Hæstiréttur íslands
Mál nr. 139/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skjalafals
- Umferðarlagabrot
- Reynslulausn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2008. |
|
Nr. 139/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn Gunnari Rúnari Gunnarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl. Jónas Þór Guðmundsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Skjalafals. Umferðarlagabrot. Reynslulausn. Skaðabætur.
G var sakfelldur fyrir tvö skjalabrot, umferðarlagabrot og nauðgun, með því að hafa haft samræði við A á heimili hennar og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum veikinda. Fyrir Hæstarétti krafðist G sýknu af nauðguninni. Í héraðsdómi, sem staðfestur var um sakfellingu G var talið sannað með vísan til framburðar A, játningar G fyrir lögreglu og niðurstöðu DNA-rannsóknar að G hefði gerst brotlegur gegn 194. gr., sbr. áður 196. gr. sömu laga. Með brotunum rauf G skilorð reynslulausnar á 330 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt eldri dómum og var hún tekin upp og dæmd með. Þótti refsing G hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem hann var dæmdur til að greiða A miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru 24. apríl 2007 og að refsing verði að öðru leyti milduð. Hann krefst þess jafnframt að fyrrgreindri fjárkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún sæti lækkun.
Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur vegna þriggja ákæra, 24. apríl, 5. júní og 24. ágúst 2007. Hann unir sakfellingu héraðsdóms vegna tveggja síðasttöldu ákæranna.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, refsingu hans og sakarkostnað. Að því er varðar kröfu A um bætur úr hendi ákærða verður að gæta að því að ekki liggja fyrir nein gögn um afleiðingar brotsins gagnvart henni. Að þessu virtu og atvikum málsins að öðru leyti eru bætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og skulu þær bera vexti á þann hátt, sem dæmt var í héraði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en höfuðstól bóta úr hendi ákærða, Gunnars Rúnars Gunnarssonar, til A, sem skal nema 500.000 krónum.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 436.746 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. nóvember 2007, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 24. apríl 2007 á hendur Gunnari Rúnari Gunnarssyni, kt. 040173-3829, Kleppsvegi 106, Reykjavík, fyrir nauðgun, með því að hafa, sunnudaginn 26. febrúar 2006 haft samræði við A á heimili hennar að [...], Reykjavík, og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum veikinda.
Telur ákæruvaldið háttsemi þessa varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992, og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 26. mars 2006 til greiðsludags auk greiðslu þóknunar vegna lögmannsaðstoðar. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.
Þá var sameinuð máli þessu ákæra á hendur ákærða, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 5. júní 2007 fyrir skjalafals, með því að hafa:
1.
Að [...], Hafnarfirði, í júlí 2005, afhent B, kt. [...], sem tryggingu fyrir greiðslu skuldar að fjárhæð 80.000 krónur víxileyðublað, sem ákærði samþykkti til greiðslu á gjalddaga 28. júlí 2005 en falsaði með áritun á nafni C, kt. [...], í reiti fyrir áritun og framsal útgefanda og með áritun á kt. [...], kt. D, við áritun á nafni fyrirtækisins Þvottastöðvar Suðurlands í reit fyrir áritun ábekings.
2.
Í ágúst 2006 framvísað heimildarlaust hjá Umferðarstofu, Borgartúni 30, Reykjavík, tilkynningu um sölu E, kt. [...], á bifreiðinni xx-xxx til F, dagsettri 8. ágúst sama ár, sem ákærði hafði falsað með áritun á nafni E í reit fyrir áritun seljanda.
Telur ákæruvaldið háttsemi þessa varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
B krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 80.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2. ágúst 2005 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi er liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Einnig var sameinuð máli þessu ákæra á hendur ákærða útgefin 24. ágúst 2007 fyrir eftirtalin brot gegn umferðarlögum:
1. Með því að hafa vanrækt að vátryggja bifreið sína GÖ-987 sem lögregla hafði afskipti af við Mánabraut 11, Skagaströnd, laugardaginn 4. júní 2005.
2. Með því að hafa, laugardaginn 16. júlí 2005, ekið bifreiðinni JX-530 suður þjóðveg 1, Norðurlandsveg, á 101 kílómetra hraða á klukkustund á vegarkafla til móts við Glaumbæ þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.
Telur ákæruvaldið háttsemi ákærða samkvæmt 1. tölulið varða við 1. mgr. 91. gr. og 1. mgr. 92. gr. sbr. 1. mgr. 93. gr. og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum en samkvæmt 2. tölulið við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, varðandi þá háttsemi sem hann hefir neitað, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og vægustu refsingar er lög leyfa varðandi þá háttsemi sem hann hefur játað. Þá krefst ákærði þess að bótakröfu A verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar á bótakröfu. Ákærði samþykkir bótakröfu B, en kveðst hafa greitt hluta hennar.
Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik.
Ákæra dagsett 24. apríl 2007.
Að kvöldi sunnudagsins 26. febrúar 2006 tilkynnti A til lögreglu að henni hefði verið nauðgað á heimili sínu, [...], fyrr um daginn. Í frumskýrslu er aðkomu lögreglunnar lýst þannig að A hafi setið í eldhúsi og verið í annarlegu ástandi. Hafi hún virst mjög þreytt og kvartað undan kvölum vegna ýmissa kvilla. Hún hafi verið óstöðug, hóstað mikið og verið búin að kasta upp. Kvaðst hún hafa verið veik heima umræddan dag, og hafa verið drukkin kvöldið áður.
A lýsti atvikum svo að ákærði hafi komið til hennar og viljað hafa við hana samfarir. Hún hafi sagt honum að hann mætti liggja hjá henni í rúminu en að hún vildi ekkert kynlíf með honum. Hún hafi sagst vera þreytt og veik og hafa litla krafta og ekki vilja hafa samfarir án þess að nota smokk. A kvað ákærða hafa virt þetta að vettugi og haft samfarir við hana. Hún hefði sagt honum að hún vildi það ekki en ekki haft burði til að stöðva hann. Hún kvaðst vera mjög hrædd við ákærða, því hann hefði áður gert henni þetta, en þá heima hjá honum. Einnig kvað hún ákærða hafa platað sig til að taka þátt í klámmynd sem hann hafi hótað að selja. A var flutt á neyðarmóttöku á sjúkrahúsi.
Lögregla var kvödd á neyðarmóttöku síðar sama dag og þar tók lögreglumaður niður frásögn hennar. Sagði hún þannig frá að hún hefði fengið mígrenikast, kastað upp og lagst fyrir. Ákærði hefði hringt í hana og spurt hvort hann mætti koma í heimsókn en hún sagt að það gengi ekki vegna þess að hún væri veik. Hún kvað hann þá hafa sagst eiga eitthvað „hressandi í nefið“ handa henni. Nokkru síðar hafi hann hringt dyrabjöllunni og hún loks opnað þegar hann sagðist vera með eitthvað handa henni í nefið. Eftir að hafa talað við hann nokkra stund hafi henni orðið flökurt og farið aftur upp í rúm til að kasta upp. A kvað ákærða hafa sagt að hann hefði dagana áður tekið amfetamín og ekkert sofið. Hafi hann spurt hvort hann mætti koma upp í rúm til hennar. Hún hafi sagt að það væri í lagi ef hann léti hana í friði. Ákærði hafi lagst upp í rúmið og skömmu síðar farið að káfa á henni undir sænginni, en hann hafi þá legið fyrir aftan hana þar sem hún lá á hliðinni. A kvaðst hafa sagt ákærða að hætta að káfa á sér, sem hann hafi gert. Hann hafi þó fljótlega byrjað á því aftur. Hafi hún sagt við hann að ef þau myndu gera eitthvað þá yrði það ekki fyrr en henni væri batnað í höfðinu og hann yrði þá líka að nota smokk. Ákærði hafi haldið áfram að káfa á henni og stuttu síðar hafi hún fundið að hann hafi haft við hana samfarir þar sem hún lá á vinstri hlið og sneri baki í hann. Hún hafi ekki haft orku til að berjast á móti og því legið kyrr þar til ákærði var búinn. Það hafi tekið hann 30 til 45 mínútur. Fljótlega eftir það hafi hann staðið upp og farið fram úr.
A kvaðst hafa verið í netbol, stuttu pilsi og háum nælonsokkum en engum nærbuxum.
A kvaðst hafa þekkt ákærða í nokkurn tíma, hann hefði platað hana til þess að fá að taka af henni klámmyndir og leigt til þess upptökuvél. Hún kvaðst einu sinni hafa heimsótt ákærða í íbúð hans.
A lagði fram kæru hjá lögreglu 1. mars 2006. Sagði hún þannig frá að ákærði hefði hringt í sig en hún ekki viljað að hann kæmi. Hann hefði sagst vera með geisladisk og stígvél sem hún ætti sem hann vildi koma til hennar. Um klukkustund síðar hefði hann hringt dyrabjöllunni, og sagst vera með stígvélin, geisladiskinn og „hressingu í nefið“ sem myndi hjálpa henni til að lækna höfuðverkinn. Kvaðst A hafa beðið hann um að hætta þessu tali þarna á ganginum og hleypt honum inn.
Þegar ákærði var kominn inn hafi hann strax farið að tala um að hann væri ekkert búinn að sofa og spurt hvort hann mætti leggja sig. Hún hafi sagt að hann mætti leggja sig í sófanum en að hún vildi fá frið meðan hún væri að jafna sig af höfuðverknum. Hafi hún lagt sig í rúmið. Ákærði hafi þá komið inn í svefnherberið á eftir henni og spurt hvort hann mætti leggjast í rúmið. Hún hafi sagt að hann mætti það, með því skilyrði að hann léti hana í friði. Hafi hann samþykkt það og lagst í rúmið hjá henni, alklæddur. Nokkrum mínútum seinna hafi hann farið að strjúka á henni lærið, utan og innan klæða. Hafi hún beðið hann að hætta sem hann gerði í smá stund, en byrjaði svo aftur. A hafi sagt honum að hætta og sagt að ef hún hefði áhuga á að gera eitthvað yrði hún að fá að jafna sig af höfuðverknum og þau yrðu að nota smokk. Þetta hafi hún eingöngu sagt til að halda honum rólegum og fá frið fyrir honum en ekki af því að hún ætlaði að hafa við hann kynmök. Ákærði hafi orðið ágengari og hún þá sagt að hún hefði sagt nei við hann og vildi ekki hafa við hann mök. Hafi hún verið fárveik og slöpp og ekki haft orku til að halda honum frá sér. Hún hafi legið á hliðinni í rúminu og hann þétt upp við bakið á henni. Hafi hann svo velt henni á bakið og haft samfarir við hana þrátt fyrir að hún mótmælti og bæði hann að gera það ekki. A kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvað samfarirnar stóðu lengi yfir en sagði það líklega hafa verið í eina til tvær mínútur. Hafi ákærði þá staðið upp og girt upp um sig, og sagst ætla að sækja stígvélin og geisladiskinn út í bíl, en hann hafi ekki komið til baka.
Mánudaginn 27. febrúar 2006 var tekin lögregluskýrsla af ákærða, Gunnari Rúnari Gunnarssyni. Hann kvaðst viðurkenna að hafa nauðgað A í íbúð hennar daginn áður. Kvaðst hann hafa hringt í A og spurt hvort hann mætti koma í heimsókn til hennar. Hún hafi sagt að hann mætti ekki koma strax þar sem hún væri með mígrenikast og mikinn höfuðverk. Ákærði kvaðst hafa hringt aftur nokkru seinna en þá hafi verið slökkt á síma A. Hann hafi þá ákveðið að fara heim til hennar. Hún hafi samþykkt að hleypa honum inn. Fljótlega eftir að hann var kominn hafi hún orðið að leggjast í rúmið vegna mígrenisins. Hafi hún legið á vinstri hlið alveg úti á brúninni á rúminu og kastað upp annað slagið. Ákærði hafi spurt hvort hann mætti leggjast upp í rúmið hjá henni og hún sagt að það væri í lagi. Ákærði hafi lagst upp í rúmið og hún snúið bakinu í hann. Fljótlega hafi hann farið að strjúka síðuna á henni og magann. Hafi hún beðið hann að hætta og hann strax hætt. A hafi kastað upp og svo lagst á bakið og haldið um höfuðið. Hann hafi strokið á henni lærin og kynfærin en hún þá snúið sér frá honum og þannig sýnt að hún vildi þetta ekki. Hann hafi stuttu seinna farið að strjúka henni aftur, en hún hafi talað um m.a. að hann þyrfti að nota smokk og að það væru smokkar í töskunni hennar eða á skenknum. Hann hafi reist sig upp en ekki séð smokkana eða töskuna og því lagst aftur fyrir aftan A, þétt upp að bakinu á henni og haft við hana samfarir. Kvaðst hann telja að samfarirnar hafi staðið í sjö til fimmtán mínútur. Ákærði kvað A ekki hafa streist á móti en kvaðst hafa verið meðvitaður um að hún væri ekki samþykk samförunum. Hafi hann svo staðið upp og farið að klæða sig í en hann hafi verið búinn að fara úr buxum og nærbuxum áður en hann fór upp í rúmið til A.
Ákærði kvað það ekki rétt að hann hafi verið með eitthvað „hressandi“ handa A, heldur hafi hann verið með áfengi með sér. Þá kvað hann ekki rétt að hann hefði verið að taka amfetamín dagana á undan. Einnig sagðist hann hafa káfað á henni ofan á sænginni en ekki undir, fljótlega eftir að hann fór upp í rúmið til hennar, einnig hafi hann hætt að káfa á henni þegar hún bað hann um það. Loks kvað hann ekki rétt að hann hefði tekið klámmyndir af A.
Ákærði kvaðst vera með blóðtappa í höfðinu og ekki eiga eftir nema hálft ár til tvö ár ólifuð. Óskaði hann eftir því að tekið yrði tillit til þess við meðferð málsins.
Lögregla hafði samband við ákærða 28. júní 2006 til að bera undir hann bótakröfu A, og kvaðst hann hafna henni.
Tekin var skýrsla af ákærða 22. september 2006 og hann beðinn að lýsa veikindum sínum nánar. Sagðist hann hafa fengið áverka í slysum þegar hann var barn og unglingur. Árið 2004 hafi hann orðið verulega slæmur af höfuðverkjum og talað við lækni á Litla-Hrauni sem hafi sent hann í rannsókn á Borgarspítalanum. Hafi ákærða verið sagt eftir þá rannsókn að hann væri með gamla blæðingu eða blóðgúlp við heilann.
Í málinu liggur frammi skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A undirrituð af Arnari Haukssyni, lækni. Í skýrslunni er haft eftir A að hún hafi legið í rúmi með mígrenikast þegar maður sem hún þekkti, hafi komið til hennar. Hann hafi nýtt sér ástand hennar og haft við hana mök gegn hennar vilja. Hafi hún verið örþreytt við komu á neyðarmóttöku og frásögn hennar hafi í byrjun verið í molum, en svo raðast saman í skýra atburðarrás. Við skoðun hafi ekki sést ytri áverkar en sæðisfrumur fundist.
Þá liggur frammi í málinu vottorð John E. G. Benedikz læknis. Fram kemur í vottorði hans að A hafi byrjað að fá mígreniköst árið 1981. Hún hafi lýst dæmigerðum mígreniköstum með sjóntruflunum, ógleði, uppköstum og höfuðverk, sem komi að jafnaði einu sinni til tvisvar í mánuði og standi yfir í sólarhring nema hún taki lyf. Mígreniköstum fylgi mikil þreyta, magnleysi og vanlíðan. Önnur veikindi sem hafi fylgt A séu „depression“, „fibromyalgia“, og „tensions headache“. Loks segir: „Ég tel greininguna Migraine, ICD G43,9 vera rétta og varðandi spurningu í bréfi yðar tel ég ekki miklar líkur á að A hafi burði til að veita mikla mótspyrnu ef á hana er ráðist þegar í Migraine kasti.“
Einnig liggur frammi bréf Arons Björnssonar yfirlæknis á heilaskurðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Bréfið er svar við fyrirspurn Katrínar Hilmarsdóttur lögfræðings hjá lögreglustjóranum í Reykjavík til spítalans varðandi heilablæðingu þá sem ákærði lýsti hjá lögreglu. Í bréfi læknisins segir að læknirinn hafi ekki getað fundið neinar upplýsingar hjá spítalanum um blæðingar eða gúlp við heila ákærða. Ákærði hafi farið í tölvusneiðmynd 4. ágúst 2003 af heila og hafi myndin verið eðlileg.
Ákærði fór fram á að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á sæðisfrumum er fundust hjá A. Voru sýni sem tekin voru frá A send til Rettsmedisinsk Institutt i Osló. Frumrannsókn sýndi að mikið af sáðfrumum auk þekjufruma voru til staðar í öllum sýnum. Tvö sýni, merkt 1b og 2, hafi verið rannsökuð nánar þar sem frumugerðir hafi verið aðskildar og þær síðan greindar með DNA- greiningaraðferðum þar sem DNA-snið hvorrar frumugerðar hafi verið ákvarðað. Niðurstöður þeirrar greiningar hafi leitt í ljós að DNA-snið sáðfrumuhluta sýnis 1b hafi verið sams konar og DNA-snið ákærða og verði það sýni því rakið til ákærða. Greining á sáðfrumuhluta sýnis 2 hafi gefið niðurstöður í 9 af þeim 10 lyklum sem notast sé við, auk kyngreinis. Þær samsætur, sem fram hafi komið í lyklunum, séu allar til staðar í samsvarandi lyklum í DNA-sniði ákærða. Mjög miklar líkur séu á að það sýni sé einnig frá ákærða komið. Í svar Rettsmedisinsk Instititutt sé greint frá þeim aðferðum sem stuðst sé við og segi um áreiðanleika niðurstöðunnar að líkurnar á að finna sams konar snið frá óskyldum einstaklingi séu ávallt minni en 1:1.000.000.000.
Þá liggja frammi í málinu lækna- og hjúkrunarbréf vegna A. Í læknabréfi frá 15. júní 2007 kemur fram að hún hafi dvalist á deild 33A frá 19. febrúar 2007 til 24. maí 2007. Hún hafi þjáðst af geðrænum einkennum til langs tíma. Þá hafi hún misnotað áfengi og fíkniefni. Skipst hafi á slæm og ágæt tímabil inni á milli, en undanfarið hafi gengið illa. Í læknabréfi frá 18. maí 2007 kemur fram að hún sé talin vera með geðklofasjúkdóm og hafi hún átt við vímuefnavanda að stríða til margra ára. Hún hafi gert a.m.k. tvær sjálfsvígstilraunir og hafi sú síðari verið alvarleg, en þá hafi hún kveikt í, en það hafi verið aðdragandi að innlögn hennar á deild 33A. Í hjúkrunarbréfi frá 24. maí 2007 kemur fram að hún hafi komið á deild 15 á Kleppsspítala, í kjölfar íkveikju á Hringbraut. Hún var þá metin í geðrofsástandi. Í bréfinu segir jafnframt að hún fái oft höfuðverkjaköst.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa hringt í A og spurt hvort hann mætti ekki kíkja til hennar í kaffi. Hún hafi sagt nei í byrjun og sagt að hún væri þreytt. Hann hafi ítrekað beiðnina og hafi hún sagt að hann mætti þá koma, en beðið hann um að vera ekki lengi. Þá hafi hún spurt hvort ákærði ætti einhver lyf eða fíkniefni handa henni og hafi ákærði kveðið nei við því. Ákærði kvað A hafa neytt áfengis eftir að hann kom í íbúðina. Ákærði kvaðst hafa fengið sér kaffi og sest á rúmið hjá A. Hún hafi sagst vera gríðarlega þreytt og andlegt ástand hennar slæmt. Fata hafi verið við hlið rúmsins, en ákærði kvaðst ekki hafa séð hana kasta upp. Er borinn var undir ákærða framburður hans í lögregluskýrslu um að A hafi kastað upp meðan á dvöl hans í íbúðinni stóð, kvaðst ákærði ekki muna það en kvaðst muna eftir því að plastpoki hafi verið á gólfinu í íbúðinni og hafi hann séð A fara á salernið. Ákærði kvaðst vita að hún hafi verið á einhverjum læknalyfjum og þá kvaðst ákærði vita að hún ætti við geðræn vandamál að stríða. Ákærði hafi strokið á henni bakið og höfuðið. Þá hafi þau líka kysst, en þau hafi ekki haft samfarir. Ákærði hafi legið við hlið hennar í einhvern tíma og síðan hafi ákærði farið. Ákærði þvertók fyrir að hafa haft mök við konuna. Ákærði kvað lögregluna hafa neytt sig til sagna og til þess að gefa þann framburð sem í lögregluskýrslu er gefinn, og hafi það gerst áður en verjandi hans kom til skýrslutöku. Ákærði kvað lögreglumanninn sem tók af honum skýrslu, þ.e. G, hafa rætt við sig áður en til skýrslutöku kom og hafi hann sagt við hann að honum yrði skellt í gæsluvarðhald, ef hann segði ekki satt og rétt frá. Ákærði kvað það því ekki rétt sem hann sagði í lögregluskýrslu að hann hefði haft mök við A. Ákærði kvað að sig minnti að gert hafi verið hlé á skýrslutökunni þar sem hann hafi gert verjanda sínum grein fyrir því að þessi framburður væri ekki réttur.
Ákærði kvaðst hafa þekkt A áður en hann kom til hennar í umrætt sinn og hafi þau oft haft samfarir. Þá hafi ákærði gert ýmislegt fyrir hana, farið í ýmsar sendiferðir, náð í lyf handa henni og oft reynt að koma henni í meðferð.
Vitnið, A, kvað ákærða hafa hringt í sig milli kl. þrjú og fjögur umræddan dag og spurt hvort hann mætti koma. Hún hafi neitað, þar sem hún væri veik, með mígreni og væri að kasta upp. Þá hafi ákærði rætt um að hann ætlaði að skila skóm og geisladiski og hafi hún sagt að ekkert lægi á því. Eftir tæpan klukkutíma hafi verið hringt á útidyrabjöllu og hafi hún svarað bjöllunni. Ákærði hafi þá verið niðri við útidyrnar og spurt í dyrasímann hvort hann mætti ekki bara skila þessu og hafi hún játað því og hleypt honum inn. Þegar ákærði hafi komið að dyrum hennar hafi hún séð að hann var ekki með þessa hluti. Ákærði hafi talað mjög hátt og sagt að hann væri með hressingu í nefið og það myndi örugglega lækna höfuðverkinn. Hún hafi hleypt honum inn, þar sem hann hafi talað mjög hátt um þetta og hún ekki viljað að hann talaði svo hátt á ganginum. Ákærði hafi sagt að hann væri vansvefta og spurt hvort hann mætti leggja sig. Fyrst hafi hún neitað, en síðan hafi hún sagt að hann mætti leggja sig í sófann inni í stofu. Hún hafi sagt að hún þyrfti að leggja sig í svefnherberginu. Stuttu síðar hafi hann komið inn í herbergið og spurt hvort hann mætti leggja sig við hlið hennar í rúmið. Hún hafi ekki verið mjög spennt fyrir því, en til þess að fá frið hafi hún sagt að það væri í lagi. Hún hafi kastað upp í fötu við hlið rúmsins og legið undir sæng. Einnig hafi hún haft plastpoka við hlið rúmsins, til að æla í. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort hún hafi kastað upp á meðan ákærði var uppi í rúmi hjá henni, eða hvort það hafi verið þegar hann var nýkominn inn í íbúð hennar. Ákærði hafi farið með hönd sína undir sængina og hún hafi beðið ákærða að láta sig í friði. Hann hafi gert það um stund, en síðan hafi hann byrjað aftur. Þá hafi hún aftur beðið ákærða að láta sig í friði, en hann hafi komið nær henni og síðan hafi hann sest upp og girt niður um sig. Hún hafi þá sagt: ,,Hvað ertu að gera?“ og að hún ætlaði ekki að hafa samfarir við hann. Þá hafi hann sagt: ,,Nei þýðir já“. Hún kvaðst hafa tekið eftir því að það hafi ekki verið skráð í lögregluskýrslu, en hún hafi sagt lögreglu frá því sem ákærði sagði. Hún hafi þá sagt við ákærða: ,,Nei þýðir nei“. Síðan hafi ákærði hafið samfarir við hana, en hún hafi reynt að streitast á móti. Hún hafi hins vegar verið svo slöpp að hún hafi verið eins og ,,leir“ í höndunum á honum. Ákærði sé mjög sterkur og hann geti verið ,,skaphundur“. Um ein til tvær mínútur hafi liðið og þá hafi samförunum lokið. Hún hafi spurt hvort hann hefði haft sáðlát og hann svarað neitandi. Hún hafi hins vegar fundið að svo hefði verið. Þá hafi hún sagt við ákærða: ,,Þú laugst að mér, þú hafðir víst sáðlát“. Ákærði hafi svo girt upp um sig og staðið upp og farið að eiga við farsímann sinn. Hún hafi spurt hvort hann væri ekki að fara, en ákærði hafi sagt að hann ætlaði að ná í stígvélin og geisladiskana út í bíl, en hann hafi ekki komið aftur. Vitnið kvaðst hafa verið mjög veik þennan dag, með mígreni, miklar höfuðkvalir og mjög slöpp. Hún kvaðst ekki hafa drukkið áfengi þegar ákærði var hjá henni og kvaðst hvorki geta drukkið áfengi þegar hún er með mígreni né hafi hún átt nokkurt áfengi. Hún var spurð hvort hún myndi eftir að hafa verið í fangageymslu um nóttina, en kvaðst ekki muna eftir því, fyrr en rifjað var upp fyrir vitninu vegna hvers hún hefði gist fangageymslur. Þá kvaðst hún ekki muna hvort hún hefði verið orðin veik þá. Hún kvaðst hafa tekið verkjalyf við höfuðverknum. Vitnið kvað að sér hefði liðið illa eftir þetta atvik, þetta hefði verið niðurlægjandi og ákærði hefði notað hana eins og ,,tuskudúkku“. Þá kvaðst vitnið vera alkóhólisti og þetta atvik hafi haft áhrif á andleg veikindi hennar. Vitnið kvaðst vera 1,67 sm á hæð og á þeim tíma sem atburðurinn gerðist hafi hún verið 71-72 kg. Vitnið kvaðst ekki hafa haft samfarir við annan mann en ákærða frá því að ákærði yfirgaf hana og þar til hún fór í rannsókn á neyðarmóttöku.
Vitnið, Arnar Hauksson fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, kvað meintan brotaþola hafa verið nokkuð undir áhrifum við komu á sjúkrahúsið. Henni hefði liðið illa og hún verið æst. Hún hefði strax sagt að henni hefði verið nauðgað, hún verið beitt ,,misneytingu“ eða ,,misbeitingu“, en hún hefði í byrjun ekki viljað hjálp eða aðstoð. Hefði vitnið þurft að tala hana til áður en unnt var að gera á henni skoðun. Að lokum hafi vitnið fengið frá henni frásögn, sem í byrjun hafi verið ruglingsleg. Síðan hafi frásögnin raðast saman í ákveðna atburðarás og gæti kvenskoðun komið heim og saman við þá atburðarás sem hún hafi lýst. Engir áverkar hafi þó fundist á konunni, en heilar ferskar sæðisfrumur hafi fundist. Þá hafi verið tekin sýni, en konan hafi á þeim tíma ekki viljað að blóðprufa væri tekin úr henni. Vitnið kvað konuna hafa virkað eins og hún ætti við geðræn vandamál að stríða, en hún hafi verið sjálfri sér samkvæm í frásögn af atburðarásinni sjálfri. Vitnið kvað konuna hafa sagt að hún væri á talsvert miklum geðlyfjum. Vitnið kvaðst telja að konan hafi kvartað undan höfuðverk og hafi hún verið örþreytt. Þá hafi vitnið skráð niður eftir konunni að hún væri með mígreni.
Vitnið, Elín Margrétardóttir hjúkrunarfræðingur, kvaðst hafa tekið á móti meintum brotaþola við komu á sjúkrahús. Hún kvað hana hafa verið í miklu ,,sjokki“ og hafi henni liðið mjög illa. Vitnið hafi fylgt henni í skoðun til læknis. Hafi meintur brotaþoli talað um að hún væri með svo slæma höfuðverki og að hún þyrfti verkjalyf. Hún hefði einnig rætt um að hún hefði haft svo mikla höfuðverki áður en atburðurinn varð. Vitnið kvaðst ekki hafa merkt það að meintur brotaþoli væri undir áhrifum áfengis.
Vitnið John Benedikz sérfræðingur í tauga- og lyflækningum, kvaðst kannast við A. Vitnið kvaðst staðfesta að A þjáðist af mígreni, en hjá henni væri einnig til staðar þunglyndi og ,,tension höfuðverkur“. Vitnið kvað hana vera með mígreni með sjóntruflunum, ógleði og uppköstum og ,,púlserandi höfuðverk“. Vitnið kvað hana vera máttlausa og ekki upp á marga fiska þegar hún fengi mígreniköst. Vitnið kvaðst vilja leiðrétta dagsetningu í vottorði því sem hann gaf, þar sem fram komi að hún hafi komið til læknisins 2. febrúar 2007, hið rétta sé að hún hafi komið til hans 2. febrúar 2006. Vitnið kvað algengt að áfengi hefði áhrif á mígreni og gæti komið því af stað. Vitnið var spurt um getu A til að sporna við verknaði eins og þeim sem ákærða er gefinn að sök í ákæru. Kvað þá vitnið A áreiðanlega hafa getað sagt nei, en hún hafi örugglega verið máttlítil, þar sem hún þjáðist líka af ,,fibromyoalgia“, þ.e. fjölvöðvagigt, en þá sé fólk máttlaust í öllum vöðvum. Þessi samsetning sjúkdóma hafi haft þau áhrif að hún hafi verið verr í stakk búin til að bera hönd fyrir höfuð sér. Vitnið staðfesti vottorð það sem liggur frammi og er frá honum komið.
Vitnið, H lögreglumaður, kvaðst hafa skoðað vettvang og tekið myndir á vettvangi. Vitnið kvað ælu hafa verið í plastpoka sem fannst á vettvangi, en vitnið kvaðst ekki hafa skoðað sérstaklega í fötuna, hvort þar hafi verið æla eða eitthvað annað. Vitnið kvað ekki hafa verið góða lykt í íbúðinni og hugsanlegt væri að sú lykt stafaði af ælu. Þá hafi fundist verjupakki í öskubakka á skrifborði á móti rúmi A. Vitnið kvað vatnsglas hafa staðið á borði við rúmið og lyfjaumbúðir við hlið glassins. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð áfengisflöskur í íbúðinni.
Vitnið, I lögreglumaður, kvað A hafa verið í mjög annarlegu ástandi er vitnið ræddi við hana. Hafi A átt erfitt með að tjá sig og verið óskýrmælt. Vitnið kvað hana hafa verið undir áhrifum einhverra efna. Vitnið kvað A hafa sagt að maður hafi komið til hennar sem hún þekkti og hafi hann haft samfarir við hana án hennar vilja. Vitnið kvað A hafa verið mikið niðri fyrir er hún ræddi um þetta og hafi hún grátið.
Vitnið, G lögreglumaður, kvaðst hafa tekið skýrslu þá af ákærða sem liggur frammi í málinu. Vitnið kvað ákærða hafa viðurkennt brot sitt. Vitnið kvað ákærða ekki hafa verið undir neinum þrýstingi af hálfu vitnisins er hann gaf skýrsluna og vitnið hafi ekki hótað honum gæsluvarðhaldi eða neinu öðru. Vitnið kvað verjanda ákærða hafa verið viðstaddan meðan á skýrslutöku stóð. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við ákærða um málið áður en yfirheyrslan fór fram. Vitnið kvað verjanda ákærða hafa komið á lögreglustöð nánast í sömu andrá og farið var með ákærða í yfirheyrsluherbergið. Vitnið var spurður um það hvort ákærði hefði óskað eftir að breyta framburði sínum í skýrslutökunni og kvað vitnið þá að þess hefði verið getið í skýrslunni, ef um það hefði verið að ræða.
Vitnið, J lögreglumaður, kvaðst hafa tekið skýrslur þær af ákærða sem liggja frammi í málinu. Einnig hefði hann haft símasamband við ákærða 28. júní og hefði hann kynnt honum bótakröfu þá. 2006. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákærði vildi breyta fyrri framburði eða gefa nýja skýrslu. Vitnið kvaðst telja að hann hefði rætt við ákærða í tvö skipti.
Vitnið, K starfsmaður tæknideildar lögreglu, kvað sýni þau sem send voru til rannsóknar á Rettsmedisinsk Institutt í Oslo hafa verið frá pinnum sem safnað var á neyðarmóttöku. Á pinnum sem merktir voru leggangaop komu fram bæði þekjufrumur og sáðfrumur. Sáðfrumuhluti sýnisins gaf DNA-snið sem var sams konar og DNA-snið ákærða. Sáðfrumuhluti þess sýnis sem merktur hafi verið leggöng hafi gefið niðurstöðu í 9 af 10 lyklum sem rannsakaðir voru, en allar samsæturnar sem komið hafi fram hafi verið til staðar í DNA-sniði ákærða.
Niðurstaða.
Ákærði játaði að hafa haft samfarir við A, án hennar vilja, er tekin var skýrsla af honum hjá lögreglu 27. febrúar 2006 og lýsti hann þá atburðarás og atvikum á mjög svipaðan hátt og A lýsti atvikum í lögregluskýrslum sem af henni voru teknar 26. febrúar 2006 og 1. mars 2006. Þá lýsti A atvikum fyrir lækni og hjúkrunarfræðingi á neyðarmóttöku á svipaðan hátt og hún gerði hjá lögreglu. Ákærði dró játningu sína til baka fyrir dómi og þvertók fyrir að hafa haft samfarir við A umrætt sinn. Hann kvað lögreglumanninn G hafa þvingað sig til að játa brotið og hafi hann hótað sér gæsluvarðhaldi ef hann ekki játaði, en þetta hefði gerst áður en verjandi hans kom til skýrslutökunnar. Vitnið G kom fyrir dóm og kvað framburð ákærða ekki réttan, honum hefði ekki verið hótað neinu og vitnið hefði ekki rætt einslega við ákærða áður en verjandi hans kom á lögreglustöðina. Þá kom lögreglumaðurinn J fyrir dóm, sem ræddi við ákærða í tvö skipti vegna máls þessa. Hann kvaðst ekki minnast þess að ákærði vildi breyta fyrri framburði sínum eða gefa nýja skýrslu.
Eins og rakið hefur verið báru ákærði og A í upphafi efnislega á sama veg um það sem gerðist á heimili hennar á þeim tíma sem í ákæru greinir. Vitnisburður A er í samræmi við annað sem fram er komið í málinu, að frátöldum breyttum framburði ákærða fyrir dómi. Að mati dómsins er breyttur framburður ákærða fjarstæðukenndur og fær enga stoð í öðru því sem fram er komið í málinu. Með vitnisburði A, framburði ákærða fyrir lögreglu og að hluta fyrir dómi, læknisfræðilegum gögnum og framburði vitnisins John Benedikz læknis, er sannað að A var á þeim tíma sem ákæra tekur til, veik af mígreni. Þá er sannað með vitnisburði A og efnislega samhljóða framburði ákærða hjá lögreglu, en gegn neitun hans fyrir dómi, sem og með læknisfræðilegum gögnum sem rakin hafa verið, að ákærði hafði við hana samræði og notfærði sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum veikinda. Ákærði er sakfelldur fyrir þá háttsemi og varðar hún við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 196. gr. sömu laga. Ákærða verður gerð refsing samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga en tekið mið af saknæmi brots ákærða á þeim tíma sem hann framdi brotið, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna, auk dráttarvaxta. Krafa hennar er grundvölluð á því að verknaður ákærða hafi leitt til verulegs tjóns fyrir hana. Hún eigi við þunglyndi að etja og hafi þurft að leita sér aðstoðar á geðdeild LSH og hafi verið þar til meðferðar. Hafi verknaðurinn leitt til þess að líkur á bata hafi versnað til muna. Verknaður ákærða sé gróft brot gegn persónu- og kynfrelsi brotaþola og muni hann hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu hennar um ókomna framtíð.
Til stuðnings kröfunni er vísað til XX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og til 26. gr. laga nr. 50/1993. Málskostnaðarkrafa er byggð á 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, sbr. og 129. og 130. gr. sömu laga.
Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur A átt við geðræna sjúkdóma að stríða, auk þess sem hún hefur glímt við slæm mígreniköst. Með vísan til niðurstöðu í refsiþætti málsins og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þykir ákærði með háttsemi sinni hafa valdið brotaþola miska og er hann skaðabótaskyldur gagnvart henni vegna þess. Hann misnotaði sér slæmt ástand brotaþola gróflega og var verknaður hans til þess fallinn að valda brotaþola sálrænum örðugleikum, en brotaþoli var sérlega viðkvæm fyrir, vegna sjúkdóma sem hún glímir við. Þegar allt framangreint er virt eru bætur til brotaþola ákveðnar 800.000 krónur sem ákærði er dæmdur til að greiða með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. mars 2006, eins og krafist er, til 28. júlí 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákæra dagsett 5. júní 2007.
Ákæruliður 1.
Mánudaginn 5. september 2005 kom B á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir skjalafals.
B kvaðst hafa selt ákærða bifreið af gerðinni Saab 28. júlí 2005 og kvað söluverð bifreiðarinnar hafa átt að vera 80.000 krónur sem skyldi greiðast 2. ágúst 2005. Útbúinn hafi verið ódagsettur tryggingarvíxill að þeirri fjárhæð. B kvaðst hafa reynt að innheimta kaupverðið. Hafi hann farið með víxilinn í Íslandsbanka í Mjódd, en bankinn ekki viljað taka við víxlinum, aðallega þar sem hann hafi aðeins verið fylltur út að hluta til. Hafi B haft samband við þann sem tilgreindur var sem útgefandi á víxlinum, C, en C, sem sé bróðir ákærða, hafi sagt að hann hefði ekki skrifað á víxilinn fyrir ákærða. Þá hafi ábekingur samkvæmt víxlinum, Þvottastöð Suðurlands, verið gjaldþrota.
Víxillinn liggur frammi í málinu og er C getið sem útgefanda og samþykkjanda, en Þvottastöð Suðurlands er tilgreindur ábekingur, og við nafn þvottastöðvarinnar er kennitalan [...]. Mun það vera kennitala D, bróður ákærða.
Lögregla tók skýrslu af C 20. október 2005. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á tryggingarvíxil í bílaviðskiptum bróður síns, og sagðist ekki kannast við skriftina á víxlinum. Kvað C nafn sitt hafa verið notað án sinnar vitundar eða samþykkis.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 28. ágúst 2005 og kvaðst hafa haft umboð C til að skrifa nafn hans á víxilinn. Ákærði kvað B hafa verið hjá ákærða þegar hann ritaði nafn C á víxilinn, einnig hafi B talað við C í síma, þegar hann gaf samþykki sitt. Ákærði hafi aftur á móti fengið leyfi D daginn eftir, en þeir ákærði hafi rekið Þvottastöð Suðurlands saman á kennitölu D. Ákærði kvaðst hafa greitt B um 30 til 50 þúsund krónur, og einhvers staðar hafa kvittun fyrir því.
B gaf skýrslu hjá lögreglu 8. september 2006 og kvað að þegar hann hafi verið að undirrita afsal og sölutilkynningu hafi ákærði fyllt út víxilinn. Kvaðst B ekki hafa fylgst með því sem ákærði skrifaði. B kvaðst ekki kannast við að ákærði hefði rætt við neinn í síma, eða að hafa sjálfur rætt við Cí síma. Kvað hann alrangt að hann hefði orðið vitni að því að Cgæfi samþykki sitt fyrir notkun á nafni sínu. B kvaðst ekki hafa fengið neinar greiðslur fyrir bifreiðina.
Lögregla ræddi við L 11. september 2006, en hann ritar undir sölutilkynningu sem vottur að undirskrift B. Kvað hann B og ákærða hafa farið eina inn á kaffistofu fyrirtækisins þar sem þeir hefðu fyllt út skjölin er vörðuðu sölu bifreiðarinnar. Kvaðst hann ekki muna eftir því sem gerðist í smáatriðum.
C gaf skýrslu 5. október 2006 og ítrekaði að hann hefði ekki veitt ákærða neina heimild til að rita nafn sitt á umræddan víxil.
Lögregla ræddi við D í síma 13. október 2006, og kvaðst hann ekki hafa gefið ákærða leyfi til að nota nafn sitt eða kennitölu á víxli. Þá sagðist hann ekki tengjast Þvottastöð Suðurlands á nokkurn hátt og alrangt að hann hefði tekið þátt í rekstri hennar.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna.
Ákærði neitaði sök í 1. ákærulið og kvaðst hafa fengið munnlegt leyfi hjá C og D fyrir því að rita nafn þeirra og kennitölu. Hann kvaðst hafa fyllt út víxil á verkstæði hjá B og hefði ákærði haft ,,speakerinn“ á símanum og hefði B heyrt er þeir C og D gáfu honum munnlegt leyfi til að skrifa nafn þeirra á víxilinn.
Ákærði kvaðst hafa greitt 20-30 þúsund af bótakröfu B, þannig að ákærði samþykkir bótakröfu að frádregnu því sem hann hafi þegar greitt.
Vitnið, B, kvað ákærða hafa afhent sér víxil vegna bifreiðakaupa. Vitnið kvað ákærða hafa sagt að hann hefði fengið samþykki bróður síns sem ábekings á víxilinn. Vitnið kvaðst ekki vita hvenær aðrir hefðu ritað nafn sitt á víxilinn. Vitnið kvaðst hafa haft uppi á þeim sem voru sagðir ábyrgðarmenn á víxlinum, þegar greiðsla dróst, en þeir hefðu ekki kannast við að hafa skrifað upp á víxilinn. Vitnið kvað það ekki rétt sem ákærði bar fyrir dómi að hann hefði fengið munnlegt leyfi, símleiðis, hjá C og D og að B hefði verið viðstaddur. Þá kvað vitnið að ákærði hefði ekkert greitt af framlagðri bótakröfu.
Vitnið, C, kvaðst ekki hafa ritað nafn sitt á umræddan víxil og ekki gefið ákærða heimild til að rita nafn vitnisins á víxilinn. Vitnið kvaðst ekki hafa tengst þessum bifreiðaviðskiptum á nokkurn hátt.
Vitnið, D, kvaðst ekki hafa tengst umræddum bifreiðaviðskiptum á nokkurn hátt. Vitnið kvaðst ekki hafa gefið ákærða heimild til að nota kennitölu sína á umræddan víxil og kvaðst ekki hafa tengst Þvottastöð Suðurlands á nokkurn hátt. Vitnið kvaðst hafa verið í London, þar sem hann er búsettur, þegar víxillinn var gefinn út.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sök og hefur borið að hann hafi haft munnlega heimild frá C og D fyrir því að rita nafn C og kennitölu D á víxilinn. Vitnin C og D, sem eru bræður ákærða, hafa báðir borið fyrir dómi að þeir hafi ekki gefið ákærða heimild til að rita nafn sitt eða kennitölu á umræddan víxil.
Þegar framangreint er virt er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hefur gerst sekur um skjalfals og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.
Í málinu liggur frammi bótakrafa B að fjárhæð 80.000 krónur auk vaxta. Hún er grundvölluð á því að ákærði og B hafi gert kaupsamning og gengið frá afsali og sölutilkynningu vegna kaupa ákærða á bifreiðinni X-6677 af B 28. júlí 2005. Útbúinn hafi verið víxill að fjárhæð 80.000 krónur vegna kaupanna og hafi kaupverðið að þeirri fjárhæð átt að greiðast 2. ágúst 2008. Hafi ákærði fengið bifreiðina í sína vörslu, en ekki greitt umsamið kaupverð hennar.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir skjalafals í máli þessu og hefur ekki lagt fram gögn til sönnunar því að hann hafi greitt nokkuð af framlagðri bótakröfu. Verður ákærði dæmdur til greiðslu hennar, þ.e. 80.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. ágúst 2005 til 28. september 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákæruliður 2.
E lagði fram kæru 25. ágúst 2006 á hendur ákærða fyrir skjalafals og fjársvik. Kvaðst hún hafa auglýst Toyota bifreið til sölu í smáauglýsingum, og hafi ákærði skoðað bifreiðina 9. júlí 2006. Ákærði hafi strax ákveðið að kaupa bifreiðina og rætt við E um að borga með víxli sem átti að greiðast 1. ágúst 2006. Hafi þau fyllt út tilkynningu um eigendaskipti, og 10. júlí s.á., hafi hún farið til Umferðarstofu til að ganga frá eigendaskiptunum. Hafi tilkynningin þá verið ranglega útfyllt. Kvaðst E hafa póstlagt tilkynninguna og hringt í ákærða til að láta hann vita að fylla þyrfti tilkynninguna rétt út. Kvaðst hún hins vegar ekki hafa fengið tilkynninguna aftur í hendur eða fengið greiðslu fyrir bifreiðina, þrátt fyrir að hafa ítrekað rætt við ákærða. E kvaðst hafa komist að því að búið væri að skrá bifreiðina á nafn þriðja aðila, F, en að hún væri skráð sem seljandi. Kvaðst hún aldrei hafa hitt F eða talað við hann.
Lögregla ræddi við ákærða 10. maí sl., og kvaðst hann játa allar sakargiftir. Kvaðst hann hvorki hafa greitt kaupverð bifreiðarinnar né gengið rétt frá tilkynningu um eigendaskipti. E hafi ekki ritað nafn sitt á tilkynninguna heldur hafi ákærði sjálfur gert það, en E hafi verið skráð eigandi bifreiðarinnar þar til ákærði seldi hana F 8. ágúst 2006 til að koma sér úr fjárhagskröggum. Um tryggingarvíxil sem ákærði afhenti E sagði hann að hún hefði aldrei getað framvísað honum í banka þar sem nafn hans væri á vanskilaskrá og enginn banki myndi hafa samþykkt framsal hans.
Í málinu liggur frammi afrit af tilkynningu til Umferðarstofu þar sem E er sögð vera seljandi bifreiðarinnar, sem um ræðir, en F er tilgreindur kaupandi samkvæmt kaupsamningi 8. ágúst 2006. Ákærði og M eru sagðir vottar. Einnig er fram lagt afrit af tilkynningu um kaupsamning 1. desember 2006 þar sem F selur N bifreiðina.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna um þennan ákærulið.
Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa hringt E, þar sem hann hafi verið staddur á Hornafirði og spurt hvort hann mætti skrifa nafn hennar á afsalið til F. Hafi hún samþykkt það. Ákærði var spurður um hvort hann kannaðist við að E hafi lent í vandræðum hjá Umferðarstofu vegna rangrar útfyllingar sölutilkynningar, þar sem hún var tilgreind sem seljandi og ákærði sem kaupandi. Kvaðst ákærði kannast við það. Ákærði var þá spurður um framburð E um að E hafi þá sent tilkynninguna til ákærða í pósti og beðið ákærða að fylla hana út á réttan hátt og senda hana til baka. Ákærði sagðist kannast við þetta, en tilkynningin hefði verið send til móður ákærða, en þar hefði hún týnst. Ákærði kvaðst því viðurkenna að hafa ritað nafn E en með hennar samþykki.
Vitnið, E, kvaðst hafa auglýst bifreið sína til sölu á 100.000 krónur. Maður hafi hringt í hana og viljað kaupa bifreiðina, en hann hafi sagst vera búsettur á Höfn í Hornafirði. Maðurinn hafi skoðað bifreiðina og viljað greiða andvirði bifreiðarinnar með víxli. Hún hafi verið heldur treg til, en látið til leiðast. Síðan hafi ákærði fengið lykla bifreiðarinnar og hún fengið víxilinn í hendur, en ákærið hafi ekki greitt á gjalddaga. Síðan hafi vitnið farið með sölutilkynningu á Umferðarstofu, en þar hafi henni verið sagt að hún væri ekki rétt úftyllt. Þá hafi vitnið hringt í ákærða og hún hafi sagst myndu senda honum tilkynninguna sem hann gæti þá fyllt út á réttan hátt og koma henni á Umferðarstofu. Síðan hafi vitnið athugað hvort hún væri enn skráður eigandi bifreiðarinnar, en ákærði hafi sagt að þetta væri allt að koma. Eitt sinn er vitnið hafi hringt hafi henni verið sagt að einhver F væri skráður fyrir bifreiðinni. Hún kvaðst þá hafa verið handviss um að undirskrift hennar væri fölsuð á sölutilkynninguna. Hún kvaðst aldrei hafa skrifað upp á nokkurt skjal sem seljanda til umrædds F. Er borin var undir hana sölutilkynning þar sem bifreiðin var seld til F og nafn vitnisins ritað sem seljanda, kvað hún það ekki vera sína rithönd. Þá kvaðst vitnið aldrei hafa gefið samþykki sitt fyrir því að rita nafn hennar á skjalið.
Vitnið, F, kvaðst hafa keypt bifreið þá sem getið er í þessum ákærulið af ákærða. Vitnið kvaðst hafa talið að hann væri að kaupa bifreiðina af ákærða. Vitnið kvað undirritun E hafa verið á skjalinu þegar hann fékk tilkynninguna í hendur og kvaðst vitnið ítrekað spurður, ekki vera viss um hvort E var seljandi bifreiðarinnar eða ákærði.
Niðurstaða.
Í ákæru er misritun á nafni F, þar sem hann er sagður heita F. Um augljósa ritvillu er að ræða, sem ákæruvaldið leiðrétti við framhaldsaðalmeðferð málsins. Ákærði játaði sakargiftir hjá lögreglu 10. maí 2007, en dró játningu sína til baka fyrir dómi. Vitnið E kom fyrir dómi og kvaðst ekki hafa skrifað upp á nokkurt skjal sem seljandi bifreiðarinnar til umrædds F og kvað nafnritun sína vera falsaða. Þá kvaðst hún ekki hafa gefið munnlegt samþykki sitt fyrir undirritun nafns hennar. Þegar framangreint er virt og litið til ótrúverðugs afturhvarfs ákærða frá fyrra framburði fyrir lögreglu, þar sem hann játaði brot sitt, er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærulið þessum greinir og er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæra dagsett 24. ágúst 2007.
Ákærði játaði sakargiftir samkvæmt ákærunni. Samrýmist játning hans gögnum málsins, en hann hefur haldið því fram að sakir samkvæmt ákærunni séu fyrndar. Samkvæmt 1. tl. 80. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fyrnist sök á 2 árum vegna brota sem ákært er fyrir í ákæru þessari. Ákæra var fyrst gefin út á hendur honum 27. október 2005 af lögreglustjóranum á Blönduósi og var ákæran þingfest í héraðsdómi Norðurlands vestra 16. nóvember 2005, að ákærða viðstöddum. Gefin var út ný ákæra vegna sama sakarefnis 24. ágúst 2007 og málið sameinað málum sem voru þá til meðferðar á hendur ákærða fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og var hið nýja mál þingfest 31. ágúst sl., að ákærða viðstöddum. Frá fyrri þingfestingunni til hinnar síðari liðu ekki tvö ár. Sök er því ekki fyrnd og er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Viðurlög.
Ákærði hefur samkvæmt framangreindu verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot, tvö skjalafalsbrot og brot gegn umferðarlögum.
Ákærði er fæddur árið 1973. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hlaut hann 4 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm 23. mars 1995 fyrir þjófnað, skjalafals og fjársvik. Hann var dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundinn dóm, 18. júlí 1995 fyrir skjalafals og þjófnaðarbrot. Hann hlaut 9 mánaða fangelsisdóm 2. febrúar 1996, skilorðsbundinn í 3 ár, fyrir brot gegn umferðarlögum og fyrir fjársvik. Var þá dómur frá 18. júlí 1995 dæmdur með. Með dómi frá 20. desember 1996 hlaut hann 9 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Hann hlaut 30 daga fangelsisdóm 16. janúar 1997 fyrir fjársvik. Hann hlaut reynslulausn 2. ágúst 1997 í 1 ár á 150 daga eftirstöðvum refsingar. Á árunum 1999 og 2000 gekkst hann undir greiðslu tveggja sekta fyrir brot gegn umferðarlögum og var sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 13. desember 1999. Hann gekkst undir greiðslu 42.000 króna sektar með viðurlagaákvörðun 13. apríl 2000 fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og var þá sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 13. apríl 2000. Hann hlaut 30 daga fangelsisdóm 11. október 2000 fyrir skjalafals og var sá dómur hegningarauki við framangreindir sektir og viðurlagaákvörðun. Hann hlaut reynslulausn 23. júní 2001 í 1 ár á 15 daga eftirstöðvum refsingar. Hann hlaut 10 mánaða fangelsisdóm, 18. maí 2001, þar af voru 7 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár fyrir brot gegn 195. gr. almennra hegningarlaga. Þá hlaut hann 3 mánaða fangelsisdóm 25. október 2002 fyrir fjársvik, en refsing samkvæmt þeim dómi var ákvörðuð sem hegningarauki við dóma frá 11. október 2000, 18. maí 2001 og dóm sem kveðinn var upp 4. júní 2002, en þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar frá 13. febrúar 2003 hlaut hann 2 ára og 6 mánaða fangelsisdóm fyrir brot gegn 1. ml. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Hann hlaut reynslulausn 10. desember 2004 í 2 ár á 330 daga eftirstöðvum refsingar.
Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt öllum ákærum hefur hann rofið skilorð reynslulausnar. Ber því með vísan til 65. gr. laga nr. 49/2005, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga að ákveða refsingu ákærða í einu lagi fyrir brot hans nú og með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu, 330 dögum. Verður refsingin jafnframt ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður litið til þess að ákærði hefur tvisvar áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot. Einnig er við refsiákvörðun höfð hliðsjón af 2., 6. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað, 852.382 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda og málsvarnarþóknunar réttargæslumanns var tekið tillit til vinnu þeirra við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.
Héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Guðjón St. Marteinsson og Kristjana Jónsdóttir kváðu upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Rúnar Gunnarsson, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. mars 2006 til 28. júlí 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 80.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. ágúst 2005 til 28. september 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 852.382 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.