Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2017

Íslandspóstur ohf. (Andri Árnason hrl.)
gegn
Fagco ehf. (Baldvin Hafsteinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem Í ohf. var gert að greiða F ehf. 9.125.000 krónur í málskostnað í máli sem rekið hafði verið á milli aðilanna vegna uppgjörs á verksamningi. Hafði málinu að öðru leyti verið lokið með dómsátt. Í dómi Hæstaréttar var fyrrgreind fjárhæð lækkuð í 8.500.000 krónur með hliðsjón af tilurð, umfangi og niðurstöðu málsins og þeirra matsgerða sem aflað hafði verið undir rekstri þess.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2017, þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 9.125.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst aðallega málskostnaðar í héraði, til vara að hann falli niður en að því frágengnu að dæmdur málskostnaður í héraði verði lækkaður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Undir rekstri málsins aflaði varnaraðili matsgerðar vegna nánar tilgreindra atriða og bar kostnað af henni 822.600 krónur. Hvor málsaðila um sig aflaði síðan yfirmatsgerða og bar af þeim kostnað. Þannig aflaði varnaraðili yfirmatsgerðar vegna magntalna og nam kostnaður við hana 2.426.632 krónum, en sóknaraðili vegna nánar tiltekinna aukaverka og nam kostnaður við það mat 2.179.132 krónum. Að öðru leyti er rekstri málsins réttilega lýst í hinum kærða úrskurði.

Staðfest er sú niðurstaða hins kærða úrskurðar um að sóknaraðila verði einum gert að bera kostnað vegna undirmatsgerðar sem og kostnað við yfirmatsgerð um aukaverk. Kostnað við yfirmatsgerð um magntölur skulu aðilar bera að hálfu hvor. Að þessu virtu og með hliðsjón af tilurð, umfangi og niðurstöðu málsins er málskostnaður ákveðinn 8.500.000 krónur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Sóknaraðili, Íslandspóstur ohf., greiði varnaraðila, Fagco ehf., 8.500.000 krónur í málskostnað í héraði.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2017.

         Mál þetta, sem höfðað var 4. júní 2015, var tekið til úrskurðar 4. maí 2017 um málskostnaðarkröfur aðila. Stefnandi er Fagco ehf., Köllunarklettsvegi 4, Reykjavík og stefndi er Íslandspóstur, Stórhöfða 29, Reykjavík.

         Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 12.486.351 krónu, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 10. janúar 2015 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 27. apríl 2017 að fjárhæð 8.762.148 krónur. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar sér að skaðlausu úr hendi stefnda.

         Dómkröfur stefnda voru þær að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

         Málið var höfðað til innheimtu eftirstöðva vegna uppgjörs á verksamningi um endurbyggingu pósthússins í Vestmannaeyjum, sem stefnandi tók að sér sem verktaki í þágu stefnda sem verkkaupa, með verksamningi dagsettum 4. nóvember 2013. Dómkröfur stefnanda í málinu námu í upphafi samtals 17.063.658 krónum og byggðust á tveimur reikningum sem gefnir voru út til stefnda þann 10. desember 2014. Í fyrsta lagi voru dómkröfur stefnanda reistar á reikningi nr. 80 að fjárhæð 7.986.387 krónur sem annars vegar var að rekja til magnbreytinga sem stefnandi áleit að orðið hefðu á samningsverkum á verktímanum og hins vegar til viðbótarverka sem hann kvaðst hafa unnið í þágu stefnda. Í öðru lagi voru dómkröfur stefnanda reistar á reikningi nr. 81 að fjárhæð 9.077.271 króna vegna ýmissa aukaverka sem stefnandi taldi að nauðsynlegt hefði verið að vinna við verkið.

         Til stuðnings framangreindum dómkröfum var óskað eftir því af hálfu stefnanda við fyrirtöku málsins 3. nóvember 2015 að matsmaður yrði dómkvaddur til að leggja mat á nánar tilgreind atriði og var matsbeiðni lögð fram í því skyni. Stefndi mótmælti beiðninni og krafðist úrskurðar um hvort hún næði fram að ganga á grundvelli 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 23. nóvember s.á., var fallist á beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns og var Guðmundur Þórhallsson húsasmíðameistari dómkvaddur til verksins þann 17. desember 2015. Í framangreindri matsbeiðni var óskað eftir því að lagt yrði mat á kostnað vegna magnaukningar samkvæmt reikningi nr. 80 og kostnað vegna aukaverka samkvæmt reikningi nr. 81. Matsgerð var í framhaldinu lögð fram í þinghaldi 19. febrúar 2016. Hinn 8. mars 2016 barst matsmanni beiðni um nánari rökstuðning við tiltekna liði í matsgerð af hálfu stefnda, auk þess sem stefnandi óskaði eftir því að ákveðnar leiðréttingar yrðu gerðar á henni. Viðbótarmatsgerð var í kjölfarið lögð fram við fyrirtöku málsins þann 14. apríl 2014. Endanlegar niðurstöður dómkvadds matsmanns samkvæmt henni voru þær að kostnaður vegna lokamats samkvæmt reikningi nr. 80 um magnaukningu næmi 3.245.472 krónum og 5.947.298 krónum vegna reiknings nr. 81 um aukaverk. Heildarkostnaður vegna beggja framangreindra þátta væri þannig 9.192.770 krónur.

         Þar sem stefnandi sætti sig ekki að öllu leyti við framangreinda niðurstöðu dómkvadds matmanns lagði lögmaður stefnanda fram yfirmatsbeiðni í þinghaldi 3. maí 2016 þar sem farið var fram á endurmat á því hvort lokamagntölur sem reikningur nr. 80 byggðist á væru réttar. Í þinghaldi 12. maí s.á. lagði lögmaður stefnda einnig fram yfirmatsbeiðni sem laut að því hvort nánar tilgreind verk sem reikningur nr. 81 byggðist á, væru aukaverk eða samningsverk og væri litið svo á að þau teldust vera aukaverk, hvert sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þau væri. Málsaðilar voru sammála um að dómkveðja sömu yfirmatsmenn til að taka að sér að vinna báðar matsgerðirnar. Í sama þinghaldi voru þeir Hjalti Sigmundsson byggingatækni-fræðingur og Freyr Jóhannsson tæknifræðingur dómkvaddir og voru yfirmatsgerðir lagðar fram í þinghaldi 9. nóvember 2016. Niðurstaða yfirmatsmanna um lokamagntölur var sú að endanlegur kostnaður vegna magnaukningar væri 3.493.858 krónur og vegna aukaverka 4.553.710 krónur, eða samtals vegna beggja þátta 8.047.568 krónur.

         Í kjölfar þess að yfirmatsgerðir lágu fyrir reyndu aðilar sættir. Í þingbók málsins við fyrirtöku þess þann 5. desember 2016 var bókað að lögmaður stefnanda hefði boðið stefnda sættir á grundvelli niðurstöðu yfirmatsgerða en þeirri tillögu verið hafnað af hálfu stefnda. Í sömu fyrirtöku var lögð fram breyting á kröfugerð í málinu af hálfu stefnanda. Gerð var krafa um að stefndi greiddi stefnanda 12.486.351 krónu, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 10. janúar 2015 til greiðsludags. Dómkrafa stefnanda sundurliðaðist þannig að krafist var 6.657.519 króna vegna breytinga á magntölum og 5.828.832 króna vegna aukaverka. Hvað fyrri liðinn, um endanlegan kostnað vegna magnaukningar, varðaði sætti stefnandi sig ekki við niðurstöður yfirmatsmanna um nánar tilgreinda verkliði. Um síðari liðinn, kostnað vegna aukaverka, felldi stefnandi sig að öllu leyti við niðurstöður yfirmatsgerðar, fyrir utan kostnað við eitt aukaverk.

         Við fyrirtöku málsins 27. apríl 2017 lagði lögmaður stefnda fram greiðslukvittun, dagsetta sama dag, fyrir samtals 8.762.148 krónum. Annars vegar greiddi stefndi 3.493.858 krónur vegna magntölubreytinga til stefnanda og hins vegar 3.113.307 krónur vegna aukaverka 1-34. Stefndi féllst þannig á að greiða stefnanda fyrir samtals 18 aukaverk á grundvelli fyrirliggjandi matsgerða. Þá voru 2.154.983 krónur greiddar í dráttarvexti frá 10. janúar 2015. Af þeim 30 aukaverkum sem aðilar deildu um í öndverðu stóð þannig eftir ágreiningur vegna átta aukaverka.

         Við upphaf aðalmeðferðar málsins 4. maí 2017 var af hálfu stefnanda lögð fram breytt kröfugerð sem tók mið af framangreindum greiðslum stefnda. Var þess krafist að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 12.486.351 krónu, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 10. janúar 2015 til greiðsludags, að frádreginni innborgun þann 27. apríl 2017 að fjárhæð 8.762.148 krónur. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar sér að skaðlausu úr hendi stefnda. Af þeirri 12.486.351 krónu sem stefnandi gerði kröfu um að fá greidda úr hendi stefnda stóðu því eftir samtals 5.879.186 krónur að höfuðstól, annars vegar 3.163.661 króna vegna magnaukningar og hins vegar 2.715.525 krónur vegna aukaverka.

         Eftir að aðalmeðferð málsins var hafin varð dómsátt með aðilum. Samkvæmt henni skyldi stefndi greiða stefnanda 2.700.000 krónur sem fullnaðargreiðslu fyrir 12. maí 2017. Með vísan til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, var ákvörðun um málskostnað í kjölfarið lögð í úrskurð dómara.

         Ljóst þykir af rekstri málsins að stefnanda var nauðsynlegt að afla matsgerðar dómkvadds matsmanns til frekari stuðnings dómkröfum sínum, enda styðja endanlegar niðurstöður hans að kröfur stefnanda hafi átt rétt á sér að stórum hluta til. Af þeim sökum verður stefndi látinn bera kostnað vegna öflunar matsgerðar og viðbótar við hana, samtals að fjárhæð 1.020.024 krónur.

         Þá lét stefnandi afla yfirmatsgerðar í því skyni að endurmeta kostnað vegna lokamats á magntölum og var niðurstaða hennar sú að endanlegur kostnaður vegna magnaukningar næmi 3.493.858 krónum í stað 3.245.472 króna, sbr. niðurstöðu fyrrnefndra matsgerða. Þar sem niðurstaða yfirmatsgerðar um þennan þátt málsins var stefnanda hagfelldari en niðurstaða matsgerðanna, þykir sýnt að þörf hafi verið á því að afla þeirrar fyrrnefndu. Þrátt fyrir það verður ekki litið fram hjá því að kostnaður vegna magnaukningar að mati yfirmatsmanna var rétt rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar sem stefnandi gerði endanlegar dómkröfur um. Þá víkkaði stefnandi jafnframt út kröfugerð sína vegna þessa þáttar málsins eftir að yfirmatsgerð lá fyrir. Enn fremur liggur fyrir að stefndi greiddi kostnað vegna magnaukningar samkvæmt yfirmatsgerð þann 27. apríl sl. og gerði þannig upp vegna þess þáttar málsins í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar. Af þeim ástæðum sem raktar hafa verið þykir því rétt að stefnandi beri helming kostnaðar vegna öflunar yfirmatsgerðar um magnaukningu og stefndi helming, eða 752.256 krónur hvor um sig. Þá þykir rétt með tilliti til niðurstöðu yfirmatsgerðar um aukaverk að stefndi beri alfarið kostnað vegna öflunar hennar, samtals að fjárhæð 1.504.512 krónur. Í því sambandi er litið til þess að óskað var eftir henni af hans hálfu en niðurstaða matsgerðarinnar þykir renna stoðum undir það að endanlegar dómkröfur stefnanda um aukaverk hafi átt rétt á sér, þrátt fyrir að yfirmatsmenn hafi lækkað kostnað vegna aukaverka nokkuð frá því sem greinir í matsgerð og viðauka við hana.

         Fyrir liggur að með framangreindri sátt og innborgunum stefnda á dómkröfur hans hinn 27. apríl sl. hefur stefnandi fengið dómkröfum sínum að miklu leyti framgengt. Þá kemur fram í niðurstöðum yfirmatsgerða að útboðsgögn sem verksamningurinn í málinu byggðist á hafi verið óskýr en stefndi bar ábyrgð á því að láta útbúa þau í samræmi við almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, ÍST 30: 2012. Jafnframt gerði stefnandi ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til þess að sætta málið en stefndi greiddi fyrst fyrrnefnda innborgun inn á dómkröfur stefnanda viku fyrir aðalmeðferð málsins. Að öllu þessu virtu þykir því rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað.

         Af hálfu stefnanda hefur verið lagður fram sundurliðaður málskostnaðarreikningur og vinnuskýrslur lögmanna sem hafðar eru til hliðsjónar við ákvörðun málskostnaðar. Fyrir liggur að mál þetta er umfangsmikið og á bak við það er mikil vinna. Áður er rakið að ástæður þess má að hluta rekja til ágalla á útboðsgögnum en einnig ber að líta til þess að framsetning dómkrafna stefnanda var óljós í upphafi og tóku þær talsverðum breytingum undir rekstri málsins. Jafnframt jók hann við kröfur sínar eftir að yfirmatsgerðir lágu fyrir og stuðlaði þannig enn frekar að óskýrleika eigin málatilbúnaðar. Lögmenn stefnanda voru tveir en þeir munu hafa skipt með sér verkum. Er til þess litið við ákvörðun um málskostnað, að því leyti sem ætla má að hagræði hafi falist í þeirri ráðstöfun en ekki verður fallist á að greiða þeim fullt tímagjald að svo miklu leyti sem vinna þeirra við sömu þætti málsins skaraðist.

         Með hliðsjón af öllu framansögðu, kostnaði við matsgerðir og umfangi málsins, er málskostnaður ákveðinn 9.125.000 krónur.

         Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stefndi, Íslandspóstur ohf., greiði stefnanda, Fagco ehf., 9.125.000 krónur í málskostnað.