Hæstiréttur íslands

Mál nr. 531/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2006.

Nr. 531/2006.

Garðar Björgvinsson

(sjálfur)

gegn

Ingibjörgu Sigríði Karlsdóttur og

Svanhildi Karlsdóttur

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

 

Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi setja 500.000 króna tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli, sem hann hafði höfðað gegn I og S, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. september 2006, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli, sem hann hefur höfðað á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að fjárhæð tryggingarinnar verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ekki verður fallist á með sóknaraðila að annmarki sé á hinum kærða úrskurði, sem getur leitt til þess að fallast beri á aðalkröfu hans. Með vísan til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur sóknaraðila, Garðars Björgvinssonar, til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðilum, Ingibjörgu Sigríði Karlsdóttur og Svanhildi Karlsdóttur, skal vera tvær vikur frá uppsögu þessa dóms.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. september 2006.

Mál þetta var höfðað 31. júlí og 1. ágúst 2006 og tekið til úrskurðar 21. september sama ár. Stefnandi er Garðar Björgvinsson, Herjólfsgötu 18 í Hafnarfirði, en stefndu eru Ingibjörg S. Karlsdóttir, Kjartansgötu 11 í Borgarnesi, og Svanhildur Karlsdóttir, Sandbakka 3 á Höfn í Hornafirði.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar krafa sem stefndu höfðu uppi við þingfestingu málsins um að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Af hálfu stefnanda er kröfunni andmælt.

Til stuðnings kröfunni vísa stefndu til þess að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá stefnanda 22. mars 2006 og 5. janúar 2004. Með þessu hafi verið leiddar líkur að því að stefnandi sé ófær um að greiða málskostnað.

Stefnandi styður andmæli sín gegn kröfunni þeim rökum að honum sé rétt að bera mál sitt undir dóm. Verði fallist á kröfuna telur stefnandi að honum beri hæfilegt svigrúm til að leggja fram tryggingu.

Fyrir liggur að 22. mars sl. fór fram árangurslaust fjárnám hjá stefnanda. Með hliðsjón af því að skammt er liðið frá því gerðin fór fram og þar sem stefnandi hefur ekki leitt neinar líkur að því að hann sé fær um að greiða málskostnað verður fallist á kröfu stefndu um að stefnanda verð gert að leggja fram málskostnaðartryggingu, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um fjárhæð tryggingar, form og frest til að leggja hana fram fer eins og í úrskurðarorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Stefnanda, Garðari Björgvinssyni, ber að setja innan þriggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar.