpar 830.000.000 krónur, en stefndi hafi verið í „einkabankaþjónustu“ hjá þeim banka undanfarin ár. Einnig skuldi hann Íslandsbanka hf. meira en 385.000.000 krónur, en aðrar skuldir væru óverulegar. Síðan var í greininni rakið að stefndi hefði skuldsett sig verulega vegna ýmissa fjárfestingarverkefna sem ekki hafi skilað miklu. Nánar var fjallað um þrjú slík verkefni, fjárfestingarverkefni í Tyrklandi, íþróttaakademíu í Reykjanesbæ og fasteignaverkefni í Hong Kong. Þá var stuttlega fjallað um aðrar eignir stefnda. Loks var fjallað um að stefndi ætli sér að greiða skuldirnar niður á næstu árum og í því samhengi var fjallað um tekjur hans vegna samnings við knattspyrnufélagið Monaco, og sagt að laun hans á mánuði væru tæpar 3.000.000 krónur, en samkvæmt heimildum blaðsins muni þau hækka verulega eða í 30.000.000 krónur á mánuði í byrjun næsta árs.
Sama dag klukkan 6.30 birtist grein á heimasíðu DV, dv.is, undir fyrirsögninni „Eiður Smári skuldar meira en milljarð“. Á sama vettvangi birtist síðar sama dag klukkan 14.30 grein undir fyrirsögninni „Eiður tapaði á fasteignaverkefni í Hong Kong“ og daginn eftir klukkan 9.46 þriðja greinin undir fyrirsögninni „Eiður Smári með rúmar 30 milljónir á mánuði“. Í þessum þremur greinum var svipuð umfjöllun og í fyrrnefndri blaðagrein og hliðstæðar upplýsingar birtar um fjárhagsmálefni stefnda og þar höfðu birst. Höfundur allra þessara greina var tilgreindur áfrýjandinn Ingi Freyr.
Þann 3. desember birtist klukkan 8.19 á heimasíðu DV grein undir fyrirsögninni „Eiður sagður enn haldinn spilafíkn.“ Þar sagði að breska slúðurblaðið The Sun hafi tekið upp frétt DV daginn áður um skuldastöðu stefnda, en í frétt breska blaðsins hafi því verið bætt við að hann hafi eytt hluta af frítíma sínum undanfarin tvö sumur í Las Vegas og haft eftir ónafngreindum heimildarmanni að allir hefðu haldið að stefndi hefði sigrast á spilafíkn sinni. Einnig var sagt að breska blaðið People hafi fyrst greint frá því árið 2003 að stefndi væri haldinn spilafíkn, en þá hafi verið haft eftir honum að hann ætlaði aldrei að stíga fæti inn í spilavíti aftur. Höfundur þessarar greinar er tilgreindur „ritstjórn DV“.
Þann 3. desember 2009 ritaði lögmaður stefnda ritstjórum DV, áfrýjendunum Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni, og fréttastjóra blaðsins bréf í tilefni af framangreindum skrifum. Mótmælti hann því að fjallað væri um einkamálefni umbjóðanda síns sem ekkert erindi ættu til almennings með þessum hætti. Taldi hann um að ræða bæði ólögmæta og refsiverða háttsemi sem gæti meðal annars varðað við 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og krafðist þess að slíkri umfjöllun yrði tafarlaust hætt, fyrri skrif yrðu dregin til baka og afsökunarbeiðni birt í blaðinu. Daginn eftir birtist á heimasíðu DV klukkan 8.37 grein undir fyrirsögninni „Eiður vill að eigandi stöðvi umfjöllun“. Þar var greint frá efni framangreinds bréfs. Voru kröfur þær sem þar voru fram settar taldar óásættanlegar þar sem umfjöllunin ætti fullt erindi til almennings. Stefndi hafi fengið hundruð milljóna að láni hjá íslenskum lánastofnunum og ætti í erfiðleikum með að standa í skilum. Lánastofnanirnar virðast ekki hafa áskilið sér fullnægjandi tryggingar fyrir endurgreiðslu þessara lána. Hvorugt geti talist einkamál stefnda þar sem slíkt ráðslag bankastofnana væri eitt af þeim „grundvallarmálum“ sem til rannsóknar væru hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Höfundur greinarinnar er tilgreindur „Ritstjórn DV“.
Þann 4. desember 2009 birtust tvær greinar í DV um málefni stefnda. Annars vegar var í dálki þar sem fjallað var um fréttir er hæst bar í vikunni undir fyrirsögninni „skuldugur fótboltakappi“ skýrt frá meginefni framangreindrar fréttar blaðsins sem birtist 2. sama mánaðar. Höfundar var ekki getið. Hins vegar var grein undir fyrirsögninni „Birkir veitti Eiði vini sínum lánin“. Þar var meðal annars greint frá því að Birkir Kristinsson vinur stefnda, sem starfað hafi hjá Glitni banka hf. og síðar Íslandsbanka hf., hafi fyrir hönd bankans tekið ákvarðanir um að veita stefnda lán, en greint hafi verið frá skuldum hans við bankann í blaðinu 2. desember. Höfundur þessarar greinar er tilgreindur áfrýjandinn Ingi Freyr. Loks var á heimsíðu DV þennan dag klukkan 12.02 birt grein undir fyrirsögninni „Birkir veitti vini sínum lánin“ þar sem efnislega voru endurtekin helstu atriði úr grein þeirri í blaðinu sama dag er að framan getur. Höfundur var tilgreindur áfrýjandinn Ingi Freyr.
Stefndi höfðaði mál þetta 23. desember 2009. Hann taldi að með framangreindri umfjöllun hafi verið brotinn réttur sinn til að njóta friðhelgi einkalífs og krafðist þess að áfrýjendur yrðu látnir sæta refsingu samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga, þeim gert að greiða sér miskabætur og fé til að standa straum af birtingu dómsins. Málsástæður aðila eru raktar í hinum áfrýjaða dómi.
II
Aðila greinir ekki á um að ábyrgð á þeim ummælum sem birtust í dagblaðinu DV fari eftir þágildandi ákvæðum laga nr. 57/1956 um prentrétt. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna ber áfrýjandinn Ingi Freyr því refsi- og fébótaábyrgð á því efni sem birtist í blaðinu og hann er nafngreindur sem höfundur að. Á öðru efni sem í dagblaðinu birtist bera áfrýjendurnir Reynir og Jón Trausti ábyrgð sem ritstjórar þess á grundvelli 3. mgr. sömu greinar.
Samkvæmt 1. málslið 1. gr. laga nr. 57/1956 telst til rita samkvæmt lögunum hvert það rit sem prentað er eða letrað á annan vélrænan eða efnafræðilega hátt. Efni sem eingöngu birtist á netinu fellur samkvæmt því utan gildissviðs laganna og þar með utan gildissviðs þágildandi ábyrgðarreglna 15. gr. þeirra, sbr. hins vegar nú 51. gr. sbr. 2. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.
Í stefnu til héraðsdóms heldur stefndi því fram að „með lögjöfnun og vísan til meginreglna um ábyrgð á birtu efni“ gildi sömu reglur varðandi aðild og ábyrgð hvort sem umfjöllun birtist í riti eða á netinu. Sú meginregla að höfundur beri ábyrgð á ummælum sínum á grundvelli almennra regla, einkum sakarreglunnar, hefur verið talin gilda um efni sem birt er á netinu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 30. mars 2006 í máli nr. 490/2005, sem birtur er í dómasafni 2006 á bls. 1575, og 29. janúar 2009 í máli nr. 321/2008. Eins og að framan er rakið var áfrýjandinn Ingi Freyr sérstaklega tilgreindur sem höfundur á greinum sem birtust á netinu á heimasíðu DV 2. desember 2009 klukkan 6.30 og 14.30, 3. sama mánaðar klukkan 9.46 og 4. sama mánaðar klukkan 12.02. Í greinargerð í héraði bar áfrýjandinn Ingi Freyr því við að enda þótt hann hafi verið titlaður höfundur þessa efnis hafi hann engu ráðið um birtingu þess eða nafngreiningu sína sem höfundar og fyrir Hæstarétti hélt þessi áfrýjandi því fram að fréttirnar hafi hvorki verið unnar af honum eins og þær birtust á netinu né hafi hann haft „nokkuð með birtingu þeirra og framsetningu að gera.“ Við mat á því hvort sannað teljist að áfrýjandinn Ingi Freyr sé höfundur þessara greina er til þess að líta að hann hefur engin gögn fært fram um að hann hafi gert athugasemdir við það á sínum tíma við ritstjóra eða útgefendur vefritsins að honum væri ítrekað eignað þar efni sem hann teldi sig ekki höfund að. Verður í ljósi þess að telja framangreindar viðbárur þessa áfrýjanda ótrúverðugar og telja sannað að hann sé höfundur þessa efnis. Kröfum stefnda um ábyrgð á því er því réttilega beint að honum.
Kemur þá til skoðunar hvort kröfum vegna ábyrgðar á efni því sem birtist á heimasíðu DV klukkan 8.19 þann 3. desember 2009, og klukkan 8.37 þann 4. sama mánaðar sé réttilega beint að áfrýjendunum Reyni og Jóni Trausta, en þeir voru á þessum tíma ritstjórar vefritsins. Að því er varðaði ábyrgð ritstjóra á efni vefrits sem birtist eingöngu á netinu var fyrir gildistöku laga nr. 38/2011 vissulega um að ræða ólögmælt tilvik sem var um margt eðlislíkt eða samkynja þeim tilvikum sem féllu undir þágildandi ábyrgðarreglu 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Að því leyti kunna að virðast skilyrði til að beita reglunni með lögjöfnun um vefmiðla. Til þess er hins vegar að líta að efnisregla 3. mgr. 15. gr. um ábyrgðargrundvöllinn var í eðli sínu hlutlæg og því undantekning frá meginreglum laga um sök sem grundvöll ábyrgðar. Þá er einnig ljóst að því er refsiábyrgð ummælanna varðar að gæta verður varúðar við að byggja refsiheimild á lögjöfnun, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga. Þegar þessa er gætt er lögjöfnun frá 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 ekki tæk. Þess verður hins vegar að gæta að á áfrýjendunum Reyni og Jóni Trausta hvíldi sem ritstjórum vefritsins eftirlitsskylda. Þeim bar að haga ritstjórninni með þeim hætti að forðast yrði að efni þess ylli öðrum miska eða raskaði friðhelgi einkalífs hans. Saknæm vanræksla þeirra á að sinna þessari eftirlitsskyldu kynni því að varða þá ábyrgð og er málinu því ekki ranglega beint að þeim vegna þessara tveggja greina.
III
Í þeim skrifum sem grein var gerð fyrir hér að framan og kröfur stefnda lúta að snerist umfjöllunin um fjárhagsmálefni stefnda, fyrst og fremst lántökur hans og skuldir, fjárfestingar hans og erfiðleika tengda þeim og loks viðleitni hans til að standa þrátt fyrir það í skilum, en í því samhengi bar tekjur hans á góma. Hafið er yfir vafa að fjárhagsmálefni af þessum toga geti talist til einkamálefna sem friðhelgi njóti samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og fallið geti undir 229. gr. almennra hegningarlaga.
Þegar metið er hvar draga skuli mörkin milli tjáningarfrelsis, sem nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr. hennar, skiptir miklu hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005, sem birtur er á bls. 2759 í dómasafni 2006, 1. mars 2007 í máli nr. 278/2006 og 10. nóvember 2011 í máli nr. 65/2011. Í lýðræðisþjóðfélagi hafa fjölmiðlar mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni. Á almenningur rétt á að fá upplýsingar sem slík málefni varða og þurfa sérstaklega ríkar ástæður að liggja til að skerðing á frelsi fjölmiðla til birtingar upplýsinga geti talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Þegar meta skal hvar þessi mörk liggja og hvað eigi erindi til almennings verður að líta til stöðu þjóðfélagsmála á hverjum tíma, hvaða málefni beri hæst í opinberri umræðu og séu almennt talin miklu varða. Það hrun sem varð í íslensku efnahagslífi við fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 hefur haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Opinber umræða og umfjöllun fjölmiðla hefur frá þeim tíma mjög snúist um að greina aðdraganda og orsakir þess hvernig fór og hefur umfjöllun um fjárhagsleg málefni einstakra manna oft verið nærgöngul. Stefndi gegndi vissulega hvorki störfum innan bankakerfisins né hafa lántökur hans eða fjárfestingar haft teljandi vægi við fall íslensks fjármálakerfis. Sú umfjöllun sem stefndi telur að gangi nær friðhelgi einkalífs síns en hann verði að þola varðar þó lántökur hans á háum fjárhæðum hjá íslensku viðskiptabönkunum eða dótturfélögum þeirra, fjárfestingu í áhættusömum verkefnum sem ekki skiluðu tilætluðum árangri og glímu hans eftir það við að endurgreiða lánin. Er þetta dæmigert ferli um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kann að hafa átt þátt í því hvernig fór. Við þessar aðstæður getur skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um þessi fjárhagsmálefni stefnda ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.
Í greinum þeim sem birtust í DV 2. desember 2009 og á heimasíðu blaðsins sama dag klukkan 9.46 var fjallað um laun stefnda frá knattspyrnufélaginu Monakó. Stefndi er þjóðþekktur sem atvinnumaður í knattspyrnu, hefur leikið með ýmsum þekktustu knattspyrnufélögum Evrópu og ekki vikist undan að vera í sviðsljósi fjölmiðla sem slíkur. Launamál þekktra atvinnuknattspyrnumanna, sem ganga kaupum og sölum milli félagsliða, eru reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum og tengjast með þeim hætti því starfi sem stefndi er þjóðþekktur fyrir, þannig að umfjöllun um þau á þann hátt sem gert var í fyrrnefndum greinum getur ekki talist brot á friðhelgi einkalífs hans.
Þá var í grein sem birtist á heimasíðu DV 3. desember 2009 klukkan 8.19 endursögð umfjöllun tveggja erlendra fjölmiðla um ætlaða spilafíkn stefnda. Þegar þess er gætt að um er að ræða endursögn af umfjöllun sem áður hafði birst opinberlega og þess að af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi sjálfur gert spilafíkn sína að umtalsefni í viðtölum við erlenda fjölmiðla verður ekki séð að með þessu hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hans. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verða áfrýjendur sýknaðir af kröfum stefnda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hver aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, eru sýknir af kröfum stefnda, Eiðs Smára Guðjohnsen.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. janúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Eiði Smára Guðjohnsen, Haðalandi 20, Reykjavík á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni, Baldursgötu 3, Reykjavík, Jóni Trausta Reynissyni, Vesturgötu 73, Reykjavík og Reyni Traustasyni, Aðaltúni 20, Mosfellsbæ, með stefnu birtri 23. desember 2009.Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði látnir sæta þyngstu refsingu sem lög leyfa fyrir brot á 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum. Þá gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu in solidum.
Dómkröfur stefnda, Inga Freys Vilhjálmssonar, eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Dómkröfur stefndu, Jóns Trausta Reynissonar og Reynis Traustasonar, eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefjast stefndu þess að krafa stefnanda um miskabætur verði lækkuð stórkostlega. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Hinn 2. desember 2009 birtist á forsíðu DV frásögn undir fyrirsögninni „Landsliðsfyrirliði reynir að standa í skilum: EIÐUR SMÁRI Í KRÖGGUM“ og voru jafnframt þrjár eftirfarandi undirfyrirsagnir á sömu forsíðu: „Skuldar 1,2 milljarða á 800 milljónir“, „Tapaði í Hong Kong, Tyrklandi og Reykjanesbæ“ og „Monaco-launin í afborganir“. Á síðu nr. 8 inni í DV fyrrgreindan mánaðardag var svo að finna frekari umfjöllun um fjárhagsmálefni stefnanda undir fyrirsögninni „Eiður Smári í kröggum“. Höfundur fréttarinnar var stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður. Umfjöllun blaðsins lýtur aðallega að fjárhagsmálefnum stefnanda, þ.m.t. meintum skuldum hans og tekjum. Tekið er fram að heimildir þessar hafi höfundurinn „innan úr bankakerfinu“, eins og það er orðað í umfjölluninni.
Sama dag kl. 6:30 birtist áþekk umfjöllun á heimasíðu DV, www.dv.is, undir fyrirsögninni „Eiður Smári skuldar meira en milljarð“ og var stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, skráður höfundur greinarinnar. Á ný þann sama dag kl. 14:30 birtist frétt um stefnanda og fjárhagsmálefni hans á fyrrgreindri vefsíðu undir fyrirsögninni „Eiður tapaði á fasteignaverkefni í Hong Kong“ og var þar um að ræða frétt eftir sama höfund.
Hinn 3. desember 2009 kl. 8:19 birtist umfjöllun á heimasíðu DV undir fyrirsögninni „Eiður sagður enn haldinn spilafíkn“. Höfundur fréttarinnar er ritstjórn DV, en ritstjórar blaðsins eru stefndu, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason. Sagði þar frá að breska slúðurblaðið The Sun hefði þann sama dag tekið upp frétt DV frá því deginum á undan, þ.e. 2. desember 2009, um skuldastöðu stefnanda. Jafnframt var tekið fram að samkvæmt The Sun hefði stefnandi eytt hluta af frítíma sínum undanfarin tvö sumur í Las Vegas og af því ályktað að stefnandi væri haldinn spilafíkn. Því næst var vikið að umfjöllun sem birtist í breska blaðinu People árið 2003 þess efnis að stefnandi væri spilafíkill. Með frétt þessari á heimasíðu DV mátti síðan finna krækju á umfjöllun The Sun.
Hinn 3. desember 2009 kl. 9:46 birtist enn önnur umfjöllun á heimasíðu DV undir fyrirsögninni „Eiður Smári með rúmar 30 milljónir á mánuði“. Höfundur fréttarinnar var stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, og varðaði umfjöllunin sem fyrr fjárhagsmálefni stefnanda.
Hinn 3. desember 2009 sendi lögmaður stefnanda erindi til útgáfufélags DV, Birtíngs útgáfufélags ehf., ritstjóranna Jóns Trausta Reynissonar og Reynis Traustasonar og Þórarins Þórarinssonar ritstjóra/fréttastjóra blaðsins. Þar mótmælti stefnandi harðlega að fjallað væri um einkamálefni hans með þeim hætti sem raun bar vitni. Taldi stefnandi að umfjöllunin varðaði persónuleg málefni stefnanda sem ekkert erindi ætti til almennings og bryti hún freklega gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Var þess krafist að umfjöllunin yrði tafarlaust dregin til baka og að tilkynning um það og afsökunarbeiðni til stefnanda vegna hennar yrði birt með jafn áberandi hætti í DV og á dv.is, og umfjöllunin um stefnanda hafði birst þar. Þá var þess krafist að allri frekari umfjöllun um persónuleg málefni stefnanda yrði þegar í stað hætt.
Hinn 4. desember 2009 kl. 8:37 birtist frétt á heimasíðu DV frá ritstjórn blaðsins undir fyrirsögninni „Eiður vill að eigandi stöðvi umfjöllun“. Taldi ritstjórn fyrrgreinda kröfu stefnanda óviðunandi þar sem umfjöllunin ætti fullt erindi við almenning. Var síðan á ný fjallað um fjárhagsmálefni stefnanda. Um erindi lögmanns stefnanda var einnig fjallað í helgarblaði DV, sem kom út 4. desember 2009.
Hinn 4. desember 2009 kl. 12:02 birtist umfjöllun á heimasíðu DV undir fyrirsögninni „Birkir veitti Eiði vini sínum lán“ og var höfundur fréttarinnar stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson. Á ný voru til umfjöllunar fjárhagsmálefni stefnanda. Þar að auki var látið í veðri vaka að stefnandi hefði fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur hjá Glitni banka hf. vegna vinskapar síns við Birki Kristinsson, starfsmanns einkabankaþjónustu Glitnis banka hf. Umfjöllun sama efnis mátti einnig finna á bls. 8 í helgarblaði DV, sem kom út hinn 4. desember 2009. Í sama blaði, undir fyrirsögninni „Skuldugur fótboltakappi“ var þess einnig getið að umfjöllun um fjárhagsmálefni stefnanda hefði borið hæst í vikunni.
Þar sem stefnandi telur að fyrrgreind umfjöllun DV, er lýtur að fjárhagsmálefnum hans, þ.e. eignum, skuldum og tekjum, brjóti gegn friðhelgi einkalífs hans og ritstjórn DV hefur hafnað því að draga umfjöllunina til baka eigi stefnandi ekki annarra kosta völ en að höfða mál þetta.
III
Um aðild stefndu vísar stefnandi til 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Höfundur beri refsi- og fébótaábyrgð á efni rits, hafi hann nafngreint sig og sé auk þess annaðhvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu, þegar mál ef höfðað. Hafi enginn slíkur höfundur nafngreint sig beri útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina.
Í máli því sem hér sé til umfjöllunar sé bæði um að ræða prentaða umfjöllun og umfjöllun sem birst hafi á veraldarvefnum. Þrátt fyrir að lög nr. 57/1956 um prentrétt fjalli ekki beint um ábyrgð vegna útgáfu á veraldarvefnum telur stefnandi að sömu meginreglur skuli eftir sem áður gilda varðandi ábyrgð aðila á birtu efni þar eins og í prentuðum miðlum. Með lögjöfnun og vísan til meginreglna um ábyrgð á birtu efni, telur stefnandi að sömu sjónarmið varðandi aðild og ábyrgð skuli gilda hvort sem umfjöllun birtist í riti eða á veraldarvefnum.
Höfundar þeirrar umfjöllunar sem mál þetta varði séu ýmist sagðir Ingi Freyr Vilhjálmsson eða ritstjórn DV en ritstjórn blaðsins skipa þeir Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason. Sömu aðilar séu einnig ritstjórar heimasíðu DV, www.dv.is. Í þeim tilvikum þar sem enginn höfundur nafngreini sig sérstaklega, heldur sé ritstjórn titluð höfundur hlutaðeigandi umfjöllunar, telur stefnandi rétt að ritstjórum blaðsins og vefmiðilsins sé stefnt, sbr. m.a. ákvæði fyrrgreindrar 15. gr. laga nr. 57/1996.
Stefnandi byggir á því að fyrrgreind umfjöllun stefndu um fjárhagsmálefni stefnanda feli í sér brot á rétti stefnanda til að njóta friðhelgi einkalífs. Friðhelgi einkalífs njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, ásamt síðari breytingum, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá sé einnig kveðið á um þessi réttindi í 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966.
Friðhelgi einkalífs setji tjáningarfrelsinu ákveðnar skorður, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þau markmið sem réttlætt geti skorður við tjáningarfrelsinu séu: allsherjarregla eða öryggi ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra. Sem dæmi um skorður, sem beinist að því að vernda réttindi annarra, sé ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, en þar sé mælt fyrir um að hver sem skýri opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
Á dómstólum hvíli að leita ákveðins jafnvægis á milli tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar. Hafi dómstólar þannig staðfest rýmri tjáningarfrelsi á vettvangi stjórnmálaumræðu og umræðu um almannaheill og ekki megi grafa undan þeim frjálsu skoðanaskiptum og skiptum á upplýsingum sem séu lýðræðinu nauðsyn. Þá hafi dómstólar einnig staðfest það hlutverk fjölmiðla að veita upplýsingar um málefni sem snerti almenning.
Umfjöllun stefndu hafi á engan hátt tengst fyrrgreindum skoðanaskiptum eða miðlun upplýsinga um málefni er snerti almenning. Umfjöllun stefndu hafi þvert á móti varðað upplýsingar sem snerti ekki á nokkurn hátt almenning, heldur hafi verið um að ræða upplýsingar um einkahagi og einkalíf stefnanda. Tilgangur umfjöllunarinnar sýnist hafa verið sá einn að þjóna hugsanlegum áhuga almennings á einkamálefnum stefnanda og framsetning umfjöllunarinnar hafi auðsýnilega verið til að auka sölu blaðsins. Þannig umfjöllun geti aldrei vikið til hliðar mikilvægum rétti stefnanda til friðhelgi einkalífs.
Ljóst sé að fjárhagsmálefni fólks teljist almennt til viðkvæmra persónulegra einkamálefna hlutaðeigandi einstaklinga og opinber umfjöllun í fjölmiðlum um slík málefni feli í sér skýlaust brot gegn stjórnarskrárvörðum rétti til friðhelgi einkalífs. Þegar ekki njóti við samþykkis hlutaðeigandi einstaklinga séu ekki til staðar nægar ástæður sem réttlæti slíka umfjöllun enda krefjist almannahagsmunir þess ekki að opinberar frásagnir eða umræður séu um slík málefni.
Þrátt fyrir að stefnandi sé þjóðþekktur einstaklingur og hann hafi veitt viðtöl vegna starfs síns, hafi sú staða stefnanda ekki sjálfkrafa í för með sér að fjölmiðlum sé heimilt að fjalla, án samþykkis og vitundar hans, um einkamálefni hans. Fjárhagsmálefni stefnanda hafi ekkert með opinbera persónu hans að gera og fráleitt sé að ætla að málefni þessi snerti á einhvern hátt almenning. Raunar megi fullyrða að í máli þessu séu ekki í húfi neinir slíkir hagsmunir, sem réttlætt geti, með skírskotun til tjáningarfrelsis, að gengið sé svo harkalega gegn friðhelgi einkalífs.
Stefnandi fullyrðir að frásögn DV um fjárhagsmálefni stefnanda sé röng. Sannleiksgildi umfjöllunarinnar skipti hins vegar engu fyrir sakarefni máls þessa eins og kröfugerð stefnanda sé háttað enda telur stefnandi að burtséð frá því hvort umfjöllun stefndu hafi verið rétt eða röng hafi þar verið greint opinberlega frá einkahögum sem leynt eigi að fara, og með því brotið gegn ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga.
Kröfu sína um að stefndu verði látnir sæta þyngstu refsingu sem lög leyfa fyrir brot á 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, styður stefnandi eftirgreindum málsástæðum:
Stefnandi telur að fyrrgreind umfjöllun í DV um fjárhagsmálefni stefnanda sé frásögn af einkamálefnum hans sem falli undir verndarákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, ásamt síðari breytingum, um friðhelgi einkalífs, sbr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 121. gr. laga nr. 82/1998 um breytingu á almennum hegningarlögum.
Ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga veiti vernd gegn því að fjallað sé um einkamálefni manna sem leynt eigi að fara, hvort sem frásögnin sé sönn eða ósönn og gildi því ekki meginreglan um exceptio veritatis líkt og þegar um ærumeiðingar sé að ræða. Í öllum tilvikum sé slík umfjöllun brot gegn 229. gr. almennra hegningarlaga þegar ekki njóti við samþykkis til að greina opinberlega frá slíkum einkamálefnum fólks eða annarra réttlætingarástæðna sem jafna megi til samþykkis.
Stefndu hafi ekki upplýst hvar þeir hafi aflað heimilda um fjárhagsmálefni stefnanda. Raunar telur stefnandi við blasa að upplýsinganna hafi verið aflað með ólögmætum hætti og sé sá grunur stefnanda staðfestur með þeirri tilvísun stefnda, Inga Freys Vilhjálmssonar, að heimildir hafi stefndu „innan úr bankakerfinu“. Hvað sem því líði megi ljóst vera að stefndu hafi vitað eða mátt vita að upplýsingarnar væru þess eðlis að leynt ætti að fara, þar sem um upplýsingar af þessu tagi gildi trúnaður, sbr. t.d. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Krafa um refsingu á hendur stefnda Inga Frey Vilhjálmssyni:
Með vísan til fyrrgreinds telur stefnandi nánar tiltekið að brot Inga Freys Vilhjálmssonar hafi falist í eftirfarandi umfjöllun:
I. Hinn 2. desember 2009, á bls. 8 í DV, undir fyrirsögninni „Eiður Smári í kröggum“.
II. Hinn 2. desember 2009 kl. 6:30, á heimsíðu DV, undir fyrirsögninni „Eiður Smári skuldar meira en milljarð.“
III. Hinn 2. desember 2009 kl. 14:30, á heimasíðu DV, undir fyrirsögninni „Eiður tapaði á fasteignaverkefni í Hong Kong“.
IV. Hinn 3. desember 2009 kl. 9:46, á heimasíðu DV, undir fyrirsögninni „Eiður Smári með rúmar 30 milljónir á mánuði“.
V. Hinn 4. desember 2009, á bls. 8 í DV, undir fyrirsögninni „Birkir veitti Eiði vini sínum lánin“. Áþekk umfjöllun sama aðila var einnig birt þann 4. desember 2009 kl. 12:02 á heimasíðu DV undir fyrirsögninni „Birkir veitti Eiði vini sínum lán“.
Krafa um refsingu á hendur stefndu Jóni Trausta Reynissyni og Reyni Traustasyni:
Með vísan til fyrrgreinds telur stefnandi nánar tiltekið að brot Jóns Trausta Reynissonar og Reynis Traustasonar, sem ritstjóra, hafi falist í eftirfarandi umfjöllun:
I. Hinn 2. desember 2009 á forsíðu DV, undir fyrirsögninni „Landsliðsfyrirliði reynir að standa í skilum: EIÐUR SMÁRI Í KRÖGGUM“ og voru jafnframt þrjár eftirfarandi undirfyrirsagnir á sömu forsíðu: „Skuldar 1,2 milljarða á 800 milljónir“, „Tapaði í Hong Kong, Tyrklandi og Reykjanesbæ“ og „Monaco-launin í afborganir.“
II. Hinn 3. desember 2009 kl. 8:19, á heimasíðu DV, undir fyrirsögninni „Eiður sagður enn haldinn spilafíkn“.
III. Hinn 4. desember 2009 kl. 8:37, á heimasíðu DV, undir fyrirsögninni „Eiður vill að eigandi stöðvi umfjöllun“. Sama umfjöllun var einnig birt á bls. 8 í DV þann 4. desember 2009.
IV. Hinn 4. desember 2009 í DV undir fyrirsögninni „Skuldugur fótboltakappi“.
Um refsiskilyrði vísar stefnandi til 18. gr. almennra hegningarlaga og um heimild til höfðunar einkarefsimáls til 3. tl. 1. mgr. 242. gr. laganna. Þá vísar stefnandi einnig til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, svo og til 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, einkum 7. og 5. gr. laganna.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði látnir sæta ábyrgð fyrir þann hluta umfjöllunar sem fallist verði á að brjóti með ólögmætum hætti gegn stefnanda.
Kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð 5.000.000 króna byggir stefnandi á því að stefndu beri in solidum miskabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem hin opinbera umfjöllun feli í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda og stefndu hafi allir átt sinn þátt í heildstæðri og áframhaldandi ólögmætri umfjöllun um einkamálefni stefnanda.
Við ákvörðun miskabóta telur stefnandi að líta beri til þess að atlaga stefndu að einkalífsrétti stefnanda hafi verið umfangsmikil og haft víðtæk áhrif. Ásetningur stefndu um að brjóta gegn rétti stefnanda til einkalífs hafi verið einbeittur og hafi stefndu í engu skeytt um kröfur stefnanda um að láta af brotum sínum. Þá sé útbreiðsla DV talsverð, hvort heldur litið sé til hins prentaða blaðs eða heimasíðu þess, auk þess sem umfjöllun DV hafi verið endurflutt í erlendum fjölmiðlum, stefnanda og fjölskyldu hans til enn frekari miska.
Enn fremur telur stefnandi að hafa verði í huga við ákvörðun miskabóta, að slíkar bætur eigi að fela í sér varnaðaráhrif gegn frekari ásetningsbrotum af hálfu stefndu. Í ljósi allra atvika málsins sé miskabótakrafa stefnanda raunar varfærið mat á miska stefnanda.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga um upphafsdag vaxta og ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna um fjárhæð þeirra.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, byggir á því, að refsi- og fébótaábyrgð stefnda verði ekki byggð á ákvæðum laga um prentrétt.
Í 1. gr. prentlaga sé skilgreint hvað teljist vera rit samkvæmt lögunum en í 2. gr. segi að prentlögin gildi einungis um rit sem gefin hafa verið út. Í 9. gr. prentlaga sé síðan skilgreining á blöðum og tímaritum. Ábyrgðarreglur 15. gr. prentlaga séu sérreglur sem gildi um ábyrgð á efni sem birt sé í blöðum og tímaritum. Ábyrgðarreglur 15. gr. prentlaga gildi því ekki um efni sem birt sé á vefsvæðum, þar sem vefsvæðið www.dv.is sé hvorki blað né tímarit samkvæmt 9. gr. prentlaga. Þá sé vefsvæðið www.dv.is ekki rit í skilningi 1. gr. prentlaga. Því gildi prentlögin ekki um efni sem birt sé á vefsvæðinu, sbr. 2. gr. prentlaga. Refsi- og fébótaábyrgð stefndu verði því ekki byggð á ákvæðum prentlaga, eins og reyndar sé viðurkennt í stefnu.
Stefndi mótmælir því að unnt sé að beita lögjöfnun frá 15. gr. laga um prentrétt, svo fella megi refsi- og fébótaábyrgð á stefnda. Samkvæmt 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé fullkomin lögjöfnun áskilin til þess að hægt sé að fella refsiábyrgð á borgarana. Það sé enn fremur almennt viðurkennt sjónarmið við lögskýringu að sett lagaákvæði sem á einhvern hátt séu íþyngjandi skuli túlka þröngt eða samkvæmt orðanna hljóðan en rýmkandi lögskýring komi ekki til greina. Þetta sjónarmið vegi þyngra eftir því sem viðkomandi ákvæði sé meira íþyngjandi. Ákvæði 15. gr. laga um prentrétt séu verulega íþyngjandi ákvæði sem taki bæði til refsi- og fébótaábyrgðar og tæmi þar með þau hugsanlegu álitaefni sem geti verið uppi í þessu máli. Af framangreindum meginreglum og lögskýringarsjónarmiðum leiði að líta verði svo á að ákvæði 15. gr. laga um prentrétt taki einungis til þeirra miðla sem þar sé berum orðum minnst á, þ.e. blaða og tímarita, en óheimilt sé að skýra orðalag sömu ákvæða svo að það geti tekið til birtingar efnis á Netinu.
Einnig byggir stefndi á því að ábyrgðarreglur 15. laga um prentrétt geti ekki gilt um ábyrgð á birtu efni á vefsvæðum vegna séreðlis Netsins og þeirra tæknimöguleika sem það hafi upp á að bjóða, s.s. varðandi birtingu efnis, eyðingu þess o.s.frv. Hér sé því um eðlisólíka hluti að ræða. Af því leiði að lögjöfnun sé ekki tæk við þessar aðstæður. Það eigi sérstaklega við þegar fella eigi refsi- og fébótaábyrgð á stefnda með því að beita íþyngjandi lagareglu, í þessu tilviki 15. gr. laga um prentrétt, um athafnir hans sem njóti verndar stjórnarskrár, en tjáningarfrelsi stefnda sé verndað af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðar breytingum og atvinnufrelsi hans sem blaðamanns njóti verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar. Af framangreindum ástæðum ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sem lúti að fébóta- og refsiábyrgð stefnda á efni, þar sem hann hafi verið titlaður höfundur og birt hafi verið á www.dv.is, enda hafi hann engu ráðið um birtingu þess efnis eða nafngreiningu hans sem höfundar.
Stefnandi hafi í árabil verið atvinnumaður í knattspyrnu og leikið með mörgum af stærstu félagsliðum Evrópu. Þá hafi stefnandi verið fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og eigi fast sæti í landsliðinu. Stefnandi hafi gert fjölmarga stóra samninga á ferli sínum sem atvinnumaður, meðal annars við Chelsea, Barcelona, Monaco og nú síðast Tottenham, sem hafa skilað honum miklum tekjum. Um þessa samninga og verðmæti þeirra hafi verið ítarlega fjallað í íslenskum fjölmiðlum sem og erlendum enda venjubundið að fjalla um launakjör atvinnumanna í knattspyrnu með þeim hætti. Einnig hafi verið fjallað um auglýsingasamninga stefnanda við innlenda og erlenda aðila, s.s. við Eimskip og íþróttavöruframleiðandann Adidas, en í fyrra tilfellinu hafi verið talað um að tvö óskabörn þjóðarinnar væru að sameinast í útrás sinni.
Athafnir stefnanda utan knattspyrnuvallarins hafi einnig verið til umfjöllunar í innlendum og erlendum fjölmiðlum, en hér megi sem dæmi nefna fréttir af fjárhættuspilum, skemmtanalífi, umferðarlagabrotum, ágreiningi stefnanda við aðra og meintri kvensemi hans. Stefnandi hafi látið þann fréttaflutning óátalinn og hefur háttsemi hans ekki borið þess merki að hann kjósi að forðast umfjöllun fjölmiðla. Þá hafi stefnandi boðið fjölmiðlum og um leið landsmönnum öllum inn á heimili sitt þar sem það hafi verið kvikmyndað í bak og fyrir og tekin viðtöl við fjölskyldu stefnanda, bæði eiginkonu og börn. Stefnandi sé því opinber persóna ekki aðeins hvað knattspyrnuiðkun hans varði, heldur hafi hann verið áberandi á öðrum sviðum þar með talið á sviði viðskipta- og fjárfestingastarfsemi. Fréttir af athöfnum hans í viðskiptalífinu eigi því fullt erindi til almennings ekki síst í því þjóðfélagsástandi sem ríki í íslensku samfélagi í dag í kjölfar efnahagshruns landsins.
Fjárhagsmálefni stefnanda hafi ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum án athugasemda af hans hálfu þegar viðfangsefnin hafi verið velmegun hans og auðæfi eða jafnvel umfjöllun um einkamálefni hans, s.s. viðtöl við eiginkonu hans og börn og innlit fjölmiðla á heimili þeirra. Fréttaflutningur stefnda, sem birti aðrar hliðar á viðskiptaumsvifum stefnanda, virðist að mati stefnanda eiga að lúta öðrum lögmálum. Á það fallist stefndi ekki. Rétt eins og stefnandi hafi notið fréttaflutnings af velgengni sinni, auði og velmegun, þurfi hann líka að sætta sig við opinbera umfjöllun þegar halli undan fæti og fréttaefnið sé skuldir stefnanda. Hér eigi það sama við um stefnanda og aðrar persónur og leikendur í íslenska efnahagsundrinu, útrásinni. Með sama hætti og fjölmiðlar hafi fjallað um velgengni íslensku auðmannanna í góðærinu þurfi þeir nú að sætta sig við að fjallað sé um hnignun þeirra og tap eftir efnahagshrunið.
Stefnandi sé opinber persóna, ekki bara sem knattspyrnumaður heldur líka á öðrum sviðum samfélagsins. Það sé almennt viðurkennt að opinberar persónur þurfi að búa við ítarlegri og nærgöngulli umfjöllun um einkamálefni sín en aðrir. Opinberar persónur hafi sjálfar skapað sér ákveðna ímynd sem kalli á og nærist á athygli almennings og líka vegna þess að tilteknar aðstæður í þjóðfélaginu mæli með því. Umfjöllun stefnda um stefnanda réttlætist af hvoru tveggja. Þannig hafi verið talið að einstaklingi sem teljist vera opinber persóna megi vera ljóst að orð hans og athafnir sæti grandskoðun fjölmiðla og almennings. Þessi opinbera persóna þurfi að sýna meira þolgæði gagnvart umfjöllun fjölmiðla um tiltekin málefni en óþekktur einstaklingur sem lendi í sömu aðstæðum. Jafnvel þótt umfjöllunin sé gagnrýnin.
Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu Chauvy and Others v. France, hafi verið talið að 2. mgr. 10. gr. ætti ekki aðeins við um upplýsingar, frásagnir eða hugmyndir sem taldar væru við hæfi eða vingjarnlegar heldur enn fremur þær sem kunni að hneyksla eða ganga fram af hópum innan samfélagsins. Talið hafi verið að framangreint væri í takt við fjölhyggju, umburðarlyndi og víðsýni en án þessara þátta væri ómögulegt að tala um lýðræðislegt samfélag. Tjáningarfrelsi 10. gr. væri hins vegar ekki án takmarkana, en þær takmarkanir skyldu túlkaðar þröngt, og þörfin fyrir einhvers konar tálmanir þyrftu að vera hafnar yfir allan vafa og rökin fyrir þeim mjög sannfærandi. Það eitt að umfjöllun stefnda um stefnanda hafi ekki verið stefnanda að skapi sé því ekki fullnægjandi stoð fyrir kröfugerð hans.
Hér beri einnig að hafa í huga að rýmkað tjáningarfrelsið taki til umræðu um viðskiptalífið. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu Markt Intern Verlag Gmbh and Klaus Bermann v. Germany sé byggt á því að upplýsingar viðskiptalegs eðlis falli innan réttarverndar 10. gr. Mannréttindasáttmálans. Segi meðal annars í dómnum að í markaðssamfélagi verði blaðamönnum að vera heimilt að varpa ljósi á staðreyndir sem kunni að varða hagsmuni lesenda og með því stuðla að gegnsæi í háttsemi manna í viðskiptalífinu.
Ítrekaðar frásagnir sé að finna í íslenskum fjölmiðlum af einkamálefnum stefnanda, bæði af fjárfestingum sem og um tekjur hans og eignir í krónum talið, án þess að stefnandi hafi gert við það athugasemdir. Sökum þeirra aðstæðna sem nú ríki á fjármálamarkaði sem og vegna nauðsynlegrar og réttmætrar gagnrýni á starfsemi íslenskra banka og fjárfesta fyrir efnahagshrun landsins, eigi umfjöllun stefnda um afmörkuð fjármál stefnanda hvað varði lántökur og vanskil hans, fullt erindi við almenning og sé beinlínis hluti af þeim upplýsingum sem almenningur eigi rétt á að fá vitneskju um.
Jarðvegurinn sem umfjöllunin um stefnanda sé sprottin úr sé meðal annars reiði almennings yfir því hvernig bankarnir hafi farið að við lánveitingar sínar. Annars vegar hafi það verið lánin sem auðmenn eins og stefnandi og viðskiptafélagar hans hafi fengið og ekki hafi verið tryggð nema í því sem fjárfest hafi verið í, s.s. hlutabréfum eða yfirveðsettum eignum sem litlu máli skipti fyrir lántakandann hvað um yrði enda hafi hans áhætta verið lítil sem engin. Hins vegar hafi það svo verið lánin sem hinn almenni lántakandi hafi fengið með veði í íbúðarhúsi sínu, fyrirtæki eða bújörð, sem lántakandinn geti ekki án verið, en bankinn gangi að og leysi til sín ef ekki sé greitt og lántakandinn og fjölskylda hans standa uppi eignalaus og jafnvel atvinnulaus. Engin ástæða sé til að verja slíka hagsmuni sérstaklega, eins og stefnandi krefjist að gert sé. Þeir hagsmunir almennings að fá að vita hvað gerðist séu miklu meiri.
Fyrirgreiðslur til einstakra manna í þjóðfélaginu í ljósi stöðu þeirra sé eitt af því sem hafi sætt gagnrýni í starfsemi og skipulagi bankanna og sé eðlilegt að slíkum upplýsingum sé miðlað til almennings. Fréttaflutningur af fjárhagsmálefnum stefnanda hafi verið samofinn opinberri umræðu um aðra fjárfesta hér á landi og háttsemi forsvarsmanna fyrirtækja. Það sé augljóst að umfjöllun um fjárhag stefnanda beri að skoða í samhengi við þær aðstæður sem nú séu uppi í íslensku samfélagi. Umfjöllunin hafi varðað lán sem veitt hafi verið án fullnægjandi trygginga af tveimur viðskiptabönkum, Kaupþingi og Glitni, sem yfirteknir hafi verið af íslenska ríkinu í bankahruninu haustið 2008. Hver sem er hafi ekki haft aðgang að slíkum lánveitingum og hafi stefnandi notið þar forréttinda vegna stöðu sinnar í samfélaginu og vegna vinatengsla við háttsetta menn í Glitni og Kaupþingi, sem báðir hafi leikið með honum knattspyrnu á árum áður.
Bæði þessi lán stefnanda hafi að miklu leyti verið ógreidd sumarið 2009 og séu það líklega enn og hafi fréttir stefnda meðal annars snúist um það hvort og þá hvernig stefnandi ætlaði sér að greiða þau upp. Lánveitingarnar til stefnanda hafi meðal annars verið notaðar til að taka þátt í fasteignaverkefni Askar Capital í Hong Kong en stefnandi hafi fjárfest í því í gegnum einkabankaþjónustu Kaupþings í Lúxemborg. Askar hafi verið yfirtekinn af skilanefnd Glitnis í fyrra og bankinn hafi skilið eftir sig skuldir upp á milljarða. Stefnandi hafi tapað á verkefninu sem og aðrir hluthafar og Askar. Fréttirnar af fjárfestingum og lántökum stefnanda snúist því um að segja frá þeirri tilhneigingu margra íslenskra fjárfesta á árunum fyrir bankahrun að skuldsetja sig gríðarlega til að taka þátt í áhættusömum fjárfestingum erlendis. Stefnandi hafi verið þátttakandi í þessari útrás og það sé eðlilegt og nauðsynlegt að segja frá því, líkt og gert sé í tilfelli annarra íslenskra fjárfesta. Þessar fjárfestingar hafi átt þátt í því að knésetja íslenska bankakerfið. Enn liggi ekki fyrir hvort stefnandi muni nokkurn tímann geta greitt skuldir sínar við framangreindar bankastofnanir. Reikningurinn vegna ógætilegra fjárfestinga og íburðarmikils lífsstíls stefnanda undanfarin ár kunni því á endanum að lenda á íslenskum almenningi að minnsta kosti að hluta. Það sé frétt sem varði þjóðina miklu enda hennar fjármunir.
Fréttaflutningur af fjárhagsstöðu annarra einstaklinga sem hafi fengist við fjármálaviðskipti sé fyrirferðarmikill í íslensku samfélagi um þessar mundir. Íslenskir skattborgarar hafi þurft að leggja þessum fjármálafyrirtækjum til fé eftir fall þeirra til að lágmarka tjón þjóðarinnar. Um þessar mundir sé óvíst hversu mikinn fjárhagslegan skaða íslenska þjóðin muni verða fyrir vegna þess en það sé eðlilegt að almenningur vilji vita hvernig þessum fjármálafyrirtækjum hafi verið stjórnað og hverjir það hafi verið sem hafi notið fyrirgreiðslu frá þeim til að fjármagna fjárfestingar sem síðar hafi mistekist. Það sé meðal annars hlutverk fjölmiðla að reyna að svara þessum spurningum almennings og veita fólki svör við því hvers konar háttsemi hafi tíðkast innan íslenska bankakerfisins og hafi átt þátt í að leiða til hruns þess. Stefnandi eigi ekki að njóta sérstakrar undanþágu frá þeirri umræðu sökum þess að hann sé þjóðþekktur íþróttamaður og fyrirmynd fjölda æskufólks. Frekar beri að gera meiri kröfur til stefnanda vegna þess.
Af framansögðu leiði að fréttaflutningur stefnda hafi átt réttmætt erindi til þjóðarinnar og með honum hafi ekki verið vegið að friðhelgi einkalífs stefnanda. Hið gagnstæða sé ótæk niðurstaða og myndi leiða til takmörkunar á tjáningarfrelsi og fjölmiðlum hér á landi yrði sniðinn þröngur stakkur. Hagsmunir almennings af upplýstri umræðu varðandi starfsemi bankanna og háttsemi einstakra fjárfesta hér á landi vegi einfaldlega þyngra en hagsmunir þessara sömu einstaklinga af því að halda upplýsingunum leyndum með vísan til friðhelgi einkalífs þeirra. Hér beri líka að hafa sérstaklega í huga að stefnandi hafi sjálfur gert einkalíf sitt að opinberu umfjöllunarefni.
Stefndi byggir og á því að kröfugerð stefnanda sé haldin slíkum annmörkum að refsikrafan sé ekki dómtæk. Stefnandi krefjist þyngstu refsingar yfir stefnda og meðstefndu án þess að tilgreina í hverju hin refsiverða háttsemi stefnda eigi að hafa verið fólgin. Þá geri stefnandi í kröfugerð sinni enga tilraun til þess að greina á milli meintrar refsiverðar háttsemi stefnda og meðstefndu þrátt fyrir að auðvelt sé að aðgreina meinta refsiverða háttsemi hvers og eins. Af refsikröfu stefnanda verði ekki með nokkru móti ráðið í hverju hin meinta refsiverða háttsemi stefnda eigi að vera fólgin. Nærtækast sé að túlka refsikröfu stefnanda með þeim hætti að allur texti sem sé undir ofangreindum fyrirsögnum feli í sér refsiverða háttsemi. Frá því megi gagnálykta með þeim hætti að stefnandi telji texta sem sé fyrir ofan fyrirsagnirnar ekki varða við 229. gr. almennra hegningarlaga. Við skoðun á dómskjölum nr. 3 og 10 og því sem standi undir ofangreindum fyrirsögnum sé þó erfitt að sjá hvernig öll þau ummæli sem þar er að finna geti falið í sér refsiverða háttsemi af hálfu stefnda.
Þegar einkarefsimál sé höfðað eins og stefnandi hafi kosið að gera í þessu tilviki sé í engu vikið frá þeirri kröfu að greina með skýrum hætti frá því í hverju hin meinta refsiverða háttsemi eigi að vera fólgin þannig að stefnda sé ljóst hvaða háttsemi hans stefnandi telji refsiverða. Í því tilviki sem hér um ræði hefði því stefnandi þurft að tilgreina nákvæmlega þau ummæli/texta sem hann teldi fara í bága við 229. gr. almennra hegningarlaga. Almenn skírskotun til alls texta undir tiltekinni fyrirsögn sé ekki nægileg lýsing á hinni meintu refsiverðu háttsemi. Kröfugerð stefnanda uppfylli því ekki skilyrði d- og e- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um skýra og ljós kröfugerð.
Stefndi leggur áhersla á að hann verði ekki dæmdur til refsingar á grundvelli 229. gr. almennra hegningarlaga séu nægar ástæður fyrir hendi sem réttlæti verknaðinn. Umfjöllun stefnda um stefnanda hafi átt fullt erindi til almennings. Umfjöllunin hafi verið faglega unnin og byggð á traustum upplýsingum meðal annars um lánveitingar íslenskra fjármálafyrirtækja til stefnanda. Enn fremur sé það staðreynd að þau atriði sem fjallað hafi verið um séu sönn enda hafi stefnandi ekki fært rök fyrir hinu gagnstæða og höfði mál þetta ekki á þeim forsendum að umfjöllunin hafi verið röng.
Á vettvangi fjölmiðla hafi ítrekað verið rætt um fjárhagsmálefni stefnanda meðal annars um launagreiðslur og fasteignaviðskipti. Aðeins nú, þegar umfjöllun um hið sama sé að mati stefnanda óþægileg, telji hann hana ólögmæta og refsiverða. Af þessu leiði að nægar ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti fréttaflutning stefnda, sé á annað borð talið að upplýsingar um fjárhagsmálefni stefnanda teljist einvörðungu einkamál hans. Af því leiði að ef stefndi yrði dæmdur til refsingar á grundvelli ofangreinds lagaákvæðis þá fæli slík niðurstaða í sér brot á stjórnarskrárvernduðu tjáningarfrelsi stefnda. Ekki sé refsivert að segja sannleikann um mál sem varði miklu fyrir þjóðarhag, meðal annars um lánveitingar án fullnægjandi trygginga sem kunni að falla á íslenska skattborgara. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af refsikröfu á grundvelli 229. gr. almennra hegningarlaga.
Stefndi telur að miskabótakrafa stefnanda sé ekki rökstudd með tilhlýðilegum hætti og ekki efni til að dæma stefnda til greiðslu miskabóta á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Ekki sé sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna umfjöllunar stefnda, hvenær tjónið hafi orðið eða hvernig. Stefnandi hafi ekki lagt fram viðhlítandi sönnun fyrir fjárhæð kröfunnar og hvernig upphæð hennar sé reiknuð út eða tilkomin. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á tjón, hvað þá rökstutt fjárhæð kröfunnar með framlögðum gögnum eða samhangandi rökstuðningi í málatilbúnaði. Þar sem miskabótakröfu sé ekki gerð fullnægjandi skil og stefnandi hafi ekki tekist sönnun um tilvist og umfang tjónsins sé krafan haldin verlegum annmörkum, sem leiði til þess að hún sé ekki dómhæf.
Þá byggir stefndi á því að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi ekki verið uppfyllt í skrifum hans. Beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í málinu. Það sé skilyrði samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga fyrir greiðslu miskabóta að tjónvaldur hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð. Sú krafa sé samofin saknæmisskilyrðinu. Miskabætur verði því ekki dæmdar nema að um hafi verið að ræða ásetning eða stórkostlegt gáleysi þegar viðeigandi skrif eða ummæli voru viðhöfð. Þau skilyrði séu síst uppfyllt í tilviki stefnda, enda hafi skrif hans verið sett fram í góðri trú og stuðst ýmist við traustar heimildir eða falið í sér saklaust mat hans á kringumstæðum, sem hafi verið vel innan marka tjáningarfrelsis hans.
Háttsemi þurfi að vera af tilteknum grófleika til að teljast ólögmæt meingerð. Í norrænum rétti sé talið að niðurlæging sé helsta einkenni ólögmætrar meingerðar í skilningi skaðabótalaga. Þannig sé það niðurlægingin sem sé grunnurinn undir miskabótakröfu. Ekki verði séð að ummæli stefnda geti með nokkru móti talist óviðurkvæmileg eða niðurlægjandi fyrir stefnanda. Þvert á móti hafi stefnanda verið leyft að njóta vafans og undirstrikað að samkvæmt heimildum þætti honum miður að skulda svo mikið og að hann hefði fullan hug á að greiða skuldir sínar við Kaupþing í Lúx og Íslandsbanka eins fljótt og hann gæti. Geti því ekki hafa verið um að ræða ólögmæta meingerð. Hér verði og að hafa í huga að stefnandi, líkt og aðrir áberandi menn úr viðskiptalífinu, stjórnmálum, íþróttum o.s.frv., verði að þola gagnrýnni umfjöllun en almennir borgarar.
Stefndi mótmælir sérstaklega fjárhæð miskabótakröfu stefnanda. Engum gögnum sé til að dreifa til stuðnings kröfunni. Fjárhæð kröfunnar eigi því ekki við rök að styðjast og beri þar af leiðandi að hafna henni. Beri því að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.
Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Tilvísun stefnanda til 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga sé sérstök í ljósi þess að fjárkröfur stefnanda séu skaðabótakröfur og miðist því upphafstími dráttarvaxta við það sem greini í 9. gr. vaxtalaga. Fjárkröfur stefnanda geti því fyrst borið dráttarvexti frá 23. janúar 2010, sbr. 9. gr. vaxtalaga. Stefndi gerir þá kröfu að dráttarvaxtakröfum stefnanda verði vísað frá dómi vegna vanreifunar. Til vara krefst hann sýknu. Til þrautavara er þess krafist að upphafstími dráttarvaxta miðist við dómsuppsögu.
Um lagarök vísar stefndi til 73. og 75. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi vísar enn fremur til þeirrar dómvenju sem hafi skapast um rýmkað tjáningarfrelsi sem gildi um opinberar persónur og athafnir í viðskiptalífinu. Jafnframt vísar stefndi til laga nr. 57/1956 um prentrétt, einkum 1. 2. 9. og 15. gr. laganna og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefnanda.
V
Stefndu, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, byggja kröfur sínar á því, að löggjafinn og dómstólar hafi játað fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Rétturinn til tjáningar og miðlunar upplýsinga sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944 og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1994. Segi þar að réttur til tjáningarfrelsis skuli einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Með afskiptum stjórnvalda sé einnig átt við hlutverk dómstóla. Réttur þessi sé, samkvæmt dómafordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu, sérlega ríkur af hálfu fjölmiðla, enda sé hlutverk þeirra, að taka við og miðla upplýsingum, afar mikilvægt í lýðræðissamfélagi.
Réttur þessi takmarkist með þeim undantekningum sem gerðar séu í 2. mgr. 10. gr. sáttmálans. Ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu áskilji að þessar undanþágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi beri að túlka afar þröngt. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi beri að sýna fram á með sannfærandi hætti. Þannig megi, samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna, einungis takmarka tjáningarfrelsi ef nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi. Orðið „nauðsyn“ í þessu sambandi sé túlkað af Mannréttindadómstólnum sem „knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn“. Hvort slík nauðsyn sé fyrir hendi sé dómstólum í landsrétti látið eftir að meta og beri þeim að líta til þess hvernig Mannréttindadómstóllinn hefur túlkað sáttmálann.
Líkt og áður greini hafi Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað látið í ljós þá túlkun sína að sérstaklega beri að gjalda varhug við því að takmarka rétt fjölmiðla til að taka á móti og miðla upplýsingum. Fjölmiðlar eigi að geta haft svigrúm til þess, einkum í tilvikum sem þessum þar sem umfjöllun varði efni sem eigi erindi við almenning og ekki séu andmæli þess efnis á hvaða hátt viðkomandi umfjöllun sé í samræmi við sannleikann. Blaðamenn eigi rétt á að sinna hlutverki sínu án þess að vera sjálfum stefnt fyrir réttarbrot vegna miðlunar slíkra upplýsinga, sem teljist grundvallarhlutverk þeirra. Í þessu máli telja stefndu að umfjöllun dagblaðsins DV hafi rúmast langt innan heimilda, þar sem fjallað hafi verið um opinbera og mjög áberandi persónu, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan, og mál sem erindi eigi til almennings. Engin knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn sé að mati stefndu fyrir hendi sem réttlætt geti inngrip í tjáningarfrelsið í þessu máli með þeim hætti að refsa ritstjórum dagblaðs fyrir umfjöllum um fjárfestingaverkefni heimsþekktrar persónu. Stefndu telja að þvert á móti hafi verið nauðsynlegt og í raun skylt að miðla þeim upplýsingum sem hafi borist blaðinu, enda hafi almenningur átt rétt á þessum upplýsingum.
Stefndu telja ákvæði 15. gr. prentlaga einungis gilda um ábyrgð efnis sem birt sé í dagblöðum og tímaritum. Dagblöð og tímarit séu skilgreind í 9. gr. laganna sem rit, sem eigi að koma út með sama heiti ekki sjaldnar en tvisvar á ári, svo og fregnmiðar þeirra og fylgirit. Um efni sem birt sé á vefsíðu geti því ekki átt við ábyrgð samkvæmt 15. gr. prentlaga, nema vefsíður megi skilgreina sem dagblöð eða tímarit, sem koma eigi út með sama heiti, eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Benda megi á að viðurkennt sé að vísa til slíkra vefsíðna sem vefrita eða vefmiðla en aldrei sem dagblaða. Því séu óskýrar þær röksemdir stefnanda að reisa eigi ábyrgð í tilviki vefsíðna á grundvelli 15. gr. prentlaga, sem einungis eigi við um efni í dagblöðum og tímaritum. Stefndu mótmæla hvers kyns beitingu lögjöfnunar. Lögjöfnun eigi einungis við þegar tilvik sem ekki falli undir reglu sé jafnað til tilviks sem falli undir regluna eða þegar lagareglu sé beitt um ólögfest tilvik. Lög nr. 57/1956 hafa hins vegar að geyma reglur um ábyrgð í öllum hugsanlegum tilvikum. Þegar af þessari ástæðu sé tilvikið ekki ólögfest og því komi ekki til álita að beita lögjöfnun um tilvikið. Þar að auki þurfi fjölmörg skilyrði að vera uppfyllt svo unnt sé að beita lögjöfnun. Ekki sé þó að finna einasta rökstuðning í stefnu fyrir því hvers vegna skilyrði lögjöfnunar séu að öðrum kosti uppfyllt.
Stefndu vísa til þess að ekki sé grundvöllur fyrir aðild þeirra að refsikröfu stefnanda vegna kröfuliða nr. II, III og IV í stefnu, enda sé þar um að ræða kröfugerð vegna umfjöllunar sem birtist á vefnum www.dv.is undir netfanginu ritstjorn@dv.is en ekki undir nafni stefndu. Eins og fjallað hafi verið um í mörgum málum þar sem stuðst hafi verið við ábyrgð samkvæmt prentlögum, sé sú krafa gerð í slíkum málum að sé ábyrgð studd við 15. gr. prentlaga, líkt og í þessu máli, verði höfundur að hafa nafngreint sig með fullu nafni. Nafngreining með netfangi telst ekki nægileg nafngreining eins og ákvæðið hafi verið túlkað hjá dómstólum. Komi ábyrgð stefndu því ekki til álita á þeim grundvelli.
Með vísan til framangreinds telja stefndu hafið yfir vafa að ábyrgð á hendur þeim á grundvelli 15. gr. prentlaga, sbr. einkum kafla í stefnu er varðar refsikröfu, verði ekki komið við í máli þessu um efnið á vefritinu www.dv.is, en til viðbótar er vísað til þess að stefndu ritstýri ekki því vefriti. Með vísan til framangreindra sjónarmiða beri stefndu ekki lagalega ábyrgð á því efni sem birtist á vefsíðunni www.dv.is og vísað er til í stefnu málsins.
Stefndu benda á að stefnandi sé svokölluð opinber persóna sem hafi verið í sviðsljósi fjölmiðla og nær daglega í fréttum frá ungaaldri. Oft og iðulega sé fjallað um málefni stefnanda í fjölmiðlum, svo sem þegar hann hafi skipt um knattspyrnufélag, eða gert samninga um kaup og kjör, birtar hafi verið upplýsingar um launakjör hans og oft og iðulega sé einkalíf hans til umfjöllunar, ekki síst í heimsfjölmiðlunum. Stefnandi sækist einnig mjög eftir slíkri athygli. Stefnandi sé því óumdeilanlega svokölluð opinber persóna. Í samræmi við leiðbeiningar í úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu þurfi að fara fram mat á því hvort heimilt sé að fjalla um slíkar persónur í hverju tilviki og sé þá litið til efnis og eðlis umfjöllunarinnar sem um ræði. Fjölmiðlum sé sem fyrr segi játað það hlutverk að taka við og miðla upplýsingum sem taldar séu varða almenning. Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum Mannréttindadómstólsins sé fjölmiðlum ætlað að gegna því hlutverki að vera svokallaður varðhundur almennings og sinna þessu hlutverki sínu með því að greina frá því sem fréttnæmt geti talist og varðað almenning. Sé umfjöllun þess efnis og eðlis að almenningi verði ekki talið koma efnið við með nokkrum hætti, þannig að telja megi að umfjöllun falli ekki undir þetta hlutverk fjölmiðla, að vera varðhundur almennings, megi fallast á að umfjöllun gangi nærri einkalífshagsmunum.
Stefndu byggja á því að umfjöllun um stefnanda á síðum dagblaðsins DV og það efni sem þar hafi verið fjallað um sé af sama toga og hafi verið áberandi í umræðunni frá hruni íslensks efnahagslífs. Umfjöllun um starfshætti bankanna verði aldrei talin vera þess efnis og eðlis að engum hafi komið efni hennar við nema lántaka sjálfum. Meginástæða umfjöllunar um þau málefni sem tekin hafi verið fyrir í dagblaðinu DV og mál þetta sé sprottið af sé sú lánafyrirgreiðsla sem stefnandi hafi fengið í íslenskum bönkum, hvernig staðið hafi verið að henni og hvernig þessum fjármunum hafi verið varið. Sem fyrr segir voru fluttar af því fréttir að stefnandi, sem sé opinber persóna og hafi lengi verið fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, hafi fengið gríðarháar fjárhæðir að láni í íslenskum bönkum, svo háar að telja megi þær óeðlilegar. Einnig megi telja óeðlilegt að landsliðsfélagi stefnanda og persónulegur vinur hans, sem sé starfsmaður bankans, hafi haft milligöngu um slíkar lánveitingar til stefnanda.
