Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. september 2008.

Nr. 480/2008.

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

 

Kærumál. Rannsókn. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

 

Þann 16. júlí 2008 tók ríkissaksóknari ákvörðun um að hefja að nýju rannsókn opinbers máls þar sem X var grunaður um kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Af því tilefni óskaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eftir því að skýrsla yrði tekin af dóttur X fyrir dómi. Bar X þá ákvörðun undir héraðsdóm með heimild í 75. gr. laga nr. 19/1991. Með úrskurði héraðsdóms var mælt fyrir um að rannsókn málsins skyldi tekin upp að nýju í samræmi við ákvörðun ríkissaksóknara. Talið var að þar sem héraðsdómur hefði ekki leyst úr þeirri kröfu er borin hefði verið undir dóminn, væri óhjákvæmilegt að ómerkja úrskurðinn og leggja fyrir héraðsdóm að taka kröfu X til efnislegrar úrlausnar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. september 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2008, þar sem úrskurðað var að lögreglurannsókn gagnvart sóknaraðila skyldi tekin upp að nýju samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara 16. júlí 2008. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og því hafnað að tekin verði skýrsla fyrir dómi af A vegna málsins. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir ákvörðun ríkissaksóknara 16. júlí 2008 um að hefja að nýju rannsókn máls nr. […] , en þar höfðu verið til rannsóknar sakargiftir á hendur sóknaraðila um kynferðisbrot gegn dóttur hans A. Varnaraðili óskaði síðan með bréfi 24. júlí 2008 eftir að tekin yrði skýrsla fyrir dómi við Héraðsdóm Reykjavíkur af A. Hinn 31. júlí 2008 bar sóknaraðili ákvörðun varnaraðila um þetta undir héraðsdóminn með heimild í 75. gr. laga nr. 19/1991. Kom fram í erindi sóknaraðila að hann væri ekki að bera undir héraðsdóminn ákvörðun ríkissaksóknara 16. júlí 2008, heldur einungis ákvörðun varnaraðila um að óska eftir að dómskýrsla yrði tekin af telpunni. Byggir hann kröfu sína á því að þessi ákvörðun sé ólögmæt, meðal annars vegna þess að ekki hafi verið lagaskilyrði til að taka rannsókn málsins upp að nýju.

Í hinum kærða úrskurði er kröfu sóknaraðila ranglega lýst á þann veg að ákvörðun ríkissaksóknara 16. júlí 2008 hafi verið borin undir dóminn. Leysir héraðsdómur úr þeirri kröfu, en ekki sérstaklega þeirri sem sóknaraðili hafði uppi. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdóm að taka þá kröfu til úrskurðar sem sóknaraðili gerði fyrir dóminum. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu sóknaraðila til efnislegrar úrlausnar.

 

Úrskurður  Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2008.

Sóknaraðili er X, kt. og heimilisfang […], en varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.

Krafa sóknaraðila er að úrskurðað verði um lögmæti ákvörðunar ríkissaksóknara að leggja fyrir lögreglustjóra að taka að nýju upp rannsókn á ætluðu kynferðisbroti sóknaraðila gagnvart ólögráða dóttur sinni, A, kt. […].

Krafa varnaraðila er að rannsókn verði tekin upp að nýju samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara.

 

Málavöxtum er lýst í dskj. nr. 5; Afstöðu ríkissaksóknara til kæru, dags. 16. júlí 2008.  Þar segir m.a. að með bréfi, dags. 19. júlí 2007, hafi Barnavernd Reykjavíkur óskað eftir rannsókn lögreglu á því hvort X hafi brotið kynferðislega á A dóttur sinni.  Greint er frá því að B, móðir A, hafi kært X, en B og X hefðu slitið samvistum fyrir tveimur árum og lyti telpan forsjá kæranda.

Í bréfinu er vísað til þess að telpan hafi farið í viðtal í Barnahúsi, hinn 20. október 2006, sökum vanlíðanar í tengslum við umgengni við föður sinn, en áður hafi B greint barnaverndaryfirvöldum frá því að telpan hefði tjáð henni að faðir hennar hafi beitt hana líkamlegu ofbeldi, en engin merki þess hefðu þó verið á barninu.  Þá segir að eftir að telpan hefði dvalið hjá föður sínum hafi hún átt erfitt með svefn.  Hún hafi verið með krem í klofinu eftir að hafa dvalið hjá honum.  Í Barnahúsinu hafi telpan greint frá því að faðir hennar væri góður við hana og slægi hana ekki mikið.

Vísað er til þess að hinn 18. júní 2007 hafi B leitað aftur til Barnaverndar Reykjavíkur og skýrt frá því að hinn 9. sama mánaðar hafi telpan kvartað undan því að hana klæjaði í rassinn.  Hafi móðir hennar þá þvegið kynfæri hennar með blautþurrku.  Við það hafi telpan stífnað upp, sýnt mikil hræðsluviðbrögð, farið að gráta og sagt að enginn mætti koma við hana þarna.  Hafi hún þá spurt barnið hvort einhver hefði meitt hana og telpan svarað að faðir hennar hefði stundum gert það, hún hafi grátið og sagt nei, nei, nei en faðir hennar hafi ekki hlustað á það.

Greint er frá því að B hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni hinn 31. júlí 2007.  Fram hefði komið að telpan hætti með bleyju rétt rúmlega tveggja ára gömul án nokkurra vandkvæða.  Eftir skýrslutöku í Barnahúsinu haustið 2006 kvaðst hún hafa farið með telpuna til C sálfræðings, sem rætt hafi við telpuna a.m.k. þrisvar sinnum.  Hún hafi sagt C að hún vildi alls ekki fara til föður síns, vont væri að vera þar og þar væri eitthvert leyndarmál.  Þá segir að stúlkan hafi síðast farið í umgengni til föður síns, hinn 16. desember 2006, og komið óþekkjanleg til baka, verið reið og óörugg, neitað að klæða sig, neitað að borða og neitað af fara út úr húsi.  Telpan hafi skriðið upp í rúm og falið sig undir sæng og viljað bara fá að sofa.

Eftir þetta kveðst B hafa ákveðið að dóttir hennar færi ekki til föður síns.  Það hafi svo ekki verið fyrr en í júní 2007, sem telpan hefði sagt henni að faðir hennar hefði meitt hana í pjöllunni, eins og greint er frá í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til lögreglu.  Hún hafi kært X fyrir ætlað kynferðisbrot gagnvart telpunni.

Tekið er fram að telpan hafi verið skoðuð af barnalækni og kvensjúkdómalækni í Barnahúsi.  Ekkert óeðlilegt hafi komið fram við þá skoðun.  Tekið er fram í skýrslu læknanna að þrátt fyrir eðlilega læknisrannsókn væri ekki hægt að útiloka að telpan hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Vísað er til að barnalæknir og kvensjúkdómalæknir í Barnahúsinu hafi skoðað barnið hinn 22. ágúst 2007.  Ekkert óeðlilegt hafi komið fram við þá skoðun en tekið fram í skýrslu læknanna að þrátt fyrir eðlilega læknisrannsókn væri ekki hægt að útiloka að telpan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Skýrt er frá því að tekin hafi verið skýrsla af telpunni fyrir dómi hinn 24. ágúst 2007.  Af hálfu sóknaraðila hafi athugsemdir verið gerðar við að skýrslutaka færi fram þar sem mikilvæg gögn skorti.  Dómarinn hafi ákveðið að skýrslutaka færi fram.  Af hálfu sóknaraðila var þá ákveðið að hvorki hann né verjandi hans yrðu viðstaddir skýrslutökuna þar sem ekki væri unnt að gæta hagsmuna hans með viðeigandi hætti.

Vísað er til þess að við skýrslutökuna hafi telpan, þá fjögurra ára, lýst því að faðir hennar hafi eitt sinn slegið hana í framan.  Það hafi gerst heima hjá honum og hann hafi ekki ætlað að hætta.  Er hún var spurð, hvort faðir hennar hafi meitt hana annars staðar, hafi hún neitað því.  Hún hafi sagt að það væri ágætt að vera hjá honum; hún svæfi í litlu rúmi sem væri með hlið og er hann lyfti henni upp færi hún að hlæja.  Er hún var spurð, hvort hún væri hrædd við fólk, hafi hún neitað því.  Er hún var spurð, hvort einhver hefði snert hana á einkastaðinn undir nærbuxunum, hafi hún lýst því að D, fjögurra ára vinur hennar, hafi snert pjölluna.  Spurð, hvort hún hefði áhyggjur, hafi hún neitað því og sagt að henni liði vel.  Þá segir:

 

Kærði [X sóknaraðili] var yfirheyrður þann 28. ágúst 2007.  Neitaði hann alfarið sakargiftunum.  Kvaðst hann ekki hafa umgengist dóttur sína frá því 9. október 2006 utan 7 klukkustundir þann 16. desember s.á.  Sagði hann ásakanirnar fjarstæðukenndar og hreinan og kláran uppspuna.  Neitaði hann að svara spurningum en vísaði til yfirlýsingar sinnar og gagna sem henni fylgdu.  Í yfirlýsingu hans, sem dagsett er 26. ágúst 2007 lýsir kærði því m.a. að hann hafi aldrei unnið dóttur sinni mein, hvorki á sál né líkama.  Afstað hans til þessara ásakana komi fram í kærum hans á hendur kæranda til lögreglu og ríkissaksóknara dags. 17. janúar og 12 mars 2007.  Ásakanir kæranda á hendur honum séu síendurteknar og lýsi sjúklegu hugarfari hennar og gegndarlausu hatri á honum.  Lýsir kærði síðan ítrekuðum umgengnistálmunum kæranda.  Þá kemur fram að C, sálfræðingur, hafi verið áminnt af siðanefnd Sálfræðingafélags Íslands fyrir brot gegn siðareglum þar sem hún hafi ekki gætt óhlutdrægni í aðkomu sinni að málinu.  Yfirlýsingunni fylgdu gögn þess efnis.  Þá bendir kærði á að kærandi hafi ekki látið yfirheyra telpuna strax eftir að hún var hjá kærða og föðurfjölskyldunni, heldur látið marga daga líða á milli.  Kærði telur að greinilegt sé að kærandi hafi notað þann tíma til að innræta barninu hvað það eigi að segja.

 

Vísað er til þess að lögreglustjóri hafi hinn 20. febrúar 2008, ákveðið að hætta rannsókn málsins á grundvelli 1. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Rakið er að í bréfi lögreglustjóra til kæranda segi m.a.:

 

Í kæruskýrslu þinni lýsir þú grunsemdum þínum um að kærði hafi beitt barnið kynferðislegu ofbeldi.  Vísaðir þú í atvik og samtöl við barnið.  Í kjölfarið fór barnið í læknisskoðun í Barnahúsi en í læknisvottorði kemur fram að meyjarhaft barnsins sé eðlilegt, op sjáist ekki og að ekki sjáist nein merki um nýja áverka eða örmyndanir.  Tekið er fram að það útiloki þó ekki að barnið hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi.  Kærði hefur eindregið neitað sök.

Skýrsla var tekin í Barnahúsi en þá kom ekkert fram sem benti til þess að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu kærða.

Með vísan til ofanritaðs er það sem fram er komið í málinu ekki nægilegur grundvöllur fyrir frekari rannsókn málsins, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Komi fram ný sakargögn í málinu getur lögreglustjóri tekið rannsóknina upp að nýju, sbr. 3. mgr. 76. gr. laganna.

 

Greint er frá því að lögreglustjóra haf borist bréf frá lögmanni kæranda hinn 29. apríl 2008.  Bréfinu fylgdi greinargerð E, sálfræðings í Barnahúsi, er lögmaðurinn taldi að gæfi fullt tilefni til frekari rannsóknar lögreglunnar.  Þá segir í nefndu skjali um afstöðu ríkissaksóknara til kæru:

 

Greinargerð sálfræðings Barnahúss er dagsett 22. apríl 2008.  Ekki kemur fram hver sé viðtakandi hennar.  Vísað er í beiðni frá 15. apríl 2008 þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um stöðu A, tilfinningalegs ástands og framvindu meðferðar.  Þá kemur fram að Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar hafi þann 10. mars 2008 óskað eftir þjónustu Barnahúss fyrir telpuna vegna gruns um kynferðisofbeldi, óskað hafi verið eftir meðferðarviðtölum.  Þá er fyrri aðkomu Barnahúss lýst í greinargerðinni.  Er síðan tiltekið að ástæða fyrri tilvísanna hafi verið áhyggjur móður af líðan telpunnar.  Þá kemur fram að ástæða tilvísunar nú sé mikið til sú sama og áður en mikil afturför hafi orðið á líðan telpunnar eftir óvænta heimsókn kærða á leikskóla telpunnar í lok febrúar sl. að sögn móður og hafi starfsfólk leikskólans staðfest það.  Í greinargerðinni er síðan lýst viðtölum við telpuna þann 13. mars, 28. mars og 11 apríl.  Í viðtali þann 13. mars hafi telpan sagt, er sálfræðingur sýndi henni mynd af stúlku með tár í augum og dapran svip og stór hönd heldur um handlegg hennar: „Pabbi tók mína hendi og setti hana á tippið sitt“.  Einnig kemur fram að stjúpamma telpunnar, F, hafi í samtali við sálfræðinginn þann 17. mars 2008 greint frá því að telpan hafi þann 2. febrúar 2008 sagt við hana að vondi pabbi væri að fara að gifta sig.  Er F hafi spurt hana af hverju hún kallaði hann vonda pabbar hafi hún svarað því til að hann væri alltaf að meiða sig í pjöllunni og meiða hana, lemja hana alls staðar.  Hafi F þá sagt við hana að ef eitthvað slíkt gerðist ætti hún að segja strax frá því.  Hafi telpan þá svarað „en Y vill ekki fara í fangelsi“.

Í niðurstöður greinargerðarinnar er tekið fram að túlkun telpunnar á umræddri mynd sé athyglisverð fyrir þær sakir að flest börn túlka myndina á þann hátt að höndin sé að fara að hugga stúlkuna á myndinni því hún er með tár í augunum.  Þá hafi telpan talað um að ekki sé lengur gaman í leikskólanum því hún sé hrædd um að kærði komi aftur, hún vilji ekki fara heim til föður síns.  Þá tekur sálfræðingurinn það fram að hún hafi aldrei haft frumkvæði af umræðu um kærða, heldur gripið það sem telpan talaði sjálf um.  Enda hafi tilgangur viðtalanna verið sá að skoða líðan og tilfinningar stúlkunnar í von um að bæta megi líðan hennar og skapa henni öryggi.

 

Greint er frá því að fyrirliggjandi sakargögn hafi ekki verið nægileg til ákæru þegar lögreglustjóri ákvað, hinn 29. febrúar 2008, að hætta rannsókn málsins.  Ekkert hafi verið sem studdi grunsemdir kæranda um að telpan hefði sætt kynferðislegu ofbeldi af   hálfu kærða.  Eftir að rannsókn málsins var hætt megi hins vegar ráða af greinargerð sálfræðings Barnahúss, E, að telpan hafi greint henni og F frá ætluðum kynferðisbrotum kærða.  Síðan segir að lokum í umræddu skjali um afstöðu ríkissaksóknara til kæru:

 

Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála skal ekki taka upp rannsókn að nýju á hendur sökuðuð um manni nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt að þau komi fram.  Við mat á því hvort hér sé um að ræða ný sakargögn í skilningi ákvæðisins verður að líta til þess að framburður vitnis um meint brot telst til sakargagna í skilningi laga um meðferð opinberra mála.  Þrátt fyrir að telpan hafi ekki tjáð sig um meint kynferðisbrot kærða fyrir dómi þann 24. júlí 2007 þá hefur hún nú tjáð sig um þau í viðtalsmeðferð í Barnahúsi.  Með hliðsjón af framangreindu og Hæstaréttardómi frá 26. október 2001, nr. 403/2001, verður talið að komin séu fram ný sakargögn sem réttlæti að rannsókn lögreglu hefjist að nýju.  Rétt þykir að tekin verði dómskýrsla af telpunni A og að lögregla taki skýrslu af F.  Að því loknu verði tekin ákvörðun um framhald málsins.

Niðurstaða:

Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 19. maí 2008, um að taka ekki upp rannsókn málsins að nýju með vísan til 3. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála er hér með felld úr gildi.  Lagt er fyrir lögreglustjórann að taka málið til frekar rannsóknar.

 

Sóknaraðili krefst úrskurðar um lögmæti þess að lögreglustjóri taki málið til frekari rannsóknar.  Byggt er á því að ekki sé heimilt að taka rannsókn upp að nýju samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála í þessu tilviki, en þar segir:

 

Nú hefur rannsókn á hendur sökuðum manni verið hætt vegna þess að sakargögn hafi ekki þótt nægileg til ákæru og á þá ekki að taka rannsókn upp á ný gegn þeim manni nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt að þau komi fram.

 

Greinargerð E sálfræðings geti ekki talist nýtt sakargagn í skilningi 3. mgr. 76. gr. laganna.

Vísað er til þess að áður en barnið var í viðtalsmeðferð hjá E hafi verið tekin ein skýrsla hjá Barnahúsi og þrjár skýrslur hjá C sálfræðingi án þess að nokkuð benti til kynferðisbrots af hálfu föður barnsins.  Lögreglurannsókn á ætluðu broti hans hafi þó hafist á grundvelli framburðar móður barnsins um samskipti við barnið í júní 2007.  Skýrsla fyrir dómi hafi þá verið tekin af barninu í ágúst 2007 auk þess sem læknisskoðun hafi farið fram á barninu.  Ekkert hafi komið fram um að faðir barnsins hefði áreitt það kynferðislega.  Rannsókn málsins hafi því verið hætt.

Reist er á því að ætlaður framburður barnsins hjá sálfræðingi um annað, eftir að skýrslan af barninu var tekin fyrir dómi, geti ekki talist ný sakargögn.  Sérstaklega þegar fyrir liggur að faðir barnsins hefur ekki umgengist það síðan í október 2006.

 

Af hálfu varnaraðila er byggt á því að ríkissaksóknari hafi lagt fyrir lögreglustjóra að taka málið til frekari rannsóknar.

 

Ályktunarorð:  Upplýst er að Sveinn Andri Sveinsson hrl., tilnefndur réttargæslumaður A skv. 1. mgr. 44. gr. b. laga nr. 19/1991, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999, sendi með bréfi, dags. 25. apríl 2008, saksóknara greinargerð E sálfræðings, dags. 22. sama mánaðar, um viðtöl hennar við barnið og skoðun hennar á líðan og tilfinningum þess.

Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 24. gr. laga nr. 36/1999, segir m.a. að lögreglan geti hætt rannsókn ef henni þyki ekki grundvöllur til að halda henni áfram, en sá sem eigi hagsmuna að gæta geti borið ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara sem taki fullnaðarákvörðun um hvort rannsókn fari fram eða ekki.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds.  Hann getur gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta og getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni, sbr. 25. gr. og 27. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.  Hvort umrædd greinargerð E sálfræðings geti talist nýtt sakargagn í skilningi 3. mgr. 76. gr. laganna skal ósagt látið, en samkvæmt 2. mgr. 77. gr. getur ríkissaksóknari mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir ef hann telur þess þörf.

Samkvæmt framangreindu verður talið heimilt að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu taki mál nr. […] upp að nýju samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknar með vísun til 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Málið nr. […] er tekið upp að nýju samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknar.