Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabótalög
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2002. |
|
Nr. 210/2002. |
Ragnheiður Hákonardóttir og Tryggingamiðstöðin hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Dönu Garovic (Stefán Geir Þórisson hrl.) og gagnsök |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög. Gjafsókn.
D slasaðist í umferðarslysi í nóvember 1998. Ágreiningur reis um það hvort miða ætti bætur vegna varanlegrar örorku við 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða 5. - 7. gr. sömu laga. Þá var deilt um kröfu D vegna tímabundinnar örorku og hvaða árslaun skyldi miða við ef fallist yrði á sjónarmið hennar. Talið var að þar sem D sinnti eingöngu heimilisstörfum og hefði því nýtt vinnugetu sína þannig að hún hefði engar eða takmarkaðar vinnutekjur færi um bætur til hennar eftir 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga enda ekki unnt að fallast á að hún hefði verið atvinnulaus þegar slysið varð þannig að 2. mgr. 7. gr. laganna ætti við. D átti rétt á bótum fyrir tímabundna örorku, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 2. gr. skaðabótalaga. Fallist var á það með héraðsdómi að hún hefði ekki firrt sig þessum rétti þegar krafa um þær var ekki gerð í kröfubréfi lögmanns hennar til vátryggingafélagsins enda nægur fyrirvari gerður þegar aðrar bætur voru greiddar. Engra gagna naut í málinu um það hvaða launaviðmiðun gæti almennt verið réttlætanleg vegna heimilisstarfa en krafa D um meðaltekjur verkamanna þótti ekki úr hófi og því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. maí 2002 og krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum gagnáfrýjanda en til vara að þær verði lækkaðar. Þeir krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 4. júlí 2002 og krefst þess að aðaláfrýjendur greiði sér skaðabætur aðallega að fjárhæð 3.267.219 krónur en til vara 2.501.967 krónur, með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 29. nóvember 1998 til 23. apríl 2001 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, og til þrautavara að héraðsdómur verði staðfestur. Gagnáfrýjandi krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt fyrir báðum dómstigum.
Svo sem í héraðsdómi greinir lenti gagnáfrýjandi í umferðarslysi 29. nóvember 1998 og hlaut af nokkur meiðsl. Lögmaður hennar krafði vátryggingafélagið um bætur og samþykkti félagið kröfuna að öðru leyti en því að það taldi að miða ætti bætur vegna varanlegrar örorku við 8. gr. skaðabótalaga en ekki 5.7. gr. Stendur ágreiningur aðila um þetta, svo og um kröfu vegna tímabundinnar örorku, sem ekki var gerð í bréfi lögmannsins. Einnig deila málsaðilar um hvaða árslaun skuli miða við, verði fallist á sjónarmið gagnáfrýjanda.
Fram er komið í málinu að gagnáfrýjandi sinnti eingöngu heimilisstörfum og hafði því nýtt vinnugetu sína þannig að hún hafði engar eða takmarkaðar vinnutekjur, eins og segir í 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga. Fer því um bætur til hennar eftir þeirri lagagrein enda er ekki unnt að fallast á að hún hafi verið atvinnulaus þegar slysið varð þannig að 2. mgr. 7. gr. laganna eigi við um hana. Ágreiningslaust er að bætur eftir 8. gr. laganna séu að fullu greiddar og verður aðaláfrýjandi því sýknaður af þessum kröfulið.
Gagnáfrýjandi átti rétt á bótum fyrir tímabundna örorku, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 2. gr. skaðabótalaga. Fallast ber á með héraðsdómi að hún hafi ekki firrt sig þessum rétti þegar krafa um þær var ekki gerð í kröfubréfi lögmannsins til vátryggingafélagsins, enda var nægur fyrirvari gerður þegar aðrar bætur voru greiddar. Engra gagna nýtur í málinu um það, hvaða launaviðmiðun gæti almennt verið réttlætanleg vegna heimilisstarfa. Hvað sem því líður verður krafa gagnáfrýjanda um meðaltekjur verkamanna ekki talin úr hófi. Verður þessi kröfuliður því tekinn til greina og verður aðaláfrýjendum gert að greiða gagnáfrýjanda 584.064 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður málskostnaður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, Ragnheiður Hákonardóttir og Tryggingamiðstöðin hf., greiði gagnáfrýjanda, Dönu Garovic, 584.064 krónur með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 29. nóvember 1998 til 23. desember 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2002.
Mál þetta var höfðað 23. nóvember 2001 og dómtekið 19. f.m.
Stefnandi er Dana Garovic, kt. 020364-2039, Borgmester Jensen´s Allé 2, Kaupmannahöfn, Danmörku.
Stefndu eru Ragnheiður Hákonardóttir, kt. 180354-3369, Urðavegi 33, Ísafirði og Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefndu aðallega að upphæð 3.267.219 krónur en til vara að upphæð 2.501.967 krónur, í báðum tilvikum með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 5071993 frá 29. nóvember 1998 til 23. apríl 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 2571987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 3872001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 9. október 2001.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar en til vara að kröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Málið varðar ákvörðun bóta vegna umferðarslyss sem stefnandi varð fyrir 29. nóvember 1998. Hún var farþegi í bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á mótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar, er bifreið stefndu, Ragnheiðar Hákonardóttur, AB-081, sem var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., var ekið aftan á hana.
Stefnandi er fædd í Trebinje í fyrrum Júgóslavíu. Hún lauk lögfræðiprófi frá háskólanum í Kragujevac í Serbíu árið 1987 og starfaði að því loknu í tvö ár sem skólalögfræðingur (að eigin sögn) í heimabæ sínum. Hún fluttist til Íslands 1989 með eiginmanni sínum sem fékk starf hér. Hún starfaði ekki utan heimilis. Hún eignaðist tvö börn, hið fyrra 1990 og hið síðara 1995. Þann 13. febrúar 1993 var ekið aftan á bifreið stefnanda á Reykjanesbraut. Hún fékk þá fremur slæma hálstognun auk minniháttar tognunar á mjóbak. Í kjölfarið fylgdi útbreitt verkjaheilkenni með mjög miklum og þrálátum óþægindum í nánast öllu stoðkerfi auk svefntruflana og depurðareinkenna. Vegna þessa umferðarslyss var stefnandi metin til 15% varanlegrar örorku. Við skýrslutöku við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi hafa verið ófær um heimilisstörf í meira en eitt ár eftir þetta slys en eftir síðara slysið hafi hún verið lengur ófær um að sinna þeim. Stefnandi fluttist með fjölskyldu sinni til Danmerkur árið 1999. Þar hefur stefnandi stundað dönskunám og starfað í tæpt ár, þ.e. frá maí 2001 til mars 2002, sem ritari og þýðandi í sendiráði en hafði áður fengið atvinnuleysisbætur. Hún skýrði svo frá að hún þráði að fá starf sem lögfræðingur og hefði leitað fyrir sér og væri dönskunámið áfangi að því marki. Skýrsluna, sem var tekin í gegnum síma þar sem stefnandi var í Danmörku, gaf stefnandi á ensku og var hún þýdd af dómtúlki en stefnandi mun ekki hafa lært íslensku.
Læknarnir Leifur N. Dungal og Jónas Hallgrímsson voru fengnir til að meta afleiðingar slyssins 29. nóvember 1998 á heilsu stefnanda með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Matsgerð þeirra er dagsett 22. janúar 2001. Þar segir að stefnandi geti sinnt léttustu heimilisstörfum en fái aðstoð með öll erfiðari störfin. Einkenni stefnanda vegna fyrra slyssins hafi samkvæmt frásögn hennar rénað lítillega en þó hafi hún búið áfram við víðtæk óþægindi frá stoðkerfi auk svefntruflana og þunglyndiseinkenna. Við síðara slysið hafi öll fyrri einkenni stefnanda ýfst upp og hafi meðferðartilraunir lítil áhrif haft á gang mála. Þannig séu meira áberandi óþægindi frá mjóbaki og lendum og við skoðun sé hreyfihindrun í mjóbaki sem ekki hafi verið lýst áður. Þá sé lýsing stefnanda á auknum einkennum frá höfði og hálsi trúverðug sem og aukin þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Ljóst sé að vegna bágs ástands stoðkerfis stefnanda hafi afleiðingar síðara slyssins orðið alvarlegri en ella hefði mátt vænta.
Niðurstaða matsmanna varðandi varanlegan miska (skv. 4. gr. skaðabótalaga) var að hann teldist hæfilega metinn 10% vegna aukningar einkenna. Matsmenn töldu að um einhvern bata hefði verið að ræða á fyrstu mánuðunum eftir slysið 19. nóvember 1998 og áætluðu jafnframt að ekki hefði verið að vænta frekari bata þegar fjórir mánuðir voru liðnir frá slysdegi (stöðugleikatímapunktur). Þjáningabætur (samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga) miðist samkvæmt þessu við fjóra mánuði. Tímabundið atvinnutjón var metið ekkert með þeim rökum að stefnandi hafi ekkert unnið síðustu árin fyrir slysið og teldist ekki hafa verið um tímabundið atvinnutjón að ræða af þess völdum. Um mat á varanlegri örorku segir að lítið sé við að styðjast þar sem atvinnusaga stefnanda komi að litlu haldi. Ljóst virðist að einkenni hennar séu slík að hún geti lítið eða ekki unnið líkamlega erfið störf og að geta hennar til náms og þar með aðlögunar í nýju samfélagi sé til frambúðar talsvert skert. Sennilegt sé að fyrra slysið vegi hér nokkru þyngra en það síðara og telja matsmenn ekki forsendur til að meta örorku (skv. 5. gr. skaðabótalaga) öðru vísi en miska og telst hún þannig einnig vera 10%.
Lögmaður stefnanda krafði stefnda, Tryggingamiðstöðina hf., með bréfi 23. mars 2001 um bætur á grundvelli matsgerðar þessarar fyrir þjáningabætur, miska og varanlega örorku. Í svarbréfi stefnda 30. mars 2001 kom fram samþykki við kröfugerðinni að því undanskildu að félagið taldi að miða ætti bætur vegna varanlegrar örorku við 8. gr. skaðabótalaga en ekki 5.-7. grein eins og kröfugerðin miðaðist við þar sem stefnandi hefði ekki aflað vinnutekna utan heimilis a.m.k. sl. ellefu ár. Lögmaður stefnanda veitti fyrir hennar hönd viðtöku skaðabóta frá hinu stefnda tryggingafélagi þ. 6. apríl 2001. Uppgjörið fól ekki í sér greiðslu vegna tímabundins atvinnutjóns og bætur vegna varanlegrar örorku námu 532.896 krónum samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga í stað 2.996.000 króna samkvæmt 5.-7. gr. eins og krafist hafði verið. Lögmaðurinn gerði fyrirvara vegna bóta fyrir varanlega örorku og tímabundið atvinnutjón vegna heimilisstarfa.
II
A
Ágreiningur aðila varðar annars vegar skyldu til bótagreiðslu vegna tímabundins atvinnutjóns og við hvaða tekjur skuli miða og hins vegar hvort bætur vegna varanlegrar örorku skuli ákveðnar samkvæmt 5.-7. gr skaðabótalaga nr. 50/1993 eða 8. gr. þeirra svo og hvaða árslaun skuli lögð til grundvallar útreikningi verði fyrrgreindur kostur metinn réttur. Kröfugerð stefnanda sætir ekki tölulegum andmælum. Það sætir heldur ekki ágreiningi að bætur vegna varanlegrar örorku séu þegar að fullu greiddar verði niðurstaða sú að þær skuli ákvarðaðar samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga.
Aðalkrafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
|
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl. |
|
|
4x146.016.- |
kr. 584.064.- |
|
2. Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. skbl. |
|
|
2.960.952 x 6% = 177.657.- |
|
|
3.138.609 / 3817 x 4298 = 3.534.121.- |
|
|
3.534.121 x 10 x 10% = 3.534.121.- |
|
|
9% frádráttur vegna aldurs: |
|
|
3.534.121 318.070 = 3.216.051.- |
|
|
frádr. innb. stefnda TM hf. 6.4.01 kr. 532.896 |
-2.683.182,- |
|
Samtals |
kr. 3.267.219.- |
Varakrafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
|
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl. |
|
|
4x146.016.- |
kr. 584.064.- |
|
2. Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. skbl. |
|
|
2.256.400.- x 6% = 135.384.- |
|
|
2.391.784.- / 3817 x 4298 = 2.693.185.- |
|
|
2.693.185.- x 10 x 10% = 2.693.185.- |
|
|
9% frádráttur vegna aldurs: |
|
|
2.693.185 242.386 = 2.450.799.- |
|
|
frádr. innborgun stefnda TM hf. 6.4.01 |
|
|
2.450.799 532.896 = 1.917.903.- |
-1.917.903.- |
|
Samtals |
kr. 2.501.967.- |
Verður nú greint frá málsástæðum aðila jafnfram því sem tekin verður afstaða til framangreindra ágreiningsefna.
B
Krafa stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns er á því reist að hún hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa vegna afleiðinga slyssins eins og fram komi í læknisfræðilegum gögnum. Tekjuviðmiðun sé meðaltekjur verkamanna á árinu 1998, þ.e. 146.016 krónur á mánuði (árslaun verkamanna 1998 1.752.192 krónur). Um tímalengd er tekið mið af þjáningatímabili samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar og Leifs N. Dungal, þ.e. fjórir mánuðir, enda hafi stefnandi verið óvinnufær til heimilisstarfa sama tímabil.