Að mati stefndu hafi það efni, sem birt hafi verið og mál þetta snúist um, átt erindi til almennings, í ljósi þeirrar umræðu sem staðið hafi yfir mánuðum saman í kjölfar hruns íslenskra banka. Óumdeilt sé að hrun íslenskra banka megi að stórum hluta rekja til óábyrgra lánveitinga íslenskra fjármálastofnana til ýmissa aðila vegna fjárfestingaævintýra víðs vegar um heiminn. Um sé að ræða stórfé sem síðan hafi tapast að stærstum hluta í þessum áhættusömu fjárfestingaverkefnum. Í fréttum af stefnanda hafi verið fjallað um hinar gríðarháu og óeðlilegu lánveitingar til hans og að þessir fjármunir hafi glatast í ýmsum fjárfestingaverkefnum víðs vegar um heiminn, sem og að stefnandi ætti í samningaviðræðum við lánardrottna sína, þar sem hann gæti ekki endurgreitt lánin. Þá hafi verið fjallað um það hvernig stefnandi hefði fengið þessa fjármuni lánaða með milligöngu vinar síns sem hafi starfað í íslenska bankakerfinu. Eins og að framan sé rakið sé ekki að finna rök þess efnis í stefnu á hvaða hátt umfjöllunin hafi verið röng. Fréttagildi umfjöllunarinnar hafi verið ótvírætt, enda innihaldið frásögn um að stefnandi hafi verið einn þeirra sem fengið hafi stórfé að láni í íslenskum bönkum, sem síðan hafi verið varið til óábyrgra og áhættusamra fjárfestinga erlendis og endað með miklu tapi, sem að mestu lendi á almenningi.
Stefndu byggja á því að upplýsingar um framangreindar staðreyndir um lántökur og fjárfestingar stefnanda hafi þótt fréttnæmar og ástæða hafi verið til að vekja athygli á þeim opinberlega, með sama hætti og fréttir hafi verið birtar mánuðum saman um sambærilegar óábyrgar lánveitingar íslenskra banka til svonefndra útrásarvíkinga, sem átt hafi stóran þátt í hruni bankanna. Lánveitingar líkt og stefnandi hafi fengið séu afar áhættusamar. Sú staðreynd að stefnandi, sem sé þjóðþekkt persóna, hafi fengið slíka lánafyrirgreiðslu, sem verið hafi langt yfir greiðslugetu hans ef eitthvað kynni út af að bregða, þrátt fyrir há laun hans, og fengið slíkt áhættulán meðal annars í gegnum vin sinn í bankakerfinu, hafi að mati stefndu verið fréttaefni sem erindi hafi átt til almennings í ljósi þeirrar umræðu sem í gangi hafi verið og sé í þjóðfélaginu. Stefndu hafna því alfarið að efni umfjöllunarinnar falli undir þá skilgreiningu að vera einkamálefni stefnanda sem leynt skuli fara, líkt og viðkvæm persónuleg fjölskyldumálefni. Stefndu telja hafið yfir vafa að þessi umfjöllun, um hina opinberu persónu sem stefnandi sé, hafi átt rétt á sér.
Kjarni máls þessa sé réttur almennings til að fá upplýsingar um lánveitingar bankanna til áhættusamra og oft óábyrgra fjárfestinga, sem hafi átt stóran þátt í því að íslenskt efnahagskerfi hafi hrunið til grunna. Fréttagildið hafi meðal annars ráðist af því hver stefnandi sé, en hann sé mjög áberandi persóna. Umfjöllun um þessi mál hafi verið hluti af þjóðmálaumræðu í landinu frá því íslenska efnahagskerfið hrundi. Umfjöllunin um óeðlilegar lánveitingar til stefnanda og áhættusöm fjárfestingaverkefni hans hafi augljóslega haft fréttagildi í þessu sambandi og átt fullt erindi til almennings. Ætla verði fjölmiðlum sérstaklega aukið svigrúm til umfjöllunar um menn og málefni eins og hér um ræði, sem erindi eigi til almennings og sé hluti af þjóðmálaumræðunni hverju sinni og það sé í samræmi við dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli 10. gr. sáttmálans.
Markmið og meginstef þeirrar umfjöllunar sem birst hafi um stefnanda á síðum DV og á vefnum hafi þannig ekki lotið að persónulegum málefnum stefnanda, heldur hafi fyrst og fremst verið að greina frá óeðlilegum lánveitingum til hans í gegnum íslenska banka og hvernig þeir fjármunir hefðu glatast í óábyrgum og áhættusömum fjárfestingaverkefnum. Hluti umfjöllunarinnar hafi lotið að því að þessi fyrrum fyrirliði og núverandi leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu myndi vegna þessara atvika allra lenda í þeirri aðstöðu að tapa töluverðu af eignum sínum. Hafi einhver hluti umfjöllunarinnar haft snertifleti við persónuleg málefni stefnanda hafi ekki verið hjá því komist, þar sem þeir þættir hafi þá verið svo samofnir umfjöllunarefninu að ekki hafi verið sundur skilið. Eins og dómstólar hafi ítrekað vísað til verði einstaklingar að þola það að einhver umfjöllun um persónuleg málefni er þá varði komi til almennrar umfjöllunar, þegar um mál sé fjallað í fjölmiðlum sem tengist og séu hluti af þjóðmálaumræðunni hverju sinni. Stefndu telja að ekki hafi verið gengið lengra í umfjölluninni um stefnanda en nauðsynlegt og eðlilegt megi telja. Umfjöllunin hafi því ekki brotið gegn lögvörðum hagsmunum stefnanda. Hafi því ekki verið framin ólögmæt meingerð gegn stefnanda og eigi hann þar af leiðandi ekki rétt á miskabótum úr hendi stefndu. Því getur ekki komið til álita annað en að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Skilyrði þess að beita 229. gr. almennra hegningarlaga sé að skýrt hafi verið opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi er réttlættu verknaðinn. Eins og ráða megi af orðalagi ákvæðisins þurfi að uppfylla nokkur skilyrði svo verknaður samkvæmt ákvæðinu teljist refsiverður. Í fyrsta lagi þurfi að hafa verið um einkamálefni að ræða. Í öðru lagi sé það skilyrði að með umfjöllun um málefnið hafi verið ljóstrað upp um það. Í þriðja lagi að ekki hafi verið nægar ástæður til að greina frá þeim atriðum sem hafi verið andlag umfjöllunarinnar. Hvíli sú sönnunarbyrði á stefnanda að sanna að stefndu hafi haft ásetning um að brjóta gegn ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga með umfjölluninni.
Stefndu telja ekkert framangreindra skilyrða eiga við í málinu og því komi beiting ákvæðisins ekki til álita. Stefndu telja þær upplýsingar sem birtar hafi verið í umræddum fréttaflutningi ekki falla undir einkamálefni stefnanda í skilningi ákvæðisins. Þá telja stefndu að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi til þess að birta umfjöllunina, eins og ítarlega hafi áður verið rakið um að umfjöllunin hafi verið hluti umfjöllunar fjölmiðla um einkennilegar lánveitingar íslenskra banka til óábyrgra fjárfestingaverkefna og hluti af þjóðmálaumræðunni. Umfjöllun um persónuleg málefni þess lántaka sem í hlut eigi nái ekki lengra en að greina frá því hvaða lántaki hafi átt í hlut hverju sinni. Sú umfjöllun í þessu tilviki hafi ekki gengið lengra en eðlilegt megi telja eða nauðsyn hafi borið til. Um hafi verið að ræða opinbera umræðu um málefni sem átt hafi erindi til almennings. Ásetningur stefndu hafi ekki verið sá að brjóta gegn vernduðum hagsmunum stefnanda samkvæmt 229. gr. laganna. Með vísan til þessara sjónarmiða séu engin skilyrði til að dæma stefndu til refsingar samkvæmt ákvæðum 229. gr. almennra hegningarlaga.
Loks vísa stefndu til þess að ósannað sé af hálfu stefnanda að ásetningur stefndu hafi verið sá að brjóta gegn 229. gr. almennra hegningarlaga, en nauðsynlegt sé að sanna slíkan ásetning til að koma við ábyrgð stefndu.
Stefnandi virðist einnig byggja á því að stefndu hafi með umfjölluninni brotið gegn 5. og 7. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Sú málsástæða sé hins vegar engum gögnum eða rökum studd og ekki sé vísað til viðurlagakafla þeirra laga. Þegar af þeirri ástæðu að málsástæðan sé engum rökum studd beri að hafna henni, en þess utan verði á engan hátt séð að stefndu hafi gerst brotlegir við nefnd ákvæði.
Stefndu telja að þeir hafi ekki framið ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda með umfjöllun um hann, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, enda hafi umfjöllunin ekki brotið gegn ákvæðum 71. gr. stjórnarskrár, og ekki gegn almennum hegningarlögum, lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eða öðrum lögum. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á eða leitt að því líkur að umrædd umfjöllun hafi skaðað hagsmuni hans á einhvern hátt.
Til vara krefjast stefndu, Jón Trausti og Reynir, að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega, verði allt að einu komist að þeirri niðurstöðu að framin hafi verið ólögmæt meingerð gegn stefnanda og að stefndu beri ábyrgð á henni. Fullt tilefni hafi verið til umfjöllunarinnar í ljósi þess að upplýsingarnar séu sams konar og þær sem birtar hafi verið um helstu persónur og leikendur íslensks bankahruns. Verði talið að skilja verði stefnanda frá þeim hópi sé ekki við stefndu að sakast að hafa ekki gert það. Í því ljósi yrði einnig ósanngjarnt að dæma þá til að greiða háar miskabætur. Að auki er vísað til annarra raka og málsástæðna að framan.
Stefndu, Jón Trausti og Reynir, mótmæla sérstaklega kröfu stefnanda um vexti og dráttarvexti, enda eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefndu. Til vara er þess krafist að vextir verði einungis miðaðir við dómsuppsögu ef talin verða skilyrði til að dæma dráttarvexti.
Stefndu, Jón Trausti og Reynir, byggja málskostnaðarkröfu sína á 129. gr., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir og geri því kröfu um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
Um lagarök vísa stefndu, Jón Trausti og Reynir, til 71. og 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, sem og til 8. og 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Stefndu vísa einnig til 229. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 og til laga um prentrétt, nr. 57/1956. Þá vísa stefndu til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
VI
Mál þetta lýtur að umfjöllun um stefnanda sem birtust annars vegar í dagblaðinu DV og heimasíðu þess og hins vegar umfjöllun um stefnanda á vefmiðlinum DV. Eins og að framan er getið skrifaði stefndi, Ingi Freyr, í DV 2.-3. og 4. desember 2009, um fjármál stefnanda, laun hans, viðskiptafélaga hans og fyrirgreiðslur sem einstaklingar í íslenska bankakerfinu sem tengdust stefnanda hafi veitt honum, auk sambærilegra frétta á vefsvæðinu www.dv.is, þar sem stefndi, Ingi Freyr, var nafngreindur höfundur. Þá birtust á forsíðu DV fyrirsagnir um slæma fjárhagsstöðu stefnanda hinn 2. desember 2009 og á heimasíðu DV 3. og 4. desember fréttir um að stefnandi væri haldinn spilafíkn og að stefnandi hafi reynt að stöðva umfjöllun stefndu um sig. Einnig birtist fyrirsögn í DV 4. desember 2009: „Skuldugur fótboltakappi.“
Málatilbúnaður stefnanda er annars vegar byggður á því að stefndu beri refsi- og fébótaábyrgð á umfjöllun sem birtist í DV á grundvelli 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt, og hins vegar að stefndu beri refsi- og fébótaábyrgð á efni sem birtist á vefsvæðinu www.dv.is á grundvelli lögjöfnunar frá 2. mgr. 15. gr. sömu laga og meginreglna um ábyrgð á prentefni.
Í stefnu gerir stefnandi nánari gein fyrir aðild stefndu að hverjum ummælum um sig. Er óumdeilt að stefndi, Ingi Freyr, er höfundur þeirra skrifa, sem nánar eru tilgreind í stefnu, þar sem umdeild ummæli birtust og ber hann á þeim ábyrgð. Hins vegar bera stefndu, Jón Trausti og Reynir, ábyrgð á þeim ummælum í blaðsins, þar sem ekki er nafngreindur höfundur, í samræmi við 3. mgr. 15. gr. sömu laga. Eins og ákvæðið ber með sér tekur það til birtingar efnis í blöðum eða tímaritum en ekki til efnis sem birt er á vefsíðum. Ekki er til að dreifa lagaákvæðum um slík tilvik. Telja verður að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða enda staðreynd að dagblöð eru gefin út á vefmiðlum. Með lögjöfnun frá 15. gr. laga nr. 57/1956 ber því að fallast á að þeir beri á sama hátt ábyrgð á birtingu efnis á vefsvæðinu www.dv.is, þar sem ritað er undir ritstjórn, og því enginn höfundur tilgreindur. Verður að telja að aðild þeirra sé nægilega skýr, með vísan til 15. gr. prentlaga nr. 57/1956.
Í áðurgreindum fréttum var fjallað um stórfelldar lántökur stefnanda hjá íslenskum bönkum, misheppnuð fjárfestingaverkefni og að stefnandi ætti í erfiðleikum með að endurgreiða nefnd lán. Var greint frá því að þessar lántökur stefnanda næmu um 1.200 milljónum króna. Greint var frá því að stefnandi hefði tapað þessum fjármunum í ævintýralegum fjárfestingaverkefnum í Hong Kong, Tyrklandi og víðar. Fjallað var um nefndar lánveitingar, tap þeirra og að stefnandi ætti í viðræðum við lánardrottna um hvernig ráðið yrði fram úr þeim skuldavanda stefnanda sem við blasti vegna lánveitinga til hans.
Fréttinni var fylgt eftir næstu daga, bæði í blaðinu og á vefnum www.dv.is. Var þá m.a. greint frá því að einn besti vinur stefnanda og landsliðsfélagi, sem starfar hjá Glitni banka hf., hefði haft milligöngu um lánveitingar til stefnanda. Um svipað leyti var greint frá því, að stefnandi væri haldinn spilafíkn og að erlendir fjölmiðlar hefðu greint frá því að stefnandi hefði eytt stórfé í spilavítum, m.a. í Las Vegas. Þá var einnig greint frá launum stefnanda. Stefnandi sendi stjórnarformanni útgefanda DV, sem og nokkrum starfsmönnum á blaðinu, bréf þar sem þess var krafist að umfjöllunin yrði stöðvuð og beðist yrði afsökunar á henni. Þessari málaleitan stefnanda hafnaði blaðið með opinberri yfirlýsingu og birti jafnframt bréf stefnanda.
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður að greina í stefnu í einkarefsimáli, svo glöggt sem verða má, fyrir hvaða tilgreindu orð eða athafnir refsingar sé krafist. Í stefnu er greint sérstaklega frá því í nánar tilgreindum töluliðum í hvaða tilvitnuðu orðum hinn meinti refsiverði verknaður stefndu sé fólginn. Verður að telja að sú tilgreining, enda þótt hún komi ekki fram í sjálfum dómkröfunum, svo og nánari lýsing á málsatvikum í stefnu, sé nægilega skýr hvað varðar þau atriði sem stefnandi telur að snúi að einkamálefnum hans í skilningi 229. gr. almennra hegningarlaga, með vísan til fordæmis Hæstaréttar í málinu nr. 37/2007, þar sem sambærileg framsetning dómkröfu þótti ekki varða frávísun. Þá er og byggt á því í stefnu, að sú umfjöllun sé frásögn af einkamálefnum stefnanda, sem vernduð séu af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 229. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að líta svo á að með þessu hafi komið nægilega fram í stefnu að krafan um refsingu, sem stefnandi geri á hendur stefndu, sé reist á þessum tilvitnuðu ummælum.
Stefndu andmæla því, að framangreint efni hafi varðað einkamálefni stefnanda í skilningi 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 229. gr. almennra hegningarlaga. Bera þeir því við að þeim hafi verið vítalaust að birta þetta efni í skjóli tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé stefnandi svokölluð opinber persóna og fjárhagsmálefni hans hafi ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum án athugasemda af hans hálfu. Jarðvegurinn sem umfjöllunin um stefnanda sé sprottin úr sé m.a. reiði almennings yfir lánveitingum gömlu bankanna. Fréttaflutningur af fjárhagsmálefnum stefnanda hafi verið samofinn opinberri umræðu um aðra fjárfesta hér á landi og háttsemi forsvarsmanna fyrirtækja. Umfjöllunina um stefnanda verði því að skoða í samhengi við þær aðstæður sem nú séu uppi í íslensku samfélagi. Fréttirnar af fjárfestingum og lántökum stefnanda snúist því um það að segja frá þeirri tilhneigingu margra íslenskra fjárfesta á árunum fyrir bankahrun að steypa sér í gríðarlegar skuldir og taka þátt í áhættusömum fjárfestingum erlendis. Stefnandi hafi verið þátttakandi í þessari útrás og það sé eðlilegt og nauðsynlegt að segja frá því, líkt og frá öðrum íslenskum fjárfestum, en þessar fjárfestingar hafi átt þátt í því að knésetja íslenskt bankakerfi. Fréttaflutningur stefndu hafi því átt réttmætt erindi til þjóðarinnar og verið hluti af þjóðfélagsumræðunni.
Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Hugtakið friðhelgi einkalífs hefur verið skýrt á þann veg, að í því felist fyrst og fremst réttur til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi.
Í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi eru þannig settar skorður með stoð í fyrrgreindri 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í 229. gr. almennra hegningarlaga eru gerðar takmarkanir á tjáningarfrelsi, vegna réttinda og mannorðs annarra, en þar segir: „Hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“ Reynir því á í máli þessu hvort skorður, sem ákvæðið myndi setja við tjáningarfrelsi stefndu með því að kröfur stefnanda yrðu teknar til greina, séu nauðsynlegar.
Við ákvörðun á mörkum tjáningarfrelsis verður að líta til þess að tryggja þarf að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða. Stefndu halda því fram að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi til að réttlæta umfjöllun í DV þar sem skrif blaðsins hafi verið til þess fallin að upplýsa almenning um hvernig lánveitingum gömlu bankanna hafi verið háttað og um viðskiptahætti auðmanna og stórfyrirtækja í aðdraganda bankahrunsins.
Eins og að framan greinir snýr umfjöllun blaðsins, og á vefsíðu þess, að mestu um fjármál stefnanda og tengist á engan hátt störfum hans sem knattspyrnumanns, að öðru leyti en því, að fjallað er um ætluð laun hans fyrir þau störf. Er það mat dómsins að umfjöllun um ætluð laun knattspyrnumanna, sem ganga kaupum og sölum milli félagsliða, sé svo almenn og tengist með þeim hætti störfum þeirra, að hún geti ekki talist vernduð af tilvitnaðri grein almennra hegningarlaga.
Það er hins vegar mat dómsins að önnur umfjöllun um einkahagi stefnanda, sem birtist í DV umrædd sinn, geti á engan hátt tengst slíkri umræðu, þó svo að stefnandi sé þjóðþekktur knattspyrnumaður, sem oft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum. Er óumdeilt að stefnandi hefur aldrei gefið tilefni til slíkrar umfjöllunar með því að ræða við fjölmiðla um fjármál sín. Þá hefur umfjöllunin ekkert fréttagildi, hún er ómálefnaleg og hefur engin tengsl við störf stefnanda. Verður ekki séð að umfjöllun stefndu tengist á nokkurn hátt hinu svokallaða bankahruni eða að lántaka stefnanda og skuldastaða hans hafi með það að gera eða tengist meintri spillingu í bankakerfinu. Verður ekki séð hvaða erindi þessar upplýsingar hafi átt til almennings. Verður fallist á með stefnanda að gengið hafi verið nær einkalífi hans en þörf var á vegna opinberrar umræðu um málefni, sem varðaði almenning. Að því virtu verður lagt til grundvallar að ekki hafi nægar ástæður verið fyrir hendi, sem réttlættu birtingu þeirrar umfjöllunar sem mál þetta er sprottið af. Þá verður ekki fallist á það, enda þótt stefnandi sé þjóðþekktur, að hann þurfi að þola nærgöngulli umfjöllun um einkalíf sitt en almennt gerist um fólk og kemur ekkert fram í máli þessu sem rennir stoðum undir það að stefnandi hafi sóst eftir umfjöllun af þessu tagi. Þvert á móti var hann henni mótfallinn, eins og að framan greinir. Af þessum sökum verður fallist á að stefndu hafi brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga með því að birta umrædda daga þau ummæli, sem vörðuðu einkamálefni stefnanda og áður er getið. Telur dómari sakfellingu stefndu fyrir brot gegn ákvæði 229. gr. laga nr. 19/1940 vera samrýmanleg heimild 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Samkvæmt þessu er fallist á það með stefnanda að brotið hafi verið gegn ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 121. gr. laga nr. 82/1998. Stefndu bera ábyrgð á broti þessu samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt, og eru því dæmdir til þess hver um sig að greiða 150.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 daga.
Brot stefndu fólu í sér ólögmæta meingerð gegn einkalífi stefnanda og eru til þess fallin að baka honum miska, en stefnandi er, eins og áður er fram komið, þjóðþekktur maður og má ætla að umfjöllun sem þessi sé til þess fallin að skaða mannorð hans. Verður stefndu því gert að greiða stefnanda miskabætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.
Milli ummælanna á forsíðu dagblaðsins og greinanna, sem og umfjöllunarinnar á vefsíðu blaðsins, eru þau tengsl að dæma verður stefndu í sameiningu til að greiða stefnanda miskabætur, sem að öllu virtu þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, en sú fjárhæð ber dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda 750.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, greiði hver um sig 150.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 daga.
Stefndu greiði in solidum stefnanda 400.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. desember 2009 til greiðsludags.
Stefndu greiði in solidum stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.