Hæstiréttur íslands
Mál nr. 345/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 345/2002. |
Jóhannes Helgi Einarsson(sjálfur) gegn Erni Scheving (enginn) |
Kærumál. Útburðargerð.
Hæstiréttur féllst á kröfu Ö um að honum yrði heimilað að fá J borinn með beinni aðfarðargerð út úr íbúð í sinni eigu. Höfðu Ö og J gert samkomulag um að J myndi rýma íbúðina fyrir nánar tiltekinn tíma. Var Ö talinn hafa sýnt fram á það að hann ætti rétt til að fá umráð íbúðarinnar úr hendi J í samræmi við samkomulagið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út úr nánar tilgreindri íbúð að Sjávargrund 5b í Garðabæ. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er óumdeilt í málinu að Eignaþjónustan, einkafirma varnaraðila, sé eigandi þeirrar íbúðar, sem krafa hans um heimild til útburðargerðar varðar. Í málinu hefur sóknaraðili ekki fært fram haldbær rök fyrir því að hann njóti réttar til að halda umráðum yfir þessari íbúð í andstöðu við vilja varnaraðila. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðila, Erni Scheving, er heimilt að fá sóknaraðila, Jóhannes Helga Einarsson, borinn með beinni aðfarargerð út úr íbúð að Sjávargrund 5b í Garðabæ.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2002.
Með aðfararbeiðni, sem barst dóminum 24. maí s.l. hefur gerðarbeiðandi, Örn Scheving, kt. 080333-3909, Lindargötu 44, Reykjavík, vegna einkafirma síns Eignaþjónustunnar, fasteignasölu, kt. 450173-0109, krafist dómsúrskurðar um að gerðarþoli, Jóhannes Helgi Einarsson, kt. 080163-4879, Baugholti 13, Keflavík, verði ásamt öllu sem honum tilheyrir borinn út úr íbúð 010206, að Sjávargrund 5b, Garðabæ, með beinni aðfarargerð. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar.
Gerðarþoli krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að kröfu gerðarbeiðanda verði synjað.
Við fyrstu fyrirtöku máls þessa 12. júní sl. fékk gerðarþoli frest til 21. júní sl. til að leggja fram greinargerð. Þegar málið var tekið fyrir þann dag, lagði gerðarþoli ekki fram greinargerð sína en óskaði eftir lengri fresti og var því mótmælt af hálfu gerðarbeiðanda. Að mati dómara hafði gerðarþoli ekki sýnt fram á að hann hefði varnir í málinu sem réttlættu frekari fresti, sbr. meginreglu 83. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, og synjaði því um frekari fresti. Var málið því tekið til úrskurðar að kröfu gerðarbeiðanda.
I.
Gerðarbeiðandi lýsir málavöxtum svo að með samkomulagi 7. september 2001 hafi gerðarþoli skuldbundið sig til að rýma umrædda íbúð eigi síðar en 30. september 2001. Með símskeyti 2. maí 2002 hafi gerðarbeiðandi krafist þess með vísan til ofangreinds samkomulags að gerðarþoli rýmdi íbúðina eigi síðar en 15. maí 2002. Með símskeyti 17. maí 2002 hafi verið brýnt fyrir gerðarþola að rýma íbúðina þá þegar og skila henni til gerðarbeiðanda eigi síðar en 22. maí 2002, klukkan 12 á hádegi. Kveður gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi ekki rýmt íbúðina og sé því krafa um útburð sett fram.
Gerðarbeiðandi kveðst reisa kröfu sína á áður greindu samkomulagi og uppsagnarsímskeytum. Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til almennra reglna um loforð og samninga.
Gerðarþoli hefur ekki lagt fram nein gögn af sinni hálfu. Mótmælti hann kröfu gerðarbeiðanda á þeirri forsendu að hann væri ekki réttur aðili máls þessa þar sem hann byggi ekki lengur í viðkomandi íbúð, en þar byggi nú annar maður. Krafðist gerðarþoli frávísunar málsins á þessari forsendu en til vara að kröfu gerðarbeiðanda yrði hafnað.
II.
Af gögnum málsins má ráða að þinglesinn eigandi umræddrar íbúðar er Eignaþjónustan, fasteignasala og ennfremur að um er að ræða einkafirma gerðarbeiðanda.
Samkvæmt samkomulagi sem aðilar máls þessa gerðu 7. september 2001 bar gerðarþola að rýma íbúðina fyrir 30. september 2001 ef hann hefði ekki gert upp, fyrir 26. september sama ár, áfallna dráttarvexti og gjöld vegna íbúðarinnar sem gerðarbeiðandi hafi greitt. Er þá einnig tekið fram að innborganir sem gerðarþoli hafi greitt verði endurgreiddar að frádregnu leigugjaldi frá 1. október 1998 til afhendingardags. Samkvæmt uppgjörsblaði sem gerðarbeiðandi hefur lagt fram í málinu virðist umsamin húsaleiga og gjöld vegna fasteignarinnar nema hærri upphæð en nemur tilgreindum innborgunum gerðarþola. Þessu uppgjöri var ekki mótmælt tölulega af hálfu gerðarþola. Gerðarþoli hefur ekki heldur borið brigður á að hann hafi dvalið í nefndu húsnæði. Mun það hafa verið ætlan gerðarþola að kaupa húsnæðið af gerðarbeiðanda en vegna vanskila hafi aðilar gert með sér fyrrnefnt samkomulag þann 7. september 2001. Gerðarbeiðandi hefur lagt fram tvö símskeyti sem hann kveðst hafa sent gerðarþola með áskorun um að rýma íbúðina. Gerðarþoli hefur ekki borið brigður á það að hafa móttekið þessi símskeyti. Var gerðarþola síðast veittur frestur til 22. maí sl. til að afhenda gerðarbeiðanda umráð íbúðarinnar. Er það mat dómsins að gerðarbeiðandi hafi sýnt fram á það með fullnægjandi gögnum að hann eigi rétt til að fá umráð nefndrar húseignar úr hendi gerðarþola, í samræmi við það samkomulag sem komst á milli aðila, enda hefur gerðarbeiðandi veitt gerðarþola umtalsverðan frest umfram það sem greinir í nefndu samkomulagi. Sú málsvörn gerðarþola að hann búi ekki lengur á eigninni heldur annar maður, gagnast honum ekki þar sem hann hefur ekki sýnt fram á það eða gert það líklegt að hann hafi þegar afhent umrædda íbúð gerðarbeiðanda.
Með vísan til framanritaðs er það mat dómsins að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 séu fyrir hendi og fallast beri á kröfu sóknaraðila um aðfarargerð.
Gerðarþoli skal greiða gerðarbeiðanda 45.000 krónur í málskostnað.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hin umbeðna gerð má fara fram.
Gerðarþoli Jóhannes Helgi Einarsson, greiði gerðarbeiðanda, Erni Scheving, 45.000 krónur í málskostnað.