Það er málsástæða af hálfu stefndu að stefnandi sé bundinn við kröfugerð sína í bréfi lögmanns hennar 23. janúar 2001 en þar hafi ekki verið gerð krafa vegna tímabundins tjóns og enginn áskilnaður gerður um að koma síðar fram með slíka kröfu. Einnig er því mótmælt að slík krafa, fáist hún viðurkennd, verði miðuð við meðallaun verkamanna heldur hljóti tjónsfjárhæðin að verða mun lægri. Verði fallist á kröfuliðinn að einhverju leyti geti stefnandi ekki átt rétt á dráttarvöxtum af honum nema í fyrsta lagi frá því einum mánuði eftir stefnubirtingu þar sem krafan hafi ekki verið gerð fyrr en þá.
Niðurstaða.
Ekki er fallist á að stefnandi hafi verið firrt rétti til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón með því að krafa um þær voru ekki hafðar uppi í kröfubréfi lögmanns hennar enda var gerður fyrirvari að þessu leyti er hluta tjónsbótanna var veitt viðtaka.
Er stefnandi slasaðist stundaði hún ekki launaða atvinnu heldur sinnti einvörðungu heimilisstörfum. Á grundvelli 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á hún engu að síður rétt til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. sömu laga. Tímalengd, sem kröfugerðin miðast við, sætir ekki sérstökum andmælum og verður við hana miðað, þ.e. fjóra mánuði, í samræmi við læknisfræðileg gögn málsins og 1. mgr. i.f. 2. gr. skaðabótalaga.
Af hálfu stefnanda hefur verið lagður fram útreikningur Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings 19. mars 2002 á tímabundnu tjóni stefnanda. Við útreikninginn er miðað við að stefnandi hafi eingöngu stundað heimilisstörf og haft tvö börn í heimili. Þá er miðað við lágmarkslaun, 90.000 krónur á mánuði, samkvæmt taxta Eflingarstéttarfélags. Segir að lokum í skýrslu tryggingafræðingsins að tap af fjögurra mánaða fjarveru mundi vera 360.000 krónur. Viðmiðun tryggingafræðingsins styðst við dómvenju og er fallist á niðurstöðu hans. Verður kröfuliðurinn tímabundið atvinnutjón því tekinn til greina með 360.000 krónum.
C
Kröfu sína um bætur vegna varanlegrar örorku byggir stefnandi á því að 8. gr. skaðabótalaga sé undantekningarákvæði sem verði ekki beitt um þá sem geti fallið undir 5.-7. gr. sömu laga og er einkum vísað til þess að í athugasemdum með 2. mgr. 7. gr. fumvarpsins, sem varð að skaðabótalögum nr. 50/1993, segi: “Bætur fara enn fremur eftir mati þegar tjónþoli var atvinnulaus er hann varð fyrir líkamstjóni.” Stefnandi hafi verið atvinnulaus er hún varð fyrir því slysi, sem um ræðir í málinu, m.a. vegna afleiðinga slyss sem hún hafi orðið fyrir nokkrum árum áður. Hún hafi enn verið atvinnulaus er hún hafi flust til Danmerkur eftir síðara slysið og varanleg örorka hennar orðin samanlagt 25%. Meginástæða þess að stefnandi fluttist frá Íslandi hafi verið sú að freista þess að fá atvinnu sem samræmdist líkamlegu ástandi og menntun hennar þar sem henni hafi verið orðið ljóst að slíka vinnu fengi hún ekki hérlendis.
Tekjuviðmiðun í útreikningi aðalkröfu er meðaltekjur lögfræðinga í starfi hjá hinu opinbera. Sú viðmiðun er reist á því að stefnandi hafi lokið háskólaprófi í lögfræði en lögfræðinám sé öðrum þræði alþjóðlegt og komi að miklu gagni í fjölmörgum störfum og auki kosti stefnanda á vel launuðu starfi. Þá hafi stefnandi víðtæka tungumálakunnáttu. Stefnanda standi því margar dyr opnar varðandi atvinnu á tímum vaxandi alþjóðavæðingar og milliríkjasamvinnu. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna sé ætlað að tryggja að þeir, sem séu atvinnulausir, fari ekki undir 8. gr. laganna auk þess að lagðar séu til grundvallar árstekjur sem greiddar hafi verið í starfsgrein viðkomandi fyrir slysið.
Varakrafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku byggist á því að verði aðalkrafan ekki tekin til greina verði hvað sem öðru líður að fallast á tekjuviðmiðið meðaltekjur iðnaðarmanna sem séu nálægt almennum meðaltekjum launþega hér á landi.
Kröfugerð stefndu að þessu leyti er reist á því, sem segir í 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaganna, að bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skuli ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna, þ.e. sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir reglum 1.- 4. málsliðar 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaganna. Því er mótmælt að stefnandi hafi verið atvinnulaus þegar hún varð fyrir slysinu 29. nóvember 1998 og falli þar af leiðandi undir 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Forsenda þess að geta talist atvinnulaus í skilningi greinarinnar hljóti að vera sú að hafa stundað atvinnu að einhverju marki fyrir slys sem ekki sé raunin með stefnanda en hún hafi aldrei unnið launað starf á þeim tíu árum sem hún átti heima hér á landi.
Verði talið að 5.-7. gr. skaðabótalaganna eigi við um varanlegu örorkuna er því hafnað af hálfu stefndu að miðað verði við meðaltekjur lögfræðinga í ríkisþjónustu við útreikning tjónsins. Stefnandi hafi ekki fengið vinnu hér á landi sem samsvari lögfræðinámi hennar og engin breyting orðið í því efni þrátt fyrir búferlaflutning til Danmerkur. Það er mat stefndu að hér geti í mesta lagi komið til álita að miða við meðaltekjur verkamanna 1998.
Niðurstaða.
Stefnandi hafði engar vinnutekjur á næstliðnu ári fyrir þann dag sem tjón varð, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og ræðst niðurstaða þess hvort bætur henni til handa vegna varanlegrar örorku verði reistar á 5.-7. gr. skaðabótalaga á því hvort svo verði litið á að hún hafi verið atvinnulaus, sbr. áður tilgreindar athugasemdir frumvarps að skaðabótalögunum varðandi 2. mgr. 7. gr. þeirra.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að tilraun hennar til að vinna að framreiðslustörfum hefði strandað á því að hún hafði þá ekki atvinnuleyfi. Hún kvaðst hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt við aðra umsókn eftir sjö ára búsetu hérlendis.
Ekki eru efni til að draga í efa vilja stefnanda til að stunda atvinnu og samkvæmt skattframtölum voru atvinnutekjur eiginmanns hennar ekki háar. Lítil íslenskukunnátta stefnanda og örorka hennar eftir slysið 13. febrúar 1993 hafa þrengt kosti hennar til að fá atvinnu eða útilokað þá með öllu. Þau ummæli hennar í dómskýrslu að hún hafi hugsað sér “að læra málið og starfa sem lögfræðingur” bera hins vegar vott um óraunhæfar væntingar.
Að því leyti sem hér á reynir verða ekki séð rök fyrir því að leggja beri þrengri merkingu í það að vera atvinnulaus en þá að takast ekki að fá atvinnu við hæfi. Stefnandi verður því talin hafa verið atvinnulaus og bæturnar ákvarðaðar samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga. Árslaunin skulu metin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna.
Lögfræðimenntun nýtist ekki að marki til starfa utan þess lands þar sem numið hefur verið komi ekki til sérhæfing auk almenns laganáms sem ekki er upplýst að stefnandi hafi öðlast. Þá er fram komið að starfsreynsla stefnanda að loknu lögfræðiprófi 1987 er lítil. Samkvæmt þessu er ekki fallist á þá viðmiðun sem aðalkrafa stefnanda er reist á. Hins vegar er fallist á tekjuviðmiðun samkvæmt varakröfu hennar þar sem meðaltekjur iðnaðarmanna verða taldar almennar meðaltekjur launþega hér á landi og styðst sú viðmiðun við dómvenju. Kröfuliður þessi er því tekinn til greina með 1.917.903 krónum.
D
Niðurstaða málsins er samkvæmt framangreindu sú að dæma beri stefndu til að greiða stefnanda óskipt 2.277.903 (360.000 + 1.917.903) krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefndu til að greiða óskipt málskostnað, sem er ákveðinn 400.000 krónur, í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði en útlagður og áætlaður kostnaður nemur 25.950 krónum.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Ragnheiður Hákonardóttir og Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Dönu Garovic, 2.277.903 krónur með 2% vöxtum samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 360.000 krónum frá 29. nóvember 1998 til 23. desember 2001 en af 1.917.903 krónum frá 29. nóvember 1998 til 23. apríl 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af síðargreindri fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 23. desember 2001 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.277.903 krónum til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt 400.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.