Hæstiréttur íslands
Mál nr. 634/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 10. desember 2007. |
|
Nr. 634/2007. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Stefán Bogi Sveinsson hdl.) |
Kærumál. Framsal. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms, um að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. nóvember 2007 um að framselja X til Litháen, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2007, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. nóvember 2007, um að framselja varnaraðila til Litháen. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hann verði ekki framseldur til Litháen. Þá er þess krafist að réttargæslumanni varnaraðila verði úrskurðuð þóknun vegna kærumálsins.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að varnaraðili greiði honum kærumálskostnað.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Dómsmálaráðherra tók ákvörðun 13. nóvember 2007 um að framselja varnaraðila til litháískra dómsmálayfirvalda.
Í þeirri undirstöðureglu íslenskrar stjórnskipunar, sem nefnd er lögmætisreglan, felst að íþyngjandi ákvörðun, eins og framsal sakamanns, verður að byggjast á skýrri lagaheimild. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum.
Ágreiningsefni málsins lýtur að því að varnaraðili telur að skýra beri skilyrði lagaákvæðisins um að verknaður geti „varðað fangelsi í meira en eitt ár“ svo að dómstólum beri að meta verknaðinn, sem manni er gefinn að sök og hvaða refsingu hann myndi hljóta, hefði málið komið fyrir íslenska dómstóla. Sóknaraðili telur á hinn bóginn að ákvæðið vísi til refsiramma hlutaðeigandi lagaákvæðis. Verði verknaður heimfærður undir lögbundna refsiheimild sem hefur hærri refsiramma en eitt ár sé skilyrði 1. mgr. 3. gr. laganna uppfyllt.
Við val á milli þessara lögskýringarleiða verður í fyrsta lagi að hafa í huga að í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 13/1984, er tekið fram að það sé samið í tengslum við væntanlega aðild Íslands að samningum Evrópuráðsins um framsal sakamanna. Þá er vikið að því að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna sé framsalsskylda bundin við ákveðinn refsiramma þannig að afbrotið geti varðað eins árs fangelsi.
Í ljósi samræmis og jafnræðis í lagaframkvæmd verður heldur ekki fram hjá því litið að Hæstiréttur hefur áður lagt til grundvallar að framsal sakamanns í sambærilegu máli yrði reist á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 og væri af þeim sökum heimilt, þótt þar sé ekki vikið að þeirri lögskýringu sem hér er til umfjöllunar, sbr. dóm 25. febrúar 2005 í máli nr. 65/2005, sem birtur er í dómasafni þess árs bls. 823. Þá staðfesti Hæstiréttur í öðru máli úrskurð héraðsdóms um framsal manns þar sem heimfærsla til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 var miðuð við hámarksrefsingu samkvæmt refsiramma þess lagaákvæðis, sem ætlað brot var talið varða við, sbr. dóm 11. maí 2005 í máli nr. 192/2005, sem birtur er í dómasafni þess árs bls. 1980.
Loks verður að líta til þess hvernig ákvæði með sambærilegu orðalagi hafa verið skýrð í réttarframkvæmd. Þannig er til dæmis lögbundið í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar að íslenskur ríkisborgari verði aðeins framseldur að þyngri refsing en fjögurra ára fangelsi liggi við brotinu eða samsvarandi broti eftir íslenskum lögum. Í dómi Hæstaréttar 31. júlí 1979 í máli nr. 137/1979, sem birtur er í dómasafni þess árs bls. 882, var við skýringu ákvæðisins miðað við refsiramma þeirra refsiheimilda sem deilt var um hver ætti við í málinu. Þá má einnig nefna að í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er að finna ýmis ákvæði með sambærilegu orðalagi sem skýrð eru þannig að þau vísi til refsiramma.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar ber að staðfesta hann um annað en þóknun skipaðs réttargæslumanns.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Stefáns Boga Sveinssonar héraðsdómslögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 311.250 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I.
Í 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna koma fram skilyrði þess að heimila megi framsal manns frá Íslandi. Í 1. mgr. 3. gr. segir meðal annars: „Framsal á manni er aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.“ Texta ákvæðisins má túlka á tvo vegu um skilyrði þess að stjórnvöldum sé unnt að heimila framsal. Annars vegar á þá lund að meta þurfi, óháð refsiramma viðeigandi refsiákvæðis, hver líkleg niðurstaða um refsingu yrði að íslenskum lögum fyrir þann verknað sem framsalsbeiðni er reist á. Hins vegar er sá skýringarkostur að miða skuli við refsiramma viðkomandi íslensks refsiákvæðis sem verknaður varðar við, þannig að öll brot gegn ákvæðum íslenskra laga, er hafa að geyma a.m.k. eins árs fangelsi sem efri mörk refsiramma, geti hlutrænt séð orðið tilefni framsals að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Málsástæðum og lagarökum málsaðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Af hálfu sóknaraðila hefur meðal annars verið bent á að lögskýringargögn styðji síðari skýringarkostinn. Hafa megi í huga að í athugasemdum með 1. mgr. 3. gr. laganna sé vísað til 2. gr. evrópusamnings um framsal sakamanna. Þá vísar sóknaraðili til almennra athugasemda með lögunum en þar segir meðal annars að: „samkvæmt 1. mgr. 2. gr. samningsins er framsalsskyldan bundinn við ákveðinn refsiramma þ. e. að afbrotið geti varðað 1 árs fangelsi ...“ Samkvæmt þessu hafi tilgangur löggjafans með setningu ákvæðisins verið sá að miða eigi við refsihámark viðkomandi íslensks lagaákvæðis þegar metin eru skilyrði fyrir framsali.
Varnaraðili hefur á hinn bóginn meðal annars bent á að rök mæli með því að fyrri skýringarkosturinn sé réttur. Óeðlilegt sé að refsirammi skuli einn ráða því hvort framsal sé mögulegt, enda rúmist margvísleg háttsemi innan þess refsiákvæðis sem beiðni um framsal er reist á. Fari því fjarri að háttsemi varnaraðila, sem lýst sé í framsalsbeiðni, geti leitt til eins árs fangelsis að íslenskum lögum.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnarskrárinnar skal birta lög. Þá er það undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar að stjórnvöld eru bundin af lögum við sýslan sína. Í þessari reglu, sem almennt er nefnd lögmætisreglan, felst annars vegar að ákvarðanir stjórnvalds verða að eiga stoð í lögum og hins vegar að þær mega ekki vera í andstöðu við lög. Þýðingarmikill kjarni reglunnar er fólginn í því að stjórnvöld geta ekki íþyngt mönnum með ákvörðunum sínum nema hafa til þess viðhlítandi heimildir í lögum. Við skýringu á valdheimildum stjórnvalda er almennt á því byggt að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er þurfi að gera strangari kröfur til þess að lagaheimild sem ákvörðun er reist á sé skýr. Séu uppi tveir kostir við skýringu á texta lagaheimildar skuli velja þann sem hagkvæmari er þeim manni sem valdbeiting stjórnvalds beinist að.
Ákvæði laga nr. 13/1984 hafa að geyma ýmis skilyrði sem uppfylla verður til að heimila stjórnvöldum framsal einstaklinga. Er meðal annars ljóst að lögin ganga út frá því að alvarleiki brots sem framsalsbeiðni er reist á skipti máli þegar afstaða er tekin til hennar. Eðli málsins mælir með því að þá beri að meta brotið sjálft sem um ræðir og alvarleika þess fremur en refsiramma þess lagaákvæðis sem brot varðar við að íslenskum lögum. Ef miðað væri við refsirammann, en ekki ætlaða refsingu fyrir brotið sjálft, myndi það leiða til mismunandi afgreiðslu á tveimur málum, þar sem brot yrði talið varða sömu refsingu hér á landi, ef annað brotanna varðaði við lagaákvæði með víðum refsiramma en hitt við lagaákvæði með þröngum. Lögskýring sóknaraðila myndi leiða til þess að heimilt yrði talið að framselja menn vegna smávægilegra brota, aðeins ef þau teldust að íslenskum lögum falla undir refsiákvæði með víðum refsiramma. Svo dæmi sé tekið mætti verða við beiðni um framsal manns sem væri sakaður um smáhnupl, í landinu sem framsals beiðist, einungis vegna þess að brotið yrði heimfært undir þjófnaðarákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsirammi er 6 ár. Hins vegar mætti ekki framselja mann sem sakaður væri um líkamsárás, sem talin væri falla undir fyrri málslið 1. mgr. 217. gr. sömu laga, þar sem refsiramminn þar er einungis 6 mánuðir. Þegar höfð er í huga stjórnskipuleg jafnræðisregla sem gildir hér á landi, meðal annars með vísan til 65. gr. stjórnarskráinnar, bendir eðli málsins mjög sterklega til þess að við skýringu á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 eigi að miða við mat á því til hverrar refsingar framsalsþoli telst hafa unnið að íslenskum lögum með því broti sem tilgreint er í framsalsbeiðni en ekki refsiramma. Einnig er ljóst að standi vilji löggjafans til þess að efni lagareglunnar sé með þeim hætti sem sóknaraðili vill miða við, er engum vandkvæðum bundið að kveða skýrt á um það í sjálfum lagatextanum sem birtur er almenningi. Það getur að okkar áliti ekki verið hlutverk dómstóla að gefa tvíræðum lagatexta þá merkingu, borgurum til íþyngingar, sem kann að hafa vakað fyrir löggjafanum við lagasetningu en ekki hefur tekist að orða með skýrum hætti.
Í atkvæði meirihluta dómara er vísað til tveggja hæstaréttardóma frá árinu 2005 og talið að ekki verði fram hjá þeim litið við afgreiðslu málsins. Hvorugur þessara dóma hefur að okkar mati fordæmisgildi um þá lögskýringu sem hér er til meðferðar, þar sem í forsendum þeirra er ekkert að henni vikið, enda hafði þetta álitaefni ekki verið nefnt af hálfu þeirra manna sem borið höfðu framsalsúrskurði dómsmálaráðherra undir dóm í þeim tilvikum. Teljum við að ekki komi til greina að hæstaréttardómur teljist hafa fordæmisgildi um atriði sem ekki eru borin upp við meðferð máls og koma af þeirri ástæðu ekki til sérstakrar umfjöllunar í dómi. Gildir þetta jafnvel þó að um kunni að vera að ræða atriði sem dómstólnum ber að gæta af sjálfsdáðum en hefur láðst að gera.
III.
Í máli þessu er til meðferðar stjórnvaldsákvörðun sem telst afar íþyngjandi fyrir varnaraðila og verður ekki reist á skírskotun til alþjóðlegs samnings í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 13/1984. Þá er heldur ekki unnt að fallast á með meirihluta dómara að texti ákvæða annarra íslenskra laga og framkvæmd þeirra leysi úr um lögskýringuna í þessu tilviki. Kemur þar hvort tveggja til að orðalag er ekki hið sama og þess ákvæðis sem hér er til athugunar en þó fremur að eðli þeirra ákvarðana sem um ræðir í nefndum lagaákvæðum er yfirleitt af öðrum toga en þeim sem hér um ræðir og lýst er að framan. Að þessu virtu, og þar sem orðalag umþrætts ákvæðis er óskýrt, verður að túlka það varnaraðila í hag þannig að meta þurfi hver líkleg niðurstaða um refsingu yrði að íslenskum lögum fyrir þau brot sem framsalsbeiðni er reist á óháð refsiramma viðeigandi lagaákvæðis. Fallist er á með varnaraðila að ætluð háttsemi hans, eins og henni er lýst í gögnum málsins, verði ekki talin geta varðað eins árs fangelsi að íslenskum lögum og geti því ekki orðið grundvöllur framsals. Samkvæmt þessu teljum við að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.
Við erum sammála atkvæði meirihlutans um sakarkostnað
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2007.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. nóvember 2007, að loknum munnlegum málflutningi, með vísan til 14. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 13. nóvember 2007, þar sem fallist er á beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um að sóknaraðili verði framseldur til Litháen. Sóknaraðili er X, kt. [...]. Varnaraðili er íslenska ríkið.
Sóknaraðili krefst þess að dómurinn úrskurði að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til framsals. Þá krefst réttargæslumaður þóknunar sér til handa að mati dómsins. Af hálfu varnaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 13. nóvember 2007 um að framselja sóknaraðila til Litháen.
I.
Sóknaraðili er 18 ára gamall litháískur ríkisborgari. Hinn 6. september 2007 barst dómsmálaráðuneytinu beiðni ríkissaksóknara Litháen um framsal sóknaraðila. Í framsalsbeiðninni, og gögnum sem fylgdu henni, kemur fram að sóknaraðili sætir rannsókn lögreglu í Raseiniaisýslu í Litháen vegna fimm þjófnaðarbrota sem hann er grunaður um að hafa framið í félagi við aðra á tímabilinu frá júlí til október árið 2006 með því að hafa brotist inn í íbúðarhús og atvinnuhúsnæði á tilgreindum stöðum í Raseiniai og haft á brott með sér nánar tilgreinda muni, samtals að verðmæti um 230.000 íslenskar krónur.
Hinn 25. september sl. kynnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sóknaraðila framsalsbeiðnina. Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, dags. 3. október sl., um að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984, ákvað dómsmálaráðherra hinn 8. október sl. að fallast á beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila. Sóknaraðila var kynnt ákvörðunin 13. október sl. og krafðist hann úrskurðar héraðsdóms um það hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september sl. var synjað kröfu sóknaraðila um að hrundið verði ákvörðun ráðuneytisins um framsal. Þeim úrskurði var hnekkt með dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember sl., í máli nr. 569/2007, þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. október sl., um framsal sóknaraðila til Litháen, var felld úr gildi.
Hinn 13. nóvember sl. tók dómsmálaráðuneytið á ný ákvörðun um að fallast á framangreinda beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila til Litháen. Í ákvörðun ráðuneytisins er vísað til þess að Hæstiréttur hafi fellt fyrri ákvörðun ráðuneytisins frá 8. október sl. úr gildi á þeim forsendum að sóknaraðili ætti mál til meðferðar hjá lögreglu hér á landi og því væri ekki heimilt að framselja hann, sbr. 10. gr. laga nr. 13/1984. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara sama dag og dómur Hæstaréttar var kveðinn upp hafi þeim málum sem voru til meðferðar verið lokið með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember sl. Var ríkissaksóknara falið að koma ákvörðun ráðuneytisins á framfæri við sóknaraðila.
Í þinghaldi 19. nóvember 2007, í máli nr. R-612/2007, vegna kröfu um farbann í tengslum við mál þetta, var sóknaraðila kynnt ákvörðun ráðuneytisins frá 13. nóvember sl. og lýsti hann því yfir að hann óski eftir úrskurði héraðsdóms um það hvort skilyrði framsals séu fyrir hendi.
Sóknaraðili var í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. september 2007 úrskurðaður í gæsluvarðhald í því skyni að tryggja nærveru hans meðan krafan um framsal væri til meðferðar. Þessi úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. september sl. í máli nr. 470/2007 en varnaraðila þess í stað bönnuð brottför frá landinu allt til 1. október sl. Farbanni sóknaraðila var framlengt, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember sl., sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 27. nóvember sl. í máli nr. 618/2007.
II.
Sóknaraðili byggir fyrst og fremst á því að mál hans vegna framsalsbeiðninnar frá 6. september sl. hafi verið endanlega til lykta leitt með dómi Hæstaréttar 12. nóvember sl. í máli nr. 569/2007. Í þessum dómi komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að skilyrði laga nr. 13/1984 fyrir framsali séu ekki uppfyllt. Sé það endanleg efnisniðurstaða málsins og því sé dómsmálaráðuneytinu óheimilt að taka nýja ákvörðun í málinu.
Sóknaraðili bendir á að Hæstiréttur Íslands fari með æðsta dómsvald hérlendis. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna, megi fara fram á úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um það hvort skilyrði laga til framsals séu fyrir hendi. Slíkur úrskurður sé kæranlegur til Hæstaréttar. Niðurstaða Hæstaréttar í slíku máli hljóti að vera endanleg niðurstaða, enda sé dómur kveðinn upp sem byggir á efnisástæðum. Í þessu tilviki sé svo enda hafi það verið niðurstaða dómsins að það að framselja kæranda stæðist ekki ákvæði 10. gr. laga um framsal sakamanna. Í málinu hafi aðeins tvær niðurstöður verið mögulegar. Annað hvort voru skilyrði framsalslaganna uppfyllt og þannig yrði ákvörðun dómsmálaráðuneytisins staðfest, eða þá að skilyrði laganna voru ekki uppfyllt og þá yrði ákvörðuninni hrundið. Í þessu máli hafi hið síðara verið niðurstaðan. Því hafi engin þörf verið á því, og raunar fráleitt, að dómsmálaráðuneytið tæki á ný ákvörðun í sama máli.
Sóknaraðili segir að Hæstiréttur hafi með dómi sínum metið hvort skilyrði framsals voru uppfyllt þegar ákvörðun var tekin upphaflega. Því breyti það engu um niðurstöðu þessa máls þótt undinn hafi verið að því bráður bugur að ljúka málum þeim sem voru til meðferðar á hendur kæranda. Dómur Hæstaréttar standi óhaggaður þrátt fyrir það. Því telur sóknaraðili að dómsmálaráðuneytið hafi engar lagalegar forsendur haft til þess að taka að nýju ákvörðun um það hvort framselja ætti hann til Litháen samkvæmt beiðni þarlendra yfirvalda.
Telji dómurinn að dómsmálaráðuneytinu hafi verið heimilt að taka ákvörðunina að nýju, byggir sóknaraðili á því að skilyrði laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna, séu ekki uppfyllt að því er varðar alvarleika brots sem honum er gefið að sök. Sóknaraðila sé gefið að sök að hafa brotist inn í fimm skipti í félagi við aðra og stolið raftækjum og ýmsu smálegu að verðmæti samtals 8840 lt., sem nemi u.þ.b. 230.000. kr., en hvergi í gögnum litháískra yfirvalda sé gerð nánari grein fyrir því hvort talið sé að þáttur hans í brotunum sé stór eða smávægilegur.
Sóknaraðili segir að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 þurfi brot að varða a.m.k. eins árs fangelsi hér á landi svo að framsal komi til greina. Sóknaraðili telur að þau brot sem liggi til grundvallar kröfu yfirvalda í Litháen séu svo smávægileg að þau uppfylli ekki skilyrði þessarar greinar.
Í úrskurði ráðuneytisins sé vísað til þess að brotin myndu hér á landi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, en hámarksrefsing eftir þeirri grein sé 6 ára fangelsi. Á þessum forsendum komist ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að framselja eigi kæranda.
Sóknaraðili telur að ekki sé eðlilegt að miða við refsihámark eftir ákvæði 244. gr. enda rúmist innan ákvæðisins margir gerningar og misalvarlegir. Sóknaraðili telur að 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 leggi íslenskum yfirvöldum og dómstólum þá skyldu á herðar að meta það brot sem einstaklingi er gefið að sök og hvaða refsingu sá einstaklingur myndi hljóta hefði málið komið fyrir íslenska dómstóla.
Þegar í umræddri grein sé vísað til íslenskra laga, telur sóknaraðili að augljóslega sé átt við íslensk lög í heild, íslenskar réttarheimildir. Það séu ekki aðeins sett lög sem vísað sé til heldur einnig venjur og fordæmi svo eitthvað sé nefnt. Á Íslandi gildi sú meginregla að það séu dómstólar sem ákveði refsingar. Þegar leita beri að refsingu samkvæmt íslenskum lögum verði því ekki hjá því komist að skoða niðurstöður dómstóla í sambærilegum málum.
Ef skoðaðir séu allir dómar á vefsíðu Hæstaréttar þar sem ákært er fyrir brot gegn 244. gr. hegningarlaga séu þeir alls 51 talsins. Í aðeins 17 þeirra hafi ákærðu verið dæmdir í 12 mánaða fangelsi eða meira og í öllum þeim tilfellum hafi ýmist verið um að ræða eitt af eftirtöldu: Að samhliða hafi verið ákært fyrir alvarlegri brot sem tæmdu sök, svo sem fíkniefnabrot, ofbeldisbrot eða kynferðisbrot. Ákærðu höfðu rofið skilorð eða skilyrði reynslulausnar. Ákærðu áttu langan sakaferil að baki, en sóknaraðili hafi hreinan sakaferil, bæði hér á landi sem og í Litháen. Sóknaraðili segir að eftir standi að Hæstiréttur hafi, frá því að hann fór að birta dóma sína á vefnum, engan dæmt í árs fangelsi eða meira fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, nema annað og meira komi til en þjófnaðarbrotið eitt og sér.
Af nýlegum dómum héraðsdóms, þar sem ákært var fyrir þjófnaðarbrot sem að nokkru geti talist sambærileg við brot sóknaraðila, er bent á dóma héraðsdóms í málum nr. S-901/2007 og S-512/2007. Í fyrra málinu hafi ákærði hlotið 4 mánaða fangelsi fyrir 9 brot, en með brotunum hafi hann rofið skilorð. Í síðara málinu hafi ákærði hlotið 6 mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn fyrir þjófnað á raftækjum að verðmæti 180.000 kr., en ákærði hefði tvívegis áður hlotið dóma fyrir þjófnað.
Í ljósi þessa telur sóknaraðili að skoða þurfi orðalagið í 1. mgr. 3. gr. sem er svohljóðandi: ,,Framsal á manni er aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.“ Þegar skoðaðar séu niðurstöður dómstóla í málum þar sem ákært hafi verið fyrir sambærileg brot og sóknaraðila séu gefin að sök verði ljóst að brot hans geti ekki varðað meira en eins árs fangelsi. Ef íslenskur dómstóll myndi taka upp á því að dæma einstakling í stöðu sóknaraðila í meira en eins árs fangelsi gengi sú niðurstaða í fullkomið berhögg við meginreglur réttarríkisins. Það sé algjörlega óhugsandi að þess konar niðurstaða fengist fyrir dómstóli hérlendis.
Þá ítrekar sóknaraðili þá afstöðu að ef vilji löggjafans við setningu framsalslaganna hafi staðið til þess að við mat á skilyrðum framsals yrði miðað við refsihámark eftir íslenskum hegningarlögum, þá hafi löggjafanum verið í lófa lagið að orða ákvæðið einmitt með þeim hætti. Það hafi ekki verið gert og allan vafa um inntak ákvæðisins, verði óhjákvæmilega að túlka sóknaraðila í hag.
Jafnframt telur sóknaraðili að hafa verði í huga að framsal sé mjög íþyngjandi aðgerð gagnvart sökuðum manni, sérstaklega í ljósi þess að hvorki hafi verið gefin út ákæra í máli hans né þáttur hans í meintum brotum upplýstur. Því telur hann ljóst að ekki sé unnt að byggja jafn íþyngjandi aðgerð og hér um ræðir, á jafn óskýrri lagaheimild.
Um kæruheimild er vísað til 14. gr. laga nr. 13/1984, sbr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
III.
Af hálfu varnaraðila er vísað til greinargerðar ríkissaksóknara, dags. 17. október sl., sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra málinu, þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. október sl. um framsal sóknaraðila var staðfest. Varnaraðili segir að úrskurður héraðsdóms hafi verið kærður til Hæstaréttar þar sem meirihluti dómsins hafi hinn 12. nóvember sl. komist að þeirri niðurstöðu að skilja ætti 10. gr. laga nr. 13/1984 svo að óheimilt væri að framselja sóknaraðila þar sem fram kæmi í gögnum málsins að til meðferðar væru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fjögur mál vegna ætlaðra brota hans hér á landi. Þeim málum hafi verið lokið með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness hinn 9. nóvember sl. Ekkert mál sé því nú til meðferðar hjá lögreglu vegna sóknaraðila. Á grundvelli þessa hafi dómsmálaráðherra tekið á ný ákvörðun um framsal sóknaraðila til Litháen.
Varnaraðili telur að skilyrðum laga nr. 13/1984 til framsals sé fullnægt. Þá liggi fyrir samkvæmt framansögðu að sóknaraðili eigi ekkert mál til meðferðar hjá lögreglu hér á landi.
Vegna þess sem fram kemur í dómi Hæstaréttar segir varnaraðili að ótvírætt sé að ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 vísi til refsiramma hlutaðeigandi lagaákvæðis, sbr. orðalagið „fangelsi í meira en 1 ár lögum samkvæmt“. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu segi jafnframt að takmörkun greinarinnar á framsali miðist við að afbrotið svari til verknaðar sem „samkvæmt íslenskum lögum“ geti varðað fangelsi í meira en 1 ár. Ákvæðið sé reist á 1. mgr. 2. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna, sem sé svohljóðandi: „Verða skal við framsalsbeiðni þegar um er að ræða afbrot sem að lögum þess aðila sem framsals beiðist og þess aðila sem framsalsbeiðni er beint til geta varðað frelsissviptingu eða öryggisráðstöfun í eitt ár eða þyngri refsingu. Þegar fangelsisrefsing hefur verið dæmd eða öryggisráðstöfun ákvörðuð á landsvæði þess aðila sem framsals beiðist, skal refsingin eða öryggisráðstöfun ákvörðuð á landssvæði þess aðila sem framsals beiðist, skal refsingin eða öryggisráðstöfun vera fjórir mánuðir hið minnsta.“ Ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé í samræmi við þetta, en þar sé það skilyrði sett að framsal til fullnustu refsidóms sé aðeins heimilt ef refsing samkvæmt dómi sé minnst 4 mánaða fangelsi. Um dómaframkvæmd að þessu leyti er vísað til dóms Hæstaréttar frá 25. febrúar 2005 í máli nr. 65/2005.
IV.
Í dómi Hæstaréttar 12. nóvember 2007 í málinu nr. 569/2007 kom fram að til meðferðar væru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fjögur mál vegna ætlaðra brota sóknaraðila hér á landi. Um væri að ræða þjófnað, eignaspjöll, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Þótti málatilbúnaður íslenska ríkisins vera með þeim hætti að hann gæti aldrei leitt til þeirrar niðurstöðu sem það krafðist. Af þeirri ástæðu var felld úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. október sl., um framsal sóknaraðila, en jafnframt tekið fram að ekki þyrfti að taka afstöðu til álitaefnis um skýringu á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984, en sóknaraðili hafði meðal annars teflt fram þeim rökum að um skilyrði fyrir framsali samkvæmt því ákvæði bæri ekki að miða við refsiramma heldur þyrftu dómstólar að meta hvaða refsingu honum yrði gert að sæta að íslenskum lögum fyrir þau tilgreindu brot sem framsalskrafa væri reist á.
Fyrir liggur að sóknaraðili gekkst hinn 9. nóvember 2007 undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjaness fyrir þjófnað, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Upplýsingar um þessa afgreiðslu málsins munu hafa borist ríkissaksóknara 12. nóvember 2007 og degi síðar tók dómsmálaráðherra á ný ákvörðun um að framselja skyldi sóknaraðila til Litháen. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með sóknaraðila að dómsmálaráðherra hafi verið óheimilt að taka nýja ákvörðun um að framselja skyldi sóknaraðila.
Ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er annars efnis en 10. gr. laganna, sem Hæstiréttur vísaði til í dómi 12. nóvember sl. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er almennt skilyrði framsals að verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár „samkvæmt íslenskum lögum.“ Þá er í greinargerð með ákvæðinu vísað til þess að það sé byggt á 2. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna. Í greinargerð með lögum nr. 13/1984 segir að framsalsskyldan samkvæmt 2. gr. Evrópusamningsins sé „bundin við ákveðinn refsiramma”. Einnig er til þess að líta að í dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2005 í máli nr. 65/2005 þótti ekki ástæða til að hnekkja ákvörðun um framsal á manni sem voru gefin að sök auðgunarbrot í Sviss að andvirði 10.000 svissneskra franka, sem eru um 600.000 íslenskar krónur að núvirði. Að öllu þessu virtu verður samkvæmt orðalagi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 og lögskýringargögnum um efni ákvæðisins að líta svo á að uppfyllt séu skilyrði um framsal á sóknaraðila. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. nóvember 2007, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun réttargæslumanns sóknaraðila, Stefáns Boga Sveinssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. nóvember 2007, um að framselja sóknaraðila, X, til Litháen, er staðfest.
Þóknun réttargæslumanns sóknaraðila, Stefáns Boga Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.